Molar um málfar og miðla 1797

ENN UM STOKKINN

Molavin skrifaði í gærkvöldi (18.09.2015): ,,Í sjónvarpsfréttum í kvöld, 18. sept. var sagt að Arnar Jónsson leikari muni ,,stíga á stokk" hjá Leikfélagi Akureyrar í fyrsta sinn í langan tíma. Hér er bull á ferðinni. Hann mun stíga á svið, eða eins og oft er sagt, stíga á fjalirnar. En meðan fréttastjóri lætur bullið viðgangast er ekki von að óreyndir fréttamenn læri.” Þakka bréfið. Í sjónvarpsfréttunum var þetta ekki sagt einu sinni, heldur tvisvar! Oft hefur verið að þessu vikið hér í Molum. Menn stíga á stokk og strengja heit. Sannarlega er hér verk að vinna fyrir málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins.

 

RÉTTMÆTAR ÁBENDINGAR

Þórhallur Jósepsson skrifaði (16.09.2015)): ,,Sæll Eður.
Stundum getur maður ekki annað en skrifað svolítinn vandlætingartexta þegar maður rekst á eitthvað sem maður ekki aðeins hnýtur um, heldur dettur kylliflatur!
Eitt sinn, kannski enn, voru nemendur á lokametrunum í grunnskólanámi prófaðir í því sem kallaðist lesskilningur. Ég hallast raunar að því það sé rangnefni, ætti frekar að vera málskilningur. Mætti leggja meiri áherslu á þann skilning. Svo sýnist mér að minnsta kosti við lestur blaða, veffrétta og hlustun á útvarp, einkum þegar blaða- og fréttamenn freistast til að nota orðatiltæki sem þeir greinilega skilja ekki og hafa enga hugmynd um hvernig eru mynduð. Þetta á reyndar ekki bara við „fréttabörnin“ heldur líka fréttamenn sem maður gæti haldið að séu eldri en tvævetur og vel mæltir á móðurmálið.
Hér eru tvö dæmi (ég tek fram að þótt þau séu bæði úr DV þýðir það aldeilis ekki að DV sé að einhverju leyti verra að þessu leyti en aðrir miðlar). Á vefnum dv.is var frásögn skreytt vídeoupptöku um stökkvandi hval og kajakræðara, þar segir: „Það fer ekki mikið fyrir því að íhuga hvort að kajakræðarnir væru heilu á höldnu.“ Þarna held ég gamli kennarinn mundi strika með rauðu á tveimur stöðum, „að“ er ofaukið á eftir hvort, „heilu og höldnu“ er ranglega notað, í fyrsta lagi skrifað „heilu á höldnu“ en einnig notað ranglega sem lýsingarorð. Greinilega þekkir blaðamaðurinn ekki þetta orðatiltæki né skilur hvernig það skuli notað. Menn geta ekki verið „heilu á höldnu“ en þeir geta komist t.d. í land „heilu og höldnu.“
Annað dæmi er tekið úr leiðara DV 15. Sept., þar segir: „Leiða má líkum að því að hátt í þúsund manns ....“ Þetta er afar algeng villa, einnig hjá t.d. margreyndum fréttamönnum Ríkisútvarpsins með áralanga reynslu að baki. Orðasambandið „að leiða líkur að“ einhverju verður ótrúlega oft „að leiða líkum að“ einhverju. Þarna er líklega um að kenna hugsunarleysi og áhrifum af t.d. „leiða má af líkum“ eða „af líkum má ráða.“ En maður leiðir ekki líkum, frekar en maður leiði börnum yfir götu eða hestum inn í gerði.
Gott væri nú að fjölmiðlamenn tækju sig til og ræktuðu málskilning sinn, góð og öflug aðferð til þess er að lesa bækur á góðu máli, t.d. Laxness, Gunnar Gunnarsson, Tómas, Sverrir Kristjánsson, Íslendingasögurnar og Biblíuna. Kveðjur, Þórhallur Jósepsson.”

Kærar þakkir, Þórhallur. Tek undir heilræði þitt. Góður texti er góður kennari. Matthías Morgunblaðsritstjóri sagði mér einu sinni, að hann hefði sagt við blaðamann, sem ekki var sterkur á svelli íslenskunnar: ,,Lestu Íslendingasögurnar”. Þegar ég fékkst við fréttamennsku reyndi ég, - um skeið að minnsta kosti, að lesa einhverja af Íslendingasögunum á hverju ári. Gott ef það var ekki fyrir hvatningu frá séra Emil Björnssyni fréttastjóra sem gerði strangar kröfur til okkar á fréttastofunni um vandað málfar.

 

STÓR AUGU

Molalesandi skrifaði (18.09.2015): ,,Veg­far­end­ur við Skóla­vörðustíg í Reykja­vík renndu upp stór augu í gær­kvöldi.”
Ekkert lát er á ambögum á mbl.is. – Rétt er að geta þess að þetta var leiðrétt síðar.

www.mbl.is/frettir/.../er_thetta_islandsmet_i_sodaskap/

3 hours ago - Vegfarendur við Skólavörðustíg í Reykjavík renndu upp stór augu í gærkvöldi. Við fyrstu sýn virtist komið nýtt listaverk í götuna.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1796b

 

AÐ OLLA

Sögnin að olla ( sem reyndar er ekki til ) kemur  æ oftar  við sögu í fréttaskrifum. Gunnsteinn Ólafsson  benti á þetta nýlega dæmi á mbl.is (15.09.2015):  ,,Þess­ar upp­götv­an­ir ullu því að sam­band hans við móður­ina sem ætt­leiddi hann versnaði og ákvað hann að flýja Pól­land.” http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/09/15/endurfundir_eftir_70_ara_adskilnad/

Fréttin er um endurfundi tvíbura í Póllandi.

 

Í BEINNI ÚTSENDINGU – ÓKEY,  -  HVAÐ?

Það er eins og sjónvarpsstöðvarnar telji nauðsynlegt  að vera alltaf með  viðtal í beinni útsendingu í kvöldfréttum, - hvort sem tilefni er til eður ei. Á mánudagskvöld  (14.09.2015) var  Stöð tvö með viðtal við utanríkisráðherra í beinni útsendingu úr ráðuneytinu. Bein útsending  bætti  engu  við gildi þessa viðtals. Þarna var  tæknin  nýtt  tækninnar vegna , ekki  til að gefa fréttinni vægi eða  gildi.  Fréttamaður  fær  ekki hrós fyrir að segja  eftir  svar utanríkisráðherra: ,,Ókey, Bjarni Benediktsson sagði í fréttum hjá okkur í  gær, að það væri óboðlegt.. “ (07:30) http://www.visir.is/section/MEDIA

Í fréttatíma  Stöðvar tvö næsta kvöld (15.09.2014) kom aftur frá  (sama?) fréttamanni í lok  viðtals: Ókey, við  fylgjumst með .... Er ekki lágmarkskrafa, að fréttamenn í sjónvarpi séu sæmilega talandi á íslensku?

 

VANDRÆÐA -R-

Hér hefur áður verið  vikið að vandræðum með  bókstafinn  - r -  í samsettum orðum. Í fréttum Stöðvar 2  (14.09.2015) var í skjáskilti  sagt frá velferðaþjónustu. Átti  að vera velferðarþjónusta.

Af vef  Ríkisútvarpsins (15.09.2015): ,,Verslun og benínstöð (svo!)Costco við Kauptún í Garðabæ verða rúmir 20 þúsund fermetrar. Gert er ráð fyrir 791 bílastæði við verslunina sem ætlar að bjóða upp á sjóntækjamælingu, heyrnamælingu auk þess sem hægt verður að fara á kaffihús og kaupa dekk.”   Þarna verða sjálfsagt margar heyrnir  mældar og  svo verður þarna fyrsta kaffihúsið á Íslandi, sem  selur dekk.

 

ILLSKILJANLEG ÓKURTEISI

Það er illskiljanleg ókurteisi Ríkissjónvarpsins að tilkynna okkur ekki dagskrárröskun með skjáborða. Seinni fréttum  seinkaði um meira en tíu mínútur á mánudagskvöld (14.09.2015). Engin skjátilkynning,  en  fréttaþulur baðst afsökunar á seinkuninni í upphafi fréttatímans. Gott. En ekki nógu gott. – Niðursoðnar dagskrárkynningar eru ekki boðlegar og það er ekki tæknilega flókið að setja upplýsingar á skjáborða.

 

ÍSLENSKT MÁL  Í ÖNDVEGI

Það er  góður siður í Morgunútvarpi Rásar tvö að ræða vikulega  við málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins um íslenskt mál og málnotkun. Í spjallinu  sl. þriðjudag (15.09.2015) vísaði  ráðunautur  til stjórnmálamanns, ráðherra  sem  rætt hafði verið við fyrr í þættinum og talaði sérstaklega  vandað mál. Ef átt var við ráðherrann sem  sagði:   síðast þegar ég tékkaði, talaði um Akranesinga , forsendunar og að  forma húsnæðislánakerfið, þá   eru kröfurnar um vandað málfar  nú reyndar ekki mjög strangar. En það er  þarft verk að spjalla um málfar í   fjölmiðlum og benda á það sem betur má fara. Til þess arna mætti gjarnan  verja meiri  tíma í þessari stofnun okkar allra.

 

 TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1796a

ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT

Prófessor emerítus Helgi Haraldsson í Osló skrifaði Molum (15.09.2015):

,,Sæll Eiður.

Tek undir:

Það er orðið æ algengara að sjá þessa villu; fyrirsögn á visir.is (13.09.2015): Fimm til tíu skipulagðir glæpahópar starfi á höfuðborgarsvæðinuhttp://www.visir.is/fimm-til-tiu-skipulagdir-glaepahopar-starfi-a-hofudborgarsvaedinu/article/2015150919518

Ég hef lagt til hliðar nokkur dæmi um þennan óþrifnað:RÚV:  http://www.ruv.is/frett/kristnir-saeti-ofsoknum-i-israel 

DV 1. febr. 2013:

Reykingar aukist í þeim aldurshópi sem tekur mest í vörina

Undarleg hvatning.

Erlent | mbl | 24.5.2012 Hvatt til heimtufrekju:

Norskir ríkisstarfsmenn geri of miklar kröfur

 Mbl. 4/7-09

Hondúras segi sig úr Samtökum Ameríkuríkja

Skattahækkanir skili litlu  http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item286286/

Mann rekur í rogastans yfir því að nokkur skuli óska eftir því að skattahækkanir verði til lítils gagns.

En því miður virðist þetta vera enn eitt tilfelli af málvillufaraldri sem herjar á íslenska fjölmiðla um þessar mundir:.

Mogginn telur t.d. æskilegt að leit að vírus endi með smiti:

Tækni & vísindi | mbl.is | 31.3.2009 | 23:34

Vírus smitist við leit

Fyrirtækið Symantec, sem sérhæfir sig í vírusvörnum fyrir tölvur, varar við því að leita að upplýsingum um tölvuvírusa á netinu. Slái fólk inn nöfn á vírusum eins og „Conficker“, sem er vírus sem nú er í umferð, geti fólk villst inn á síður sem hýsi vírusinn.

 

 Hvatt til þess að

  fjöldi manns í Danmörku verði atvinnulaus:

Erlent | mbl | 31.3

100.000 missi vinnu í Danmörku

Frá Árósum í Danmörku.

Þrátt fyrir að þúsundir Dana hafi þegar misst vinnuna á liðnum mánuðum segja sérfræðingar sem Berlingske Tidende ræddu við að fleiri fjöldauppsagna sé að vænta á næstunni. Búist er við að allt að 100.000 manns missi vinnuna á árinu.

DV lætur ekki sitt eftir liggja og vænir Brasiliuforseta um að  vilja koma ábyrgðinni á kreppunni á bláeyga hvítingja:

DV 27/3: http://www.dv.is/frettir/2009/3/26/hvitt-folk-med-bla-augu-beri-abyrgd-kreppunni/

Hvítt fólk með blá augu beri ábyrgð á kreppunni !

En að öllu samanlögðu er þú RÚV líklega illviljaðasti miðillinn: leggur m.a. til að fermingarbörn reyki gras og að rauðu kjöti auðnist að valda heilsutjóni:

Rúv:  26.03.2009 15:06

Jafnvel fermingarbörn reyki gras

Stórir hópar fermingarbarna hafa byrjað neyslu á Maríjúana og telja það ekki vera skaðlegt.   

RÚV 25.03.2009 08:55

Rautt kjöt skaði heilsuna

Vísindamenn við bandarísku krabbameinsstofnunina The US National Cancer Institute hafa birt nýjar upplýsingar sem sýna að mikil neysla á rauðu kjöti og unnum kjötvörum veldur heilsutjóni, aukinni hættu á krabbameini, hjartasjúkdómum og dauða.

Lokaniðurstaðan er:

Fréttamenn valdi málspjöllum!

Heyr vora bæn.

Í alvöru talað - hafa fjölmiðlarnir enga málglæpalögreglu?

 

Prof. emeritus

Helgi Haraldsson, ILOS

(Institutt for litteratur, områdestudier og europeiske språk). Mobil 481 07 045”

Kærar þakkir, Helgi,  fyrir þessa þörfu upprifjun og ádrepu. 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1795

VIÐ AKKERI Á SNÆFELLSNESI

Skip Greenpeace liggur nú fyrir akkerum á Snæfellsnesi, var sagt í fréttayfirliti Bylgjunnar á hádegi á mánudag (14.09.2015). Grænfriðungar munu hingað komnir til að freista þess að trufla hvalveiðar skipa Hvals h.f. Ef skipið liggur við akkeri á Snæfellsnesi, eins og sagt var í fréttayfirlitinu truflar það varla hvalveiðar. Molaskrifari er vanari því að tala um að skip liggi við akkeri fremur en að skip liggi fyrir akkerum, þótt þannig sé vissulega einnig tekið til orða.  Seinna í fréttinni kom fram, að skip Grænfriðunga er utan við Arnarstapa sem sannarlega er á Snæfellsnesi.

Í sama fréttatíma talaði fréttamaður um fullkomið skilningarleysi! Ja, hérna Átt var við algjört skilningsleysi.

 

Í BAK OG FYRIR

Fætur okkar eru bundnir í bak og fyrir, var haft eftir talsmanni lögreglumanna á visir. is (14.09.2015) í frétt um kjarabaráttu lögreglumanna. Í bak og fyrir þýðir að framan og að aftan. Molaskrifari viðurkennir að hann á svolítið erfitt með að sjá nokkurn mann fyrir sér með fætur bundna í bak og fyrir, eins og  þarna er sagt. http://www.visir.is/-faetur-okkar-eru-bundnir-i-bak-og-fyrir-/article/2015150919442

 

STAÐSETNING

Af mbl.is (14.09.2015): ,,Eru þeir sem hafa orðið var­ir við um­rædd skemmd­ar­verk á bif­reiðum sem staðsett­ar voru við Bola­fót nr. 11 og 15 í Njarðvík fyr­ir og um helg­ina að hafa sam­band í síma 4442200.” Þetta er ef til vill tekið hrátt upp úr dagbók lögreglunnar. Bílarnir voru ekki staðsettir, - þeir voru við Bolafót nr. 11 og nr. 15 í Njarðvík.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/14/sex_bilar_skemmdir/

 

 

RUGLIÐ UM RÚV

Það var engu  líkara í tíð fyrrverandi útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, en starfsmönnum væri harðbannað að taka sér í munn eða nota hið lögbundna heiti stofnunarinnar. Þess í stað var sífellt talað um RÚV þetta eða RÚV hitt. Ýmist var þetta borið fram /rúv/ eða /rúff/. Nú ríkir algjör ruglingur um hvað þetta RÚV er. Stundum er það notað um sjónvarpið eingöngu, þar segja menn gjarnan ,,Hér á RÚV”. “ Eins og RÚV sagði frá hér í morgun “ var sagt á Rás eitt að morgni þriðjudags (15.09.2015). Hvaða RÚV var það? Svo er talað um Rás eitt og Rás tvö, sem eru þá ekki RÚV, eða hvað?  Hvernig væri að hætta þessu rugli og fara að kalla þessa stofnun, sem þjóðin á, sínu rétta nafni?

 

SMELLIN FYRIRSÖGN

Sjampó-innflytjendur í hár saman, er smellin fyrirsögn á dv.is (14.09.2015):

http://www.dv.is/frettir/2015/9/14/sjampo-innflytjendur-i-har-saman-facebook/

Fréttin er um verðstríð á hárþvottaefnis- og snyrtivörumarkaði hérlendis.

 

HRÓS

Þeir Ingólfur Bjarni Sigfússon og Ragnar Santos eiga sérstakar þakkir skildar fyrir fréttir  af flóttafólki í  Evrópu í Ríkisútvarpinu, - útvarpi og sjónvarpi.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1794

 

ALGENG VILLA

Það er orðið æ algengara að sjá þessa villu; fyrirsögn á visir.is (13.09.2015): Fimm til tíu skipulagðir glæpahópar starfi á höfuðborgarsvæðinu http://www.visir.is/fimm-til-tiu-skipulagdir-glaepahopar-starfi-a-hofudborgarsvaedinu/article/2015150919518

Þetta hljómar eins og verið sé að ráðgera að fimm til tíu skipulagðir glæpahópar skuli starfa á höfuðborgarsvæðinu. Undarleg meinloka. Hugsunarvilla. Í skýrslu lögreglunnar er talið, að sennilega starfi fimm til tíu skipulagðir glæpahópar á höfuðborgarsvæðinu. Það verður að gera þá kröfu til þeirra sem semja fyrirsagnir frétta og skrifa fréttir  að þeir séu betur að sér um notkun móðurmálsins, en þetta ber vott um.

 

GAMALL LEIKUR

Leikurinn var ekki nema fimm mínútna gamall, (þegar eitthvað markvert gerðist) sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö ( 13.09.2015).

Molaskrifara hefur alltaf þótt þetta heldur hvimleitt orðalag. Heyrist hjá íþróttafréttamönnum og apar þar hver eftir öðrum.  Hvað, ef eitthvað markvert gerist til dæmis á átttugustu og annarri mínútu leiksins? Er þá leikurinn áttatíu og tveggja mínútna gamall eða á hann þá átta mínútur ólifaðar? Molaskrifara finnst þetta svona heldur kjánalegt orðalag.

 

HÚSIÐ INNIHELDUR ...

 Mörg er snilldin á svokölluðu Smartlandi mbl.is. Þetta var skrifað þar nýlega (13.09.2015): ,,Söng­kon­an Miley Cyr­us keypti sér hús á 435 millj­ón­ir króna þegar hún var aðeins 17 ára. Húsið inni­held­ur fjög­ur svefn­her­bergi og fimm baðher­bergi.”.

 Í húsinu eru fjögur svefnherbergi. Húsið inniheldur ekki herbergi. Í því eru herbergi.

 

ENDURTEKIÐ EFNI

Eftir hádegi á laugardag (12.09.2015) hlustaði Molaskrifari á þátt á Rás eitt um dægurtónlist á tuttugustu öldinni, Aldamótaljóð og íslensk sönglög. Þetta var þáttur númer tvö í röðinni. Fróðlegur þáttur og skemmtilegur, eins og umsjónarmanna var von og vísa, en það voru þeir Jónatan Garðarsson og Ásgeir Tómasson.

Í þáttarlok var sagt, að þetta væri endurflutt efni frá árinu 2001. Það eru hinsvegar undarleg vinnubrögð að á heimasíðu Ríkisútvarpsins er hvorki greint frá því að þetta sé endurtekið efni né hverjir séu umsjónarmenn og eiga þeir þó sannarlega heiður skilinn.

 

HRÓS

Kastljós gærkvöldsins (14.09.2015) fær sérstakt hrós fyrir ítarlega og vandaða umfjöllun um flóttamannavandann. Fáir, sem sáu hafa sennilega verið ósnortnir. Þetta geta menn í Efstaleiti, þegar þeir leggja sig fram. Takk.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1793

 

GÓÐ UMFJÖLLUN

Í fréttum Ríkissjónvarps (12.09.2015) var prýðileg umfjöllun um ólöglega og forkastanlega framkomu íslenskra vinnuveitenda við erlent verkafólk, sem hingað kemur til starfa í skamman tíma, einkum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Fulltrúi pólska sendiráðsins á Íslandi staðfesti þetta kurteislega og með hógværð í viðtali í fréttatímanum. Þetta er okkur til skammar. Sjónvarpið á að fylgja þessu eftir og gott er að fram komi hvaða fyrirtæki, hvaða vinnuveitendur koma hér við sögu.

 

GLEIÐ - GLÖÐ

Gleið á frumsýningu Georgs Guðna, sagði í fyrirsögn á Smartlandi mbl.is (12.09.2015) http://www.mbl.is/smartland/samkvaemislifid/2015/09/12/gleid_a_frumsyningu_georgs_gudna/

Molaskrifara og ýmsum öðrum kann að hafa þótt þetta undarleg fyrirsögn, þótt gleiður geti reyndar þýtt kátur, glaðhlakkalegur. Svo kom í ljós að þetta var bara venjuleg Smartlandsvilla því fyrirsögnin var leiðrétt: Glöð á frumsýningu Georgs Guðna. http://www.mbl.is/smartland/samkvaemislifid/2015/09/12/glod_a_frumsyningu_georgs_gudna/

Með fréttinni eru birtar myndir af fólki sem var við frumsýningu myndarinnar um listmálarann Georg Guðna. Molaskrifari hefur séð myndina. Þetta er vönduð heimildamynd um mikinn listamann, sem féll frá langt um aldur fram. Myndin er aðstandendum öllum til sóma, en sumum gæti þótt að hún þyldi svolitla styttingu.

 

HÚS - HÚSNÆÐI

Úr frétt á mbl.is (10.09.2015): ,,Björg­un­ar­sveit­in Lífs­björg í Snæ­fells­bæ var kölluð út rétt fyr­ir klukk­an 12 í dag þar sem þak­plöt­ur voru að losna af gömlu fisk­verk­un­ar­hús­næði á Hell­is­sandi.” Ekkert rangt, strangt til tekið, að tala um fiskverkunarhúsnæði. En Molaskrifara hefði þótt eðlilegra að tala um gamalt fiskverkunarhús, fremur en gamalt fiskverkunarhúsnæði. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/10/thakplotur_fuku_a_hellissandi/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1792

   

SEINT BRUGÐIST VIÐ

Fréttastofa Ríkisútvarpsins var lengi að taka við sér og skynja að í Evrópu eru að gerast mestu stórtíðindi og hörmungar seinni ára. Stöð tvö var fljótari að átta sig.  Það var ekki fyrr en á miðvikudag að fréttamaður Ríkisútvarps var kominn þangað sem atburðirnir voru að gerast í Evrópu og Ingólfur Bjarni Sigfússon stóð og stendur þar vel fyrir sínu. En það ber ekki vott um góða stjórnun eða gott fréttamat að bregðast ekki fyrr við.

 

AÐ KAUPA – AÐ VERSLA

 Fyrirsagnasmiðum Kjarnans er ekki ljós merkingarmunur sagnanna að kaupa og að versla. Erlendir fjárfestar versla enn meira af ríkisskuldabréfum, sagði í fyrirsögn á fimmtudag (10.09.2015.) Í upphafi fréttarinnar er hinsvegar réttilega sagt: ,,Erlendir fjárfestar héldu áfram að kaupa innlend ríkisskuldabréf í síðasta mánuði. http://kjarninn.is/2015/09/erlendir-fjarfestar-versla-enn-meira-af-rikisskuldabrefum/

 

AÐ STÍGA Á STOKK

Í þætti um bókmenntahátíð í Reykjavík, sem endurtekinn var í Ríkisútvarpinu aðfaranótt fimmtudags (10. 09.2015) var sagt frá því að Þóra Einarsdóttir söngkona mundi þar stíga á stokk. Þóra ætlaði að koma fram á hátíðinni og syngja. Hún ætlaði ekki að stíga á stokk og strengja heit. – Málfarsráðunautur þarf enn að brýna fyrir dagskrárgerðarfólki að fara rétt með þetta orðtak.

 

HÁLFNÓTAN

Hálfnótan í umsjón Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur á Rás eitt á morgnana á virkum dögum er fín viðbót við morgunútvarpið. Þátturinn mætti að skaðlausu vera lengri. Það voru óskiljanleg mistök að vera með sama langa þáttinn samtímis á báðum rásum. Þetta er góð breyting.

 

AFTUR OG AFTUR

 Aftur og aftur eru fréttir Ríkissjónvarps fluttar til og Kastljós fellt niður vegna boltaleikja, sem nægur sómi væri sýndur með því að sýna þá á íþróttarásinni, sem svo er nefnd.

Við áhorfendur erum sjálfsagt nokkuð margir, sem sýnist að íþróttastjóri Ríkisútvarpsins sé orðinn næsta einráður um dagskrána. Stjórni því hvenær fréttir eru fluttar frá sínum fasta stað í dagskránni og hvenær Kastljósið er fellt niður. Þannig á það ekki að vera. Og er nú nóg sagt að sinni. Þykir ýmsum líklega að mikið sé nöldrað, en Molaskrifari þykist þó vera sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum!

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1791

 

UM OFNOTKUN

JBG. sendi Molum þetta ágæta bréf (08.09.2015): ,,Sæll, Eiður! Hvað finnst þér um (of)notkun orðsins "grasrót"? Nú er sýknt og heilagt verið að vitna til þessarar blessuðu "grasrótar"; hvað henni finnist; að nauðsyn beri til að hlusta á vilja hennar; að hún verði að fá að tjá sig. Ég veit ekki um þig en í mínu umhverfi þegja grasrætur alltaf þunnu hljóði!
Ekki þá má ekki gleyma orðtakinu " að stíga varlega til jarðar"! Nú orðið fer ekki nokkur maður fram með gát, sýnir aðgæslu né fer varlega. Nei, hann "stígur varlega til jarðar"! 
Og hvað finnst þér um "heildarlausnir í skipulagi leikvalla"? Eru leikvellir /skipulag þeirra (og mörg önnur fyrirbrigði í daglegu lífi og í umhverfi okkar) orðnir vandamál? Það hlýtur að vera!
Og svo eru það blessaðir hraðbankarnir. Er hægt að "vinna" beiðni? Eftir minni málvitund bregst maður við beiðni, maður verður við henni, svarar henni, sinnir henni. En maður "vinnur" hana ekki sem hvert annað verk eða verkefni.
Stígðu heill á storð! JBG” - Kærar þakkir fyrir bréfið, JBG.

 

INDÍÁNASUMAR?

Dálitið undarlegt að heyra fréttamenn Ríkisútvarps tönnlast á orðinu ,,Indíánasumar” um hlýindadagana fyrir austan að undanförnu. Á ensku (einkum vestanhafs) er talað um Indian summer , hlýindatímabil seint í september, október eða jafnvel enn síðar. Allsendis óvíst að þetta tengist Indíánum með nokkrum hætti. Sumarauki, segja sumir á íslensku, en það orð er notað um annað samkvæmt íslenskri orðabók og almanaki (Sjá það sem segir um sumarauka hér: http://www.almanak.hi.is/f2.html. )

En vissulega er það sumarauki, blíðviðrið, sem menn hafa notið eystra að undanförnu. Og Molaskrifara finnst það raunar ágætishugmynd að gefa þessu gamla, nú lítt notaða orði ,nýja merkingu og hætta að nota hráþýðingu úr erlendu máli um góðviðriskafla á hausti.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1790

UM FRAMBURÐ

Í útvarpsþætti skömmu eftir hádegið á mánudag (07.09.2015) var rætt við unga konu sem sagði: - sesett, einu sinni, ef ekki tvisvar. Það rann svo upp fyrir Molaskrifara að hún var að reyna að segja sem sagt. Og það sem hún var kynna eða segja frá var mjög skettlett , hún átti við að það væri mjög skemmtilegt.  Þessi framburður er að verða nokkuð algengur. – Hefur reyndar verið nefnt áður í Molum.

 

AÐ ,,MÚLTITASKA”

Molaskrifari hrökk svolítið við er hann sá þessa slettu í fyrirsögn á leiðarasíðu Fréttablaðsins (07.09.2015). Við getum múltitaskað var fyrirsögn greinarinnar. Greinin endaði á orðunum: ,,Og við getum multitaskað”. Greinina skrifar framkvæmdastjóri líknarsamtaka. Hún er um aðstoð við flóttamenn. Hef ævinlega heyrt þann ágæta mann tala og ritað vandað mál.  Þess vegna hrökk ég kannski meira við. Átt er við að við getum gert fleira en eitt  samtímis. Slettan er ættuð frá stjórnsíðum snjallsíma og  spjaldtölva e. multitasking. Allsendis  óþörf sletta eins og vakin hefur verið athygli á í netheimum.

Minnir svolítið á söguna um Bandaríkjaforseta á öldinni sem leið, sem sagt var, að gæti ekki gengið og tuggið tyggigúmmí samtímis. Á slettumáli héti það líklega að hann gæti ekki multitaskað.

 

ÓLÍKT HÖFUMST VIÐ AÐ ....

Fréttamaður Stöðvar tvö er Í Búdapest og segir okkur fréttir af vandamálum flóttamanna, flóttamannastraumnum, - umfangsmesta og erfiðasta vanda sem komið hefur upp í álfunni mörg ár. Ríkissjónvarpið sendir fréttamenn út um allar trissur í útlöndum til að segja okkur hvað við sjáum á skjánum, þegar verið er að sýna boltaleiki.

 

HUNGUR OG ÞORSTI

Í Ríkissjónvarpinu (07.09.2015) var okkur sagt frá flóttamanni , þrettán ára dreng sem hafði misst meðvitund  vegna skorts á mat og vatni. Ekkert rangt við þetta orðalag, en Molaskrifari hefði fremur sagt, að drengurinn hefðu misst meðvitund vegna hungurs og þorsta.

 

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1789

  

LÉLEG ÞÝÐING

G.G. skrifaði (06.09.2015): Hann segir: : Held að þú hefðir áhuga á að lesa þetta: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/09/06/thurfti_ad_drekka_brjostamjolk_ur_hundi/

,,Átakanleg saga, en þýðingin er það ekki síður! Fyrir það fyrsta geta hundar ekki mjólkað, en tíkur geta gert það. Í annan stað þá eru ekki brjóst á tíkum, heldur júgur með spenum. Úr þeim getur komið það sem heitir "tíkarmjólk" á íslensku.” – Rétt G.G. Þarna hefur ekki verið vandað til verka. Þakka ábendinguna.

 

MÓTTÖKUR FLÓTTAFÓLKS OG FLEIRA

Molalesandi benti á þessa frétt af visir.is (05.09.2015) :http://www.visir.is/hrosa-austurriki-og-thyskalandi-fyrir-mottokur-flottafolks/article/2015150909266?fb_action_ids=917117598361839&fb_action_types=og.comments

Fyrirsögninn er ankannaleg, en bréfritari vakti sérstaka athygli á texta með mynd,sem fréttinni fylgir. Þar segir: ,, Þúsundir flóttamanna gengu af stað frá Búdapest til Ungverjalands, en á endanum var þeim keyrt í í rútum.” Um þetta er tvennt að segja: Búdapest er í Ungverjalandi,- Búdapest er höfuðborg Ungverjalands. Flóttamönnunum var ekki keyrt, ekið var með þá í rútum. Þakka bréfið.

 

UM KYNNINGU

- Við erum mjög spennt að kynna leikhúsgesti fyrir komandi leikári, sagði leikhússstjóri Borgarleikhúss í ágætum menningarþætti Brynju Þorgeirsdóttur í beinni útsendingu úr Borgarleikhúsinu á föstudagskvöld (04.109.2014). Svolítið umsnúin hugsun. Væntanlega hefur hugsunin verið önnur: Að kynna leikárið fyrir leikhúsgestum. Svona brengl er reyndar alls ekki nýtt af nálinni.

 

FJÁRKÚGUN

Í fréttum Ríkisútvarps (06.09.2015) var talað um að fjárkúga fólk. Er ekki málvenja að tala um að kúga fé af fólki? Beita einhvern/einhverja fjárkúgun? Minnir það.

 

 

KÚREKI NÆTURINNAR

Kúreki næturinnar , Midnight Cowboy, (1969) með þeim Dustin Hoffman og Jon Voight er með bestu bíómyndum að mati Molaskrifara. Ríkissjónvarpið sýndi myndina á föstudagskvöld (04.09.2015). Svona góðar myndir mættu gjarnan vera á dagskrá fyrr á kvöldinu. Líka mætti kynna sýningarseinkun með skjáborða. Kannski var það gert. Skrifari lét nægja að hafa hljóðið á meðan hann beið eftir myndinni framundir miðnætti. Minnist þess ekki að hafa séð lélega mynd með Dustin Hoffman.

 

SVOLÍTILL ÚTÚRSNÚNINGUR

Þær eru merkilegar ljósavélarnar í Herjólfi. Bæjarstjórinn í Eyjum talaði um í fréttum síðastliðinn sunnudag (06.09.2015) að vegna rafmagnsleysis frá veitukerfi þyrfti fólk kannski að horfa á tiltekinn íþróttaleik í gegnum ljósavélar Herjólfs!

 

BOLTABRJÁLVÆÐING

Svo mjög hefur Ríkisútvarpinu tekist að boltabrjálvæða þjóðina að nú stjórnar íþróttastjóri Ríkisútvarpsins því hvenær Alþingi Íslendinga er sett!

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband