8.3.2016 | 09:12
Molar um málfar og miðla 1903
SLÆM HELGI HJÁ NETMOGGA
Molavin skrifaði: ,,Svona er nú komið fyrir Morgunblaðinu (amk. netútgáfu þess). Í frétt í dag, 6.mars, segir orðrétt:
"Þrítug kona var brennd til bana á föstudaginn af bræðrum sínum..." og síðar: "Þeir framkvæmdu einnig jarðarförina sama kvöld... Les enginn yfir? Nei, ágæti Molavin. Yfirlestur heyrir sennilega sögunni til á þessum bæ. Þetta var óvenju slæm helgi hjá Netmogga. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/06/kveiktu_i_systur_sinni_uti_a_gotu/
SIGRAÐI KEPPNINA
Á laugardagskvöld (05.03.2016) sagði fréttaþulur Ríkissjónvarps okkur frá ungri stúlku sem sigrað hefði söngkeppni Samfés. Sigraði keppnina! Bar hún ekki sigur úr býtum? Heyrði fréttastjóri þetta ekki? Eða vissi fréttastjóri ekki betur? Molaskrifari var að vona að Ríkissjónvarpið væri vaxið upp úr því að láta okkur hlusta á svona ambögur.. Orðrétt af vef Ríkisútvarpsins:,, Sara Renee Griffin úr félagsmiðstöðinni Rauðagerði í Vestamannaeyjum sigraði Söngkeppni Samfés í dag. Og keppnin steinlá!
SLÆGUR AF ÖKUMÖNNUM
Úr frétt á mbl.is um bíl sem festist í skafli á miðri brú(06.03.2016): ,,Sagði hann fullljóst að yfir brúnna kæmist enginn án þess að vera á breyttum jeppa og að nokkur slægur af ökumönnum sem bíða þess að komast yfir brúnna gætu átt erfitt með verkið.
Hvað er nokkur slægur af ökumönnum? Bara bull. Slægur (kk) er eitthvað sem er eftirsóknarvert, eitthvað sem fengur er að. Það væri slægur í því fyrir mbl.is að fá betur skrifandi fólk til starfa. Í fréttinni er tvisvar talað um brúnna. Það er sem sé ekki innsláttarvilla, heldur kunnáttuskortur, - skortur á málfræðikunnáttu. Fleiri athugasemdir gætu átt rétt á sér. Fréttabarnavakt á sunnudagsmorgni?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/06/fastur_i_skafli_a_midri_bru/
Nokkrir vinir Molanna sendu línu og bentu á þessa frétt. Margir tóku eftir þessu.
STÓRT FYLGI
Í fréttum Stöðvar tvö (05.03.2016) sagði talsmaður Pírata okkur að fylgi flokksins hefði stækkað. Hann átti við að fylgið hefði vaxið, - fylgið hefði aukist.
LÍFSÓGNANDI
Á forsíðu Fréttablaðsins (05.03.2016) var sagt um krabbamein í blöðruhálskirtli: Einungis 20% eru lífsógnandi. Hér er sennilega hugsað á ensku, lífsógnandi , e. life threatening. Orðið var einnig notað á bls.33 í Fréttablaðinu sama dag. Við eigum ágætt orð sem er: Lífshættulegt. Svo eru líka til í málinu orðin banvænn, lífshættulegur, sem veldur dauða.
FJÖLDI - FJÖLGUN
Í fréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (05.03.2016) sagði fréttamaður:,, Talsmaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna varaði við því á dögunum, að opnuðu Makedóníumenn ekki landamæri sín mundi fjöldi flóttamanna við landamærin Grikklandsmegin fjölga í sjötíu þúsund á næstu vikum. Fjöldi fjölgar ekki. Fjölda fjölgar ekki. Er enginn á fréttastofu Ríkisútvarpsins,sem gerir sér grein fyrir því að vanda þarf betur til verka. Lesa þarf handrit, leiðrétta og lagfæra, sé þess þörf, áður en lesið er fyrir okkur. Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar. Er verkstjórnin í molum, þegar að fréttunum kemur? http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/kvoldfrettir/20160305 - Þetta var reyndar endurtekið orðrétt í fréttum á miðnætti. Hlustar enginn í Efstaleitinu á fréttir í útvarpinu?
SKONDIIÐ
Það var dálítið skondið í þættinum Gettu betur á föstudagskvöldið (04.03.2016) að heyra spyril tala um danska vikublaðið Familie journal upp á ensku ( eftir frb. familí dsjörnal!). Fyrir svona sex, sjö áratugum voru dönsku vikublöðin Hjemmet , Alt for damerne og Familie journal gríðarlega vinsælt lesefni á Íslandi. Blöð voru tekin frá í bókabúðum fyrir fasta viðskiptavini, sem biðu komu blaðanna með öndina í hálsinum. Nú kunna víst fáir lengur dönsku. Réttur framburður vafðist fyrir spyrli á föstudagskvöldið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2016 | 08:46
Molar um málfar og miðla 1902
AÐ MALDA Í MÓINN
Molavin skrifaði (04.03.2016):
"Hann (Ted Cruz) reyndi nokkrum sinnum að malda í móinn þegar hvað hæst lét á milli Rubio og Trump og bað Trump ítrekað um að anda rólega." Svo orðar fréttamaður Ríkisúrvarpsins á síðu RUV (4.3.2016) þegar hann greinir frá því að einn fjögurra frambjóðenda Repúblikana hafi í kappræðum í sjónvarpi reynt að róa aðra niður, sem rifust hástöfum. Enn notar fréttamaður hugtök ranglega. Sögnin að malda merkir að mögla, andmæla, þrasa. Auk þess sagði í fyrirsögn og texta að kappræðurnar hafi farið fram "í nótt." Svo var vitaskuld ekki þótt komin væri nótt á Íslandi. Kærar þakkir Molavin. Orðtök,sem föst eru í málinu reynast mörgum erfið viðfangs nú um stundir.
ENGINN LES YFIR
Sigurður Sigurðarson skrifaði ( 04.03.21016): ,,Í Morgunblaðinu á blaðsíðu 12 birtist þann 4. mars grein sem er í sjálfu sér áhugaverð en frekar illa skrifuð, enginn les yfir, eins og þú segir stundum. Fyrirsögnin er góð: Feta í fótspor feðra sinna á hálendinu. Svo byrja leiðindin:
- Hópur fjallagarpa ætlar nú að endurtaka leiðangur sem fyrst var farinn árið 1976 Fjallagarpar eða aðrir geta ekki endurtekið það sem þeir hafa aldrei gert áður.
- 3. apríl 1976 segir í upphafi fyrstu línu. Flestum er kennt að byrja ekki setningu með tölustaf, það er óskaplega mikið stílbrot að gera svo.
- og er þetta fyrsta ferðin sem vitað er til að hafi verið farin þessa leið. Klúðurslegt; ferð farin þessa leið!. Betra hefði verið að segja að þessi leið hafi þarna líklega verið farin í fyrst sinn.
- Ef þeir gætu ekki bjargað sjálfum sér gætu þeir örugglega ekki bjargað öðrum líka. Leiðinleg nástaða; bjargað, bjargað. Betra hefði verið að umorða þetta jafnvel þó haft sé eftir viðmælanda.
- Tilgangur ferðarinnar nú er að heiðra minningu þess afreks . Það sem hér er átt við er að minnast afreksins og færi betur á því að segja það.
- munu leiðangursmennirnir gista í tjöldum og skálum á víxl. Betur fer á því að segja að gist verði ýmist í tjöldum eða skálum.
Hægt er að gagnrýna ýmislegt annað í þessari stuttu grein. Vandinn er að ungir skrifendur frétta fá greinilega ekkert aðhald, bara klapp á bakið og halda því að þeir hafi gert vel. Hvernig eiga þeir að vita annað þegar enginn gagnrýnir? Þakka bréfið, Sigurður. Yfirlestur heyrir sögunni til.
VIÐ HÖFN VIÐ BRYGGJU
Alltaf öðru hverju heyrist sagt um skip í fréttum að þau séu við höfn.
Þetta orðalag var notað í miðnæturfréttum Ríkisútvarps í síðustu viku
(01.03.2016). Skip eru í höfn. Skip eru við bryggju, liggja við bryggju. Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.03.2016) heyrði Molaskrifari ekki betur en sagt væri að skip hefði lagt að höfn. Skipið kom í höfn. Hér er verkefni fyrir málfarsráðunaut.
BEINBROT
Í fréttayfirliti í Ríkissjónvarpi (03.03.2016) var sagt að tólf ferðamenn hefðu brotið bein. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að tólf ferðamenn hefðu beinbrotnað? Skrifari hallast að því.
DÁSEMD
Það var auðvitað hrein dásemd hjá Ríkissjónvarpinu á fimmtudagskvöldið ( 03.03.2016) þegar okkur var boðið upp á lögguþátt frá Brooklyn kl 21:35 og lögguþátt frá Chicago klukkan 22:20. Vantaði eiginlega bara þátt um bráðaliða í einhverri borg þarna mitt á milli. Það er eitthvað að, þegar kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins er svona saman sett. Kannski slys. Vonandi ekki ásetningur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2016 | 08:58
Molar um málfar og miðla 1901
SINN OG HANS
Þorsteinn Davíð Stefánsson skrifaði (02.02.2016): ,,Sæll, Eiður. Við lestur Moggans á netinu hnaut ég um einkennilegt orðalag. Þar er sagt að Osama Bin Laden hafi beðið föður sinn að annast eiginkonu hans. Ég hef vanist því að eigi orðið, annaðhvort sinn eða hans, við frumlagið skuli ,,sinn" notað en eigi það við aðra en frumlagið skuli ,,hans" notað. Þó gera megi ráð fyrir að átt sé við eiginkonu sonarins endurspeglar orðalagið það ekki. Ertu sammála þessum skilningi mínum? Með bestu kveðjum og þökkum fyrir ötult starf í þágu íslenskunnar, Þorsteinn Davíð. - Þakka bréfið, Þorsteinn Davíð og hlý orð. Hjartanlega sammála. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/01/29_milljonir_i_erfdaskra_bin_laden/
ORKUPOSTULLI?
Á miðvikudagskvöld (02.03.2016) sýndi Ríkissjónvarpið heimildamynd um merkan íslenskan arkitekt,sem lengi hefur búið og starfað í Hollandi. Myndin hét Orkupostullinn Jón. Molaskrifari hefur hvergi tekist að finna orðið postulli, - þekkir orðið postuli. Lærisveinn, brautryðjandi, frumherji? Einnig postullega og postilla. Kannski er hér fáfræði Molaskrifara um að kenna.
ENN LOKA KJÖRSTAÐIR
Það er auðvitað dálítið þreytandi að klifa sífellt á sömu ambögunum, en er gert í trausti þess að dropinn holi steininn.
Í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (01.03.2016) var sagt frá forkosningum vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Fréttamaður sagði:,, Kjörstaðir loka upp úr miðnætti ... Kjörstaðir loka ekki. Kjörstöðum verður lokað upp úr miðnætti.
AÐ STÍGA Á STOKK
Í auglýsingu frá fyrirtækinu midi.is í Ríkisútvarpinu rétt fyrir fimm fréttir (01.03.2016) var sagt frá skemmtikröftum sem mundu stíga á stokk. Auglýsingin var endurtekin í útvarpinu morguninn eftir. Eins og hér hefur oft verið vikið að þýðir það að stíga á stokk ekki að koma fram og flytja tónlist eða annað efni. Það er notað um að strengja þess heit að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Molaskrifari leggur til að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins haldi fund með starfsfólki auglýsingastofu og skýri þetta út. Þetta er ekki mjög flókið. Auglýsingastofa eða auglýsingadeild á ekki að taka við auglýsingum með augljósum málvillum.
LÖGREGLUFRÉTTIR
Það gengur misjafnlega að koma lögreglufréttum á framfæri á réttu máli, villulausu. Oft hefur verið bent á hér að rangt sé að segja að einhver hafi verið settur í varðhald eða vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls. En þetta er ný útgáfa af mbl.is (02.03.2016): ,,Eftir það voru fimmmenningarnir vistaðir í fangageymslu lögreglunnar vegna rannsókn málsins. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/02/fimm_i_fangaklefa_eftir_slys/
UM GAGNRÝNI
Molaskrifari gerir fremur lítið af því að lesa gagnrýni um leiksýningar eða tónleika. Hann fór í óperuna sl. laugardagskvöld (27.02.2016), naut Don Giovanni Mozarts og skemmti sér konunglega. Frábær söngur sem og hljómsveit , sviðsetning eins góð og hægt er að vonast eftir á hinu grunna sviði Eldborgar,sem alls ekki er hugsað til óperuflutnings., - þótt listamenn láti sig hafa það. Eftir að hafa lesið gagnrýni (furðulega að honum finnst) um flutning óperunnar og frammistöðu listamannanna í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu á þriðjudegi (01.03.2016) hefur hann ákveðið að láta slík skrif ólesin í framtíðinni. Láta duga hvað honum sjálfum finnst. Enda það eina sem máli skiptir. Ekki hvað mismunandi geðstilltir gagnrýnendur setja á prent.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2016 | 08:34
Molar um málfar og miðla 1900
BANASPJÓTIN
Molavin skrifaði (02.03.2016): "Repúblikanar í Travis-sýslu í Texas berjast á banaspjótum þessa dagana segir Netmoggi í dag (2.3.2016). Það er í sjálfu sér virðingarvert að blaðamenn noti fornar samlíkingar úr bardagasögum við kosningabaráttu nútímans, en þá verða þeir að þekkja þau orðtök, sem beitt er. Að berast á banaspjót(um) - en ekki berjast á b-um. Séu menn í vafa er einfalt að fletta upp í íslenskri orðabók.- Þörf ábending. Þakka bréfið, Molavin.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/02/kallar_clinton_reida_trukkalessu/
ATLANTSHAF
Heimildamynd BBC , Atlantshaf ólgandi úthaf (1:3), sem Ríkissjónvarpið sýndi á þriðjudagskvöld (29.02.2016) var um margt vönduð og vel gerð, eins og þeirra ágætu manna hjá BBC er von og vísa. En ósköp var umfjöllunin um fiskveiðar yfirborðsleg, fátækleg - eiginlega ekkert nema myndir af trollbáti í leiðindaveðri. Greinilega var aflinn mest smáýsa úr Norðursjónum - engin nærmynd var sýnd af fiskinum. Þýðing og lestur Gunnars Þorsteinssonar var með miklum ágætum, - til fyrirmyndar.
ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT
Í fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins á þriðjudag (01.03.2016) segir: Atvinnuleysið nálgist 1%. Hér er ekki um hvatningu að ræða eins og ætla mætti. Heldur er hér (samkvæmt máltilfinningu Molaskrifara) um enn eitt dæmið um ranga notkun viðtengingarháttar að ræða. Átt er við, að í sumar geti atvinnuleysið hugsanlega verið um 1%, eða á bilinu 1-2%
OFBELDISVARNANEFND
Í morgunþætti Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (01.03.2016) var rætt við formann ofbeldisvarnanefndar Reykjavíkur. Sjálfsagt hin þarfasta nefnd, en samkvæmt lögreglufréttum fjölmiðlanna starfar hún ekki mikið í höfuðborginni um helgar.
SNJÓRUÐNINGUR
Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (02.03.2016) var sagt: ,,Snjór hefur verið ruddur af ísilögðu vatninu ... Molaskrifari er á því að fremur hefði átt að segja: ,,Snjó hefur verið rutt af ísilögðu vatninu... Þetta var gert vegna kvikmyndatöku á Mývatni.
ÓÞÝTT VIÐTAL
Í Kastljósi Ríkissjónvarps í gærkveldi (02.03.2016) var sýnt í beinni útsendingu óþýtt viðtal við norskan kokk sem hér er vegna matarhátíðarinnar, sem nú stendur yfir í Reykjavík. Þetta viðtal mátti alveg bíða í sólarhring og sýna það þá með íslenskum texta. Engin ástæða til beinnar útsendingar. Þrátt fyrir góðan vilja fréttamanns var endursögnin á ummælum kokksins í skötulíki. Norska konan tvítók til dæmis, að hún væri að elda skötusel (n. breiflabb). Það var okkur ekki sagt. Þetta hefði þurft að vinna betur.
EKKI TIL FYRIRMYNDAR
Fyrirsögn af dv.is ( 27.02 2016) Hafdís var tekin fyrir af Hildi. Aulaleg og óþörf þolmyndarnotkun. Hildur tók Hafdísi fyrir, ekki mjög gott en þó skömminni skárra. http://www.dv.is/frettir/2014/2/27/hafdis-var-tekin-fyrir-af-hildi-lilliendahl/
STAÐSETNING
,,...að sem flest störf ... verði staðsett á landsbyggðinni, sagði þingmaður samkvæmt útvarpsfréttum á þriðjudagskvöld (01.03.216). Staðsetningarbullið er smitandi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2016 | 09:58
Molar um málfar og miðla 1899
BÆJARSKRIFSTOFUR BÆJARINS
Í sex fréttum Ríkisútvarps (27.02.2016) var fjallað um deilur í bæjarstjórn Kópavogs um það hvar skrifstofur bæjarins skyldu vera til húsa. Fréttamaður talaði um bæjarskrifstofur bæjarins. Bæjarfulltrúi ruglaði saman því að kjósa og geiða atvæði um eitthvað. Þessi ruglingur virðist því miður vera orðinn fastur í málinu. Þetta hefur nokkrum sinnum verið nefnt í Molum. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/kvoldfrettir/20160227
Til dæmis í Molum um málfar og miðla 1143 var skrifað: ,,Fjölmiðlamenn eru svo gott sem alveg hættir að gera greinarmun á því að greiða atkvæði og að kjósa. Eins og vikið var að í Molum fyrir helgina. Sífellt er talað um að kosið sé um tillögur á Alþingi, þegar að mati Molaskrifara ætti að tala um að greiða atkvæði. Í kosningum fara menn á kjörstað og kjósa, greiða atkvæði. Á Alþingi er kosið í ráð og nefndir. Ekki greidd atkvæði um ráð eða nefndir, en atkvæði eru greidd um tillögur og lagagreinar. Atkvæðagreiðslan fer nú fram, segir þingforseti. Kosningin er hafin segir þingþingforseti, ef um listakosningu er að ræða. - Í Kópavogi var verið að greiða atkvæði um hvar skrifstofur bæjarins ættu að vera, - hvar þær ættu að vera til húsa.
SÉRKENNILEGT VIÐTAL
Í fréttum Stöðvar á mánudagskvöld (29.02.2016) var viðtal við lögfræðing Barnaheilla. http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVAE005B74-B616-4ED6-B6BC-1D7534EA2C68
Molaskrifara fannst þetta afar sérkennilegt viðtal. Hann skildi það svo að nú væri eiginlega óviðeigandi að tala um að eignast barn. Til dæmis að hjón hefðu eignast barn. Sömuleiðis væri ekki við hæfi að tala um barnið mitt, eða barnið okkar, börnin mín, börnin okkar. Hvert er einhverskonar pólitískur rétttrúnaður að leiða okkur?
Molaskrifara fannst þetta sannast sagna óttalegt rugl.
HROÐVIRKNI
Í lögreglufrétt á visir.is (27.02.2016) segir: ,Í austurbænum kom lögreglan að ökuðum manni á mjög tjónuðum bíl, sem hafði ekið á minnst þrjá kyrrstæða bíla .
http://www.visir.is/mikid-um-stuta-a-hofudborgarsvaedinu/article/2016160228958.
Úr annarri lögreglufrétt á visir.is (28.02.2016): Lögreglan þurfti að hafa afskipti af fjöldamörgum tilkynningum um heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Þurfti lögreglan að hafa afskipti af tilkynningum? Svo segir í fréttinni. http://www.visir.is/morg-heimilisofbeldismal-a-bordi-logreglunnar-eftir-nottina/article/2016160228888
Hroðvirkni.
SLETTURNAR
Sakna þess svolítið að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins skuli ekki oftar í ágætu Málskoti á þriðjudagsmorgnum gera athugasemdir við tíðar enskuslettur þáttastjórnenda í Ríkisútvarpinu. Kastljósi gærkvöldsins (01.03.2016) talaði ágætur spyrill um tísku, en bætti svo við enska orðinu trend! Algjör óþarfi. Það var kannski þess vegna sem viðmælandinn tvítók enska orðið trend í svari sínu.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2016 | 08:35
Molar um málfar og miðla 1898
SÆLL Í SINNI TRÚ
Víkverji Morgunblaðsins er sæll í sinni trú (26.02.2016) Víkverji trúir því greinilega og er sannfærður um að ekki þurfi aðra fjölmiðla á Íslandi en Morgunblaðið. Í Víkverjapistlinum segir: ,,Ef það er ekki í Morgunblaðinu skiptir það ekki máli, sagði ágætur maður fyrir margt löngu. Þessi staðhæfing lifir ekki aðeins góðu lífi, að mati Víkverja heldur eykst mikilvægi hennar eftir því sem áreiti einkum og sér í lagi samskiptamiðla verður meira. Þetta er sérkennileg fullyrðing. Í kunningjahópi Molaskrifara eru fjölmargir, sem ekki eru áskrifendur að Morgunblaðinu, - af ýmsum ástæðum. Sumir þeirra hafa reyndar kosið Sjálfstæðisflokkinn í áratugi. Hafa kannski eitthvað bilað í trúnni seinni árin. Á tímum Sovétríkjanna þótti þar um slóðir alveg nóg að hafa Prövdu. Morgunblaðið er oft ágætur fréttamiðill, en mistækur, rammpólitískur og enginn skyldi til dæmis taka bókstaflega það sem Morgunblaðið skrifar um ESB og samstarf Evrópuríkja. Um það er Morgunblaðið ekki góð heimild. Eftir á að hyggja hlýtur Víkverji Morgunblaðsins að hafa verið að gera að gamni sínu.
ENSKUDÝRKUNIN
Það er hættulegt fyrir íslenska tungu hve mörg íslensk fyrirtæki ávarpa okkur nú orðið á ensku, - rétt eins og enska sé móðurmál okkar, - ekki íslenska. Síðast til að bætast í þennan miður þekkilega fyrirtækjahóp er ríkisfyrirtækið Isavia, sem auglýsir með flenniletri á heilli síðu í Fréttatímanum (26.02.2016): CREATIVE TAKE OFF. Opinber fyrirtæki ættu að sjá sóma sinn í því að vera til fyrirmyndar í þessum efnum.
Í Garðapóstinum(26.02.2016), sem segist vera ,,óháð bæjarblað í Garðabæ stendur á forsíðu ,,Stjarnan í final four - Sjá miðju blaðsins.Molaskrifari er búsettur í Garðabæ. Hann veit ekki annað en að þar sé ennþá töluð íslenska. Þessi sletta á hvorki heima á forsíðu blaðsins né annarsstaðar.
HVERSVEGNA?
Hversvegna eru ekki fréttir í Ríkisútvarpinu frá því klukkan tvö á nóttunni til klukkan fimm að morgni? Halda stjórnendur Ríkisútvarpsins að þá sé öll þjóðin sofandi?
Svo er ekki. Fréttamaður er á vakt alla nóttina. Hann á að segja okkur fréttir á klukkutíma fresti alla nóttina
ÓSIÐUR
Það er ósiður hjá dv.is (og raunar fleiri netmiðlum) að blanda saman innlendum og erlendum fréttum á forsíðu án þess að auðvelt sé að greina þar á milli. Oft eru þar uppsláttarfréttir, jafnvel með fyrirsögnum, sem vísað gætu til Íslands, - en eru í raun erlendar fréttir með litla skírskotun til okkar. Það er eins og sé verið að plata okkur til að lesa uppsláttarfréttir úr mistraustum erlendum miðlum.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2016 | 09:14
Molar um málfar og miðla 1897
AÐ ÚÐA
Molavin skrifaði (26.02.2016) :,, Á síðu Ríkisútvarpsins segir í frétt (26.02.2016 - Ásrún Brynja Ingvarsdóttir): "Laust fyrir klukkan eitt í nótt var tilkynnt um tvo pilta vera að spreyja á húsveggi í vesturbæ Reykjavíkur." Ekki er ljóst hvort fréttamaður tekur þetta orðrétt úr tilkynningu lögreglu, þar er margt kynduglega orðað, en vart er það samboðið fréttastofunni að sletta svo ensku að skrifa "spreyja." Málningu var greinilega úðað á veggi. Varla leggur málfarsráðunautur blessun sína á enskuslettur. Nei, ekki trúir Molaskrifari því. En verklag á fréttastofu Ríkisútvarpsins er ekki í lagi, þegar svona lagað er sagt við okkur.
ÆTTLEIÐING
Ingibjörg Ingadóttir skrifaði (26.02.2016):
,,Sæll Eiður. Sumt fólk hefur áhuga á fjölskyldumálum þeirra frægu. Ég held nú að flestir sem smelltu á þennan hlekk http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/02/25/bundchen_og_brady_aettleida/ hafi haldið að um barn væri að ræða. En alveg er furðulegt að ekki er lengur gerður greinarmunur á því hvort fólk er að ættleiða barn eða taka að sér hund eða kött. Talað er um ættleiðingardaga þegar fólki gefst kostur á að koma og velja sér kisu sem vantar heimili. Engu er líkara en fólk skilji ekki lengur hvað orðið "ættleiðing" merkir. Hundkvikindið kemur ekki til með að erfa þau hjónin líkt og börn þeirra. Hárétt athugað Ingibjörg. Þakka bréfið.
DAGLEGAR FERÐR
Rafn skrifaði (26.02.2016):,, Neðanrituð fyrirsögn var á vefsíðunni Visi.is í dag. Ég ímynda mér, að hér sé fjöldi þeirra sem fer daglega um göngin væntanlega oftalinn. Ætla má, að stór hluti þeirra sem fara daglega um göngin, fari fram og til baka og þar sem meðalfjöldi ferða um göngin dag hvern á árinu 2015 var 5.612 ferðir er sennilegt að um ofáætlun sé að ræða. PS: Ég lít fram hjá ritvillunni daglegu í stað daglega.
Rúmlega 5 þúsund ökumenn fóru daglegu um Hvalfjarðargöngin.
FJÖLDI UMSAGNA
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (27.02.2016) var sagt: Fjöldi umsagna hafa borist. Betra hefði verið: Fjöldi umsagna hefur borist.
HENNI LOKAÐI
Enn er hér fjallað um sögnina að loka sem veldur fréttaskrifurum ærið oft vandræðum. Af dv.is (25.02.2016) um gjaldþrot tískuvöruverslunar/verslana: ,, (Athugið að í fyrstu var því haldið fram að verslunin væri enn opin í Smáralindinni, en henni lokaði fyrir ári síðan samkvæmt ábendingu frá Smáralindinni) Versluninni lokaði ekki fyrir ári síðan. Henni var lokað
ENN VEFST ZETAN FYRIR MÖNNUM
Stefán H. Vakti athygli á auglýsingu frá Toyota (25.02.2016) þar sem Toyotabíleigeindum er boðið Boðið upp á ókeypis ástanszkoðun! Já, Ókeypis ástanzskoðun.
SUBBUSKAPUR
svokallaðra ,,Hraðfréttamanna Ríkissjónvarps helltist yfir okkur við afhendingu Edduverðlauna í gærkvöldi (28.02.2016). Reykingar og bjórþamb á skjánum við verðlaunaafhenginu. Er þeim borgað fyrir að auglýsa bjór í sjónvarpinu? Auglýst er eftir sjálfsvirðingu Ríkisútvarpsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2016 | 11:14
Molar um málfar og miðla 1896
BARNAMÁL
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (24.02.2016) sagði fréttamaður: ,, .. og því verður leikurinn pínu sérstakur fyrir hana.. Ekki tala við okkur á barnamáli í fréttum. Ekki heldur í íþróttafréttum.
MEINLOKA
Af mbl.is um bíl sem náðist upp úr inntakslóni á hálendinu (24.02.2016): ,,Landsvirkjun lagði áherslu á að ná bílnum upp sem fyrst til að forða umhverfisóhappi, svo sem olíuleka, og til að koma í veg fyrir að bíllinn bærist ekki inn í inntaksmannvirki Búðarhálsstöðvar. Hér er ekki auðvitað ofaukið. Ekki óalgeng meinloka. Sjá mátti á fésbók að fleiri höfðu hnotið um þetta. Svo er skrifari ekki fullsáttur við að nota sögnina að forða í þessu samhengi. En það er víst smekksatriði. Sá á fésbók, að fleiri höfðu hnotið um þetta.http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/23/nadu_bilnum_upp_ur_loninu/
FYRIR RANNSÓKN MÁLSINS
Úr lögreglufrétt á dv.is (24.02.2106): ,,Maðurinn var svo vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Meinloka að mati Molaskrifara. Maður les þetta aftur og aftur í lögreglufréttum. Kannski tekið orðrétt úr gögnum lögreglunnar. Ekki betra fyrir það. Maðurinn var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Oft verið nefnt í Molum. http://www.dv.is/frettir/2016/2/24/framdi-innbrot-hja-fyrrverandi-unnustu/
MEIRA UM BLÓTSYRÐI
Í Molum gærdagsins var minnst á umræður um blótsyrði í útvarpi og sjónvarpi í Málskoti á þriðjudag í þessari viku. Það rifjaði upp fyrir skrifara, að í æsku var honum stranglega bannað að blóta , en braut það bann í einrúmi og tvinnaði þá saman blótsyrði í hljóði eftir bestu getu!
Aldrei heyrði hann sterkar tekið til orða á æskuheimili sínu, en ansans, og ef verra var, þá ansans ári , rækallinn, rækallans og hver ansinn, j,a hver ansinn. Þetta var raunar oft sagt í fremur jákvæðri merkingu.
Í enskunáminu í MR var ekki mikið gert af því að kenna okkur blótsyrði, en þegar skrifari kom til náms í háskóla vestur í Bandaríkjunum og gekk þar í skólabræðrafélag (e. fraternity, Greek society) voru skólabræðurnir fljótir að taka Íslendinginn í læri í þessum efnum. Sum blótsyrðin voru reyndar svo gróf, að þau íslensku hljómuðu í samanburði eins og barnahjal. Ein regla var þó í hávegum höfð. Aldrei mátti láta sér blótsyrði um munn fara í návist kvenna. Skrifara varð það einhvern tíma á að segja damn , svona í merkingunni hver árinn, hver fjárinn, þar sem stúlkur voru viðstaddar og fékk skömm í hattinn á eftir, frá skólabræðrunum. - Þú bölvar ekki í návist kvenna ( e. you don´t swear when ladies are present!) Svona voru nú siðareglurnar fyrir meir en hálfri öld þar vestra. Þetta svona rifjaðist við umræður í Málskoti sl. þriðjudag um óvenjulega sóðalegt orðbragð í beinni útsendingu Ríkissjónvarps á laugardagskvöld.
ENN EINU SINNI
Á fimmtudagskvöld (25.02.2016) voru auglýstir tónleikar í Hörpu þar sem fjöldi listamanna mundi stíga á stokk og flytja tónlist. Þetta var rangt. Auglýsendur kunna þetta ekki. Auglýsingadeildirnar kunna þetta ekki. Menn stíga á stokk til að strengja heit. En listamenn stíga á svið, koma fram og flytja okkur list sína.- Þetta er ekkert mjög flókið.
ÖRYGGI AUKIÐ MEÐ MERKINGUM
Glöggur lesandi benti skrifara á eftirfarandi: ,,Á annarri síðu Morgunblaðsins í dag, föstudaginn 26. febrúar, er frétt með fyrirsögninni Öryggi í Reynisfjöru aukið með merkingum. Þarna gætir hugsunarfeils hjá fyrirsagnasmiðnum. Merkingarnar auka ekki öryggi, þær vara við hættum. Molaskrifari þakkar bréfið. Auðvitað er rétt að merkingar vara við hættum, en þær stuðla jafnframt að auknu öryggi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.2.2016 | 13:10
Molar um málfar og miðla 1895
KONUR MENTORA KONUR
Í morgunþætti Rásar tvö (23.02.2016) var kynntur fyrirhugaður fundur eins og oft er gert , og oft er góð ástæða til. Konan, sem rætt var við, talaði oftar en einu sinni um konur, sem væru að mentora konur. Átti líklega við að konur væru að leiðbeina konum, aðstoða konur. Molaskrifari er ekki viss um að allir hlustendur hafi skilið hvað þarna var átt við. Þegar svona gerist ,er gott að spyrill hvái, eða spyrji hvað átt sé við. Ekki ganga út frá því að allir hlustendur skilji slettur úr erlendum málum.
ENN UM AÐ OPNA
Í Molum 1892 var nefnt að í fréttum hefði verið notað orðalagið að kjörstaðir opnuðu um það að kjörstaðir hefður verið opnaðir. Molaskrifari hafði vonað að tekist hefði að útrýma þessu orðalagi úr fréttum Ríkisútvarps. Svo er aldeilis ekki. Þetta gekk aftur í morgunfréttum Ríkisútvarps (23.02.2016) og ef til vill var þar sami fréttaskrifari að verki. Nú var villan eiginlega tvöföld. Verið var að fjalla um alræmdar fangabúðir Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu. Talað var um að fangabúðirnar hefðu opnað. Á vef Ríkisútvarpsins var þetta orðað svona: ,,Alls hafa 780 verið í haldi í búðunum frá því þær opnuðu í ársbyrjun 2002, en nú er 91 fangi þar inni.. Ef fangabúðir opna, ganga fangarnir sennilega út. Á öðrum stað í fréttinni var reyndar talað um að búðirnar hefðu verið teknar í notkun. http://www.ruv.is/frett/lidur-ad-lokun-guantanamo
Það er ekki rökrétt hugsun og líka röng málnotkun að tala um að fangabúðir opni.
DÓPAÐUR BÍLL
Þorvaldur skrifaði (24.02.2016):
,,Sæll Eiður.
Í morgun las ég í vefmogga, að löggan á Suðurnesjun hefði haft afskipti af ökumanni á bíl sem var undir áhrifum fíkniefna. Hvernig á maður að varast það, þegar maður fer út að aka ef bíldruslan er draugfull eða uppdópuð? Enn eitt dæmið um takmarkaða máltilfinningu. Molaskrifari fann þessa frétt ekki á mbl.is, en hana er hinsvegar á finna á vefnum frettirnar.is, en þar segir:,, Lögreglan á Suðurnesjum handtók um síðustu helgi mann undir stýri bifreiðar sem var undir áhrifum margskonar fíkniefna.. Þakka ábendinguna, Þorvaldur.
http://frettirnar.is/dopadur-fikniefnasali-handtekinn/
UM BLÓTSYRÐI
Skemmtileg umræða var í Málskoti á Rás tvö á þriðjudagsmorgni (23.02.2016) um blótsyrði og veigrunarorð, svokölluð. Orð sem notuð er í stað blótsyrða. Tilefnið var blótsyrði í beinni útsendingu í Söngvakeppni í sjónvarpi á laugarkvöld (23.02.2016). Molaskrifari naut þess að horfa ekki á þann dagskrárlið, en það er vel þess virði að hlusta á umræðurnar í Málskoti. Sjá: 01:18:20 eða þar um bil : http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20160223
En eftir að hafa séð þau grófu blótsyrði á prenti , sem valdið hafa uppnámi hjá mörgum , getur Molaskrifari ekki sagt a annað en það ,að svona sóðalegt orðbragð í beinni útsendingu væri brottrekstrarsök á alvöru sjónvarpsstöð- , - sjónvarpsstöð, sem væri vönd að virðingu sinni Sennilega hafa tugir þúsunda barna horft á þetta. Var Ríkissjónvarpið að segja börnum að það væri allt í lagi að segja fucking og shit? Aldeilis með ólíkindum. Hefur einhver beðist afsökunar? Kannski. En það hefur þá farið fram hjá mér.
SÖGUR FRÁ FÓLKI
,,Spegillinn leitaði eftir sögum frá fólki, sem ... var sagt í Spegli Ríkisútvarpsins (23.02.2016). Ef Molaskrifari hefði verið á vaktinni á og lesið yfir handrit, hefði hann leiðrétt þetta og skrifað: ,, Spegillinn leitaði eftir upplýsingum frá fólki, sem .. . Þannig vinnubrögð þykja víst ákaflega gamaldags nú um stundir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2016 | 09:05
Molar um málfar og miðla 1894
UM TALMÁL , HIKORÐ OG FLEIRA
Jón B. Guðlaugsson sendi Molum eftirfarandi bréf: ,, Heill og sæll, Eiður, og þakka þér móðurmálsvarðstöðuna.
Mér leika landmunir á að vita hvort þú deilir áhyggjum mínum af þróun íslensks talmáls. Þykir mér svo komið að hátíð megi telja ef einhver viðmælandi / umsjónarmaður/ fréttamaður kemur út úr sér óbjagaðri setningu frá upphafi til enda. Gildir einu hvort um er að véla lærða eða leika, þingmenn, ráðherra, vísindamenn - eða jafnvel þaulreynda starfsmenn fjölmiðla. Útvarpsmenn til margra áratuga virðast telja það sér til tekna að hefja yrðingar sínar án þess að hafa minnstu hugmynd um hvernig þeir ætla að ljúka þeim - og notast mikið við endurtekningu meðan þeir hugsa hvað eigi að koma næst:
....jafnvel....jafnvel....." - "... á....á.....á..." - "...í...í...í..."
eða aðeins "...öööö..."
Og hvar væru slíkir reynsluboltar staddir ef ekki væri smáorðið "....svona...."?
Af öðrum bætiflákum málhaltra orðhikenda má nefna:
náttúrulega - bara - sko - hérna - ég meina - eða þannig - ha - nú - eða svoleiðis - svoldið svona - "nebblega" - í rauninni - sem sagt - einhvern veginn - svona -
...og gleymum ekki "Nákvæmlega!" Né hinu sígilda "Allavegana".
Náskyldar þessum eyrnaraunum eru hvimleiðar áherslur á íslenskt talmál - sem virðast einkum til þess fallnar að gera tal viðkomandi einstaklinga "töff" og "kúl"! Sumir lista- og fjölmiðlamenn telja það móðurmálsfegrun að bera það fram með amerískum áherslum og framburðareinkennum; kúreka-hiki og seimdraga. Og svo eru þeir sem eru svo fljót- og linmæltir að allt tal þeirra þyrfti að flytja með neðanmálstexta! Jafnvel lærðir leikarar gera sig seka um slíkt þrugl; sleppa jafnvel endingum, kveða ekki að texta sínum, hirða ekki um skýr skil á milli orða og tala svo hratt að eyru meðaljónsins nema ekki merkinguna.
Eða eru eyru mín orðin svona sljó?
Stígðu heill á storð!
Jón B. Guðlaugsson
Molaskrifari þakkar bréfið. Hörð gagnrýni, en vaxandi notkun allskyns hikorða í ljósvakamiðlunum er greinileg þróun og hreint ekki af hinu góða.
EIN STÖÐ
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (22.02.2016): ,,Slökkviliðið var kallað út um tíu leytið í morgun til að slökkva eld sem logaði í sendiferðabíl .... Ein stöð var send á staðinn, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Ein stöð send á staðinn ??? Hún hefur kannski verið send með sendiferðabíl, eða hvað ?
http://www.ruv.is/frett/sendibill-brann-i-kopavogi- Þetta hefur svo sem sést áður.
SCANDINAVIAN STAR
Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (22.02.2016) var fjallað um eldsvoðann, sem varð af mannavöldum í ferjunni Scandinavian Star fyrir 26 árum. Þar létu 159 manns lífið. Nú er fullyr,t að þrír skipverjar hafi kveikt í á þremur stöðum um borð. Í fréttunum var sagt að brennuvargarnir hefðu hindrað útgönguleiðir. Það er ekki vel að orði komist. Þeir lokuðu útgönguleiðum. Þetta var og er skelfilegt mál.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)