Molar um málfar og miðla 1788

FYRIR ÞINGINU - STAÐSETTUR

,, .. í ávarpi sinu fyrir Evrópuþinginu í Strassborg,” var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (03.09.2015). Íávarpi sínu á Evrópuþinginu í Strassborg, hefði þetta átt að vera. Í sama fréttatíma var rætt við Íslending sem dvalist hefur í Búdapest í tvo mánuði. Hann sagði í lokin: ,, ... maður skilur ekki alveg þennan point of view”.Strax farinn að gleyma móðurmálinu. Svo bætti fréttamaður við:,, Sagði N.N. sem er staðsettur í Búdapest”. Staðsettur? Sem er í Búdapest. Sem býr í Búdapest”.

 

FISKVEIÐIMENN

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (03.09.2015) um björgun flóttamanna á á hafi úti var talað um fiskveiðimenn, sem bjargað hefðu flóttafólki frá drukknun. Sjómenn eða fiskimenn. Minnist þess ekki að hafa heyrt talað um fiskveiðimenn áður.

 

GESTGJAFAR HVERS?

Málfarsráðunautur Ríkisútvarps þarf að taka íþróttafréttamenn í tíma. Segja þeim til. Tveir þeirra töluðu (09.04.2015) um gestgjafa Þýskalands. Átt var við að tiltekinn boltaleikur færi, eða mót, færi fram í Þýskalandi. Þjóðverjar voru gestgjafar þeirra sem komu þangað til að keppa. Fréttin var um körfuboltaleik þar sem Íslendingar og Þjóðverjar keppa Leikurinn fer fram í Þýsklandi. Að tala um gestgjafa Þýskalands vegna þess að leikurinn fer fram í Þýskalandi er bara bull. Svipað orðalag hefur reyndar oft heyrst áður hjá íþróttafréttamönnum Ríkissjónvarps. Málfarsráðunautur þarf að segja þeim svolítið til um notkun móðurmálsins.

 

KOMAST Í VEG FYRIR

Af mbl.is (04.09.2015) : ,,Vilji er til að kom­ast í veg fyr­ir vild­arpunkta­söfn­un rík­is­starfs­manna, seg­ir í frétt Túrista.” . Hér vitnar mbl.is hugsunarlaust í rangt orðalag í öðrum miðli. Hér hefði átt að standa, - koma í veg fyrir vildarpunktasöfnun, stöðva, afnema, - ekki komast í veg fyrir. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/04/bjoda_ut_flugmidakaup_rikisins/

 

INNSKOTS – R

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.09.2015) var talað um búsáhaldarbyltinguna. Mótmælaaldan, sem reis eftir hrunið, var kölluð búsáhaldabylting. Ekkert -r- þar. Það heyrist nokkuð oft að bókstafnum -r- er bætt inn í samsett orð Þar sem hann ekki á heima.

Molaskrifari talaði stundum um heimildarmyndir, - allt þar til honum var bent á myndirnar væru byggðar á mörgum heimildum, heimildum víða að og því væri eðlilegra að tala um heimildamyndir.

 

SLETTUR

Í upphafi þáttarins Samfélagið í Ríkisútvarpinu á föstudag (04.09.2015) talaði umsjónarmaður um fólk í útivistarkredsum. Þarna hefði verið betra að tala um útivistarfólk, fólk,sem stundar útivist. Yfirmenn í Efstaleiti eiga að brýna fyrir dagskrárgerðarfólki að forðast slettur og tala vandað mál. Það hlýtur málfarsráðunautur einnig að gera.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1787

 

ÍSLANDSVINIR

Molavin skrifaði (03.09.2015): "Íslands­vin­kon­an Kel­is á von á barni." Þessa stórfrétt má lesa á mbl.is (3.9.15). Ekki hafði Molavin haft spurnir af þessari söngkonu fyrr, en samkvæmt mynd sem fylgir, hefur hún komið til Íslands. Það er  búið að verðfella rækilega hugtakið "Íslandsvinur" sem gjarnan var notað um erlenda borgara, sem börðust fyrir málstað Íslands heima fyrir, stundum í óþökk landa sinna, eins og ýmsir danskir vinir okkar í handritamálinu. Íslandsvinur var heiðursnafnbót. Nú virðist það gilda um alla, sem til landsins koma. Milljón á hverju ári.- Satt og  rétt. Þakka bréfið, Molavin.

 

ÞJÓÐIN VEIT

Örugglega veit öll þjóðin, að samkvæmt skoðanakönnunum eru Píratar nú stærsta stjórnmálaaflið á Íslandi. Það er nefnilega búið að endurtaka þetta og tyggja í okkur í næstum hverjum einasta fréttatíma undanfarna daga. Þetta er að minnsta kosti komið inn í hausinn á þeim sem þetta skrifar.

 

GÓÐ BYRJUN

 Kastljós Ríkissjónvarpsins fer vel af stað undir ritstjórn þeirra Þóru Arnórsdóttur og Brynju Þorgeirsdóttur. Óhugnanlegar frásagnir af ofsóknum og ofbeldi fyrrum sambýlismanna eða maka gegn konum.  Meiriháttar klúður lögreglunnar við meðferð mála. Vönduð umfjöllun. Fremur var fátt um svör hjá æðstu yfirmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þættinum á  miðvikudagskvöldið (02.09.2015). Molaskrifari játar reyndar að hann skildi ekki öll svörin til hlítar.

Áhugaverð umfjöllun um fjármál Hörpu. Mikið gert úr taprekstri. Fasteignagjöld til Reykjavíkurborgar hafa í raun orðið helmingi hærri en reiknað var með. Hátt í 400 milljónir. Reykjavíkurborg slær ekki vindhöggin í þessum efnum. Minna er talað um það, sem kom fram í máli Halldórs Guðmundssonar framkvæmdastjóra Hörpu, að samkvæmt athugun óháðs fyrirtækis hefur ráðstefnuhald í Hörpu skilað okkur fimm milljörðum í gjaldeyri. Harpan er fallegasta og merkilegasta rósin í hnappagati höfuðborgarinnar. Þessvegna  eiga borgaryfirvöld að hlú að henni, ekki skattkreista hana næstum til blóðs.  

 

EINUM OF

Samkvæmt auglýstri dagskrá Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (03.09.2015) voru tvær og hálf klukkustund lagðar undir fótbolta. Frá klukkan tæplega hálf sjö til klukkan rúmlega níu. Hvor hálfleikur er 45 mínútur og líklega 15 mínútna hlé á milli. Svo kom Kastljós í hálftíma og síðan meiri íþróttir í annan hálftíma, tæpan þó. Þetta er ekki góð dagskrárgerð   Sjálfsagt að sýna leikinn, og sigurinn vissulega gleðiefni,  en fimbulfambið átti að vera á íþróttarásinni. Til þess er hún, eða hvað?

 

SNERT – SNORTIN

Á mbl.is (0309.2015) segir: „Góðvild ykk­ar og vilji til að hjálpa hef­ur snert mig djúpt,“ skrif­ar Eygló Harðardótt­ir, fé­lags­málaráðherra, á Face­book-síðu sem ein­mitt ber nafn henn­ar, - sennilega á ráðherra við að hún sé djúpt snortin, ekki snert.

 

AÐ LEGGJAST Í GREININGU

Stjórn spítalans ákvað að leggjast í ítarlega greiningu á aðkomu læknanna .. sagði fréttamaður Stöðvar tvö (01.09.2015). Stjórn spítalans ákvað að láta fram ítarlega rannsókn á aðkomu læknanna ... hlut læknanna ...     Stjórnin lagðist ekki í greiningu. Það orðalag er út í hött. Sami fréttamaður sagði í sömu frétt:... áttu milligöngu um ... Hefði átti að vera: .. höfðu milligöngu um ...

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1786

 

TÍU MILLJARÐA TRYGGINGASJÓÐUR

Rafn skrifaði (01.09.2015):

 ,,Sæll Eiður. Þetta varðar ekki málfar, en fréttin hér fyrir neðan kom mér verulega á óvart, svo mikið, að ég fæ ekki orða bundizt. Slitastjórnarmenn Glitnis hf. eru, að því er ég bezt veit, allir sjálfstætt starfandi lögmenn og endurskoðendur, sem sinna starfinu sem verktakar. Fyrir utan það, að verktakar bera ábyrgð gagnvart verkkaupum sínum, þá er lögmönnum og endurskoðendum skylt að kaupa starfsábyrgðartryggingu, sem ég tel, að ætti að ná yfir þær kröfur, sem aðrir kunna að eiga á hendur slitastjórnarmönnum vegna starfa þeirra í slitastjórn.

 Engu að síður gerir slitastjórnin nú, væntanlega í lokatörn slitamálsins, kröfu um, að kröfuhafar leggi evrur að jafnvirði um 10.000.000.000 kr. í sjóð til að tryggja skaðleysi slitastjórnarmanna af störfum sínum. Væntanlega ætlar slitastjórnin sjálfri sér framhaldslíf við ávöxtun viðkomandi sjóðs.
Ég vek athygli á kröfunni, sem ég tel furðulega, en ætla ekki að tjá mig um hana að öðru leyti. Fréttin er úr DV.” – Kærar þakkir , - Rafn. Þetta er furðulegt mál, - að ekki sé nú meira sagt.

Sjá:

http://www.dv.is/frettir/2015/9/1/slitastjornin-fer-fram-tiu-milljarda-tryggingasjod/

 

KOSNINGAR Í FÆREYJUM

Rétt er það sem Haraldur Bjarnason sagði á fésbók (02.09.2015) , að Ríkisútvarpið hefði mátt gera Lögþingskosningunum í Færeyjum hærra undir höfði. En ágæt frétt var í útvarpinu á miðnætti á þriðjudagskvöld, þegar úrslitin lágu fyrir. Hefði þó átt að vera fyrsta frétt, ekki koma á eftir upptuggu úr fyrri fréttatímum um skoðanakönnun á fylgi flokkanna á Íslandi. Fréttamat er auðvitað umdeilanlegt. Það veit Molaskrifari mæta vel.

 

LOFSVERT

Það er mjög lofsvert að Ríkissjónvarpið skuli annað kvöld (04.09.2015) ætla að flytja okkur í beinni útsendingu tónleika úr Eldborgarsal Hörpu þar sem Kristinn Sigmundsson syngur eftirlætisaríur sínar. Það orkar hinsvegar tvímælis, þegar þessi útsending er kynnt í dagskrárkynningu þá heyrir Molaskrifari ekki betur en þar syngi Kristinn hendingu úr ljóðaflokknum Vetrarferðinni eftir Franz Schubert. Kannski er það rangt, en Vetrarferðin verður seint kölluð óperuaría.

 

AÐ AUKA LÍFSKJÖR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (01.09.2015) talaði fjármálaráðherram um að auka þyrfti lífskjör á Íslandi. Væntanlega átti ráðherra við að bæta þyrfti lífskjör á Íslandi.

 

TVEIR MORGUNÞÆTTIR

Nú er ekki lengur sami þátturinn á dagskrá á báðum rásum Ríkisútvarps árla á morgnana. Það er mjög til bóta. Um það skal þó fátt sagt að sinni annað en að í morgun (03.09.2015) var á sama tíma rætt um sama efni í báðum þáttum. Rætt var við tvo íþróttafréttamenn Ríkisútvarps,sem báðir voru í Hollandi. Stjórnendur ættu kannski að hafa svolítið samráð um efnisval? Hvað skyldi Ríkisútvarpið hafa sent marga fréttamenn til Hollands til að segja okkur fréttir af fótbolta? Er ekki útvarpsstjóri alltaf að segja okkur hvað fjárhagur þessarar þjóðarstofnunar sé bágur? Fjár virðist aldrei vant, þegar fótbolti er annarsvegar.

 

ÍSLENSKA EÐA ENSKA

Íslenskur háskólakennari, aðstoðarprófessor, sem titlar sig svo , skrifar á fésbók (01.09.2015): ,,Einhver sem hefur áhuga á að vera host á síðunni Kæra Eygló Harðar til að hreinsa út White-power lið sem er með hate speech? Það þarf að fylgjast með síðunni reglulega svaka gaman… ööö. “ Þessi grautur er hvorki enska né íslenska Skyldi aðstoðarprófessorinn bjóða nemendum sína upp á svona hrærigraut í fyrirlestrum ?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1785

 

STARFSKRAFTUR

Fyrir nokkrum árum var oft auglýst eftir starfskröftum, ekki starfsfólki, starfsmönnum. Heldur hefur dregið úr þessu, sem betur fer. Málfarsfemínistar voru andvígir orðinu starfsmaður, töldu að það næði ekki til kvenna, sem er út í hött ,því auðvitað eru konur menn.

Í frétt í Morgunblaðinu (31.08.2015) um Norðurlandaráðsþing í Hörpu 27. til 29. október segir: ,,Á meðan þing Norðurlandaráðs stendur yfir verður starfskraftur Alþingis að störfum í Hörpu”. Betra hefði verið, til dæmis: ,,Starfsfólk Alþingis verður við störf í Hörpu þingdagana.”Varla verður þó allt starfsliðið þar. Ýmis starfsemi mun ganga sinn vanagang á skrifstofum þings og þingnefnda, þótt þorri starfsfólks verði í Hörpu.

 

GERAST FYRIR OKKUR

Af mbl.is (31.08.2015):

,, „Það sem er að ger­ast í Alaska er að ger­ast fyr­ir okk­ur,“ sagði Obama við frétta­menn áður en hann lagði af stað í ferðalagið til Alaska. Hann bætti við að svo lengi sem hann gegndi embætti for­seta þá myndu Banda­rík­in leiða umræðuna og aðgerðir varðandi loft­lags­breyt­ing­ar. Hann vísaði þar til hækk­un hita sjáv­ar, bráðnun jökla og að meðal­hit­inn á jörðinni fari hækk­andi.” Ekki vönduð þýðing á erlendri frétt. Gerast fyrir okkur? Hálfgert barnamál.

Það sem er að gerast í Alaska er að gerast hjá okkur ..... Hann vísaði þar til hækkunar hitastigs sjávar, bráðnunar jökla og þess að meðalhiti á jörðinni fari hækkandi. Ekki mjög góður texti.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/31/obama_raedir_loftlagsmal_i_alaska/

 

AÐ OG AF

Enn um að og af. Mbl.is (31,.08.2015): Bróðir tveggja ind­verskra systra hljópst á brott með giftri konu og ákváðu öld­ung­ar þorps­ins að þeim yrði nauðgað hópi karl­manna, að það væri hæfi­leg refs­ing. Kannski bara innsláttarvilla. Hefði þó átt að leiðrétta í yfirlestri.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/31/tveimur_systrum_verdi_naudgad/

TVEIR SEM BRÁ

Af visir.is (31.08.2015): ,,Tveir landamæraverðir við El Tarajal, sem liggur við Marokkó og spænska héraðið Ceuta, brá mjög þegar þeir lyftu upp vélarhlíf á bifreið sem þeir hugðust rannsaka.” Fallafælni. Tveir landamæraverðir brá ekki. Tveimur landamæravörðum ... brá mjög. Enginn yfirlestur.

http://www.visir.is/faldi-sig-i-velarrymi-bifreidar/article/2015150839834

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1784

  

AÐ HALDA ÁVARP

Í frétt Ríkisútvarps (29.08.2015) um afmæli Hins íslenska biblíufélags var sagt, að forseti Íslands og biskup hefðu haldið ávörp. Málvenja er að tala um að flytja ávarp en halda ræðu. Þannig er það í huga Molaskrifara að minnsta kosti.

 

Að OLLA

Í fréttatíma Stöðvar tvö (29.08.2015) var sagt frá aurflóðum á Siglufirði. Fréttamaður sagi: ,- þá ullu aurskriður miklu tjóni. Aurskriður ollu miklu tjóni. Sögnin að valda vefst ærið oft fyrir fréttaskrifurum. Í sama fréttatíma sama miðils sagði fréttamaður,.... en góð vinátta tókst á með honum og .... hér var á-inu heldur betur ofaukið. Góð vinátta tókst með honum og .. þeir urðu góðir vinir.

 

-- 

BREYTT ÚTLIT

Útliti Fréttablaðsins hefur verið breytt. Sjálfsagt sýnist sitt hverjum um breytingarnar. Molaskrifara finnst yfirbragð blaðsins heldur dauflegra en áður var. Fannst raunar ekkert að útliti blaðsins fyrir breytingarnar. Öðrum finnst þetta kannski breyting til batnaðar. Innihaldið skiptir þó auðvitað meira máli en útlitið.

 

AUGLÝSINGAR Í TEXTA

Fréttatíminn er það blað þar sem Molaskrifara finnst erfiðast að greina milli ritstjórnarefnis og seldra auglýsingagreina. Þess vegna er blaðinu fljótflett.

 

ÚFF...

 Arnar Kári sendi eftirfarandi með þessari fyrirsögn. ,, Sæll Eiður, ákvað að senda þér frétt af Vísi sem birtist klukkan 9 í morgun (30.8) og stóð greinilega óbreytt klukkan 12.30.
Hvernig getur fréttamiðill ætlast til að vera tekinn alvarlega þegar svona texti fær að lifa allan daginn?

Þetta er fréttin í heild, afrituð og límd:
Stefán Árni Pálsson skrifar:
West Ham vann ótrúlegan sigur á Liverpool, 3-0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær en leikurinn fór fram á Anfield, heimavelli Liverpool.
Einn aðdáandi West Ham hafði lofað því að hann skildi fá sér húðflúr á höndina tengt sigrinum ef liðið myndi vinna á Anfield en það hafði ekki gert í 52 ára í gær.
Aðeins tveimur tímum eftir sigurinn West Ham í gær tístaði Jon High mynd af húðflúrinu sem hann hafði fengið sér. Daginn áður hafði hann einmitt lofað því á Twitter.” - Þakka bréfið. En ýmislegt hefur nú reyndar sést svartara en þetta!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1783

 

SKYNSAMAR TILLÖGUR

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (27.08.2015) var talað um skynsamar tillögur. Molaskrifara var kennt á sínum tíma að tillögur eða breytingar gætu ekki verið skynsamar. Þær gætu verið skynsamlegar. En þetta orðalag heyrist æ oftar. Sama morgun talaði umsjónarmaður þáttarins um að farið yrði yfir það sem hefði toppað allar fréttir vikunnar. Það er líklega sérviska Molaskrifara, að kunna  ekki að meta þetta orðalag.

 

BOLTALEIKUROG STEFNURÆÐA

 Frá því var greint í morgun (31.08.2015) að vegna boltaleiks í útlöndum , þar sem Íslendingar koma við sögu, verði hefðbundnum tíma á flutningi stefnuræðu forsætisráðherra breytt. Hún verði flutt að kvöldi þingsetningardags, ekki kvöldið eftir eins og venja hefur verið. Að sögn er þetta gert að ósk Ríkisútvarpsins. Íþróttadeildin stjórnar þá ekki aðeins dagskrá Ríkisútvarpsins, heldur einnig störfum SDG og Alþingis. Eða hvað? Gæti ekki verið að óskin um breytinguna hafi komið frá sjálfum SDG,forsætisráðherranum, sem óttast samkeppni um áhorf, þegar boltaleikur er annarsvegar? Það skyldi þó aldrei vera

 

HURÐ – HURÐIR

Les enginn yfir það sem skrifað er á svokallað Smartland mbl.is?

Þar var skrifað (25.08.2015): Húsið var end­ur­nýjað fyr­ir fá­ein­um árum og var þá skipt um gól­f­efni, inni­h­urðar og baðher­bergi. Innihurðar hvað? Það var skipt um innihurðir. Hurðar er eignarfall eintölu af orðinu hurð. Fleirtalan er hurðir. Svo var sagt að húsráðendur hefðu greinilega mikla rýmisgreind. Greind er sjálfsagt af ýmsu tagi og stundum ekki mjög rúmfrek.

 

LEGGUR OG STRÍPAÐAR BÆTUR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (27.08.2015) var sagt um flugfarþega, sem höfðu þurft að þola mikla seinkun á flugi: , ... áður en lokaleggur ferðarinnar hófst”. Auðrekjanlegt til áhrifa frá ensku.

 Í sama fréttatíma, eða í fréttaskýringu, var fjallað um bætur til ellilífeyrisþega. Þar var að minnsta kosti fjórum sinnum talað um strípaðar bætur. Ekki er Molaskrifari viss um að allir eldri borgarar hafi skilið þetta orðalag. Átt var við grunnbætur án viðbótargreiðslna. Fréttir Ríkisútvarps eiga að vera á vönduðu máli og öllum skiljanlegar.

 

FINDUS OG SANNLEIKURINN

Findus stórfyrirtækið heldur áfram að segja okkur ósatt. Heldur því  fram í sjónvarpsauglýsingum að hraðfryst grænmeti sé ferskara en ferskt (27.08.2015). Það stenst ekki skoðun. Við erum víst talin svo vitlaus, að það sé allt í lagi að segja okkur ósatt. Fyrir tveimur árum varð þetta sama fyrirtæki, Findus ,að biðjast opinberlega afsökunar á því að selja fólki hrossakjöt og kalla það nautakjöt. Sjá t.d. https://en.wikipedia.org/wiki/Findus

Á fyrirtækið ekki að biðjast afsökunar á því að segja okkur að frosið grænmeti sé ferskara en ferskt?

 (,,On 8 February 2013, Findus UK published a public apology on their website, also announcing that, following DNA testing, 3 of its products were found to contain horse tissue. These are the 320, 350 and 500 gram packages of Findus Beef Lasagne and the company offers a refund for products purchased.[23] In Sweden, Findus Sverige AB also announced a recall of its 375 gram packs of ready made single portion lasagne (code 63957) and published a contact number for customers who had already purchased the products”).[24]

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1782

 

AÐILAR OG EINSTAKLINGAR

Molavin skrifaði: ,,Baráttan við klúðursyrðin aðila og einstakling er löng og ströng. Þessi orð eiga sjaldnast við í fréttum, rétt eins og dæmið í Vísi í dag (26.8.2015): "Nítján ára karlmaður gaf sig fram við dönsku lögregluna í morgun og viðurkenndi að hafa ráðið þremur einstaklingum bana á bóndabæ við Gandrup á Norður-Jótlandi. Maðurinn er sagður hafa tengsl við fólkið, sem voru hjón og sonur þeirra." Semsagt: Maðurinn varð fjölskyldu að bana. Einfalt og skýrt mál er fallegast og skiljanlegast”.

Kærar þakkir, Molavin. Við höldum baráttunni áfram. En rétt er það; hún er löng og ströng.

 

ÞESS BER AÐ GETA ....

Það er ástæða til að árétta að Ríkissjónvarpið hefur tekið á sig á og sýnir nú fleiri, nýjar og vandaðar heimildamyndir og fréttaskýringaþætti en áður; þætti um sögu og samtímaviðburði. Það er lofsvert. Til skamms tíma var engu líkara en efni af þessu tagi væri á svörtum lista. Myndirnar hans Davids Attenboroughs eru fínar, oft hrein listverk úr náttúrunni, en eins og annað eiga myndir hans að koma í hæfilegum skömmtun.

 

ÞANÞOL ÞOLINMÆÐINNAR

 Það kemur fyrir í bílnum á morgnana, að Molaskrifari opnar fyrir símatíma Útvarps Sögu. Þanþol þolinmæðinnar til hlustunar varir þó aðeins fáeinar mínútur. Yfirleitt er þar sama fólkið að ræða það sama.

 Á miðvikudagsmorgni (26.08.2015) hringdi maður til stjórnanda þáttarins, sem er ,fyrir utan útvarpsstjórann helsti talsmaður stöðvarinnar. Sá sem hringdi sagði frá því, að hann hefði átt á fara í krabbameinssprautu í mars en ekki getað það fyrir fátæktar sakir, - sem er þessu ríka samfélagi til háborinnar skammar.
Þá spurði stjórnandinn: Hvers vegna þurftirðu að fara í krabbameinssprautu?

- Af því að ég er með krabbamein. svaraði maðurinn.

Molaskrifari er á því, að þarna hafi verið slegið nýtt met. Ætlar samt ekki að segja meira um það. Var þá líka fullreynt á þanþol þolinmæðinnar. Og snúið aftur til Rondós Ríkisútvarpsins FM 87,7 þar sem ævinlega er áheyrileg tónlist.

 

RÁÐHERRA SVARAÐI EKKI

Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (27.008.2015) Var Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra spurð í beinni útsendingu hvort við Íslendingar ættum ekki að taka við fleiri flóttamönnum í ljósi þess sem aðrar þjóðir væru að gera. Ráðherra bar ekki við, reyndi ekki, að svara spurningunni. Talaði út og suður um hvernig flóttamönnum við tækjum við. Það á ekki að láta ráðherra komast upp með að svara alls ekki því sem um er spurt. Gerist því miður of oft.

 

GARGIÐ

Eins og flestir lessendur Molanna sjálfsagt vita, er Molaskrifari ekki einlægur aðdáandi boltaíþrótta í sjónvarpi og finnst Ríkissjónvarpið gera þeim of hátt undir höfði. Hann horfir hinsvegar stöku sinnum , þegar verið að keppa í frjálsum íþróttum, og spyr því enn og aftur: Hvers vegna þarf sá sem lýsir að garga á okkur sem heima sitjum? Garga eins og hann sé búinn að glata glórunni? Molaskrifari bregður stundum á það ráð að horfa á viðburðina í erlendum stöðvum þar sem lýsendur kunna sér hóf og sýna þeim sem heima sitja meiri kurteisi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1781

FULLT AF

Í auglýsingu á bls. 30 í Morgunblaðinu (24.08.2015) er kynnt útgáfa sérblaðs um heilsu og lífstíl föstudaginn 28. ágúst , - ætti raunar samkvæmt stafsetningarorðabók Molaskrifara að vera lífsstíl. Í auglýsingunni segir: Í blaðinu verður kynnt fullt af þeim möguleikum sem í boði eru fyrir þá sem stefna á heilsuátak og lífstílsbreytingu, ... enn vantar eitt s ! Varla verður sagt, að mikil reisn sé yfir þessum texta. Fullt af .....

 

LEKI?

Er það vatnsleki, þegar vatn flæðir upp úr veitubrunni, eins og segir í þessari frétt mbl.is (24.01.2015): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/24/mikill_vatnsleki_i_kopavogi/

Ekki samkvæmt málkennd Molaskrifara. Svo koma aðilar að sjálfsögðu við sögu: ,, Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu eru aðilarn­ir á svæðinu þar sem „eitt­hvað stærra þarf að ger­ast“ svo hægt sé að koma í veg fyr­ir leka í framtíðinni. “ Ekki mjög skýrt.

 

ÉG OG ....

Í skóla var manni kennt að forðast eftir megni notkun fyrstu persónu fornafnsins ég. Menntamálaráðherra skrifar á fésbók (25.08.2015): ,,Í dag hófst Þjóðarátak í lestri með því að ég og Dagur Eggertsson borgarstjóri undirrituðum fyrsta sáttmálann”. Það hefði verið svolítið meiri hógværð í því að segja: ... með því að við Dagur Eggertsson ...”. En þetta er auðvitað bara spurning um smekk. Um hann verður víst ekki deilt.

 

SEKTIR

Í fréttum vikunnar var sagt frá því, að hundruð bíleigaeigenda hefðu verið sektaðir um tíu þúsund krónur hver fyrir að leggja bílum þar sem strangt tekið ekki mátti leggja. Ekki varð þó séð að þeir sem lögðu á grasi skammt frá BSÍ hafi stofnað öðrum í hættu. Margir vilja fara í miðbæinn á laugardegi menningarnætur. Íbúum á stóru svæði var meinað að aka að heimilum sínum þótt mikið lægi við. Sjálfsagt er að hafa hömlur á og takmarka umferð þennan dag, en jafn mikilvægt er að borgaryfirvöld séu sveigjanleg en mæti ekki borgurunum með hroka og ónauðsynlegri hörku eins og nú var gert. Molaskrifari er á því, að borgaryfirvöld ættu frekar að beita sér gegn því að bílar, sendibílar og jafnvel stærstu rútur, séu látnir ganga í lausagangi langtímum saman við gagnstéttir þar sem vegfarendur verða að vaða kóf dísilmengunar þegar gengið er fram hjá. Það virðist engin hugsun á því hjá stjórnendum borgarinnar. Engar sektir þar.

 

RÖNG DAGSKRÁ

Vikudagskrá sjónvarpsstöðvanna er dreift í öll hús í Garðabæ og sjálfsagt víðar. Þetta er frá fyrirtæki, sem áður var í eigu Ámunda Ámundasonar en ,,fjölmiðlamógull” Framsóknar mun nú hafa keypt. Oft er lítið að marka dagskrána. Á mánudag og þriðjudag í þessari viku var sagt, að Kastljós væri á dagskrá Ríkissjónvarps á mánudag og þriðjudag! Rangt. Raunar var mánudagskrá Ríkissjónvarpsins einnig röng um eitt atriði á mánudagskvöld á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Vanda sig meira.

 

VILJA VITA

Í fréttum Stöðvar tvö (26.08.2015) var fjallað um tannskemmdir hjá mjög ungum börnum og sagt að vandamálið væri þó algengara en fólk vildi vita. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að vandamálið væri algengara en fólk vildi viðurkenna, eða vera láta ?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1780

   

EFTIRMÁL- EFTIRMÁLI

Molavin skrifaði: "Þetta hef­ur American Ban­ker eft­ir Guðrúnu Johnsen í grein um eft­ir­mála banka­hruns­ins á Íslandi." Þetta er úr grein í Morgunblaðinu 21. ágúst og ljóst að ýmsir blaðamenn lesa ekki reglulega umfjöllun um málfar. Um mun á merkingu orðanna "eftirmál" og "eftirmáli" hefur verið rækilega og ítrekað fjallað á þessum vettvangi sem og í hinum ágæta, daglega málfarspistli Morgunblaðsins. Kæruleysi blaðamanna er á ábyrgð yfirmanna þeirra.

- Þakka bréfið, Molavin.- Hér er við blaðamann að sakast, - ekki þann sem vísað er til.

 

BER EKKI MIKIÐ Á SÉR

Þorvaldur skrifaði (24.08.2015): ,,Sæll Eiður.
Morgunblað dagsins segir frá gervigrasvelli á Álftanesi: "Hann ber ekki mikið á sér ennþá en á að verða hinn glæsilegasti".

Einnig segir frá fornleifaverði austur í Palmyra sem var "afhöfðaður af hermönnum".

Leiðinlegt að sjá svona meðferð á málinu í jafnágætu blaði”.

Kærar þakkir fyrir bréfið, Þorvaldur. Það skortir því miður á gæðaeftirlit með skrifum í Morgunblaðinu í þessum efnum, eins og fleiri fjölmiðlum reyndar, því miður.

 

ENDURTEKIÐ EFNI

Í gærkvöldi (25.08.2015) var sýnd frétt í Ríkissjónvarpinu um ostagerð og laukræktun í Rússlandi. Nákvæmlega sama frétt hafði verið sýnd áður í sama miðli. Hvað er að gerast?  Er engin verkstjórn lengur á fréttastofunni í Efstaleiti?

 Hve oft var okkur sögð fréttin af ólánssama stráklingnum sem óvart skemmdi verðmætt málverk á Taívan? Molaskrifari telur sig hafa heyrt hana allt að fimm eða sex sinnum. Alltaf var tekið fram að myndin hefði verið vel tryggð!!!    

 

STRENDUR ÞORLÁKSHAFNAR

T.H. skrifaði Molum (22.08.2015) og vísar til þessarar fréttar mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/22/leita_ad_byssum_18_aldar_herskips/

,,Stefnt er að því að gera út leiðang­ur til að finna keðjur, fall­byss­ur og bal­lest danska her­skips­ins Gauta­borg sem fórst við strend­ur Þor­láks­hafn­ar árið 1718."
Er það já? Strendur Þorlákshafnar geta nú vart verið margar; í albesta falli ein. – Réttmæt athugasemd. Undarlegt orðalag.

 

FJÖLMENNUR STOFN

Og hér er annað bréf frá T.H.:
,,Veiðimenn í Nýja Sjálandi voru fengnir til þess að grisja fjölmennan stofn en skutu þess í stað afar sjaldgæfa fugla"
Ég neita að trúa að hér hafi átt að grisja ,,fjölmennan stofn", því þá væri verið að biðja um manndráp. 
Fjölmenni = mannfjöldi.
Hér hlýtur að vera átt við stóran fuglastofn.” Rétt , T.H. Þakka bréfið. Þar að auki er fast í málinu að segja á Nýja Sjálandi, ekki í Nýja Sjálandi.

Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/8/21/drapu-5-af-villtum-stofni-afar-sjaldgaefra-fugla/


Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1779

ALVEG FYNDIÐ

G.G. skrifaði (22.08.2015): ,, Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta:
http://www.ruv.is/frett/malvilla-a-morg-thusund-verdlaunapeningum

Þetta er alveg fyndið..." sagði upplýsingarfulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur um villu í áletrun verðlaunapeninga. Engan skyldi undra að hún rak ekki augun í þetta í byrjun! ,,Alveg" er nú troðið í ólíklegustu setningar. Þannig segir í prentuðu samkomulagi um félagslega ráðgjöf Reykjavíkurborgar, að beiðni þurfi að skila með skráningu á ,,alveg 4 störfum mánaðarlega." Líklega er átt við ,,að minnsta kosti". Borgin þarf greinilega málfarsráðgjöf!
http://www.visir.is/article/20150822/FRETTIR01/150829632
Molaskrifari þakkar ábendinguna. Þetta er borginni ekki til sóma. Fleiri aðstoðarmenn og ráðgjafa til ráðgjafar í ráðhúsinu!

 

UMRÆÐA TIL UMRÆÐU

Leiðari Morgunblaðsins á laugardag (22.08.2015) hefst svona: ,,Umræða um vopnasölubann á Rússland og viðbrögð rússneskra stjórnvalda við því hefur verið mjög til umræðu að undanförnu, sem von er ....”. Umræðan hefur verið til umræðu! Það var og. Skrítin hugsun. Molaskrifara finnst leiðarinn vera hálfgert sífur, sem að líkindum má rekja til þess hverjir hagsmunir eigenda Morgunblaðsins eru. http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/grein/1942700/

Leiðari Kristínar Þorsteinsdóttur í Fréttablaðinu sama dag er hinsvegar skrifaður af meiri yfirvegun, yfirsýn og skilningi, en leiðari Morgunblaðsins,sem vísað er til hér að ofan. http://www.visir.is/hvar-a-island-heima--/article/2015150829666

 

AÐ BRENNA FYRIR MÁLEFNI

Til að safna fé fyrir málefni,sem þú brennur fyrir. Eitthvað á þessa leið er tekið til orða í auglýsingu frá Íslandsbanka (Ríkissjónvarp 22.08.2015). Molaskrifara finnst þetta vera ambaga. Safna fé fyrir málefni, eða málstað, sem þú hefur brennandi áhuga á, er sennilega það sem átt er við.

 

GERT ÚT Á GLEYMSKUNA

Oft er gaman að Staksteinum Moggans. Þar er í dag (25.08.2015) gert út á fáfræði  eða gleymsku lesenda. Óspart er gert grín að því að starfsmenn ESB hafi farið í sumarfrí. Tók ekki ríkisstjórn Íslands sér 40 daga sumarfrí í sumar , það lengsta í sögu nokkurrar ríkisstjórnar á Íslandi? Ríkisstjórnin var yfirleitt ekkert  til viðtals þá  daga.,,Ekki náðist í ráðherra við vinnslu fréttarinnar”.Heldur Moggi að þjóðin hafi ekkert tekið því? Moggamenn þekkja sennilega ekki mikið til í Evrópu. Ekki frekar en öðrum útlöndum. Í Evrópu taka langflestir sér sumarfrí á sama tíma. Norðmenn tala um síðustu þrjár vikurnar í júlí sem fellesferien. Sunnar í Evrópu er ágúst sumarleyfamánuðurinn. Þá eru fjölmörg fyrirtæki og stofnanir lokaðar.

 

AÐ SETA HÁTÍÐ

Svo mun borgarstjóri seta hátíðina, eitthvað á þessa leið sagði viðmælandi, sem talaði fyrir hönd Reykjavíkurborgar við fréttamann Bylgjunnar í hádeginum á laugardag (22.08.2015). Sögnin að seta er ekki til. Átt var við að borgarstjóri mundi setja hátíðina, lýsa yfir að hún væri formlega hafin.

 

BAK VIÐ HÁLSINN?

Úr frétt á mbl.is (22.08.2015):, ,,Hann skar hann bak við háls­inn og skar nán­ast af hon­um þumal­inn líka”. Bak við hálsinn? Ekki vel orðað. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/22/skilid_byssunni_minni/

Skar hann á hálsinn aftan til, hefði til dæmis verið ögn betra. Í íslensku gerum við ekki greinarmun á hálsinum að innan og utan eins og gert í ensku, throat og neck. Ég er með hálsbólgu. Ég er með hálsríg.

Um þetta skrifaði T.H. Molum (22.08.2015): "Hann skar hann bak við háls­inn ..."
Ef þessi háls er í landslagi, væri kannski eðlilegra að segja "handan við hálsinn", en ef hér er átt við líkamshluta er "á bak við hálsinn" í lausu lofti. Kannski er átt við að maðurinn hafi verið skorinn aftan á hálsinn, en þá á líka að segja það og ekki svona bull. Læra fréttabörnin ekkert? - Kærar þakkir, T.H.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband