10.8.2015 | 08:06
Molar um málfar og miðla 1768
REIÐHJÓL - ÖKUTÆKI
Rafn skrifaði eftirfarandi (07.08.2015) Sæll Eiður.
Samkvæmt íslenzkum umferðarlögum er ótvírætt, að reiðhjól, barnavagnar og fleiri slík tæki eru ökutæki. Því kemur á óvart, að af 235 stolnum ökutækjum skuli 227 vera reiðhjól, en aðeins 8 önnur ökutæki, bifhjól, bifreiðar o.fl.
Eins kemur á óvart, að fréttabarn skuli furða sig á að mengið stolin ökutæki skuli vera stærra en hlutmengið stolin reiðhjól.
Er ég að misskilja eitthvað??
Fréttin er á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag, 7.8.2015. Sjá http://www.visir.is/fleiri-okutaekjum-en-reidhjolum-stolid/article/2015708079957
Þakka ábendinguna, Rafn
SKURÐUR FLYTUR SKIP
Nokkrar misfellur voru í þularlestri í fréttum Bylgjunnar í hádegi á fimmtudag (06.08.2015) Meðal annars var okkur hlustendum sagt um Súezskurðinn: Skurðurinn hefur getað flutt 47 skip á sólarhring. Súezskurðurinn flytur engin skip. Hér hefði betur verið sagt að 47 skip hefðu getað farið um skurðinn á sólarhring. Einnig heyrðum við eignarfallið einnrar í stað einnar (nokkuð algeng villa) , - ýmislegt fleira mætti til tína, ef Molaskrifari hefði nennu til.
FLEST ER HEY Í HARÐINDUM
Fimmtudagurinn í síðustu viku (06.08.2015) hefur verið óvenjulega lélegur fréttadagur. Í kvöldfréttum Ríkisútvarps þetta kvöld var meðal annars fjallað um skoðanakönnun,sem hefði leitt í ljós, að stuðningsmenn Bjartrar framtíðar væru líklegri en aðrir til að fara í sumarfrí í til útlanda. Samkvæmt öðrum skoðanakönnunum er mjög sennilegt að flestir stuðningsmenn Bjartar framtíðar séu flúnir úr landi - fylgið er komið niður fyrir 5%.
FERSKARA EN FERSKT
Findus fyrirtækið auglýsir hraðfryst grænmeti í sjónvarpi og segir okkur að það sé ferskara en ferskt. Þetta er ósatt. Matvæli sem hafa verið fryst geta ekki verið ferskari en matvæli,sem aldrei hafa verið fryst. Hvað segja Neytendasamtökin um svona fullyrðingar, sem auglýsingadeildir sjónvarpsstöðvanna gleypa hráar?
SKELFILEGT ATVIK
Í dagskrárkynningu Ríkissjónvarpsins í liðinni viku var kynnt heimildamynd um hið skelfilega atvik, þegar kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki. Ekki gott orðalag, að kalla þetta skelfilegt atvik. Enda var því var seinna breytt og talað um hörmulegan atburð. Einhver hefur hér haft vit fyrir textahöfundi. Gott.
VIÐ HÆFI
Það hefði svo sannarlega verið við hæfi að Ríkissjónvarpið setti saman svolítinn þátt til að sýna um helgina um söngkonuna góðu, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Diddú, sem átti sextugsafmæli laugardaginn 8. ágúst. Nóg er til af frábærum söng hennar í safni sjónvarpsins. Ó, nei. Ekkert slíkt var á dagskrá. Forgangsröðun yfirmanna í Efstaleiti er önnur. Dagskrárfénu er frekar varið í gerð þynnstu og sjálfhverfustu þátta, sem lengi hafa sést á skjánum, og eru kallaðir Sumardagar.
AÐ KJÓSA SÉR STEFNU
Í Morgunblaðinu sl. föstudag (07.08.2015) var þversíðufyrirsögn: Amnesty kýs sér stefnu um vændi. Ekki kann Molaskrifari að meta þetta orðalag. Kannski er það sérviska. Amnesty samtökin ætla að móta stefnu gagnvart vændi. Við þá stefnumótun verða væntanlega greidd atkvæði um margar tillögur, sem ef til vill eru ólíkar að efni og stefnu. Það verður ekki kosin stefna. Það er út í hött.
HVENÆR?
Hvenær ætlar Ríkissjónvarpið að sýna okkur þá kurteisi, að segja frá því, þegar verið er að endursýna efni? Kurteisi kostar ekki neitt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2015 | 10:28
Molar um málfar og miðla 1767
SKULDAR FYRIR BLÓMUM
Fyrirsögn af Stundinni á vefnum (05.08.2015): ,,Jón Óttar skuldar 300 þúsund fyrir blómum á sama tíma og hann fjárfestir í fjölmiðlum. Maðurinn skuldar ekki ,,fyrir blómum eins og sagt er í fyrirsögninni. Hann skuldar vegna blómakaupa. Sjá: http://stundin.is/frett/jon-ottar-borgar-ekki-brudkaupsblomin/
,,SÖRPRÆSES
Í fréttum Stöðvar tvö (05.08.2015) var rætt við mann sem var að auglýsa samkomu. Hann sagði, að gestir gætu átt von á skemmtilegum sörpræses. Kannski hefur farið hálfgerður málfarshrollur en fleiri hlustendur en Molaskrifara við að heyra þetta.- Óvæntum skemmtilegum uppákomum, hefði hann til dæmis getað sagt.
TVÍLESIN KVÖLDSAGA
G.G. skrifaði (05.08.2015): ,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta.
http://www.visir.is/article/20150723/FRETTIR01/150729633
Hann segir einnig: ,,Unun er að hlusta á nóbelsskáldið lesa Brekkukotsannál á Rás1. En hvers vegna RÚV spilar sama lesturinn tvö kvöld í röð, 4. ágúst og 5. ágúst, er hulin ráðgáta eins og margt í rekstri RÚV. Þeir slá engar keilur með því, þó þá langi! Víða í netheimum hefur verið vakin athygli á þessu og bent á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem kvöldsögulestur er tvítekinn.
Það undarlega í málinu er að Ríkisútvarpið viðurkenndi ekki að handvömm eða klaufaskapur hefði valdið því að sami lestur var tvífluttur. Talað var um gleymsku.
HVÍVETNA HVARVETNA
K.Þ benti (03.08.2015) á þessa frétt á visir. is: http://www.visir.is/amnesty-international-heldur-radstefnu-um-ad-afglaepavaeda-vaendi/article/2015150809875
"Markmið fundarins þykir umdeilt en það er að mælast til þess að vændi hvívetna í heiminum verði afglæpavætt." Sá sem þetta hefur skrifað skilur ekki muninn á orðunum hvívetna og hvarvetna.
DETTA INN
Fréttir eru mikið til hættar að berast. Þær detta inn, eins og sagt var í íþróttafréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld ( 04.08.2015).
ÁHUGAVERÐUR ÍSLENDINGAÞÁTTUR
Verður á dagskrá Ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöld (09.08.2015) um Guðmund Ingólfsson. Einn allra besta jasspíanista íslenskrar jass-sögu. Snillingur sem hann var. Ríkissjónvarpið sýnir okkur hinsvegar ekki þá kurteisi, ekki frekar en fyrri daginn, að segja okkur hvort þetta er nýr þáttur, eða hvort þetta er endursýnt efni. Undarlegur ósiður í Efstaleiti.
RÝRT Í ROÐINU
Er Molaskrifari einn um þá skoðun, að Sumardagar, Hraðfréttaliðs Ríkissjónvarpsins séu eitthvert rýrasta og þynnsta sjónvarpsefni , sem okkur hefur verið boðið upp á? Þættirnir, sem Molaskrifari hefur séð eru oftast ekki um neitt, nema þá sem fara með aðalhlutverkin. Varla er þetta ódýrt efni. Það er víst bannað að spyrja um kostnað við dagskrárgerð hjá hlutafélagi allra landsmanna í Efstaleiti. Hversvegna skyldi það vera?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2015 | 08:23
Molar um málfar og miðla 1766
NÚ VERÐA SAGÐAR FRÉTTIR
V.H. sendi Molum eftirfarandi (04.08.2015) með þessari fyrirsögn
,,Sæll Eiður.
Kópurinn var snar í snúningum
Ég vaknaði rosalega snemma í morgun og fór í morgungöngu. Svo sá ég eitthvað sprikla (e. flopping) framundan mér. Og ég var svo þreytt, og hugsaði með mér 'Hvaða dýr ætli þetta sé sem spriklar svona? Ég verð að fara að kynna mér betur dýralífið á Íslandi.' Og ég bara áttaði mig ekki á þessu, ég var hálfsofandi," segir Mara.
Smá frétt úr Húsdýragarðinum, þar sem er stólað á að landinn skilji ekki sitt móðurmál og er því lýsing á ensku ( innan sviga ) fyrir hvern ? Ungt fólk eða gamalt ? Ferðamenn ?
Í tvö skipti í Downton Abbey flutu bara óþýdd orð ,líkt og ein persóna segist hitta aðra í ,,lunch,, og í sama þætti var maður kynntur sem ,,Lautinant,,( sem ávallt er þýtt sem liðþjálfi ) svona eru nú þýðingarmál í Efstaleiti í dag.
Og verslunarmiðstöðin Kringlan auglýsir grimmt í sjónvarpi hvað þeir sér stórir og góðir og lýkur þeirri auglýsingu með enska orðinu ,,S.A.L.E,, þvert yfir skjáinn .. og segir þetta svolítið um hvað menn hugsa þar á bæ.
Öll bílaumboð er auglýsa í sjónvarp eru með slagorð á ensku og þýsku í sínum auglýsingum , er það ekki bannað ? verða ekki allar auglýsingar að vera á íslensku , jafnt skrifaðar sem og talaðar ?
Molaskrifari þakkar V.H. Þetta ágæta bréf. Einu sinni var ákvæði í auglýsingareglum Ríkisútvarpsins um allar auglýsingar ættu að vera á lýtalausri íslensku. Molaskrifara hefur þrátt fyrir leit ekki tekist að finna það í núgildandi reglum. Kannski er það liður í afrekaskrá núverandi stjórnenda í efra að hafa fellt þetta niður. Fróðlegt væri að fá svör við því.
AF KRÍUM OG HETTUMÁFUM
Þ.G. skrifaði Molum (03.08.2015): ,,Sæll enn Eiður. Seint fullorðnast fréttabörnin hjá Mogga. Í dag segir frá slysi á Siglufjarðarvegi: "- stöðvaði bílstjóri fyrri bílsins fyrir nokkrum rollum og klessti þá næsti bíll aftan á hann."
Á baksíðu sunnudagsblaðs Morgunblaðsins segir frá fjörugu fuglalífi á Akureyri, fréttinni fylgir mynd með textanum "Kríur í kröppum dansi". Myndin er af tveimur hettumáfum. - Kærar þakkir Þ.G. Satt segirðu. Þetta með hettumáfana sem kallaðir voru kríur var aldeilis með ólíkindum. Skrítið að svona lagað skuli geta gerst á þessum forðum vandaða miðli, - þar sem vissulega starfa margir vel hæfir blaðamenn. Eitthvað er gæðaeftirlitinu samt ábótavant. Verulega ábótavant.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2015 | 08:31
Molar um málfar og miðla 1765
FRJÁLSÍÞRÓTTAMANNESKJUR
Eftirfarandi barst Molum Úr Vesturbænum vegna íþróttafréttar í (02.08.2015):
,,íþróttamanneskja er ekki fallegt, sjá nokkur dæmi úr frétt 2. ágúst, en íþróttamaður gamalt og gilt orð.
"Þetta má ráða af niðurstöðum rannsókna á blóðsýnum úr 5.000 frjálsíþróttamennskjum, sem lekið var til fjölmiðla á dögunum Gögnin geyma niðurstöður rannsókna á 12.000 blóðsýnum úr 5.000 frjálsíþróttamanneskjum, sem tekin voru á stórmótum á árunum 2001-2012 Meðal þess sem Parisotto og Ashenden telja sig geta ráðið af gögnunum er að 146 verðlaun sem unnið var til í langhlaupum og göngugreinum á ólympíuleikum og heimsmeistaramótum á þessu tímabili hafi ratað um hálsinn á fólki, hvers blóðsýni hafi gefið verulega vafasamar niðurstöður. (hvers er smekklaust orðalag eins og á 18 öld, hefði mátt segja í staðinn: fólki með með verulega vafasama niðurstöðu í blóðsýnum) Af niðurstöðum blóðrannsóknanna má ráða að 8 af hverjum 10 rússneskum frjálsíþróttamanneskjum sem komust á verðlaunapall á stórmótum hafi innbyrt eitthvað sem ekki samræmdist reglum. - Molaskrifari þakkar góða sendingu.
HVAR ER METNAÐUR MBL.IS ?
Af mbl.is (04.08.2015). ,,Hún segir faðir sinn hafa staðið undir svipuðum ásökunum á sínum tíma en þau gefi ekkert fyrir vestrænan áróður. Ekki batnar það hjá Mogga. Hvar er metnaðurinn?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/04/kim_jong_un_hlytur_fridarverdlaun/
VONLAUS AÐSTÆÐA
K.Þ. benti á þessa frétt á mbl.is (03.08.2015): http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/08/02/raka_sig_undir_hondunum_thratt_fyrir_allt/. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Í fréttinni segir meðal annars: ,,10 konur sem raka sig undir höndunum þrátt fyrir að vera í vonlausri aðstæðu. Í vonlausri aðstæðu! Það var og.
ÓÞÖRF ÞOLMYND
Í fréttum Stöðvar tvö (03.08.2015) var sagt: Þessar myndir voru teknar af einum íbúa borgarinnar ... Oft hefur verið vikið hér að óþarfri notkun þolmyndar. Í þessu tilviki hefði verið betra að segja: Þessar myndir tók íbúi í borginni. Borgarbúi tók þessar myndir.Germynd er alltaf betri.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2015 | 09:41
Molar um málfar og miðla 1764
SLEGIST VIÐ KIRKJU
Af mbl.is (01.08.2015): ,,Lögreglunni barst tilkynning um hópslagsmál við Seljakirkju í Breiðholti rétt eftir klukkan þrjú í dag. Einhverjir ólátaseggir voru að slást hjá kirkjunni, í ghrennd við kirkjuna. Þeir voru ekki að slást við kirkjuna.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/01/hopslagsmal_vid_seljakirkju/
Sjálfsagt segir einhver, að þetta sé útúrsnúningur! Það lætur kannski nærri.
Þetta var reyndar einnig á visir.is: http://www.visir.is/hopur-manna-flaugst-a-vid-seljakirkju/article/2015150809971
Í þeirri frétt segir:,, Lögreglan í Reykjavík þurfti að hafa afskipti af hópi manna sem tókst á við Seljakirkju í Breiðholti skömmu eftir klukkan 3 í dag.. Ekki fór sögum af því hvort kirkjan tók á móti.
RAKI í EYJUM
Á laugardagskvöld (01.08.2015) sagði veðurfræðingur Ríkissjónvarps, að raki gæti orðið í Vestmannaeyjum. Næsta víst er að sú spá hefur ræst á þjóðhátíðinni!
FJÖLDI
Fjöldi sjálfboðaliða taka þátt í leitinni, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (01.08.2015). Hefði átt að vera: Fjöldi sjálfboðaliða tekur þátt í leitinni. Ekki satt?
ÓLÉTTA
Marc og Priscilla ólétt:, er dálítið undarleg undarleg fyrirsögn á dv.is (01.08.2015) http://www.dv.is/frettir/2015/7/31/mark-og-priscilla-olett-segir-fra-atakanlegu-fosturlati-facebook/ Þeir bregðast ekki á dv.is.
,,VÍRAÐUR SAMAN
Úr frétt á mbl.is (01.08.2015): ,,Ekki vildi betur en svo að eitt skotið endurkastaðist af brynvörn beltisdýrsins í kjálka mannsins, sem flytja þurfti á spítala með flugi, þar sem kjálkinn á honum var víraður saman eins og segir í frétt á vef Independent. ,,Víraður saman. Hefði ekki verið einfaldara að segja, til dæmis, - ,,þar sem gert var að kjálkabroti mannsins? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/01/texasbui_skaut_beltisdyr_beltisdyrid_skaut_til_baka/
Reyndar virðist í fréttinni í Independent, að vír hafi verið notaður til að ganga þannig frá kjálka mannsins að hann gæti ekki hreyft hann.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2015 | 09:29
Molar um málfar og miðla 1763
FRAMKVÆMD MANNVIRKJA
Ástæðan er gríðarlegur kostnaður við framkvæmd mannvirkja,sem tengjast leikunum, var sagt i í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (28.07.2015) Fréttin var um þá ákvörðun yfirvalda í Boston að sækjast ekki eftir því að halda Ólympíuleika. Hér var átt við mikinn kostnað við mannvirkjagerð. Framkvænd mannvirkja er út í hött. Það þarf að lesa yfir, áður en lesið er fyrir okkur.
AUGLÝSING - EKKI FRÉTT
Þessi skrif á svokölluðu Smartlandi Morgunblaðsins (28.07.2014) um nýjar íbúðir sem eru til sölu í Garðabæ eru ekki frétt. Þau eru hrein og ómenguð auglýsing. Á Norðurlandamálunum var þetta í gamla daga kallað tekstreklame og þótti ómerkilegt og ekki fagmennska.. Hálfgert hórerí, svo notuð sé sletta.
Það er skylda Morgunblaðsins eins og annarra fjölmiðla að greina skýrt milli auglýsinga og efnis frá ritstjórn. Lesendur eiga kröfu á því. Afturför frá fyrri tíð, þegar Moggi var og hét. Sjá : http://www.mbl.is/smartland/
UNDARLEGT
Í seinni fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (30.07.2015) var sagt frá hækkun sekta fyrir misnotkun bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Það er þörf aðgerð. Fréttinni fylgdi mynd af bíl Ríkissjónvarpsins ,sem Molaskrifari gat ekki betur séð en lagt væri í stæði fyrir hreyfihamlaða! Hvaða tilgangi átti það að þjóna? Dómgreindarbrestur eða bara kjánagangur.
ÍSHELLA
Á mbl.is (29.07.2015) er sagt frá rússneskum þyrluflugmanni sem bjargaðist naumlega er þyrla hans hrapaði í sjóinn vestur af Grænlandi norðanverðu. Hann komst við illan leik upp á jaka, sem mbl.is kallar íshellu. Fyrirsögnin er: Lifði af í 32 klukkustundir á íshellu. Raunar finnst Molaskrifara í-inu ofaukið í fyrirsögninni. En svo segir í fréttinni: Hann synti þá að íshellu í hafinu og tókst að komast upp á hana. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/29/lifdi_af_i_32_klukkustundir_a_ishellu/
Í fréttinni er talað um neyðarskilaboð. Við tölum um neyðarkall.
GÚRKUMET
Vangaveltu,,frétt Ríkissjónvarps um forsetakjör (28.07.2015) var dæmigerð gúrkufrétt, - löng frétt um lítið efni á fréttalitlum degi. Merkilegt hvað hægt að var teygja úr þessu og meira að segja bætt við viðtali við sagnfræði dósent, sem bætti engu, sem máli skipti, við fréttina.
Sjá: http://www.ruv.is/frett/dyrnar-ad-bessastodum-standa-galopnar
ÖFUGT
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (29.07.2015) var talaði um bæinn Blekinge i Karlskrona. Blekinge er hérað, Karlskrona er borg. Í Blekingehéraði eða léni í í Svíþjóð. https://en.wikipedia.org/wiki/Karlskrona
ILLA SKRIFAÐ
Hér er dæmi um einstaklega illa skrifaða frétt á dv.is. Í fyrstu setningunni eru tvær villur. Annað er eftir því.
Það ber ekki vott um mikinn faglegan metnað að birta svona illa unnið efni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2015 | 09:20
Molar um málfar og miðla 1762
AUSTUR AF SVÍÞJÓÐ
Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi (28.07.2015): ,,Ég var mikið nær um kafbátafundinn eftir að ég las þetta á vísi:
Kafarar fundu bátinn um þremur kílómetrum austur af Svíþjóð eftir að upplýsingar bárust um hnit frá íslensku fyrirtæki.
http://www.visir.is/kafbaturinn-sokk-liklegast-arid-1916/article/2015150729167
Molaskrifari þakkar ábendinguna. Í fréttinni er líka talað um hvíldarstað bátsins. Báturinn mun hafa sokkið árið 1916 eða fyrir tæpri öld. Fésbókarvinur sagði frá því, að í útvarpsfréttum sama dag hefði verið sagt, að báturinn hefði verið vel með farinn! Vel varðveittur, var sennilega það sem átt var við.
ÓLAVSVAKA
Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með útsendingum færeyska sjónvarpsins frá Ólavsvöku, þjóðhátíð Færeyinga.Þakkir til Sjónvarps Símans fyrir að gera mögulegt að horfa á færeyska sjónvarpið.
Lögmaðurinn í Færeyjum, Kaj Leo Johannesen hefur boðað til kosninga í Færeyjum þriðjudaginn 1. September. Í fréttum hér hefur ýmist verið sagt að hann hefði tilkynnt þetta í hátíðaræðu eða Ólavsvökuræðu. Hann tilkynnti þetta í yfirlits- og stefnuræðu,eiginlega þingsetningarræðu, - Lögþingið er jafnan sett þennan dag, 29. júlí, á Ólavsvöku. Ræðuna kalla Færeyingar Lögmannsræðuna.
REKA - REKJA
T.H. benti á þessa frétt á mbl.is (27.07.2015) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/26/cecil_fannst_afhofdadur_og_fleginn/
Hann segir: ,,Hér er ruglað saman sögnunum "að reka" og "að rekja" og útkoman ekki góð.
Í umræddri frétt segir: ,, Veiðimennirnir ráku síðan slóð ljónsins í 40 klukkustundir áður en þeir drápu það með riffli.. Það er rétt. Útkoman er ekki góð. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
KLÚÐUR
Ríkissjónvarpið notast við niðursoðnar dagskrárkynningar, sem eru teknar upp löngu fyrir fram. Þess vegna er ekki hægt að bregðast við neinu óvæntu, sem upp kann að koma í útsendingu og það skapar líka möguleika á klúðri eins og í gærkvöldi (29.07.2015). Að loknum tíu fréttum var kynnt dagskrá kvöldsins eins og kvölddagsráin væri að hefjast! Engin leiðrétting. Engin afsökun. Ekki frekar en venjulega.
FYRIR AFTAN DYR
T.H. sendi einnig (27.07.2015) þessa ábendingu vegna fréttar á visir.is. Sjá: http://www.visir.is/thaer-tvaer-viltu-ekki-bara-flytja-inn-i-mylluna-/article/2015150729336
Hann segir: "Það er ekki alltaf fallegt að sjá eintalið sem fer fram fyrir aftan luktar dyr baðherbergisins Venjan er að sagt sé: ... bak við luktar dyr. Að eitthvað sé fyrir aftan dyrnar felur í sér nokkuð aðra staðsetningu, eftir minni málvenju. Rétt er það. Molaskrifari þakkar bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2015 | 09:57
Molar um málfar og miðla 1761
ÍSLENDINGAR
Íslendingaþættir Ríkissjónvarpsins eru gott efni. Gaman var að sjá þáttinn um Sigurð Sigurðsson (26.07.2015). Við unnum nánast hlið við á gömlu fréttastofunni á fyrstu árum sjónvarpsins. Skemmtileg myndin af Sigurði undir lok þáttarins, með sígarettuna við Smith Corona rafmagnsritvélina. Þær þóttu merkilegar á þeim tíma, - en voru gallagripir með alltof stórum valsi. Hentust til á borðinu þegar skipt var um línu. Molaskrifari á reyndar eina slíka með minni valsi, handvirkum, hún reyndist vel. Er nú sjálfsagt forngripur. Vann í happdrætti og keypti mér ritvél. Þótti hálfgerður flottræfilsháttur hjá ungum blaðamanni að kaupa rafmagnsritvél. . Hafði aldrei átt ritvél áður. Fékk að bera heim Erika ferðavél af Alþýðublaðinu til að nota við heimaþýðingar. En mín Smith Corona reyndist mér vel.
Nákvæmlega svona man ég Sigga Sig. Orðinn svo gamall, að ég man vel eftir föður hans, Sigurði kaupmanni Sigurðssyni í Þorsteinsbúð á horni Flókagötu og Snorrabrautar, - áður Hringbrautar. Hann var alltaf vestisklæddur innan við búðarborðið, - ekki í slopp eins og flestir sem afgreiddu í nýlenduvöruverslunum í gamla daga. Kona Sigurðar, Þórey Þorsteinsdóttir, rak verslunina ásamt börnum þeirra um árabil eftir lát Sigurðar.
Svo var þessi þáttur líka prýðileg heimild um gömlu sundlaugarnar í Laugardal.
Þátturinn um Sigurð hefur verið sýndur áður. Hversvegna sýnir Ríkissjónvarpið okkur ekki þá sjálfsögðu kurteisi að segja frá því þegar verið er að endursýna efni og segja þá jafnfram hvenær það var fyrst sýnt?
AFAR SLASAÐUR
Undarlegt orðalag í frétt á mbl.is (27.07.2015): Þegar hann kom á staðinn var annar þeirra enn á lífi en afar slasaður og lést hann stuttu síðar. Undarlegt orðalag. Varla hefur vanur maður verið þarna að verki. Hér hefði fremur átt að segja: Mikið slasaður eða alvarlega slasaður. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/07/27/stungu_ser_i_toma_laug/
ÓFYRIRLEITNI
Ófyrirleitni Ríkisútvarpsins, þegar kemur að því að auglýsa áfengi og brjóta þannig lög landsins virðast lítil takmörk sett. Þess vegna færir sig stofnunin sig stöðugt upp á skaftið í trausti þess að ráðamenn geri ekki neitt. Þeir gera ekki neitt og hafa því reynst traustsins verðir.
Það er næstum dapurlega skondið að í einni af bjórauglýsingum Ríkissjónvarpsins, sem dunið hafa á okkur að undanförnu þar sem sjónvarpið þykist vera að auglýsa óáfengan bjór (undir 2,25% að styrkleika) skuli vera sagt við okkur í skjátexta: Njótið af ábyrgð. Þurfa þeir sem drekka óáfengan drykk að sýna einhverja sérstaka ábyrgð við neysluna? Þessi orð Njótið af ábyrgð eru auðvitað staðfesting þess að Ríkissjónvarpið er að auglýsa áfengi. Það þarf ekki að hvetja fólk til ábyrgðar við neyslu venjulegs svaladrykks, eða hvað ?
Ætla ráðamenn ekkert að gera?
Sú var tíðin, að í auglýsingareglum Ríkisútvarpsins var ákvæði um að auglýsingar skyldu vera á lýtalausri íslensku. Mér tekst ekki að finna þetta ákvæði í reglum á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Kannski hafa ráðamenn stofnunarinnar, sem á standa sérstakan vörð um tunguna, fellt það niður. Kannski.
Kannski er það í skjóli þess að á okkur dynur bjórauglýsing sem er að hálfu á ensku í dýrustu (væntanlega) auglýsingatímunum rétt fyrir fréttir. Til dæmis rétt fyrir kl 1800 á mánudag (27.07.2015) Þar er verið er að auglýsa bjór Á ensku í íslensku Ríkisútvarpi.
Og enn er spurt: Ætla ráðamenn ekki að gera neitt.
Er menntamálaráðherra bara alveg sama?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2015 | 09:03
Molar um málfar og miðla 1760
ÁHÆTTUR
Molavin skrifaði (27.07.2015): "Dómarinn fékk heilahristing við að fá boltann í höfuðið og var ákveðið að taka engar áhættur með hann." Vísir 27.07 2015. Hvað næst? Ófærðir á vegum, neyðarástönd á sjúkrahúsum eða veðurblíður á landinu? Já, von er að spurt sé. Þakka ábendinguna, Molavin.
ENGIN STOÐ FYRIR
,,Engin stoð fyrir gífuryrði Ólafs, segir í fyrirsögn á mbl.is (25.07.2015) og er þar vitnað til ummæla forstjóra MS. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/25/engin_stod_fyrir_gifuryrdi_olafs_2/
Málkennd Molaskrifara segir honum að þetta sé ekki vel orðað. Kannski er það rangt. MS forstjórinn á við að enginn fótur sé fyrir orðum Ólafs. Þau séu tilhæfulaus.
AUSTAN LOGN
Ekki heyrði skrifari betur en í veðurlýsingu Veðurstofunnar á sunnudagsmorgni (26.07.2015) væri sagt að á Akureyrarflugvelli væri austanlogn. Það var sem sagt austanátt í logninu. Greinilega öndvegisveður.
HRESSANDI JÓN BALDVIN
Það var hinsvegar ekkert logn og alls ekki austanlogn, í Jóni Baldvini hjá Sigurjóni M. Egilssyni Á Sprengisandi á Bylgjunni þennan saman morgun. Hressandi samtal og fróðleg upprifjun sögunnar , ekki síst um inngönguna í EFTA og aðildina að EES. Tilhlökkunarefni að fá framhald á sunnudaginn kemur.
AÐ LEIÐA MÓT
Úr íþróttafréttum Ríkissjónvarps (25.07.2015): ,, ... á eftir Þórði sem leiðir mótið. Þetta er að vísu nokkuð algengt orðalag hjá íþróttafréttamönnum, en ekki þykir Molaskrifara það til fyrirmyndar. Þórður hafði sem sé forystu á mótinu. Umsjónarmaður íþróttafrétta Ríkissjónvarpsins þetta kvöld gerði vel í því að kynna sér og tileinka sér að beygja orðið dóttir rétt.
ÓMAR MINNINGANNA
Þáttur Ómars Ragnarssonar Ómar minninganna, sem endurtekinn var á Rás eitt á laugardagskvöldið (25.07.2015) var firna góður. Mikil auðlind og ómetanleg,sem hann Ómar er.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2015 | 10:19
Molar um málfar og miðla 1759
BROTHÆTT VEÐURSPÁ
Já, Brothætt veðurspá. Þetta er fyrirsögn fréttar á dv. is (23.07.2015) Tengillinn við fréttina er skárri en fyrirsögnin: http://www.dv.is/frettir/2015/7/23/tvisynt-utlit-fyrir-verslunarmannahelgina/
Í fréttinni segir: ,,Tæplega tvær vikur eru þar til verslunarmannahelgin brestur á í allri sinni dýrð.. Einmitt það:,,Í allri sinni dýrð!
,,Það er búið að vera óheppilegt tíðarfar fyrir norðan og austan. ,,Eftir næstu helgi verður ástandið mjög brothætt. ,,Annaðhvort verður ástandið óbreytt eða afgerandi viðsnúningur á tíðarfarinu. Ja, hérna! Hvað er brothætt ástand? Tvísýnar horfur, - eða er þetta bara bull? Tilvitnanirnar eru bæði úr fréttinni og viðtali við veðurfræðing hjá fyrirtæki sem heitir Veður ehf.
ÞOLMYNDARÁRÁTTAN
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (24.07.2015) var sagt frá því, að flugvél hefði verið tekin á leigu til að flytja sjö albanska hælisleitendur frá Íslandi til síns heima. Tvisvar sinnum, að minnsta kosti var sagt,- sérstök flugvél var leigð af ríkislögreglustjóra (undir fólkið). Leigir ríkislögreglustjóri út flugvélar? Fráleitt að nota þarna þolmynd. Germynd er alltaf betri. Enginn les yfir. Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.07.2015) var réttilega sagt, að ríkislögreglustjóri hefði leigt flugvél til að flytja fólkið. Þolmyndin var reyndar horfin í hádegisfréttum Ríkisútvarps þennan sama dag.
ENN UM BISSNES OG BRANSA
Sletturnar bissnes og bransi eru öðrum umsjónarmanni Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu sérstaklega hugleiknar. Tókst enn og aftur að koma þeim báðum í eyru okkar, sem hlustuðu á föstudagsmorgni (24.07.2015). Hvað segir málfarsráðunautur? Er þetta kannski að auðga og fegra móðurmálið?
ÚRVALS EFNI
Á Rás eitt er oft úrvals efni, sem sótt er í fjársjóðakistu Ríkisútvarpsins. Undir það flokkast tónlistarþættir Gylfa Þ. Gíslasonar um þrjá ólíka söngvara. Annar þáttur af þremur var endurfluttur sl. fimmtudagskvöld. Þar fjallaði Gylfi um rússneska stórsöngvarann, brokkgenga, Feodor Shjaljapin. (Sá sami Shjaljapin kom einnig við sögu í fínum þætti um heimsins frægustu bassa- og baritónsöngvara á BBC4 25.07.2015.) Gylfi var ekki aðeins vel að sér um sígilda tónlist, heldur tónskáld að auki. Gylfi gerði fleiri tónlistarþætti fyrir Ríkisútvarpið eftir að hann hætti þátttöku í stjórnmálum. Frábærir þættir þar sem saman fara vönduð efnistök og úrvalssmekkur. Upplýsingar um þáttinn í dagskrá á heimasíðu Ríkisútvarpsins eru hinsvegar af afar skornum skammti. Þess er ekki einu sinni getið að um endurflutt efni sé að ræða. Gylfi Þ. Gíslason var menntamálaráðherra 1956 til 1971, lengur en nokkur annar í sögu lýðveldisins.
Það var sennilega árið 1970, í spjalli á undan sjónvarpsviðtali, að Molaskrifari, sem þá var fréttamaður, sagði við Gylfa:- Þú ert búinn að vera menntamálaráðherra meira en helming þess tíma ,sem Ísland hefur verið lýðveldi. Viðbrögð Gylfa man ég vel. Ja, hver ansinn, sagði hann, - ég hef aldrei hugsað út í það!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)