Molar um málfar og miðla 1874

ÞÖRF FYRIR EITTHVAÐ

Í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.01.2016) var fjallað um fjölgun bálfara. Þar var sagt ,: ,,... hægt hefur á þörfinni fyrir nýju landi undir kirkjugarða.” Þetta hefði mátt orða betur. Til dæmis með því að segja: Þörfin fyrir nýtt land undir kirkjugarða vex nú

hægar en áður.

 

AIRBUS OG BOEING

Í fjögur fréttum Ríkisútvarps á sunnudag (24.01.2016) var sagt frá því að Íranar ætluðu að kaupa 114 farþegaþotur frá Airbus , nú þegar losað hefur verið um fjármuni þeirra erlendis. Í lok fréttarinnar var sagt að skrifað yrði undir samninga við fulltrúa Boeing í París. Það var og.

Þarna hefur yfirlestur ekki verið til staðar, - eða ekki vandlega lesið. Þetta var seinna rétt á fréttavefnum. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/siddegisfrettir/20160124 Skrifa átti undir samninga við seljendur, Airbusverksmiðjurnar.

 

MÉR HUGNAST

Úr frétt á mbl.is (25.01.2016): ,,Lands­bank­inn, sem var einn eig­anda á þeim tíma hugnaðist ekki þessi aukna áhætta og áherslu­breyt­ing.” 

Einhverjum hugnast (ekki) eitthvað. Þess vegna hefði átt að standa hér: - Landsbankanum hugnaðist ekki þessi aukna áhætta og áherslubreyting.

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/01/25/vidskipti_tengd_klami_og_vedmalum/

 

AÐ VERA Á VAGNINUM – OG FLEIRA

Oft hefur verið bent á hér að málfari er á stundum ábótavant í morgunþætti Rásar tvö. Á þriðjudagsmorgni (25.01.2016) talaði einn umsjónarmanna um mann sem hefði farið í meðferð og hefði haldið sig á vagninum síðan. Ekki er Molaskrifari viss um að allir hafi skilið þetta. Þetta er hráþýðing úr amerísku talmáli. Að vera á vagninum, to be on the wagon, þýddi upphaflega að vera í áfengisbindindi, halda sig frá áfengi, neyta ekki áfengis, - en nú þetta ekki bara notað um að halda sig frá áfengi heldur einnig frá öðrum fíkniefnum og eiturlyfjum. Molaskrifari hefur ekki heyrt það notað í íslensku talmáli að vera á vagninum um að vera í bindindi. Að vera á vatnsvagninum, drekka ekki áfengivar merkingin. Upphaflegi vagninn, sem átt var við, var vatnsvagn, sem flutti vatn til að binda ryk á malargötum. Krakkar í Reykjavík, fyrir daga malbikunar töluðu um sprautubílinn og þótti koma hans mikil tilbreyting!

 Í þessum sama þætti var fróðlegt málskot, þar sem málfarsráðunautur lagði ýmislegt gott til málanna, meðal annars um rétta notkun orðtaka. – Í spjallinu var sagt að skörin væri farin að færast upp á bekkinn. Rétt er orðtakið að skörin sé farin að færast upp í bekkinn.  Góð skýring á þessu er í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson , bls.784. ,,Skör er þrep fyrir neðan pall/bekk, en minni háttar fólk sat á skörinni. Skör er hér tákn þess er má sín lítils og vísar líkingin til þess er minni háttar fólk vogaði sér að setjast upp í bekkinn.”

Í lokin: Leikin var sænsk tónlist í þessum þætti. Allt gott um það, en tónminni stjórnenda náði ekki langt aftur, náði til dæmis ekki til til söngkonunnar Alice Babs (1924-2014) Hún var ein frægasta söngkona Svía á liðinni öld, jafnvíg á dægurlög, djass og sígilda tónlist. Kannski ekki jafn fræg og óperusöngkonurnar Birgit Nilsson og Elisabeth Söderström. Alice Babs vann meðal annars mikið með Duke Ellington. Um hana hafa verið gerðir frábærir sjónvarpsþættir. En þetta þykir sjálfsagt nöldur aftan úr fornöld!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1873

 

LESTUR VEÐURFRÉTTA

Skúli Brynjólfur Steinþórsson skrifaði sl. föstudag (22.01.2016):  ,,Heill og sæll,
ég sendi veðurstofunni fyrirspurn um hvort ekki væri hægt að láta þá lesa veðurfréttir sem hefðu góðan íslenskan framburð, engin svör. Það er ef til vill ekki hægt að ætlast til þess að fólk tali góða íslensku í vinnunni , en þegar er verið að útvarpa til allrar þjóðarinnar í lengri tíma finnst mér að það skipti máli að sé á góðri íslensku.”- Þakka bréfið, Skúli Brynjólfur. Einkennilegt að Veðurstofan skuli ekki svara kurteislegri fyrirspurn. Svo er það rétt, sem þú sagði í tölvupósti síðar, að lestur í útvarpi á auðvitað alltaf að vera til fyrirmyndar,- getur beint og óbeint stuðlað að bættri framsögn og lestri.

Á fimmtudagskvöld eftir tíu fréttir (21.01.2016) voru veðurfregnir til dæmis að taka ekki vel lesnar. Sá sem las sagði aftur og aftur um vindhraða , metrar sekúndu, - ekki metrar á sekúndu. Líka gerist það stundum, að veðurfréttir eru lesnar með mjög einkennilegri hrynjandi, allar setningar enda á lækkandi tóni, - mjög óeðlilegt og hvimleitt. Yfirmenn á Veðurstofunni hljóta að heyra þetta. Hef reyndar nefnt þetta áður. Veðurstofa Íslands þarf að vanda val þeirra, sem lesa veðurfréttir. Þá er ekki verið að amast við þótt lesið sé með hreim, ef lesturinn er skýr og skiljanlegur.

 

ORÐRÓMUR - SLÚÐUR

Geir Magnússon skrifaði (22.01.2016):
,,Á hverjum morgni opna ég mbl.is og það bregst varla að ég

rekst á handverk Una Danska, en það kalla ég þessa krakka, sem vita ekki að ákveðinn greinir í íslenzku er viðtengdur. Krakkarnir byrja allar fréttir á “hin” eða “hinn”.Nýlega var svo grein um vísindamenn, sem telja sig hafa fundið sönnun fyrir þeirri kenningu Einsteins að aðdráttaraflið í alheimnum gangi í bylgjum.

Þetta hefur ekki verið sannreynt og að hætti góðra vísindamanna hefur ennþá ekkert verið staðhæft, en orðrómur er um þetta.

Einhver krakkinn þýddi erlenda, líklega enska, frétt um þetta

og sagði í fyrirsögn að slúðrað væri um þetta. Ég hringdi í 

vinkonu mína hjá mbl.is og benti henni á að enska orðið rumor þýddi ekki slúður, orðið gossip væri notað um það. Hún ræddi við þýðandann, sem brást hinn versti við og sagði að orðið slúður væri rétt þýðing.

Hvað er hægt að gera við svona fólk?

Skyldi Davíð vera maðurinn til að tala við um þetta?”

Molaskrifari þakkar bréfið. Davíð mundi áreiðanlega taka þér vel.

AUGNABLIKIÐ

Það hefur áður verið nefnt hér, að þættirnir sem sýndir eru í Ríkissjónvarpið á föstudagskvöldum, Augnablik úr 50 ára sögu sjónvarpsins eru öndvegisefni. Þar er stiklað á stóru úr gömlum skemmtiþáttum og auglýsingum. Vel valið og vel fram sett. Þættirnir eru samt  í styttra lagi. Þeir mættu að skaðlausu vera 40 mínútur, - nóg er til af öndvegisefni með úrvals listafólki eins og við sáum á föstudagskvöldið (22.01.2016). Þetta efni stendur undir 40 mínútna þáttum og vel það.

 

SIGMUNDUR VILL MAKASKIPTI

Þessa fyrirsögn sá ég á netinu fyrir helgina. Að forsætisráðherra vildi makaskipti. Rétt, en kannski villandi í huga sumra. Makaskipti eru samningsbundin skipti eigenda (einkum) á fasteignum.

 

ÁRSGRUNDVÖLLURINN OG SNJÓSTORMUR

Óþurftarorðið ársgrundöllur skýtur alltaf upp kollinum í fréttum öðru hverju. Í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.01.2016) var fjallað um skógrækt. Þar var sagt: ,,Helmingi færri trjáplöntum er plantað á ársgrundvelli...” Hér hefði ekki farið illa á að segja: Helmingi færri trjáplöntur eru nú gróðursettar á ári .... Annað óþurftarorð kom við sögu í útvarpsfréttum af stórhríð og fannfergi vestra. Það var auðvitað snjóstormur. Erfitt að uppræta þetta.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1872

DÝR RÁÐHERRA

Á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu (22.01.2016) er fyrirsögn á frétt:  Ákvörðun ráðherra var dýr. Hæstiréttur Íslands hafði dæmt íslenska ríkið til að endurgreiða þremur fyrirtækjum oftekin gjöld upp á hálfan milljarð. Gjöldin voru vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum. Í öðrum miðlum hefur komið fram að langtum fleiri fyrirtæki kunni að eiga rétt á endurgreiðslum frá ríkinu af þessu sama tilefni. Kannski samtals einn og hálfan milljarð eða svo.

Það sem er athyglisvert við fréttina er að nafn hins dýra ráðherra kemur hvergi fram.

Er þetta ekki enn eitt dæmið um hvernig ríkisvaldið purkunarlaust notar staðnað og úrelt verndarkerfi landbúnaðarins til að beita neytendur ofbeldi. Hefur enginn stjórnmálaflokkur kjark til að breyta þessu?

 

VEÐURSKRIF

Vonandi eru blaðamenn ekki hættir að geta skrifað um veðurfar á sæmilegri íslensku? Frétt á mbl. is ( 22.01.2016) undir fyrirsögninni Lamandi stormur í vændum hófst svona: ,, Mik­ill storm­ur er á leiðinni upp að aust­ur­strönd Banda­ríkj­anna og er bú­ist við að hon­um fylgi mik­il snjó­koma meðal ann­ars í höfuðborg­inni Washington. Reiknað er með um 60 cm snjólagi inn­an fárra klukku­stunda eft­ir að storm­ur­inn skell­ur á í kvöld. Viðvör­un um storm­inn, sem sagður er hugs­an­lega hafa lam­andi áhrif á sam­göng­ur, var send út í dag á svæðum þar sem sam­tals yfir 50 millj­ón­ir manna búa.”

Á fréttavef BBC var sagt: ,,More than 50 million people have been warned of a "potentially paralysing storm" late on Friday that will bring 24in (60cm) of snow within hours.” Þar var líka talað um snowstorm og blizzard, - ekki bara storm eins og á mbl.is

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/22/lamandi_stormur_i_vaendum/

 

VANDI

Í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.01.2016) var sagt:  ,, Stoðkerfis- og geðrænir vandar hafa á sama tíma ...”. Við þetta er það að athuga að orðið vandi er eintöluorð. Það er ekki til í fleirtölu. Líklega gætir vaxandi tilhneigingar til að nota nafnorð í fleirtölu, sem eingöngu eru til í eintölu. Maður,sem rætt var við í morgunþætti Rásar tvö (25.01.2016) sagði,, ... því fleiri menntunir ....” Hann átti við, - því fleiri háskólagráður ...

 

KÖKUFORM TIL LEIGU

Í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (23.01.2016) var fjallað um þá nýjung í starfi bóksafnsins á Selfossi að leigja fólki kökuform. Fréttamaður sagði: ,, .... kökuformin sem fólk kemur til að leigja út”. Fólk kemur ekki á bókasafnið til að leigja út kökuform. Fólk kemur á bókasafnið til að nálgast kökuform, sem safnið leigir út.

 

HVERSVEGNA ÞAGÐI KSÍ?

Á baksíðu DV ( sem troðið er inn til manns, þrátt fyrir uppsögn á áskrift) er haft eftir formanni Knattspyrnusambands Íslands í fyrirsögn á baksíðu um alþjóðlega fótboltaspillingu: Spilling var á allra vitorði í tvo áratugi. Hversvegna þögðu Íslendingar? Hversvegna þagði KSÍ?

Es. Inni í þessu blaði er svokallað,,Kynningarblað”, sem er stútfullt af greinum sem sennilega er borgað er fyrir að birta. Sömu sögu er að segja um Fréttatímann. Það er ekki endilega auðvelt fyrir alla að greina milli ritstjórnarefnis og efni sem greitt er fyrir að birta. Þetta gildir reyndar um fleiri blöð. Miður heppileg þróun.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1871

EKKI TIL FYRIRMYNDAR

Sigurður Sigurðarson sendi eftirfarandi (20.01.2016): ,,Sæll,

Þessi pistill á einhverjum vef, sem nefnist Fréttanetið, er ekki til fyrirmyndar. Kíktu á.” http://frettanetid.is/enginn-tharf-a-mjolk-ad-halda/  

,, ...  15% barna frá Kákasus ríkjunum geta ekki melt sykrurnar (laktósann) í mjólkinni. “  Kákasusríkin???  Þarna hefur þýðandinn sennilega ekki skilið enska orðið caucasian -  hvítur , - af evrópskum uppruna. Rétt er það, Sigurður. Þakka ábendinguna.

 

HVATNING OG SKORTUR

Fyrirsögn af hringbraut.is (20.01.2016): Birgitta ati þingmenn auri og lygum. Það er ekki verið að hvetja Birgittu (Jónsdóttur) til að ata þingmenn auri og lygum eins og vænta mætti af lestri fyrirsagnarinnar. Þingbróðir Birgittu, Ásmundur Friðriksson, var að væna hana um að ata þingmenn auri og lygum. Því miður nokkuð alengt að sjá samskonar orðalag í fyrirsögnum.

Önnur undarleg fyrirsögn. Nú á vef Ríkisútvarpsins (20.01.2016): Á ekki að ríkja skortur hjá börnum á Íslandi. Þetta hljómar eins og spurning. Vantar bara spurningarmerkið.  http://www.ruv.is/frett/a-ekki-ad-rikja-skortur-hja-bornum-a-islandi

 Ætti fremur að vera: Ekki á að ríkja skortur hjá börnum á Íslandi. Hvar er yfirlesturinn?.

 

AFSKIPTI

Í þessari frétt á vef Ríkisútvarpsins (20.01.2016) er tvívegis talað um að skipta sér að einhverju, í stað þess að skipta sér af einhverju, hafa afskipti af einhverju, blanda sér í í eitthvað. Sjá: http://www.ruv.is/frett/eins-og-ad-fara-i-fotunum-i-sund

,, Nadja segir að eins og í sundlaugum Íslands þar sem fólk skiptir sér að þeim ferðamönnum sem þvo sér ekki fyrir sundið, þá væri varla hægt að fara í sundfötum í almenningssánu í Finnlandi án þess einhver skipti sér að því og í bréfinu segir:”

Enginn les yfir.   

 

 

 

STÖÐUGAR FRAMFARIR

Í morgunþætti Rásar tvö (22.01.2016) í Ríkisútvarpinu sagði einn umsjónarmanna, að dönsku konungshjónin hétu Jóakim og María. Þetta er allt í stöðugri framför. Stundum er betra að hugsa fyrst og tala svo. Eða bara vita.

 

HIÐ MARGRÓMAÐA

 Í fréttum Ríkisútvarps kl. 16 00 á fimmtudag (21.01.2016) var sagt meðal annars: ,, ... sem framleiðir hið margrómaða Gunnars majoens”. Nú fann Molaskrifari ekki orðið margrómaður í íslenskri orðabók , en sögnin að róma þýðir að lofa hrósa , að vera vel rómaður, er að vera nafnfrægur. Margrómaður þýðir þá líklega mjög hrósverður.   Fréttastofan á ekki að leggja dóm á framleiðsluvörur frekar en annað.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1870

 

AÐ KVÆNAST

Sigurður Oddgeirsson, gamall vinur og skólabróðir, skrifaði frá Danmörku:,, Af mbl.is í dag (20.01.2016)

Ensk­ur maður hef­ur leitað á náðir bresku rík­is­stjórn­ar­inn­ar eft­ir að hon­um væri tjáð að í dán­ar­vott­orði eig­in­manns hans myndi vera skráð að hann hefði aldrei kvænst.

Hér kemur fram vanþekking á móðurmálinu.

Hvernig í ósköpunum eiga hommar að geta kvænst.

Orðið að kvænast þýðir að leita sér kvonfangs eða með öðrum orðum að leita sér að eiginkonu.

Væri í setningunni sýnir vankunnáttu í notkun viðtengingarháttar. Þarna á að vera var tjáð.

Eða hvað?” Auðvitað. Réttar ábendingar. Væri - var reyndar leiðrétt síða á mbl.is. Þakka bréfið, Sigurður.

 

SMARTLAND BREGST EKKI

Af Smartlandi Mörtu Maríu á mbl.is (1901.2016):,, Helsta skýr­ing­in á leynd sam­bands­ins var vegna þess að Ólafi föður Har­ald­ur leist ekki á ráðahag­inn og fannst Sonja ekki sam­boðin syni sín­um. “. Föður Haraldar leist ekki á ráðahaginn. Skýringin á leynd sambandsins var ... , - skýringin var ekki vegna þess að ... skýringin var sú, að ...

 

ÞJÓÐ Í SÁRUM

,,Íslenska þjóðin er í sárum”, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsinsí níu fréttum að morgni miðvikudags (20.01.2016). Hann átti við að margir væru ósáttir eftir tap í boltaleik gegn Króötum kvöldið áður. Þetta er kannski ágætt dæmi um það hvernig tekist hefur með allgóðum árangri að boltaæra talsverðan hluta þjóðarinnar. Sú spurning vaknar hinsvegar hvað fréttamaðurinn hefði sagt, ef alvarlegir atburðir hefðu gerst. Verðbólga orðanna er vond eins og önnur verðbólga.

 

Í HEIMSÓKNARSKYNI

Úr frétt í Morgunblaðinu (20.01.2016):,, En ef ég byggi upp nýtt líf hér,, aðlagast samfélaginu og börnin hafa næg tækifæri, sé ég ekki ástæðu til þess að flytja aftur heim til Sýrlands að loknu stríðinu, nema í heimsóknarskyni”. Að flytja heim í heimsóknarskyni! – Ögn skárra hefði til dæmis verið: ... fara aftur heim til Sýrlands, nema þá í heimsókn.

 

VINSAMLEG TILMÆLI

 Það eru vinsamleg tilmæli til Ríkisútvarpsins, að látið verði af þeim leiða sið að garga á okkur í svokölluðum leiknum auglýsingum, sem jafnan eru fluttar rétt á undan aðalfréttatímum Ríkisútvarpsins. Hljóðstyrkur í útsendingu er greinilega aukinn, þegar kemur að garginu. Maður hrekkur í kút. Á sér einskis ills von. Ljótur siður og leiður. En hér sennilega til of mikils mælst.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1869

 

KJÓSA – GREIÐA ATKVÆÐI

Nokkrum sinnum hefur verið vikið að því í Molum hvernig í vaxandi mæli því er ruglað saman því að greiða atkvæði og að kjósa. Í frétt í Morgunblaðinu (18.01.2016) er vitnað í ritara Sjálfstæðisflokksins: ,, Sagði hún málið í dag vera út­rætt og að best væri ef Alþingi myndi taka fyr­ir áfeng­is­frum­varpið og kjósa um það.” Á Alþingi er ekki kosið um lagafrumvörp. Þar eru greidd atkvæði um laga frumvörp en kosið í ráð og nefndir.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/18/ekki_spurning_um_frelsi_eda_rikisrekstur/

 

NESKAUPSTAÐUR

Jóhannes benti (19.01.2016) á frétt á mbl.is: Hann segir: Fyrsta frétt á mbl.is:http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/19/laekkar_tekjur_120_manns_a_neskaupsstad/

Ótrúlegt að Kaupstaðurinn á Nesinu skuli alltaf vera skrifaður með tveimur essum.” Þakka Jóhannesi ábendinguna. Neskaupstaður á þetta að vera. Þar að auki má nefna að snemma í blaðamennskunni var Molaskrifara kennt að segja í Neskaupstað, ekki á Neskaupstað. Maður fer í kaupstað, ekki á kaupstað.

 

ÞEIR SKULLU UPP ÚR!

 Af visir.is (19.01.2016): ,, Umsjónarmenn Bítisins á Bylgjunni áttu í vandræðum með að hemja hláturinn í morgun þegar þeir voru að skoða uppskrift stjörnukokksins og skaphundsins Gordon Ramsey að ommelettu.
Þeir Heimir Karls og Gulli Helga skullu ítrekað upp úr þegar þeir renndu yfir aðferðina. “ Það var og. Upp úr hverju skullu þeir? Skelltu þeir ekki upp úr? Fóru að hlæja?

http://www.visir.is/i-hlaturskasti-vegna-ommelettuuppskriftar-gordon-ramsey/article/2015150119333

 

 

,,RÚV OKKAR ALLRA”, - EÐA HVAÐ ?

Það dynur á okkur í auglýsingum, að Ríkisútvarpið sé okkar allra. ,,RÚV okkar allra”, segja þeir.

Í gærkvöldi (19.01.2016) hófst íþróttaútsending klukkan rúmlega fimm með boltaleik þar sem Ísland kom ekkert við sögu. Þar áttust við Noregur og Hvítarússland. Ríkissjónvarpið sýndi allan leikinn í beinni útsendingu. Norska ríkissjónvarpið, NRK1, NRK2,NRK3 sá enga ástæðu til að sýna þennan leik. Enda stjórna íþróttadeildirnar þeim ríkisreknu sjónvarpsstöðvum ekki. Eftir boltafjas tók við niðurskorinn fréttatími með enn niðurskornari veðurfréttum ( Við verðum víst að hleypa fréttunum að, sagði umsjónarmaður svokallaðri EM-stofu efnislega). Klukkan 19 20 hófst boltaleikur að nýju. Nú kom Ísland við sögu. Gott og vel En hversvegna í ósköpunum fékk ekki dagskráin að halda sér fram þeim leik? Þessu lauk svo undir hálftíu með harmagráti.

Nú er fyrirsjáanlegt langt inn í framtíðina, að Ríkissjónvarpið verður undirlagt af boltaleikjum og evróvisjónpoppi í öllum mögulegum og ómögulegum myndum. Já, þetta er örugglega ,,RÚV okkar allra” eins og þeir segja í auglýsingunni eða hvað? Það er búið að hálfæra þjóðina. Boltaleikir og popptónlist með verksmiðjukeim eru í öndvegi í þessu ,,sjónvarpi allra landsmanna”. Stjórnendur Ríkisútvarpsins bera ábyrgð á því.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1868

UM HÁLSBINDI

Það var ekki mikið að gerast í þjóðlífinu á mánudagsmorgni (16.01.2016) þegar löng umræða fór fram í morgunþætti Rásar tvö um hálsbindi, sem maður hafi sést með í sjónvarpi daginn áður. Svokallaður sérfræðingur var kallaður til. Málið rætt í þaula. Kannski fannst einhverjum þetta skemmtileg umræða. Seinna kom í ljós að bindið hafði verið sótt vestur  til Ameríku og kostað tvö eða þrjú þúsund dollara. Kannski var þetta allt grín.

Maðurinn með hálsbindið náði tilgangi sínum. Vakti athygli á sér og hálstauinu.

 

ENGINN YFIRLESTUR?

 Af dv.is (18.01.2016): ,,Hópuppsagnir blasa við ef skólastjórinn snýr aftur - Segja að engin laus sé í sjónmáli vegna ágreinings - Bekkjafulltrúaráð lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni”. Engin lausn í sjónmáli hefði þetta auðvitað átt að vera.

Og, - í sama miðli sama dag: ,, Tveir sextán ára unglingar léstur í snjóflóðinu auk skíðamanns sem var nærri.” Létust í snjóflóðinu átti þetta að vera.

Ekki mikill metnaður til að vanda sig, - gera vel.

 

AÐ FARAST ÚR HUNGURSNEYÐ

Rósa S. Jónsdóttir skrifaði Molum (18.01.2016). Hún vísar í frétt á mbl.is þann sama dag og segir: ,,Að farast úr hungursneyð er ekki alveg í samræmi við mína málvitund.”. Þetta er heldur ekki í samræmi við málkennd Molaskrifara. Þakka ábendinguna.

Í fréttinni segir: ,, Fimm manns hafa far­ist úr hung­urs­neyð und­an­farna viku í bæn­um Madaya í Sýr­landi þrátt fyr­ir að tvær neyðarsend­ing­ar með mat hafi komið með bíla­lest­um til bæj­ar­ins”. Fólkið dó úr hungri – svalt í hel.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/18/fimm_forust_ur_hungursneyd/

 

CARLSBERG Í KASTLJÓSI

Löng bjórauglýsing, Carlsberg, var í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (18.01.2016). Hvaða erindi átti þetta einstaklega lítið merkilega viðtal við þrjá karla í þátt, sem kallaður er ,,beittur fréttaskýringaþáttur”? Erfitt að sjá það. Skrifari sá það ekki.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1867

STYR Í STRAUMSVÍK

Þegar styr stendur  um eitthvað, þá er deilt um eitthvað. Í Spegli Ríkisútvarpsins (15.01.2016) sagði fréttamaður í umfjöllun um vinnudeildur í Straumsvík: ,,Styrinn snýst um kröfu álversins að fyrirtækið verði heimilt að láta verktaka vinna tiltekin störf í álverinu ...” Hér hefði fremur átt að segja: ,,Styrinn stendur um kröfu álversins að fyrirtækinu verði heimilt að láta verktaka vinna tiltekin störf ...” . Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar.

 

VIÐ SAMA HEYGARÐS ....

Molaskrifari heldur sig við sama heygarðshornið. Hann skilur ekki hversvegna þurfti að seinka fréttum í Ríkissjónvarpinu um ellefu mínútur á laugardagskvöld vegna þess að Spánverjar og Þjóðverjar voru að leika handknattleik. Hversvegna var þessi boltaleikur ekki sýnt á íþróttarásinni? Til hvers er hún?

Það var ekki einu sinni hægt að afsaka þetta með því að íslenska landsliðið, eða íslenskt lið, væri að leika.

 Skotið var upp skjáborða þar sem sagði: Fréttir hefjast að leik loknum. Það var ekki rétt. Að leik loknum hófust auglýsingar. Síðan hófust fréttir. Þarf útvarpsstjóra? Þarf dagskrárstjóra? Getur íþróttadeildin ekki bara séð um þetta? Hún ræður dagskránni hvort sem er.

 

BRENNIVÍN Í BÓNUS

Úr skrifum á visir.is (17.01.2016) um samræður Kára Stefánssonar og flutningsmanns brennivíns- í-Bónus-frumvarpsins: ,,Sagði hann það ekki vera reynsluna á Íslandi þar sem einkaaðilinn hefði síðastliðin ár fjölgað vínveitingaleyfum um 700 prósent síðastliðin ár en engu að síður væri neyslan minni en árið 2007.
„Og þeir sömu sem eru að berjast gegn frumvarpinu hafa ekki komið með sömu staðreyndir til að nota gegn frumvarpinu til að sýna að einkaaðilinn hefur fjölgað vínveitingaleyfum um 700 prósent. ...”

Molaskrifari verður að játa að hann nær þessu ekki alveg.  

http://www.visir.is/atok-a-sprengisandi-kari-stefansson-sagdi-kollega-vilhjalms-hafa-haldid-thvi-fram-ad-hagar-hefdu-samid-afengisfrumvarpid/article/2016160119036

 

 

LENGRI AUGNABLIK

Molaskrifari veit með vissu að mjög margir, ekki síst eldri borgarar, sem muna árdaga sjónvarps á Íslandi hafa gaman af þáttunum, sem sýndir eru á föstudagskvöldum í tilefni hálfrar aldar afmælis Sjónvarpsins. Augnablik – úr 50 ára sögu Sjónvarps, heita þeir.

Þessir þættir mættu alveg að skaðlausu vera helmingi lengri. Þeir eru vel gerðir og skemmtilega fram settir.  Gamlir skemmtiþættir , - og auglýsingar - standa vel fyrir sínu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1866

SÓLA – SÓLNA

Molaskrifari hnaut um þessa fyrirsögn á mbl.is (13.01.2016):

Vegur á við 500 biljónir sóla. Í fréttinni segir síðan: ,,Gríðarlega massa­mik­il vetr­ar­brautaþyrp­ing í um tíu millj­arða ljós­ára fjar­lægð frá jörðinni veg­ur um það bil eins mikið og 500 bilj­ón­ir (millj­ón millj­ón­ir) sóla.

Samkvæmt því sem segir á vef Árnastofnanir getur ef. flt. af orðinu sól verið bæði sóla og sólna. Beygingardæmunum fylgja einnig athyglisverðar skýringar. Sjá:

http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=s%C3%B3l#

Stafsetningarorðabókin, íslensk orðabók og Málfarsbankinn eru hinsvegar á því á skrifa eigi billjón, milljón milljónir, ekki biljón.

 

SÓLARHRINGURINN

Sólarhringurinn lengist óðum í frostviðrinu , segir í fyrirsögn með fallegri mynd á forsíðu Morgunblaðsins á fimmtudag (14.01.2016). Er sólarhringurinn að lengjast? Það hlýtur að vera, því ekki lýgur Moggi, eins og stundum var sagt í gamla daga, þegar kommarnir töluðu um Moggalygi í umfjöllun Moggans um kommúnistaríkin. Moggalygin reyndist svo eftir á að hyggja nakinn og óþægilegur sannleikur.

Hér er greinilega ruglað saman sólarhring og sólargangi.

 

ÞÖRF Á STERKARI STRENG

Glöggur lesandi benti á eftirfarandi í frétt um ótengdan veðurmæli. Fréttin birtist á fréttavef Ríkisútvarpsins (13.01.2016). Þar segir: „Fjallshlíðin er að síga niður og strengurinn er ekki nógu sterkur til að halda henni uppi.....”

Hvernig skyldi sá sem þetta skrifaði hafa séð þennan streng fyrir sér?

http://www.ruv.is/frett/mikilvaegur-vedurmaelir-otengdur-i-17-daga

Yfirlestur hefði þarna komið að góðu gagni.

 

ÁRÁS

Í Spegli Ríkisútvarpsins (13.01.2016) var ítrekað talað um að fremja árás. Molaskrifari viðurkennir að þetta orðalag er honum framandi. Hann hefur vanist því að talað sé um að gera árás.

 

 

BRESTIR HJÁ DV.IS

Af dv.is (14.01.2016):,,Hafa hlotið heilsubresti.” Í fréttinni er fjallað um fólk sem líður og hefur beðið tjón á heilsu sinni vegna linnulausra kannabisreykinga nágranna. Furðulegt að nokkrum blaðamanni skuli til hugar koma að orðið heilsubrestur sé til í fleirtölu! Kannski ætti að efna til kennslu í íslenskri málfræði á ritstjórn dv.is?

 

GARÐUR – GARÐURINN

Sveitarfélagið Garður er blómleg byggð á Rosmhvalanesi, - stundum ranglega sagt á Reykjanesi. Þar hefur staðið yfir að undanförnu alþjóðleg listahátíð, Ferskir vindar. Þar var gaman að koma um síðustu helgi og skoða margvísleg verk, þar sem sitt af hverju úr náttúrunni er hugvitsamlega , skemmtilega nýtt. Lofsvert framtak. Lýkur  núna um helgina. Vel þess virði að skreppa í Garðinn.

 Í fjölmiðlum , m.a. í Kastljósi, hefur verið sagt frá þessari listahátíð og er þá oftar en ekki sagði að hún sé í Garði. Molaskrifari hefur vanist því frá barnæsku að talað sé um Garðinn, - með ákveðnum greini. Spurður um ættir svarar Molaskrifari jafnan að hann sé úr Garðinum og austan úr Rangárvallasýslu úr Holtunum og úr Landsveitinni (af Landinu), einnig með ákveðnum greini.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1865

 

AÐGENGI

 Í Morgunblaðinu (12.01.2016) var frétt um að í höfuðborginni væri ekkert almenningssalerni með aðstöðu fyrir hreyfihamlaða, sem opið væri allan sólarhringinn. Í fréttinni er haft eftir upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg: ,,Bjarni segir að þörf sé á pólitískri ákvarðanatöku (svo!) um það hvort salernum með aðgengi fyrir hreyfihamlaða verði komið upp í borginni”. Molaskrifari hélt í einfeldni sinni að hér væri um svo sjálfsagt jafnréttismál að ræða, að ekki þyrfti sérstaka pólitíska ákvörðun í málinu. ,,.. þörf á pólitískri ákvarðanatöku” er  dæmi um stofnanamál.

 

BRODDAR

Oft er ágætisefni að finna á sjónvarpsstöðvunum N4 og Hringbraut. Á dögunum horfði skrifari á fróðlegan þátt á sjónvarpsstöðinni  N4 þar sem fjallað var um mannbrodda, - bráðnauðsynleg öryggistæki eins og göngufærið hefur víða verið að undanförnu.

Í þættinum var rætt við skósmið á Akureyri, unga konu, Hólmfríði Maríu Högnadóttur. Hún ræddi af þekkingu og reynslu um ýmsar gerðir mannbrodda, en það sem vakti mesta athygli Molaskrifara var falleg framsögn og vandað málfar þessarar ungu konu, sem rætt var við. Oft er það svo að maður tekur sérstaklega eftir að viðmælendur eru miklu betur máli farnir en spyrlarnir, - ekkert var þó út á spyril að setja í þessu tilviki. Þessi þáttur var hins vegar prýðilegt dæmi um það hvernig  gera má gott, og fróðlegt sjónvarpsefni án þess að kosta miklu til.

 

ENN OG AFTUR ...

Af dv.is (12.01.2016): ,,Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamaður á Morgunblaðinu, þykir lítið koma til sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærð ef marka má viðhorfspistil sem birtur er í blaðinu í dag”. Hér ætti að standa: Benedikt Bóasi Hinrikssyni , blaðamanni á Morgunblaðinu, þykir lítið koma til ...  Almenn vanþekking á meginreglum íslenskrar tungu virðist nokkuð útbreidd á ritstjórn þessa fjölmiðils. http://www.dv.is/menning/2016/1/12/bladamadur-morgunbladsins-oanaegdur-med-ofaerd-handritshofundar-med-allt-nidur-um-sig/

 

 

FORRÆÐI

Nafnorðið forræði er eingöngu til í eintölu. Þessvegna er þetta rangt sem lesa má á dv.is (12.01.2016): ,,Þá bætir hún við að lögreglan hér á landi hafi engin forræði yfir málinu.  Hér hefði mátt segja til dæmis , - hefði ekki forræði yfir málinu, - réði engu um framgang málsins. – Í sömu frétt er haft eftir lögreglumanni, -,, við höfum engar bjargir . Átt er við að lögreglan sé ráðþrota, geti ekki leyst málið eða þokað því áfram. http://www.dv.is/frettir/2016/1/12/mannshvarf-islendings-i-paragvae-fadir-gudmundar-heyrdi-i-honum-skype/

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband