14.12.2016 | 09:49
Molar um málfar og miðla 2073
FYRIR EÐA HANDA?
Sveinn skrifaði(11.12.2016): Sæll Eiður,
ég var að fletta sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins og sá þar fyrirsögnina: Jólagjafir fyrir börnin. Fyrir neðan var svo textinn: Það getur stundum reynst erfitt að finna fullkomna gjöf fyrir mikilvægasta fólkið.
Vegna þess að þetta kemur fyrir í tvígang og í annað skiptið í fyrirsögn velti ég fyrir mér hvort þetta sé ekki örugglega villa. Það eru jú kynntar á síðunni hugmyndir að gjöfum handa börnum.
Á ekki örugglega að standa ,,Jólagjafir HANDA börnum og ,,Það getur stundum reynst erfitt að finna fullkomna gjöf HANDA mikilvægasta fólkinu? Þakka bréfið, Sveinn. Sammála þér. Þarna færi betur á að tala um jólagjafir handa börnum, ekki fyrir börn.
PISA
Pisa skýrsla og slök frammistaða íslenskra nemenda hefur verið til umræðu. Eiríkur Rögnvaldsson málfræðiprófessor hefur réttilega gagnrýnt og birt dæmi um vondar, klúðurslegar og jafnvel torskiljanlegar þýðingar úr prófinu. Hver á að gæta varðanna, gæti maður spurt. Í morgunþætti Rásar tvö (12.12.2016) var rætt við ,,uppeldis- og menntunarfræðing, fyrrum skólastjóra. Þar talaði viðmælandinn um strúktúrbreytingar, að markera og addressa dag íslenskrar tungu. Ég er enn að velta fyrir mér hvernig skólafólk addressar dag íslenskrar tungu. Ja, hérna. Fyrir utan þrisvar sinnum ég mundi segja
. Það var og. Kannski er ekki nema von, að börnin sletti, ef fyrirmyndirnar tala svona.
FALLBEYGINGAR
Í fréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (10.12.2016) sagði fréttaþulur skírt og greinilega: ,, ..og Tryggvi Aðalbjörnsson talaði við Birgittu Jónsdóttir þingflokksformann Pírata. Við ætlumst til þess að fréttamenn kunni að beygja og nota orðin móðir og dóttir. Er það til of mikils mælst? Þetta er hluti af námsefni grunnskólans. Þetta var rétt í fréttum klukkan 22 00. Svo var rætt við Birgittu Jónsdóttur, sem sagði um stjórnarmyndunarviðræðurnar, sem enginn vissi þá hvort voru formlegar eða óformlegar eins og tönnlast var á í fréttum: ,, við verðum að koma með einhverjar konkrít tillögur. Katrín Jakobsdóttir notaði hins vegar orðið handfast, - eitthvað sem hægt er að festa hönd á. Enska orðið concrete, þýðir m.a. raunhæfur eða áþreifanlegur. Það getur líka þýtt steypa, steinsteypa.
RÁÐAHAGUR RÁÐABRUGG
Í útvarpsþætti á Rás eitt sl. laugardag var fjallað um Syngman Rhee, fyrsta forseta ( og gjörspilltan einræðisherra Suður Kóreu, 1948 til 1960). Þar var talað um þennan ráðahag Rhees, - átt var við ráðabrugg, eða launráð. Ráðahagur þýðir allt annað, - ráðahagur þýðir kvonfang, ekki ráðabrugg eins og umsjónarmaður líklega hélt. Orðabækur eru þarfaþing, ef maður er ekki viss í sinni sök.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2016 | 08:43
Molar um málfar og miðla 2072
SKJÖLUN
Molaskrifari les ekki auglýsingar Fréttablaðsins að jafnaði. Glöggur vinur benti honum á auglýsingu í Fréttablaðinu sl. laugardag (10.12.2016) Þar auglýsir fyrirtækið Össur: ,, Sérfræðingur í skjölun á klínískum upplýsingum vegna þróunar og markaðssetningar lækningatækja. Vinur skrifara spurði hvort orðið skjölun væri dregið af sögninni að skjala. Í auglýsingunni kemur fram að starfið felist í ,, gerð og viðhaldi skjala til staðfestingar á virkni lækningatækja . Molaskrifari þakkar ábendinguna. Skjölun er varla dregið af sögninni að skjala. Sú sögn þýðir nefnilega samkvæmt orðabókinni að þvaðra, masa, tala af ábyrgðarleysi, eða að gorta, gambra, stæra sig af. Skjala af framgöngu sinni. - Það var og. Þarna er greinilega verið að gefa gömlu orði nýja merkingu, - alls óskylda hinni fyrri. Örugglega hafa fleiri hnotið um þetta.
MEIRA UM AUGLÝSINGAR
Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (09.12.2016): ,,N1 birtir auglýsingu með villu á forsíðu Fréttablaðsins 8. desember 2016:
13 krónu afsláttur fyrir N1 korthafa. Í dag færð þú 13 krónu afslátt af hverjum eldsneytislítra og tvo N1 punkta að auki.
Þetta ætti að vera 13 króna afsláttur því um er að ræða krónur í ef. fleirtölu. Væri um eintölu að ræða væri sagt einnar krónu afsláttur. Máltilfinningin hlýtur að gera vart við sig ef sett er eitthvað annað orð í staðinn fyrir króna, til dæmis fugl Ekki er hægt að segja þrettán fugls aflsáttur heldur þrettán fugla aflsláttur.
Orðið króna beygist svo í eintölu; króna, krónu, krónu, krónu. Í fleirtölu; krónur, krónur, krónum króna. Þakka bréfið, Sigurður.
Hér er svo annað dæmi um villu í auglýsingu, sem lesin var á Rás eitt sl. föstudag: ,, Verðlækkun á öllum lifandi jólatrjám vegna styrkingu krónunnar. Þetta á að vera vegna styrkingar krónunnar.
Í Fréttatímanum (09.12.2016)auglýsir Tapasbarinn: ,,Kalkúnabringa með spænskri ,,stuffing og . Er ekki ,,stuffing fylling á íslensku? Kannski þekkti höfundur auglýsingarinnar ekki það orð.
Skrítið að engum á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins skuli detta í hug að leiðrétta jafn augljósa slettu og hér er á ferð.
Molaskrifari spyr: Er hann einn um að vera orðinn þreyttur á görguðum og groddalegum auglýsingum Lottósins, íslenskrar getspár í útvarpi?
Útvarpsauglýsingar frá Kaupfélagi Borgfirðinga og Hamborgarabúllu Tómasar eiga það til að vera bráðskemmtilegar. Hrós fyrir það. Meira máli skiptir að vera hógvær og kurteis, en grófur og ágengur. Það skilar betri árangri, þegar upp er staðið.
UM RISAEÐLUHALA
Rafn skrifaði (09.12.2016): ,,Sæll Eiður.
Hér ræðir vefur Mogga um nýfundinn risaeðluhala. Að sögn er um að ræða fjöður úr hala risaeðlu á stærð við spörfugl.
Í minni sveit hétu halar af þessum toga stél og ekki veit ég hvort eðla á stærð við spörfugl hefði verið nefnd risaeðla á þeim slóðum.
Þetta er fréttin: ,, Fallegur risaeðluhali finnst í rafi. http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/12/09/fallegur_risaedluhali_fannst_i_rafi/
Já, svolítið skrítin skrif. Þakka bréfið, Rafn.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2016 | 09:06
Molar um málfar og miðla 2071
KOLMUNNI- SVARTKJAFTUR
Á mbl.is (08.12.2016) segir frá því að Bjarni Ólafsson AK 100 hafi fengið 1500 tonn, fullfermi, af kolmunna á tveimur dögum á Færeyjamiðum á tveimur dögum. Í fréttinni segir: ,, Kolmunni er uppsjávarfiskur af þorskaætt og dregur nafn sitt, jafnt sem viðurnefnið svartkjaftur, af því að munnur hans er svartur að innan.
Hér fatast fréttaskrifara svolítið flugið. Svartkjaftur er ekki viðurnefni. Svartkjaftur er færeyska heitið á kolmunna. ,,Slag af smáum toskafiski (Micromesistius poutassou). Segir færeyska orðabókin mín. Fiskurinn, sem heitir grálúða á íslensku, heitir svartkalvi á færeysku. Norðmenn kalla kolmunnann kolmule.
http://www.mbl.is/200milur/frettir/2016/12/07/bjarni_sopadi_upp_svartkjaftinum/
SAMRÆMI
Í útvarpsfréttum (Rás eitt 08.12.2016) var sagt: Mennirnir gátu ekki samrýmt framburð sinn, - að minnsta kosti gat Molaskrifari ekki heyrt betur. Um var að ræða menn, sem höfðu verið handteknir. Þeir gátu ekki samræmt framburð sinn, - þeim bara ekki saman. Klúðurslega orðað, reyndar.
STAÐSETNING
Margir texta- og fréttaskrifarar hafa dálæti á sögninni að staðsetja. Hún er nær alltaf óþörf. Í nýlegri auglýsingu frá Íslandsbanka segir: Hraðbankar verða áfram staðsettir á Garðatorgi, á Digranesvegi og í Mjódd. Orðinu staðsettir er ofaukið. Hraðbankar verða áfram á Garðatorgi, á Digranesvegi og í Mjódd.
Í UPPHAFI
Molaskrifari hefur stundum nefnt, að tilefni þess að hann hóf ritun þessara Mola var meðal annars það, að hann hnaut um sitthvað í fréttum og fréttaskrifum. Nokkrum sinnum sendi hann tölvupóst til fréttastofu Ríkisútvarpsins með vinsamlegum ábendingum um það sem betur mætti fara í málfari. Einu sinni, aðeins einu sinni, barst svar , - og þakkir frá fréttamanni.
Molaskrifari ákvað laugardaginn 3. desember að gera aðra tilraun af þessu tagi, - senda fréttamanni/umsjónarmanni þáttar skilaboð á útvarpsvefnum með vinsamlegri ábendingu.
Tilefnið var að hann hafði hlustað á langan og fróðlegan þátt á Rás eitt um Tasmaníu og Tasmaníu tígurinn. Að minnsta kosti fjórum sinnum talaði umsjónarmaður og þulur um skipsverja, ekki skipverja eins og rétt er. Sagt var að tígur hefði andast. Dýr drepast, fólk andast.
Nú er liðin meira en vika frá því athugasemdin var send. Ekkert svar. Það er gamall íslenskur siður að svara ekki bréfum. Ekki er það góður siður. En kannski er umsjónarmaður þeirrar skoðunar að hlustendur eigi ekki að hafa neinar skoðanir á málfari í Ríkisútvarpinu. Komi það ekki við. Molaskrifari er annarrar skoðunar. Annars er þessi umsjónarmaður prýðilega máli farinn, en öllum getur skjöplast.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2016 | 07:13
Molar um málfar og miðla 2070
ENN ER KOSIÐ
Hér er aftur og aftur minnst á sömu hlutina. Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (05.12.2016) var sagt: Ítalska þjóðin kaus gegn stjórnarskrárbreytingum .. Hér hefði verið eðlilegra að segja , til dæmis: Ítalska þjóðin hafnaði stjórnarskrárbreytingum . Ítalska þjóðin felldi stjórnarskrárbreytingar Ekk,i kaus gegn. - Hvað segja lesendur? Er þetta sérviska Molaskrifara?
VIÐSKIPTI
Í Kastljósi (005.12.2016) var fjallað um viðskipti með hlutabréf og sagt: ,, . og seldi hlutabréf í tveimur viðskiptum .. Molaskrifara hefði þótt eðlilegra að tala um tvenn viðskipti ekki tvö viðskipti.
RÉTT EÐA RANGT?
Geir Magnússon, sem er búsettur erlendis, sendi Molaskrifara þetta bréf (07.12.2016):
,,Kæri Eiður
Las þáttinn þinn í morgun.
Moggabörnin eru alltaf söm við sig, svara fullum hálsi, ef þeim er bent á hugsanlega villu.
Um daginn var frétt um aldraða kú, sem hafði borið, þrátt fyrir háan aldur..
Fréttin byrjaði á dönskum greini,hin og fann ég að því.
Danskur greinir, eða laus greinir, ríður húsum hjá mbl.is og virðist enginn þar hafa neitt við það að athuga.
Fréttaritari svaraði mér og sagði íslenzkufræðing þeirra ekkert hafa við þetta að athuga.
Í annarri frétt, um barn, sem dó úr ofhitnun í bíl, sagði, að faðirinn hefði skilið það eftir tímunum saman þennan dag.
Ég fann að þessu, mér finnst að tímunum saman megi ekki nota um einstaka bið, heldur endurtekinn atburð eins og til dæmis :Hann kemur hér oft og situr þá tímunum saman.
Er þetta rangt hjá mér?
Kveðja Geir. Molaskrifari þakkar bréfið. Rétt eða rangt,- stundum erfitt að segja, en Molaskrifarit rekur undir með þér, Geir.
ÞINGSETNING OG FLEIRA
Molaskrifara fannst það stílbrot að sjá í sjónvarpsfréttum silfurlitan farsíma liggja á borði iðnaðar- og viðskiptaráðherra við þingsetninguna sl. þriðjudag (06.1.2016). Sömuleiðis að sjá þingmann, sem virtist niðursokkinn í að senda smáskilaboð með farsímanum sínum. Þetta er ef til vill gamaldags viðhorf, en þetta finnst skrifara nú samt.
Í frétt Ríkissjónvarps um þingsetninguna var vitnað í ræðu Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands og sagt: Hann taldi fleira hafa hrunið hér en bankarnir. Þetta er rangt og ekki við forsetann að sakast, heldur þann sem skrifaði fréttina. Þetta hefði átt að vera: Hann taldi fleira hafa hrunið hér en bankana. Einnig var sagt, að á fundinum hefði verið hlutað til um sæti þingmanna. Það var hlutað um sæti þingmanna. Þingmenn drógu tölusetta teninga úr kassa. Á teningunum voru númer sætanna í þingsal. Enginn las yfir.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2016 | 08:21
Molar um málfar og miðla 2069
HUGTAKANOTKUN FJÖLMIÐLA
Sigurjón Skúlason, stjórnmálafræðingur, sendi Molum eftirfarandi bréf (03.12.2016) ,, Heill og sæll Eiður
Þú hefur verið ötull við að benda á það sem betur mætti fara í fjölmiðlum, ekki síst réttri notkun tungumálsins. Ég er hérna með athugasemd sem snýr meira að réttri hugtakanotkun fjölmiðla, ég veit ekki hvort þér finnst hún ríma við það sem þú ert vanur að birta.
Svo virðist sem aukning sé á ónákvæmri hugtakanotkun miðla eða að fjölmiðlamenn skilji einfaldlega ekki hugtökin sem þeir eru að reyna að beita. Oft getur þetta haft mikil áhrif á inntak frétta. Nýjasta dæmið, með því grófara sem ég hef séð í nokkurn tíma, birtist í grein á Vísi í dag (3.12.2016) en hún var einnig birt í Fréttablaðinu:
Fréttin Ítalir kjósa um stjórnarskrárbreytingu var skrifuð af Guðsteini Bjarnasyni sem er titlaður sem einn helsti sérfræðingur fréttastofunnar í fréttum af erlendum vettvangi á heimasíðu Vísis.
Þar skrifar hann að umræddar stjórnarskrárbreytingar snúast um að einfalda stjórnkerfið og styrkja völd stjórnarinnar í Róm á kostnað héraðanna. og að [Matteo] Renzi [forsætisráðherra] segir þessa stjórnkerfisbreytingu skilyrði þess að geta komið á þeim efnahagsumbótum sem hann vill gera á Ítalíu.
Seinna í fréttinni skrifar hann að fremstir í flokki andstæðinga breytinganna séu meðlimir Fimmstjörnuhreyfingar grínistans Beppe Grillo sem vann stóran kosningasigur árið 2013 þegar hann stillti sér upp andspænis gömlu stjórnmálaflokkunum (kannski einhvers konar Jón Gnarr þeirra Ítala?).
Um afleiðingar þess að breytingunum yrði hafnað skrifaði hann svo að Sigur svokallaðra lýðskrumsafla á Ítalíu væri einnig mikill ósigur fyrir vestrænt lýðræði.
-
Ég tek það fram að ég bý ekki að mikilli þekkingu á ítölskum stjórnmálum, mér finnst hins vegar vítavert að breytingar sem miða að því að auka vald ríkisstjórnar á kostnað valddreifingar í lýðræðisríki sé lagt að jöfnu við lýðskrum. Hvað þá að skrifa að ef almenningur í Ítalíu taki ekki í mál að afhenda forsætisráðherra aukin völd til þess að koma fram sínum áherslum í efnahagsmálum þá sé það ósigur lýðræðis á Vesturlöndum!
Sé orðinu lýðskrum flett upp í orðabók þá er skilgreiningin sú að þar fari maður með
skjall, skrum fyrir almenningi eins og hann vill heyra. Það þarf í sjálfu sér ekki að vera slæmt að segja fólki það sem það vill. Nær væri þó að nota skilgreiningu Guðrúnar Kvaran prófessors á Vísindavef háskólans en þar segir hún að lýðskrum sé m.a. stjórnmálama[ður] sem tekur afstöðu til mála eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs meðal almennings eða aflar sér fylgis með því að beina kröftum sínum að lægstu hvötum kjósenda
-Hér stillir helsti sérfræðingur fréttastofunnar málum þannig upp að hlýði ítalskur almenningur ekki kröfum stjórnmálamanns um aukið vald sér til handa þá sé lýðurinn að láta glepjast af fólki með annarlegar hvatir og sé að veita vestrænu lýðræði skráveifu.
Eru þetta eðlileg fréttaskrif?
http://www.visir.is/italir-kjosa-um-stjornarskrarbreytingu/article/2016161209627
M.b.kv.
Sigurjón Skúlason, stjórnmálafræðingur. Þakka bréfið, Sigurjón. Það sýnist auðvitað hverjum sitt um þessi skrif.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2016 | 07:08
Molar um málfar og miðla 2068
SJÁLFSVIRÐINGIN
Molavin skrifaði (04.12.2016): ,, Fréttabörn Morgunblaðsins fá enga tilsögn áður en þeim er hent að lyklaborðinu. Þetta stóð í Netmogga í dag (4.12.) í frétt um að bandarískri konu hafi verið nauðgað á Indlandi: "Konan hafði fyrst samband við lögregluna í gegnum tölvupóst með aðstoð bandarísku samtakanna NGO." Óreyndir unglingar með takmarkaða enskukunnáttu eru látnir þýða fréttir af Netinu. NGO er ensk skammstöfun fyrir Non-Governmental Organization; óopinber samtök, oftast líknarfélög. Hafa ritstjórar Morgunblaðsins enga sjálfsvirðingu lengur? Þakka bréfið, Molavin. Á Channel News Asia er þetta svona á ensku: ,, had initially contacted them through an email by a US-based NGO. Það er líklega djúpt á sjálfsvirðingunni! Þýðingin alveg út í hött. Saga vitlausra þýðinga hjá Mogga lengist og lengist! Það á ekki að fá fólki verkefni, sem það ræður ekki við.
TVÆR VIKUR TIL JÓLA?
Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkveldi, 6. desember, sagði fréttamaður okkur, að nú væru ,,einungis tvær vikur til jóla. Hefjast jólin 20. desember í ár? Hefur almanakinu verið breytt? Er búið að færa jólin?
MISSTI NIÐUR FLUGIÐ
Molalesandi benti skrifara undarlega fyrirsögn á mbl.is (04.12.2016):
Tiger missti niður flugið. http://www.mbl.is/sport/golf/2016/12/04/tiger_missti_nidur_flugid/
Fréttin var um golfleikarann Tiger Woods, sem byrjaði vel en missti svo flugið. Hann missti ekki niður flugið. Helgarvaktin á mbl. is ekki í góðum gír.
MYNDATEXTI
Sigurður Sigurðarson skrifaði (03.12.2016): ,,Sæll,
Stundum vantar myndatexta og það strax ... blaðið er að fara í prentun. Eins og með allan annan texta er mikilvægt að einhver lesi yfir, helst með gagnrýnu hugarfari. Innra eftirlit skilar miklu og er satt að segja hluti af gæðaeftirliti fjölmiðils.
Eftirfarandi er dæmi um kauðslegan myndatexta:
Þyrla Landhelgisgæslunnar fer á loft á vegi í Heiðmörk eftir að hafa lent þar vegna lítillar flugvélar sem þurfti að nauðlenda á veginum vegna gangtruflana. Vélin lenti heilu og höldnu.
Betur hefði farið á því að hafa textann á þessa leið: Þyrla Landhelgisgæslunnar í Heiðmörk. Þar hafði lítil flugvél giftusamlega náð að nauðlenda vegna gangtruflana.
Myndatextar þurfa ekki að lýsa því sem á myndinni sést, þá væri hún oft óþörf. Öllum má vera ljóst að þyrlan er annað hvort að lenda eða taka á loft.
Eitt að því sem gerir texta ljótan er stagl, svokölluð nástaða (orð sem standa nálægt). Takið eftir að orðið vegur kemur tvisvar fyrir, sögnin að lenda þrisvar, vél tvisvar. Doldið mikið um endurtekningar í þrjátíu orða myndatexta. Þetta mun vera úr helgarblaði Mogga.
Kærar þakkir fyrir þetta Sigurður. Réttmæt ábending.
SNÆFELLSNES VALINN
Trausti benti á fyrirsögn á visir.is (03.12.2016) http://www.dv.is/frettir/2016/12/2/snaefellsnes-valinn-besti-afangastadur-vetrarins-i-evropu/
"Snæfellsnes valinn besti áfangastaður vetrarins í Evrópu"
Trausti segir:,,Alltaf er gaman að sjá landinu hrósað, en óneitanlega hefði verið skemmtilegra ef í fyrirsögninni hefði staðið: Snæfellsnes valið besti áfangastaður vetrarins í Evrópu. Þakka bréfið, Trausti. Það er hverju orði sannara.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2016 | 09:46
Molar um málfar og miðla 2067
VÍFILSFELL - OG FLEIRA
Sigurður Sigurðarson sendi Molum eftirfarandi (02.12.2016): ,, Sæll,
Um daginn var á vettvangi þínum rætt um Kók-verksmiðjuna hér á landi vegna nafnabreytingar. Fyrirtækið sem rekur verksmiðjuna hét Vífilfell hf. Fjallið er hins vegar kennt við Vífil og heitir Vífilsfell. Þetta er í samræmi við eignarfallsendingu á örnefnum sem kennd eru við nöfn fólks; Eiríksjökull, Jörundarfell og Áshildarmýri. Steinsholtsjökull er örnefni í þremur samsetningum og þar af tvö í eignarfalli. Jökullinn er kenndur við Steinsholt, sem líklega er kennt við stórgrýti frekar en mann sem heitið hefur Steinn.
Til gamans: Eiðsgrandi er eftir því sem ég best veit ekki dregið af nafninu Eiður heldur eiði í merkingunni grandi, nes. Væri til klettur eða bjarg sem kenndur væri við svan myndi það væntanlega nefnast Svansberg en líklega ekki Svanberg. Fann ekkert örnefni kennt við Svan í eintölu. Guðnasteinn (ef) er klettur efst í Eyjafjallajökli. Svona er nú gaman að velta fyrir sér örnefnum. Hins vegar veit ég ekki til þess að örnefnið Sig-urð sé til en við Dyngjufjöll er Stórurð sem er gríðarlega sérkennilegt og fallegt svæði.
Svo er það þetta með Vífilfell hf. Fallegt nafn þrátt fyrir að eignarfallsessið vanti. Hvers vegna er verið að breyta troða útlensku nafni á fyrirtækið? Ensk heiti á íslenskum fyrirtækjum virðast nær allsráðandi. Svo rammt kveður að þessu að í Skaftafelli var einhver sölukerra sem eigandinn nefndi Glacier Goodies, væntanlega til að selja betur. Gleraugnaverslun á höfuðborgarsvæðinu þar endilega að heita Eyesland, ómerkilegur orðaleikur. Á Laugarvatni datt framtakssömum aðilum ekki annað heiti á gufubaði og sundlaug en Fontana og er það þó á sögulega stórmerku svæði.
Hvað er eiginlega að fólki? Kærar þakkir fyrir þennan prýðilega pistil, Sigurður. Von er að spurt sé: ,,Hvað er eiginlega að fólki?
ENGINN LAS YFIR
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (03.12.2016) var sagt:,, Lögreglan í Oakland barst tilkynning um eldinn http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/kvoldfrettir/20161203 (01:30) . Lögreglan barst ekki tilkynning. Lögreglunni barst tilkynning. Í sama fréttatíma var sagt frá skemmdum á flugvellinum við Neskaupstað, - það var svona orðað: ,, . Vegna skemmda ,sem vertaki á vegum Landnets skildi eftir á vellinum . Skemmdir voru skildar eftir ? Endemis þvæla. Enginn las yfir. Engin verkstjórn. Ekki boðleg vinnubrögð. Þetta var reyndar lagfært á vefnum, - seinna.
HÆFILEGA SLASAÐUR?
Trausti skrifaði Molum (023.12.2016) Hann benti á eftirfarandi frétt á visir.is http://www.visir.is/frelsissviptingarmal-i-fellsmula--reynt-ad-koma-i-veg-fyrir-ad-parid-flyi-land/article/2016161209752
"Hann var undir læknishöndum fram eftir gærkvöldinu, ekki of illa slasaður, en brugðið og lemstraður."
,,Ekki of illa slasaður, nei. Var hann þá kannski hæfilega slasaður?
Þakka ábendinga Trausti. Þetta eru furðuleg skrif.
FRYSTUR LEIKMAÐUR
Í íþróttafréttum Bylgjunnar í hádeginu (01.12.2016) var okkur sagt frá íþróttamanni, sem hafði verið frystur. Af fréttinni mátti ráða, að hann hefði lifað frystinguna af.
LYKTIR
Í morgunþætti Rásar eitt (02.12.2016) þar sem talað var um að stjórnarmyndunarviðræður gengju treglega var spurt: ,, og mun það lykta með kosningum fljótlega ? Þetta er ekki rétt. ... og mun því lykta með kosningum fljótlega.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2016 | 09:55
Molar um málfar og miðla 2066
FYRIR HÉRAÐI
Molavin skrifaði (02.12.2016): ,, "Áður hafði málið tapast fyrir héraði..." sagði Þorbjörn Þórðarson fréttamaður Stöðvar 2 ítrekað í kvöldfréttum (2.12). Málvenja er að tala um að tapa "í héraði" eða fyrir héraðsdómi. Menn tapa ekki fyrir héraði, því hérað er ekki málsaðili. Nema þetta sé orðfæri lögmanna?
Almennt kæruleysi í meðferð málsins er löngu orðið daglegt lýti á fréttaflutningi. - Molavin bætti svo við:,, - Kannski mætti bæta þessari stuttu skýringu við. Hún er frá Jóni G. Friðjónssyni í málfarspistli hans 2005:
,,Orðatiltækið hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi vísar til þess að margir eru djarfari á heimaslóðum, heimavelli (héraðsþingi), en annars staðar. Það mun eiga rætur sínar að rekja til lausavísu eftir Pál lögmann Vídalín (d.1727): Kúgaðu fé af kotungi, / svo kveini undan þér almúgi; / þú hefnir þess í héraði, / sem hallaðist á alþingi.
Það er því miður rétt, Molavin. Á bágt með að trúa að þetta sé orðfæri lögmanna. Þakka bréfið.
VILLUTEXTI Á DV.IS
Sá sem skrifaði þessa frétt á dv.is (30.11.2016) hefur ekki til að bera þá þekkingu á íslensku að honum sé treystandi til að skrifa fréttir. Tvö dæmi:,, .. þegar báturinn var að reka upp í kletta við Lófót í norður Noregi. Báturinn var ekki reka eitt eða neitt. Bátinn var að reka upp í kletta. ,,,, Það fór þó betur en á horfðist en allir fimm í áhöfn bátsins var bjargað um borð í þyrluna á síðustu stundu. Allir fimm var ekki bjargað öllum fimm var bjargað. Þessi dæmi eru ekki það eina, - svo eru stafsetningarvillurnar.
Þarna skortir greinilega allan metnað til að gera vel.
TVÖFÖLD LAUN
Rafn skrifaði (01.12.2016): ,,Sæll Eiður
Neðanskráð má lesa á visi.is. Mér þykir nóg um, að nýir alþingismenn njóti einir nýrra ríkisstarfsmanna þeirra kjara, að fá laun sín greidd fyrir fram í byrjun mánaðar, þótt þeim séu ekki líka greidd tvöföld laun. Fyrirframgreiðslan ein veldur því, að nýjum þingmönnum eru í dag greidd rúmlega tveggja mánaða einföld laun og tilheyrandi kostnaðarendurgreiðslur, sem ég veit ekki hvort eru greiddar fyrir fram ellegar eftir á, en að greiða launin tvöföld í þokkabót. Það þykir mér fulllangt gengið.
Eða er ef til ekki rétt með farið í fyrirsögninni hér fyrir neðan? Fréttin sjálf bendir til að fyrirsögnin geti verið röng, aðeins sé um að ræða einföld laun fyrir tvo mánuði (auk eins dags í október). Þetta síðast talda er sennilega rétt Rafn. En hér er fréttin af visir.is: http://www.visir.is/32-thingmenn-fa-greidd-tvofold-laun-i-dag/article/2016161209961
ÓLÍFRÆNAR LANDBÚNAÐARAFURÐIR
Hér er meira frá Rafni (01.12.2016): ,,Sæll Eiður
Hér kemur ein athugasemd enn í sarpinn. Hér segir Ríkisútvarpið á vef sínum, að það sé merkingarlaust, að ræða um vistvænar landbúnaðarvörur, en neytendur geti hins vegar treyst því, þegar vara sé vottuð sem lífræn framleiðsla.
Samkvæmt mínum málskilningi getur landbúnaðarafurð aldrei verið annað en lífræn. Ef hún er það ekki, þá hefði ég haldið, að um væri að ræða iðnaðarvöru, væntanlega framleidda úr steinefnum eða öðrum ólífrænum efnum. Orðin vistvæn vara þrengja hins vegar sviðið, þótt skort geti á reglur þar um og eftirlit með hvort framleiðsluferli sé í raun vistvænt.
Er það ég sem er skilningssljór? eða eru yfirvöld á villigötum, þegar þau gefa út reglur um lífrænar vörur??. Þakka þessa ábendingu Rafn. Þú hefur óneitanlega nokkuð til þíns máls. Sjá: Spegillinn · Neytendamál 13:30
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2016 | 10:07
Molar um málfar og miðla 2065
METFÉ - TALAÐ FYRIR DAUFUM EYRUM
Molaskrifari verður að sætta sig við það að hann talar oft fyrir daufum eyrum en reynir að hugga sig við hið fornkveðna, að dropinn holi steininn.
Oft, mjög oft, hefur verið fjallað um það í Molum ( Þáttum 2057,1944, 1819,1567og 1358) að orðið metfé þýðir ekki metupphæð. Það er ekki hægt að tala um að eitthvað seljist fyrir metfé. Í tíufréttum sjónvarps (29.11.2016) var okkur sagt að handrit að 2. Sinfóníu Gustavs Mahlers hefði selst á uppboði fyrir metfé. Þetta er röng orðnotkun. Handritið seldist fyrir metverð, hærra verð en nokkuð annað sambærilegt handrit. Sá sem notaði þetta orð í þessari frétt hefði átt að fletta upp í Íslenskri orðabók, en þar stendur: Metfé 1 verðmikill hlutur, úrvalsgripur. 2 fornt/úrelt e-ð sem ekki var fast verðlag á, en meta varð til fjár hverju sinni (aðilar tilnefndu sinn matsmanninn hvor). Handrit Mahlers var metfé. Það seldist fyrir metverð. Er þetta mjög flókið?
SÆÐINGAVERTÍÐ SAUÐKINDANNA
Sæðingavertíð sauðkindanna að hefjast, segir í fyrirsögn á mbl.is (30.11.2016). Þetta er líklega nýtt orð yfir það sem áður var kallað fengitími, þegar hleypt var til (,,sá tími árs sem dýr eru tilbúin til mökunar, ýmist einu sinni á ári eða oftar eftir tegundum- um sauðfé, tíminn þegar hleypt er til ánna (frá því skömmu fyrir jól fram í janúar)- Ísl. orðabók). Nú fá ærnar ekki hrútana lengur, - heimur versnandi fer! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/11/30/saedingavertid_saudkinda_ad_hefjast/
STÆRSTI LEIKURINN
Rafn skrifaði Molum (30.11.2016):,, Sæll Eiður.
Ert þú svo fróður að geta frætt mig um hvernig stærð knattspyrnuleikja er mæld?? Er leikið á misstórum leikvöllum?? Eru mismargir leikmenn eða mislangur leiktími?? Er þetta ef til vill bundið við áhorfendafjölda sem getur verið afar mismunandi?
Ég hefi aldrei sett mig inn í íþróttamál af þessum toga.
Klausan er úr netútgáfu Morgunblaðsins. - Kveðja Rafn
Erlent | AFP | 30.11.2016 | 6:38 | Uppfært 8:24
,, Voru á leið í sinn stærsta leik Knattspyrnuheimurinn minnist leikmanna brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense en liðið nánast þurrkaðist út í flugslysi í gær. Liðið var á leið í sinn stærsta leik úrslitaleik Copa Sudamericana, næststærstu keppni félagsliða í Suður-Ameríku.
Molaskrifari þakkar Rafni bréfið. En þessu getur hann því miður ekki svarað,- jafn ófróður sem hann nú er um knattspyrnuleiki. En er það ekki viðtekin venja í heimi boltans að tala um stórleiki og stórmót? Er þetta kannski eðlilegt framhald af þeirri orðræðu? Knattspyrnuleikir séu sem sagt misstórir!
FUNDUR ÖRYGGISRÁÐSINS
Margsagt var í fréttum Ríkisútvarps að morgni miðvikudags (30.11.2016):,, Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur fram á sérstökum neyðarfundi í dag Ráðið kemur ekki fram á sérstökum neyðarfundi. Ráðið heldur sérstakan neyðarfund. Ráðið kemur saman til neyðarfundar. Boðaður hefur verið sérstakur neyðarfundur í ráðinu. Enginn les yfir.
MEÐVRIKNI OG VELFERÐ DÝRA
Sólmundur sendi eftirfarandi (30.11.2016) Hann segir: ,,Sæll,
Get nú ekki annað en sent þér athugasemd um þessa frétt á mbl.is 30.11 ( í dag). Kannski þú getir reynt að lesa þessa illa skrifuðu grein, mætti stytta um helming og fyrirsögnin ???
Molaskrifari þakkar Sólmundi bréfið. Fréttin er reyndar af fréttavef Ríkisútvarpsins.
Fyrirsögnin er illskiljanleg, að ekki sé meira sagt: Meðvirkni gangi framar dýravelferð. Molaskrifari lætur lesendum Molanna eftir að dæma skrifin. Sjá: http://www.ruv.is/frett/medvirkni-gangi-framar-dyravelferd
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.12.2016 | 09:12
Molar um málfar og miðla 2064
FJÁRDRÁTTUR
Of margir fréttaskrifarar fara rangt með orðtök. Eftirfarandi er af fréttavef Ríkisútvarpsins (229.11.2016): ,, Starfsmaður, sem hefur í lengri tíma starfað við bókhald í Landsbankanum, hefur verið rekinn vegna gruns um fjárdrátt. Vísir.is greinir frá þessu og segir hann sakaðan um að hafa dregið að sér á fjórða tug milljóna króna. Hér hefði átt að segja: að hafa dregið sér á fjórða tug milljóna króna. Ekki dregið að sér. Að draga sér er að útvega sér, eða taka eitthvað til sín óheiðarlega. Að draga fé er hins vegar að , færa sauðfé í dilk eigandans ( í rétt), segir orðabókin. http://www.ruv.is/frett/starfsmadur-landsbankans-grunadur-um-fjardratt
Rangt var farið með þetta í sjöfréttum Ríkisútvarps, sömuleiðis í morgunþætti Rásar tvö. Í fréttayfirliti klukkan hálf átta var þetta rétt. Þetta var einnig rétt á mbl.is Ekki í fyrsta skipti sem fjölmiðlar fara rangt með þetta.
SYNGUR FYRIR FRAMAN FÓLK
Undarleg fyrirsögn á mbl.is (28.11.2016): Mun syngja fyrir framan 6.000 manns. Stúlkan mun syngja fyrir sex þúsund manns.
Fréttin er heldur ekki mjög lipurlega skrifuð. Þar segir meðal annars:,, en hún er nú í óða önn að undirbúa sig fyrir stærðarinnar jólatónleika sem fara fram 10. desember næstkomandi.
Tónleikarnir eru af stærri gerðinni og fara þeir fram í Laugardalshöll,
http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/11/28/mun_syngja_fyrir_framan_6_000_manns/
ER BRAD PITT KOMINN MEÐ NÝJA?
Gott er fyrir okkur sem lesum fréttavef Morgunblaðsins mbl.is að geta treyst því að við séum upplýst um það mikilvægasta sem er að gerast í veröldinni, - eins og það hvort leikarinn Brad Pitt sé kominn með nýja kærustu.
http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/11/28/er_brad_pitt_kominn_med_nyja/
Algjörlega ómissandi fróðleikur.
AUGLÝSINGASLETTURNAR
Á mánudagskvöldið (28.11.2016) var okkur sagt í fréttum Ríkissjónvarps að verið væri að halda upp á sæber mondei (e. Cyber Monday) , rafrænan mánudag. Enskan kom fyrst. Svo kom íslenskan. Dæmigert. Því miður.
Í vaxandi mæli finnur maður hve mörgum er misboðið með málfarssóðaskap í auglýsingum um þessar mundir. Þarna er við ýmsa að sakast. Þá sem semja þennan sóðalega texta, þá sem greiða fyrir að birta hann og þá sem fá greitt fyrir að birta sóðaskapinn.
Hér áður fyrr var ákvæði í auglýsingareglum Ríkisútvarpsins um að auglýsingar skyldu vera á ,,lýtalausu íslensku máli. Þessar reglur finnur Molaskrifari ekki lengur á vef Ríkisútvarpsins og sýnist einna helst að þær hafa verið felldar úr gildi árið 2002. Getur það verið? Hver ber ábyrgð á því. Menntamálaráðherra? Útvarpsstjóri?
Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar. Það gildir ekki aðeins um dagskrá, - það gildir líka um auglýsingar. Á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins virðist enginn sem, hefur þá dómgreind, hefur bein í nefinu til að hafna auglýsingum, sem eru að hálfu leyti eða meira á ensku. Á hrognamáli. Því miður.
Sveinn Einarsson, leikstjóri , fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri og dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins skrifaði prýðilega grein, ,,Dagur íslenskrar tungu - og hinir í Morgunblaðið sl. mánudag ( 28.11.2016). Þá grein ættu sem flestir að lesa.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)