Molar um málfar og miðla 1854

FALLAFÆLNI

Stundum er eins og fréttaskrifarar séu hræddir við fallbeygingar. Fallafælnir.  Í hádegisfréttum Bylgjunnar á Þorláksmessu (23.12.2015) var sagt ,, ...vegna innlimun þeirra á Krímskaga ...” Vegna innlimunar hefði þetta átt að vera.

Annað dæmi úr fréttum Ríkisútvarpsins (26.12.2015) ,, .... þá var Melissa Chan fréttamaður Al jazeera gert að fara úr landi.”Sama sagan. Fréttamanni var gert að fara úr landi.

 

UNDARLEGT FRÉTTAMAT

 Stundum verður gamall fréttamaður hissa á fréttamati fréttastofu Ríkisútvarpsins. Til dæmis  á sunnudagskvöld, þriðja í jólum (27.12.2015). Þá var fyrsta frétt bæði í útvarpi og sjónvarpi um mygluskemmdir í blokkaríbúð á ótilteknum stað í Reykjavík. Viðtal fylgdi við lögmann, sem á hlut á máli. Fyrr má nú vera fréttaleysið, ef þetta var talið þess virði að vera á oddinum bæði í útvarpi og sjónvarpi. Hvað réði þessu undarlega mat?

 

EFTIRMÁL – EFTIRMÁLI

Oft hefur verið að því vikið hér hvernig menn rugla saman eftirmála,stuttum kafla í lok bókar, skýringu, og eftirmálum, afleiðingum einhvers. Ísama fréttatíma Bylgjunnar og vitnað var til hér að ofan var sagt á þessa leið: ,, Þannig að þú heldur þá að eftirmáli þessa máls sé alls ekki lokið”. Betra hefði verið: ,, Þannig að þú heldur að eftirmálum þessa máls sé alls ekki lokið”. Afleiðingar ekki að fullu komnar í ljós. Málið ekki til lykta leitt.

 

HVER SKILUR ÞETTA?

Úr frétt á mbl.is(23.12.2015): ,,Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá slökkviliðinu voru tveir sjúkra­bíl­ar send­ir á staðinn, en flutn­inga­bíll bíl­stjóra og einn farþega lenti á hand­riði. “

Skilur einhver þetta?

 

 

 

 

 

HUGVEKJA

Í morgunþætti Rásar tvö (24.12.2015) var sagt frá því að Andri Snær Magnason rithöfundur hefði haldið hugvekju á útisamkomu. Við tölum um að flytja hugvekju, ekki halda hugvekju. Halda ræðu, flytja ræðu, flytja fyrirlestur. Ekki satt?

 

GRODDALEGT

Fjórar ágengar og groddalegar auglýsingar (svo kallaðar leiknar auglýsingar)  frá Lottóinu voru fluttar rétt f yrir hádegisfréttir í Ríkisútvarpinu á jóladag (25.012.2015). Er ekki snefill af smekkvísi til staðar, hvorki hjá auglýsingadeild Ríkisútvarpsins eða hjá hinu ríkiseinkaleyfisrekna Lottói? Er þar enginn sem kann sig? Eru engin grið gefin? Ekki einu sinni á jóladag? Þarf líka að garga á okkur á jóladag? Stakk í stúf við annað á Rás eitt á jóladag.

 Þessar frekjulegu auglýsingar Lottósins dundu reyndar á okkur á undan og eftir fleiri fréttatímum í Ríkisútvarpinu á jóladag.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1853

ENN UM HLUSTUN

Þórhallur Jósepsson skrifaði (22.12.2015): ,,Sæll Eiður.
Ég verð að játa að ég varð undrandi að sjá að þið langvinir, þú og Molavin, urðuð undrandi á þessu sem hér segir frá í Molum 1852:
"UNDARLEG HLUSTUN
Molavin skrifaði (21.12.2015): "Vísir heyrði ofan í þennan unga mann, sem býr á Suðurlandinu og er rétt liðlega tvítugur." Svo skrifar blaðamaðurinn Jakob Bjarnar á Vísi 21.12.2015. Það er erfitt að ímynda sér hvernig sú hlustun hefur farið fram!"
,,Undrun mín skýrist af því ,að fyrir mér er þetta orðatiltæki " ... að heyra ofaní ..." alvanalegt og eðlilegt frá því ég man eftir mér. Ég skal skýra nánar. Þegar leita þurfti álits einhvers eða forvitnast um skoðun viðkomandi á einhverju máli, en í einrúmi og alls ekki í heyranda hljóði, var oft talað um að heyra ofaní viðkomandi. "Ég þarf að heyra ofaní hann um þetta ..." eða "ég heyrði ofaní hana um það ..." Þegar maður "heyrir ofaní" einhvern er það jafnan til þess að geta tekið tillit til álits viðkomandi eða til að fá rétta frásögn um eitthvað persónulegt sem ekki skyldi hátt fara.
Semsagt, fyrir mér er þetta aldeilis ekki ókunnuglegt orðfæri. Bestu jólakveðjur, Þórhallur Jósepsson.

Molaskrifari þakkar Þórhalli bréfið. Hann játar, að honum er þetta orðtak framandi. Hnaut um það. Eins og Molavin. Kannski er þetta landshlutabundið? Hvað segja lesendur?

 

AÐVENTUTÓNLEIKAR

 Það var prýðilega til fundið hjá Ríkissjónvarpinu á sýna okkur aðventutónleika frá Vínarborg á mánudagskvöld (21.12.2015). Skipti engu þótt tónleikarnir væru frá 2013. Þetta er sígilt efni. En hversvegna í ósköpunum var þetta öndvegisefni á dagskrá klukkan 23 00 , - eða undir miðnætti? Hefði átt að vera fyrr um kvöldið.

 

FLEIRI ÞÚSUND

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (22.12.2015) var sagt frá gagnslausum hrukkukremum sem sum hver kostuðu fleiri þúsund krónur. Fleiri en hvað? Hér hefði átt að tala um mörg þúsund. Ekki fleiri þúsund.

 

 

AÐ KOMAST Á FÆTUR

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (21.12.2015) var talað um breytingu á klukkunni, seinkun klukkunnar. Ekki heyrði Molaskrifari betur en sagt væri um flutningsmann þingmáls um þetta efni að honum væri sérstaklega umhugað um ungt fólk sem ætti mikið undir því að komast á fætur. Eigum við ekki öll mikið undir því? Hefði haldið það.

 

ÍÞRÓTTIR

Íþróttir fá mikið pláss í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Algjör óþarfi að vera með langa umfjöllun um fótbolta í Kastljósi eins og var á mánudagskvöld (21.12.2015). Kastljós á að vera beittur fréttaskýringaþáttur, - eins og það lang oftast er.

 

ERLENDIS

Í Spegli Ríkisútvarpsins (22.12.2015) var hvað eftir annað talað um að flytja erlendis. Stundum heyrist líka talað um að fara erlendis. Þetta er ekki í samræmi við hefðbundna málnotkun. Orðið erlendis er notað um dvöl í öðrum löndum. Hann bjó erlendis. Hann var erlendis, þegar Hekla gaus. Við förum til útlanda. Við förum ekki erlendis. Þegar við erum komin til útlanda erum við erlendis. Orðabókin segir !? að fara erlendis, ekki gott mál í venjulegu samhengi.

 

Verður nú stundarhlé á Molaskrifum.

Molaskrifari óskar lesendum þessara lína gleðilegrar jólahátíðar. - ESG

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1852

UNDARLEG HLUSTUN
Molavin skrifaði (21.12.2015): "Vísir heyrði ofan í þennan unga mann, sem býr á Suðurlandinu og er rétt liðlega tvítugur." Svo skrifar blaðamaðurinn Jakob Bjarnar á Vísi 21.12.2015. Það er erfitt að ímynda sér hvernig sú hlustun hefur farið fram!

Þakka bréfið, Molavin. Já, það er ekki auðvelt að ímynda sér hvernig þessi hlustun hefur verið í reynd !

 

ENSKAN Á RÁS TVÖ – TAKE IT AWAY , STELPUR

Enn viðgangast óþarfar og eiginlega óþolandi (að dómi Molaskrifara) enskuslettur í morgunútvarpi Rásar tvö. Á mánudagsmorgni komu þangað tvær ungar tónlistarkonur,sem ætla að halda tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þær voru að sjálfsögðu kallaðar góðir gestir, eins og allir sem koma fram í útvarpsþáttum. Konan sem ræddi við þær sagði, að önnur væri sprenglærður píanóleikari, en hin sprenglærð söngkona, - orðgnóttin yfirþyrmandi! Báðar örugglega vel menntaðar. Þegar viðtalinu lauk, sagði dagskrárgerðarkonan: Take it away, stelpur! Þær áttu sem sagt að hefja flutning lagsins,sem þær fluttu með glæsibrag.

 En hvað á það að þýða að sletta á okkur ensku í íslensku Ríkisútvarpi? Er konan að sanna okkur hvað hún hafi enska tungu vel á valdi sínu. Ef hún ræður ekki við að tala móðurmálið, ætti hún að leita sér að annarri vinnu, eða Ríkisútvarpið að finna henni önnur verkefni. Lesendur geta hlustað á þetta hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20151221

Hefst á 46:30 eða þar um bil.

Vond vinnubrögð. Að ekki sé meira sagt.

 

HEIMSMEISTARAR
Ísland eignaðist heimmeistara í handbolta í dag ..., var sagt í fréttayfirliti Stöðvar tvö á sunnudagskvöld (20.12.2015). Norska kvennalandsliðið í handbolta sigraði lið Hollendinga í dag og urðu Norðmenn þar með heimsmeistarar. Þjálfari liðsins er íslenskur. Þórir Hergeirsson.

Var einhver að tala um þjóðrembu?

 

 

STÆRSTA MYNDARÖÐIN

Dagskrárkynningar Ríkissjónvarpsins eru stundum dálítið einkennilegar, - undarlega orðaðar. Nú er okkur sagt frá einni stærstu leiknu sjónvarpsmyndaröð .... (Ófærð). Hvað er stór myndaröð? Molaskrifari áttar sig ekki alveg á því.  Hvað er stór myndaröð?

 

REIÐHJÓLAMAÐUR

Af mbl.is (21.12.2015):,, Lokað var fyr­ir um­ferð um Ártúns­brekk­una til aust­urs á sjö­unda tím­an­um í morg­un vegna mjög al­var­legs slyss þar en ekið var á reiðhjóla­mann.” Ekið á reiðhjólamann? Hvað varð um hið ágæta orð hjólreiðamaður? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/21/buid_ad_opna_artunsbrekku/

Sorglegt að heyra, að þarna skuli hafa orðið banaslys. Þau eru orðin mörg í umferðinni í ár. Við þurfum að líta í eigin barm.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1851

 

ÍSFÓLKAR?

Úr Stundinni (18.12.2015): ,, Saga Daníels Auðunssonar hefur nú birst víða í íslenskum fjölmiðlum, allt frá fyrstu frétt um hann á Fréttanetinu til nærmyndar í Ísfólkarþætti Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur.” Ísfólkarþætti? Ja, hérna. Heitir þátturinn ekki Ísfólkið?

http://stundin.is/frett/adferdir-daniels-milljardamaerings-kenndar-vid-svi/

 

ÞINGLÝSING

Í fréttum Stöðvar tvö (16.12.2015) talaði fréttamaður um að þinglýsa leigusamning. Þetta er ekki rétt orðalag. Rétt hefði verið að tala um að þinglýsa leigusamningi, skrá hann með formlegum hætti hjá fógeta eða sýslumanni.

 

SKETTLEGT

 Þegar umsjónarmaður í morgunþætti Rásar tvö talar um (17.12.2015) að margt skettlegt sé framundan, þá er sennilega átt við að margt skemmtilegt sé í vændum.

 

HEIMSMEISTARAR

Íþróttfréttamönnum er afar tamt að segja Heimsmeistarar Bandaríkjanna (Ríkisútvarpið 18.12.2015), heimsmeistarar Þýsklands. Það er kannski sérviska, en Molaskrifari hnýtur jafnan um þetta orðalag. Finnst að fremur ætti að tala um bandarísku heimsmeistarana, þýsku heimsmeistarana. Hvað segja Molalesendur?

 

GÆFAN

Í umræðum á Alþingi á laugardag sagði þingmaður, að hann vonaði ,,.. að okkur beri gæfa til þess...” Hefði átt að vera, - ,, ... vonaði að við berum gæfu til þess ...” Hef heyrt sama þingmann fara rangt með þetta áður. Vonandi lærir hann að hafa þetta rétt áður en hann notar þetta orðtak næst úr ræðustóli Alþingis. – Sami þingmaður sagði á þingi sama dag: ,, ... meðan sjúklingar eru látnir blæða”. Hann átti við, - meðal sjúklingum er látið blæða, - meðan sjúklingum blæðir.

 

 

 

ENN EINU SINNI

Allsherjarnefnd hefur samþykkt samhljóða að albönsku fjölskyldurnar tvær verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Þetta var sagt bæði í fréttayfirliti og í fréttinni sjálfri í sex fréttum Ríkisútvarpsins á laugardagskvöld (19.12. 2015) Allsherjarnefnd hefur samþykkt samhljóða, að albönsku fjölskyldunum tveimur verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Þetta var hinsvegar rétt á fréttavef Ríkisútvarpsins.

 

MERKING?

Úr lögreglufrétt á mbl.is (19.12.2015): Ann­ar aðil­inn var tek­inn í skýrslu­töku en hinn af­greidd­ur með vett­vangs­formi. Afgreiddur með vettvangsformi? Skrifari er engu nær. Hvað merkir þetta?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda Molum tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .  Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1850

 

ÁRTÍÐ - AFMÆLI

Þórhallur Jósepsson skrifaði Molum (17.12.2015): ,,Sæll Eiður.
Um daginn hlustaði ég á Víðsjá í Útvarpinu. Rætt var við Ara Trausta Guðmundsson um föður hans, Guðmund frá Miðdal. Tilefnið var sagt vera "120 ára ártíð" Guðmundar.
Svo virðist sem fólk þekki varla eða alls ekki lengur þetta fyrirbæri ártíð. Í þessu viðtali hefur líklega átt að minnast 120 ára afmælis Guðmundar. Sama villa var á ferð í sumar í öðrum ágætum útvarpsþætti, Hátalaranum, þegar frá því var sagt að unnendur frægrar djasssöngkonu, Billie Halliday ef ég man rétt, væru á þessu ári að minnast 115 ára ártíðar hennar.
Í barnaskóla var mér kennt að afmæli manna skuli telja frá fæðingardegi, en ártíð væri talin frá dánardegi og ævinlega talin með raðtölu. Þannig skyldi segja hundraðasta ártíð, þegar 100 ár eru liðin frá dánardægri. Í Víðsjá hefði því átt að minnast 120 ára afmælis Guðmundar frá Miðdal, því ekki held ég að 120 ár séu liðin frá andláti hans. Að skaðlausu mætti málfarsráðunautur Útvarpsins rifja þetta upp með dagskrárgerðarfólki.” Þakka bréfið, Þórhallur. Það er sífellt verið að rugla þessu saman, jafn einfalt og þetta nú. Já, málfarsráðunautur ætti að fara yfir þetta með sínu fólki.

 

SAMMÆLI – SANNMÆLI

Af mbl.is (16.12.2015): ,, Hann sagði að stjórn­ar­andstaðan vildi gefa meiri­hluta þings­ins tæki­færi til að skipta um skoðun í af­stöðu sinni varðandi það hvort aldraðir og ör­orku­líf­eyr­isþegar ættu að njóta sam­mæl­is á við aðra í sam­fé­lag­inu”. Þetta er merkingarleysa. Hér hefur eitthvað skolast til. Sammæli er samkomulag. Hér hefði betur staðið eða verið sagt: ,, ... hvort aldraðir og ör­orku­líf­eyr­isþegar ættu að njóta sannmæl­is í sam­fé­lag­inu”. Að njóta sannmælis, er að njóta réttlætis í umræðunni, sannmæli er sannleikur.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/16/menn_eru_i_algjorri_sjalfheldu/

 

 

 

 

VETTVANGUR

Vettvangur er ofnotað orð í fréttum. Í níufréttum Bylgjunnar (15.12.2015) var sagt: Mikil hálka var á vettvangi. Vegurinn var mjög háll, glerháll, flugháll.

 

DÁLDIÐ KÚL

Við vitum öll, að enskan er dáldið (dálítið) flott, dáldið kúl. Þetta var sagt í Málskotinu, þriðjudagsþætti málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins í morgunþættinum á Rás tvö (15.12.2015). Viðstaddir hlógu. Það var og. Ríkisútvarpið okkar, verndari tungunnar. Eða hvað?

 

VANDA SIG

Í Spegli Ríkisútvarpsins (16.12.2015) voru nokkrar fjólur. Þar var meðal annars talað um áhuga eftir sjálfboðaliðum. Verið var að tala um áhuga á því að fá sjálfboðaliða til starfa. Þá var sagt að verkaslýðsfélögin yrðu tekin á skólabekk.  Átt var við að elfa þyrfti fræðslu hjá verkalýðsfélögunum. Vanda sig.

 

ENN EINU SINNI

Af mbl.is (16.12.2015) um olíuleka í íþjóðgarðinum á Þingvöllum: ,,Olía lak úr jeppa ferðaþjón­ustuaðila við Flosa­gjá í þjóðgarðinum á Þing­völl­um í gær með þeim af­leiðing­um að olía rann út í gjánna”. Olían rann út í gjána, ekki gjánna. Orðmyndin gjánna er eignarfall fleirtölu með greini af kvenkynsnafnorðinu gjá. Algengt er líka nú orðið að sjá skrifað brúnna, í stað brúna. Þetta er ekki innsláttarvilla. Síðar í fréttinni segir nefnilega: ,, Hann seg­ir að erfitt sé að gera sér grein fyr­ir hversu mikið magn af olíu hafi lekið á planið og í gjánna þar sem olí­an smit­ar mikið og er afar sýni­leg.”

Ferðaþjónustuaðili? Er það ekki ferðaþjónustufyrirtæki? Aðili er ofnotað orð. Eins og orðið vettvangur, sem vikið er að hér að ofan.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/16/oliuleki_i_thjodgardinum/ Fréttin er illa skrifuð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1849

SVIKULT SKOT

Af fréttavefnum visir. is (08.12.2015): ,,Það þýðir að við munum sjá hvar vélin var þegar hún var skotin hin ( svo!) og hvenær hið svikula skot tyrkneska flughersins hæfði þotuna ...“ Hið svikula skot.? Svikull þýðir, segir orðabókin, ótrúr, ótraustur. Merking orðsins hefur sennilega ekki verið skrifaranum alveg ljós. Sjá: http://www.visir.is/segir-flugritann-leida-sannleikann-i-ljos/article/2015151208617

 

VÍÆPÍ HUMAR

Hvað er þessi víæpí humar, sem alltaf er verið að tönnlast á í auglýsingum í útvarpinu. Enska skammstöfunin VIP= Very Important Person, mjög mikilvægur einstaklingur. Gildir það um humar?  Eftirfarandi texti er auglýsing um fyrirbærið á fésbók (14.12.2015): ,,Nú gefum við VIP Jóla Humar!Sendu okkur uppáhalds humar uppskriftina þína hingað undir þennan þráð, deildu henni og þú ert þar með komin í pottinn”. Molaskrifara finnst þetta eiginlega hálfgert bull, - er það ekki humarinn,sem á að fara í pottinn eða á pönnuna?

 

ÞEGAR ÞAÐ ER BÚIÐ AÐ BIRTA TIL

Af mbl.is (06.12.2105) úr frétt um ferðamennsku á hálendinu:,, Íslend­ing­ar fari frek­ar í apríl og maí þegar það er búið að birta til og veðrið sé betra.”  Hér hefði farið betur á því að segja til dæmis, þegar dagsbirtu nýtur lengur, eða þegar dag er tekið að lengja svo um munar.

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/06/hafa_ekki_nad_sambandi_vid_franska_ferdamenn/

 

LESNAR AUGLÝSINGAR

Hér hefur stundum verið drepið á leiknu, aðfengnu, auglýsingarnar ,sem ný yfirstjórn innleiddi í Ríkisútvarpinu. Þær eru sumar hverjar ágengar og groddalegar. Nú hafa bæst við leiknar, lesnar auglýsingar, sem eru beinlínis illa lesnar, þannig að hörmung er á að hlýða. Finnst auglýsingadeild þetta ekkert athugavert? Er enn tekið við öllu? Engin gagnrýni?

 

HNÚTAR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.12.2015) var talað um nýjan bát, sem náð gæti allt að 27 hnútna hraða. Þarna hefði átt að tala um 27 hnúta hraða. Sjá vef Árnastofnunar, vef sem fréttamenn ættu að nota, þegar þeir eru óvissir um beygingu íslenskra orða. http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=5916

Annars er venjulegra að tala um sjómílur en hnúta, þegar talað er um siglingarhraða. Sjá: https://is.wikipedia.org/wiki/Sj%C3%B3m%C3%ADla

 

LEIÐRÉTTING

Í Molum gærdagsins (1848) var vitnað í fréttir Stöðvar tvö fyrr í vikunni þar sem fjallað um nýjustu Star Wars kvikmyndina og gauraganginn í kring um hana. Þar var sagt: ,,Í sama fréttatíma var talað um það sem kalla mætti Star Wars æði. Þá sagði fréttamaður: ,, .... foreldrar eru áhugasamir um að kynna börn sín þessu fyrirkomulagi”. Eðlilegra og betra hefði að tala um að kynna þetta fyrirkomulag fyrir börnum sínum.”  - Rétt  skal vera rétt. Molaskrifara hefur verið bent á, að það var ekki fréttamaðurinn, sem sagði þetta, heldur viðmælandi hans og er sá fréttamaður sem í hlut átti beðinn velvirðingar á þessu.

 

 TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1848

ÁRSGRUNDVÖLLUR OG FLEIRA

Rafn skrifaði (01.12.2015): ,,Sæll Eiður

,,Meðfylgjandi er fyrri hluti fréttar úr Netmogga, þar sem kemur fram að í kjölfar þeirra viðskipta, sem um er rætt, aukist velta félags „um 85 millj­ón­ir króna á ári og EBITDA fé­lags­ins um sex­tán pró­sent á árs­grund­velli. -

Hvað sem um ársgrundvallarskrípið má segja, þá sé ég ekki að hundraðshlutahækkun geti verið breytileg eftir lengd viðmiðunartíma hjá fasteignaleigu með stöðugan rekstur, þótt annað geti átt við sveiflukenndan rekstur, t.d. útgerð fiskiskipa, sem getur verið með afar breytilega afkomu á mismunandi tímum árs.”

Molaskrifari þakkar Rafni bréfið. Hér er fréttin: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/11/30/kaupa_vikurhvarf_3_fyrir_taepan_milljard/

 

FYRIR RANNSÓKN MÁLS

Þetta orðalag sér maður aftur og aftur í fjölmiðlum (14.12.2015):,, Maður­inn var vistaður í fanga­geymslu fyr­ir rann­sókn máls.” Eðlilegra hefði verið að segja: Maðurinn var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/14/i_vimu_a_stolnum_bil_og_vopnadur/

Þetta hefur svo sem verið nefnt hér áður, en aldrei er ......

 

ÚR FRÉTTUM STÖÐVAR TVÖ

Í fréttum Stöðvar tvö (14.12.2015) var sagt: ,, ... í kosningum eftir kosningum”. Átt var við í hverjum kosningunum á fætur öðrum. Einnig hefði mátt segja:,, ... í kosningum eftir kosningar”.

 Í sama fréttatíma var talað um það sem kalla mætti Star Wars æði. Þá sagði fréttamaður: ,, .... foreldrar eru áhugasamir um að kynna börn sín þessu fyrirkomulagi”. Eðlilegra og betra hefði að tala um að kynna þetta fyrirkomulag fyrir börnum sínum. Kynna börnum sínum þetta fyrirkomulag. Nokkuð algengt að heyra rugling af þessu tagi.

 

FAÐIR UM FÖÐUR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (14.12.2015) var talað um albönsku fjölskyldurnar sem sendar voru úr landi . Þá var sagt: ,, ... vinnuveitandi föðurs þeirra...” Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=fa%C3%B0ir

Málfarráðunautur ætti ef til vill að leiðbeina fréttamönnum um notkun þessa ágæta vefseturs Árnastofnunar, beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

 

AÐ SVARA UM HÆL

,, ... svaraði hann á hæl”, var sagt í þættinum Fólk og fræði, Völundarhús Borgesar í Ríkisútvarpinu á laugardagskvöld (12.12.2015). Hér hefði fremur átt að segja: .. svaraði hann um hæl, svaraði hann samstundis.

 

VERTU NÆS!

Rauði Kross Íslands heldur áfram auglýsingaherferð sinni í sjónvarpi, þar sem okkur er sagt að vera NÆS. Molaskrifari reyndi að hafa samband við Rauða Krossinn á mánudag (14.12.2015) til að koma á framfæri athugasemdum við þessu ósmekklegu og óþörfu enskuslettu. Hversvegna þarf þetta líknarfélag að biðla til okkar með slettu ?

Skemmst er frá því að segja, að enginn var til staðar síðdegis á mánudag í höfuðstöðvum Rauða krossins til að taka við athugasemd skrifara. Skildi eftir boð á símsvara og símanúmer. Engin viðbrögð. Hafði ekki geð í mér til þess að reyna að ná sambandi við Rauða krossinn daginn eftir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1847

VINDMYLLUR OG USLI

Molaskrifari hnaut um undarlegt orðalag í kvöldfréttum Ríkisútvarps (13.12.2015). Það gerðu fleiri. Ragnar Önundarson skrifaði skömmu eftir fréttir á fésbók: ,, Ban-ki-moon hefur lengi "barist við vindmyllur" í loftslagsmálum og ummæli Donalds Trumps um múslima "hafa valdið miklum usla" sagði í kvöldfréttum RÚV rétt áðan. Sennilega hefur verið ætlunin að segja að frkstj. SÞ hafi talað fyrir daufum eyrum og að ummæli frambjóðandans hafi valdið miklu uppnámi. Verðum við ekki að gera kröfur um gæði í málfari og málskilningi fréttamanna ?” – Hverju orði sannara, Ragnar. Gæðaeftirlit , yfirlestur, þess sem birta skal virðist yfirleitt ekki til staðar á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Það er miður. Breyting frá því sem áður var.

 

VINDHRAÐI

,,Vindhraði á hægri niðurleið”. Svona hljóðaði fyrirsögn á mbl.is í byrjun þessa mánaðar (02.12.2015). Stofnanamál. Það fór hægt lygnandi. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/02/vindhradi_a_haegri_nidurleid/

Sama dag var á sama miðli vitnað í forstjóra álversins í Straumsvík og sagt: ,, ... að sögn Rannveigar Ristar”. Molaskrifari játar að hann hefur ekki fyrr heyrt þetta eignarfall ættarnafnsins Rist. Leitarvél sýndi fleiri dæmi.

 

ELLIÐAÁ

Af mbl.is ( 04.12.2015): ,, Snjóþyngsli und­an­far­inna daga hafa orðið til þess að starfs­menn Reykja­vík­ur­borg­ar eru byrjaðir að fjar­lægja snjó af göt­um og flytja hann út í flæðar­málið þar sem Elliðaá renn­ur út í sjó.” Þar sem Elliðaárnar .... hefði þetta átt að vera. Ekki Elliðaá. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/04/blasa_snjonum_burt/

Það er nauðsynlegt, að þeir sem skrifa fréttir, kunni skil á helstu örnefnum í nærumhverfinu ( að minnsta kosti) og fari rétt með þau.

Sama dag var sagt í fyrirsögn á vefmiðlunum visir.is sagt að Búið væri að opna Hafnarfjall. Það var búið að opna, ryðja veginn undir Hafnarfjalli eða fyrir Hafnarfjall. http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=2015151209253

 

ATÓMSTÖÐIN

Það rann upp fyrir Molaskrifara að hann hafði á sínum tíma misst af kvikmyndinni Atómstöðinni eftir bók Halldórs Laxness. Horfði á hana í tímaflakki Sjónvarpi Símans (14.12.2015) . Ótrúlega vel gerð og vönduð mynd. Unun að horfa snilldarleikara okkar unga, sem aldna. Myndin ber aldurinn meira en vel. Hún er hreint ekki barn síns tíma, eins og stundum er sagt um gamlar myndir. Hún er stórfín í alla staði. Takk, þið sem hana gerðuð og takk Ríkissjónvarp.

 

GOTT VIÐTAL

Í morgunþætti Rásar tvö (14.12.2015) var prýðilegt viðtal við Auði H. Ingólfsdóttur, alþjóðastjórnmálafræðing, um næsta óvæntar og giftusamlegar lyktir loftslagsráðstefnunnar í París. Hún nefndi dr. Halldór Þorgeirsson til sögunnar. Molaskrifari hefur ekki heyrt Halldórs getið fyrr í fréttum af niðurstöðum ráðstefnunnar , né að við hann hafi verið rætt. Má þó vera að það hafi farið framhjá honum. Rámar þó í viðtal (í Speglinum?) áður en ráðstefnan í París hófst. Þekkjandi nokkuð til þessara mála og hafandi starfað með Halldóri og í námunda við hann er Molaskrifari sannfærður um að hann hefur verið einn af lykilmönnunum, sem stýrðu þessu máli til farsællar lausnar. Halldór er einn af æðstu yfirmönnum loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Starfsheiti hans þar er á ensku Director for Implementation Strategy, kannski mætti þýða það yfirmaður framkvæmdar stefnumótunar, ógóð hráþýðing. Halldór hefur yfirburðaþekkingu á loftslagsmálum, er flinkur samingamaður og frábær fundastjórnandi. Þarna gegndi Íslendingur mikilvægu hlutverki, þótt ekki hafi það farið hátt.

Ágæt umræða um ráðstefnuna í Kastljósi gærkvöldsins (14.12.2015). Þorvaldur sendi Molaskrifara þessar línur eftir Kastljósið:,, Var að hlusta á Kastljós þar sem Helgi Seljan ræddi loftslagsmál við þrjá einstaklinga. Einn þeirra sagði að nú þyrftu menn að bretta upp hendur í þessum málum. Einhvern tíma hefði verið talið hættuminna heilsu manna að bretta upp ermar.” Þakka ábendinguna , Þorvaldur. þetta mismæli heyrði Molaskrifari hinsvegar ekki. ekki.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1846

 

Hlé hefur verið á Molaskrifum um sinn, en skrifari brá sér af bæ í tvær vikur og fylgdist slitrótt með íslenskum fjölmiðlum. Sitthvað hnaut hann þó í stopulum lestri um og verður sumt rakið hér.

 

SINATRA

Á laugardaginn var 12, desember voru eitt hundrað ár liðin frá fæðingu Franks Sinatra, sem í áratugi var einn vinsælasti dægursöngvari ekki bara í Bandaríkjunum, - heldur um víða veröld , mætti allt eins segja. Mörg lögin hans eru sígrænar perlur, klassík. Frægur kvikmyndaleikari að auki. Þessi tímamót fóru alveg framhjá Ríkissjónvarpinu okkar. Þau fóru ekki framhjá ríkisstöðvunum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, sem gerðu ferli hans góð skil á ýmsan veg. Í Efstaleiti voru menn um eitthvað annað að hugsa.

Samkvæmt auglýstri dagskrá á þó að bæta úr þessu í kvöld  og sýna heimildamynd um Sinatra(14.12.2015). Undarlega slök vinnubrögð.

 

AFTUR OG AFTUR

Aftur og aftur sjáum við og heyrum villur af þessu tagi (mbl.is 27.11.2015): ,,Fólk sem átti leið um Turn­inn í Höfðatúni fyrr í mánuðinum brá illi­lega í brún þegar grímu­klædd­ur maður birt­ist í lyft­unni og lét dólgs­lega.” Hér hefði átt að standa : ,,Fólki, sem ... brá illilega í brún...) Enginn yfirlestur. uhttp://www.mbl.is/folk/frettir/2015/11/27/grimuklaeddur_madur_i_lyftunni/

 

OG ENN OG AFTUR

 Af mbl.is (10.12.2015)

,, 55 ára karl­maður sem sit­ur í gæslu­v­arðhaldi í Nor­egi fyr­ir að hafa myrt tvö fórn­ar­lömb með hnífi á göt­um Osló­ar í morg­un hafði verið vísað úr landi. ...”. Karlmaður hafði ekki verið vísað úr landi. Karlmanni hafði verið vísað úr landi. Er þetta flókið? Já, ef menn hafa ekki vald á móðurmálinu. Og vitað hvaðan lagt var upp, þegar punkturinn var settur í setningarlok. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/12/10/margsinnis_visad_ur_landi/

ÖMURLEG VILLA

Á mbl.is (02.12.2015) var ömurleg villa. Fréttin var um, að Lárusar Jónssonar fv. alþingismanns hefði verið minnst við upphaf þingfundar, svo sem venja er, þegar fyrrverandi þingmenn falla frá. Á fréttavefnum stóð: ,,Ein­ar K. Guðfinns­son, for­seti Alþing­is, minnt­ist fyrr­ver­andi alþing­is­manns­ins Lárus­ar Jóns­son­ar í upp­hafi þing­funds í dag en Lár­us lést sl. sunnu­dags­kvöld. Lár­us sat á þingi fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn, á 15 þing­um alls.” Hvernig getur svona lagað gerst? Ég get alveg ímyndað mér viðbrögð Matthíasar eða Styrmis, - hvað þá Bjarna Benediktssonar eldri. Sá sem svona skrifaði, hefði ekki þurft að kemba hærurnar á ritstjórn Morgunblaðsins.

 Lárus Jónssonar var öndvegismaður. Leiðir okkar lágu saman á Alþingi. Við vorum um skeið grannar, báðir með skrifstofur á annarri hæð Þórshamars og spjölluðum þar oft yfir kaffibolla. Þar að auki var Guðrún kona hans frá Meiðastöðum í og henni kynntist Molaskrifari á barnsaldri, þegar hann sótti mjólk til þeirra systra í Meiðastaðafjósið sumarið 1947. Skrifari vottar Guðrúnu og afkomendum þeirra Lárusar einlæga samúð.

 

ENDEMISRUGL

Ekki getur Molaskrifari skilið fréttir um heimild til handa ríkisstjórninni að selja húsnæði Þjóðskjalasafnsins á annan veg (gömlu mjólkurstöðina innst við Laugaveg) en að Þjóðskjalasafnið eigi að fara annað vegna þess að þessi staður sé svo heppilegur fyrir hótel! Í þá veru talaði varaformaður fjárlaganefndar í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (13.12.2015). Hann talaði um mikil tækifæri í þessu sambandi. Sló reyndar varnagla í ýmsar áttir.

 Hvaða rugl er þetta?

Molaskrifari veit ekki betur en að vel fari um skjalasafn þjóðarinnar þarna.

Pappír er þungur - húsið var hannað fyrir verksmiðjurekstur á sínum tíma gólfin þola mikinn þunga.

Sú ráðstöfun að kaupa þetta hús fyrir Þjóðskjalasafnið, var með því besta, sem Sverrir Hermannsson gerði meðan hann var menntamálaráðherra.

Hvað fæst fyrir húsið? Eru hótelkóngar byrjaðir að bera víurnar í það? Eða byggingarfélög?

Hvað kostar nýbygging fyrir Þjóðskjalasafn? Örugglega margfalt meira en fæst fyrir þetta hús. Hvað kostar að flytja safnið?

Eigum við ekki fyrst að fylla gapandi holuna vestur á Melum þar sem hús íslenskra fræða á að rísa? Sú hola stingur í augu og hefur of lengi gert. Eða er hún kannski fremur eins og tóm augnatóft?

Nema nota eigi múrbrotin úr MS húsinu til að fylla holuna á Melunum???? Það er auðvitað hægt að kalla það tækifæri. – (Áður birt á fésbók.)

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1845

BROTLENDING

Skúli Brynjólfur Steinþórsson, sem lengi var flugstjóri hjá Loftleiðum, Flugleiðum og Icelandair, sendi Molum eftirfarandi bréf (24.11.2015):

,,Heill og sæll,
ég hefi tekið eftir því að þegar sumir fjölmiðlar fjalla um það, þegar Germanwings flugvélin fórst í Ölpunum, þá tala þeir um að hún hafi brotlent. Flugvélinni var viljandi flogið inn í fjallshlíð þannig að hún splundraðist. Það er ekki brotlending. Brotlending er þegar loftfar brotnar í lendingu. Það er talað um brotlendingarþol (crashworthiness), sem er sá eiginleiki loftfars að burðarvirki þess standist slys og óhöpp þannig að þeim sem í því eru verði sem minnst mein af.

 - - Nú sá ég í fréttum að rússneska flugvélin, sem var skotin niður hafi brotlent eftir að hún var skotin niður og flugmennirnir höfðu skotið sér út í fallhlífum, skrítin brotlending það”. Skúli Brynjólfur bætti svo við:,, Það væri kannske ágætt að benda þeim sem eru að fjalla um flugmál á Flugorðasafn Íslenskrar málnefndar. Þar man ég að vísu eftir einni breytingu, við breyttum flugrita (flight recorder) í ferðrita sem innifelur þá bæði flugrita (flight data recorder) og hljóðrita (voice recorder)” – Þeirri ábendingu er hér með komið á framfæri. Molaskrifari veit, að bréfritari hefur verið ötull orðasmiður á þessum vettvangi.

 Molaskrifari þakkar Skúla Brynjólfi þetta ágæta bréf og þarfar ábendingar.

 

AÐ VINNA HJARTA

Þ.G. vakti athygli á þessari frétt á dv.is (25.11.2015): http://www.dv.is/frettir/2015/11/25/svidsetti-eigid-mannran-til-ad-vinna-hjarta-fyrrverandi-kaerasta/

,,Sæll Eiður, þakka þér þína þrotlausu vinnu. Ég rakst á greinina hér að ofan en í henni kemur í þrígang fram að konan reyndi að vinna hjarta síns fyrrverandi maka. Þykir mér það fremur undarlegt happadrætti.
Færi ekki betur á að segja hana hafa reynt að vinna ást hans á nýjan leik, jafnvel vekja hrifningu aftur?”. Kærar þakkir, Þ.G. Sammála þér.

 

RYÐGAÐUR – RYKAÐUR

 Í Víkverjapistli Morgunlaðsins (24.11.2015) , segir Víkverji: ,,Daginn eftir þessa skemmtum var Víkverji í ryðgaðri kantinum...”. Og: ,, í ljósi þess að Víkverji var ryðgaður ...” Molaskrifari hefur aldrei heyrt orðið ryðgaður í annarri merkingu en um járn, sem er þakið ryði, ryðgað, ryðétið, jafnvel ryðbrunnið. Það skyldi þó ekki vera að ágætur Víkverji hafi verið rykaður. Orðabókin segir ,að það að vera rykaður , sé að vera slæptur eftir áfengisdrykkju eða enn undir áhrifum daginn eftir drykkju. Segi bara svona!

 

MYNSTRUÐ AUGU

Sigurður E. Sigurðsson skrifaði (25.11.2015) : http://www.eyesland.is/Annad/

Ofnæmisprófaðir leppar fyrir augu með bangsamynstri.

 ,,Sæll Eiður.

 Ofanskráða auglýsingu( sem ég tel hreina hrákasmíð) getur að líta á heimasíðu eyesland.is. Mér finnst þetta vera metnaðarleysi virts fyrirtækis að bjóða uppá slíkt, að maður tali nú ekki um auglýsingastofuna og þann sem markaðssetur vöruna.

Hvert er þitt álit?” Þakka bréfið, Sigurður. Mér finnst þetta ekki vel orðað. Hér hefði þurft að vanda betur til verka.

 

ER ÞÖRF Á ...?

,,Er þörf á að lögreglan vopnavæðist?” Eitthvað á þessa leið spurði fréttamaður Ríkisútvarpsins á fimmtudagskvöld (26.11.2015) . Lögreglan í Reykjavík/á höfuðborgarsvæðinu/ hefur haft aðgang að skotvopnum, meira að segja vélbyssum ,(verið vopnavædd, eins og fréttamaður orðaði það) alveg síðan á fjórða áratug síðustu aldar, - ef ekki lengur. Örugglega í meira en 75  ár.  Fréttamenn þurfa helst að vita aðeins meira en það sem gerðist í gær.

 

HLÉ

Verður nú stundarhlé á molaskrifum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband