Molar um málfar og miðla 1913

HROGNAMÁL

Þetta skrifaði starfsmaður 365 miðla, sennilega íþróttafréttamaður, á fésbókina á föstudagskvöld (18.03.2016):,, Svona gerist stundum í beinni. Okkur var kippt úr sambandi eftir leik Stjörnunnar og Njarðvíkur í kvöld. Við misstum allt hljóð úr headsettunum og ljósin fóru út.

Við héldum að við hefðum dottið úr loftinu og þá braust fram gangsterinn í mér.” Þetta eru nú ekki beinlínis verðlaunaskrif! Og varla snilld.

Og þessi ummæli voru höfð eftir þjálfara á mbl.is sama dag: „Sókn­ar­leik­ur­inn var ekk­ert frá­bær í síðari hálfleik en hann var nóg. Varn­ar­leik­ur­inn var „out­stand­ing.“ Þegar við spil­um góða vörn þá sköp­um við okk­ur svig­rúm þó sókn­in sé ekki hágæða.“ Það var og.

 

DROPINN OG MÆLIRINN

Og nú hefur dropinn fyllt mælinn, sagði bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum í hádegisfréttum Ríkisútvarps (20.03.2016). Hann átti við, að nú hefði kornið fyllt mælinn. Nú væri fólki í Eyjum meira en nóg boðið, nú væri mælirinn fullur. Algengt nokkuð, að farið sé rangt með þetta. Mæliker, mál, voru áður fyrr notuð til mæla korn. Sjá Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson, bls. 495. Oft verið nefnt í Molum.

Bæjarstjórinn sagði einnig, að meðan ekkert væri gert, gerðist ekki neitt. Það var auðvitað mjög spaklega mælt.

 

HÚSIÐ OPNAR

Húsið opnar klukkan nítján, sagði dagsrárkynningarrödd í Ríkissjónvarpinu á laugardagskvöld (19.03.2016), þegar verið var að kynna opin fund um heilbrigðismál í Háskólabíó. Húsið opnar ekki. Húsið verður opnað klukkan nítján. Villan var endurtekin í  tíu fréttum á mánudagskvöld (21.03.2016), en í Kastljósi   sama kvöld var réttilega sagt, - húsið verður  opnað.  Prik fyrir það.

 

 

ENN EITT DÆMI ...

Úr frétt af mbl.is (19.03.2016): ,,Frosti Sig­ur­jóns­son, þing­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins, var ekki skemmt yfir um­mæl­um Vil­hjálms um Fram­sókn­ar­flokk­inn en að sögn Vil­hjálms nær óbeit hans á flokkn­um allt aft­ur til þess er hann var átta ára gam­all og fór að kynna sér stjórn­mál.” Þessi setning ætti auðvitað að hefjast svona: ,,Frosta Sigurjónssyni þingmanni Framsóknarflokksins var ekki skemmt .... “ Skortur á máltilfinningu. Vilhjálmur,sem nefndur er í setningunni, er Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokks. Glöggur maður,sem segir skoðanir sínar umbúðalaust, skýr og skorinorður. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/19/med_obeit_a_framsokn/

 

DUNGAL

Það eru sjálfsagt ellimörk á Molaskrifara, að oft finnst honum endurtekið efni vera með því besta sem er á boðstólum á Rás eitt. Á laugardagsmorgni (19.03.2016) var endurfluttur einn þriggja þátta (2:3) sem Árni Gunnarsson fréttamaður, seinna þingmaður og framkvæmdastjóri gerði um prófessor Níels Dungal árið 2004. Fínn þáttur. Dungal var frumherji á mörgum sviðum, til dæmis í baráttunni gegn reykingum, en maður umdeildur. Molaskrifari man enn hvað hann las bók Dungals , Blekkingu og þekkingu af mikilli áfergju á gelgju- unglingsárunum, mótþróaárunum! Bókstaflega gleypti hana í mig. Trúði öllu sem þar stóð. Eins og nýju neti. Þetta var um svipað leyti og ég fyrst las Bréf til Láru og Alþýðubók HKL! Þá var ég sannfærður kommúnisti. Það rjátlaðist af mér fljótlega eftir fermingu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um máfar og miðla 1912

 

MEIRI ENSKA

Í Garðapóstinum, (17.03.2016), sem dreift er í hús í Garðabæ, er sagt frá nýrri hárgreiðslustofu. Stofan heitir:  Deep House Hair og byggir á Walk-in kerfi. Kannski er stofan eingöngu ætluð enskumælandi fólki, sem býr í Garðabæ? En svokallað Walk-in kerfi mun þýða að ekki þurfi að panta tíma. Svo er auðvitað bara púkó og sveitó, eins og sagt var í gamla daga að gefa nýrri hárgreiðslustofu íslenskt nafn. Enskan er í sókn. Hvað þýðir annars Deep House Hair? Molaskrifari á að heita löggiltur  skjalaþýðandi úr og á ensku , en þetta skilur hann ekki. Sennilega er þetta bara merkingarlaust bull.

 

ÁREKSTUR

Á mbl.is (16.03.2016 ) var sagt frá þriggja bíla árekstri á Skothúsvegi í Reykjavík. Í fréttinni sagði: ,, Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins var kallað út fyr­ir skömmu vegna þriggja bíla árekst­urs á Skot­hús­vegi, eða þar sem brú­in ligg­ur yfir Reykja­vík­urtjörn. “ . Hefði ekki verið einfaldara að segja að áreksturinn hefði orðið á Tjarnarbrúnni ( á Skothúsveginum) ? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/16/thriggja_bila_arekstur_2/

 

HUGSUNARVILLA?

 Glöggur lesandi benti Molaskrifara (18.003.2016) á eftirfarandi úr fésbókarpistli sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifaði til varnar eiginkonu sinni, sem varðveitir auð sinn á skattaskjólseyjunni Tortólu: ,, En þegar menn leggjast svo lágt að velta því upp hvort kona mín eigi ekki að teljast til hrægamma fyrir að hafa tapað peningum á bankahruninu get ég ekki látið það óátalið. Enginn á slíkar ákúrur síður skilið en hún.” Í þessu er hugsunarvilla, að Molaskrifari fær best séð. Einu ekki er þarna ofaukið.

 

BARNAMÁL Á SMARTLANDI

Fyrirsögn á barnamáli er á  svo kölluðu Smartlandi á mbl.is (17.03.2016). Þaðan er maður reyndar öllu vanur: Vann sig í þrot og klessti á vegg. Þarna þyrfti einhver fullorðinn að vera til eftirlits. Sjá: http://www.mbl.is/smartland/frami/2016/03/17/vann_sig_i_throt_og_klessti_a_vegg/

 

LJÁÐI

Göggur lesandi benti Molum á eftirfarandi á mbl.is (20.01.2016): ,,Hand­ritið fyr­ir Frozen 2 er nán­ast til­búið. Þetta seg­ir leik­kon­an Kristen Bell en hún ljáði Önnu prins­essu rödd sína í mynd­inni.” Ljáði rödd sína. Það var og http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/19/handrit_frozen_2_naestum_tilbuid/

 

GETTU BETUR

Spurningaþættir geta verið skemmtilegir í sjónvarpi, en þegar þeir eru teygðir upp í næstum einn og hálfan klukkutíma eins og lokaþáttur Gettur betur var síðastliðinn föstudag (18.03.2016) verða þeir eiginlega langir og  leiðinlegir.

 

FLJÚGANDI SKIP?

Svona spyr Áskell í tölvubréfi til Molaskrifara. Til efnið er frétt á mbl.is (16.03.2016) með fyrirsögninni:

 "Arg­entínu­menn skutu niður kín­verskt skip" Hann spyr: Getur verið að skipinu hafi verið sökkt? – Já, það kemur reyndar fram í upphafi fréttarinnar. Þetta orðalag er Molaskrifara ekki framandi. Hefur oft heyrt að skip, sem sökkt hefur verið, hafi verið skotin niður. Þakka bréfið, Áskell. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/16/argentina_skaut_nidur_kinverskt_skip/

 

 NÝBÓNAÐIR SKÓR

Af mbl.is (20.03.2016): ,,Hann var klædd­ur hvítri skyrtu, blárri peysu, bux­um úr flau­eli, jakka og svört­um skóm sem voru ný­bónaðir.”

Nú er samkvæmt Mogga farið að bóna skó! Molaskrifari hefur til þessa aðeins heyrt talað um nýpússaða eða nýburstaða skó. En maður er alltaf að heyra eitthvað nýtt!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1911

FISKUR OG FISKI

Rafn skrifaði (16.03.2016): ,,Sæll Eiður

Fólk virðist vera hætt að gera greinarmun á karlkynsorðinu fiski (fiskur-fisk-fiski-fisks), sem er notað um sjávardýr, og kvenkynsorðinu fiski (fiski-fiski-fiski-fiskjar), sem merkir fiskveiðar. T.d. var í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi talað um fiskihjalla suður á útnesjum. Slíks fyrirbæris hefi ég aldrei heyrt getið fyrr, þótt fiskhjallar hafi verið algengir í mínu ungdæmi. Þeir voru hins vegar aldrei notaðir til veiða.

Sama villan gengur ítrekað aftur, samanber „Fiskikónginn“, sem selur fisk en kemur mér vitanlega ekki nálægt veiðum, fiskibollur og ótal fleiri dæmi.” Kærar þakkir, Rafn,. Réttmæt ábending.

 

VISA INK

Í fréttayfirliti fyrir kvöldfréttir Ríkisútvarps á miðvikudagskvöld var enn einu sinni talað um Visa ink, án allra skýringa, - sennilega var átt við Visa í Bandaríkjunum, Visa Inc. (incorporated). Í fréttatímanum var sagt: ... þegar verðmæti Borgun jókst mikið. Verðmæti (fyrirtækisins) Borgunar jókst mikið.

 

ENN UM ÞOLMYND

Hér hefur oft verið bent á að germynd er ævinlega betri í fréttaskrifum en óþörf þolmynd. Þetta er af mbl.is (15.03.2015): ,,Flug­vél­arn­ar voru kyrr­sett­ar af SAS árið 2007 vegna vanda­mála með lend­ing­ar­búnað.” SAS tók vélarnar tímabundið úr umferð, eða notkun, vegna bilana í lendingarbúnaði fyrir 9 árum. Þetta eru víst  ,,nýju vélarnar”,sem Flugfélag Íslands var að kaupa.  Eða hvað? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/15/ein_af_kyrrsettum_flugvelum_sas/

 

EKKERT VIÐ AÐ BÆTA

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (16.03.2016) heyrði Molaskrifari ekki betur en ágætur fréttaþulur segði í frétt um málefni Landsbankans:,, Upplýsingafulltrúi bankans segir ekkert við yfirlýsinguna að bæta.” Vonandi var þetta misheyrn.

 

 

ÞARFUR ÞÁTTUR

Kiljan hans Egils Helgasonar er þarfur þáttur og vel unninn. Þar er vakin athygli á svo mörgu , sem annars færi fyrir ofan garð og neðan, - að minnsta kosti hjá þeim,sem þetta skrifar. Svo hefur Egill greinilega svo gaman að þessu, að hann eiginlega iðar í skinninu. Það er meðal þess sem gerir þáttinn góðan.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla1910

EFTIR AÐ ....

Molavin skrifaði (15.03.2016): "Tveir lög­reglu­menn særðust, ann­ar þeirra al­var­lega, eft­ir að hafa fengið skot í höfuðið." Úr frétt á mbl.is 15.3.2016. Ætli þeir hafi ekki særst ÞEGAR þeir fengu skot í höfuðið. Varla löngu síðar. Þessi "eftir-plagsiður" fréttaskrifara er nýlunda en sést ótrúlega víða. Hugsunarleysi og eftirlitsleysi fara því miður víða saman á fjölmiðlum. “  Rétt athugað, Molavin. Þakka bréfið.

 

SLÖK  SKILTAGERÐ

H.H. sendi Molaskrifara línu og mynd  af skilti frá  Mathúsinu í Flugstöðinni.  Á skiltinu stendur á  ensku:  ,,Please use  the baking paper  while you grill your  sandwich”. Látum þetta nú vera, þótt betur  færi ef til vill á að segja :  Please use the baking paper when grilling your  sandwich”.  En  íslenski textinn er  ekki traustvekjandi: Hann er  svona: ,, Notið bökunarpappír þegar grillað er samlokunar” Ótrúlegt en satt. Það þyrfti mikið  til að Molaskrifari hefði lyst á samloku frá þessu fyrirtæki.

 

AÐ KVEÐJA SÉR HLJÓÐS

Að kveðja sér  hljóðs er að  biðja um orðið, taka til máls.  Í frétt á  visir.is (15.03.20116) segir, að  þingmaður hafði brugðist illa við  svörum fjármálaráðherra við  fyrirspurn á Alþingi. Í fréttinni segir: ,,Þetta gerði hann á þingi í dag eftir að hafa kveðið sér hljóðs um fundarstjórn forseta.” Eftir að hafa kvatt sér  hljóðs  hefði þetta átt að vera að mati og samkvæmt máltilfinningu Molaskrifara.  http://www.visir.is/kristjan-gerir--mjog-alvarlega-athugasemdir--vid-svar-bjarna-um-borgunarmalid/article/2016160319177

 

 

URÐU VARIR VIÐ SKOTHVELLI

Í frétt á mbl.is  (15.03.2015) segir,, Lög­reglu­menn hafi þá orðið var­ir við skot­hvelli sem virt­ust koma frá fiski­hjöll­um þar skammt frá. “ Urðu varir  við skothvelli?  Heyrðu skothvelli , hefði maður haldið að þetta ætti að vera. Svo voru þetta  ekki  fiskihjallar. Þetta voru trönur , - um það segir  orðabókin, -  trönur  -trégrindakerfi til að þurrka, herða fisk á. Hjallur er allt annað, -  í málvitund  Molaskrifara.  Í Þórshöfn í Færeyjum var hann svo lánsamur  að búa um skeið í húsi þar sem var hjallur. Húsið var ekki neinn hjallur, en  kalda geymslan var hjallur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/15/oskudu_sersveitar_vegna_hvellbyssna/

 Bóndi austur í sveitum,sem notað hefur svona  gashvelltæki til að fæla  álftir og gæsir  af ökrum og túnum, segir Molaskrifara að það taki  fuglana bara nokkra daga að venjast hvellunum. Svo halda þeir bara áfram að éta og   skemma tún og  akra.

 

GÓÐ DAGSKRÁRGERÐ?

Er það góð dagskrárgerð að senda út  danska þætti um kökubakstur (Det søde liv)  á besta tíma kvölds eins og  Ríkisjónvarpið gerði á þriðjudagskvöld (15.03.2016)?  Nei. Það finnst skrifara ekki.  Það er stundum eins og markvisst sé   verið að hrekja  stóra  hópa  frá  Ríkisskjánum. Kökuþættir  geta svo sem verið í lagi, - en ekki á besta tíma kvölds.   

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1909

SVARLEYSI BJARNA

Í fyrirsögn á mbl.is ( 14.03.2016) segir: Kvörtuðu undan svarleysi Bjarna. Þingmenn höfðu kvartað yfir því að Bjarni Benediktsson hefði ekki svarað fyrirspurn, sem beint hefði verið til hans. Molaskrifari játar að orðið svarleysi hefur hann aldrei heyrt áður. Var ekki verið að kvarta yfir þögn ráðherrans, - að hann hefði þagað þunnu hljóði í stað þess að svara fyrirspurninni?

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/14/kvortudu_undan_svarleysi_bjarna/

 

ENSKAN

Sókn enskunnar er eins og farg á móðurmálinu. Þegar þáttur var kynntur á Rás eitt í Ríkisútvarpinu á mánudagsmorgni (14.03.2016) var sagt að í þættinum yrðu flutt instrumental eða leikin lög. Það var öldungis óþarft að nota þarna enskt orð, sem er eins víst að ekki allir útvarpshlustendur hafi skilið.

 

FASTEIGNAAUGLÝSINGAR

Ágæt umræða var í Málskotinu í morgunþætti Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (15.03.2016). Rætt var um málfar í fasteignaauglýsingum. Þarft að vekja máls á þessu. Það er hrein undantekning að sjá villulausa auglýsingu af þessu tagi. Hefur reyndar stundum verið nefnt hér í Molum. Svo verða lesendur að kunna að lesa úr orðalagi. Þegar sagt er til dæmis, eign (fasteignasalar kalla allt eign) sem gefur mikla möguleika, þá þýðir það á mannamáli yfirleitt að rífa þarf allt innan úr húsinu eða íbúðinni sem verið er að reyna að selja.

 

ENN UM AÐ STÍGA Á STOKK

Á sunnudaginn var (13.03.2016) var opnuð á vegum Vesturfarasetursins á Hofsósi í Hörpu ljósmyndasýningin Þögul leiftur, sem ættfæðingurinn Nelson Gerrard á Eyrarbakka í Manitoba hefur sett saman. Fróðleg sýning og vel upp sett. Vel þess virði að gera sér ferð í Hörpuna til að skoða þessa merku sýningu um landnemana vestra. Á undan opnuninni var flutt tónlist í Hörpuhorni, þar sem hljómburður er fádæma góður. Þar söng Karlakórinn Heimir. Þóra Einarsdóttir söng einsöng og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sté óvænt fram úr áhorfendahópnum og lék á flygilinn með söng Þóru. Bæði skiluðu sínu frábærlega vel, - sem og kórinn, svo unun var á að hlýða. Menntamálráðherra nefndi þetta á fésbók, en hann steig ekki á stokk, eins og það var orðað á fésbókinni og nú er æ oftar sagt um þá sem koma fram og flytja tónlist. Að stíga á stokk er að strengja þess heit að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, eins og oftlega hefur nefnt í Molum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1908

 

UNDIR YFIRBORÐINU

Molavin skrifaði vegna fréttar á mbl.is (12.08.2016) "Ekki er vitað hvort kaf­bát­ur­inn sé sokk­inn eða ein­ung­is und­ir yf­ir­borðinu..." segir í frétt á Netmogga 12.03.2016. Væntanlega er hér átt við að hann sé "neðansjávar." Það verður æ algengara að blaðamenn þekki ekki íslensk hugtök og reyni sjálfir að þýða orðrétt úr ensku. - Kærar þakkir Molavin. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/12/leita_ad_kafbati_vid_nordur_koreu/

 

AÐ LJÚKA FRAMKVÆMDUM

Eftirfarandi er af fréttavef Ríkisútvarpsins (13.03.2016) ,,Í umfjöllun Herald kemur fram að strax næsta ár fór að síga á ógæfuhliðina og næstu tvö árin tókst ekki að ljúka við neinum framkvæmdum á tilsettum tíma .Svona var þetta reyndar einnig lesið í fjögur fréttum útvarpsins. http://www.ruv.is/frett/gomlu-verkefni-fl-group-beitt-gegn-trump Og óbreytt var þetta lesið í fréttum klukkan 18 00. Enn er spurt. Hlustar enginn í Efstaleiti, eða heyrir enginn?

 

ÓÞÖRF ÞOLMYND

Oft hefur hér í Molum verið minnst á hvimleiða og óþarfa notkun þolmyndar. Þorvaldur skrifaði (13.03.2016): "Maðurinn var svo handtekinn af lögreglunni kl. 5 í morgun og færður í fangageymslu lögreglunnar á Akureyri" Svona var sagt frá í frétt vefmogga í dag af skothríð á Akureyri. Á íslensku væri þetta: "Lögreglan handtók svo manninn kl. 5 í morgun og færði hann í fangageymslu sína". Satt og rétt, Þorvaldur. Þakka ábendinguna. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/13/var_ein_heima_asamt_2_ara_barni/

 

 

HANDLAGÐIR HNÍFAR

Nokkuð er algengt að sjá í lögreglufréttum í fjölmiðlum að lögreglan hafi haldlagt eitthvað, lagt hald á eitthvað, gert eitthvað upptækt, tekið eitthvað í sína vörslu. Í frétt á mbl.is (13.03.2016) segir hinsvegar: ,,Fundu lög­reglu­menn einnig hnífa í fór­um hans og voru þeir hand­lagðir.” http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/13/vimadir_okumenn_um_alla_borg/ Vímaðir ökumenn eru víst ökumenn í vímu vegna fíkniefna- eða áfengisneyslu.

 

AÐ VALDA

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (12.03.2016) var sagt frá manni sem ógnaði öryggisverði á Landspítalanum. Fréttaþulur sagði:

,, Maðurinn hafði einnig ollið skemmdum .....” Átt var við að maðurinn hefði einnig valdið skemmdum. Sögnin að valda vefst fyrir reyndustu mönnum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1907

Í NÓTT

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag (12.03.2016) var sagt , að aflýsa hefði þurft kosningafundi Donalds Trumps í Chicago í nótt.  Fundinn átti ekki að halda í nótt heldur í gærkvöldi. Þetta var rétt í yfirliti í lok frétta. Þar var sagt, að fundinn hefði átt að halda í gærkvöldi. Molavin vék að þessari tilhneigingu fjölmiðla að færa alla viðburði erlendis yfir á íslenskan tíma í bréfi til Molanna fyrir helgi (Molar 1906).  Hvernig væri að fréttastofan setti sér þá vinnureglu að nota staðartíma,  þegar greint frá atburðum erlendis? Það  er einföld regla. 

 

VERÐLAUNUM LANDAÐ
Í þessari frétt (10.03.2016) talar ferðamálaráðherra ráðherra um að verðlaunum hafi verið landað. Íslenskar kvikmyndir unnu til verðlauna. Sennilega er ráðherrann hér að apa eftir íþróttafréttamönnum, sem stundum tala um að landa sigri. Ekki er það til fyrirmyndar,

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/10/kvikmyndaendurgreidsla_haekkar_i_25_prosent/

 

ÚRSKURÐUR, EKKI DÓMUR

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (10.03.2016):,, Hæstiréttur dæmdi í dag að háskólastúdent, sem stakk félaga sinn með hnífi aðfarnótt sunnudags, skuli sæta gæsluvarðhaldi til 6. apríl og sneri þar með við úrskurði héraðsdóms í gær.”  Þetta var einnig sagt í fréttum útvarps  klukkan 17 00 og í fréttum Ríkissjónvarps klukkan 1900.

Hæstiréttur var ekki að dæma; ekki að kveða upp dóm. Hæstiréttur var að úrskurða. Staðfesta varðhaldsbeiðni lögreglunnar. Er þetta ekki almenn lögfræði 101? Þetta heyrist því miður aftur og aftur í fréttum Ríkisútvarps og fleiri fjölmiðla.

http://www.ruv.is/frett/aftur-urskurdadur-i-gaesluvardhald

 

SAKAÐI EKKI

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (10.03.2016) var sagt frá þremur ferðamönnum, sem villtust í vondu veðri á leið í sumarbústað í Miðfellslandi við Þingvallavatn.Svo var sagt: ,,Lögreglumenn komu þeim í réttan bústað án þess að þær sökuðu”. Hér hefði að mati Molaskrifara átt að segja í lok setningarinnar: ,, .... án þess að þær sakaði”.

 

MENNINGARFRAMLAG MBL.IS

Menningarframlag mbl.is í íslensku fjölmiðlaflórunni er svokallað Smartland Mörtu Mörtu Maríu.

http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2016/03/10/homlulausir_slendingar_a_deit_sidum/

 

VONDUR GRAUTUR

Stundum hefur verið vikið að því hér í Molum hvernig til dæmis Stöð tvö hrærir saman íslensku og ensku í þáttaheitum, Ísland Got Talent er dæmi um slíkan hrærigraut. Jón Gnarr sjónvarpsstjóri kallar vikulegan þátt sinn á Stöð tvö Ísland Today. Ísland í dag er sennilega ekki nógu fínt. Þessu grautargerð er smitandi. Í sunnudagsmogga (13.03..2016) er sagt frá nýjum leikhópi. Og hvað skyldi hann heita? Improv Ísland! Dettur fólki ekkert betra í hug?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1906

UM TÍMA OG FRAMBURÐ

Molavin skrifaði (09.03.2016): ,, Forkosningar fóru ekki fram í nokkrum ríkjum vestanhafs í NÓTT eins og sagt var í fréttaskýringu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag, miðvikudag 9. mars. Það var kosið í gær og kosningum lauk árla kvölds þótt komin væri nótt í Reykjavík, þegar úrslit lágu fyrir. Þegar sagðar eru erlendar fréttir er rétt að halda sig við tímann á söguslóð; ekki hvað klukkan var í Reykjavík. Þá er því við að bæta að Michigan er ekki borið fram Mitsígan á ensku eins og þráfaldlega var lesið í fréttinni. Það er ekkert "t" í heiti ríkisins.” - Kærar þakkir, Molavin. Gott er að eiga glögga að.

 

FALLAVILLA

Glöggur lesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi á mbl.is (09.03.2016):,, Stofnaður hef­ur verið söfn­un­ar­reikn­ing­ur til styrkt­ar þeirra þriggja sem misstu allt í brun­an­um á Grett­is­götu fyrr í vik­unni.” Hér hefði átt að standa:,, ... til styrktar þeim þremur ...” Er þetta einhver þágufallshræðsla? Molaskrifari þakkar ábendinguna.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/09/hjalpa_theim_sem_misstu_allt/

 

FJÖGUR GÖGN

Af mbl.is (09.03.2016):,, Fjög­ur ís­lensk gögn voru í gær samþykkt form­lega inn á lands­skrá Íslands um Minni heims­ins.” Hér hefði eftir málvitund Molaskrifa átt að tala um fern íslensk gögn. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/09/efla_skilning_a_mikilvaegum_heimildum/

 

SÆNSKT LAUGARDAGSKVÖLD Í EFSTALEITI

Annað kvöld (11.03.2016) ætlar Ríkissjónvarpið á besta tíma, lungann úr kvöldinu ,að bjóða þjóðinni á söngvakeppni sænska sjónvarpsins í rúmlega tvo klukkutíma! Já, söngvakeppni sænska sjónvarpsins. Þetta efni mætti sem best sýna á sunnudagsmorgni til að gera þeim til góða  sem standa á öndinni og bíða málþola eftir verksmiðjuframleiddri popptónlist.

 

 

 

TILTÖLULEGA NÝR AF NÁLINNI

Ekki er allt mjög nákvæmt sem skrifað er í fylgiblaði Fréttablaðsins um bíla. Þar er til dæmis (08.03.2016) sagt um Volvo XC 90 :,, Þó að Volvo XC 90 jeppinn sé tiltölulega nýr af nálinni ...” Molaskrifari á Volvo XC90. Sá bíll var skráður í Færeyjum snemma árs 2008 og er því orðinn átta ára. Það þykir víst gamall bíll á Íslandi. Var skráður á Íslandi 19. janúar 2009.

Hann er í góðu standi, en ekki er hann nýr af nálinni. Þessir bílar hafa verið framleiddir lengi, eða allt frá 2002, feikilega vinsælir, en fyrir skömmu kom ný útgáfa á markað. Önnur kynslóð, segja þeir. Hið sígilda útlit er lítið breytt, en ýmsar tækninýjungar hafa gert bílinn enn betri.

 

STÓRT VEGGFÓÐUR

Í fréttum Ríkissjónvarps (08.03.2016) var fjallað um merkilega sýningu á verkum Jóhannesar S. Kjarvals á Kjarvalsstöðum. Sagt var að á sýningunni væri stórt veggfóður. Ekki þótt Molaskrifara það tiltakanlega vel orðað. Ekki hefði verið óeðlilegra að tala til dæmis um x fermetra veggfóður af veggjum vinnustofu Kjarvals í Austurstræti.

 

SPURNINGAÞÆTTIR

Þeir spurningaþættir, sem Ríkissjónvarpið býður okkur í vetur eru orðnir dálítið trénaðir. Mikið væri gaman, ef hægt væri að endurvekja menningarlegan spurningaþátt um tónlist, eitthvað í líkingu við Kontrapunkt, sem naut mikilla vinsælda hér á árum áður.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1905

NIÐURLÖG ELDS

Rafn spyr í bréfi (08.03.2016): ,,Sæll Eiður

Hefir þú heyrt talað um að vinna að niðurlögum elds eða einhvers annars??” Þakka bréfið , Rafn. Nei. Þetta orðalag hef ég aldrei heyrt. Geri ekki ráð fyrir að margir hafi heyrt svona til orða tekið. Rafn er hér að vísa til fréttar á mbl.is (07.03.2016) þar sem segir: ,, Er unnið að niður­lög­um elds­ins en vegna hættu­legra efna, sem finna má inni í hús­inu, hef­ur verið ákveðið að senda ekki slökkviliðsmenn þangað inn.” Hér hefði betur verið sagt , til dæmis: Unnið er að því að ráða niðurlögum eldsins , - unnið er að slökkvistarfi. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/07/logregla_leitar_tveggja_manna/

 

 TRÚVERÐUGLEIKI

Það skiptir máli fyrir félagasamtök, að talsmenn þeirra í fjölmiðlum séu trúverðugir. Molaskrifari hlustaði á talsmann (gott ef það var ekki varaformaður) Neytendasamtakanna í morgunútvarpi Rásar tvö (08.03.2016) tala um fyrirhugaðar arðgreiðslur tryggingafélaganna, sem hækkuðu iðgjöld vegna slæmrar afkomu, en ætla svo að greiða eigendum sínum hærri arð en nokkru sinni fyrr. Meðal þess sem fulltrúi Neytendasamtakanna sagði var: Ef horfir sem horfir, ætlaði sennilega að segja, - ef heldur sem horfir, - ef þróunin verður eins og útlit er fyrir. Og bætti við, - ... munu þau ekki bíta úr nálinni ... að segja að einhver sé ekki búinn að bíta úr nálinni með eitthvað, - þýðir að sá sem um er rætt sé ekki búinn að taka afleiðingum af einhverju eða gera sér grein fyrir neikvæðum afleiðingum einhvers. Hann hefði getað sagt: Þau eru ekki búin að bíta úr nálinni með þetta. Og svo talaði þessi fulltrúi Neytendasamtakanna um að hagsmunasamtök ætluðu að rotta sig saman. Að rotta sig saman er að mati Molaskrifara ævinlega notað í niðrandi merkingu, talað er um að menn rotti sig saman til illra verka. Hann hefði getað sagt að hagsmunasamtök ætluðu að starfa saman, vinna saman, hafa samvinnu um e-ð. Það var ótrúverðugt að hlusta á þetta.  – Var það ekki annars Félag íslenskra bifreiðaeigenda, sem varð fyrst til þess að vekja athygli á framferði vátryggingafélaganna, ekki Neytendasamtökin?

 

 

ELDUR VARÐ

Lengi hefur tíðkast að segja í fréttum bílvelta varð, í staðinn fyrir, - bíll valt. Ný útgáfu af þessu orðalagi heyrðist í seinni fréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld, þegar sagt var frá eldsvoða í verkstæðisbyggingu við Grettisgötu í Reykjavík. Þá sagði fréttaþulur: Mikill eldur varð á réttingaverkstæði ... Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja: Mikill eldur kom upp á réttingaverkstæði, eða mikill eldsvoði varð ... Það varð ekki eldur. Það kom upp eldur, það kviknaði í. Eða var kveikt í.

 

BDSM FRÉTTIR

Í fréttum, til dæmis í útvarpi, var framan af vikunni aftur og aftur talað um eitthvert BDSM félag og deilur í kring um það , án þess að nokkrar skýringar fylgdu með. Greinilega var gengið út frá því að hlustendur vissu nákvæmlega um hvað væri verið að tala. Molaskrifari kom af fjöllum. Það var ekki fyrr en hann hlustaði á morgunþátt Rásar tvö (08.03.2016) að málið skýrðist svolítið og vísað var til greinar á pressan. is. Þetta snerist sem sé um það sem margir mundu kalla kynferðislegan öfuguggahátt ( nú verður skrifari sakaður um fordóma) og Molaskrifara fannst ekki áhugavert umfjöllunarefni í fréttum Ríkisútvarps. Það var kannski ágætt að skýra þetta út í morgunútvarpinu. En hér er hin merkilega grein á pressan.is : http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_roggu_eir/eg-hef-akvadid-ad-stiga-fram_-

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1904

LYSTISKIPIN

Í fréttum Stöðvar tvö (07.03.2016) var sagt frá lystiskipum (sem ævinlega eru kölluð skemmtiferðaskip) sem væntanleg eru til landsins á árinu. Það fyrsta væri þegar komið. ,,Skipið heldur af landi brott í kvöld”, sagði fréttamaður. Kannski hefði verið betra að segja, að skipið léti úr höfn í kvöld. Fréttamaður sagði okkur líka frá Reykjavíkurhöfn að þar væri skítakuldi. Í Reykjavík var 3-4 stiga hiti á mánudaginn. Fáir kalla það sennilega skítakulda í byrjun mars. En auðvitað eru menn misjafnlega kulvísir.

 

VONIR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (07.03.2016) var talað um að binda vonir um eitthvað. Rétt er að tala um að binda vonir við eitthvað, vonast eftir einhverju. – Í morgunútvarpi (09.03.2016) var talað um nafnagift í staðinn fyrir nafngift.

Enginn les yfir.

 

KYNNINGARBLÖÐ Í FRÉTTABLAÐINU

Innan í Fréttablaðinu er blað eða síður, sem eru kallaðar Fólk. Í skýringu stendur: ,,Fólk er kynningarblað,sem býður auglýsendum að kynna vörur og þjónustu í formi viðtala og umfjallana. Í blaðinu er einnig hefðbundið ritstjórnarefni. Blaðið fylgir Fréttablaðinu daglega.” Þarna er  viðurkennt að blandað er saman keyptum viðtölum, stundum um snákaolíu af ýmsu tagi, auglýsingagreinum og ritstjórnarefni. Allt er þetta gert til að rugla lesendur í ríminu. Óvandað og ófaglegt verklag.

 

LAUGARDAGSFRÉTTIR

Fréttatími Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (05.03.2016) var svolítið skrítinn. Nokkrar manneskjur mættu til mótmæla fyrir utan skrifstofur Tryggingastofnunar ríkisins. Löng frétt um það. Spyrja mætti: Hversvegna fóru mótmælin ekki fram við Alþingi eða velferðarráðuneytið? Tryggingastofnun framfylgir reglum, sem Alþingi og ráðuneytið setja. Ekki skal dregið úr því að hlutskipti öryrkja er slæmt í okkar auðuga samfélagi. Alls ekki. En þetta var á mörkum þess að vera fréttnæmt  Svo var í fréttatímanum algjörlega innihaldslaust viðtal við mann, sem vill verða forseti Íslands.  – Ýmislegt fleira og fréttnæmara var að gerast þennan dag, sem fréttastofan sá enga ástæðu til að nefna.

 

VETTVANGUR , AÐILAR – OG FLEIRA ÚR FRÉTTUM

Hér hefur stundum verið talað um vettvanginn, sem oft ber á góma í fréttum (08.03.2016). Á þriðjudagsmorgni sagði viðmælandi fréttamanns, að slökkvilið væri búið að afhenda lögreglunni vettvang þar sem búið væri að slökkva eld, sem komið hafði upp í verkstæðisbyggingu. Einnig var talað um að stjórna vettvangi. Stöð tvö sagði okkur á þriðjudagskvöld, að hundrað björgunaraðilar hefðu verið á brunastað. Aðilar koma víða við sögu. Gott ef aðilarnir voru ekki á vettvangi.

Sama morgun var talað um að kjósa gegn tillögu (um greiðslu arðs) á aðalfundi. Átt var við að greiða atkvæði gegn tillögu. Molaskrifari leggur enn einu sinni eindregið til að málfarsráðunautur skýri fyrir fréttaskrifurum muninn á því að kjósa og greiða atkvæði. Þetta orðalag, - að kjósa gegn tillögu var reyndar einnig notað í forsíðufrétt í Morgunblaðinu sama dag.

Þá var sagt í fréttum:,, Allir þeir sem koma ólöglega yfir Eyjahafið verður snúið við ...” Þetta er rangt. Það hefðu fréttaskrifari og fréttalesari átt að skynja. – Öllum þeim sem koma ólöglega yfir Eyjahafið verður snúið við.- Þetta var sagt að minnsta kosti þrisvar í fréttum fram til klukkan níu. Í hádegisfréttum var búið að lagfæra þetta. Hlustaði enginn fyrr en undir hádegi?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband