Molar um málfar og miðla 1864

METNAÐARLEYSI

Á sunnudag (10.01.2016) gluggaði skrifari aðeins í fréttavef dv.is. Þar er ekki metnaðinum fyrir að fara.

Tvö dæmi: Lovísa var ásamt sjö mánaða syni sínum nýbúin að versla inn í búðinni. Ótrúlega margir fréttaskrifarar ráða ekki við  sagnirnar að kaupa og að versla. Konan var nýbúin að versla í búðinni. Konan var nýbúin að kaupa inn í búðinni. http://www.dv.is/frettir/2016/1/9/ungur-madur-kom-lovisu-til-bjargar-fyrir-utan-kronuna/

Í dag er ætlunin að leita árbakkana frá Selfossi að ósnum, sigla ánna og ósinn eins og hægt er, keyra fjörur .... hér hefði átt að standa , .... sigla ána , eða sigla eftir ánni. http://www.dv.is/frettir/2016/1/10/leit-hefst-hefst-aftur-vid-olfusa-ad-manni-sem-talid-er-ad-hafa-fallid-i-ana/

Hér er svo þriðja dæmið frá mánudegi (11.01.2016): ,,Erlendir ferðamenn sem festu bílaleigubíl fjarri byggðu bóli um hánótt var neitað um aðstoð frá lögreglu og einkaaðila sem sérhæfir sig í að draga bíla úr festu.” Erlendum ferðamönnum var neitað um aðstoð. Erlendir ferðamenn var ekki neitað um aðstoð.

http://www.dv.is/frettir/2016/1/11/ferdamonnum-i-vanda-neitad-um-adstod-logreglu-og-einkaadila/

Hvar er metnaðurinn til að vanda sig, til að gera vel?

 

 

SJÁVARÚTVEGUR

Í miðnæturfréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (09.01.2016) var talað um tap sjávarútvegar. Tap sjávarútvegs(ins) hefði þetta fremur átt að vera, eftir máltilfinningu Molaskrifara. Vefur Árnastofnunar er hins vegar með báðar eignarfallsmyndirnar sjávarútvegs og sjávarútvegar . Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=sj%C3%A1var%C3%BAtvegur

 

VÍGI

Vígi (hvk.) er varnarstaður eða víggirtur staður. Í tvígang nú nýlega hefur skrifari heyrt orðmyndina vígum í fréttum Ríkisútvarpsins, eitt af höfuðvígum . Ætti að vera eitt af höfuðvígjum (þgf. flt). http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=4046

Vígum er þgf. flt. af orðinu víg, sem er dráp, eða bardagi (fornt). http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=v%C3%ADg

 

DAVID BOWIE

Mikil umfjöllun var í öllum fjölmiðlum um David Bowie, þegar hann lést í byrjun vikunnar. Hann var vissulega áhrifamikill listamaður, sennilega einn þeirra áhrifamestu undanfarna áratugi. Ekki þekkti Molaskrifari tónlist hans sérstaklega vel, en sá hann fyrir langa löngu á leiksviði í hlutverki Fílamannsins, The Elephant Man. Það var mögnuð sýning og ógleymanleg.

Nokkuð var mismunandi, til dæmis í menningarumfjöllun Kastljóss, (11.01.2016), hvernig menn báru nafnið hans fram. Um framburð nafns söngvarans segir á vef BBC: ,, Although his name is often pronounced as BOW-ee (-ow as in now) the pronunciation that he uses and we recommend is BOH-ee (-oh as in no).”

http://www.bbc.co.uk/blogs/magazinemonitor/2007/01/how_to_say_bowie.shtml

Bergsteinn Sigurðsson, menningarritstjóri Kastljóss, var með þetta á hreinu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1863

UM FRÁLEITA FULLYRÐINGU

Rafn skrifaði Molum (08.01.2016): ,,Sæll Eiður.

Í molum nr. 1861 víkur þú að þeirri fráleitu fullyrðingu, að væntanlegir popptónleikar séu „stærsti tónlistarviðburður á Íslandi fyrr og síðar”. Jafnvel þótt allir væru sammála um hvernig ætti að mæla stærð tónlistarviðburða og að á þeim mælikvarða væri þessi stærstur þeirra, sem hingað til hafa farið fram, þá er það ótrúleg framsýni, að geta sagt fyrir um stærð allra óorðinna viðburða.

Í minni málvitund er ekki unnt að tala um eitthvað sem stærst, mest eða bezt fyrr eða síðar nema verið sé að tala um einstakan liðinn atburð og annar meiri hafi hvorki orðið fyrir þann tíma né á þeim tíma, sem síðan er liðinn. Ef verið er að ræða um yfirstandandi, svo ekki sé minnst á væntanlegan viðburð, þá getur hann verið sá mesti eða bezti hingað til, en þótt spádómsgáfan sé mismikil, getum við fæst sagt fyrir um það sem síðar á eftir að verða.

Þá tel ég fara betur á að tala um fyrr eða síðar í slíku samhengi, fremur en fyrr og síðar, en það má ef til vill flokka sem sérvizku.

Gleðilegt ár og þökk fyrir liðin samskipti.

  1. Ég er viss um, að hvort heldur miðað er við vinnuframlag, hljóðfæramagn eða aðrar mælanlegar stærðir, ef til vill að hávaða frátöldum, þá séu venjulegir Symfóníutónleikar „stærri“ en væntanleg poppuppákoma.” Þakka bréfið, áramótaóskir og samskiptin á liðnum árum. Allt er þetta rétt hjá Rafni að mati Molaskrifara.

 

AÐ FLYTJA ERLENDIS

Ítrekað hefur hér í Molum verið bent á ranga notkun atviksorðsins erlendis. Þetta er dvalarorð, - notað um dvöl á stað, - ekki ferð til staðar. Fólk er erlendis, fer ekki erlendis, fólk flytur ekki erlendis, þegar það flytur úr landi, flytur til útlanda. Í Spegli Ríkisútvarpsins (08.01.2016) var tvisvar , nánast á sömu mínútunni talað um Íslendinga sem flytja erlendis.

http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/spegillinn/20160108 Á tíundu mínútu (09:45). Hvað málfarsráðunautur athugi.

 

UNG FORYSTA

Forysta Sunderland var ekki nema sjö mínútna gömul, þegar ... Svona var tekið til orða í ´þróttafréttum Stöðvar tvö (09.01.2016). Forysta er hvorki ung né gömul. Átt var við að Sunderland-liðið hefði haft forystu í leiknum í sjö mínútur. Íþróttafréttamönnum er þetta orðalag undarlega tamt.

 

GÓÐ MYND

Laugardagskvikmynd Ríkissjónvarpsins var sígild; The Graduate, með Dustin Hoffman og Anne Bancroft. Sígildar myndir eru þær sem eldast ekki. Það á við um þessa og raunar ótrúlega margar myndir Dustins Hoffmans. Finnst Molaskrifara. En svo er margt sinnið .....

 

STJÖRNUSPÁ

Birt var stjörnumerkjaspá á heilli opnu í sunnudagsmogga (10.01.2016). Molaskrifari gjóaði augum á það sem sagt var sporðdreka: ,,Sporðdrekar eru djúpir persónuleikar og gáfaðir”. Taldi öldungis óþarft að lesa meira !

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1862

 

ÓKEYPIS

Molalesandi skrifaði (07.01.2016): ,,Sæll Eiður og gleðilegt ár. Hvað varð um orðið "ókeypis"? Nú er allt "frítt". Stundum í lagi, kannski, en hræðilegt þegar það er beygt eins og t.d. hér á eftir: ,,Íslend­ing­ar sem eru á leið á EM í sum­ar eiga að mínu mati mjög góða mögu­leika á frírri gist­ingu í Frakk­landi því Frakk­ar virðast vera mjög hrifn­ir af íbúðaskipt­um. Til að mynda þá eru hátt í 5000 heim­ili í Frakklandi skráð á síðuna homeexchange.com,“ seg­ir fjöl­miðlakon­an Snæfríður Inga­dótt­ir sem sjálf hef­ur gert ótal íbúðaskipti er­lend­is og ætl­ar að deila reynslu sinni á nám­skeiði um íbúðaskipti hjá End­ur­mennt­un í byrj­un fe­brú­ar.” Molaskrifari þakkar bréfið og þarfa ábendingu. Orðið ókeypis má ekki falla í gleymsku. – og svo er það þetta með að ,,gera ótal íbúðaskipti erlendis”!

 

STYTTING

Í Morgunblaðinu (08.08.2016) er smáfréttum svokallaða flugvallarlest, sem suma dreymir um að bruna muni milli höfuðborgarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Í fréttinni segir: ,, Hraðlest mundi stytta leiðina frá flugvellinum til Reykjavíkur um fimmtán til átján mínútur”.– Hefði ekki verið eðlilegra að tala um styttingu ferðatímans um fimmtán til átján mínútur? Molaskrifari hallast að því.

 

AÐ GERA FRÉTTIR

Á biðstofu las Molaskrifari í liðinni viku Frjálsa verslun 3. tbl. 2014. Þar var viðtal við nýjan fréttastjóra Ríkisútvarpsins. Haft er eftir fréttastjóranum í viðtalinu: ,,Mér finnst gaman að gera fréttir og vil ekki missa þau tengsl”.Nú veit skrifari ekki hvort rétt er eftir fréttastjóranum haft. Hann hefur aldrei heyrt talað um a gera fréttir. Hér hefði ef til vill verið eðlilegra að tala um að skrifa fréttir,vinna við fréttir eða segja að viðkomandi þætti fréttamennska skemmtilegt starf.

 

UNDARLEGA SPURT

Ekki verður annað sagt , en dálítið undarlega hafi verið spurt, þegar fréttamaður Ríkisútvarps (hádegisfréttir 08.08.2016) spurði utanríkisráðherra við hvaða upphæð ætti að miða til að aflétta viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi !

Utanríkisráðherra svaraði efnislega eins og tilefni var til: Verðmiða er  ekki hægt að setja á fullveldið.

 

LÚALEGT

Atriðið um Sigurð Einarsson í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins var lúalegt. Bar vitni um dómgreindarleysi, jafnvel illgirni.   Svo ófyndið sem mest mátti verða. Undarlegt er að sjá starfsmenn Ríkisútvarpsins þjappa sér í vörn fyrir þetta glappaskot.

Dagskrárstjóri segir afsökunarbeiðni ekki til umræðu (Fréttablaðið 09.01.2015) og segir umfjöllunina ,,vissulega hafa verið djarfa. Það þarf reyndar ekki mikla dirfsku til að sparka í liggjandi mann eins og þarna var gert, - ekki einu sinni, heldur tvisvar,  því Skaupið var endursýnt á besta tíma á föstudagskvöld (08.01.2016). Það er raunar óskiljanlegt hvers vegna þetta ,,viðtal” var upphaflega flutt.  

 Útvarpsstjóri ætti fyrir löngu að vera búinn að biðjast afsökunar á þessum mistökum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1861

BOLTINN Í DAGSKRÁNNI.

 Á þrettándanum (06.01.2016) sýndi Ríkissjónvarpið sama boltaleikinn frá Hafnarfirði á tveimur rásum, rás 1 og HD rásinni, eða íþróttarásinni, sem stundum er svo nefnd. Þetta er auðvitað fráleitt. Það hálfa hefði verið nóg. Hversvegna mátti ekki láta dagskrána á rás 1 í friði og senda leikinn út á íþróttarásinni? Úrslit þessa leiks skiptu engum sköpum. Enn eitt dæmið um yfirgang íþróttadeildar Ríkisútvarpsins. - Svo tók við enn ein myndin um slökkviliðsmenn og bráðaliða í Chicago. Veit ekki íslenska þjóðin senn allt sem vert er að vita um löggur, slökkviliðsmenn og bráðaliða í þessari bandarísku borg?

 

FRÁLEIT FYLLYRÐING

 Það er auðvitað fráleit fullyrðing, sem dynur á okkur í sjónvarpsauglýsingu um þessar mundir, að fyrirhugaðir tónleikar kanadíska popparans Justins Biebers séu ,,stærsti tónlistarviðburður á Íslandi fyrr og síðar”. Algjörlega út í hött. Ber vott um dómgreindarleysi þeirra sem taka gagnrýnilaust við auglýsingum, - að slíkar fullyrðingar skuli gleyptar athugasemdalaust.

 

FRÉTTAMAT

Fréttamat er auðvitað umdeilanlegt. Einkennilegt þótti gömlum fréttamanni,að í seinni fréttum Ríkissjónvarps (06.01.2016) skyldi ekki vera orð um fund Öryggisráðs Sþ. þar sem Norður Kóra var fordæmd. Ályktunin var einróma. Kína var með, - granni og eini bandamaður Norður Kóreu , - oftast nær. Fyrsti skóladagur bresks prins var aftur á móti fréttnæmur.

 

GRÁMOSINN

Gott er að hlusta á kvöldsöguna á Rás eitt. Thor Vilhjálmsson er nýbyrjaður að lesa bók sína Grámosinn glóir. Lestrarnir verða þrjátíu og einn. Konfekt. Mér hefur alltaf fundist þetta ein besta bók Thors.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1860

AÐ BRYNNA MÚSUM

Að brynna músum er að skæla eða gráta, - oft notað í gamansömum tón, segir í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson. Málkennd Molaskrifara er einnig sú, að þetta orðtak sé notað, þegar skælt er, tárast af litlu tilefni. Í fréttum Ríkissjónvarps (05.01.2016) var sagt í skjátexta, að Obama Bandaríkjafoseti hefði brynnt músum, þegar hann kynnti fréttamönnum ( og þjóð sinni) hertar reglur um notkun skotvopna. Molaskrifara hefði fundist eðlilegra að talað hefði verið um að forsetinn hefði tárast eða fellt tár, þegar hann kynnti reglurnar og minntist um leið þeirra sem skotóðir morðingjar hefðu myrt með köldu blóði. En þetta er auðvitað spurning um smekk og ekkert rangt við að tala um að brynna músum, þótt Molaskrifara hafi ekki þótt það orðalag alveg við hæfi í þessi tilviki.

 

AUGLÝSINGAR OG KYNNING

Oft er mjótt mundangshófið og meðalvegurinn vandratataður. Mjótt getur verið á munum milli kynninga  og hreinna auglýsinga í blöðum eða útvarpi. Í morgunþætti Rásar tvö (06.01.2016) var löng umfjöllun um fyrirtæki, sem skipuleggur gönguferðir á höfuðborgarsvæðinu, sem er góðra gjalda vert. En þarna var lopinn teygður um of og frekar var þetta í ætt við auglýsingu en kynningu. Ekki hefði sakað að geta þess ,að fólk getur gengið sér til heilsubótar innanhúss, í íþróttahúsinu Fífunni í Kópavogi - sér að kostnaðarlausu, þegar veður eru válynd og hálkan háskaleg. Margir, ekki síst eldri borgarar, notfæra sér þetta. Húsið er opið göngufólki fram til hádegis virka daga.. Ekki veit Molaskrifari til þess að Reykjavíkurborg eða Garðabær bjóði slíkt. Til fyrirmyndar hjá Kópavogi.

 Í þessu sambandi má einnig nefna þeim til viðvörunar, sem ganga utanhúss, að á höfuðborgarsvæðinu er nú þegar dagurinn er stuttur, er slökkt á götuljósum löngu áður en fullbjart er orðið. Varla orðið nema sæmilega ratljóst, þegar slökkt er. Þetta skapar hættu fyrir alla vegfarandur, gangandi, hjólandi og akandi.

 Í sumum fjölmiðlum , Fréttatímanum , til dæmis, hefur ekki alltaf verið auðvelt að greina milli ritstjórnarefnis og skrifaðra greina sem greitt er fyrir að birta. Vonandi breytist það með nýjum eigendum þar á bæ. Neytendur, lesendur, eiga rétt á að þarna séu mörkin skýr.

 

INNTAKA LEIÐBEININGA

Það er ágætt að vara við, þegar slæmt veður er í aðsigi eins og gert var í morgunþætti Rásar tvö á miðvikudag (06.01.2016). En það orkaði  tvímælis, þegar umsjónarmaður talaði um að ,, Íslendingar hefðu vafalaust tekið inn þessar leiðbeiningar”. Við tökum inn lyf, en við tileinkum okkur leiðbeiningar eða tökum tillit til leiðbeininga.

 Ekki áttaði Molaskrifari sig á því hvað átt var við í sama þætti þegar talað var um einhverskonar ,,ógnarjafnvægi í ferðamálum á Íslandi ???

 

VIÐSKIPTAÞVINGANIR – VIÐTAL

Utanríkisráðherra. Gunnar Bragi Sveinsson, komst vel frá viðtali við Sigmar Guðmundsson í morgunþætti Rásar tvö á fimmtudagsmorgni (07.01.2016). Sigmar er kominn til starfa að loknu jólaleyfi og gaf ekkert eftir. Kjarni málsins er, að í þessu máli, sem öðrum verðum við að halda haus í samfélagi þjóðanna og horfa til langtímahagsmuna smáþjóðar í alþjóðlegu samstarfi. Við eigum ekki bara að standa með öðrum þjóðum í slagnum, þegar fjárhagslegur ávinningur er annarsvegar. Samstarf við aðrar þjóðir og vinveittar er smáþjóðum lífsnauðsyn. Ættum við kannski að hrópa húrra fyrir tilraunasprengingunni í Norður Kóreu, ef það land keypti af okkur loðnu og lýsi? – Nei. Svo ómerkileg eru við vonandi ekki.  

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1859

 

 

RAKNA - RÁNKA

 Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á gamlársdag (31.12.2015) var sagt um mann, sem dáið hafði áfengisdauða: ,, ... ránkaði úr rotinu”. Molaskrifari er vanur því að sagt sé , að rakna úr rotinu, þegar einhver kemst til meðvitundar að nýju eftir slys eða áfall. En, - hann var kominn fram hjá vegamótunum , þegar hann ránkaði við sér, - þegar hann áttaði sig.

 

GRÆN ORKA

Í nýársávarpi sínu (01.01.2016) sagði forseti Íslands: ,,Íslendingar hafa nú þegar stuðlað að nýtingu grænnrar orku í tugum landa; ...” Hér hefði forsetinn átt að segja: ,, .. í nýtingu grænnar orku ..”. eins og réttilega stendur í ávarpinu á heimasíðu embættisins, forseti.is http://www.forseti.is/Frettir/Ollfrettin/nyarsavarp/ .

 

MORGUNTÓNLIST

Það er góð byrjun hvers dags að hlusta á tónlistarhálftíma Jónatans Garðarssonar, Árla dags, á Rás eitt. Smekkvísi er þar næsta óbrigðul og Jóntan hafsjór af fróðleik um tónlist af ýmsu tagi. Takk fyrir það.

 

RÉTTLÁTT - RÉTTLÆTANLEGT

Í morgunfréttum Ríkisútvarps var sagt frá fullyrðingum Norður Kóreumanna í þá veru, að þeir hefðu sprengt vetnissprengju, en slíkt vopn væri ,,réttlát vörn ....” Molaskrifari hallast að því að þarna hafi þeim sem þýddi fréttina orðið svolítið á í messunni. Þarna hefði fremur átt að tala um að vetnissprengja væri réttlætanleg (e. justified) vörn, réttlætanlegt varnarvopn, , fremur en réttlát ( e. just) vörn. Erlendir fréttamiðlar vitnuðu í norður kóreskar sjónvarpsfréttir þar sem talað var í þessa veru: ( ,, The North said the hydrogen bomb is a legal, self-defensive right and an irrefutably justified measure”.)

 

 

EF ....

Ef Ríkisútvarpið ætlar að spara í rekstri á nýju ári liggur þá ekki beint við að hætta þátttöku í evrópsku söngvakeppninni, Evróvisjón? Það er hægt að skemmta sér ágætlega við að horfa á keppnina án þess að setja milljónir á  milljónir ofan  í að senda þangað fjölmennt lið. Svo mætti auðvitað leggja niður svokallaðar Hraðfréttir. Bara hugmyndir! Ekki nýjar, segja sjálfsagt sumir. Falla sennilega í grýttan jarðveg Efstaleitis.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1858

 

LJÁ – LÉÐI - VEKJA MÁLS Á

Helgi Haraldsson , prófessor emerítus í Osló, vakti athygli á eftirfarandi (31.12.2015) í þeim ágæta miðli Stundinni

http://stundin.is/pistill/flottinn-fra-sigmundi-david/

"Þingmaður Framsóknar­flokksins, Þorsteinn Sæmundsson, ljáði máls á vandan­um fyrir ári síðan."

Þakka ábendinguna, Helgi. Auðvitað ljá menn ekki máls á vanda. Að vekja máls á e-u er að minnast á e-ð að fyrra bragði. Þingmaðurinn vakti máls á þessum vanda. Hér má svo til fróðleiks sjá beygingu sagnarinnar að ljá á vef Árnastofnunar. http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=463904

 

VANDRÆÐAGANGUR

Af visir.is (30.12.2015): ,, Fyrsta breytingin sem gerð var á ríkisstjórninni var þó ekki tengd þessari stöðu, heldur hrökklaðist Hanna Birna Kristjánsdóttir úr ríkisstjórn eftir margra mánaða vandræðaganga vegna lekamálsins svo kallaða hinn 4. desember á síðasta ári”. Orðið vandræðagangur er ekki til í fleirtölu. Það hefur hins vegar verið hálfgerður vandræðagangur á þeim sem skrifaði þessa frétt.

 

REKA – REKJA

Ekki heyrði Molaskrifari betur en þul á Rás eitt yrði það á á miðvikudagskvöld (30.12.2015) að rugla saman sögnunum að reka og rekja. Þetta var að loknum þættinum ,,Eg las það í Samúel”. Saga er rakin, ekki rekin. Heyrðist þulur segja, - sem rekið hefur sögu. Sem rakið hefur sögu. Gat ekki sannreynt þetta á netinu, en heyrði ekki betur. Afar sjaldgæft að hnökrar séu á málfari þula á Rás eitt.

 

TENINGUR

Í fréttum Ríkissjónvarps á gamlársdag (31.12.2015) var sagt: ,, Það sama verður uppi á teningunum í fleiri borgum á meginlandinu og ...”. Málvenja er í þessu orðasambandi að hafa orðið teningur í eintölu. Þetta hefði því átt að vera: ,, Það sama verður uppi á teningnum ... “. Staðan verður sú sama, ástandið verður það sama .

 

 

HRINGBRAUT - EYSTRA ELDHRAUN

Hringbraut er að festa sig í sessi sem fjölmiðill. Daginn fyrir gamlársdag (30.12.2015) horfði skrifari þar á prýðilega heimildamynd um Ferðafélagsgöngu um Eystra Eldhraun. Þar sem þau Páll Ásgeir Ásgeirson og Rósa Sigrún Jónsdóttir voru leiðsögumenn, en kvikmyndataka í höndum Péturs Steingrímssonar. Þetta var vel gerð mynd, vel tekin og fróðleg, - margt var þarna hnýsilegt að sjá. Og ekki spilltu tilvitnanir í eldklerkinn fyrir. Hægt er að gera góðar heimildamyndir án þess að til þess sé kostað milljónum. Þessi mynd sannar það. Á sjónvarpsstöðinni N4 er sömuleiðis margt gott að finna, - bitastætt efni er líka stundum á ÍNN, ekki síst þættir Björns Bjarnasonar. Annars skemmir ofstæki og óheflað orðbragð sjónvarpsstjórans of oft fyrir á þeirri stöð.

 

ÓVANDVIRKNI

Þess hefur stundum verið getið hér, að auglýsingastofa Ríkisútvarpsins vinnur sín verk stundum ekki nógu vandlega. Það kom til dæmis í ljós við lestur auglýsinga fyrir tíu fréttir að morgni nýársdags. Þá hafði þulur fengið í hendur gamla auglýsingatexta, sem ekki áttu við á nýbyrjuðu ári. Anna Sigríður Einarsdóttir þulur leiðrétti þetta lipurlega, - eins og hennar var von og vísa.

 

ÁRAMÓTAMYNDSKEIÐIÐ

Áramótamyndskeið Ríkissjónvarpsins á miðnætti á gamlárskvöld, þegar 2015 kvaddi og 2016 heilsaði, var fallegt og smekklega saman sett.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1857

 

GLEÐILEGT ÁR, GÓÐU MOLAVINIR !

 Verður nú tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið á nýliðnu ári.

 

 GERAST FYRIR – KOMA FYRIR

Þórarinn Guðnason, málglöggur og dyggur Molalesandi, skrifaði (30.12.2015):

,,Fréttabörnin láta að sér kveða eins og fyrri daginn.

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar á visir.is í gær 29. des. og vitnar í fyrrverandi ritstjóra Mbl., Styrmi Gunnarsson, í þætti um Jennu Jensdóttur:

"Þá segir Styrmir að mörg þeirra vandamála sem samfélagið glímir við í dag megi rekja til þess sem gerist fyrir börn í æsku". 

Þetta segir Styrmir náttúrulega alls ekki í klippunni úr þættinum, sem fylgir fréttinni

Hann segir þar, skýrt og greinilega: "..sem kemur fyrir börn".

Ekki vönduð vinnubrögð fréttamanns.” – Þakka ábendinguna, Þórarinn. Rétt. Þetta hefði Styrmir Gunnarsson aldrei sagt. Fréttamaður hefði þurft að vanda sig. Það eiga fréttamenn raunar alltaf að gera.

 

 SAGNBEYGINGAR

Molalesandi skrifaði vegna ábendingar í Molum nýlega: (30.12.2015) „Það er ekki nýtt að menn segi ‚réði‘ í framsöguhætti þátíðar líkt og í viðtengingarhætti sömu tíðar. Íslensk orðabók Eddu kannast að vísu við þann talshátt en auðkennir hann með upphrópunarmerki og spurningarmerki. Ritstjóri bókarinnar er því ekki sáttur við að svo sé tekið til orða. Svo er mál með vexti að önnur kennimynd sterkra sagna (1.p.et.fh.þt.) er alltaf eitt atkvæði ef sögn sem er ekki forskeytt á í hlut. Á þessu er bara ein undantekning, valda, sem er í þátíð ‚olli‘. Því ber að segja: „Hvað réð ákvörðuninni?“ og „Hún réðst til atlögu.“ Öðru máli gegnir um viðtengingarháttinn: „Hann réði sér ekki fyrir kæti ef frændi hans kæmi í heimsókn.“ „Hún óttaðist að herinn réðist til atlögu í birtingu.““ - Molaskrifari þakkar bréfið.

 

NÝLUNDA?

Molaskrifari hefur ekki verið iðinn útvarpshlustandi á nýársnótt. Hlustaði svolítið núna. Er það ekki nýlunda að Ríkisútvarpið sé með fréttir á nýársnótt? Molaskrifari hlustaði á Ævar Örn Jósepsson flytja fréttir bæði klukkan eitt og klukkan tvö (01.01.2016). Hann gerði það með ágætum. Það var alveg réttur tónn í fréttunum, sem hæfði þessari nótt.

 

ÞRIF OG FLEIRA

Starfsmaður á fjölsóttum veitingastað í Kringlunni varð uppvís að því að nota gólftusku til að þurrka af borðum.

Skrifað var á Stundin.is (29.12.2015) : ,,Við vorum orðin uppvís um þetta í gærkvöldi og erum búin að gera ráðstafanir til þess að kalla til þá aðila sem þjónusta þetta svæði fyrir okkur,“ segir Sigurjón Örn í samtali við Stundina”. Hér hefði sá sem rætt var við átt að segja, - til dæmis: ,,Við vissum af þessu í gærkvöldi ... “ Starfsmaðurinn varð   uppvís að því að nota gólftusku sem borðtusku. Og svo er þetta með að þjónusta svæði!. Var ekki átt við að þrífa staðinn?

 

KAL

Úr frétt á mbl.is (29.12.2015): ,, Ann­an fé­lagi kól á tám og þurfti því að kalla til björg­un­ar­sveit sem náði í ferðalang­ana inn í Nýja­dal. ...”

Hér hefði átt að standa: ,,Annan félaga kól á tám ...” Einhvern kelur, e-r dofnar af kulda , verður fyrir vefjaskemmdum af frosti.

 

AÐ HALDA UPPLÝSTUM

Í Garðapóstinum (30.12.2015) er haft eftir bæjarstjóranum í Garðabæ.,,Við munum hins vegar leggja þunga áherslu á að halda íbúum, starfsfólki, heimilisfólki og aðstandendum upplýsta um gang mála ....” Molaskrifari er næsta viss um að bæjarstjóri hefur ekki orðað þetta svona. Þetta hefði átt að vera: ,, Við munum leggja þunga áherslu á að halda ...... upplýstum um gang mála...”

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1856

 

KRYFJA – KRUFÐI

Molavin skrifaði (28.12.2015): ,,Venjulega lítur maður til fréttastofu Ríkisútvarpsins sem fyrirmyndar um meðferð móðurmálsins. Enda eru fréttir þar venjulega á góðu máli. En mistök geta orðið og þá vantar þar eftirlit. Í frétt (28.12.2015) um síld í Kolgrafarfirði sagði: "þegar ábúendur á Eiði við Kolgrafafjörð krufu skarf..." Þetta fór óbreytt inn á vefsíðu RUV og er þar enn. Hér á vitaskuld að standa "krufðu." Kannski er þetta innsláttarvilla, en þá ætti þulur að sjá og vaktstjóri að lesa. Eftirliti og yfirlestri er ábótavant og það setur blett á góða stofnun.”

 

HAFÐI SNÉRIST

Úr frétt umferðarslys á mbl.is (27.1.2.2015): ,, “Í gær var greint frá því á mbl.is að bíla­leigu­bíll hafi snér­ist og runnið á 40-50 km hraða fram af þver­hnípi, farið nokkr­ar velt­ur og hafnað í fjöru”. Bíllinn hafði snúist. Sjá:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/27/annad_slys_a_nanast_sama_stad/

 

AUKAFRÉTTIR

Gott framtak hjá fréttastofu Ríkisútvarps að vera með aukafréttatíma (30.12.2015) klukkan tólf  eftir fárviðrið eystra. Málum gerð ágæt skil. Í kynningu var talað um ,,að blása til aukafréttíma”! Tæpum klukkutíma seinna var framið bankarán í Reykjavík. Svona er fréttamennskan!

 

SÓKN ENSKUNNAR

Molaskrifari lýsir ábyrgð á hendur auglýsingastofum, kaupahéðnum og stórverslunum fyrir að innleiða og endurtaka í síbylju ensk orð eins og Tax free, sem hefur ekkert með skatt að gera, er bara auglýsing um afslátt. Svo hafa bæst við orð eins og Black Friday og Cyber Monday, beint úr amerísku auglýsingamáli. Á Þorláksmessu heyrði skrifari talsmann verslunarinnar nota þessi ensku orð í útvarpsviðtali, - rétt eins og þau væru góð og gild íslenska. Við þurfum að skera upp herör gegn þessum slettum.

Bretar kalla annan í jólum Boxing day. Þá eru miklar útsölur. Verður það ekki næst hjá hérlendum kaupahéðnum og auglýsingastofum að apa það eftir? Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/12/26/kaupodir-bretar-felldu-hundrad-ara-solumet-boxing-day/

 

HERTASTA LÖGGJÖFIN

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (29.12.2015) var talað um breytingar á innflytjendalöggjöf í Noregi, sem verði ,,sú allra hertasta í Evrópu.”Væntanlega var átt við að löggjöfin yrði sú allra strangasta í Evrópu. Eins og Bogi sagði réttilega í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (29.12.2015)

 

MET?

Í fimm fréttum Ríkisútvarpsins 29. desember var beðist afsökunar á ranghermi í frétt, sem flutt hafði verið 28. október. Betra er seint en aldrei. En er þetta ekki einhverskonar met?

 

ÓFÆRÐ

Ný spennuþáttaröð Ríkissjónvarpsins lofar heldur góðu, eftir fyrsta þáttinn (27.12.2015). Fagfólk að verki.

 

 Ágætu Molalesendur, - þetta er síðustu Molar ársins 2015.

Óska ykkur árs og friðar og þakka samskiptin á liðnu ári, - þakka öll bréfin, símtölin og gagnlegar ábendingar. Gott er að eiga ykkur að. Megi nýtt ár færa ykkur góða heilsu og hamingju hugans. Lifið heil! 

Eiður Svanberg Guðnason

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1855

 

FÓLKIÐ VAR HALDIÐ

Úr frétt á mbl.is (24.12.2015): ,,Fólkið, sem var haldið af her­ská­um ír­önsk­um stúd­enta­sam­tök­um í 440 daga, fá allt að 4,4 millj­ón Banda­ríkja­dala hvert eða 10.000 dali fyr­ir hvern dag”. Seint verður sagt að þetta sé vel skrifað. Á mannamáli þýðir þetta: Fólkið var í haldi herskárra, íranskra stúdentasamtaka í 440 daga. Gíslarnir fá allt að 4,4 milljónir Bandaríkjadala hver, eða 10.000 dali fyrir hvern dag, sem þeim var haldið í gíslingu.

 Orðið fólk vafðist líka fyrir fólki í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (25.12.2015). Í frétt um annríki hjá sjúkraflutningamönnum á höfuðborgarsvæðinu. Þar var sagt: ,, Þá aka þeir fólki, sem dvelur á sjúkrastofnunum til ættingja sinna. þar sem þeir (þau?) njóta hátíðarinnar ...” Þar sem það ... , eða þar sem fólkið ...

 

STRANDARKIRKJA

Nýlega sá Molaskrifari í fyrirsögn (man ekki hvar) talað um Strandakirkju. Átt var við Strandarkirkju, sem er kirkja Strandarsóknar í Selvogi Sjá: http://kirkjan.is/soknir/TK2 Þetta er mjög algengur ruglingur.

Strandarkirkja í Selvogi þykir góð til áheita og á árum áður birtist öðru hverju á dagbókarsíðu Morgunblaðsins listi yfir þá sem heitið höfðu á kirkjuna. Í þessari ágætu grein eftir Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur er frekari fróðleik að finna um þetta sögufræga og merkilega guðshús: http://kirkjan.is/strandarkirkja/fro%C3%B0leikur/strandarkirkja-aheitasta%C3%B0ur-i-nor%C3%B0ri/

 

ENN UM SLETTUR

Ríkisútvarpið á ekki að velja aðra þáttastjórnarendur, umsjónarmenn, en þá sem geta talað lýtalausa íslensku. Yfirleit tekst vel til um val  umsjónarmanna. Undantekningar eru þó þar frá, sem vikið hefur verið að hér á þessum vettvangi áður. Ekki síst á það við um morgunútvarp Rásar tvö þar sem enskuslettur  eru  algengar. Að morgni aðfangadags (24.12.2015) var talað um að vinna aðeins lengra með þetta konsept. Ekki til fyrirmyndar.

 

 

 

OG ÞÚ LÍKA .....

Svo bregðast krosstré sem önnur tré, er stundum sagt. Nú er meira að segja Morgunblaðið, mbl.is (24.12.2015) farið að versla jólagjafir, í stað þess að kaupa jólagjafir.,, Tölu­vert hef­ur verið að gera í Kringl­unni frá því að þar opnaði í morg­un en löng röð myndaðist við þjón­ustu­borðið klukk­an tíu og greini­lega marg­ir sem þurfa að versla jóla­gjaf­irn­ar á síðustu stundu þetta árið -  Morgunblaðið á að geta gert betur en þetta. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/24/margir_a_sidustu_stundu/

 

ENN UM SNJÓSTORM

Óþarfi er að nota orðið snjóstorm um stórhríð eða byl. Við eigum gnótt góðra orða um slíkt veðurlag. Samt sést þetta orð aftur og aftur í fréttum. Síðast á vef Ríkisútvarpsins (25.12.2015) : ,,Á vef TV segir að eftir kalda byrjun á vetrinum með snjóstormi og djúpri lægð í byrjun desember hylji snjór nú stærstan hluta Íslands”. Í morgunfréttum á jóladag klukkan tíu var talað um snjóstorm, en réttilega um hríðarbyl í hádegisfréttum. http://www.ruv.is/frett/bara-hvit-jol-i-reykjavik

Í fréttum Bylgjunnar á hádegi á sunnudag (27.12.2015) var talað um, að von væri á ,,sögulegum snjóstormi “ í Texas”. Það var og.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband