30.11.2016 | 10:51
Molar um málfar og miðla 2063
ÓÞÖRF ORÐ
Molavin skrifaði (29.11.2016):,, Óþörf uppfyllingarorð eru oft sett í hugsunarleysi í fréttatexta. Í hádegisfrétt Ríkisútvarps í dag (29.11.) var t.d. sagt að "bólivísk farþegaþota með 81 innanborðs" hefði farizt. Ekkert rangt við það, en er ekki óþarfi að taka það sérstaklega að farþegarnir hafi verið innanborðs í þotunni. Sömuleiðis hefur iðulega verið sagt í fréttum að eitthvað hafi sprungið "í loft upp" - jafnvel flugvélar á flugi. Myndrænar lýsingar geta átt við í fréttum en ofnotkun þeirra sljóvgar bitið. Rétt athugað. Kærar þakkir fyrir bréfið, Molavin.
ENN VERSLAR RÍKISÚTVARPIÐ JÓLAGJAFIR
Á fréttavef Ríkisútvarpsins (29.11.2016), stingur í augu fyrirsögnin: Fleiri versla jólagjafir á netinu. Við verslum ekki jólagjafir. Við kaupum jólagjafir.
Er málfarsráðunautur áhrifalaus um málfar í Ríkisútvarpinu?
http://www.ruv.is/frett/fleiri-versla-jolagjafir-a-netinu
Ríkisútvarpið þarf að taka sig á.
BANNFÆRING BÍLA
Sveinn skrifaði Molum (27.11.2016): ,,Sæll Eiður,
þetta þótti mér svolítið skondið hjá Netmogga. ,,Útiloka ekki að bannfæra dísilbíla
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/11/27/utiloka_ekki_ad_bannfaera_disilbila/
En réttilega er talað um bann í fréttinni sjálfri og líklega um klaufagang að ræða hjá blaðamanni. Þakka bréfið, Sveinn. Já eitt, er bann, annað er bannfæring, segir orðabókin og málvitund flestra
NÚ ER KOSIÐ UM ALLT
Atkvæðagreiðslur heyra sögunni til. Nú er kosið um allt. Ríkisútvarpið virðist vera fremst í flokki þeirra sem nota þetta orðalag. Úr frétt (26.11.2016): Tillagan var lögð fram af Evrópusambandsþingmanni frá Lúxemborg. Kosið verður um tillöguna á þinginu fyrir árslok. Atkvæði verða greidd um tillöguna, - það er í samræmi við málvenju. Kosning er eitt. Atkvæðagreiðsla annað. Svo er þolmyndin í fyrri setningunni óþörf, - eins og oftast. Germynd er alltaf betri.
http://www.ruv.is/frett/bretar-geti-keypt-ser-esb-rettindi
ILLA ORÐUÐ FRÉTTATILKYNNING
Þetta er úr fréttatilkynningu sem birt var á mbl.is (26.11.2016) : ,, Saga Vífilfellsnafnsins er samofið sögu Coca-cola hér á landi og nær aftur um næstum 75 ár.
Þarna hefði farið betur á að segja: Saga Vífilsfellsnafnsins er samofin sögu ... og , -- á sér næstum 75 ára sögu.
Hér er ekki eingöngu við blaðamenn að sakast. Þetta var lesið orðrétt í fréttum Bylgjunnar á hádegi þennan sama dag. Þetta hefðu glöggir blaðamenn átt að lagfæra. Fjallið sem verksmiðjan er kennd við heitir reyndar ekki Vífilsfell heldur Vífilfell að því Molaskrifari veit best. En fyrra nafnið hefur líklega unnið sér þegnrétt í málinu.
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/11/26/vifilfell_skiptir_um_nafn/
ÞINGMAÐUR DANSKA ÞINGSINS
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag var talað um þingmann danska þingsins. Eðlilegra hefði verið að tala um danskan þingmann, eða þingmann á danska þinginu. Við tölum ekki um þingmenn Alþingis. Enginn les yfir.
MEÐLIMIR
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (29.11.2016) var sagt frá flugslysi og talað um alla meðlimi brasilísks knattspyrnuliðs. Of margir hafa of mikið dálæti á orðinu meðlimur. Það er ofnotað. Þarna hefði betur farið á tala um liðsmenn eða leikmenn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2016 | 09:07
Molar um málfar og miðla 2062
TAKK KASTLJÓS
Margir eru áreiðanlega miður sín eftir að hafa horft á umfjöllun Kastljóss um eggjabúið Brúnegg í gærkvöldi (28.11.2016) . Þetta var hrikalegt. Molaskrifari veit eiginlega ekki hvorir voru verri verksmiðjustjórar eggjabúsins (- þetta var eiginlega allt í lagi- en það voru frávik, við brugðumst við !) eða ráðuneytin og embættismennirnir sem voru trúnaðarmenn almennings. Allt brást. Allir brugðust. Þetta var verðlaunafréttamennska, Tryggvi Aðalbjörnsson, Guðmundur Bergkvist og Ingi R. Ingason.Takk
UM RÁS EITT
- skrifaði Molum (25.11.2016): ,, Ágæti Eiður
Hef ekki fylgst nógu vel með þáttum þínum nýlega.
Veit því ekki hvort eg endurtek kvartanir, vona það þó.
Dagskrá Rásar eitt, flaggskips Ríkisútvarpsins, er undirlögð dægurtónlist. Í hinum ágæta þætti Morgunverði meistaranna er sárasjaldan flutt sígild tónlist, verra verður það í öðrum nýjum þætti Flugum, þar sem gamlir slagarar eru spilaðir í sögulegu samhengi. Mjög vel gert en er þetta rétt rás?
Verra tekur við undir lok síðdegisútvarpsins. Þar var áður þátturinn Víðsjá sem hafði tvo tíma til ráðstöfunar og úr mörgu að moða. Var margt vel gert í þættinum. Nú hefur samnefndur þáttur klukkutíma, fjallar um allskyns dægurmál, popptónlist og tölvuöpp! Kvenkyns stjórnandi þáttarins hefur ekki tök á hefðbundnum framburði tungunnar, akki veður uppi í stað orðsins ekki og margt fleira mætti tína til. Eiríkur Guðmundsson heldur enn dampi í Lestinni, en þar er annars fátt um fína drætti.
Eg hlustaði um daginn á furðulanga umfjöllun um þýska málmhljómsveit í öðrum hvorum þessara þátta (þeir renna dálítið saman í huganum) og undarlega frásögn um nýja hljómplötu söngskvísunnar Britney Spears, hvort tveggja efni sem á ekkert erindi á Rás eitt.
Eg sakna sígildrar tónlistar á daginn, hvað væri dagskráin til dæmis án Unu Margrétar sem dregur fram hvern gullmolann öðrum betri úr fjársjóði Ríkisútvarpsins, sem gefa þarf miklu betri gaum en gert hefur verið. Atli Freyr Steinþórsson, Arndís Björk Ásgeirsdóttir og ýmsir fleiri sinna sígildri tónlist samhliða fréttatíma sjónvarpsins klukkan 19. Hver hlustar?
Margt er enn gott á Rás eitt, eg sakna viðtala Sigurlaugar á morgnana, fylgist með Lísu flakka, geri ekki athugasemdir við fréttastofu sem alltaf er gagnrýnd, hlusta á Óðin á morgnana, hlusta eins og eg get.
Skrúfaði niður í sungnum og leiknum auglýsingum í fyrstu, nenni því ekki alltaf lengur. Svona vinnur plebbavæðing Ríkisútvarpsins á.
Þakka gott starf, Eiður.
Kærar þakkir H. Fyrir þetta ágæta bréf og hlý orð um þessa viðleitni til að benda á það sem betur má fara í málfari, málnotkun í fjölmiðlum.
DEKKUN RÍKISÚTVARPSINS
Eftirfarandi er af vef Ríkisútvarpsins: ,, Það eru mikil verðmæti fólgin í því að ná sem mestri dekkun þegar kemur að auglýsingum. Dekkun RÚV er einstök ...
Orðið dekkun er ekki að finna í orðabókinni. Þar er hins vegar sögnin að dekka, að þekja. Sögð óformleg, sem sé ekki vandað mál. Ríkisútvarpið á að vanda sig.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.11.2016 | 10:24
Molar um málfar og miðla 2061
ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT
Úr Morgunpósti Kjarnans (25.11.2016): ,, Frétt Benedikt Jóhannesson segir að hugmyndir Katrínar Jakobsdóttur um að bæta við hátekjuskattþrepi á laun sem voru yfir einni og hálfri milljón króna á mánuði og að leggja á stóreignaskatt höfðu ekki verið kynntar formönnum þeirra flokka sem hún ræddi við um stjórnarmyndun þegar þær birtust í viðtali við hana í Fréttablaðinu.. Hér hefði auðvitað átt að standa: ... hefðu ekki verið kynntar .... Undarlegt hvað notkun viðtengingarháttar vefst fyrir mörgum fréttaskrifurum.
https://mail.google.com/mail/u/0/?shva=1#inbox/1589af2263f3d2b8
HRAÐASTUR ALLRA
Hamilton var hraðastur allra, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps á föstudagskvöld(25.11.2016).Hann var að segja okkur frá ökumanni , sem ók hraðast allra í ökukeppni, -í kappakstri.Ekki gott orðalag.
RÍKISSJÓNVARPIÐ VERSLAR JÓLAGJAFIR
Í fréttum Ríkissjónvarps (25.11.2016) kom fréttamaður á skjáinn og sagði frá kreditkorta njósnum danska tímaritsins Se og hör. Fréttamaður sagði: ,, .... hvar Frederik krónprins og Mary versluðu jólagjafir .... Hér á árum áður hefði fréttamanni, sem léti sér slíka ambögu um munn fara, ekki verið hleypt að hljóðnema fyrr en hann væri búinn að læra að nota sagnirnar að að kaupa og að versla rétt og í samræmi við íslenska málvenju. - Hvar krónprinsinn og Mary keyptu jólagjafir. Engin verkstjórn. Hvar er málfarsráðgjafi?
SMÆLKI
*Úr íþróttafréttum Bylgjunnar (24.11.2016):... íþróttamaðurinn hefur tilkynnt að hann er hættur í knattspyrnu. Margir fréttamenn ráða ekki við að nota viðtengingarhátt.
*Landsbankinn segist vera óheimilt að ...sagði þulur í Kastljósi (24.11.2016).Landsbankinn sagði sér óheimilt að.... Hefði það átt að vera. Eða: Landsbankinn segir óheimilt að ...
*Slettur, ekkert lát er á þeim: Fréttatíminn auglýsti Black Friday (23.11.2016). Í sama blaði auglýsti Vogue Black Friday, sama gerði Heimkaup og Hagkaup auglýsti Outlet. Í Fréttablaðinu daginn eftir auglýsti leikfangaverslunin Toys(are)Us, Black Friday, sama gerði Debenham´s. Hér má bæta við fyrirtækjunum Dorma, Ellingsen og Húsgagnahöllinni sem öll styðjast við þessa amerísku eftiröpun, Black Friday. Raunar eru þau fyrirtæki næstum óteljandi, sem slettu þessu á okkur á föstudaginn (25.11.2016). Eitt fyrirtæki orðaði það þannig að hjá því væri Black Friday, föstudag, laugardag og sunnudag! Á föstudeginum voru blöð og ljósvakamiðlar löðrandi í þessum sóðaskap. Molaskrifari lýsir ábyrgð á hendur auglýsingum stofum og kaupmönnum. Ábyrgð þeirra er mikil. Þetta er atlaga að íslenskri tungu. Er það einhverskonar íslensk vanmetakennd, minnimáttar tilfinning,sem þarna ræður för. Hallast að því?
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2016 | 11:30
Molar um málfar og miðla 2060
Á ALÞINGI
Í fréttum Bylgjunnar á hádegi (23.11.2016) var sagt að stjórnarmyndunarviðræður færu fram á Alþingi. Það er ekki rétt. Stjórnarmyndunarviðræður fóru fram í Alþingishúsinu. Ekki á Alþingi. Á þessu er munur.
Í fréttum Ríkissjónvarps kvöldið áður heyrðum við sömu meinlokuna. Þá sagði þulur, að rætt hefði verið við Katrínu Jakobsdóttur á Alþingi. Það var heldur ekki rétt. Rætt var við Katrínu Jakobsdóttur, sem var í Alþingishúsinu.
Endurtekið efni á miðvikudagskvöld (23.11.2016): Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er á Alþingi, sagði fréttaþulur Ríkissjónvarps. Jóhanna Vigdís var í Alþingishúsinu.
ENN UM EMBÆTTISMANN Í HVÍTA HÚSINU
Í fréttum Ríkisútvarps klukkan fimm að morgni miðvikudags (23.11.2016) var enn einu sinni talað um yfirmann (bandaríska) forsetaembættisins. Það er mótsögn að tala um yfirmann forsetaembættisins. Þessi embættismaður er það ekki. Hann er heldur ekki starfsmannastjóri Hvíta hússins eins og sumir fréttamenn halda. Átt var við yfirmann starfsliðs Hvíta hússins (e. chief of staff). Ágætur maður (var það ekki Kristinn R. Ólafsson?) stakk upp á því nýlega að þessi embættismaður yrði kallaður stallari. Það er góð tillaga. Orðabókin segir , að stallari (fornsögulegt) hafi verið háttsettur embættismaður við norsku hiriðina, einskonar fulltrúi konungs gagnvart þjóðinni, hafi talað fyrir hönd konungs á opinberum fundum og séð um vígbúnað hans og manna hans.
AÐ SVARA ÓLJÓST
Í fréttum Ríkissjónvarps (23.11.2016) var viðtal við bankastjóra Landsbanka Íslands vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar og gagnrýni á það sem sumir mundu kalla vafasama viðskiptahætti bankans. Bankastjórinn var að því spurður hvort hann hefði fengið þrýsting innan bankans eða frá bankaráði. Hann svaraði óljóst eða ekki og komst upp með það. Fréttamaður gekk ekki eftir svari. Þetta er of algengt. Því miður.
SMÁTT
*Enn einu sinni var í útvarpsfrétt ( sést reyndar og heyrist víðar) að morgni fimmtudags (24.11.2016) sagt að karlmaður hefði verið handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins, - ekki fyrir rannsókn málsins, - kemur þetta orðalag hrátt frá lögreglunni?
* Í morgunþætti Rásar tvö sama dag var okkur sagt að Bandaríkjamenn og Kanadamenn héldu þakkargjörðardaginn hátíðlegan þann dag. Í Bandaríkjunum er þakkargjörðardagurinn fjórði fimmtudagur í nóvember, en í Kanada er þakkargjörðardagurinn annar mánudagur í október.
* Þennan morgun sagði Ríkisútvarpið okkur líka frá tveimur stjórnarmyndunarviðræðum. Tvennum stjórnarmyndunarviðræðum, hefði það átt að vera.
* Að ljá máls á einhverju, er að taka vel í eitthvað, - ekki vekja máls á einhverju.
* Að axla sín skinn, er ekki að axla ábyrgð. Það er að búa sig til brottfarar, fara burt.
* Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.11.2016) var talað um að kalla Alþingi saman til bráðabirgða ??? Tómt rugl. Alþingi verður ekki kallað saman til bráðabrigða. Fréttamenn verða að þekkja stjórnskipan landsins.
* Ósköp er hvimleitt að hlusta á sífelldar enskuslettur stjórnenda og þeirra sem rætt er við til dæmis í morgunþáttum á öldum ljósvakans. Í morgun talaði reyndur stjórnmálamaður sem rætt var við í Ríkisútvarpinu um copy paste pólitíska umræðu.
Hvað er til ráða?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2016 | 08:30
Molar um málfar og miðla 2059
ÁREITI - ÁREITNI
Flosi Kristjánsson skrifaði (22.11.2016):,, Góðan daginn, Eiður.
Hef kíkt á piistla þína af og til undanfarin ár. Þykir gott að menn skuli vilja viðhalda vönduðu málfari. Hef litlu við að bæta.
Tveimur orðum er iðulega ruglað saman, þó ekki sé það alsiða: áreiti - áreitni
Er minnisstætt frá námsárum í Kennararskólanum, að orðaparið stimulus - response, og notað var í sálfræði, hafði verið þýtt með áreiti - andsvar.
Þess vegna finnst mér það ekki rétt, þegar t.d. karlar eru með dónaskap við konur, að þeir hafi haft í frammi kynferðislegt áreiti. Slík átroðsla heitir áreitni. Þetta ásamt því að fara erlendis mundi ég vilja kveða niður í eitt skipti fyrir öll. - Kærar þakkir, Flosi fyrir lofsamleg ummæli, - og þarfa ábendingu um merkingarrugl, sem því miður er of algengt.
HÁTT RYK
Víkverji Morgunblaðsins (21.11.2016) segir frá verslunarferð þar sem hann við afgreiðslukassann var næstur á undan manni,sem áfengislykt lagði af. ,,Hafði greinilega verið á slarki í fyrrinótt og ekki var hátt á honum rykið, skrifaði Víkverji. Hér hefur eitthvað skolast til. Sennilega hefur Víkverji ætlað að segja , -- og ekki var hátt á honum risið. Hann var ekki upplitsdjarfur, - leit ekki vel út. Verið rykaður, eins og stundum er sagt, ,,slæptur eftir víndrykkkju, enn undir áhrifum daginn eftir drykkju, segir orðabókin.
GÓÐ UMFJÖLLUN
Stöð tvö gerði ævi og ferli Gunnars Eyjólfssonar leikara og fyrrverandi skátahöfðingja verðug og góð skil í sérstökum þætti á þriðjudagskvöld. Hef enn ekki séð Ríkisssjónvarpið minnast Gunnars svo sem vert er. Má vera að það hafi farið fram hjá mér.
GOTT MÁL !
Í fréttum Ríkissjónvarps (22.11.2016) kom fram í spjalli fréttaþular við íþróttafréttamann í kynningu íþróttafrétta, að ef til vill mundi Guðni Bergsson bjóða sig fram gegn núverandi formanni Knattspyrnusambands Íslands, Geir Þorsteinssyni , á ársfundi sambandsins í febrúar. Gott mál, sagði fréttaþulur. Það er ekki hlutverk fréttaþular eða fréttamanns að leggja dóm á það hvort framboð til forystu í félagasamtökum sé gott mál, eður ei. Klaufaskapur.
PÍNU ...PÍNU...
,,Það er svona pínu óljóst hvað við tekur, sagði fréttamaður í Spegli Ríkisútvarpsins (23.11.2016).
Barnamál á ekki heima í fréttum Ríkisútvarpsins.
RIÐFRÍIR LOKAR
Hvað eru riðfríir lokar, sem auglýstir voru í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (23.11.2016)? Hafa þessir lokar eitthvað með rafstraum að gera? Eða gleymdist bara að leiðrétta ritvillu? Áttu þetta ekki að vera ryðfríir lokar? Lokar sem ryðga ekki? Eru auglýsingar ekki lesnar yfir á auglýsingadeild áður en þær eru birtar?
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2016 | 07:11
Molar um málfar og miðla 2058
HRÓS
Mörgum þykir Molaskrifari full spar á hrósið, - að hrósa því sem vel er gert. Þáttur Boga Ágústssonar og Karls Sighvatssonar, Viðtalið ,á mánudagskvöld (21.11.2016) í Ríkissjónvarpinu var vel unninn og fróðlegur. Enda vanir menn að verki. Yfirlitið um skosk stjórnnmál og viðtalið við forsætisráðherra Skota Nicolu Sturgeon gaf áreiðanlega mörgum nýja sýn á stöðu mála hjá þessum grönnum okkar. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni.
Sérstakt hrós fær einnig Vera Illugadóttir fréttamaður Ríkisútvarps. Hún er góður fréttamaður, vel máli farin og útvarpsþættir hennar eru ævinlega áhugaverðir og fræðandi. Fjalla oft um efni sem annars yrðu útundan, sætu á hakanum. Það er þakkarvert.
FERÐASTIKLUR
Ferðastiklur þeirra feðgina Ómars og Láru í Ríkissjónvarpi á sunnudagskvöld (20.11.2016) brugðust ekki. Þau fóru með okkur um sannkallaða undraveröld við Mýrdalsjökul, Giljaheima, sem Ómar vildi kalla. Tuttugu og fimm ( að minnsta kosti ) stórfenglega falleg gil. Stórbrotin fegurð. Þetta svæði hafa örugglega aðeins örfáir áhorfenda áður séð. Spjallið við Ólaf Þorstein Gunnarsson bónda á Giljum gaf þættinum aukið gildi. Löngu prikin, sem svo voru nefnd, og smalarnir notuðu eru broddstafir. Færeyingar nota líka broddstafi. Þegar við kvöddum Færeyjar að loknum störfum þar í árslok 2008 færðu góðir vinir okkur fagurlega útskorinn færeyskan broddstaf. Það var gjöf, sem gladdi.
ENSKUVÆÐING AUGLÝSINGANNA
Enskuvæðing auglýsinga sem á okkur dynja alla daga fer hraðvaxandi.
Orðin TAX FREE, sem fjölmörg stórfyrirtæki nota óspart stinga í augu með risaletri á síðum dagsblaðanna og heyrast næstum á hverjum degi á öldum ljósvakans. Þar virðist auglýsingastofa Ríkisútvarpsinsfyriur löngu hafa tapað áttum og dómgreind. Það er ekki verið að auglýsa neitt skattleysi, eða undanþágu frá skatti - heldur aðeins dálítinn afslátt.
Síminn auglýsir Sjónvarp Símans Premium.
Vodafone lætur ekki sitt eftir liggja og auglýsir Ready for business. Kjötkompaníið Ready for business. Er fyrirtæki þitt Ready for business?
Það má segja að tekið hafi í hnúkana, þegar verslunin Ilva auglýsti ChristmasJólatré! Endemis þvæla! Sú verslun auglýsir líka Tax-free eins og ekkert sé, þótt hún hafi ekkert með skattlagningu að gera, bara álagningu.
Í Bandaríkjunum eru jafnan stórútsölur föstudaginn eftir þakkargjörðarhátíðina (e. Thanksgiving). Þann föstudag kalla bandarískir kaupmenn Black Friday,föstudaginn svarta. Nú er það 25. nóvember. Íslenskir kaupmenn apa þetta eftir og auglýsa á ensku Black Friday. Molaskrifari rak augun í fyrstu auglýsinguna með þessari slettu daginn eftir dag íslenskrar tungu (17.11.2016).
Verslunin Intersport auglýsir Black Friday hverjum degi um þessar mundir, - raunar oft á dag. Elkó auglýsir (22.11.2016) hinn eiginlega Black Friday, hvað svo sem það nú þýðir!
Það kom fram í fréttum CNBC (21.11.2015)í Bandaríkjunum, að svarti föstudagurinn, svo kallaði, væri á hröðu undanhaldi vestra. Stór-útsölurnar hæfust á netinu strax í byrjun vikunnar og fólk verslaði æ meira á netinu í síma og með tölvum og spjaldtölvum. Þess vegna væri föstudagurinn í þakkargjörðarvikunni ekki sá mikli útsöludagur lengur, sem hann hefði verið fyrir nokkrum árum. En við erum stundum dálítið á eftir.
Einstaka íslenskt fyrirtæki talar um föstudaginn svarta, en þau eru fá.
Er það að verða undantekning, að íslensk fyrirtæki beri virðingu fyrir móðurmálinu? Sé ekki betur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2016 | 10:30
Molar um málfar og miðla 2057
KEYPT OG VERSLAÐ
Það er löngu tímabært, að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ræði sérstaklega við þá fréttamenn, sem ekki geta gert greinarmun á sögnunum að versla og að kaupa. Kunna ekki að nota þessar sagnir.
Í hádegisfréttum á föstudag (18.11.2016) sagði fréttamaður: ,, ... en ólíkt því sem gerist þegar verslað er sælgæti í lausu í verslun eða fiskur í fiskbúðum ...
Það er rangt að tala um að versla sælgæti og getur ekki talist vandað mál. Við kaupum sælgæti, stundum í lausu og við kaupum fisk í fiskbúðum. Fiskbúðir versla með fisk. Þetta er ekkert flókið. Fréttamenn eiga að vanda sig.
METFÉ - AFTUR OG ENN
Alltaf er betra að vita hvað orðin þýða sem notuð eru í fréttum. Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins sagði fréttamaður okkur frá frægum kjól,sem, seldur var fyrir hátt verð á uppboði vestanhafs: ,,Sögufrægur kjóll bandarísku leikkonunnar Marilyn Monroe seldist fyrir metfé á uppboði í Los Angeles í gærkvöldi. Metfé þýðir ekki að kjóllinn hafi selst fyrir hærrri upphæð en nokkur annar kjóll. Það er misskilningur sem oft heyrist í fréttum. Metfé þýðir verðmikill hlutur, úrvalsgripur. Úrelt merking er segir orðabókin , - hlutur sem ekki var fast verðlag á en meta varð til fjár hverju sinni. Skrítið að reyndir fréttamenn, yfirmenn á fréttastofu,skuli ekki vera með þetta á hreinu.
UPP MEÐ HVÍTÁ
Úr frétt á mbl.is (19.11.2016) um fenjabáta: ,, Ef áformað tilraunaverkefni á vegum björgunarsveitarinnar Brákar tekst vel geta opnast möguleika til reksturs slíkra báta til skemmtisiglinga með ferðafólk um þetta svæði og upp með Hvítá. Það eru merkilegir bátar sem geta farið með fólk í skemmtisiglingar upp með Hvítá. Sennilega á að sigla upp Hvítá, ef vel gengur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/11/19/fenjabatar_a_borgarfjordinn/
ÍTARLEGUR ÝTARLEGUR
Orðið ýtarlegur, eða ítarlegur, þýðir nákvæmur eða rækilegur,segir orðabókin. Í frétt um risahótel, sem byggt verður á bökkum Mývatns segir svo í frétt mbl.is (18.11.2016): ,, Í leyfi Umhverfisstofnunar kemur fram að eigendur hótelsins á Flatskalla hafi lagt fram gögn sem sýna að þeir ætli sér að reisa skólphreinsistöð sem verður mun ítarlegri en aðrar slíkar stöðvar. Vandséð er að hægt sé að tala um ítarlega skólphreinsistöð. Hér hefði til dæmis mátt segja,- öflugri en aðrar slíkar stöðvar, eða , - sem hreinsi skólp mun betur en aðrar slíkar stöðvar.
AF...AF....
Hér í Molum er oft vikið að óþarfri og einkar hvimleiðri þolmyndarnotkun í fréttum. Dæmi úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (19.11.2016) þar sem sagt var frá ketti, sem bjargað var úr eldsvoða: ,,Hann var svo fluttur af lögreglumönnum til dýralæknis.... Úr sömu frétt: ,,Íbúum tókst að komast út og voru þeir hýstir af nágrönnum sínum meðan eldurinn var slökktur. Íbúunum tókst að komast út og skutu nágrannar skjólshúsi yfir þá meðan eldurinn var slökktur. Íbúunum tókst að komast út og fengu þeir inni hjá nágrönnum sínum meðan eldurinn var slökktur. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (20.11.2016) ... þar sem hann var stöðvaður af lögreglu. Þar sem lögreglan stöðvaði hann. Germynd er alltaf betri.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2016 | 10:05
Molar um málfar og miðla 2056
HRÓS UM BYLGJUFRÉTTIR
Molavin skrifaði (18.11.2016): ,,Þess ber að geta sem vel er gert. Oft hafa villur og handvömm í fréttalestri valdið angri - en það var hreinn unaður að hlusta á hádegisfréttir Bylgjunnar í dag, 18.11. Hreinn, skýr og fallegur lestur og afburða vel skrifaðar fréttir á góðu máli. Til hamingju með það, Gissur Sigurðsson og félagar. Þetta tekur Molaskrifari heilshugar undir. Gissur er góður fréttamaður og prýðilega máli farinn og þar starfar fleira gott fólk.
NÝTT RÍKI Í BANDARÍKJUNUM !
Í íþróttafréttum í Ríkisútvarpinu í hádeginu í gær, sunnudag, (20.11.2016) sagði íþróttafréttamaður: Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum var haldið í Orlandoríki í Bandaríkjunum .... Orlando er ekki ríki í Bandaríkjunum. Orlando er borg í Flórída. Flórída er ríki í Bandaríkjunum. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/hadegisfrettir/20161120 (16:26)
Landafræðikunnáttan ekki upp á marga fiska. Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps um kvöldið var talað um Orlando í Bandaríkjunum.
UM SLETTUR
Molaskrifari hefur ekki hlustað mikið á morgunþátt Rásar tvö að undanförnu. Hlustaði þó skamma stund á fimmtudagsmorgni (17.11.2016). Enn flugu þar enskusletturnar. Lítil beyting þar á. Umsjónarmaður sagði um fréttavef New York Times, - ,, sem er minn go to fréttavefur. Hvers vegna þurfti þarna að sletta á okkur ensku? Seinna í þættinum var flutt viðtal, eða eintal öllu frekar, kaflar úr viðtali á ensku. Það var að vísu þýtt eða endursagt að mestu leyti. Framhald var boðað daginn eftir.Verið var að vekja athygli á viðburði sem verður ( á ensku) í Hörpu í mars á næsta ári og að sala aðgöngumiða væri hafin eða að hefjast. Er Ríkisútvarpið ekki komið þarna út á hálan ís? Hallast að því. Þetta var daginn eftir dag íslenskrar tungu ! Bæta má við, að á föstudagsmorgni (18.11.2016) á Rás eitt var rætt við fréttamann um stjórnmálaástandið hér á landi. Molaskrifari heyrði ekki betur en fréttamaður talaði um,,rebela
( e.rebels- uppreisnarmenn). Vonandi var þetta misheyrn, en samt er spurt: Hversvegna enskuslettur í tíma og ótíma?
FALSKAR FRÉTTIR
Í fréttum Ríkissjónvarps (20.11.2016) var talað um falskar fréttir. Af því tilefni skrifaði Sólmundur:,, Hefur einhver heyrt um falskar fréttir :)? Hef nú heyrt um rangar fréttir og uppspuna, en aldrei falskar fréttir ! Molaskrifari þakkar Sólmundi bréfið. Hann hefur aldrei heyrt um falskar fréttir. Frekar ætti að talað um skáldaðar fréttir, uppdiktaðar fréttir eða upplognar fréttir.
http://www.ruv.is/frett/i-folskum-frettum-er-thetta-helst
REKA -REKJA
Í sama þætti og vitnaði er til hér að ofan var talað um ættir verðandi forseta í Bandaríkjunum, Donalds Trumps. Umsjónarmaður sagði: ,, ...þar sem hann rak ættir sínar. Þarna ruglaði umsjónarmaður saman sögnunum að reka og að rekja, sem ekki hafa sömu merkingu.Hann var beðinn um að reka féð úr túninu. Hann rak féð úr túninu.Hann var beðinn að segja deili á sér og rakti þá ættir sínar. Þessi villa, eða meinloka, hefur svo sem heyrst áður. Sé fólk í vafa er nóg til af handbókum og svo er líka hægt að nýta sér góða vefi Árnastofnunar, til dæmis nýja vefinn málið.is. Það er nóg af fólki í Efstaleiti, sem er vel máli farið og vel ritfært. Það þarf að leiðbeina þeim sem lakar eru að sér. Kannski þarf fleiri málfarsráðunauta eða gera meiri kröfur um íslenskukunnáttu þeirra sem ráðnir eru til starfa.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2016 | 11:09
Molar um málfar og miðla 2055
Í TILEFNI DAGSINS
Sveinn skrifaði Molum (17.11.2016): ,, Sæll Eiður,
á fréttamiðlinum Vísi var flennistór fyrirsögn, Rooney segir sorrí, og það á degi íslenskrar tungu.
http://www.visir.is/rooney-segir-sorri/article/2016161119004
Nær væri að Vísir bæðist afsökunar.
Áður hefur vakið athygli og meðal annars fjallað um það á þessum vef hversu augljóslega brotin eru lög á matarvef Netmogga með áfengisauglýsingum. Þar er ekkert lát á og í gær (15.11) birtist þar auglýsing á Thule bjór. Eða dæmi nú hver fyrir sig:
http://www.mbl.is/matur/frettir/2016/11/15/jolabjordagatal_i_takmorkudu_upplagi/
Molaskrifari þakkar Sveini bréfið og þarfar ábendingar. Ítrekuð er gagnrýni á Ríkissjónvarpið fyrir síendurteknar áfengisauglýsingar. Þar er ekkert lát á lögbrotum þótt látið sé sem verið sé að auglýsa einhverskonar léttöl.
STÓR TRUFLUN!
Á mbl. Is er (15.11.2016) talað um stóra truflun,en þar segir: Stór truflun varð í flutningskerfi Landsnets í dag klukkan 14:26 þegar eldingu sló niður í Búrfellslínu 3.
Molaskrifari minnist þess ekki að hafa heyrt talað um stóra truflun. Varð ekki rafmagnslaust? Varð ekki dreifikerfið óvirkt um hríð?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/11/15/stor_truflun_i_flutningskerfi_landsnets/
MERKING ORÐANNA
Í Fréttablaðinu (15.11.2016) er klausa á bls. 14 þar sem sagt er að Birgitta Jónsdóttir, Pírati eða sjóræningi sé í því að loka hurðum, útiloka samstarf við aðra flokka. Ummæli hennar hafi hleypt illu blóði í í fólk innan Bjartrar framtíðar. Síðan segir ,,Það er einkennilegt af stjórnmálamanni í forsvari fyrir tíu manna þingflokk að tala svo fjálglega á óvissutímum.Stjórnmál eru list hins mögulega, ekki lokunar.
Eitthvað vefst merking þess að tala fjálglega fyrir þeim sem þetta hefur skrifað. Að tala fjálglega merkir að vera háfleygur eða tala af mikilli andakt. Það má líka nota um mælgi, innihaldslítinn orðaflaum.
ALLT ER STAÐSETT
Oft hefur verið vikið að því í Molum hve mikið dálæti fréttamenn og fréttaskrifarar hafa á sögninni að staðsetja. Allt er staðsett. Í fréttum Stöðvar tvö (16.11.2016) sagði fréttamaður okkur: ,, Við erum hérna á bráðamóttökunni þar sem neyðarmóttakan staðsett.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2016 | 10:30
Molar um málfar og miðla 2054
TIL HAMINGJU!
Það var verðskulduð viðurkenning sem skáldið og rithöfundurinn Sigurður Pálsson hlaut í gær á degi íslenskrar tungu.Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Sannarlega tímabært. Þetta var að maklegleikum. Ævar vísindamaður var einnig vel að sínum heiðri kominn. Til hamingju báðir tveir.
ÓVÖNDUÐ ÞÝÐING SLÆMUR TEXTI
Sigurður Sigurðarson sendi Molum eftirfarandi á degi Íslenskrar tungu (16.11.2016). Fréttin er frá deginum áður:
,,Sæll,
Á visir.is stendur eftirfarandi:
Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, segir að hluti af sér vissi að sitt gamla lið myndi lenda í vandræðum ...
Blaðamaðurinn sem þýddi þessa frétt hefði mátt vanda sig betur. Enginn segir að hluti af mér vissi . Er þá átt við að fóturinn, maginn eða önnur öxlin hafi vitað eitthvað? Nei, þetta er bara hrá þýðing úr ensku sem gengur ekki part of me knew . Betur fer á því að segja á íslensku: Innst inni vissi ég eða ég hafði grun um að Með svona vinnbrögðum er vegið að íslensku máli. Þannig skekkist málið ef svo má segja og hugsunin brenglast.
Sami blaðamaður segir í sömu frétt:
Liðið er á þriðja stjóranum á þremur árum síðan Skotinn hætti.
Hér er átt við að á þeim þremur árum síðan Skotinn hætti hafi þrír stjórar verið starfandi hjá félaginu. Á barnum getur maður verið á þriðja glasi en fjandakornið að sama orðalag sé hægt að nota eins og gert í fréttinni.
Margt annað er óvandað í þessari frétt:
- Þegar hann og David Gill [stjórnarformaður Man. Utd] hættu á sama tíma var risastórt gat sem þurfti að fylla.
- Hann fékk þolinmæði sem síðustu tveir stjórar á undan José Mourinho fengu ekki.
- Ef menn vilja árangur strax getur það fljótt farið í vaskinn.
Á fjölmiðlum hefur orðið til einhvers konar íþróttamál, orðalag eða talsmáti sem hvergi finnst annars staðar. Hugsanlega er það vegna þess að ritstjórar og fréttastjórar hafa um það að velja að ráða fólk til starfa sem þekkir inn á íþróttir en hefur ekki reynslu í skriftum eða ráða fólk sem hefur þekkinguna en kann lítið til í íþróttum. Oftast er það fólkið með fyrrnefnda hæfileikannsem er ráðið en því miður virðist það ekki fá nógu góða tilsögn í fréttaskrifum. Þegar öllu er á botninn hvolft er það hið síðarnefnda sem skiptir öllu, fyrir fjölmiðilinn og íslenskt mál.Kærar þakkir, Sigurður, fyrir þarfar ábendingar.
MEIRA UM SLAKAR ÞÝÐINGAR
Rafn skrifaði Molum (14.11.2016): Sæll ,,Eiður
Eitthvað er athugavert við þýðingu þessa myndartexta hjá vefmogga (mbl.is). Ef almennt hefði verið farið að ráðum þýðandans og senditæki sett í gang, þá hefði það væntanlega teppt tíðnisviðið og þær útsendinga, sem ná áttu til almennings þar með verið kaffærðar.
Hér hafa tilmælin augljóslega verið að opna ætti fyrir viðtöku útvarpsviðtækja.
Flóðbylgju-viðvörun. Hafið kveikt á útvarpssendingum, stendur á vegaskilti í Nýja-Sjálandi. Stór jarðskjálfti skók Suðurey fyrr í dag.
Þakka ábendinguna , Rafn.
Á ensku var þetta svona: TSUNAMI WARNING TURN RADIO ON
https://mail.google.com/mail/u/0/?shva=1#inbox/158624d468fd9895
KVÆNT KONA
Í ramma í Morgunblaðinu (15.11.2016) segir um nýjan þingmann: Hún er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík , er kvænt , á tvö börnog tvö stjúpbörn.Þetta er rangt orðlag nema því aðeins að konan sé kvænt konu, gift konu.Svona til umhugsunar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)