10.2.2016 | 08:35
Molar um málfar og miðla 1884
MÖR
Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (09.02.2016): ,,Sæll, Eiður,
Þú afsakar, en ég skellti upp úr þegar ég las þetta í frétt á mbl.is. Fréttin er að vísu sorgleg en það kemur málinu ekki við. Ef menn eru ekki klárir á eintöluorðum, þá er um að gera að giska ekki, heldur skrifa sig framhjá. Í þessu tilviki hefði barnið getað skrifað marbletti í stað mör. Mör þýðir raunar allt annað, innanfita í sláturfénaði. En getur mör marist?
Fólkið var í fjallgöngu ásamt fleirum. Konan slasaðist nokkuð og er hún meðal annars með brotna hryggjarliði, brákað rifbein, skurð og mör. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/09/madurinn_ur_ondunarvel/ Þakka bréfið Sigurður. Þetta er hreint með ólíkindum.
ÚR GAGNSTÆÐRI ÁTT
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (09.02.2016) var sagt frá járnbrautarslysi í Þýskalandi. Fréttamaður sagði: Lestirnir voru á sama spori og komu úr gagnstæðri átt. Molaskrifari er ekki sáttur við orðalagið að lestirnar hafi komið úr gagnstæðri átt. Lestirnar voru á sama spori, sömu teinum, og komu hvor á móti annarri. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/hadegisfrettir/20160209 (01:52) Þetta var mun betur orðað á vef Ríkisútvarpsins , en þar sagði: ,, Lestirnar voru á sama spori milli Münchenar og Rosenheim. Þær komu hvor úr sinni áttinni nærri heilsulindabænum....
Og eins og svo oft þá étur hver upp eftir öðrum. Í fréttum Stöðvar tvö (09.02.2016) var sagt: ,,Lestirnar komu úr gagnstæðri átt!
FRÉTTAMAT
Um mat má alltaf deila , ekki síst fréttamat. Á laugardagskvöld (06.02.2016) var fyrsta frétt í tíu fréttum Ríkisútvarps um hvaða þrjú popplög hefðu orðið notið mestra vinsælda á kvöldskemmtun, sem Ríkissjónvarpið efndi til í Háskólabíói sama kvöld. Skemmtun var í beinni sjónvarpsútsendingu lungann úr kvöldinu. Rangt fréttamat, að dómi Molaskrifara. Kom svo sem ekki óvart, nú þegar poppið hefur heltekið Ríkisútvarpið ohf.
AÐ IMPRA Á
Á vef Ríkisútvarpsins (07.02.216) var viðtal við forstjóra Strætó um vagnstjóra, sem orðið hafði uppvís að því að nota farsíma sinn linnulaust undir stýri dágóða stund. Forstjóranum fannst þetta miður og hann kvaðst vera svekktur yfir þessu. Síðan spurði fréttamaður: ,,Munið þið impra á þessu enn frekar eftir þetta? Greinilega hefur fréttamaður ekki verið með merkingu sagnarinnar að impra á einhverju, alveg á hreinu. Sögnin merkir skv. orðabókinni að minnast á , nefna (lauslega). Sjá : http://www.ruv.is/frett/storhaettuleg-og-ofyrirgefanleg-hegdun Vagnstjórinn fékk áminningu.
ÞÁGUFALLIÐ
,,Vantar fyrirtækinu þínu nýtt húsnæði?. Svona er spurt í auglýsingu frá Fasteignasölu Reykjavíkur í Fréttablaðinu (08.02.2016). Vantar fyrirtækið þitt nýtt húsnæðið?
ENN UM ENSKUNA
Í tíu fréttum Ríkisútvarps (08.02.2016) var fjallað um ályktun, eða umsögn, Félags lögreglustjóra um fyrirhugaða lagabreytingu. Þar komu fyrir orðin eltihrellir og umsáturseinelti. Molaskrifara finnst orðið umsáturseinelti vera gott nýyrði, gegnsætt og skiljanlegt. Samt var í fréttinni talið nauðsynlegt að vitna í ensku og nefna enska orðið stalking til að skýra þetta út fyrir hlustendum. Endurtekið í hádegisfréttum. ,, Bæði Lögreglustjórafélag Íslands og lögreglustjórinn á Suðurnesjum telja mikilvægt að sett verði sérstakt ákvæði um umsáturseinelti - stalking eins og það heitir ensku.
http://www.ruv.is/frett/logreglustjorar-vilja-setja-log-um-eltihrella
Í Morgunblaðinu (09.02.2016) á blaðsíðu 20 er svohljóðandi fyrirsögn: Hvað breytist með mindfulness-iðkun? Enskt orð er hér tekið athugasemdalaust, ekki innan gæsalappa, í fyrirsögn og gert ráð fyrir að lesendur skilji. Í greininni er orðið mindfulness þýtt sem gjörhygli, eða núvitund. Það er líka notað um umhyggju. Í greininni er talað um þjálfun í mindfulness. Verið er að reyna að gera þetta enska orð að íslensku orði. Það er ekki til fyrirmyndar. Hér mun um að ræða einhverja nýtísku grein af Búddisma.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2016 | 08:43
Molar um málfar og miðla 1883
TEXTI ,LJÓÐ OG ERLEND ORÐSKRÍPI
VH skrifaði (04.02.2106): ,,Sæll Eiður.
Því miður sendi ég þér þennan póst. Því herferð fjölmiðla er á góðri leið með að skemma málið okkar. Eitt af lögum er þátt taka í Söngvakeppninni heitir Kreisí .. en verður ekki neitt íslenskara þó enskt orð sé stafsett uppá íslensku, og er þetta orðið mjög algengt í dag að stafsetja ensk orð á íslensku og halda að það sé í lagi.
Í kilju Egils er oft talað um lag og texta og eru þeir textar oft 50 - 100 ára gömul virðuleg ljóð sem eru þá ljóð, sem samin hafa verið við lög. Það sæmir ekki lagahöfundum og Agli að láta ljóð verða allt í einu að texta. Þannig að rétt væri að rita Ljóð og lag .. einfalt mál það.
Tjarnarleikhúsið frumsýnir í vikunni íslenskt leikrit er kallast Old Bessastaðir .. ég bara spyr var orðið ,,Gömlu,,Bessastaðir upptekið í öðru leikhúsi .. þannig að ekki væri hægt að nota það. Í Tjarnarleikhúsinu. - Kærar þakkir fyrir þessar ábendingar. Gömlu Bessastaðir hefur sennilega bara þótt hallærislegt, gamaldags og púkalegt.
ENN UM SLETTUR
Í framhaldi af ofangeindu mætti spyrja: Er ekki brýnt fyrir þáttastjórnendum í útvarpi og sjónvarpi að vanda mál sitt. Í þætti Gísla Marteins fyrir helgina (05.02.2016) Mátti meðal annars heyra: ,,Aðeins kannski bara smáöppdeit (e. update) á þig Steinunn Ólína, Los Angeles var auðvitað ellei upp á ensku, og talað var um að minnast þessa móts ekki sem feiljúr (e. failure).
Og svo var talað um ,,týnda Bandaríkjamanninn Týnda? Maðurinn villtist norður á Siglufjörð, en ætlaði á hótel við Laugaveginn í Reykjavík .Villa í pöntunarstaðfestingu beindi honum á Laugarveg á Siglufirði ekki Laugaveginn í Reykjavík. Hann týndist ekki. Hann villtist. En á ensku hefði mátt segja: He got lost.
Í morgunþætti Ríkisútvarps (08.02.2016) var rætt við sérfræðing um opin vinnurými. Oftar en tölu varð á komið talaði konan um headphones, einu sinni (heyrðist skrifara) var talað um hard core headphones, - hvað svo sem það nú er. Einu sinni var notað hið ágæta orð heyrnartól, Þetta er ekki heillavænleg þróun.
GAMALT PLAST
Úr matarpistli í Stundinni (04.02.-17.02.2106): ,,Souse vide eldunaraðferðin hefur verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum en aðferðin er meira en 200 ára gömul og hefur lengi verið notuð á veitingastöðum. Hún byggist á því að pakka hráefnum í matarplast og hægelda ... Hvernig plast skyldi hafa verið notað fyrir 200 árum? Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt!
UM FYRRI MOLA
Rafn skrifaði (04.02.2016) Í molum nr. 1880 segir svo:FÓLK OG FJÖLGUN
Af mbl.is (01.02.2016) : ,, Fólk sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfall af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu. Enn einu sinni. Þetta hefði átt að orða á annan veg: Fólki sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfalli af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu. Enginn, eða óvandaður yfirlestur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/01/fleiri_kaupa_sina_fyrstu_eign/
Hér að ofan virðist molahöfundur aðeins líta til fallbeygingar en ekki eðlis máls. Fólk getur aldrei orðið hlutfall af samningum. Hér hefði annað tveggja mátt segja: Fólki sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefir frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfalli af öllum kaupendum íbúða á höfuðborgarsvæðinu ellegar: Kaupsamningum fólks sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefir frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfalli af öllum kaupsamningum gerðum á höfuðborgarsvæðinu.
Molaskrifari þakkar bréfið.
VEÐRIÐ DATT
,, Veður er að detta niður sagði fréttamaður Ríkisútvarps í fréttum klukkan ellefu ( 05.02.2016). Ja, hérna. Veðrið var að skána, vind var að lægja.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2016 | 10:02
Molar um málfar og miðla 1882
OG HÉRNA HÉDDNA
Í mánaðarlegu MR´59 kaffi skólasystkina í liðinni viku nefndi ágæt skólasystir, sem er umhugað um móðurmálið, að Molaskrifari ætti að nefna sívaxandi og bráðsmitandi notkun hikorðsins hérna, og hérna, (frb. héddna). Skrifari tók því vel, enda nefnt þetta nokkrum sinnum í þessum pistlum. Daginn eftir (04.02.2016) var svo ljómandi góð grein í Morgunblaðinu , bls. 19, um þetta efni eftir Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fv. ráðherra. Hjörleifur fjallar um æðibunugang í framsögn, hraðan talanda , - og svo hikorð eins og og hérna. Hjörleifur segir: ,, Lengi vel skreytti ,,sko í tíma og ótíma mál manna, en nú hefur það vikið fyrir innskotinu ,, og hérna sem, margur hreytir út úr sér í annarri hverri setningu og hérna - ...og hérna ... og hérna. Þessi kækur virðist vera bráðsmitandi svo mjög hefur hann sótt í sig veðrið upp á síðkastið og virðast lærðir jafnvel næmari fyrir smiti en alþýða manna. Þetta stagl truflar fólk eflaust misjafnlega mikið, en ýmsir sem ég hef rætt við telja það óheillaþróun.
Molaskrifari tekur undir með Hjörleifi. Þetta er óheillaþróun og fyrirbærið er ótrúlega smitandi. Öðru hikorði, - beint úr ensku mætti bæta við. Það er orðið ,,skilurðu, sem sumir eiga til að skjóta inn í setningar í tíma og ótíma að tilefnislausu.- Ekki væri úr vegi að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins færi yfir þessi mál með fréttamönnum og þáttastjórnendum. Það væri góð byrjun.
ÓSKILJANLEGT
Reyndur maður í fréttaskrifum sendi Molaskrifara eftirfarandi:
,,Eftirfarandi frétt frá í gær, föstudag(05.02.2016), er á vef RÚV og er athyglisverð, fyrir að vera óskiljanleg. Hvar er Reykjanes, Látrar, Hrafnbjörg, Ögur? Er þetta Reykjanes hér suður með sjó eru Látrarnir í Djúpi eða vestur við Látrabjarg og eru nefnd Hrafnabjörg austur á landi, þar sem er heimavöllur forsætisráðherrans. Til viðbótar þá eru orð í fréttinni sem almenningur þekkir tæpast til. Kjarni þessa rúmast tveggja línu frétt: Rafmagnslaust er á nokkrum bæjum í Ísafjarðardjúpi og á Rauðasandi. Unnið er að viðgerð.
Hér er fréttin óskiljanlega:
,, Rafmagn var komið á að Látrum í kvöld með dísilvél í Reykjanesi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Orkubús Vestfjarða. Unnið er að því að taka út teinrofa á Hrafnabjörgum og verður reynt að setja rafmagn á þangað frá Látrum.
Spennusetning þaðan að Ögri var reynd rétt fyrir klukkan tíu í kvöld án árangurs. Unnið er að viðgerð á vírsliti við Skarð í Skötufirði, segir í tilkynningunni. Þegar því er lokið verður hafin leit að fleiri bilunum. Enn er rafmagnslaust á Rauðasandi en aðrir notendur á suðursvæði ættu að vera með rafmagn. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
AÐ SIGRA KEPPNINA
Í upphafi svokallaðra Hraðfrétta Ríkissjónvarps (06.02.2016) á laugardagskvöld ( sem allar voru um Evróvisjón) var sagt við okkur: ,, Svíar hafa sigrað keppnina oftast allra. Það sigrar enginn keppni. Þeir sem eru sæmilega að sér um móðurmálið vita þetta.- En var það sem skrifara sýndist: Sendi hið síblanka Ríkissjónvarp tvo menn til Svíþjóðar í erindum Hraðfrétta? Molaskrifari hlýtur að hafa misskilið þetta. En hafi svo verið, er ekkert sem réttlætir slíkan fjáraustur.
AÐ KJÓSA AÐ GREIÐA ATKVÆÐI
Endalaust er því ruglað saman að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum. Í átta fréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudagsmorgni (04.02.2016) var talað um að kjósa um samning á Bandaríkjaþingi. Átt var við atkvæðagreiðslu um samning. Ekki kosningar um samning. Það er út í hött.
DELLUFYRIRSÖGN
Hér er dellufyrirsögn á dellufrétt á visir.is (04.02.2016): Fagnaði upp á starfslok með glæstum dansi. http://www.visir.is/fagnadi-upp-a-starfslok-med-glaestum-dansi/article/2016160209416
Þetta mun hafa verið lagfært síðar. Einhver fullorðinn komist í málið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2016 | 08:35
Molar um málfar og miðla 1881
KEYRENDUR
Trausti skrifaði (03.02.2016): ,, Könnunin þykir hafa verið konum hagstæð. Þær voru yfirleitt sagðar hegða sér bílstjóra best á þjóðvegum landsins. Aðeins 6% töldu þær hættulegustu keyrendurna.
Trausti spyr: ,,Hvort ætli keyrendur séu staðfuglar eða farfuglar? Þurfa ekki fréttabörnin að fara að læra eitthvað?
Ég taldi mig hafa mætt tveimur gangandi mönnum í morgun, en við nánari umhugsun læðist að mér grunur um að það hafi reyndar verið gangendur. Það kváðu vera liggjendur á langlegudeild Landspítala. Það hljóta nú að vera staðfuglar. Ferðendur eru aftur á móti áreiðanlega farfuglar, sem hingað koma sem túristar, aðallega yfir sumartímann, en þó fréttist af einum, nýverið, sem hafði ætlað sér á Laugaveg í Reykjavík, en lenti á Laugarvegi á Siglufirði. Greinilega flækingsfugl! Þakka bréfið, Trausti. http://www.mbl.is/bill/frettir/2016/02/03/karlar_a_hvitum_sendibilum/
HLUSTIR
Rafn skrifaði (03.02.2016): ,,Sæll Eiður
Hér er til fróðleiks pistill af vef Ríkisútvarpsins, þar sem hvatt er til, að lagt sé við hlustir. Ekki kemur þó fram hvað skuli lagt við hlustirnar. Hér segir mín málkennd, að hvetja hefði átt til að lagðar væru við hlustir. Kveðja Rafn
- Ég hefi ekki lagt mínar hlustir að því sem um ræðir, en þetta var úr þætti á vegum Andra Freys!
Orðalagið sem Rafn vísar til:,, Andri Freyr hvatti konuna til að láta textann flakka sem hún og gerði. Mælt er því með að lagt sé við hlustir. Þakka bréfið, Rafn. http://www.ruv.is/thaettir/virkir-morgnar
AFBÖKUÐ ORÐATILTÆKI
Undir sjónvarpsfréttum (02.02.2016) gjóaði skrifari augum á pistil á vef Ríkisútvarpsins um afbökuð orðatiltæki. http://www.ruv.is/frett/their-roast-sem-fiska Þetta var efnislega umfjöllum málfarsráðunautar í morgunþætti Rásar tvö þennan sama dag. Ágætur pistill. En undir lestrinum sagði fréttamaður í sjónvarpsfréttum um kvikmyndagerð á Austfjörðum: ,, Náttúruöflin virðast leggja á árarnar með framleiðslunni í ár ... Nokkuð skorti á að fréttamaður færi rétt með orðtakið að leggjast á árar, árina , með einhverjum. Létta undir með einhverjum, hlaupa undir bakka með einhverjum, aðstoða einhvern.
BANNI AFLYFT
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (02.02.2016): ,, Nokkrir skólar í Frakkland hafa aflyft reykingabanni á skólalóðum eftir hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember. Hér er væntanlega átt við að banni hafi verið aflétt, - reykingar hafi verið leyufðar. Sjá: http://www.ruv.is/frett/leyfa-reykingar-a-skolalod-vegna-hrydjuverka
Enginn yfirlestur frekar en fyrri daginn.
Í OG Á
Í frétt í Ríkissjónvarpi (03.02.2016) Um skíðasvæðið í Hlíðarfjalli var sagt að ,,rekstur skíðasvæðisins hefði verið í tapi undan farin ár. Eðlilegra hefði verið að segja til dæmis, að tap hefði verið á rekstri skíðasvæðisins undan farin ár, skíðasvæðið hefði verið rekið með tapi. Þá var í fréttum sagt frá umferðarslysi sem orðið hefði skammt frá Hnappavöllum á Öræfum. Það er föst málvenja, að Molaskrifari best veit, þegar talað er um sveitina Öræfi að segja í Öræfum. Hinsvegar sagt inni á öræfum þegar talað er um miðhálendið, óbyggðir.
HELLISHEIÐI LOKAR
Hellisheiði lokar væntanlega upp úr hádegi, sagði í fyrirsögn á forsíðu mbl.is (04.02.2016). Ekki var skýrt nánar frá því hverju Hellisheiðin ætlaði að loka, en átt var við að veginum yfir Hellisheiði yrði væntanlega lokað eftir hádegið. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/04/hellisheidi_lokar_vaentanlega_upp_ur_hadegi/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2016 | 08:01
Molar um málfar og miðla 1880
BLÓM OG BLÓMI
Molalesandi skrifaði (02.02.2016): ,, Oft er hann broslegur, þekkingarbresturinn. Á vísi.is (http://www.visir.is/noel-eins-og-blom-i-eggi-a-siglufirdi/article/2016160209767) er sagt frá ævintýri ferðalangsins Noel, sem villtist til Siglufjarðar í leit að hóteli við Laugaveginn. Fréttin er undir fyrirsögninni: "Noel eins og blóm í eggi á Siglufirði". Akkúrat. Skyldi blaðamaður oft hafa orðið var við blóm í eggjum sínum. Og þá hvernig blóm? Rósir - eða kannske fífla? Það ætti sennilega best við hér. Í eggjum eru eggjablómar en ekki blóm. Blómarnir í eggjunum er líka oft nefndir eggjarauða. Þeim má ekki rugla saman við fífla - og enn síður við fífl. Fífl og fíflar er nefnilega tvennt ólíkt. Alveg eins og blóm og blómi. - Þakka bréfið. Orðabókin nefnir reyndar einnig orðasambandið eins og blóm í eggi. Alla sína skóla- og blaðamennskutíð var Molaskrifara kennt að þetta ætti að vera eins og blómi í eggi. Kannski hafa svo margir farið rangt með þetta að orðabókarmenn telja það orðið rétt!
FÓLK OG FJÖLGUN
Af mbl.is (01.02.2016) : ,, Fólk sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfall af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu. Enn einu sinni. Þetta hefði átt að orða á annan veg: Fólki sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hefur frá árinu 2010 farið hægt og rólega fjölgandi sem hlutfalli af öllum kaupsamningum sem gerðir eru á höfuðborgarsvæðinu. Enginn, eða óvandaður yfirlestur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/01/fleiri_kaupa_sina_fyrstu_eign/
AÐ ERFA OG AÐ ERFIÐA
Af dv.is (01.02.2016) um erfðaskrá Davids Bowies: ,,Þannig erfiðar aðstoðarmaður hans tvær milljónir dala, jafnvirði 260 milljóna íslenskra króna, og barnfóstra sonar hans, Duncans, erfir eina milljón dala, jafnvirði 130 milljóna íslenskra króna. Þarna hefur yfirlesturinn verið í handaskolum. Eitt er að erfa. Annað að erfiða. http://www.dv.is/folk/2016/1/30/adstodarmadur-david-bowie-erfir-260-milljonir/
FYRIR RANNSÓKN MÁLS
Af mbl.is (30.01.2016): ,,Þá var maður handtekinn á þriðja tímanum í nótt við veitingahús í miðborg Reykjavíkur grunaður um þjófnað á farsímum. Maðurinn vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls. Ekki í fyrsta skipti,sem þetta orðalag sést. Hér er átt við að maður hafi verið fangelsaður vegna rannsóknar máls. Ekki fyrir rannsókn. Er þetta kannski staðlað orðalag,sem tekið er hrátt upp úr dagbók lögreglunnar, hugsunarlaust? Gæti verið.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/30/simathjofur_og_tjonvaldar_handteknir/
BEITTUR ÞÁTTUR
Okkur er sagt, að Kastljós Ríkissjónvarpsins sé ,,beittur fréttaskýringaþáttur. Víst er það rétt á stundum. En ekki þegar löngum tíma er varið í fjalla um evrópsku söngvakeppnina (02.02.2016) ,sem nú er að heltaka þennan þjóðarfjölmiðil. Skrítið að heyra fullorðið fólk tala um þetta eins og jólin væru í nánd. En svo er margt sinnið ....
Í gærkveldi (03.02.2016) var prýðilegt innslag í Kastljósi um hætturnar sem fylgja farsímanotkun undir stýri. Þar var sérstaklega fjallað um flutningabílstjóra. Framhald boðað í kvöld. Gott að vekja athygli á þessu. Lögreglan virðist láta þetta afskiptalaust að mestu. Auka þarf aðhald og eftirlit. Stórhækka sektir.
Mikið var skrifað um misnotkun bílastæða,sem ætluð eru fötluðum. Sektir voru hækkaðar. Molaskrifari fylgist svolítið með þessu. Það er, sem betur fer, orðið sjaldgæft að sjá þessi bílastæði misnotuð nú orðið.
Ástandið hefur stórbatnað.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2016 | 12:25
Molar um málfar og miðla 1879
BANNAÐ BÖRNUM -
Síðastliðið sunnudagskvöld (31.01.2016) var allt dagskrárefni Ríkissjónvarpsins frá klukkan 2100 og til dagskrárloka bannað börnum.
21 00 Ófærð. Bannað börnum.
21 55 Kynlífsfræðingarnir. Stranglega bannað börnum.
22 50 Bangsi. Bannað börnum. Nafnið gæti reyndar gefið til kynna að þetta væri barnaefni. Svo var ekki. Þetta var kvikmynd um vaxtarræktarmann, sem hélt til Taílands í leit að ást og hamingju. Einstaklega áhugavert efni.
Í ljósi þess að samkvæmt íslenskum lögum eru einstaklingar börn til 18 ára aldurs, - og þótt reyndar sé ekki sérstaklega horft til þeirrar skilgreiningar, - þá verður þetta að teljast undarleg dagskrársamsetning. Í þessum miðli sem stjórnendur Ríkisútvarpsins kalla ,,RÚV okkar allra! Svona þegar vel liggur á þeim.
SLETTUR ERU BLETTUR
Slettur, einkum enskuslettur, eru blettur á morgunþætti Rásar tvö. Á mánudag (01.02.2016) sagði sá umsjónarmaður þáttarins sem mest slettir á okkur á okkur ensku: ,, Eigum við ekki að rifja upp hérna helstu hælæt (enska , - highlight(s) dagsins, aðalatriði dagsins, meginefni þáttarins.
Í þættinum á þriðjudag (02.02.2016) talaði sami umsjónarmaður um það eina sem meikaði sens á þessum tíma dags.- Væri vit í á þessum tíma dags. Nefndi líka settlaðan heimilisföður. Væntanlega heimilisföður, sem tæki lífinu með ró, - væri búinn að hlaupa af sér hornin, kannski. Í málskotinu fór svo langur tími í að ræða um þær áhyggjur umsjónarmanns að fólk notaði slettuna grúbbu í staðinn fyrir slettuna grúppu. Málfarsráðunautur afgreiddi þessa dellu snyrtilega með því að minna á orðið hópur.
Þessar enskuslettur er blettur á þættinum. Blettur á Ríkisútvarpinu.
DAGUR KVENFÉLAGSKONUNNAR
Í morgunþætti Rásar tvö (01.02.2016) er stjórnanda Virkra morgna oft hleypt að hljóðnemanum undir lok þáttar til að kynna efni þáttar síns. Í gær sagði hann annars: ,, Og svo er náttúrulega dagur kvenfélagskonunnar í dag og við ætlum að fagna honum og leyfa kvenfélagskonum að hringja inn og senda hvert (hvort?)öðru kveðjur og svona og segja frá sínum kvenfélögum ... . Um þetta þarf ekki að mörg orð.
FLÓTTAMANNABÚÐIR
Í fréttum Ríkisútvarps (01.02.2016) var sagt , að forsætisráðherra heimsækti tvær flóttamannabúðir í Líbanon. Þarna hefði átt að tala um tvennar flóttamannabúðir, ekki tvær. Þetta var rétt í fréttum Ríkissjónvarps seinna um kvöldið.
FJÖLL OG FIRNINDI
Óvenjulega fróðlegt og gott viðtal var við ferðalanginn, fjallgöngumanninn og fjallaleiðsögumanninn Leif Örn Svavarsson var í morgunþætti Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (02.02.2016). Takk fyrir það.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2016 | 08:57
Molar um málfar og miðla 1878
RÍKISSJÓNVARPIÐ,,GENGUR PLANKANN
Molavin skrifaði (01.02.2016):,, Ríkissjónvarpið sagði í fréttafyrirsögn í kvöld (1.2.2016): "Samfylkingin gengur plankann" þegar fjallað var um slakt gengi í Gallup-könnun. "To walk the plank" er algengt orðtak í enskri tungu, komið frá þeirri þjóðsögu að sjóræningjar hafi tekið menn af lífi með því að láta þá ganga með bundið fyrir augu eftir planka og út í sjó við fögnuð þeirra sem fylgdust með.
Burtséð frá því að erfitt er að yfirfæra þessa samlíkingu við aftöku og gleði áhorfenda á slakt gengi í skoðanakönnun á miðju kjörtímabili - þá er það nú varla RUV samboðið að sletta enskum orðaleikjum í fyrirsögnum þegar við eigum margar góðar, íslenzkar. Það eru ekki allir áhorfendur Sjónvarps jafn sleipir í enskunni og viðkomandi fréttamenn telja sig vera. "Feigðarför" væri vitaskuld góð þýðing á orðtakinu, hvort sem þessi túlkun fréttamanns getur talizt til fréttaskýringar eða gráglettni. Molaskrifari þakkar bréfið. Hann hnaut um þetta líka. Fannst það í fyrsta lagi asnalegt og í öðru lagi montlegt.
LANGT ER SEILST
Undarleg ,,frétt (verðskuldar reyndar ekki það heiti) var þrídálkur á forsíðu Morgunblaðsins á mánudag (01.02.2016). Þar var agnúast út í það að Mörður Árnason íslenskufræðingur læsi Passíusálmana í Ríkisútvarpinu nú á föstunni. Tilefni skrifanna er að Mörður Árnason á sæti í stjórn Ríkisútvarpsins og er varaþingmaður Samfylkingar. Kannski er það skoðun Morgunblaðið, að menn verði ólæsir við það að taka sæti í stjórn Ríkisútvarpsins og vera varaþingmenn!
Mörður Árnason sá um mjög vandaða útgáfu Passíusálmanna, sem kom út í fyrra. Hann er líka afburða góður lesari. Það geta allir heyrt, sem leggja við eyrun eftir tíu fréttir á Rás eitt á kvöldin.
Þessi vinnubrögð Morgunblaðsins eru sérkennileg, lágkúruleg. Enn setur þetta gamla blað niður.
STIGU ÚR SÆTUM
Svona lauk frétt mbl.is um að sómakonunnar og brautryðjandans Ragnhildar Helgadóttur fv. þingmanns og ráðherra hefði verið minnst á þingfundi á mánudag (01.02.2106).
,, Að ræðu Kristjáns lokinni stigu þingmenn úr sætum. Ótrúlegt að svona villa skuli sleppa í gegn. Hvar voru síurnar og yfirlesturinn? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/01/thingmenn_minntust_ragnhildar/
HEIÐRÍKIÐ!
Trausti benti á frétt á mbl.is (30.01.2016): Í fréttinni segir meðal annars: "Í dag fór frostið niður í fjórtán stig í heiðríkinu á Suðurlandi." Jamm og já!- sagði Trausti. - Ekki nema von. Hér var átt við heiðríkju, - heiðan himin. Sjá:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/30/frostid_for_nidur_i_14_stig/
AÐ SVIPA TIL
Úr frétt á mbl.is (28.01.2016) um torséða þotu, sem Japanir hyggjast taka í notkun: ,, Þotan er sögð svipa til hinnar bandarísku F-22 Raptor, sem framleidd er af Lockheed Martin vestanhafs.
Einhverju(m) svipar til einhvers. Eitthvað líkist einhverju. Molaskrifari hefði orðað þetta á annan veg, til dæmis: Sagt er að þotunni svipi mjög til hinnar bandarísku ... http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/28/torsed_orrustuthota_synd_i_japan/
VIÐ SAMA HEYGARÐSHORNIÐ
Rósa sendi Molum ábendingu (30.01.2016) og segir að mbl.is sé enn við sama heygarðshornið. Hún vísar til þessarar fréttar:
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/30/sextan_forust_ur_hungursneyd/
Fyrirsögn fréttarinnar er: Sextán fórust úr hungursneyð. Í fréttinni segir:,, Að minnsta kosti sextán manns til viðbótar hafa farist úr hungursneyð í bænum Madaya á Sýrlandi síðan bílalest með neyðargögn kom til bæjarins fyrr í mánuðinum. . Fólkið dó úr hungri,- svalt í hel. Þetta hefur nýlega verið nefnt í Molum, Molar um málfar og miðla 1868, 18.01.2016.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2016 | 10:16
Molar um málfar og miðla 1877
UM KYNNINGAR OG FLEIRA
Þórarinn Guðnason, vinur Molaskrifara og vinnufélagi á árum áður, sendi eftirfarandi (28.01.2016) ,,Sæll félagi,
Ég hef aldrei almennilega skilið þegar verið er að tala um að fólk sé kynnt fyrir dauðum hlutum. Þannig varð mér á að skella upp úr, þegar ég las eftirfarandi klausu á visir.is, í grein eftir Eirík Stefán Ásgeirsson, um EM-mótið í Póllandi:
"Dagur hefur verið duglegur að kynna leikmenn sína fyrir íslenskum drykkjar- og matvælum en í hann bauð sínum mönnum upp á Tommaborgara í æfingabúðunum í Berlín fyrir mótið".
Tókust leikmenn í hendur við veitingarnar, eða hvað?
Fyrir utan ,,drykkjar- og matvælum" orðalagið og fleira, finnst mér nú líka á mörkunum að þjálfari haldi upp á sigur í leik með kassa af bjór, - í beinni útsendingu en það er annað mál. Kærar þakkir, Þórarinn. Tek undir með þér í einu og öllu og þakka bréfið.
ÞRÍR FYRIR TVEIR!
Stefán Haraldsson skrifaði (29.01.2016): ,,Góðan daginn Eiður.
Nú bjóða margar verslanir vörur sínar á útsöluverði.
Allalgengt er að gefið sé í skyn að hluti keyptra vara fáist ókeypis.
Til dæmis: tveir fyrir einn.
Flestir skilja vel hvað átt er við.
En þessa dagana er verslun í bænum að auglýsa tilboð á vörum sínum á Bylgjunni. Þar eru ekki boðnir tveir fyrir einn, heldur þrír fyrir tveir. Ja, hérna! Kærar þakkir ábendinguna, Stefán.
ENN UM VERÐFELLINGU ORÐANNA
Í fimm fréttum Ríkisútvarpsins (29.01.2016) var okkur sagt að pólska þjóðin hefði verið í sárum eftir að hafa tapað handboltaleik á móti Króatíu með nokkuð miklum markamun. Pólska þjóðin í sárum??? Hvers vegna í ósköpunum er íþróttadeildin látin komast upp með þetta bull? Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti, sem þjóð er sögð í sárum eftir tapaðan boltaleik. Er engin verkstjórn á þessari fjölmennustu fréttastofu landsins?
GÖMUL PLATA
Segja sjálfsagt sumir. Ekki skal því neitað. Eða gömul vísa. Enn einu sinni riðlaðist dagskrá Ríkissjónvarpsins á föstudagskvöld (29.01.2016) vegna yfirgangs íþróttadeildar. Fréttir hófust tíu mínútum of seint. Hversvegna? Þjóðverjar og Norðmenn voru að spila handbolta í Póllandi. Norska ríkissjónvarpið, NRK1 sá ekki ástæðu til að sýna þennan leik. Heldur ekki NRK2. Og ekki heldur NRK3. Kannski þarf hvorki útvarpsstjóra, dagskrárstjóra né fréttastjóra. Íþróttadeildin sér bara um þetta.
PRÓFKJÖR
Nú fara í hönd prófkjör víða í Bandaríkjunum vegna næstu forsetakosninga. Þess vegna er kannski ástæða til að minna á, að ef. flt. af orðinu prófkjör er prófkjöra ekki prófkjara eins og stundum hefur sést.
http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=pr%C3%B3fkj%C3%B6r
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2016 | 11:40
Molar um málfar og miðla 1876
AÐ BREGÐA OG AÐ BREGÐAST
Af mbl.is (27.01.2016): ,, Sagði saksóknari að það hafi verið mat starfsmanna tollsins að svo hafi virst sem dótturinni hafi brugðist mjög þegar bent var á fíkniefnin. Þetta orðalag er út í hött. Hér hefði átt að standa , til dæmis, að dótturinni hafi virst mjög brugðið, þegar bent var á fíkniefnin.
AUK ÞESS SEM ...
Úr frétt á mbl.s (27.01.2016):,, Bíll tveggja annarra ferðamanna fór út af í hálku efst í Jökuldal. Þeir sluppu við meiðsli, auk þess sem bíllinn skemmdist ekki. Auk þess sem... Ha? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/27/ferdamenn_i_vanda_a_austurlandi/
Koma þurfti tveimur erlendum ferðamönnum til hjálpar á veginum yfir Öxi. Þorðu ekki að hreyfa bílinn vegna hálku. Komust hvorki lönd né strönd. Höfðu ekið fram hjá þremur viðvörunarskiltum. Skilyrðislaust á að senda svona hálfvitum reikning. Reikna aðstoðina fullu verði.
ENN UM OPNUN
Af forsíðu visir.is (27.01.2016): ,, Nýtt útibú Íslandsbanka mun opna næstkomandi haust í Norðurturni Smáralindar. Þetta nýja útibú verður opnað, það mun hefja starfsemi í haust. Útibúið opnar hvorki eitt né neitt.
RÉTTAR SLETTUR
Hér hefur stundum verið vikið að enskuslettum, sem oft eru óþægilega algengar í máli eins þriggja umsjónarmanna morgunþáttar Rásar tvö.
Á miðvikudag (27.01.2016) fengu hlustendur að heyra hve mjög það færi í taugar þessa útvarpsmanns, þegar fólk segði grúbba en ekki grúppa. Sletturnar verða auðvitað að vera réttar. Orðið hópur var nefnt til sögunnar, en vakti ekki umræður.
GARÐURINN
Í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins (27.01.2016) vitnaði fréttamaður í alþingismann: ,, Hann sagði stjórnendur bankans höggva á garðinn þar sem hann sé lægstur. Átt var við að Landsbankinn hefði sagt fötluðum starfsmanni upp störfum. Gefið honum kost á starfslokasamningi eða uppsögn, brottrekstri. Fluttur var stuttur kafli úr ræðu þingmannsins. Hann tók ekki svona til orða. Sumpart var upptakan ógreinileg. Sjá: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/siddegisfrettir/20160127 Fréttin hefst á 1:40
Mikilvægt er að fara rétt með orðtök. Við tölum ekki um að höggva á garðinn, enda er það út í hött. Við tölum um að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Oftast í merkingunni að ráðast á minnimáttar.
Þetta starfslokatilboð/uppsögn er Landsbankanum til skammar , - og var ekki á bætandi.
STÖÐVAR Á VETTVANG
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (28.01.2016) var sagt frá eldsvoðum og vatnsleka og þannig tekið til orða ,að tvær stöðvar hefðu verið sendar á vettvang. Hefur heyrst áður. Slökkvistöðvar voru auðvitað hvorki sendar eitt né neitt. Lið frá tveimur stöðvum var sent á vettvang. Þetta var betur orðað á mbl.is ,, Kalla þurfti út mannskap af tveimur slökkviliðsstöðvum, alls tíu manns, og aukabúnað til þess að hreinsa upp vatn.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2016 | 07:45
Molar um málfar og miðla 1875
VERÐFELLING HUGTAKA
Þorvaldur skrifaði (27.01.2016): ,, Sæll Eiður. Hlustaði á íþróttaþáttinn eftir fréttir ríkisútvarpsins á meðan ég beið eftir veðrinu. Þar sagðist fréttamanni svo frá, að Danir og Þjóðverjar hefðu leikið algjöran úrslitaleik um sæti í undanúrslitum. Dálítil verðfelling á hugtakinu úrslit, ekki satt? Jú, rétt er það, Þorvaldur. Þakka ábendinguna.
GRAUTUR - RED - TALENT
Auglýsendur ganga sumir hverjir nokkuð langt í að spilla tungunni. Mjög algengt er orðið að sjá hrært sama íslensku og ensku í sömu auglýsingunni. Vodafone auglýsir þjónustuleið, eða áskrift, sem fyrirtækið kallar Red frelsi. Hversvegna ekki Rautt frelsi?
Ráðningarfyrirtæki ,sem kallar sig Talent upp á ensku ,(enska orðið talent þýðir hæfileikar) birtir grautarauglýsingu í Fréttablaðinu á þriðjudag (26.01.2016). Hún hljóðar svona: Ertu að leita að talent?
Svo má auðvitað minna á þætti Stöðvar sem heita eða hétu: Ísland Got Talent. Svona grautur er vísvitandi skemmdarverk á móðurmálinu.
RÚV -, HVAÐ ?
,,Nýlega greindi RÚV frá því .., sagði einn af fréttamönum Ríkisútvarpsins í Speglinum nýlega ( 26.01.2016). Hvaða RÚV? Það er alveg óljóst hvenær þessi skammstöfun er notuð um Ríkisútvarpið allt, sjónvarpið eingöngu eða aðeins um fréttastofu Ríkisútvarpsins. Vill ekki útvarpsstjóri koma þessu á hreint? Skýra hvað skammstöfunin merkir? Er það svo að enn sé bannað í Efstaleiti að kalla stofnunina sínu rétta og lögbundna nafni?
FERSKARA EN FERSKT
Stórfyrirtækið Findus auglýsir frosið grænmeti í sjónvarpi (Ríkissjónvarpið 26.01.2016). Í auglýsingunni er okkur sagt, að frosið grænmeti sé ferskara en ferskt. Þetta er augljóslega röng, ósönn, fullyrðing. Frosið grænmeti getur aldrei verið ferskara en ferskt ófrosið grænmeti. Hversvegna láta rétt yfirvöld og Neytendasamtökin það viðgangast, að neytendum sé sagt ósatt?
Þetta hefur verið nefnt áður í Molum.
NEW YORK NEW YORK
Skemmtilegur pistill Magnúsar Halldórssonar blaðamanns frá New York um New York í morgunþætti Rásar tvö á miðvikudag (27.01.2016).
VÖRUBÍLL VALT
Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (26.01.2016) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/26/slasadist_thegar_vorubill_valt/
Í myndatexta með fréttinni segir að vörubíll hafi oltið í Mosfellsbæ, en í fréttinni segir að bíllinn hafi oltið í Reykjavík. Þarna vantar eitthvað upp á samvinnu og samræmi. Þakka ábendinguna, Rafn.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)