Molar um málfar og miðla 1923

DAGSKRÁ ÚR SKORÐUM

Það var mjög eðlilegt að  dagskrá Ríkissjónvarpsins færi nokkuð úr skorðum á miðvikudagskvöld (06.04.2016) og lítið við því að segja. En þetta virtist eiginlega vera stjórnlaust. Dagskrárbreytingar, sem aldrei urðu, voru kynntar á skjáborða: Kiljan hefst klukkan 21 20. Hvað varð annars um Kiljuna? Engar skýringar voru gefnar, - svo ég heyrði að minnsta kosti. Þarna átti auðvitað að vera þulur á vakt ,sem tilkynnti þessar breytingar. Enn og aftur kemur í ljós að áður uppteknar, gamlar, niðursoðnar, dagskrárkynningar eru ekki boðlegar, þegar eitthvað breytist óvænt. Þarna hefði verið auðvelt að bregðast við og bæta þannig þjónustu við okkur. Það var ekki gert. Það var eins og dagskráin væri á sjálfstýringu þar sem enginn var bær til að taka ákvarðanir. Hvar voru yfirmennirnir? Þorði enginn að taka ákvörðun?

 

ENN UM AÐ STÍGA TIL HLIÐAR – ALLT Í RUSLI

Á miðnætti í fréttum Ríkisútvarps á miðvikudagskvöld (06.04.2016) talaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra enn um að Sigmundur Davíð ætlaði ,,að stíga til hliðar”. Bjarni hefði átt að segja að forsætisráðherra ætlaði að biðjast lausnar, segja af sér.

,,Stjórnarandstaðan er í rusli líka”, sagði Bjarni  í þessum sama fréttatíma . Það er sem sagt ,,allt í rusli hjá ríkisstjórninni”. Óheppilegt orðalag.

 

AÐFÖR

Fyrrverandi hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, birti grein í Morgunblaðinu í gær (07.04.2016) undir fyrirsögninni Aðför, - stysta fyrirsögn á fimm dálka grein, sem Molaskrifari man eftir að hafa séð. Það gagnrýnir hann harkalega hlut fréttamanna í viðtalinu við SDG forsætisráðherra 11. mars síðastliðinn.

Það verklag sem þar var notað er alls ekki nýtt af nálinni og hefur áður verið notað til þess að fá sannleikann fram. Þetta getur auðvitað verið umdeilanlegt. En þarna var þetta  réttlætanlegt. Forsætisráðherra var orðinn margsaga, margbúinn að segja okkur ósatt. Það þurfti að afhjúpa það.

Afar ólíklegt er að maður með hreina samvisku, hreint mjöl í pokanum hefði brugðist við eins og SDG gerði í þessu viðtali, sem nær öll heimsbyggðin hefur nú sjálfsagt séð. Það voru ekki vinnubrögð fréttamanna ,sem felldu hann. Það voru hans eigin  orð og gjörðir. Fréttamennirnir drógu sannleikann fram, - með töngum -kannski. Orð og gjörðir ráðherrans sjálfs urðu honum að falli. Það er ekki hægt að kenna fréttamönnum um það. Í lok greinarinnar segir fv. hæstaréttardómarinn: ,, Og þeir sem þessa dagana tala um lágkúru í umræðum um þjóðfélagsmál , ósannindi og skotgrafahernað ættu kannski að hugleiða hvort svona framferði eins og þessir fréttamenn viðhöfðu er ekki kannski fremur en nokkuð annað til þess fallið að auka veg lágkúrunnar”.

Sannleikurinn eykur ekki veg lágkúrunnar.

Segir ekki í bók bókanna: ,, ... og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa”. (Jóh. 8:32)

Og: ,,Sannmálar varir munu ávallt standast, en lygin tunga aðeins stutta stund.”. (Orðskviðirnir12:19)

Það er mikill vísdómur í Orðskviðunum.

 

AÐ SIGRA KEPPNINA

Í þættinum Spretti í Ríkissjónvarpinu á miðvikudagskvöld (06.05.2016) sagði umsjónarmaður og kynnir: ,,Það mun ráðast hér í kvöld hver sigrar einstaklingskeppni deildarinnar”.  Raun að þurfa að hlusta á þetta! Málfarsráðunautur leiðbeini þeim, sem þetta sagði. Það er hluti af starfinu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1922

GÆRKVÖLDIÐ Í PÓLITÍKINNI

 Molaskrifari hefur áður nefnt frábæra frammistöðu fréttastofu Ríkisútvarpsins í hinni pólitísku ringulreið undanfarna daga. Þar hafa margir lagt hönd á plóginn, lagst á eitt, og unnið vel, bæði fréttamenn og ekki síður tæknimenn. Þeirra hlut má ekki vanmeta. Gaumgæfinn og yfirvegaður Guðni Th. Jóhannesson prófessor og sagnfræðingur gaf allri þessari umfjöllun líka aukið vægi. Hann er í essinu sínu í sjónvarpi. Gerði þetta einstaklega vel.

 Í gærkveldi (06.04.2016) var eins og fréttastjórnin færi dálítið úr böndunum, - þarna var eiginlega hálfgert stjórnleysi í útsendingunni. Hvar voru fréttastjóri, dagskrárstjóri og útvarpsstjóri? Það hefði átt að hætta beinni útsendingu strax eftir ræðurnar og viðtölin í stiga þinghússins. Það kom eiginlega ekkert merkilegt fram eftir það. Svo voru tíu fréttir á dagskrá seinna um kvöldið. Raunar athyglisvert, að fjármálaráðherra, en ekki nýr forsætisráðherra skyldi byrja, ljúka og stjórna þessum stigaviðburði. Bjarni var forsætisráðherrann í stiganum.

Kastljósi var ofaukið. Það var hálf vandræðalegt. Það átti bara að halda fréttaútsendingunni úr þinghúsinu áfram strax að loknum veðurfréttum, - og hætta í stiganum þegar Bjarni og tilvonandi forsætisráðherra höfðu lokið máli sínu.

Es. það var auðvitað allt í lagi að ræða mótmælin á Austurvelli við erlenda ferðamenn, - þótt það fólk vissi lítið eða ekkert um málið. En látum það nú vera. Verra var fyrr í vikunni, þegar verið var að ræða mótmælin við smábörn, óvita. Það ætti ef til vill að varða við lög að koma þannig fram við börn. Blanda óvitum inn í pólitíska umræðu. Það var óafsakanlegur dómgreindarbrestur.

Í heildina var frammistaðan mjög góð. Takk fyrir það.

 En eftir stendur áreiðanlega í huga margra, að ríkisstjórnin glutraði þarna niður tækifæri til að lagfæra ásýnd sína og afla sér trausts hjá landsmönnum. Það tækifæri fór hjá garði. Eftir stendur sterkari Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum. Það eru vissulega tíðindi líka.

 

BRAGÐ - BRÖGÐ

Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifaði Molum (01.04.2016): ,, Ég lærði það í íslenskunámi mínu gegnum árin, að það væri bragð af mat, og það orðið væri ekki til nema í eintölu, en nú virðist færast í vöxt, að fólk tali um margskonar brögð af matnum. Það finnst mér hljóma undarlega í eyrum, enda lærði ég það, að orðið brögð í fleirtölu þýddi allt annað en bragð af mat, smb. orðatiltækið brögð í tafli. Ég ætlaði að spyrja þig, hvort þú hefðir ekki tekið eftir þessu, og hver þín skoðun er á þessu? Er hægt að tala um mörg brögð af mat? Mér finnst þetta hljóma eitthvað annkanalega í eyrum, vægast sagt.”

Þakka bréfið. Vissulega hef ég tekið eftir þessu. En mér er reyndar tamara að tala um bragð að mat, fremur en bragð af mat. Þetta er sérviska, því algengara mun að talað sé um bragð af mat. En svo segjum við bragð er að þá barnið finnur. Þá er verið að tala um eitthvað sem er svo úr hófi, að jafnvel barn geri sér grein fyrir því. Ég er sömu skoðunar og þú varðandi notkun þessa orðs í fleirtölu, rétt eins og fleirtölunotkun orðanna verð og ilmur, sem ég felli mig illa við, en þetta er sjálfsagt persónubundið eins og svo margt annað í málinu. Mjög oft nú orðið er í auglýsingum talað um góð verð og marga ilmi - gott verð og margskonar angan.

 

HALLAR UNDAN FÆTI

,,Þá fer nú að halla undan fæti hjá okkur hér í Samfélaginu”, sagði stjórnandi þáttarins Samfélagið á Rás í Ríkisútvarpinu á þriðjudag (05.04.2016). Hann átti ekki við, að þátturinn væri að geispa golunni, eða að þetta væru farið að þynnast hjá þeim. Hann átti við að sá tími, sem þættinum væri ætlaður í dagskránni væri að renna út, þættinum væri að ljúka. Alltaf betra að vita hvað orðtök þýða, þegar gripið er til þeirra.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1921

HRINGAVITLEYSA OG AÐ STÍGA TIL HLIÐAR

Enn þvældu stjórnmálamálamenn og einstaka fréttamenn um það í fréttum gærdagsins (05.04.2016) að Sigmundur Davíð væri að stíga til hliðar eða stíga niður. Í sjónvarpsfréttum gærkveldsins talaði Bogi réttilega um að hann væri að segja af sér. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði tilkynnt að hann ætlaði að segja af sér. Formleg afsögn tekur gildi á ríkisráðsfundi, þegar annað ráðuneyti tekur við. Afsögn er orðið sem á að nota, ekki stíga til hliðar eða stíga niður, sem sennilega er ættað úr ensku, step aside, step down. Það þýðir á íslensku að hætta, segja af sér , láta af störfum.

 Fram á kvöld í gær var atburðasrásin skír. Það þurfti engan ,,útskýrara”. Svo skír að leiðari Morgunblaðsins í dag (06.04.2016) er pólitísk eftirmæli. Kaflaskil heitir leiðarinn Pólitísk minningargrein um forsætisráðherraferil SDG. Eins og þruma úr heiðskíru lofti ( það var voru nú reyndar óveðursský á hinum pólitíska himni í gær) kemur svo í gærkvöldi tilkynning til erlendra fréttamanna, já til erlendra fréttamanna um SDG sé ekki búinn að segja sér, sé ekki hættur, hafi bara farið í frí um ótiltekinn tíma og varaformaður flokksins muni hlaupa í skarðið á meðan!!! Jóhannes ,,útskýrari” sá að þetta þurfti að skýra, því þetta var eiginlega allt á misskilningi byggt. Sigmundur Davíð hafði alls ekkert sagt af sér.

 Erlendir fjölmiðlar botna hvorki upp né niður í málinu , ekki fremur en íslenska þjóðin sem frétti þetta frá blaðamanni Financial Times og svo íslenskum samfélags- og fjölmiðlum. Fyrst klóra menn sér í hausnum, fara svo að hlæja og spyrja sjálfsagt: Er ráðamönnum á Íslandi ekki lengur sjálfrátt, eru þeir ekki með öllum mjalla?

 Hvað segja Sjálfstæðismenn nú? Eru þeir að semja nýjan stjórnarsáttmála andspænis einhverjum bráðabirgða forsætisráðherra, sem á að sitja í nokkrar vikur eða mánuði? Eða kannski heilt misseri áður en SDG, sem þingmenn Framsóknar kalla leiðtogann ( eiginlega vorn mikla og ástsæla eins og sagt var í Norður Kóreu), sest aftur á valdastól.

Enn einu sinni er búið að gera okkur að athlægi auk þess að draga nafn landsins niður í svaðið.

Nú hljóta Sjálfstæðismenn að setja hnefann í borðið. Hingað og ekki lengra. Þetta geta þeir ekki látið bjóða sér.

 

Annars skal ítrekað hér, að fréttastofa Ríkisútvarpsins stóð sig frábærlega vel í hinni pólitísku ringulreið gærdagsins, eins og Molaskrifari hefur raunar áður sagt á fésbók.

 

FYRIRSAGNIR

Daginn eftir mótmælafundinn mikla á Austurvelli (05.04.2016) sagði Morgunblaðið í forsíðufyrirsögn: Mörg þúsund mótmæltu. Á forsíðu Fréttablaðsins sagði: 22.000 mótmæltu. Það var haft eftir þeim sem skipulögðu mótmælafundinn. Forsíðumynd Fréttablaðsins sýndi manngrúann vel. Það gerði forsíðumynd Moggans hinsvegar ekki eins vel.

 

SKÖMMTUN

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (05.04.2015) var talað um ,, að skammta þyrfti vatni og rafmagni í ...” Hefði átt að vera: Að skammta þyrfti vatn og rafmagn.

 

BERA GÆFU TIL

Úr fésbókarfærslu fjölmiðlamanns (05.04.2016) ,, Svo mun okkur bera gæfa til að horfa til Norðurlanda í framtíðinni.Það er því miður allt of algengt að farið sé rangt með þetta orðtak. Þetta ætti auðvitað að vera: ,, Svo munum við bera gæfu til að horfa til Norðurlanda í framtíðinni”. Alveg óhætt að taka undir efni þess sem hér er var skrifað, - að horfa til Norðurlandanna.

 

 

 


 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1920

BAKKAFULLUR LÆKUR

Molaskrifari ætlar ekki að bera í bakkafullan lækinn í dag með umfjöllun um pólitíska atburði gærdagsins. Flest bendir til að dagar Sigmundar Davíðs í embætti forsætisráðherra séu taldir. Hann virðist hvorki njóta stuðnings sinna manna né þingmanna í samstarfsflokknum.

 

 AÐ SETJA OFAN Í VIÐ

Að setja ofan í við einhvern ,er að veita einhverjum tiltal, ávíta einhvern eða áminna. Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (01.04.2016) sagði fréttamaður um ummæli Steingríms J. um Fjármálaeftirlitið, Landsbankann og Borgunarviðskiptin:,, ... og setja alvarlega ofan í bæði Landsbankann og Arionbanka”. Hefði átt að vera: -.. setja alvarlega ofan í við ....

 

HVIMLEITT SKRUM

Fréttatímanum er vikulega stungið óumbeðið inn um póstlúguna hjá Molaskrifara. Þar er vissulega oft ýmislegt bitastætt að finna. En þar eru líka skrifaðar auglýsingagreinar, merktar sem ,,Kynningar” oft sagðar unnar í samstarfi við fyrirtækin, vörurnar eða snákaolíurnar sem verið er að kynna. ,,Unnið í samstarfi við Sæta svínið” , stóð við auglýsingagrein um veitingahús í helgarblaðinu (01.04 til 03.04.). Ef vel er að gáð sjá glöggir lesendur, að þarna er um að ræða hreinar auglýsingagreinar, sem sennilega er borgað fyrir að birta . Þetta er á norsku kallað tekstreklame, sjá: https://snl.no/tekstreklame

Þetta er í senn léleg  blaðamennska, að ekki sé meira sagt. Margir lesendur lesa þetta skrum í góðri trú á að hér sé um hlutlausa umfjöllun að ræða. Svo er ekki. En Fréttatíminn er sannarlega ekki einn um þetta.

 

SLETTUFYRIRSÖGN

Dæmi um slettufyrirsögn af visir.is (02.04.2016)

Kamelljón sem langar í taste af öllu. Frekar subbulegt.

Kamelljón vill bragða allt, reyna allt. Kann blaðamaðurinn, sem skrifar þessa frétt ekki íslensku? Sennilega ekki. Alla vega ekki mjög vel.

http://www.visir.is/kamelljon-sem-langar-i-taste-af-ollu/article/2016160409842

 

MEIRI SLETTUR

Forsetaframbjóðandi, sem ýmsir nefna, en sem enn segist vera að hugsa sig um, var á Sprengisandi á Bylgjunni (03.04.2016). Ekki heyrði Molaskrifari betur en hann segði:,, ...eins og við köllum á fínu diplómatamáli moving target. “ Moving target er enska og þýðir skotmark á hreyfingu. Molaskrifari var um skeið í utanríkisþjónustunni og hitti marga diplómata. Hann kannast ekki við þetta úr þeirra málfari, - skildi þess vegna ekki hvað átt var við. Þeir sem hyggja á búsetu á Bessastöðum ættu að einbeita sér að íslenskunni, þegar þeir tala við fólk.

 

SMARTLAND BREGST EKKI

Lesendum mbl.is hlýtur að vera létt að vita að nafngreind kona er ólétt.http://www.mbl.is/smartland/stars/2016/03/29/rakel_og_bjorn_hlynur_eiga_von_a_barni/

Smartlandið, sem Moggi kallar svo, bregst ekki frekar en fyrri daginn. Ættu óléttufréttir annars ekki bara heima á auglýsingasíðum Moggans?

 

MARGLYTTUR

Geir Magnússon skrifaði (03.04.2016): ,,Sæll vertu Eiður

Netmoggi birtir í dag frétt um marglyttur á ströndum Flórída.

í fréttinni er eignarfall fleirtölu “marglytta” sem ég hnaut um, fannst að það ætti að vera marglyttna. Talaði við Silju fréttastjóra mbl.is, sem tók máli mínu vel en sagði, eftir athugun, að Árnastofnun beygði þetta orð eins og það var í blaðinu.

Ekki veit ég hvernig Árnastofnum kemur inn í málið, en er ekki sannfærður. Hvað segir þú um þetta?” Á vef Árnastofnunar er Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. http://bin.arnastofnun.is/forsida/

 Þar er ef. flt. marglytta. Molaskrifari hefði annars haldið að hvort tveggja væri jafnrétt marglytta og marglyttna. Þakka bréfið.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1919

ÞRUMU LOSTIN ÞJÓÐ

Eftir Kastljós gærkvöldsins er þjóðin þrumu lostin. Forsætisráðherra á engan kost annan en að segja af sér. Forsætisráðherra Íslands og frú voru í gærkvöldi fréttaefni heimsmiðlanna, svona milli Pútíns og forseta Úkraínu . Það var þá líka landkynningin!

Morgunblaðið býsnast næstum yfir að Jóhannes Kr. Kristjánsson hafi fengið 1,5 milljónir fyrir sína vinnu við þennan sjónvarpsþátt. Það eru smámunir, - kannski átta til tíu vikna laun góðs blaðamanns á Mogga , -eða hálfsmánaðar ritstjóralaun, nær því þó sjálfsagt ekki.

Var ekki Jóhannes Kr. látinn fara frá Kastljósi Ríkisútvarpsins vegna þess að ekki var til fé að greiða honum laun? Man ekki betur.

 Jóhannes Kr. og allir sem unnu að þessu verkefni eiga mikinn heiður skilinn. Þetta var afrek. Í rauninni voru þetta mikilvæg þáttaskil í íslenskri fjölmiðlun og rannsóknablaðamennsku.

Við erum ekki aðeins þrumu lostin þjóð, heldur ekki síður í augum okkar sjálfra og umheimsins ,, hnípin þjóð í vanda” eins og þjóðskáldið orðaði það.

 .....

 

ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT OG FLEIRA

Molavin skrifaði (02.04.2016):,,Það er leitt að þurfa að endurtaka ávirðingar á fréttastofu Ríkisútvarpsins. En kannski er rétt að nefna bara nöfn, því þar virðist ekki tekið við almennum leiðbeiningum. Fyrirsögn fréttar (01.04.2016) á vefsíðu RUV segir: "Ferðamennskan ræni komandi kynslóðir landinu" og fréttina skrifar Kristín Sigurðardóttir. Þessi fyrirsögn er skrifuð í viðtengingarhætti, þótt viðmælandinn, landgræðslustjóri, tali í framsöguhætti. En viðtengingarhátturinn breytir merkingu orða hans. Þannig hljómar þetta eins og ákall til ferðaþjónstunnar um að ræna landinu frá komandi kynslóðum. Anna Sigríður Þráinsdóttir er málfarsráðunautur og ætti að hafa tekið á þessum vaxandi vanda fyrir löngur. En megin ábyrgðina ber Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri.” Molavin bætir við:,, Í framhaldi af þessu: Reyndur fréttamaður ríkisútvarpsins, Ævar Örn Jósepsson skrifar frétt um bíl Frans Páfa og segir (02.04.2016) "Fíat Frans páfa seldur fyrir metfé." Orðið metfé þýðir ekki há upphæð heldur dýrgripur. Orðið kemur ekki fyrir í fréttinni, aðeins fyrirsögn á vefsíðunni, svo kannski er Ævar Örn saklaus.” Molaskrifari þakkar Molavinbréfið og þarfar ábendingar,sem sumar hafa hér verið nefndar áður. Molaskrifari gerir ekki mikið af því að nefna nöfn einstakra fréttamanna, og enn minna af því að breyta bréfum sem vinir Molanna skrifa.

 

EKKERT SVAR

Hér hefur stundum verið vikið að því hve auðveldlega stjórnmálamenn víkjast átölulaust undan því að svara spurningum fréttamanna í ljósvakaviðtölum. Spurningum er ekki fylgt eftir og maður fær á tilfinninguna að spyrillinn hafi alls ekki verið að hlusta á þann sem spurður var. Kannski verið með hugann við næstu spurningu.

Dæmi um þetta mátti sjá og heyra í upphafi Kastljóss á fimmtudagskvöld (31.03.2016). Vigdís Hauksdóttir alþingismaður, formaður fjárlaganefndar, var spurð um væntanlegt frumvarp Framsóknarmanna um að aflétta leynd af gögnunum um bankamál,einkum það sem fellur undir svo kallaða ,,110 ára reglu”sem virðist svo alls ekki vera til! Spyrill sagði efnislega: - Það liggur fyrir að í þessum gögnum, sem verið er að vísa í að það eru innanum upplýsingar um einkahagsmuni,en samkvæmt lögum er opinberum aðilum óheimilt að veita aðgang að þannig upplýsingum. Hvernig takið þið á því í þessu frumvarpi? Viljið þið að öll þessi gögn verði opinberuð eða viljið þið undanskilja hluta þeirra?

Skemmst er frá því að segja, að formaður fjárlaganefndar flutti fyrirfram saminn ræðustúf, en kom ekki nálægt því að svara því, sem um var spurt. Spurningunni var ekki fylgt eftir – ekki beðið um svar, þegar ljóst var, að þingmaðurinn hafði ekki einu sinni reynt að svara spurningunni. Við sem heima sátum vorum þess vegna engu nær.

 

ENGIN REISN

Rétt fyrir kvöldfréttir á föstudagskvöld (01.04.2016) var flutt í Ríkisútvarpinu súkkulaðiauglýsing, sem var að mestu leyti á ensku. Þetta stríðir gegn reglum Ríkisútvarpsins.

Skeytir auglýsingadeild Ríkisútvarpsins hvorki um skömm né heiður?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1918

 

ÚR FRÉTTUM

V.H. skrifaði Molum eftirfarandi (29.03.2016): ,, Um páska var haldin tónlistahátíðin ,,Aldrei fór ég suður´´ og alltaf er fréttakona kom á skjáinn þá kom texti að hún talaði frá Vestfjörðum .. þegar hún talaði bara frá Ísafirði .. nóg að vera bara í einum firði í einu. Ekki satt ?

Lögreglan handtók mann sem hafði í sínum fórum heimagerð lögregluskilríki ... heitir það ekki bara fölsuð skilríki ?

Útikofi á Selfossi brann til kaldra kola ... útikofi! .. er þá til líka innikofi? Er ekki nóg að hafa bara kofa ?

Barn var afhöfðað í Asíu .. afhöfðað ? til er gamalt og gott orð yfir þetta athæfi hálshöggva.”

Molaskrifari þakkar V.H. bréfið. Bætir við að  orðið afhöfðað er augljós aulaþýðing úr ensku, beheaded. Allt eru þetta réttmætar athugasemdir. Vonandi komast þær til skila, - til þeirra sem þetta hafa skrifað.

 

ENN EIN ...

Enn ein dellufyrirsögnin af fréttavef Ríkisútvarpsins (31.03.2017): 27 milljón fiskar drepist í Chile. Lagt  er til að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins kenni fréttamönnum, sem ekki ráða við það að nota viðtengingarhátt, hvernig nota skuli viðtengingarhátt.   Þetta hefur raunar oft verið nefnt í Molum.

http://www.ruv.is/frett/27-milljon-fiskar-drepist-i-chile

 

 

UM FALLAVILLU

Rafn skrifaði (30.03.2016):,, Sæll Eiður

Klausan hér fyrir neðan var í mola nr. 1916. Hefði ekki verið rétt að snúa þessu alla leið á íslenzku og segja: 

,,Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur sér hafi ekki borið nein skylda til að …” Rétt athugað , Rafn. Þakka bréfið. Í Molum stóð:

,,FALLAVILLAÍ fréttayfirliti Bylgjunnar á skírdag (24.03.2016) var sagt: ,,Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur að hann hafi ekki borið nein skylda til að …” Enginn les yfir. Ekki frekar en venjulega. Ekki frekar en annarsstaðar. Honum hafi ekki borið nein skylda til ….”

Þakka bréfið, Rafn.

 

EKKI NÁKVÆMT

Í lítilli frétt á forsíðu Morgunblaðsins í dag (01.04.2016) segir: ,,Ekki ríkir 110 ára leynd yfir skjölunum um uppgjör gömlu bankanna,sem alþingismenn hafa fengið að skoða trúnaði, eins og hefur mátt skilja af fréttum”. Þetta hefur einkum mátt skilja af Framsóknarmönnum, - ekki fréttum almennt. Þetta tal um 110 ára leynd var rauði þráðurinn í ræðum Vigdísar Hauksdóttur, framsóknarþingmannsins,sem er formaður fjárlaga nefndar í Kastljósi í gærkvöldi. Þjóðskjalavörður lýsti svo yfir ,að þessi regla væri ekki til.

 


TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1917

 

KAUPMÁTTUR

Molavin skrifaði (29.03.2016): ,,Fréttastofa RUV hefur að undanförnu, bæði í útvarpi og sjónvarpi, fjallað um "kaupmátt eldri borgara." Ljóst má vera að ekki er hér átt við mansal - eða hvað fáist fyrir eldri borgara í viðskiptum - og því hæpið að tala um kaupmátt fólks; öllu heldur um kaupmátt ráðstöfunartekna umræddra aldurshópa.”. Þakka réttmæta athugasemd, Molavin.

 

ENN ER STIGIÐ Á STOKK

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á páskadag (27.03.2016) var sagt frá tónlistarhátíðinni á Ísafirði,sem lauk kvöldið áður. ,,Sjö flytjendur stigu á stokk”, var okkur sagt. Að stíga á stokk ( strengja heit) er notað um það þegar einhver lýsir því yfir að hann ætli að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Þetta orðalag er ekki notað um það þegar listamenn koma fram á sviði. En þetta heyrist því miður aftur og aftur , - og ekki bara í Ríkisútvarpinu.

 

VAR ALDREI Í SKÓLA

Í fréttum Ríkissjónvarp (26.03.2016) var rætt við Georg Breiðfjörð,sem varð 107 ára þann dag. Viðtalið var einnig birt á vef Ríkisútvarpsins . Bæði í viðtalinu og á vefnum segir: ,,Georg var aldrei í skóla, hann var aðeins í farskóla.  Farskólar voru líka skólar. Kennarar fóru milli bæja og kenndu, þar sem húsakynni voru rýmst og börn af nágrannabæjum sóttu kennsluna. Um þetta má meðal annars lesa í ágætri bók, ,,Faðir minn, kennarinn”, (Skuggsjá , Bókabúð Olivers Steins 1983) Þar má líka lesa hvað ungt fólk með menntaþrá, löngun, köllun nánast, til að kenna, lagði á sig mikinn þrældóm til að komast í skóla. Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess, að ungir fréttamenn viti að farskólar voru skólar.

 

STAFSETNING

Eitt þeirra grundvallaratriða, sem, kennt var í stafsetningu hér áður fyrr (ásamt með réttri ritun orðanna , einkunn, miskunn, forkunn og vorkunn) var að í orðinu þátttaka eru þrjú t. Sá sem skrifaði þessa frétt á vef Ríkisútvarpsins (29.03.2016) hefur farið á mis við þennan fróðleik:

,,Meðal annars ráðherra í ríkisstjórn Íslands og fjallað um þáttöku annars áhrifafólks í íslenskum stjórnmálum í starfsemi aflandsfélaganna, sem til þessa hefur farið leynt.” . Sjá: http://www.ruv.is/frett/thrir-radherrar-tengdir-skattaskjolum

 

VEL GERT

 Fróðleg  heimildamynd þeirra Páls Magnússonar og Jóns Gústafssonar um Alzheimer-sjúkdóminn var sýnd í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (30.03.2016). Sú fjölskylda fyrirfinnst örugglega ekki á Íslandi, sem ekki hefur haft kynni af þessum grimma sjúkdómi, sem engin lækning hefur enn fundist við. Það eitt er víst að sjúkdómurinn birtist ekki með nákvæmlega sama hætti hjá neinum tveimur einstaklingum. Þetta var vel gert. Rannsóknir vekja vonir.  

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1916

 

FYRIRSAGNIR

Hversvegna hafa tölustaf í upphafi fyrirsagnar: 1 árs stúlka hvarf úr rúmi sínu (mbl.is 25.03.2016) ?

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/25/1_ars_stulka_hvarf_ur_rumi_sinu/

 Hversvegna ekki: Eins árs stúlka hvarf úr rúmi sínu ? Betra.

 

STULDUR

Molaskrifari hefur oft velt því fyrir sér hvað íþróttafréttamenn eiga við, þegar þeir tala um að íþróttalið hafi stolið sigrinum, eða næstum stolið sigrinum (25.03.2016). Hvenær vinna menn sigur, sigra, og hvenær stela menn sigri?

 

ÚTGÁFA NAFNS

,,Nafn hans hefur ekki enn verið gefið út”, sagði fréttamaður í hádegisfréttum Bylgjunnar á föstudaginn langa (25.03.2016). Átt var við grunaðan hryðjuverkamann. Nafn hans hafði ekki verið birt, - ekki hefur verið greint frá nafni hans , hefði til dæmis verið eðlilegra að segja.

 

 

UM

,, ... en eru nú um þrjú þúsund áttatíu og sjö”, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (25.03.2016) um fjölda félaga í tilteknum samtökum. Voru félagarnir ekki bara þrjú þúsund átta tíu og sjö, 3087 ? Ekkert um.

 

FALLAVILLA

Í fréttayfirliti Bylgjunnar á skírdag (24.03.2016) var sagt: ,,Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur að hann hafi ekki borið nein skylda til að ...” Enginn les yfir. Ekki frekar en venjulega. Ekki frekar en annarsstaðar. Honum hafi ekki borið nein skylda til ....

 

 

 

 

EKKI GOTT

Í frétt Stöðvar tvö (25.03.2016) um tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður, var meðal annars sagt: ,, Hún segir fjöldi erlendra ferðamanna,sem sækja hátíðina fara vaxandi á hverju ári.” Ekki gott. Þarna hefði til dæmis mátt segja: Hún segir að erlendum ferðamönnum, sem sækja hátíðina fari fjölgandi á hverju ári.

 

UM FÉ

 Þetta er fyrirsögn af fréttavef Ríkisútvarpsins (25.03.2016):Líst ekki á millifærslu án meiri fjár. Þetta er ambaga samkvæmt málkennd Molaskrifara. Þarna hefði til dæmis mátt segja: Líst ekki á millifærslu án meiri fjármuna.

http://www.ruv.is/frett/list-ekki-a-millifaerslukerfi-an-meiri-fjar

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1915

1915-16

GÓÐ GÆÐI

Úr frétt á mbl.is (23.03.2016) ,, Neyt­enda­stofa hvet­ur inn­flytj­end­ur og dreif­ing­araðila end­ur­skins­merkja að vera viss­ir um að merk­in séu af góðum gæðum. “ Af góðum gæðum! Með öðrum orðum að merkin séu vönduð að allri gerð. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/03/23/endurskinsmerki_innkollud/

 

VIÐTENGINGARHÁTTUR

Í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (24.03.2016) segir:     ,, Icelandair fljúgi til Brussel á sunnudag”. Þessi fyrirsögn opinberar að sá sem hana samdi kann ekki að nota viðtengingarhátt. Þetta orðalag er út í hött. Icelandair fyrirhugar að fljúga til Brussel á sunnudag, þegar vonast er til að flugvöllurinn hafi verið opnaður fyrir flugumferð að nýju.

Annað dæmi um ranga notkun viðtengingarháttar í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins (25.03.2016): Sigmundur grafi undan efnahagslegu fullveldi. - Á þetta að vera hvatning?

http://www.ruv.is/frett/sigmundur-grafi-undan-efnahagslegu-fullveldi

Helgi Haraldsson, prófessor emerítus í Osló hnaut einnig um þetta og nefndi í tölvubréfi til Mola (26.03.2016). Helgi spyr: ,,Er RÚV að að hvetja forsætisráðherra til fjárhagslegra hryðjuverka? Ekki er nema von að spurt sé! Þakka bréfið, Helgi.

 

Er ekki ástæða til að málfarsráðunautur ræði þetta við fréttamenn? Fjalli um viðtengingarhátt, hvernig nota skuli.

 

ENSKAN

Hér er öðru hverju fjallað um stöðuga sókn enskunnar inn í tungu okkar. Bílaumboðið Askja auglýsti nýlega Ess jú ví bíla í útvarpi . Ekki er Molaskrifari viss um að allir hlustendur hafi skilið um hverskonar bíla þarna var að ræða. Hér er um að ræða bíla, sem á ensku eru kallaðir SUV, Sport Utility Vehicle, bíla með drif á öllum hjólum, oft kallaðir jeppar eða jepplingar á íslensku.

 Í morgunútvarpi Rásar tvö slá umsjónarmenn gjarnan um sig með enskuslettum. Á miðvikudagsmorgni talaði umsjónarmaður um internship, en þýddi síðan og talaði um starfsnám. Hversvegna þurfti líka að nota enskuna? Algjör óþarfi.

 Og svo má nefna að flugfélagið WOW segist ,,gjarnan höfða til fjölskyldunnar með skráningarnúmer ( reyndar eru það einkennisstafir, ekki númer, strangt til tekið) á flugflotanum”. Félagið nefnir þar til sögunnar TF MOM, TF DAD, TF SIS,TF BRO og TF KID! Kannski má virða fyrirtækinu það til vorkunnar að það er kannski ekki síður að höfða til útlendinga en íslendinga.

 Kona,sem setur efni á fésbók um foreldra sína (24.03.2016) notar fyrir fyrirsögnina Ma&Pa.

Á góðri leið með að meika það, er fyrirsögn af mbl.is (25.03.2016).

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/25/a_godri_leid_med_ad_meika_thad_5/

 

 Á þriðjudagsmorgni (29.03.2016) talaði umsjónarmaður morgunþáttar Rásar tvö um að nú væri ,,high season norðurljósanna”, - um þessar mundir sæist best til norðurljósanna. Hversvegna þessar sífelldu enskuslettur í þessum oft ágæta þætti? Margir kunna dálítið og jafnvel mikið í ensku, en hafa ekki þessa sterku þörf fyrir að vera sífellt að flíka enskukunnáttu sinni. Hvimleitt.

 

 Þetta eru aðeins örfá dæmi. Er fólki alveg sama?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla1914

SKORTUR Á FJARVERU

Ágætur Molalesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi í vefritinu Kjarnanum (20.03.2016): ,, Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og forsvarsmaður stærstu undirskriftasöfnunar Íslandssögunnar, segir skort á fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra frá Alþingi bitna á allri þjóðinni”. Biturt háð hjá Kára. Hann á ekki langt að sækja kaldrifjaðan húmor.

http://kjarninn.is/frettir/2016-03-18-segir-skort-fjarveru-sigmundar-davids-bitna-allri-thjodinni/

 

KLAUFALEGT

Í sunnudagsfréttum Bylgjunnar á hádegi (20.03.2016) var greint því að Íslendingur hefði ekki verið meðal hinna særðu í ódæðisverki ,sem framið var í Istanbul, - andstætt því sem stjórnvöld í Tyrklandi höfðu tilkynnt. Næsta kom svo úrelt frétt um að ekki væru fyrir hendi frekari upplýsingar um Íslendinginn, sem særst hefði! Þetta voru einkar klaufaleg vinnubrögð. Það var búið að vinna frétt. Um að gera að nota hana, þótt hún væri ekki lengur frétt.

 

ÁRTÍÐ  

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (20.03.2016) talaði mæt kona eins og á þessu ári væri hundrað ára ártíð Kristjáns Eldjárns fyrrverandi forseta Íslands. Sjötta desember á þessu verða liðin hundrað ár frá fæðingu Kristjáns. Ártíð er dánarafmæli. Hundrað ára ártíð Kristjáns verður 14. september 2082. Undarlegt hve mörgum verður fótaskortur á notkun orðsins ártíð.

 

 

DÝFLISSUSTRÝ

Hér í Molum var nýlega sagt frá nýrri hárgreiðslustofu í Garðabæ sem héti Deep House Hair. Vinur Molanna, sem er búsettur erlendis, hefur lagt til að stofan verði kölluð Dýflissustrý.  Góð hugmynd.

 

 

 

ER ÞAÐ ÖRUGGT?

Er það öruggt að enginn Íslendingur hafi særst? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps að kvöldi dags voðaverkanna í Brussel. Sendiherra Íslands, Bergdís Ellertsdóttir, svaraði af yfirvegun og skynsemi. Aðvitað var ekkert hægt að fullyrða um það. Ekki hafði verið greint frá þjóðerni þeirra, sem létust eða særðust. Áreiðanlega  voru tugir íslenskra ferðamanna í Brussel þennan dag, fólk sem sendiráðið vissi ekkert um og hafði ekkert samband haft við sendiráðið. Sendiráð Íslands og starfsfólk þess stóð sig greinilega með miklum ágætum þennan erfiða dag.

 

ORÐ AF ORÐI

Þáttur Önnu Sigríðar Þráinsdóttur, málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins, Orð af orði, er konfekt fyrir þá sem áhuga hafa á tungunni. Þátturinn sl. sunnudag (20.03.2016) var þar engin undantekning. Gaman að vangaveltum um uppruna landaheitisins Noregur. Rifjaðist upp fyrir mér, að vinur minn Ivar Eskeland, sagði alltaf að landið héti Noreg. Norge væri bara dönsk prentvilla!

 

OF OFT

,, Framsýn stéttarfélag hefur eftirlit með því að starfsfólk þessara félaga sé greitt samkvæmt kjarasamningum samningum og að ....” Svona var tekið til orða í hádegisfréttum Ríkisútvarps (22.003.2016).. Þarna hefði auðvitað átt að segja, , -  að starfsfólki þessara félaga sé greitt ... Villur af þessu tagi heyrum við of oft í fjölmiðlum.

 

 

 Nú ætlar Molaskrifari að sitja á strák sínum fram yfir páska og gera hlé á nöldrinu. Segir bara við vini, velunnara og lesendur:

 

GLEÐILEGA PÁSKA!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband