23.2.2016 | 10:02
Molar um málfar og miðla 1893
EKKI TÝNDUR
Hinn týndi Noel stjarnan í nýrri auglýsingu Sigló Hótels, sagði í fyrirsögn á visir.is. Maðurinn var alls ekki týndur . Hann villtist eins og víðfrægt er orðið. Í fréttinni er hann reyndar kallaður heimsfrægur villingur. Í íslensku er orðið villingur ekki notað um þann sem hefur villst af réttri leið. Það er notað um þann sem er hömlulaus (einkum um börn og unglinga), það er einnig notað um villimenn, stygga sauðkind eða ótaminn hest, segir íslensk orðabók. Maðurinn sem villtist til Siglufjarðar var ekkert af þessu. Bara venjulegur ferðamaður sem villtist.
http://www.visir.is/hinn-tyndi-noel-stjarnan-i-nyrri-auglysingu-siglo-hotels/article/2016160229867
HÚN SEGIST VERA OFBOÐIÐ
Af eyjan is (21.02.2016) ,,Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri Útvarps Sögu er öskuill. Segist hún þrátt fyrir mikið langlundargerð vera ofboðið og geta vart orða bundist. Hér er íslenskukunnáttu þess sem skrifar talsvert áfátt. Málfarslega hefði verið rétt að segja til dæmis: Segir hún, að þrátt fyrir langlundargeð sé henni ofboðið ... Þetta eru annars mikið geðprýðiskrif: http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/02/21/arnthrudi-ofbodid-og-hjolar-i-sigurd-g-satt-ad-segja-tha-a-madur-ekki-ad-svara-svo-slikum-raeflum/
KOMIÐ GOTT
Vitnað er í heimasíðu forsætisráðherrans á eyjan.is (20.02.2016). Þar segir : ,,Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir löngu komið gott af stórfurðulegum árásum fáeinna talsmanna stórverslana á íslenska bændur, Löngu komið gott? Á sennilega við að fyrir löngu sé komið nóg af .... Kannski þarf forsætisráðherra enn einn aðstoðarmann til að lesa yfir það sem hann skrifar á heimasíðu sína? Sjá: http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/02/20/sigmundur-david-osattur-fullkomin-kaldhaedni-longu-komid-gott-af-storfurdulegum-arasum/
og http://sigmundurdavid.is/fullkomin-kaldhaedni/
ORÐTÖK
Of oft heyrist og sést rangt farið með orðtök í fréttum. Þannig var í tíu fréttum Ríkisútvarps á mánudagsmorgni (22.02.2016) sagt að orðrómur væri runninn úr rifjum bandaríska sendiráðsins í ..... Fréttin var um framboðsreglur í forsetakosningum í Bólivíu. Rétt hefði verið að segja runninn undan rifjum bandaríska sendiráðsins, ætti upptök sín í bandaríska sendiráðinu , væri tilbúningur bandaríska sendiráðsins. Því miður sjást þess oft merki, að verkstjórn á fréttastofu Ríkisútvarpsins er ekki viðunandi. Ambögur eiga ekki að eiga svona greiða leið til okkar, sem hlustum. http://www.ruv.is/frett/morales-faer-ekki-ad-bjoda-sig-fram-a-ny
LANDNEMARNIR
Landnemarnir, þáttaröð Kristjáns Más Unnarssonar á Stöð tvö er greinilega úrvalsefni. Molaskrifari horfði á þátt gærkvöldsins þar til útsendingu var læst. Viðurkennir, að hann treystir sér ekki til kaupa áskrift að 365 sjónvarpinu til þess eins að horfa á þessa þáttaröð. Annað efni á þessari stöð, fyrir utan fréttirnar, er ekki á hans áhugasviði. Kristján Már var einnig með áhugaverða frétt í gærkvöldi um nýjung í álbræðslu í Noregi,sem ég man ekki eftir að hafa séð annarsstaðar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2016 | 10:05
Molar um málfar og miðla 1892
METNAÐARLEYSIÐ
Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (18.02.2016):
Sæll,
Eftirfarandi frétt er að finna á dv.is þann 18.febrúar 2016. Ótrúlegt en þó satt að einhver sem kallar sig blaðamann fái laun fyrir svona samsetningu. Staglstíllinn er algjör, tvisvar í örstuttri frétt er sagt að maðurinn hafi kynnt kaffikönnu fyrir heiminum. Gæti ekki verið að maðurinn hafi hannað þessa mokkakönnu? Svo var honum fylgt til hinstu hvílu, líklega hefur hann gengið fremstur og aðrir fylgt með. Loks er aska mannsins varðveitt en ekki grafin í heimagrafreit.
Hinn ítalski Renato Bialetti, maðurinn sem kynnti hina frægu mokkakönnu fyrir heiminum, er látinn 93 ára að aldri. Honum var fylgt til hinstu hvílu á eftirminnilegan hátt í síðustu viku.
Til að verða við óskum aðstandenda hans var lík Renato brunnið. Ösku hans var þvínæst komið fyrir í dufthylki en lögun þess svipaði til hinnar frægu könnu sem Bialetti kynnti fyrir heiminum á sínum tíma.
Mokkakannan kom fyrst fram á sjónarsviðið á sjötta áratugnum. Hún er nú staðalbúnaður á mörgum heimilum enda fátt sem gefur eldhúsinu jafn heimilislegan blæ og mokkakanna á eldavélarhellu. Aska Renato er nú varðveitt á grafreit fjölskyldu hans í Omegna á Ítalíu.
Kærar þakkir fyrir þetta, Sigurður. dv.is slær ný met á hverjum degi. Metnaðarleysið ræður ríkjum.
OPNUN
Kjörstaðir opnuðu, var sagt í tíufréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (20.02.2016). Verið var að segja frá forkosningum í Nevadaríki í Bandaríkjunum. Molaskrifari var að vona, að við værum laus við þetta orðalag úr útvarpsfréttum. Svo er því miður ekki. Kjörstaðir voru opnaðir. Kjörstaðir opnuðu ekki.
MÉR LANGAR ....
Ekki veit Molaskrifari hve oft hann hefur heyrt þingmenn stíga í ræðustól á Alþingi, ávarpa forseta og segja svo: ,,Mér langar að spyrja hæstvirtan ráðherra ... Sjálfsagt ekki einn um að hafa heyrt þetta.
ENN EITT DÆMIÐ
Af visir.is (20.02.1206): ,,Talið er að um helmingur þeirra bíla sem um ræðir megi finna í Svíþjóð en Volvo segir að eigendur þeirra bíla sem um ræðir munu geta látið lagað gallann sér að kostnaðarlausu.
Enn eitt dæmið um vankunnáttu í notkun móðurmálsins. Hér ætti að standa: Talið er að um helming þeirra bíla .. megi finna í Svíþjóð, - eða: talið er að um helmingur þeirra bíla ... sé í Svíþjóð. http://www.visir.is/volvo-endurkallar-59.000-bila/article/2016160229916
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2016 | 13:22
Molar um málfar og miðla 1891
SAMSLÁTTUR
Það var ágæt áminning og upprifjun í Máskotinu á Rás tvö á þriðjudag (16.02.2016), þegar málfarsráðunautur ræddi muninn á þegar hér var komið sögu, þá , eða á þeirri stundu og því að koma við sögu, - í merkingunni að eiga aðild að eða taka þátt í. Þetta hefur verið nefnt í Molum og var sjálfsagt nefnt í Málskotinu vegna þess að nýlega heyrðist samsláttur þessara orðtaka í Ríkisútvarpinu, þegar sagt var: Þegar hér var komið við sögu. Það orðalag er út í hött. Orðinu við er þarna ofaukið. Það þarf greinilega að halda áfram að hamra á þessu.
USLI OG FLEIRA
Í fréttum Ríkissjónvarps (16.02.2016) var kynnt efni í Kastljósi. Þar var talað um myndband sem hefði valdið miklum usla vestanhafs. Usli, er tjón eða skaði. Átt var við að myndbandið hefði vakið mikla athygli.
Í fréttum Stöðvar tvö (15.02.2016) var talað um fjölda ferðamanna,sem hefðu farið í gegnum Keflavíkurflugvöll. Í fréttum Ríkissjónvarps var réttilega talað um ferðamenn,sem hefðu farið um Keflavíkurflugvöll. Í fréttum sama miðils var kvöldið eftir sagt: ,,... þegar Útlendingastofnun var afhent tæplega fimm þúsund undirskriftir með beiðni um að mál fjölskyldunnar fengi efnislega meðferð. Þegar Útlendingastofnun voru afhentar tæplega fimm þúsund undirskriftir, hefði þetta átt að vera.
MYNDIR ÚR SAFNI
Það gerist of oft í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna, að okkur eru sýndar gamlar fréttamyndir og látið eins og þær séu nýjar. Mest áberandi er þetta í þingfréttum. Fyrir kemur að það bregður fyrir fólki, sem á ekki lengur sæti á þingi, er ekki á lífi, eða ráðherrum eða þingmönnum, sem vitað er að eru ekki á landinu. Slíkum myndum á ævinlega að fylgja skjáborði með áletruninni Myndir úr safni. Á því er misbrestur. Það eru óvönduð vinnubrögð að láta eins og gamlar myndir séu nýjar.
SUNDHÖLLIN LOKAR
Á fréttaborða með fréttum Stöðvar tvö (18.02.2016) stóð: Sundhöllin lokar í tvo mánuði í sumar. Betra hefði verið: Sundhöllin verður lokuð í tvo mánuði í sumar.
TÍMINN Á HLAUPUM
Bíð eftir að heyra til þáttarstjórnanda, sem segir ekki undir lokin: ,, Tíminn er alveg að hlaupa frá okkur, en ... Svo er komið með spurningu ,sem svara þarf í löngu máli.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2016 | 11:53
Molar um málfar og miðla 1890
Á GULLFOSSI
,,Það hljómar kannski ótrúlega ,en þetta er rólegur dagur á Gullfossi, sagði fréttamaður í Ríkissjónvarpi (14.02.2016). Hann átti við, að ekki hefði verið mikið um ferðamenn austur við Gullfoss þann daginn. Algengt er að heyra talað um að fara á Gullfoss og Geysi. Eðlilegra væri að tala um að fara austur að Gullfossi og Geysi. Molaskrifari þekkti öndvegismanninn, Kristján Aðalsteinsson, sem lengi var skipstjóri á Gullfossi, flaggskipi Eimskipafélagsins, sem sigldi aðallega milli Íslands, Skotlands og Danmerkur.
Skemmtilegt mismæli heyrðist seinna í þessari frétt, þegar rætt var við leiðsögumann, ágætan. Hann sagðist hafa verið við Gullfoss með ferðamenn,sem hefðu dottið og rófubrotnað. Rófubeinsbrotnað var það víst!
KÍKIRINN
Í tíufréttum Ríkisútvarps (16.02.2016) var sagt frá öflugum stjörnukíki,sem koma á upp í Kína. Flytja þarf fólk burt úr næsta nágrenni við kíkinn , ,, ... til að rýma fyrir kíkirnum., eins og fréttamaður sagði skýrt og greinilega. Það var og. Þetta var einu sinni kennt í barnaskólum,sem nú heita grunnskólar. http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=k%C3%ADkir
AÐ SKIPTA UM HENDUR
Nokkuð oft hefur verið minnst á þetta orðalag hér í Molum , sem sumum hættir til að nota, þegar eigendaskipti verða á fasteign eða lausafé. Á bls. 4 í bílablaði Morgunblaðsins (16.02.2016) segir í myndatexta: ,,Glæsileg Plymouth Heni Cuda að skipta um hendur, en þessi bíll .... Hvernig sem leitað er á myndinni sjást engar hendur. Hvað þá að verið sé að skipta um hendur. Nýr eigandi hefur að líkindum verið að taka við bílnum.
MÖRGÆSIR DEYJA
Í frétt á mbl.is (13.02.2016) sagði: ,, Um það bil 150 þúsund mörgæsir á Suðurskautslandinu hafa dáið eftir að ísjaki á stærð við Rómarborg festist nærri byggð þeirra.. Er sú rótgróna íslenska málvenja að tala um að dýr drepist, en fólk deyi á undanhaldi?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/02/13/isjaki_veldur_dauda_150_thusund_morgaesa_2/
MYNDIR ÚR SAFNI
Það gerist of oft í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna, að okkur eru sýndar gamlar fréttamyndir og látið eins og þær séu nýjar. Mest áberandi er þetta í þingfréttum. Fyrir kemur að það bregður fyrir fólki, sem á ekki lengur sæti á þingi, er ekki á lífi, eða ráðherrum eða þingmönnum, sem vitað er að eru ekki á landinu. Slíkum myndum á ævinlega að fylgja skjáborði með áletruninni Myndir úr safni. Á því er misbrestur. Það eru óvönduð vinnubrögð að láta eins og gamlar myndir séu nýjar.
JAFNRÉTTI?
Alltaf kynnir sama konuröddin okkur dagskrá Ríkissjónvarpsins. Þessar kynningar eru teknar upp fyrirfram og því ógerlegt að bregðast við einhverju óvæntu, sem upp gæti komið. Hefur verið nefnt áður í Molum.
En er ekki kominn tími til að fjölga þeim röddum, sem kynna dagskrána? Væri það ekki í anda jafnréttis að fá eins og eina karlmannsrödd til að tala við okkur, kynna dagskrána? Það var reyndar gert hér á árum áður , - í Ríkissjónvarpinu. Í útvarpinu eru bæði konur og karlar þulir og hallast þar ekkert á.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2016 | 11:33
Molar um málfar og miðla 1889
ILLA SKRIFUÐ FRÉTT
Sigurður Sigurðarson sendi Molum línu (15.02.2016): ,,Sæll,
á vefnum visir.is er illa skrifuð frétt, líklega skrifuð af fréttabarni eins og þú nefnir það stundum
- Varaður við húsleit hjá sér af lögreglufulltrúa. Góður fréttastjóri eða prófarkalesari hefði snúið þessari fyrirsögn við og sagt: Lögreglufulltrúi varaði við húsleit.
- Í fréttinni segir af lögreglufulltrúa sem var endurtekið færður til í starfi . Væntanlega var maðurinn oftar en einu sinni færður til í starfi eða álíka.
- Einstaklingurinn sem grunaður er um að hafa aðkomu að fíkniefnaheiminum . Hver er þessi aðkoma? Hvers vegna skrifar fólk á þennan hátt? Og svo er það að kalla manninn einstakling sem sýnir ekki skapandi hugsun blaðamannsins.
- að lögreglan hygðist framkvæma húsleit í húsnæði sem hann hafði aðkomu að ... Svona nafnorðastíll er auðvitað glórulaus rassbaga. Þarna á að segja að lögreglan ætlaði að leita í húsi Er framkvæmd húsleit einhvers staðar annars staðar en í húsi? Og svo aftur þessi aðkoma sem hefur ekkert að gera þarna og lýsir engu.
- að spyrja aðila spurninga sem fela í sér mögulegar upplýsingar um brot viðkomandi þá kikka inn ákveðin réttindi fyrir hann. Hvað þýðir þetta að kikka inn? Ég veit það svo sem en krafan er að snúa þessu á íslensku jafnvel þó þetta hafi verið haft eftir viðmælanda blaðamannsins.
Miklu fleiri villur eru í þessari stuttu grein. Ljóst að enginn les yfir, sem er auðvitað alvarleg ávirðing á ritstjóra og fréttastjóra.
Oft er það þannig að sá sem hefur ekki hæfileika til að segja frá getur ekki heldur skrifað góða frétt. Hins vegar er frásagnargáfan ekki meðfædd heldur áunnin. Þar með ættu flestir að eygja von. - Kærar þakkir, Sigurður. Þetta er heldur dapurlegur lestur. Enginn les yfir. Enginn metnaður. Ég bjó ekki til orðið fréttabarn. En játa, að ég hef stundum notað það!
MÆTAST FYRIR DÓMARA
Úr frétt á mbl.is (11.02.2016): Aðilar málsins mætast fyrir dómara í Wycombe í Bretlandi þann 12. maí næstkomandi. Betra væri að segja, að málsaðilar komi fyrir rétt, komi fyrir dóm. Þeir mætast ekki fyrir dómara. Sjá: http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/02/11/logsottir_vegna_fotbrots_harrisons_fords/
LEIKARASKAPUR
Leikaraskapur gefur sjónvarpsfréttum ekki aukið vægi eða gildi. Á laugardagskvöld (13.10.2016) hafði fréttamaður Ríkissjónvarps háttað sig og skriðið undir sæng í plastkúlu. Svo var myndað. Þetta var kjánagangur. Síðan var rætt við ferðamenn, sem höfðu sofið í slíkri kúlu og notið norðurljósanna. Það var fréttin. Ekki fréttamaður undir sæng.
GETTU BETUR
Hvernig væri að breyta umgjörð spurningaþáttarins Gettu betur? Svona þættir geta verið skemmtilegir, en þessi er búinn að ganga sér til húðar. Svo er eins og Landsbanki Íslands sé hálfvegis búinn að kaupa þáttinn. Útsvarið er endingarbetra og þar hefur ýmsu verið breytt í áranna rás. Svarið Staupasteinn við spurningu í síðasta þætti Gettu betur þótti Molaskrifara orka tvímælis. Þegar skrifari var vegavinnubílstjóri m.a. í Hvalfirðinum sumarið 1958 ók hann stundum fram hjá steininum með Jónas Magnússon óðalsbónda í Stardal og vegaverkstjóra. Jónas leiðrétti Reykjavíkurstrákinn,sem hafði lært nafnið Staupasteinn. Jónas sagði það heiti seinni tíma vitleysu. Steinninn héti Karlinn í Skeiðhól. Seinna var vegurinn fluttur niður fyrir Skeiðhól, nær sjónum, og nú ber færri gesti að garði hjá Karlinum í Skeiðhól.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.2.2016 | 10:03
Molar um málfar og miðla 1888
ENN UM VEÐURORÐ
Í Molum var nýlega fjallað um veðurorð. Umhleypingur er oftast notað í fleirtölu um óstöðuga veðráttu með vindum og úrfelli og (oft) með sífelldum breytingum frá frosti til hláku og frá hláku til frosts.
Af mbl.is (12.02.2016): ,,Eftir helgina er útlit fyrir talsverðar umhleypingar, og strax á mánudag gengur nokkuð djúp lægð upp að landinu með hlýindum og talsverðri úrkomu. Hér hefði átt að segja, að útlit væri fyrir talsverða umhleypinga ...
TH sá þetta líka og sagði í bréfi: ,, Hér er þörf á að kenna fréttabörnum kyn og fallbeygingu umhleypinga!
AÐ FARA SÉR AÐ VOÐA
Lesandi skrifaði (14.02.2016): ,,Hvaða skoðun sem maður hefur á stefnu eða innihaldi Mbl, þá hélt ég að íslenskukunnátta þar væri betri - kannski er mín kunnátta bara svona slæm - sjá þessa klausu :
- ,,Fjöldi fólks fór sér að voða í Reynisfjöru aðeins örfáum tímum eftir að kínverskur ferðamaður lét þar lífið á miðvikudag.-
Ef fólk fer sér að voða, í mínum skilningi, þá fórst fjöldi manna í Reynisfjöru, stuttu eftir þetta hörmulega slys. Þakka ábendinguna. En orðabókin segir, að það að fara sér að voða sé að slasa sig vegna óvarkárni. Þannig að þetta orðalag er gott og gilt.
VISA INCORPORATED
Fyrirtæki sem á alþjóðavísu heitir Visa Incorporated hefur borið á góma í fréttum undanfarið. Stundum er það nefnt Visa ink (Inc) og stundum Visa Incorporate! Sjaldnar heyrist Visa Incorporated, sem er hið rétta heiti (á ensku). Chrysler bílaverksmiðjurnar hétu um skeið Chrysler Corporation. Þetta er svipað því, að það fyrirtæki hefði verið kallað Chrysler Corp !
BÍLVELTA VARÐ
Enn er í fréttum talað um að bílavelta hafi orðið. Af mbl.is (14.02.2016): ,,Bílvelta varð undir Ingólfsfjalli um klukkan átta í morgun. Hér hefði átt að segja: Bíll valt undir Ingólfsfjalli um klukkan átta í morgun.Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/14/bilvelta_undir_ingolfsfjalli/
ÍSLAND TODAY
Það er að verða aðalsmerki Stöðvar tvö að hræra saman íslensku og ensku í þáttaheitum. Á föstudagskvöld (12.02.2016) kynnti sjálfur sjónvarpsstjóri 365 miðla, Stöðvar tvö, Jón Gnarr, þátt með heitinu Ísland Today, - hversvegna ekki hafa heitið alveg á ensku, - Iceland Today? Sjónvarpsstjórinn sagði, að þetta væri happening fréttaþáttur. Sjónvarpsstjórinn er ekki mikið fyrir íslenskuna samkvæmt þessu. Önnur smekkleysan í þáttaheiti á þessari sjónvarpsstöð er þáttur, sem heitir grautarslettunafninu: Ísland got talent.
Málsóðar ráða greinilega ríkjum á Stöð tvö. Því má svo bæta við að popplag í dægurlagakeppni Ríkissjónvarpsins, sem á vinsældum að fagna, heitir samkvæmt fréttum: ,,Spring yfir heiminum. Er það ekki samskonar subbugrautarheiti? Hvað þýðir þetta? Molaskrifari skilur það ekki.
Svo auglýsir Íslandsbanki app eða smáforrit, sem þeir kalla Kass! Sennilega tekið úr ensku, (e. cash reiðufé). Það er ekki öll vitleysan eins.
MEIRI SLETTUR
Maður sem aldrei virtist eiga breik (e. break). Maður sem aldrei var gefið tækifæri, aldrei fékk að njóta sín. Þetta var sagt við okkur í morgunþætti Rásar tvö (12.02.2016). Það er ekkert lát á þessu þar á bæ.
LYFJAAUGLÝSING
Nú er heimilt að auglýsa lyf, sem ekki eru lyfseðilsskyld. Í sjónvarpsauglýsingu um Voltaren Gel er birt skjáfylli af texta , einar 18 línur með smáu letri. Textinn er 3-4 sekúndur á skjánum. Útilokað að lesa nema 2-3 línur. Hvaða tilgangi þjónar þetta? Áhorfendur eru engu nær. Einfaldara væri að nota tvö orð: Lesið leiðbeiningarnar. Þetta gildir um fleiri lyf, sem nú eru auglýst í sjónvarpi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2016 | 09:47
Molar um málfar og miðla 1887
FÓR MIKLUM
Glöggur Molalesandi benti á eftirfarandi á mbl.is (13.02.2016):
,,Benedikt Valsson fór miklum í græna herberginu í söngvakeppni Sjónvarpsins í kvöld. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Enn eitt dæmið um það þegar fákunnandi fréttaskrifarar fara rangt með orðtök. Þarna hef enginn lesið yfir. Rétt hefði verið: Benedikt Valsson fór mikinn .... Að fara mikinn, merkir venjulega að láta mikið fyrir sér fara, vera stórorður.
Sjá: http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/02/13/nylon_og_sinfo_eftir_20_ar/
ALLT FER FRAM
Þórhallur Birgir Jósepsson skrifaði (10.02.20169: ,,Sæll Eiður!
Einhæfni í orðavali getur verið hvimleið í fjölmiðlum, ekki síst þegar sífellt er klifað á sömu orðum eða orðasamböndum. En, einhæfnin getur gengið lengra og orðið að ríkjandi málnotkun sem að auki er röng, að best verður séð.
Dæmi: Eitthvað " ... fer fram." Algengt er að taka þannig til orða um einhverja skipulagða viðburði, leiksýningin fór fram, hátíðahöldin fóru vel fram o.s.frv. Allt er gott í hófi, þetta líka.
Svo ganga menn lengra, af hverju veit ég ekki, kannski nennir fólkið ekki að hugsa og rifja upp fleiri blæbrigði málsins eða önnur orðatiltæki. Það er ósköp leiðinlegt t.d. að hlusta á íþróttafréttir þar sem talað er um hvern viðburðinn eftir annan og allir fara þeir fram. Enn versnar það þegar heilu dagarnir og kvöldin fara fram. Nú gengur á með dagskrárkynningum í Sjónvarpinu þar sem sagt er frá því að fyrra undanúrslitakvöld í lagavali fyrir Evrópsku söngvakeppnina hafi " ...farið fram ..." og síðara undanúrslitakvöldið " ... fari fram ..." einhvern tiltekinn dag. Kvöld fari fram???
Þetta er engu skárra en þegar talað er um verðlaunaveitingar eins og Edduverðlaunin svo dæmi sé tekið, í kynningum og jafnvel fréttum var sagt frá því að Edduverðlaunin "...fari fram..." þennan eða hinn daginn og bráðum fáum við trúlega að heyra að Óskarsverðlaunin "fari fram" vestur þar í "Ellei". Ég vona ekki sé farið fram á of mikið að blessað fjölmiðlafólkið reyni nú að sýna einhverja viðleitni til að hafa sæmilega hugsun að baki orðavali sínu, svo ekki sé minnst á margnefndan málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins, sem virðist ekki telja sig hafa neinar skyldur í þessum efnum. Þakka bréfið Þórhallur. Þú hefur mikið til þíns máls. Allt fer fram, sumt brestur á, eins og vikið var að hér í síðustu viku. Málfarsráðunautur er reyndar með vikulegan pistil í morgunþætti Rásar tvö á hverjum þriðjudagsmorgni, Málskotið. Slíkur pistill ætti helst á vera á hverjum degi. Til skiptis til dæmis í morgunþáttum Rásar eitt og Rásar tvö. En kannski á málfarsráðunautur við ofurefli að etja innanhússí Efstaleiti. Þar snýst allt um popp og sport.
GÖGN
Í fréttum Stöðvar tvö (14.02.2016) var sagt um afsögn rektors í Svíþjóð vegna barkaígræðslumálsins: ,, ... mönnum sé ekki kunnugt hvaða gögn Hamsten vísar til. Hér hefði átt að standa, reglum málsins samkvæmt: Mönnum sé ekki kunnugt til hvaða gagna Hamsten er að vísa. Þeir sem skrifa fréttir þurfa að kunna undirstöðuatriðin í íslenskri málfræði.
FLEIRI EN HVAÐ?
Fimm dálka fyrirsögn yfir þvera forsíðu Fréttablaðsins á miðvikudag (10.02.2016): Fleiri börn hælisleitenda ekki í skóla. Ekki er sagt fleiri en hvað. Átt er við að mörg börn hælisleitenda séu ekki í skóla, fjöldi barna hælisleitenda sé ekki í skóla. Algengt. Því miður.
AÐ SETJA NIÐUR
Úr dv.is, haft eftir ,aðstoðarmanni forsætisráðherra, sem sagður er grunnskólakennari: ,, Björn Þorláksson setur beinlínis niður sem fagmann þegar hann tönnlast sérstaklega á orðinu krakki Gauta til niðrunar. Setur niður sem fagmann!.- Ætti mati Molaskrifara að vera; setur niður sem fagmaður. Gerir lítið úr sér. Vonandi er þetta tungutak grunnskólakennurum almennt ekki tamt.
ÚTDEILING RÉTTLÆTIS
Úr frétt á mbl.is (11.02.2016):,, Þá benti hann á að ásakanirnar hefðu verið lagðar fram í Svíþjóð, ríki sem hefði gott orðspor hvað varðar útdeilingu réttlætis. Ekki kann Molaskrifari að meta orðalagið útdeilingu réttlætis. Hefði ekki mátt tala um gott orðspor í mannréttindamálum eða dómsmálum? Eða að gott orð færi af réttarfarinu í Svíþjóð? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/02/10/cameron_vill_assange_ur_sendiradinu/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2016 | 07:11
Molar um málfar og miðla 1886
ALGENG MISTÖK
Molavin skrifaði (09.02.2016): ,,Bankastjóri stærsta banka Svíþjóðar, Swedbank, Michael Wolf, hefur verið sagt upp störfum..." segir í viðskiptamogga 9.2.2016. Í þessari setningu er bankastjórinn frumlag. Honum hefur verið sagt upp. Þess vegna ætti að standa "Bankastjóra...hefur verið sagt upp." Mistök af þessu tagi eru svo algeng í fjölmiðlum að engu er líkara en ritstjórnir og fréttastofur hafi fyllzt af fólki, sem kann ekki meðferð móðurmálsins eða ræður ekki við samsettar setningar eða aukasetningar. Skýr hugsun og kunnátta í meðferð móðurmálsins ætti að vera forsenda fyrir starfi við fréttaskrif. Skyldu menn ekki vera prófaðir áður en þeir eru ráðnir til starfa?
Molavin bætti við:,, Í málfarsþætti Moggans í dag er einmitt tekið á þessu, sem ég nefndi og er reyndar líka umfjöllunarefni í þínum þætti í dag. En á þessu má samt hamra.
Þessir litlu málfarsþættir Moggans eru afar góðir og ættu að vera skyldulesning allra fréttamanna. Þakka bréfið, Molavin. Satt og rétt. Þáttur dagsins í Mogga (bls.29) er þess virði að birta hann í heild: ,,Þær sem ekki opnast á að henda úr uppskrift að kræklingarétti Þetta er gagnort dæmi um algenga hrösun. Þær , skeljarnar, opnast eða ekki - en þeim á eða á ekki að henda. Rétt er því: Þeim sem ekki opnast á að henda. Ritarinn segði ábyggilega ekki ,, Það á að henda þær sem ekki opnast. Vonandi hafa þeir sem mest þurfa á að halda lesið þetta.
Hér er svo enn eitt dæmi um svipað. Fréttablaðið (10.02.2016): ,,Nefndarmönnum í þingmannanefnd ESB og Íslands eru ekki sammála túlkun Birgitta Jónsdóttir þingmanns Pírata á orðum þingmanna nefndarinnar ...... Þetta ætti auðvitað að vera: ,, Nefndarmenn ... eru ekki sammála .... http://www.visir.is/oftulkun-a-diplomatiskum-ordum/article/2016160219984
VINNSLUSTOPP
Molavin spyr í öðru bréfi: "...frá í því vinnslustopp hófst í nóvember síðastliðnum..." sagði í kvöldfréttum útvarps (RÚV 11.02.2016). Hófst stoppið eða var vinnsla stöðvuð?
Ógerlegt er að ráða af þessu við hvað er átt. Hefði auðvitað átt vera skýrar orðað. Þakka ábendinguna, Molavin.
SÁR ENNI
,En Frammarar sitja eftir með sár enni, var sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (09.02.2016). Nú má vera að þetta sé ekki beinlínis rangt, en Molaskrifari er sammála málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins um að ekki megi fara rangt með orðtök ,sem eru föst í málinu. Samkvæmt máltilfinningu skrifara hefði átt að segja, að Frammarar sætu eftir með sárt enni(ð).
MÁLSPJÖLL Í BOÐI ÍSLANDSBANKA
Rafn skrifaði Molum (10,02.2016),,Sæll Eiður
Á forsíðu Íslandsbankavefsins er að finna auglýsingakassa, þar sem auglýsingar eru sýndar skamma stund áður en velt er yfir á næstu auglýsingu. Textinn hér fyrir neðan er ein þessara auglýsinga, en í mínum huga kallar textinn ekki á skýringar heldur brottfellingu.
Kveðja Rafn Algjörlega sammála, Rafn. Það er engu líkara en mörg stærstu fyrirtæki landsins hafi sameinast í samstilltu átaki um að gera atlögu að móðurmálinu, með því að nota í síauknum mæli slettur og ambögur. Við þessu þarf að bregðast.
Þetta er auglýsingakassinn, sem hér um ræðir:
Kass er nýtt app sem allir geta notað til að borga, rukka eða splitta kostnaðinum þegar vinahópurinn eða fjölskyldan tekur sig til og gerir eitthvað skemmtilegt. Kass er ekki mál, heldur málleysa. Er ekki að splitta það sama og að skipta eða deila kostnaði Hversvegna er slett á okkur ensku?
UM % OG HÆKKANIR
Annað bréf frá Rafni (09.02.2016): ,,Sæll Eiður
Meðfylgjandi er framan af fyrstu frétt á vef Morgunblaðsins nú á mánudagsmorgni. Í fyrirsögn segir að bílastæðagjöld við Leifsstöð tvöfaldist, sem á við um hluta gjaldanna, þ.e. fyrstu klukkustund á skammtímastæðum og þriðju viku á langtímastæðum. Í meginmáli segir síðan, að gjöldin þrefaldist, hækki um 217%, þrátt fyrir að listi yfir breytingar sýni, að hækkun er mest 117%, sem vissulega setur viðkomandi gjöld í 217% af fyrra gjaldi.
Innlent | mbl | 8.2.2016 | 8:21
Bílastæðagjöld tvöfaldast við Leifsstöð
Gjaldskrá bílastæða við flugvöllinn mun hækka allt að tvöfalt 1. apríl.
Bílastæðagjöld á Keflavíkurflugvelli munu hækka um 30 til 217% með breytingu sem tekur gildi 1. apríl næstkomandi. Mesta breytingin verður á verði fyrir skammtímastæði, en þau hækka úr 230 krónum fyrir fyrstu klukkustundina upp í 500 krónur. Langtímastæði hækka einnig umtalsvert. Í frétt á vef Isavia kemur fram að hækkunin sé vegna framkvæmda við fjölgun stæða, en á annatímum sé nýting stæða allt að 96%.
Isavia segir að vegna mikillar fjölgunar farþega um völlinn hafi ásókn í bílastæði aukist mikið. Vegna þess sé nauðsynlegt að fara í framkvæmdir og fjölga stæðum, en í dag eru 2.100 við völlinn. Því sé farin sú leið að hækka gjöldin til að geta staðið undir kostnaði við stækkunarframkvæmdir. Einnig verði tekin upp gjaldtaka á starfsmannabílastæðum við flugstöðina. Breytingarnar eru eftirfarandi:
Skammtímastæði á svæðum P1 og P2:
Verð nú: 230 krónur á klukkustund
Fyrstu 15 mínútur verða gjaldfrjálsar
Fyrsta klukkustund verður 500 krónur og hækkar um 117%.
Hver klukkustund eftir það 750 krónur.
- Þakka bréfið, Rafn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2016 | 09:55
Molar um málfar og miðla 1885
GÓÐ OG GILD VEÐURORÐ
Sigurður Sigurðarson skrifaði (09.02.2016): ,, Sæll, Eiður.
Svalt verður í veðri næstu daga á landinu, sagði dagskrárgerðarmaður eða þulur í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins. Þvert ofan í orð mannsins fullyrðir Veðurstofan að frost verði um allt land næstu daga.
Á þessu tvennu, svala og frosti, er talsverður munur. Ég skil svala þannig að hann geti verið kaldur en fjarri því að vera frost. Oft er svalt að sumarlagi og í suðlægum löndum getur hægur vindur veitt fólki einhvern svala á heitum dögum. Svaladrykkur er ekki frosinn þó getur frostpinni svalað manni á heitum dögum.
Svo er það þetta með vindganginn í sumum veðurfræðingum. Sjaldnast lægir hjá þeim eða hvessir, oftast bætir í vind eða dregur úr vindi. Stundum er vindur nokkur, jafnvel er vindur mikill. Verður málið ekki nokkuð fátæklegra ef við kunnum ekki gömul veðurorð eins og andvari, kul, rok, hvassviðri, stormur svo eitthvað sé nefnt?
Á þeim veðurrassi sem við búum hafa forfeður okkar búið til fjölda orða um veður og þannig gert sig afar vel skiljanlega hver við annan í gegnum aldirnar. Er einhver ástæða til að hætta að nota þessi orð?
Mikilvægt að halda lífi í þessum ágætu orðum. Kæarar þakkir fyrir bréfið, Sigurður. Þetta gefur gott tilefni til að minna á öndvegisritið Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson í Skógum. Bókin kom fyrst út 1979 ,en Forlagið gaf hana út að nýju 2014. Mikið snilldarverk.
ALLT BRESTUR Á
Það er mikið tískuorðalag hjá fréttamönnum að tala um að eitthvað bresti á. Eiginlega brestur allt á. Í fréttum Ríkissjónvarps (10.02.2016) um banaslysið í Reynisfjöru sagði fréttamaður: ,, ... þegar skyndilega brast á með stórri öldu. Molaskrifara finnst þetta ekki vel orðað. Þarna hefði mátt segja , skyndilega kom ólag, - en ólag er stór, hættuleg alda. Stundum koma þrjár slíkar í röð. Sjaldan er ein báran stök, segir máltækið. Kannski hefði fólk ekki skilið orðið ólag. Skyndilega skall stór alda á berginu, þar sem maðurinn stóð, hefði líka mátt segja. Kannski skiljanlegra nú um stundir.
,, .. rís úr gráðinu gafl,
þegar gegnir sem verst...
orti Grímur Thomsen í mögnuðu ljóði, sem hann nefndi Ólag. Ein af perlum bókmenntanna.
Þar var sviðið Landeyjasandur.
GÁMAEININGAR
Á mánudagskvöld (08.02.2016) var sagt frá strandi stærsta gámaflutningaskips í heimi. Sagt var að skipið gæti flutt 19 þúsund 20 feta gámaeiningar. Hvers vegna gámaeiningar? Hvers vegna ekki 19 þúsund 20 feta gáma? Í sjónvarpsfréttum talaði Bogi réttilega um gáma.
ÞÖRF UMFJÖLLUN
Þörf og mjög þakkarverð umfjöllun hefur verið í Kastljósi Ríkissjónvarps að undanförnu um snjallsímanotkun undir stýri. Þessu þarf að halda áfram Þetta er vaxandi vandamál, sem skapar stórhættu í umferðinni. Þessi símanotkun er lífshættuleg, rétt eins og ölvunarakstur, eða akstur undir áhrifum annarra vímuefna. Bandaríkjamenn tala um snjallsíma, og GPS og Googlekorta notkun í akstri sem Dashboard Distractions, - tækjatruflun. Taka verður á þessu með aukinni löggæslu og hækkuðum sektum. Molaskrifari sendi umsjónarmanni Kastljóss línu á dögunum og þakkaði þessa ágætu umfjöllun, en leyfði sér að benda mjög hæversklega á, að þegar vikið var að Hvalfjarðargöngum, hefði verið rétt að tala um gangamunna, ekki gangNamunna eins og gert var. Göng eru eitt. Göngur annað. Tölvupóstinum var ekki svarað frekar enn fyrri daginn.. Það er sjálfsagt gleymska eða annríki mikið sem því veldur. Það þykir reyndar víðast hvar kurteisi að svara bréfum.
ÓSKILJANLEGT ORÐALAG
Óskiljanlegt orðalag var í frétt Stöðvar tvö (10.02.2016) um járnbrautarslysið í Þýskalandi. Fréttamaður sagði: ,, Áreksturinn varð á kafla þar sem lestarteinarnir eru einfaldir þannig að ekki er hægt að mætast, þrátt fyrir það skullu lestirnar saman á um 100 kílómetra hraða. Það er ekki skýr hugsun á bak við þetta. Vissi fréttamaðurinn ekki hvað þrátt fyrir þýðir?
ENN UM ENSKUSLETTUR
Slettuhríðinni í morgunþætti Rásar tvö linnir ekki. Á þriðjudagsmorgni (09.02.2016) var talað um söngkonu,sem hér mun halda tónleika. Umsjónarmaður sagði að textarnir hennar væru ,,destrúktívir og soldið hellaðir. Hellaðir hvað? Hvað þýðir þetta? Hversvegna er ekki talað við hlustendur á íslensku? Sjá: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20160209 (Á 17:50). Molaskrifari átti von á því að málfarsráðunautur mundi kannski víkja að þessu í prýðilegu Málskoti, spjalli um íslenskt mál, seinna í þættinum. Það var ekki gert. Hefði þó verið ástæða til.
GULLNI HRINGURINN
Valur skrifaði (09.02.2016): ,,Sæll Eiður.
Ég stenst ekki mátið og sendi þér hér,,gullmola.Um helgina var í fréttum, að þrír menn og kona hefðu slasast á hinni vinsælu ferðamannaleið sem kallast uppá ensku Golden Circle.
Þess má geta að þessi ferðamannhringur er um 300 km. Og því mætti spyrja hvar á þessari 300 km leið fólkið slasaðist.
Nú er Golden Circle ekki lögformlegt örnefni eða nafn hér á landi sem notað er til að fara á eftir á ferðalögum. Enn svona gerist er fréttabörnin, greina oft ýtarlega frá bifreiðategund og að árekstur hafi verið við þessa bensínstöð við hliðina á ákveðnum söluturni, en nafn á götunnar þar sem slysið varð, kemur ekki fram, fylgir ekki frétt.
Vona bara að sjúkrafólk hafi fundið slasaða ferðafólkið á þessari 300 km leið. Þakka bréfið. Hér mun átt við frétt á vef Ríkisútvarpsins (08.02.2016) : http://www.ruv.is/frett/halkuslys-a-gullna-hringnum
- Molaskrifari biður ágæta lesendur velvirðingar á því að svo mikið berst af efni þessa dagana, að Molar eru í lengra lagi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2016 | 02:25
FLUGSKÝLISMÁL - ALGJÖR STORMUR Í VATNSGLASI
FLUGSKÝLISDYR - STORMUR Í VATNSGLASI
Af fréttum í gærkvöldi var að sjá, að flugskýlið, sem Bandaríkjamenn ætla að lappa upp á á Miðnesheiðinni, sé skýlið, sem stendur andspænis gömlu flugstöðinni. Það var lengi kallað Flotaflugskýlið, Navy hangar. Sé þetta rét,t þá er skýlið sextíu ára gamalt. Ég vann í vinnuflokki við byggingu þess sumarið 1955, þegar rigndi alla daga, - eða því sem næst. Í vinnuflokknum voru kunnir menn, meðal annarra Jón Eiríksson, þýskukennari og Magnús Thoroddsen, seinna hæstaréttardómari. Magnús var forkur duglegur, en byggingarvinnan átti ekki vel við Jón. Fleiri voru þar,sem ég man vart að nafngreina, Ævar frá Blönduósi, og Óli frá Akureyri, auk bónda (?) úr Sæmundarhlíð eða Sléttuhlíð. Vinnuaflið streymdi úr öllum landshlutum á Völlinn þessi ár. Þá sváfu einir fjórir eða sex verkamenn í kojum í hálfgerðum kompum í löngum skálum og ekki minnist ég kvartana. Við vorum fjórir í herbergi, aldraður verkamaður svo yngri menn , einn seinna læknir, annar flugstjóri í áratugi, sá þriðji lenti í fréttamennsku, pólitík og fleiru.
Ég var fimmtán ára þetta sumar, sextán í nóvember um haustið. Þurfti raunar reglunum samkvæmt að vera sextán ára til að mega vinna á Vellinum. Maður fékk bæði passa og númer til hengja utan á sig. Velviljaður ráðningarstjóri hjá Sameinuðum verktökum leit viljandi fremur en óviljandi ekki mjög nákvæmlega á fæðingardaginn minn og vissi að blankur skólastrákur þurfti vinnu. Hann þekkti mig svolítið úr skátastarfi. Hugsa alltaf hlýtt til hans síðan.
Man að menn frá Vélsmiðjunni Héðni reistu stálbogana og gengu eftir þeim á toppnum sem væru þeir á stofugólfi. Fluttir voru inn tveir gríðarmiklir amerískir bómukranar á beltum til að reisa þakbogana , hæstu kranar á Íslandi , enduðu held ég hjá Vitamálastjórn. Af gerðinni Lorain, minnir mig. Mikil verkfæri.
Nú er allt vitlaust vegna þess að breyta á dyrunum á flugskýlinu og sinna eðlilegu viðhaldi innanhúss og utan svo nýlegar stélháar kafbátaleitarvélarnar komist þar inn til nokkurrar aðhlynningar. Sennilega rúmast ein slík í skýlinu í senn. Svipuð aðgerð og gerð var á einu flugskýli á Reykjavíkurflugvelli, svo hægt væri í neyð að stinga fyrstu þotu Íslendinga Gullfaxa B-727, Flugfélags Íslands, þar inn í neyð og til eftirlits og lagfæringa.
Ef einhvern tímann hefur átt við að tala um storm í vatnsglasi þá á það við um þetta mál. Og VG sýnist vera að fara á límingunum. Úlfur, úlfur, herinn er að koma aftur !!! Jafnvel er farið að nefna Keflavíkurgöngur, --- með spurningarmerki þó ! Kannski er þetta umræðuhefðin í hnotskurn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)