Molar um málfar og miðla 1778

   

ÓMAR KVADDI VÍSU

G.G. skrifaði (20.08.2015) og vísar til viðtals við Ómar Ragnarsson,sem var á ferð á rafknúnu reiðhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur og sló víst nokkur met í ferðinni: "...þú kvaddir vísu á leiðinni...", sagði umsjónarkona þáttar á RÚV, í símtali við Ómar Ragnarsson! Kvaddi hann margar hálfkveðnar vísur á leiðinni, hver veit? En tilgangurinn var að biðja Ómar að fara með vísu sem hann "kvað". Molaskrifari þakkar ábendinguna og getur lítið annað sagt, en: Ja, hérna!

LOKANIR LEYSTAR UPP

Á vef Ríkisútvarpsins (20.08.2015) er vitnað í bréf frá Reykjavíkurborg til íbúa á svæði í borginni sem lokað verður fyrir bílaumferð á laugardag vegna menningarnætur. Í tilvitnuninni segir: ,,Þá segir að ekki sé hægt að komast aftur með farartæki inn á hátíðarsvæðið fyrr en lokanir hafa verið leystar upp.” Lokanir leystar upp? Hvernig er það gert? Væri ekki eðlilegra að tala um að aflétta lokunum, opna að nýju, frekar en að leysa lokanir upp? Borgarstjóri þarf málfarsráðunaut.

 

KENNSL

Af mbl.is (20.08.2015): ,,Enn hef­ur ekki verið bor­in kennsl á lík karl­manns­ins sem fannst við Sauðdráps­gil í Laxár­dal í Nesj­um í gær.” Orðið kennsl er fleirtöluorð. Ekki til í eintölu. Því ætti að standa þarna: ,,Enn hafa ekki verið borin kennsl á líkið, -- enn er ekki ljóst hver þetta var .

 

ALGENG VILLA

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (20.08.2015) voru sýndar myndir frá kínversku hafnarborginni Tianjin þar sem gífurleg sprenging olli nýlega miklum mannskaða og gífurlegu tjóni. Um myndirnar sagði fréttamaður:,, ... virðast sýna dauða fiska,sem rekið hafa á land”.  Hér hefði átt að  tala um fiska sem hefði rekið á land. Fiskarnir ráku ekki á land. Fiskana rak á land. Á þessu er munur.

 

 

 

BJÓRÁRÓÐUR RÍKISSJÓNVARPS

Kjarni umfjöllunar Ríkissjónvarpsins í fréttum um Menningarnótt í Reykjavík á laugardag/laugardagskvöld (22.08.2015) var áróður og auglýsing fyrir bjórdrykkju. Furðulegt. Stundum er það í Efstaleiti eins og menn hvorki skeyti um skömm né heiður. Vita ekki hvað til síns friðar heyrir.

 

HELGARVIÐVANINGAR

Hversvegna heyrir maður aftur og aftur að svo virðist sem viðvaningar séu nokkuð oft látnir sjá um og lesa fréttir í Ríkiútvarpinu um helgar og á nóttinni ? Halda yfirmenn að við heyrum þetta ekki?

Nýliða á að þjálfa og þeim þarf að leiðbeina, áður en þeir byrja að lesa fréttir fyrir okkur.

 

GÓÐUR ÞÁTTUR UM GYLFA Þ.

Firna góður þáttur í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (23.08.2015) um Gylfa Þ. Gíslason. Gylfi var meðal merkustu stjórnmálamanna 20. aldar. Hann og Bjarni Benediktsson brutu haftakerfið á bak aftur og beittu sér fyrir aðild okkar að EFTA, þegar Viðreisnin var við völd. Molaskrifari naut þeirra forréttinda að kynnast Gylfa, og starfa í námunda við hann, ekki síst á Alþýðublaðsárunum. Þessi þáttur var vandaður og vel unninn. Það á raunar við um fleiri Íslendingaþætti sjónvarpsins. Andrés Indriðason á miklar þakkir skildar  fyrir  þá natni og alúð,sem hann hefur lagt í þessa þætti. Takk.

 

SKEMMTILEGASTA GATAN

Sennilega er Skólavörðustígurinn orðin skemmtilegasta gatan í Reykjavík. Molaskrifari gekk Skólavörðustíginn fram og til baka í blíðunni á fimmtudag í liðinni viku. Þarna var iðandi mannlíf; margir á ferli. Ekki bara ferðamenn. Verslanir og veitingastaðir af öllu tagi. Hægt að fá sér kaffisopa inni eða úti. Svolítill útlandabragur sveif yfir þessari gömlu götu.

Gönguferðinni lauk í Hallgrímskirkju þar sem tveir snillingar voru að æfa sig fjórhent á orgelið magnaða, - sennilega í tengslum við Kirkjulistahátíðina. Svo sannarlega ómaði kirkjan öll, eins og þar stendur. Það var góður endir á stuttri gönguferð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1777

MÁLFAR Í ÍÞRÓTTAFRÉTTUM

 Velunnari Molanna skrifaði (19.01.2015) : ,,Blessaður, Eiður.

 Það er til að æra óstöðugan að amast við málfari íþróttafréttamanna, eins og við höfum áður rætt, og ekki því að heilsa að þeir "standi uppi sem sigurvegarar" á þeim velli eða vinni þar "sannfærandi sigra". En ekki er ótítt að þeir "fari alla leið" í vitleysunni, sbr. forsíðu íþróttablaðs Mbl. í morgun, 5 dálka frétt. Þar segir frá því að fótboltamaður nokkur hafi verið "sannarlega allt í öllu þegar Manchester United sneri aftur á FJALIR Meistaradeildar Evrópu..." Hvað skyldi leikhúsfólk segja um þetta?!” Bréfritari segir líka:

 ,, Eitt sem ég hnýt iðulega um í hljóðvarpinu er að komið er langt út í fréttina, þegar loks er nefnt hvaða íþrótta/boltagrein eða keppni um er að ræða. Eðlilegra þætti mér að snúa þessu sem mest við.

 Dæmi (tilbúið): Jón Jónsson stóð sig frábærlega í gærkvöldi, þegar hann skoraði sigurmark Gróttu í húðarrigningu í viðureigninni við FH á Kaplakrikavelli, þar sem félögin áttust við í undanúrslitaleik Pepsi deildarinnar í fótbolta.

 Það eru væntanlega úrslitin sem eru aðalfréttin og hvort þetta var fótbolti, handbolti, körfubolti.” Molaskrifari þakkar bréfið og réttmætar ábendingar,

- Já, hvað skyldi leikhúsfólk segja um fjalirnar? Íþróttafréttamenn eiga að leggja rækt við vandað málfar, - rétt eins og aðrir fréttamenn.

 

VERÐA AF ...

K.Þ. vekur athygli á eftirfarandi á pressan.is (18.08.2015): "Áætlað er að Litháen verði að um 2,6 prósentu af landsframleiðslu sinni ..."

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/08/18/lithaen-fornar-umtalsvert-meiru-en-island/

Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það er því miður æ algengara að fréttaskrifarar skynji ekki, eða skilji ekki til hlítar muninn á af og á.

 

HRÓS

Spegill Ríkisútvarpsins fær hrós fyrir  vandaða umfjöllun að undanförnu um nýtingu jarðvarma hér á landi. Jón Guðni Kristjánsson hefur mest fjallað um þetta. mikilvæga mál. Síðast í gærkvöldi var mjög fróðlegt (20.08.2015) viðtal  við Stefán Arnórsson, prófessor emerítus. Það hljómar ekki vel, heldur afar illa og er grafalvarlegt mál, að ekki hefur verið hlustað á aðvaranir vísindamanna og leikmanna   (Ómars Ragnarssonar, til dæmis) um að alltof hart sé framgengið og nýting jarðhitans sé ekki sjálfbær, heldur megi fremur líkja henni við námavinnslu, þar sem náman  tæmist og orkan gengur til þurrðar. Það segir sig sjálft, ef bora þarfa nýja holu árlega til að halda framleiðslu Hellisheiðarvirkjunar sæmilega í horfinu, - - þá er eitthvað að. Það hljómar líka einkennilega, einnig í eyrum leikmanns, að hitasvæðum eins og Hengilssvæðinu og Reykjanesinu sem eru jarðorkuheildir, skuli skipti í vinnslusvæði og litið á hvert svæði sem sjálfstæða einingu. Allt hangir þetta saman.

Það má til dæmis ekki gerast að virkjunarvörgum,sem Molaskrifari leyfir sér að kalla svo, sé sleppt lausum og þeim leyft að eyðilegga Eldvörpin , einstæða 10 km langa gígaröð skammt frá Grindavík. Það yrðu ekki aðeins óafturkræf, heldur ófyrirgefanleg náttúruspjöll. Það má ekki gerast. – Nú eigum  við að hlusta á varnaðarorðin og staldra við. Ekki halda klúðrinu áfram.

 

BLÆS EKKI BYRLEGA

Tvisvar sinnum með skömmu millibili hefur Molaskrifari heyrt fréttamenn segja:,, Það blasti ekki byrlega fyrir .....” Þegar átt var við að horfur væru ekki góðar, útlitið framundan ekki gott. Á miðvikudagskvöld sagði reyndur fréttamaður Stöðvar tvö: ,,Það blasti ekki byrlega fyrir byggðinni hér á Þingeyri, þegar ...” Rétt hefði verið að segja, - Það blés ekki byrlega fyrir byggð hér á Þingeyri, þegar .... - Horfurnar voru sem sé ekki góðar. – Lesandi benti á í athugasemd, að fréttamaður hefði sagt billega , en ekki byrlega.  Það heyrði Molaskrifari hins vegar ekki.

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV551A8904-84F7-4F81-8335-5232C837F086

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1776

 

BLÉST UM KOLL

Gunnsteinn Ólafsson benti á þetta af mbl.is (17.08.2015). Fréttin var um sprengingu í Bangkok: „Þetta var svo kröft­ug spreng­ing að ég blést hrein­lega um koll og það gerðist líka fyr­ir aðra. Það féll mikið til ofan á mig,“ seg­ir Si­efert. „Ég var smurður svo miklu blóði að ég var ekki viss um hvort ég væri sjálf­ur særður. En það kom í ljós að ég var það ekki. Þetta var blóð úr öðrum.“

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/17/smurdur_blodi_annarra/

Hér má bæta við  við: Fréttabörn  ganga laus á mbl.is. Enginn virðist þarna hafa verið á vaktinni til að gæta þeirra. Þakka ábendinguna, Gunnsteinn.

 

GERÐARDÓMI VAR GERT ....

Af vef Ríkisútvarpsins (18.08.2015): ,,Gerðardómur var gert að horfa til sambærilegra kjarasamninga sem gerðir höfðu verið við sambærileg stéttarfélög að undanförnu.” Gerðardómur var ekki gert.... Gerðardómi var gert að horfa til ... Einnig má hér nefna nástöðu.

 

FLEIRI ORÐ UM ENDURSÝNINGAR

Í prentaðri dagskrá í Morgunblaðinu er þess getið að tveggja eða þriggja ára gamlir Andralandsþættir séu gamalt efni, endursýnt (17.08.2015). Frá því er hinsvegar ekki greint í þeirri dagskrá, sem birt er á skjá Ríkissjónvarpsins. Er þessi sífelldi feluleikur hluti af dagskrárstefnu nýrra stjórnenda í Efstaleiti? Hversvegna má ekki segja okkur satt í dagskrárkynningum?

 

ATHYGLISVERT VIÐTAL

Molaskrifara þótti athyglisvert að hlusta á viðtal Óðins Jónssonar við Pawel Bartoszek um viðskiptaþvinganir Rússa gagnvart Íslendingum og samstöðu með bandamönnum okkar í Morgunútgáfunni að morgni miðvikudags (19.08.2015). Viðtalið má heyra hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/afstadan-til-russlands-pawel-bartoszek

 

 

 

ÞÁGUFALL – BEYGINGAR

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1700 (19.08.2015) sagði fréttamaður: ,,... þar sem skólakerfinu skorti fjármagn ..”. Les ekki fréttastjóri/ vaktstjóri fréttirnar yfir áður en þær eru lesnar fyrir okkur? Í fréttum sama miðils klukkutíma síðar sagði fréttamaður um fyrirhugaða risahöfn í Finnafirði: ,,... hann segir að upplýsingar um öldufar og veðurfar verði safnað næstu tvö árin að minnsta kosti”. Upplýsingum verður safnað. - Í sama fréttatíma var talað um að kjósa gegn samningi. Betra og réttara orðalag hefði verið að tala um að greiða atkvæði gegn samningi. Þetta hefur svo sem verið nefnt áður í Molum.

Það er þýskt fyrirtæki, Bremenports, sem sagt er standa fyrir margháttuðum og dýrum  rannsóknum vegna stórskipahafnar í Finnafirði. Þjóðverjar eru ekki sérstök siglingaþjóð svo vitað sé. Hversvegna spyr enginn fréttamaður eða kannar hvað liggi að baki þessum mikla áhuga Þjóðverja á hafnargerð í Finnafirði? Er Bremenports ef til vill að vasast í þessum rannsóknum fyrir hönd einhvers annars? Hefur verið spurt um það?

 

FORSÍÐUMYND MOGGANS

Morgunblaðið birti í gær (19.08.2015) fjögurra dálka forsíðumynd af sendiherra Rússlands þar sem hann kemur til fundar við ÓRG á Bessastöðum um viðskiptabannið.

Fréttablaðið segir frá fundinum, en birtir ekki mynd.

Spurningar vakna hjá gömlum fréttamanni:

Lét forsetaskrifstofan Morgunblaðið vita af fundinum?

Var öllum fjölmiðlum sagt frá fundinum?

Var fundurinn, ef til vill haldinn að frumkvæði Morgunblaðsins?

Eða var árvökull ljósmyndari Morgunblaðsins bara á langri biðvakt við Bessastaði?

Hugsanlega var hann staddur þarna af einskærri tilviljun.

Alla vega vissi Morgunblaðið nákvæmlega hvað stæði til og hvenær.

Ekki varð Molaskrifari þess var, að sjónvarpsstöðvarnar birtu myndir af komu rússneska sendiherrans til Bessastaða.

Hafi svo verið, hefur það farið fram hjá honum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1775

  

VIÐTENGINGARHÁTTUR

Vaxandi tilhneiging virðist til að nota viðtengingarhátt í fyrirsögnum þar sem betra væri að nota framsöguhátt. Dæmi af fréttavef Ríkisútvarpsins (17.08.2015): Rússar finni lítið fyrir þvingununum. http://www.ruv.is/frett/russar-finni-litid-fyrir-thvingunum

Eðlilegra og skýrara hefði verið að segja: Rússar finna lítið fyrir þvingununum.

 

SPENNIR KOMST Í REKSTUR

Ekki kann Molaskrifari að meta orðalag á mbl.is (17.08.2015),sem notað er í frétt um spenni sem bilaði og þurfti að taka varaspenni í notkun. Í fréttinni á mbl.is segir: ,, Flutn­ing­ur­inn gekk vel og var haf­ist handa við að skipta um spenni í Rima­kot­stengi­virk­inu í gær­morg­un. Það reynd­ist tölu­verð vinna en gekk vel og komst vara­spenn­ir­inn í rekst­ur um kl. 20 í gær­kvöldi.” Komst spennirinn ekki í gagnið, var hann ekki tekinn í notkun, eða tengdur? Hálf ankannalegt að tala um rekstur í þessu sambandi. Kannski er það sérviska.

 

LITLU NÆR

Molaskrifari játar eftir að hafa hlýtt á langt viðtal (17.08.2015) um vandamál heimilislausra í Reykjavík við formann Velferðarráðs borgarinnar, að hann er ákaflega litlu nær.

Að hluta virtist tilefni viðtalsins vera að kynna leiksýningu í Herkastalanum á Menningarnótt með þátttöku heimilislausra.

Það var svo sem ágætt.

 

AÐ LESA OG HLUSTA

Sjálfsagt flokka margir það undir mismæli, þegar þrautreyndur þulur í hádegisfréttum Ríkisútvarps (17.08.2015) talar um íslenska þjóðfélagið sem 330 manna samfélag. Molaskrifari hallast þó ekki að því að kalla þetta mismæli. Heldur skort á einbeitingu. Þulurinn er ekki að hlusta á það sem hann les. Þetta þekkir Molaskrifari af eigin raun. Það er óþægileg tilfinning að gera sér allt í einu grein fyrir því að maður veit eiginlega ekkert hvað maður var að lesa. Þetta hygg ég að flestir fréttaþulir hafi fengið að reyna. Aldrei má slaka á einbeitingunni. Aldrei hætta að hlusta.

 

 

HÚS ÚR TRÉI!

Svo kemur hér í lokin endemisfrétt af pressan.is (16.08.2015). Þar er þetta gullkorn: ,, Húsið er byggt úr tréi og því er mjög erfitt fyrir slökkviliðsmenn að slökkva eldinn.”

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/eldur-i-aldagomlu-hverfi-i-svithjod--ein-latin

Það var og.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar miðla 1774

 

STÖÐVAST - STAÐNÆMAST

T.H. skrifaði (15.08.2015). Hann vekur athygli á þessari frétt á visir.is (15.08.2015): http://www.visir.is/fjarlaegdu-langt-ror-ur-nefi-skjaldboku---myndband/article/2015150819337

Hann segir síðan:"Sá sem setur myndbandið inn skrifar einnig að blæðingin hafi staðnæmst nánast samstundis og rörið var komið út."
Það þarf líklega að útskýra muninn á "að staðnæmast" og "að stöðvast" fyrir fréttabörnunum!”

Þakka bréfið, T.H. Það virðist stundum lítið um leiðbeiningar eða verkstjórn á ritstjórnarskrifstofum netmiðla.

 

AÐ EN EKKI AF

K.Þ. benti Molaskrifara á þessa frétt á mbl.is (16.08.2015): http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/16/leita_byssumanna_i_paris/

"Leit er haf­in af tveim­ur byssu­mönn­um..." Hann spyr: ,,Að hverju skyldu byssumennirnir vera að leita?

Ótrúlega er orðið að að heyra sagt og sjá skrifað að leita af einhverju, í stað þess að leita að einhverju.

 

EKKI RÉTT

Í Morgunblaðinu (15.08.2015) segir á bls. 19. um grindhvalaveiðar Færeyinga: ,,Grindhvalaveiðar fara þannig fram að hvölunum er smalað upp í fjöru þar sem veiðimenn keppast við að drepa þá með skutlum”. Þetta er ekki rétt t. Skutlar eru ekki notaðir við grindhvaladráp. Hvalirnir eru reknir á land þar sem sandfjara er. Síðan eru notaðir flugbeittir hnífar og skorið þvert yfir, rétt aftan við hausinn, þannig að mænan fer í sundur. Hvalirnir drepast á nokkrum sekúndum.   

 

NÖFN OG BEYGINGAR

Molaskrifari vekur athygli á prýðilegum pistli á bls. 22 i Morgunblaðinu (15.08.2015), Tungutaki. Höfundur er Eva S. Ólafsdóttir Í pistlinum er margar þarfar og réttmætar ábendingar.

 

EKKI VEL SKRIFAÐ

Þessi frétt af visir.is (15.08.2015) er ekki vel skrifuð. Hún er sannast sagna alveg óvenjulega illa skrifuð. Það er ekki skýr hugsun að baki þessum skrifum: http://www.visir.is/mikid-um-stuta-i-borginni/article/2015150819360

Blaðamaðurinn sem skrifar  leggur nafn sitt við fréttina. Aðhald ætti að felast í því að birta nafn þess, sem skrifar fréttina á netmiðlinum. Þessi fréttaskrifari þarf leiðsögn.

Reyndar ekki sá eini!

 

SLÆM FYRIRSÖGN

Ekki var hún góð fyrirsögnin á dv. is (15.089.2015): ,,Rússabannið byrjað: Mörg hundruð tonn af loðnuhrognum siglt aftur til Íslands.” Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/8/15/lodnuhrogn-leid-til-russlands-siglt-aftur-til-islands/

Enn eitt dæmið um skort á gæðaeftirliti. Viðvaningar, sem eru ódýrt vinnuafl, skrifa. Enginn les yfir eða leiðréttir. Allra síst um helgar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1773

ÁHRIF FRÁ ENSKU.

Molavin skrifaði: ,,Morgunblaðið virðist hætt að nota orðið mótmælasvelti yfir þá fanga, sem neyta ekki matar síns í mótmælaskyni. Í dag, 13.08.2015 er talað um Palestínumann í haldi Ísraela, sem "hefur verið í hungurverkfalli..." Hér eru bein áhrif úr ensku auðsæ; "hungerstrike" er ekki verkfall.”. Skrifari þakkar bréfið og góða ábendingu. Kannski má segja um enskuna að hún geti verið ,lævís og lipur” svo vitnað sé til frægra orða.

 

LÁTAST EFTIR SLYS

Og enn skrifar Molavin (13.08.2015): ,, - "Manntjón eftir stórslys í Kína" segir í fimm dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu í dag, 13.8.2015. Hvað gerðist eiginlega eftir slysið sem olli þessum andlátum? Það færist í vöxt að tala um að fólk látist EFTIR slys í stað þess að segja að það hafi látist í slysi. Menn látast ekki eftir banaslys. Þeir láta lífið í slysi.” Kærar þakkir. Þetta er þörf og réttmæt athugasemd og hefur reyndar borið á góma í Molum áður. Fjölmiðlar hérlendis voru ótrúlega seinir að átta sig því hversu alvarlega sprengingin í Tianjin var. Kannski hafa fréttaskrifarar ekki áttað sig á því að þetta er fjórða stærsta borgin í Kína. Hafnarborg Peking.

 

MIKIÐ LIGGUR UNDIR

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (13.08.2105) var sagt vegna innflutningsbanns Rússa á íslenskar vörur: Mikið liggur undir fyrir íslenskan sjávarútveg. Ekki er þetta sérstaklega vel orðað. Betra hefði verið til dæmis: Mikið er í húfi fyrir íslenskan sjávarútveg.

 

KSÍ BORGAR EKKI

,,Við greiðum alfarið þennan kostnað”, sagði formaður Knattspyrnusambands Íslands um kostnað við lýsingu á Laugardalsvelli, en fjallað var um málið í íþróttafréttum Stöðvar tvö (12.08.2015). Hann bætti svo við: ,,En við erum alfarið studdir af UFEA”. KSÍ borgar því alfarið ekki neitt. Er það ekki rétt skilið? Útlendingar borga.

Dálítið einkennilegur málflutningur.

 

 

 

ÓSKILJANLEGT

Það er óskiljanlegt að Ríkisútvarpið, þessi þjóðarstofnun skuli komast upp með að auglýsa bjór alveg purkunarlaust, til dæmis í síðustu auglýsingu fyrir útvarpsfréttir, - aftur og aftur. Stundum á  ensku í þokkabót!

Þetta er skýrt lögbrot.

Menntamálaráðherra gerir ekki neitt.

Stjórn stofnunarinnar gerir ekki neitt.

Útvarpsstjóri gerir ekki neitt.

Er öllum sama?

Þetta hefur verið nefnt áður í Molum um málfar og miðla.

Nokkrum sinnum.

Hversvegna líðst Ríkisútvarpinu að brjóta lög landsins ?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1772

NOKKRAR AMBÖGUR

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (11.08.2015):
,,Sæll,

Ekki er alltaf að ég hafi nennu til að skrifa hjá mér undarlegar fréttir og svo er maður sjálfur ekkert barnanna bestur. Hins vegar fannst mér þessar tilvitnanir alveg kostulegar og benda ekki til annars en að þeir sem skrifa valdi ekki pennanum, það er hafi ekki nokkurn skilning á ritaðri frásögn, hvað þá blaðamennsku. Svo er það þetta með bersöglina. Hún getur verið góð en stundum má umorða ýmislegt svo lesendum sé nú ekki ofboðið.

Nú tíðkast að blaðamenn skrifi sig fyrir fréttum og þar af leiðandi sjálfsagt að láta nöfnin fylgja gagnrýni.

Hvað þýðir „að haga sér“?

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar:„Maður er með fulla bókina af upplýsingum um það hvernig menn voru að haga sér í Eyjum um helgina. Það var gomma af Pepsi-deildar leikmönnum á Þjóðhátíð um helgina. Sumir höguðu sér, aðrir ekki.“ http://www.visir.is/rullandi-pepsi-deildar-leikmenn-a-thjodhatid/article/2015150809543

Löpp dómarans

Hörður Snævar Jónsson

„Antonio Pascoal leikmaður Afríku í 4. deildinni hefur verið dæmdur í 12 mánaða bann fyrir að stappa viljandi ofan á dómarann í leik gegn Augnablik fyrir helgi. […] Samkvæmt sjónvarvottum á vellinum stappaði hann ofan á löpp dómarans. Hann kallaði hann síðan homma og bað hann um að stinga hlutum upp í rassgatið á sér.“ http://433.moi.is/deildir/island/leikmadur-afriku-i-arsbann-stappadi-ofan-a-domarann/

 Kærar þakkir, Sigurður. Það er ekki gæðaeftirlitinu fyrir að fara!

 

GAT EKKI SINNT BÁÐU!

T.H. benti á eftirfarandi af mbl.is (11.08.2015): „Ég hef verið í þessu tvennu síðan í fe­brú­ar en það er of mikið að vera í álags­starfi eins og frétta­mennsku og sinna nýju fyr­ir­tæki. Ég þurfti að skera niður í vinnu þar sem ég gat ekki sinnt báðu leng­ur,“ seg­ir Kol­beinn í sam­tali við mbl. Sjá: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/08/11/uppsognin_ekki_tengd_joni_asgeiri/

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

- Gat ekki sinnt hvoru tveggja.

 

Beyging orðsins vefst stundum fyrir fjölmiðlungum, einkum eignarfallið. Það er ekki fés, eins og Molaskrifara heyrðist sagt í Speglinum (12.08.2015). Notkun þess fés sem þar aflast. Orðið fé beygist: fé,fé,fé,fjár.

 

ERLENDAR FRÉTTIR

 Gífurleg sprenging varð í hafnarborginni Tianjin í Kína, fjórðu stærstu borg Kína, hún er oft nefnd hafnarborg Peking. Molaskrifari var þar 2006. Ríkisútvarpið minntist ekki einu orði á þetta í kvöldfréttum sjónvarps (12.08.2015). Stöð tvö minntist ekki heldur einu orði á málið í sínum kvöldfréttum. (12.08.2015). Fréttin var löngu komin á vef BBC. Fréttin birtist á mbl.is klukkan 17 58. Klukkan 18:10 var fréttin , ítarlegri en á mbl.is komin á visir.is. Málinu voru svo gerð ágæt skil í seinni fréttum Ríkissjónvarps. Afar takmarkaður fréttaflutningur var hinsvegar um nóttina í Ríkisútvarpinu. Það er eins og fréttastofan hafi algjörlega vanmetið hversu alvarlegur þessi atburður var. Það er því miður ekki nýtt, að íslenskir fjölmiðlar séu lengi að taka við sér, þegar stóratburðir eða náttúruhamfarir eiga sér stað í öðrum heimshlutum.

Af mbl.is: Spreng­ing­in varð um klukk­an hálf 12 fyr­ir miðnætti á staðar­tíma. Ekki gott að blanda saman bókstöfum og tölustöfum eins og hér er gert. Annað hvort hefði átt á segja klukkan hálf tólf eða klukkan 23 30.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/12/gridarleg_sprenging_i_kina/

http://www.visir.is/gifurleg-sprenging-i-tianjin-i-kina/article/2015150819657

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1771

 

AÐ OG AF

Góður vinur Molanna skrifar (11.08.2015) og vitnar í Pressuna (pressan.is)  daginn á undan: ,, "Einn lést og annar komst lífs af ,þegar lítil flugvél fórst á Tröllaskaga í dag. Sá sem komst lífs af er einn reyndasti og þekktasti flugmaður landsins. Umfangsmikil leit var gerð af flugvélinni þegar hún lenti ekki í Keflavík á tilskildum tíma, en hún hafði lagt af stað frá Akureyri eftir hádegi í gær. Vélin fannst svo í Barkárdal, skammt vestan við Akureyri í gær.”

Hann segir:,,Ég hef vanist því að maður leiti að einhverju en ekki af einhverju. Þetta er allt í einu allstaðar. Fólk virðist ekki hafa hugmynd um hvort eigi að nota og reynir ekki að komast að því heldur.” Þakka bréfið. Rétt athugað. Þessi villa veður upp í fjölmiðlum.

 

AÐ SIGRA KEPPNI

G.G. skrifaði Molum og segir:,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta:
HH dúettinum (Hallgrími og Huldu) í morgunútvarpi RÚV varð það á 10. ágúst 2015, hvoru á eftir öðru, að tuða um að tiltekinn einstaklingur hafi sigrað keppnina.  Ítrekað hefur verið minnt á, t.d. á eidur.is, að menn sigra ekki keppni, heldur vinna hana með því að sigra annan keppanda. einn eða fleiri. Hins vegar er hægt að sigra "í" keppni. Ef starfsmenn RÚV geta ekki lært muninn á að sigra og vinna, þá á einfaldlega að banna þeim að nota sögnina að sigra. Undantekning er að þetta sé rétt með farið! RÚV á skv. lögum að vera fyrirmynd.”

Sjá: http://www.visir.is/article/20150723/FRETTIR01/150729633

Molskrifari þakkar G.G. bréfið.

ENN UM AÐILA

Talsmönnum lögreglunnar er undarlega tamt  að tala um aðila þegar verið er að tala um fólk. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (10.08.2015) var rætt við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra um flugslysið í Barkárdal, þar sem  einn maður lést en annar komst lífs af. Lögreglustjóri sagði , -  annar aðilinn var á lífi og með meðvitund. Hinn aðilinn var látinn.

Þetta  sífellda aðilatal er óþarft og sannast sagna fremur hvimleitt.  

 

VIRÐING FYRIR MÓÐURMÁLINU

 Það ber ekki vott  mikla virðingu fyrir móðurmálinu, þegar bæði formaður og þingflokksformaður  stjórnmálaflokksins Bjartrar framtíðar tala um kommbakk  (e. comeback) flokksins í útvarpi og sjónvarpi. Ekki var betra  að tala um að æðstu embætti flokksins  ættu að rótera. Fréttastofa  Ríkisútvarpsins át þetta svo hrátt eftir  þeim og talaði um  að stjórn  flokksins róteraði embættum, -  að  mannaskipti yrðu tíð. Fréttir eiga að  vera á góðu og skýru máli. Molaskrifari er alls ekki viss um að allir hlustendur hafi skilið hvað átt er  við með að  embætti róteri eða séu látin rótera.  Raunar skildi Molaskrifari formann Bjartrar framtíðar þannig í fréttum  Ríkissjónvarps, að þetta væri gert til að tryggja  að enginn með  reynslu væri í forystu flokksins.  

 

FRÉTTIRNAR SETJA NIÐUR

Sjónvarpsfréttir setja  niður, þegar fréttamaður  stendur fyrir framan  myndavélina og  gleypir  verkjatöflu, - rétt eins og hann sé á  sviði í einhverju leikriti. Fréttin var um bakverki.  Annaðhvort er þetta leikaraskapur, barnaskapur eða bjánagangur, en sýnir þó kannski fyrst og fremst að yfirmenn á fréttastofu sinna ekki störfum sínum nægilega vel. Leikaraskapur af þessu tagi á ekki erindi í fréttir.

 

ÞAÐ SEM HELST HANN VARAST VANN ....

Í Molum 1769 gagnrýndi skrifari  notkun fréttabarns á  orðinu eftirmál í illa þýddri frétt á mbl.is.  Jafn oft  og Molaskrifari hefur vikið að ruglingi á eftirmála og eftirmálum þá varð honum þarna á í messunni í einhverri   aulafljótfærni. Notkun  orðsins  eftirmál er rétt í fréttinni. Beðist er   velvirðingar á þessu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1770

FLUTNINGSFÓTUR?

Glöggur Molalesandi spyr (10.08.2015): ,, Kannast lesendur við orðið FLUTNINGSFÓTUR?
,,Eír­ik­ur og fjöl­skylda hans er á flutn­ings­fæti heim til Íslands og þurfa því á ým­is­legu að halda í versl­un­inni.”

www.mbl.is/frettir/.../verslunin_er_handan_vid_horni...

 - Hann lýsir Erikslund sem verslunarhverfi á borð við Skeifuna. ... Eírikur og fjölskylda hans er á flutningsfæti heim til Íslands og þurfa því á ...

Þetta var reyndar lagfært síðar. Ekki alls varnað.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/10/verslunin_er_handan_vid_hornid/

 

EIN UM HVAÐ?

Svona spyr KÞ (09.08.2015) vegna fréttar á pressan.is.

"Margir vilja ekki að Hillary sé ein um hitunina."

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/08/08/joe-biden-lurir-i-bakgrunninum-saekist-hann-eftir-ad-verda-forsetaframbjodandi-demokrata/

Ein um hitunina! Ja, hérna.  

Molaskrifari þakkar KÞ ábendinguna.

 

SÍMTAL Á

Molalesandi skrifaði (08.08.2015): Fimmtudagur 30. júlí, Fréttablaðið:
Vitnað í grein um Rachel McAdams:
,,Hér má sjá nokkur klæðileg dress sem leikkonan hefur skartað."
Dress? 
Heiðar Austmann á K-100 sagði: ,,Ég ætla fljótlega að taka símtal á hann Georg."
Oft heyri ég fólk tala um að ,,taka" allt milli himins og jarðar auk þess sem að þetta blessaða ,,á" er orðið viðurkennt í töluðu sem og rituðu máli.

Það að senda tölvupóst ,,á” einhvern getur varla talist rétt. Við sendum t.d. einhverjum bréf í pósti - eða að senda bréf til einhvers. Þurfum við að eyðileggja tungumálið okkar þó að tölvur og netsamskipti hafi komið til skjalanna?
Ég mun allavega ekki taka símtal á neinn í nánustu framtíð. Ég vil heldur hringja í viðkomandi.
Takk fyrir afar þörf og skemmtileg skrif, Eiður.” Molaskrifari þakkar bréfið og hólið.

 

SUBBUSKAPUR

Í Fréttatímanum (06.-08.08.2015) er á bls. 42 með óvenjulega áberandi hætti blandað saman texta og auglýsingum um einhverskonar kína-lífselexír sem innheldur ,,öfluga blöndu vinveittra gerla,sem styrkja þarmaflóruna”, eins og sagt. Vinveittir gerlar! Greinin, sem næstum umlykur auglýsingar um þetta töfralyf, er sögð unnin í samstarfi við Icecare. Lesendur eiga kröfu á því að skýrt sé greint milli auglýsinga og annars efnis. Það er ekki gert þarna. Molaskrifara þykja þetta heldur ófagleg og raunar ómerkileg vinnubrögð. Á næstu síðu í blaðinu er umfjöllun um ,,Glæsileg gúmmístígvél”. Það er hrein auglýsing en ekki er skýrt að svo sé. Það sérkennilega við þá grein er, að í sumum tilvikum er verð tilgreint bæði í íslenskum krónum og sterlingspundum!

 

UM SJÁLFSMÖRK

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps sl. laugardagskvöld (08.08.2015) var mikið um sjálfsmörk. Fyrst var talað um óheppilegt sjálfsmark svo rétt á eftir um afskaplega óheppilegt sjálfsmark. Þetta var í leikjum erlendis. Svo var gert sjálfsmark í leik á Íslandi. Það var bara sjálfsmark! Eru ekki öll sjálfsmörk heldur óheppileg? Hefði haldið það.  Báðum sjónvarpsstöðvum hefur tekist að velja nýliða til starfa til að segja fólki íþróttafréttir, nýliða sem hafa slæmar ljósvakaraddir. Raddir ,sem ekki láta vel í eyrum.

 

 

LEIÐRÉTTING

Molaskrifari hefur gagnrýnt, að Ríkissjónvarpið tilkynni ekki alltaf í dagskrárkynningum þegar verið er að endursýna efni. Sú gagnrýni stendur. Hún átti til dæmis við í gærkvöldi (11.08.2015)  þegar verið var að kynna  sakamálamyndaflokkinn Allir litir hafsins eru kaldir, sem er á dagskrá í kvöld.  Þessi myndaflokkur  var sýndur í sjónvarpinu árið 2006. Gagnrýni Molaskrifara á hinsvegar ekki við um Íslendingaþættina frábæru, sem stundum hafa verið sýndir á sunnudagskvöldum, síðast listavel gerður þáttur Andrésar Indriðasonar um jasspíanistann Guðmund Ingólfsson, en þátturinn var sýndur sl. sunnudagskvöld. Það sem villti um fyrir Molaskrifara og fleirum var ártalið 2013, sem birtist  í lok þáttarins. Það ár var sem sé lokið við gerð þáttarins. En hversvegna í ósköppunum var hann ekki sýndur það ár?  Hvaða rök lágu til þess? Þetta leiðréttist sem sé hér með. Þáttinn um Guðmund var verið að frumsýna á  sunnudagskvöldið. Hann verður örugglega sýndur aftur síðar. Þetta er úrvalsefni eins og aðrir þættir af þessu tagi sem Andrés Indriðason hefur haft umsjón með.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1769

 

SLÆM ÞÝÐING

Glöggur lesandi Molanna sendi eftirfarandi ((09.08.2015) :

,, Eitt dæmi af mörgum í sérlega illa þýddu viðtali sem birtist á mbl.is: ,,Ég horfði niður á vinstri fót­inn minn sem var klesst­ur upp við stöng. Það var smá hold í sæt­inu og ég fann hvernig beinið mitt stakkst út,“ sagði Washingt­on þegar hún lýsti eft­ir­mál­um árekst­urs­ins.”” Molaskrifari þakkar sendinguna. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/09/eg_mun_lifa_odruvisi_lifi/

 

STAÐSETNINGARÁRÁTTAN

Enn um staðsetningar áráttuna, sem oft hefur verið vikið að hér áður. Leigubílastöðin Hreyfill auglýsir nýtt app, smáforrit, í sjónvarpi (07.08.2015): ,, Á kortinu getur þú fylgst með hvar bíllinn er staðsettur hverju sinni”. Einfaldara hefði verið: Á kortinu sérðu hvar bíllinn er.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (10.09.2015) var okkur sagt frá verslanamiðstöð sem væri staðsett í úthverfi Vesterås. Verslanamiðstöðin er í úthverfi Vesterås í Svíþjóð.

 

FYRIR HONUM

Á bls. 10 í Morgunblaðinu (08.08.2015) segir í inngangi greinar: Samtökin hafa mikla þýðingu fyrir honum. Hér á ekki að vera þágufall. Hér hefði átt að standa Samtökin hafa mikla þýðingu fyrir hann. Gamalreyndur maður sagði skrifara, að í ritstjóratíð Bjarna Benediktssonar hefðu einn daginn verið venju fremur margar villur og ambögur í blaðinu. Aldrei sagðist hann hafa séð Bjarna reiðari.

 

BJÓRÞAMB Á SKJÁNUM

Er það óhjákvæmilegur fylgifiskur hinna sjálfhverfu Sumardaga í Ríkissjónvarpinu, að umsjónarmenn þambi bjór á skjánum og veifi bjórflöskum? Skipafélagið Samskip fékk góða auglýsingu í þættinum frá Dalvík (07.08.2015). Það var auðvitað alveg óviljandi.

 

ÞVOTTUR – ÞVÆTTI

Af visir.is (08.08.2015): ,,Fyrrnefnd fjögur komu fyrir dóm daginn eftir handtökuna og voru ákærð fyrir vörslu fíkniefnanna í þeim tilgangi að selja þau og einnig fyrir ætlaðan peningaþvott”. Í þessu samhengi er málvenja að tala um peningaþvætti, ekki peningaþvott. Ríkisútvarpið talaði réttilega um peningaþvætti í hádegisfréttum sama dag. Sjá til dæmis Vísindavef Háskóla Íslands: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=3805

 

BULL?

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (09.08.2015) bls.51 er sagt frá bók, sem nýkomin er út í íslenskri þýðingu um bandaríska rithöfundinn J.D. Salinger og samband hans við Oonu O´Neill. Hún varð eiginkona Chaplins, sem tók hana frá Salinger. Salinger átti ákaflega erfitt með að sætta sig við að Oona skyldi hafa valið Chaplin fram yfir hann. Sat í honum alla ævi. Oona giftist Chaplin um leið og hún varð 18 ára en hann var 36 árum eldri en hún. Salinger sótti í unglingsstúlkur, en glansinn virtist fljótt fara af þeim í huga hans. Undarleg sambönd sum hver.

 Þessi bók virðist einskonar getgátu skáldsaga. Í blaðinu segir: ,,... flúði hann frá New York á býli í Cornish í New Hampshire, gróf sér göng að húsi sínu og sleppti þremur varðhundum lausum”. Molaskrifari er nýbúinn að lesa langa og ítarlega ævisögu þessa sérkennilega rithöfundar, (Salinger,2013, Shane Salerno og David Shields). Vandaðasta ævisaga Salingers, sem rituð hefur verið. Minnist þess ekki að þar sé nokkuð minnst á göng eða varðhunda. Afskekkt bjó hann og honum var meinilla við allar heimsóknir og boðflennur. Einangraði sig æ meir frá umheiminum er árin liðu. Sat linnulaust við skriftir alla daga. Hann lét eftir sig mörg frágengin handrit. Einhver þeirra koma út á næstu árum fimm arum eða svo. Þau munu eiga greiða leið á metsölulista. Þar verður Glass fjölskyldan enn á dagskrá. Jerome David Salinger er einn af sérkennilegustu höfundum síðustu aldar.

 Skáldsaga hans um Holden Caulfield, Catcher in the Rye, var tímamótaverk og bókmenntasprengja á sínum tíma. Flosi Ólafsson þýddi hana prýðilega á íslensku, Bjargvætturinn í grasinu, heitir íslenska útgáfan.

 

ÁHAFNARMEÐLIMIR ENN

Áhafnarmeðlimir er lífseigt orð, sem Molaskrifara hefur aldrei þótt prýði að. Það kom við sögu í hádegisfréttum Bylgjunnar (08.08.2015), þegar sagt var frá áhöfn flugvélar, flugliðum, sem voru undir áhrifum áfengis, þegar fljúga skyldi frá Gardermoen í Noregi til Krítar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband