Molar um málfar og miðla 2083

 

ENN EITT DÆMIÐ …

Enn eitt dæmið um slaka málfræðikunnáttu mátti heyra í fréttum Ríkisútvarps , - og sjá á vefsíðu Ríkisútvarpsins (27.12.2016): ,,Karlmaður, sem grunaður er um að hafa haldið konu gegn hennar eigin vilja á heimili sínu og nauðgað henni, hefur verið gert að afplána 630 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar.     „ Karlmaður hefur ekki verið gert …. Karlmanni hefur verið gert …. Þetta hafði verið lagfært í fréttum klukkan 1800. Var sett inn á fréttavefinn klukkan 16:07 og var óbreytt þar fjórum klukkustundum síðar. Slæmt að reyndir fréttamenn skuli ekki heyra, þegar þeir lesa setningu, sem er málfræðilega röng. Ekki er betra, að menn skuli ekki hafa rænu á að leiðrétta þetta á fréttavefnum.

 

MINNKI EKKI HÆKKUN

 Helgi Haraldsson prófessor emeritus i Osló og góðvinur Molanna, benti skrifara á þessa fyrirsögn Stundarinnar: Alþingismenn minnki ekki „mjög mikla“ launahækkun sína þrátt fyrir áskorun forsetans. – Er þetta áskorun til þingmanna um að skerða ekki þá launahækkun, sem þeir fengu? Verður vart skilið á annan veg. Þakka ábendinguna, Helgi.

http://stundin.is/frett/althingismenn-minnki-ekki-launahaekkun-sina-thratt-fyrir-askorun-forsetans/

 

ÓVANDVIRKNI

Í fréttum Ríkisútvarps á miðnætti á annan dag jóla var sagt: Orsök flugslyssins eru rakin til … Þetta er rangt. Orsakirnar eru raktar til … En þetta er lesið svona fyrir okkur vegna þess að enginn les yfir áður en lesið er fyrir okkur. Verkstjórn á fréttastofu Ríkisútvarpsins er ekki sem skyldi.

 

RÉTT SKAL ÞAÐ VERA

Í frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins er sagt frá því, að sumar dansmeyjarnar í frægum flokki, sem sýnir listir sýnir sínar í Radio City Music Hall, í Rockefeller Center á Manhattan í New York, vilji ekki tala þátt í danssýningu þegar Donald Trump verður settur í embætti 20. janúar 2017. Kannski smáatriði, en þau skipta líka máli í fréttum, en í fréttinni er dansflokkurinn ítrekað kallaður Rocketts. Dansflokkurinn heitir hinsvegar The Rockettes   Rétt skal það vera. Molaskrifari man vel, er hann sá þessar dömur dansa í Radio City í byrjun nóvember 1960, - það er orðið dálítið langt síðan !

http://www.ruv.is/frett/sumar-neita-ad-dansa-fyrir-trump

 

SVOKÖLLUÐ ÞRENGSLI

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (28.12.2016): ,, Lokað hefur verið fyrir innganginn að Raufarhólshelli í Þrengslunum svokölluðu, suðaustur af Bláfjöllum.“ Hvers vegna svokölluð Þrengsli? Má þá ekki alveg eins tala um svokallaða Hellisheiði? Inngangur að helli heitir hellismunni.

Molaskrifari er reyndar þeirrar skoðunar að Raufarhólshellir sé sunnan eða suðaustan við Þrengslin, sem eru milli Lambafellls að vestan og Gráuhnúka að austan.  Hellirinn talsvert sunnar, en hann er við Þrengslaveginn.

http://www.ruv.is/frett/kosti-6400-kronur-ad-fara-i-raufarholshelli

 

Lýkur hér síðustu Molum ársins 2016.

 

Gleðilegt ár, ágætu Molalesendur.

Þakka ykkur góð og gefandi samskipti á árinu, sem nú er senn liðið, og óska ykkur alls hins besta á nýju ári.

 

 

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2082

Molaskrifari horfir ævinlega á veðurfréttir í sjónvarpinu. Mikill áhugamaður um veðurfar. Að öðrum veðurfræðingum ólöstuðum finnst honum Einar Sveinbjörnsson gera veðrinu best skil. Hann er bara of sjaldan á skjánum. Einar sýnir okkur jafnan hitastig í Færeyjum og sýnir eða nefnir hitann á Kanaríeyjum.

Margir vilja gjarna vita af veðrinu á þessum stöðum. Ekki sakaði að Nuuk, höfuðstaður Grænlands fylgdi með. Molaskrifari skilur ekki hvers vegna ekki er alltaf hægt að sýna Færeyja- og Kanaríeyjahitann á veðurkortinu. Hvað er því til fyrirstöðu? Svo virðist heldur ekki nein regla á því, hvort okkur er sýnt veðrið í Evrópu og í Vesturheimi, einkanlega um helgar , - oftast er það reyndar gert.

Málfar í veðurfregnum og veðurspám er yfirleitt með ágætum, en ekki kann skrifari við orðalagið, -  þá verður búið að lægja, - þá hefur lygnt, - og í viðtali á annan í jólum heyrði skrifari ekki betur en sagt væri,  að miklar umhleypingar yrðu næstu daga. Miklir umhleypingar, rysjótt veðurfar. Nú er búið að snjóa talsvert, var sagt á miðnætti á annan í jólum.

 Já, veðurfarið hefur verið rysjótt yfir hátíðarnar, ekki bara hjá okkur heldur og í Færeyjum, Noregi og víðar. Aftakaveður var í Færeyjum, sem olli nokkrum skaða. Sérkennilegt var að Ríkisútvarpið skyldi ræða Færeyjaveðrið við konu á Suðurey, þar sem veðrið var ekkert í líkingu við það sem var á norðureyjunum, til dæmis í Þórshöfn á Straumey og enn norðar eins og í Götu á Austurey. Ríkisútvarpið hlýtur að vera með fréttaritara í Þórshöfn. Líka var skrítið að mbl.is þótti fréttnæmt að það skyldi taka  Íslending, sem ætlaði að dveljast í Færeyjum yfir jól og áramót með fjölskyldu sinni, fimm klukkustundir að komast til Færeyja. Það er ekki frétt. – Molaskrifari starfaði tæp tvö ár í Færeyjum. Einu sinni tók þrjá daga að komast þangað frá Reykjavík. Fyrst var reynt tvisvar að lenda á Vágaflugvelli, en ekki lendandi og því snúið til baka til Reykjavíkur. Daginn eftir var reynt aftur en þá höfðu aðstæður skyndilega breyst í Færeyjum og ekki einu sinni reynt að lenda, heldur flogið til Kaupmannahafnar og gist þar. Þriðja daginn tókst að komast til Færeyja, - og þótti ekkert sérstaklega fréttnæmt.

 

 

 

LOKUN - OG FLEIRA

Í fréttum Bylgjunnar á aðfangadag var sagt: Pósthús voru lokuð klukkan tólf. Hefði átt að vera: Pósthúsum var lokað klukkan tólf.

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan eitt eftir miðnætti aðfaranótt aðfangdags var sagt: … og bátana hvolfdi … - Bátunum hvolfdi.

 

ENSKAN

Nýlega var hér í Molum vikið að brugghúsi, ölgerð, í Vestmannaeyjum. Þar þykir sjálfsagt að nota enskuna. Fyrirtækið heitir The Brothers Brewery, á íslensku: Bræðrabrugg.  Í Kastljósi (22.12.2016) var tætt við stjórnanda íslensks kórs. Kórinn heitir Vocal Project Poppkór. Íslenskan dugar ekki. Kannski ekki nægilega fín.

 Í sama þætti sagði umsjónarmaður um söngvara: Hann var ekki að mæma, hann söng þetta. Að mæma er enskusletta ( e. mime). Átt var við að söngurinn hefði ekki verið tekinn upp áður, upptakan leikin og söngvarinn bara látið sem hann væri að syngja með látbragði og með því að bæra varirnar. Algengt í sjónvarpi, oft gert til að tryggja betri hljómgæði.

 

ENN UM ÞÝÐINGAR

Á jóladag birti mbl.is frétt um konu sem fyrir 34 árum lifði af fall úr rúmlega tíu km hæð, er flugvél þar sem hún var flugfreyja sprakk á flugi. Í þýddri frétt mbl.is segir hvað varð konunni til bjargar:,, Hún fest­ist í keilu á aft­ur­hluta flug­vél­ar­inn­ar (cone of the tail) og eft­ir 10.160 metra (33.300 feta) fall lenti hún á jörðinni“. Konan festist aftast í stéli vélarinnar. Til hvers að skýra þetta fyrir okkur á ensku? Þetta eru miður góð vinnubrögð.,

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/12/24/lifdi_af_10_km_fall/

Örlítil viðbót um þýðingar.  Í  frétt á forsíðu Morgunblaðsins (17.12.2016) var sagt  frá  SAS vél sem gat ekki lent í Kaupmannahöfn vegna óveðurs. Síðan segir: ,,Vélinni tókst þó að lenda á dönsku eyjunni Bornholm, rétt áður en stormurinn gekk þar á land“. Þessi danska eyja hefur  svo lengi sem skrifari man heitið Borgundarhólmur á íslensku. Skrifari hefði ekki talað um að ,,stormurinn gengi á land“, - heldur sagt, áður en óveðrið náði þangað.

 

 

LÉST Í KYRRÞEY

Í fréttum Ríkisútvarps á miðnætti á jóladag var sagt svona frá láti frægs erlends tónlistarmanns: Hann lést í kyrrþey á heimili sínu. Þetta var endurtekið í fréttum klukkan eitt og klukkan tvö eftir miðnætti. Enginn las yfir. Hann fékk hægt andlát á heimili sínu.

Mbl.is segir líka frá láti söngvarans og orðar það sínum hætti:,, Í til­kynn­ingu frá fjöl­miðlafull­trúa hans kem­ur fram að Michael hafi lát­ist „friðsam­lega heima hjá sér.“ Hrá þýðing úr ensku , kannski með hjálp Google. Á netsíðu theguardian sagði: ,, Pop superstar George Michael has died peacefully at home, his publicist said“. Á íslensku er talað um að fá hægt andlát. Þegar ferill tónlistarmannsins var rakinn í hádegisfréttum Ríkisútvarp sá annan í jólum var sagt frá hljómsveit,sem hann var í sem hefði leyst upp laupana. Of algengt að heyra misfarið með orðtök, sem eru föst í tungunni. Að leggja upp laupana, er að hætta, gefast upp. Enginn les yfir. Ekkert gæðaeftirlit með framleiðslunni !  

http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/12/25/george_michael_latinn/

 

FLUGUR

Í morgun (29.12.2016) hlustaði skrifari á Flugur, þátt Jónatans Garðarssonar á  Rás  eitt.  Jónatan  er mikill  fróðleiksbrunnur um  dægurtónlistarsöguna og leikur sjaldheyrð lög, sem örugglega gleðja marga. Vönduð framsetning á  góðu efni, eins og  ævinlega hjá Jónatani. Takk.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2081

ENN UM KOSNINGAR OG ATKVÆÐAGREIÐSLUR

Það er með ólíkindum hvað sumum fréttamönnum gengur illa að greina á milli kosninga og atkvæðagreiðslna. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum.

 Í áttafréttum að morgni Þorláksmessu var sagt í Ríkisútvarpinu: ,,Kosningu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um fordæmingu á landtöku ‚Ísraelsmanna á vesturbakka ….“Það var ekki verið að kjósa um fordæmingu. Það átti að greiða atkvæði í ráðinu um ályktun þar sem ólögmæt landtaka Ísraelsmanna var fordæmd. Seinna í fréttinni var réttilega talað um atkvæðagreiðslu. En það er undarlegt hve mörgum fréttaskrifurum gengur illa að hafa þetta rétt.

 

SAMDAUNUN!

Geir Magnússonvinur Molanna, skrifaði (23.12.2016): ,,Heill og sæll
Ekki veit ég hvort samdaunun sé rétt mál hjá mér, en ég stend mig að því að taka sumum villum unglinganna hjá mbl.is með jafnaðargeði.
Til dæmis þessar óralöngu málsgreinar, þar sem orðið “en” er (mis)notað til að tengja saman setningar, sem ættu að standa einar.
Sama má segja um þann ósið að endurtaka nafn í stað þess að nota persónufornafn.(Var í langloku um Björk í morgun).
Þessi samdaunun mín minnir mig á sænskt ljóð í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar ("Í Afríku eru svartir menn, sem aldrei klæða sig…" og endar á “nú spila ég á skóhornið og spila bara vel, það verður loksins vani að vera Móríani”.
En við skulum ekki gefast upp heldur halda áfram að nudda í þessu. Kannski Davíð gefi sér tíma til að gefa út dagskipun í anda Stefáns heitins fógeta “Íslenzkir fréttamiðlar skulu vera ritaðir á íslenzku” „

Þakka þér bréfið, Geir. Já, það skortir nokkuð á að íslenskir fréttamiðlar séu skrifaðir á íslensku, - sletturnar eru því miður of margar.

 

EITTHVAÐ TJÓN

Af mbl.is (23.12.2016) úr frétt um eldsvoða í bílskúr í Kópavogi:,, Greiðlega gekk að slökkva eld­inn og er eitt­hvað tjón á inn­an­stokks­mun­um en það var reyk­skynj­ari í bíl­skúrn­um sem senni­lega hef­ur komið í veg fyr­ir að tjónið yrði meira“. Þetta hefði mátt skrifa svona, -til dæmis: Greiðlega gekk að slökkva eld­inn. Tjón varð á inn­an­stokks­mun­um, en reyk­skynj­ari í bíl­skúrn­um hefur senni­lega komið í veg fyr­ir að tjónið yrði meira.


AÐ SKELLA SÉR Í MESSU!

Úr frétt á mbl.is á jóladag, þar sem segir frá hefðbundinni jólamessu ,sem margir úr breskukonungsfjölskyldunni sóttu. Þessi kirkjuferð er árlegur viðburður. :,, Megnið af ensku kon­ungs­fjöl­skyld­unni skellti sér í jóla­dags­messu í morg­un. “Ekki er Molaskrifari viss um að fyrrverandi ritstjórar , eða núverandi ritstjóri, séu sáttir við þetta orðalag. Þeir ættu ekki að vera.

http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/12/25/konungbornir_skelltu_ser_i_messu/

 

AÐ VERSLA GJAFIR

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á aðfangdag spurði fréttamaður Ríkisútvarpsins á Akureyri vegfaranda: Er þetta í fyrsta skipti, sem þú verslar jólagjöf á aðfangadag? Sá sem fyrir svörum varð, var ekki að versla jólagjafir. Hann var að kaupa jólagjafir. – Þetta er sára einfalt , en samt svo flókið, að það mörgum fjölmiðlamanninum ofviða að hafa þetta rétt. Fréttamanninum varð sömuleiðis einkar tíðrætt um að redda

 jólagjöfum !

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2080

AÐ VANDA MÁL SITT

Kannski er það ekki lengur til siðs hjá sumum blaðamönnum að vanda mál sitt. Í Ljósvakapistli í Morgunblaðinu rétt fyrir jólin (22.12.2016) var skrifað: ,, Jóladagatöl hafa verið fastur liður hjá flestum börnum á þessum árstíma og var slíkt algjört ,,möst“ á mínum uppvaxtarárum“. Möst er ekki íszlenska , ,,möst“ er slangur sem  á ekki heima Morgunblaðinu.Hér áður fyrr hafði Morgunblaðið metnað til að gera vel og vanda málfar. Það virðist vera liðin tíð, - því miður. Hvað svo sem veldur. Það er umhugsunarefni.

 

ÖNNUR UMFERÐ…ÞRIÐJA UMFERÐ Á ALÞINGI

Af forsíðu mbl.is (22.12.2016) Þar sem sagði frá afgreiðslu fjárlaga á Alþingi: ,,Þakk­læti, já­kvæðni og hlý orð ein­kenndu síðustu ræður nefnd­ar­manna í fjár­laga­nefnd sem stigu í pontu Alþing­is í kvöld við lok annarr­ar umræðu um fjár­lög 2017. Voru þau samþykkt í ann­arri um­ferð nú á ní­unda tím­an­um, en þriðja um­ferð fer vænt­an­lega fram síðar í kvöld.“ Fjárlög voru samþykkt við lok annarrar umræðu. Fjárlög voru svo endanlega samþykkt við lok þriðju umræðu síðar um kvöldið og send ríkisstjórninni sem lög frá Alþingi.

 Hvaða rugl er þetta? Hér hefur fréttabarn, eins og stundum er sagt, viðvaningur, verið að verki og enginn lesið yfir eða leiðbeint. http://www.mbl.is/frettir/

 

SÖNGHÓPUR HERSINS

,, 64 listamenn úr opinberum sönghópi rússneska hersins voru um

borð í þotu hersins sem hrapaði í Svartahaf á þriðja tímanum í nótt. ,,

Þetta er úr frétt á mbl.is á jóladag. Frétt um hörmulegt flugslys er rússnesk þota, sem var nýbúin að hefja sig til flugs hrapaði í Svartahafið og 91 maður fórst, allir sem um borð voru. Þeirra á meðal voru 64 söngmenn úr heimsfrægum kór Rauða hersins. Blessað barnið, sem þýddi þessa frétt notar þrisvar sinnum orðið sönghópur. Hefur ef til vill ekki heyrt talað um kór.

http://www.ruv.is/frett/songhopur-hersins-i-flugvelinni-sem-forst

 

SKORTUR Á FRAMBOÐI!

Úr frétt á visir.is um íbúðaverð í miðbænum í Reykjavík (22.12.2016):,, Það náttúrulega skiptir mjög miklu máli í þessu sambandi að það er væntanlega töluverður skortur á framboði, það vantar fleiri íbúðir inn á markaðinn“. Þetta er haft eftir hagfræðingi hjá Landsbanka Íslands. Molaskrifara finnst fremur ólíklegt að hagfræðingurinn hafi talað um skort á framboði! Framboðsskorturinn skýrist í lok setningarinnar. Eðlilegra hefði verið að tala um lítið framboð af íbúðum.

 

HILLIR UNDIR

Trausti skrifaði (23.12.2016) um tilvitnun í mbl.is ,sem áður hefur verið vikið að í Molum: Hyll­ir und­ir lok hallær­is­ins var þar sagt.
,,Já, það er þetta með muninn á „að hylla“ og „að hilla“, sem einhverjum gengur illa að skilja. Ekki þarf að óttast að sögnin „að hilla“ þýði að eitthvað sé sett á hillu, en hér er e.t.v. þörf á nánari fræðslu og útlistun orðanna.“ Þakka bréfið Trausti. Þetta bar á góma í síðasta Molapistli http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/12/21/hyllir_undir_lok_hallaerisins/

 

KUNN8!

Molaskrifara verður á í messunni eins og öðrum. Innsláttarvilla var í síðasta pistli. Góður vinur Molanna benti skrifara á þetta og sagði (22.12.2016):,, Og af því að þú skrifar (óvart) Ku8nnátta í Molum dagsins, sjá hér að neðan, er spurning hvort þú átt ekki að ganga alla leið eins og Ameríkanar gera í nútíma styttingum og skrifa bara kunn8....!?“ Þetta stóð í Molum: ,,Ku8nnátta í beygingum og málfræði íslenskrar tungu mætti vera meiri á auglýsingastofu“. 

- Þetta er góð ábending , en svo langt leiddur er skrifari ekki ! Þakka bréfið og biðst vel virðingar á innsláttarvillunni.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2079

SÍBRJÓTUR

Molavin skrifaði ( 22.12.2016): ,, "Síbrjótur dæmdur fyrir þjófnað og árás" segir í fyrirsögn fréttar á vef Ríkisútvarpsins (22.12.). Það er gaman og gleðiefni þegar tekin eru upp lipur orð, gagnsæ og auðskiljanleg. Þetta orð, síbrjótur" er liprara en síbrotamaður en segir það sama.“ Ágætis orð. Þakka bréfið, Molavin

 

STAFSETNING OG BEYGINGAR

Jt benti á eftirfarandi af mbl.is:

,,Afritaði þetta af mbl.is - hér vantar eitthvað á stafsetningarkunnáttu og beygingarkunnáttu (sjá það sem er undirstrikað)

Tækni & vísindi | mbl | 21.12.2016 | 12:05

Hyllir undir lok „hallærisins“ Íbúar á norður­slóðum sem þrauka nú í gegn­um svart­asta skamm­degið geta þakkað mönd­ul­halla jarðar fyr­ir að hýr­ast í myrkri nær all­an sóla­hring­inn. Nú hyllir hins veg­ar und­ir lok hallær­is­ins því vetr­ar­sól­stöður voru í morg­un og sól­in fer að staldra leng­ur við á dag­inn á norður­hvel­inu.

200 mílur | mbl | 21.12.2016 | 11:42 
Fengu bók um örlög fyrsta Dettifoss Áhöfn­in á Detti­fossi var af­hent bók­in Ljós­in á Detti­fossi eft­ir Davíð Loga Sig­urðsson sagn­fræðing en í bók­inni skrá­ir hann sögu afa síns, Davíðs Gísla­son­ar stýri­manns, og fjall­ar bók­in um hinstu för skips­ins.- Þakka ábendinguna Jt. Rétt er að þarna skortir nokkuð upp á kunnáttu í stafsetningum og réttum beygingum. - Enn eitt dæmið um að enginn les yfir áður en birt er. Það er ljóður á ráði fjölmiðils ,sem mikið er lesinn.

 

FRÉTTAMAT

Einkennilegt fréttamat hjá Ríkisútvarpinu að leggja stóran hluta Spegilsins, - aðalfréttatíma og fréttaskýringatíma útvarpsins (21.12.2016) undir viðtal við Birgittu Jónsdóttur þingmann Pírata um bandaríska uppljóstrarann Edward Snowden, sem nú er undir verndarvæng Pútíns í Moskvu.

Hver var fréttin? Birgitta vill að Snowden fái íslenskan ríkisborgararétt. Það er gömul frétt. Nokkurra ára gömul. Þetta var einkennilegt fréttamat. Gat ekki heyrt að neitt væri nýtt í þessu.

 

HAMBORGARAHRYGGIR OG FLEIRA

Enn eru auglýstir hamborgarahryggir í Ríkisútvarpinu (22.12.2016), þegar átt er við hamborgarhryggi. Kannski þessir hryggir gerðir úr hamborgurum? Skrítið að enginn skuli leiðrétta svo augljósa villu. Ku8nnátta í beygingum og málfræði íslenskrar tungu mætti vera meiri á auglýsingastofu. Sama dag voru auglýstir tónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefndar. Til styrkar Mæðrastyrksnefnd , hefði þetta átt að vera. ( Til styrktar Guðrúnu, - ekki til styrktar Guðrúnar)

 

 

HÖFUÐ LÖGREGLU

Dálitið ankannaleg fyrirsögn á bls. 8 í Fréttablaðinu (21.12.2016): Höfuð lögreglu í Svíþjóð víki. Fréttin er um að leiðtogi Hægri flokksins í Svíþjóð hafi krafist afsagnar ríkislögreglustjórans þar í landi.

 

ANDVARI Í PÓLITÍK

Ef marka má nafnlausa Staksteina Morgunblaðsins (22,12,2016) er Andvari, rit Hins íslenzka Þjóðvinafélags komið á kaf í pólitík, - ritstjórinn leggst þar í vörn fyrir fyrrverandi forsætisráðherra, sem hrökklaðist úr embætti af ástæðum sem þjóðin öll þekkir. Þetta er undarlegt og kemur örugglega mörgum áskrifendum ritsins á óvart.

 

HVERADALIR

Örnefni skila sér ekki alltaf rétt í fréttum. Í óveðursfréttum Ríkisútvarps á þriðjudagskvöld (20.12.2016) var sagt frá bíl eða bílum sem lent höfðu í vandræðum vegna ófærðar í Hveradalsbrekku. Átt var við brekkuna vestur af Hellisheiði eða upp frá Svínahrauni á heiðina, fram hjá Skíðaskálanum. Þar heita Hveradalir. Við tölum um Skíðaskálann í Hveradölum. Stundum er brekkan líka kennd við skálann og kölluð Skíðaskálabrekka. Þetta hefur áður borið á góma í Molum.

 

GLEÐILEG JÓL OG GÆFURÍKT ÁR, ÁGÆTU MOLALESENDUR !

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2078

SLYS

Jakob R. Möller skrifaði Molum (20.12.2016): ,, Heill og sæll,

Nú til dags sýnast hverskyns óhöpp kölluð slys. Var að hlusta á fréttir á Rás 1, þar var ítrekað vísað til „slyssins á Mosfellsheiði“ síðdegis. Ekkert var þó nefnt um það, að nokkur maður hefði meiðzt. Samkvæmt minni málvitund merkir slys, að einhver hafi meiðzt, það er slasast.“ Kærar þakkir, Jakob. Þetta er réttmæt ábending. Nákvæmt orðalag bæætir fréttir. Sem betur fer slasaðist enginn. En manni sýnist, að stundum sé teflt á tvær hættur, þegar veður eru válynd og færð slæm. Þarna skall hurð nærri hælum.

 

 

 SLETT

Á mánudagsmorgni (19.12.2016) var fjallað um íslenskt mál í morgunútvarpi Rásar tvö. Rætt var um jól og orð tengd jólum. Ágæt umræða. Umsjónarmaður vildi endilega tala um jólalingó. Lingó er ekki íslenska. Málfarsráðunautur reyndi að andmæla, en mátti sín greinilega lítils gegn beittum brotavilja sumra innanhússmanna í Efstaleiti. Umsjónarmaður var ef til vill að reyna að vera fyndinn.

 

KISTU FLOGIÐ HEIM

 Þetta er fyrirsögn af visir.is (20.12.2016):Kistu rússneska sendiherrans flogið heim. Í fréttinni er tvívegis talað um að kistu sendiherrans hafi verið flogið heim. Kista rússneska sendiherrans , sem myrtur var í Ankara, höfuðborg Tyrklands, var flutt með flugvél heim til Rússlands. Molaskrifari kann ekki að meta orðalagið, að kistunni hafi verið flogið. Sjá: http://www.visir.is/kistu-russneska-sendiherrans-flogid-heim/article/2016161229865

 

 

JÓLABARN

Nánast allir, sem rætt er við í blöðum fyrir jólin um jólahald og sólasiði, segjast vera mikil jólabörn. Er þetta ekki tiltölulega nýtilkomið orðalag? Man ekki eftir því að þetta hafi verið almennt verið notað hér á árum áðum. Málið tekur sífelldum breytingum. Sumt gleymist fljótt. Annað lifir.

 

SÓKN ENSKUNNAR

Oft er hér í Molum vikið að miskunnarlausri sókn enskunnar gegn íslenskunni. Íslendingar og íslensk fyrirtæki og þá ekki síst auglýsingastofur leggja enskunni lið. Samanber TAX FREE ( sem er reyndar rangnefni og ósannindi), Black Friday, Sale, og svo framvegis. Í Vestmannaeyjum á nú að stofna brugghús til að brugga öl. Það á auðvitað að heita The Brothers Brewery. Bræður ætla að brugga bjór. Bræðrabrugg er sjálfsagt ekki nógu fínt. Enska skal það vera.

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/12/20/opna_brugghus_og_olstofu_i_vestmannaeyjum/

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2077

ENSKAN ENN - HONEY MUSTARD !

 Molaskrifari fór í matvöruverslun að kaupa sinnep, sem ekki er í frásögur færandi. Þar var úr mörgu að velja. Meðal annars var þar á boðstólum …. Alveg ekta Honey Mustard . Þetta var ekki erlend framleiðsla. Þetta var frá Akureyri. Framleiðandinn var M&M, Matur & Mörk, Frostagötu 3c, Akureyri. Íslenskt fyrirtæki að framleiða vörur fyrir Íslendinga og býr til enskt vöruheiti! Hvað er að því að kalla þetta Hunangs sinnep ? - Það skilja það örugglega fleiri en enska heitið.

 

 

 FÓLK HEFUR …

Úr fréttum Stöðvar tvö (18.12.2016: ,, Forystufólk stjórnmálaflokkanna, sem sæti eiga á Alþingi, hafa undanfarna daga rætt óformlega um myndun nýrrar ríkisstjórnar.“ Forystu fólk ….hafa ekki .. Forystu fólk … hefur,  á þetta að vera. Annað væri, forystumenn hafa rætt um ...

 

EKKI TIL FYRIRMYNDAR

Þetta er af mbl.is (16.12.2016): Við ætl­um ekki að full­yrða um hvort þetta starti nýju trendi eða hvort fólk haldi sig í skefj­um. Ekki er hægt að segja að þetta málfar sé mbl.is til sóna eða til fyrirmyndar. http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/12/15/osmekkleg_olettutilkynning_eda_stormandi_lukka/

 

GLUGGINN OPNAR

,, … þegar félagaglugginn opnar.“, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (16.12.2016). Félagaglugginn svokallaði opnar hvorki eitt né neitt. Hann opnast eða er opnaður.

 

HÖFRUNGUR ÞRJÚ

Ómar sendi Molum línu og benti á að í fréttum Ríkisútvarps af sjómannaverkfalli (15.12.2016) hefði verið talað um fiskiskipið Höfrung þrjú, en ekki Höfrung þriðja, eins og rétt hefði verið. Þakka ábendinguna. Undarleg villa. Hugsunarleysi.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2076

ORÐRÓMAR OG AÐ FRJÓSA TIL BANA

 Málglöggur lesandi sendi Molum línu (18.12.2016). Hann  segir:

„Á mbl.is laugardaginn 17. desember var talað um „orðróma“ ( í fleirtölu.) Er það ekki hreint orðskrípi? Þar var einnig talað um að einhver hefði „frosið til bana“. Segjum við ekki að lengur að „frjósa í hel“? Það þarf að herða róðurinn, Eiður!“ Þakka bréfið. Já oft var þörf að herða róðurinn, er nú er nauðsyn. Orðrómar (fleirtala) finnst mér eins og þér óttalegt orðskrípi, - jafnvel þótt það megi finna í beygingalýsingu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar. Kannski hefur sá sem talaði um orðróma verið að hráþýða úr ensku , rumours. Sennilega hefur sá sem skrifaði frosið til bana aldrei heyrt talað um eða lesið um að frjósa í hel , eða verða úti. Minnkandi bóklestur kemur meðal annars fram í minni orðaforða.  

 

TENGSL

Rafn skrifaði (16.12.2016) : Sæll Eiður

Eitt hefir löngum ergt mig, en það er sú árátta fréttabarna og annarra, að þegar rætt er um efni tengt öðru efni, þá er orðið tengt oftast haft í þágufalli án tillits til hvaða fall hentar í viðkomandi setningu. Gott dæmi um þetta er í fréttinni hér fyrir neðan, þar sem sagt er: „. . . nem­end­ur seldu í kvöld matarpakka til for­eldra og annarra tengd­um nem­end­um . . .“ þar sem rétt væri: „. . . nem­end­ur seldu í kvöld matarpakka til for­eldra og annarra tengdra nem­end­um . . .

 Úr frétt á mbl.is:,, Matráður Rétt­ar­holts­skóla og vald­ir nem­end­ur seldu í kvöld matarpakka til for­eldra og annarra tengd­um nem­end­um skól­ans en ágóðinn mun all­ur renna til Mæðra­styrksnefnd­ar. Kokk­arn­ir knáu fengu hrá­efnið gef­ins frá birgj­um skól­ans og var miðað að því að halda kostnaði í núlli.“

Hann nefnir eftirfarandi : ,, Dæmi:

Það voru foreldrar tengdir nemendum sem ræddu við aðra tengda nemendum og sögðu vinum sínum ótengdum nemendum frá matarpakkasölu til allra, tengdra nemendum jafnt sem ótengdra - Þakka bréfið, Rafn.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/15/eldad_til_styrktar_maedrastyrksnefnd/

 

KEYPTI UPPLAGIÐ!

Merkileg forsíðufrétt í Fréttatímanum á föstudag (16.12.2016). Fyrirsögnin er: Samherji keypti upplagið. Fréttin hefst á tilvitnun í útgefandann:,,Jú, Samherji keypti upplag af okkur, og ég geri nú ráð fyrir því að þeir gefi bókina í jólagjöf,“ segir útgefandinn Jónas Sigurgeirsson, sem á og rekur útgáfuna Almenna bókafélagið, en Samherji keypti upplag af nýrri bók sagnfræðingsins Björns Jóns Bragasonar; Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits?“ – Svo bar útgefandinn þessi ummæli af sér, sem von er, á fésbók á föstudaginn. Fréttin ber með sér, að sá sem skrifaði hana veit ekkert hvað upplag er. Upplag, er eintakafjöldi prentaðs máls, bókar eða blaðs, segir orðabókin. Samherji keypti hluta upplagsins og er talið að þetta vellauðuga fyrirtæki ætli að gefa starfsfólki sínu bókina í jólagjöf. Alltaf er betra að þekkja merkingu orðanna, sem notuð eru í fréttaskrifum.

http://www.frettatiminn.is/samherji-keypti-upplagid/

 

 

FRAMLENGING

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (16.12.2016) var sagt , að til skoðunar væri að framlengja þessu ákvæði ….. (lagaákvæði). Talað er um að framlengja lán, ekki framlengja láni. Þess vegna hefði átt að tala um að framlengja þetta ákvæði. Ekki þessu ákvæði. Hins vegar hefði mátt tala um að framlengja gildistíma þessa ákvæðis. - Enginn les yfir.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2074

FYRIRHÖFN OG FJÁRMUNIR

Þorvaldur skrifaði Molum (13.12.2016): ,,Sæll Eiður.

Var að horfa á Kastljós þar sem rætt var við lögfræðing Lyfjastofnunar um eftirlit með svokölluðum lækningatækjum. Pilturinn sagði að setja þyrfti frekari "rísorsa" (e. resources) í eftirlitið til að það mætti koma að gagni. Ekki átti hann íslenskt orð yfir hugtakið, en hefur trúlega átt við fyrirhöfn og fjármuni.“ Þakka bréfið Þorvaldur. Enskusletturnar eru í mikilli sókn, - því miður. Ekki þarf lengi að hlusta á útvarp til að komast að raun um það.

UM BIRGJA

Birgir er fyrirtæki, sem sér öðrum fyrirtækjum aðföngum, segir orðabókin. Það beygist sem hér segir: birgir, birgi, birgi, birgis. Í fleirtölu: birgjar, birgja, birgjum, birgja. http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=4528. Þetta vefst fyrir ýmsum. Þetta er af mbl.is (13.12.2014):,, Þór­ar­inn Þór­ar­inns­son (Innskot- svo!) , vöru­stjóri á Iðnaðarsviði hjá N1, seg­ir þeirra frost­lög koma frá birgja í Bretlandi, sem hafi sett svo nefnd­an „bitter­ing ag­ent“ út í frost­lög­in.

„Okk­ar birgi á í mikl­um viðskipt­um við Frakk­land og þar er þetta skyldað sam­kvæmt lög­um,“ Þetta er eiginlega tóm vitleysa. Frostlögurinn kemur frá birgi. Okkar birgir á í erfiðleikum. Óþarfi er að nota ensku,  bittering agent“. Það hefði verið alveg nóg að tala um biturt, bragðvont efni. Enginn les yfir. Eða, að sá sem las yfir er jafn illa að sér og sá sem skrifaði. Svo er maðurinn Þórarinsson, ekki, - Þórarinnsson. Óttaleg hörmung.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/13/bitri_frostlogurinn_freistar_ekki/

 

ÓÞARFA ÞOLMYNDIN

Enn eitt dæmi um óþarfa þolmynd af fréttavefnum mbl.is (12.12.2016) : ,, Síðdeg­is í gær var síðan ferð ölvaðs öku­manns stöðvuð á Hafn­ar­fjarðar­vegi við Arn­ar­nes af lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu.Betra hefði verið: Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ferð ölvaðs ökumanns á

Hafnarfjarðarvergi við Arnarnes. Germynd er betri. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/12/fjorir_grunadir_um_fjarkugun/

Og hér er annað dæmi um vonda, eiginlega verri,  þolmynd, - einnig af mbl.is (13.12.2016) : Nú í kvöld birt­ust frétt­ir í sænsk­um fjöl­miðlum þess efn­is að grun­ur léki á gríðarleg­um skan­dal hvað varðar hagræðingu úr­slita af leik­mönn­um í efstu tveim­ur deild­um sænsku knatt­spyrn­unn­ar. Þetta er eiginlega enn verri texti en dæmið um ferð ölvaðs ökumanns. Hér hefði til dæmis mátt segja: Í kvöld birtust fréttir í sænskum fjölmiðlum um að grunur léki á að leikmenn í tveimur efstu deildum sænsku knattspyrnunnar hefðu hagrætt úrslitum knattspyrnuleikja. Það væri meiriháttar hneyksli ef rétt reynist. Stór skandall skekur Svíþjóð, er fyrirsögnin ! – Ekki góð vinnubrögð.

http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2016/12/13/stor_skandall_skekur_svithjod/

 

GÓÐUR!

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (13.12.2016) var sagt frá hópslagsmálum í Arnarfirði ,,Kúlubardaganum mikla“ fyrir einum 60 árum, sem sennilega hefðu verið síðustu hópslagsmál á Íslandi, en þar gekk greinilega mikið á, þótt mannfall yrði ekki. Að lestri fréttarinnar loknum, sagði Broddi Broddason, þulur: Og víkur nú sögunni að síðari tíma íþróttum og svo fylgdi ný íþróttafrétt. Góður !

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2075

AÐ GRAFA SNJÓ

Trausti sendi Molum eftirfarandi (14.12.2016):

"Tólf ára dreng­ur lést í Greenwich í New York í dag en hann var að byggja snjó­virki þegar hann varð und­ir snjó­b­akka."

Þetta er náttúrlega sorgleg frétt og ég vona að mér fyrirgefist þó ég spyrji: Hvað er snjóbakki?


"Þá lést hinn 56 ára Dav­id Perrotto í bif­reið sinni, eft­ir að snjómokst­ur­svél gróf snjó yfir bíl­inn og út­blást­urs­rörið."

Þessi svokallaða "snjómokstursvél" hefur væntanlega MOKAÐ snjónum yfir bílinn, en ekki grafið snjóinn neins staðar.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/12/14/lest_vid_ad_byggja_snjovirki/

Þakka bréfið, Trausti. Hér hefur greinilega ekki vanur maður verið að verki. Ekki þekkt orðið snjóhengja. Enginn las yfir.

 

LANDAFRÆÐI Í RUGLI

Af visir.is og úr Fréttablaðinu (15.12.2016): ,, Þrátt fyrir að vera búsettir í Winnipeg-fylki, mörg þúsund kílómetra frá Íslandi, heldur hluti afkomenda vesturfaranna í íslenskar jólahefðir.“ Winnipeg er borg í Kanada. Ekki fylki. Winnipeg er í Manitoba, Kanada. Manitoba er fylki.

Sjá: http://www.visir.is/vestur-islendingar-gefa-othaegum-rotinn-tomat/article/2016161219282



ENN ER KOSIÐ

Óttalega er hvimleitt að hlusta hvað eftir annað á fréttamenn, eða lesa fréttir, þar sem fram kemur, að viðkomandi skilur ekki muninn á því að kjósa og að greiða atkvæði.

 Í fréttum á miðvikudag var sagt frá því, að sjómenn hefðu fellt nýgerðan kjarasamning. Sjómenn greiddu atkvæði um samninginn. Felldu hann í atkvæðagreiðslu. Þeir kusu ekki um samning eins og tvísagt var fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 14 00.

Undarlegt að geta ekki haft þetta rétt. Hér hefur margsinnis verið bent á að þetta þurfi málfarsráðunautur að skýra fyrir þeim fréttamönnum, sem ekki gera greinarmun á því að kjósa og að greiða atkvæði.

 

VEGNA STYRKINGU

Enn glymur í eyrum hlustenda Ríkisútvarpsins auglýsing Húsasmiðjunnar – Blómavals um hagstætt verð á innfluttum jólatrjám vegna styrkingu krónunnar. Síðast rétt fyrir klukkan í morgun , föstudag (16.12.2016). Áður hefur verið bent á hér í þessum pistlum að þetta ætti samkvæmt reglum málsins að vera vegna styrkingar krónunnar, - vegna einhvers. – Bera þeir sem ráða birtingu auglýsinga í Ríkisútvarpinu enga virðingu fyrir móðurmálinu? Kunna auglýsingasmiðir Húsasmiðjunnar – Blómavals ekki grundvallarreglur málsins? Þetta hefur áður verið nefnt í Molum, - oft. Málfarsráðunautur ætti að ræða þetta við auglýsingadeildina.

 

FÓTSPOR

Af mbl.is (14.12.2016): Yfir millj­ón ára gam­alt fót­spor af for­vera manns­ins fannst ný­verið í Tans­an­íu. Hér hefði verið eðlilegra að tala um fótspor eftir , ekki fótspor af. Ekki satt? Eða bara, - fótspor forvera mannsins, eins og reyndar segir í fyrirsögninni: Stærsta fótspor forvera mannsins. http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/12/14/dyrmaetar_upplysingar_um_manninn/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband