21.4.2016 | 07:38
Molar um málfar og miðla 1932
Gleðilegt sumar, kæru Molalesendur.
Þakka ykkur samskiptin í vetur.
AÐ SPILA LÍKAMLEGA!
Molavin skrifaði ((19.04.2016) : Þeir spila mjög líkamlega og fast... segir í upphafi íþróttafréttar Morgunblaðsins (19.04.2016). Hér er á ferðinni dæmi um það hve enskt mál er hráþýtt yfir á íslenzku, eða "orðabókarþýtt" eins og sagt var forðum. Google-þýtt væri það trúlega kallað í dag. Í ensku er sagt að leikmenn séu "physical" þegar þeir beita afli frekar en leikni í leik. Það var áður oft kallað í íþróttafréttum að vera "fruntalegir" eða "harðhentir." En aldrei "líkamlegir."
SIGURÐUR INGI FORMAÐUR!
Valur skrifaði Molum (18.04.2016): ,,Sæll Eiður.
Hér er frétt af vef Ríkissjónvarps er Kári Gylfason fréttamaður skrifar og gerir hann í fyrstu línu fréttar Sigurð Inga að formanni Framsóknarflokksins. En auðvitað er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknar ennþá. Synd að þurfa að kenna fréttamönnum hvernig stundum þau eru gefinn pólitísku spilin. Auðvitað sendi ég í tölvupóst um að þetta yrði leiðrétt .. en ekkert svar .. kannski er svarað í síma .. en það er ekki mín deild.
Afsakaðu þetta er ekki beint um málið okkar,heldur hugtaka/staðreyndarugl og hvernig má nota málið okkar illa.
http://www.ruv.is/frett/forsaetisradherra-fagnar-frambodi-olafs-ragnars
Kærar þakkir , Valur. Hroðvirkni. Enginn les yfir, fremur en endranær. Ein ástæðunum fyrir því að ég byrjaði að skrifa þessa Mola var sú að ég sendi fréttastofu Ríkisútvarpsins stundum tölvupóst með ,,vinsamlegum ábendingum, eins og ég kallaði það. Aðeins einu sinni svaraði fréttamaður og þakkaði ábendinguna. Annars talaði ég fyrir daufum eyrum. Ekki hissa á að þú skulir ekki hafa fengið svar.
ÞAR SÍÐASTA VIKA
Í fréttum á miðnætti á mánudagskvöld m(18.04.2016) talaði fréttamaður um þar síðustu viku. Hvað er þar síðasta vika?
Molaskrifari játar fúslega að það veit hann ekki. Er það síðasta vika eða vikan þar á undan? Norðlenskur vinur Molaskrifara segist hafa vanist þessu orðalagi frá barnæsku, þegar talað sé um vikuna á undan fyrri viku, eða vikunni sem leið. Molaskrifari hefur ekki heyrt þetta orðalag fyrr en í fjölmiðlum undanfarin ár, en hann er náttúrulega Sunnlendingur, Suðurnesjamaður með íblöndun austan af fjörðum.
AÐ KJÓSA MEÐ
Þetta orðalag heyrist æ oftar. Margir fréttamenn virðast ekki gera sér grein fyrir því að það er munur á að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. Oft hefur verið vikið að þessu hér í Molum. Á þriðjudagsmorgni var í fréttum Ríkisútvarps talað um að kjósa með tillögu, þegar segja hefði átt, - að greiða atkvæði með tillögu. - Þegar greidd eru atkvæði á Alþingi segir þingforseti: Atkvæðagreiðslan er hafin. Atkvæðagreiðslunni er lokið. Hann segir ekki: Kosningin er hafin. Kosningunni er lokið. Þegar Alþingi kýs í ráð og nefndir fer fram kosning. Atkvæði eru greidd um frumvörp og breytingatillögur. Það er ekki kosið um breytingatillögur á Alþingi. Þetta er ekki flókið. Enn einu sinni er mælst til þess, að málfarsráðunautur skýri þetta út fyrir þeim fréttamönnum, sem er þessi munur ekki ljós.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2016 | 09:37
Molar um málfar og miðla 1931
AÐ KOMA Í KOLL
Helgi Haraldsson, prófessor emerítus í Osló, benti Molaskrifara (18.04.2016) á eftirfarandi úr Kjarnanum:
,,Hótanir Sádi-Araba gætu komið í bakið á þeim sjálfum
Helgi segir:
,,Enn verra, ef það kæmi þeim sjálfum í koll! Satt segirðu, Helgi. Þakka ábendinguna.
HEILU OG HÖLDNU
Molavin skrifaði (18.04.2016): " Þeir hafi allir komist heilir á höldnu á land..." segir í frétt á ruv.is í dag, 18.04.2016. Á þetta hefur áður verið bent í Molum en þeir læra seint, sem hvorki þiggja leiðbeiningar né nota orðabækur. Vonandi tekur málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins að sér að kenna fréttamönnum að nota uppsláttarrit þegar þeir fara með orðtæki sem þeir kunna ekki. Nóg var þar til af slíkum ritum síðast þegar ég gáði. Réttmæt ábending, Molavin. Þakka bréfið. Rétt er að þetta hefur áður verið nefnt. Verst er , þegar fólk telur sig vita allt best , kunna allt best og ekki þurfa á neinum leiðbeiningum eða handbókum að halda. Efast aldrei um eigið ágæti. Það er verst.
SITJANDI ....
JT skrifaði Molum (18.04.2016) ,,Sælir - og bestu þakkir fyrir sífellt áhugaverða og lifandi pistla um okkar ástkæra ylhýra....
Spurning hvort þú getur tekið eina rispu um ,,sitjandi...." stjórn, ráðherra, forseta.... Í forsetaframboðsumræðu er í ljósi nýjustu atburða oft talað um að fara gegn sitjandi forseta, hvort þeir sem hafa tilkynnt framboð ætli að standa við að fara gegn sitjandi forseta. Mér finnst sitjandi óþarft hér (eins og reyndar yfirleitt), það er bara einn forseti og hann er það þar til hann eða annar hefur verið kjörinn. Ef menn vilja merkja hann sérstaklega mætti kannski segja fráfarandi. En að nota orðið sitjandi í þeirri merkingu þegar menn gegna embættum er yfirleitt óþarfi í íslensku máli. Menn gegna því, eru ráðherrar, þingmenn, forsetar eða ríkisstjórn þar til þeir fara frá.
Finnst þér þetta út í hött?
Og enn og aftur mætti minna á að ,,íslenska" ekki alltaf tímann þegar sagt er frá atburðum erlendis. Í fréttum sjónvarps (ég segi ekki RUV við þig....) í gærkvöld var sagt frá jarðskjálftunum í Ekvador sem voru klukkan 12 á miðnætti að íslenskum tíma. Það segir ekkert um við hvernig aðstæður jarðskjálftarnir urðu; var nótt, dagur, kvöld, morgunn, sem sagt allir heima í rúmi, allir úti í vinnu eða hvað...? Þessi árátta í fréttum er hvimleið. Þakka JT hlý orð í garð Molanna. Mér finnst það sem JT skrifar um sitjandi alls ekki út í hött. Tek undir það sem hann segir. Sitjandi hefur svo aðra merkingu, en það er allt önnur Ella.
Sama máli gegnir um þann ósið að færa allt, sem gerist erlendis, yfir á íslenskan tíma. Það er ekki góð vinnuregla og hefur nokkrum sinnum verið vikið að því hér í Molum. Kærar þakkir JT.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2016 | 09:08
Molar um málfar og miðla 1930
BRESKA KONUNGSDÆMIÐ!
Í Kastljósi gærkvöldsins (18.06.2016) var rætt við forseta mannréttindadómstóls Evrópu. Þar nefndi hann mál, sem hefði verið erfitt úrlausnar, mál Hollendingsins Hirst ,en á ensku sagði hann: ,, the case of the Dutchman Hirst against the United Kingdom. Í neðanmálstexta var okkur sagt frá máli Hollendingsins Hirst gegn breska konungsdæminu!!! Ríkissjónvarpið okkar á að geta gert betur en þetta!
Í GEGNUM HURÐINA!
Rétt áður en bein útsending hófst frá blaðamannafundi forseta Íslands í gær (18.04.2016) á Bessastöðum, sagði dagskrárgerðarmaður (ekki fréttamaður) Ríkisútvarpsins, Rásar tvö, í beinni útsendingu frá Bessastöðum: ,, Hurðin er ennþá lokuð sem að ég svona reikna með að forseti komi í gegnum.... Þetta var vissulega sögulegur fundur, en það hefði sannarlega verið enn sögulegra, ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði komið í gegnum hurðina. Það gerði hann sem betur fer ekki, bæði fyrir hurðina og hann. Hurð er nefnilega eins konar fleki til að loka dyrum eða opi, - segir orðabókin.
FJÁRMAGN OG ÞEGNAR
Í spjalli stjórnenda morgunþáttar Rásar tvö (15.04.2016) var talað um að fjármagn hafi verið skotið undan. Fjármagni var skotið undan , hefði verið rétt. Í sama spjalli ræddu umsjónarmenn notkun orðsins þegn, undruðust svolítið að það skuli notað, en ekki talað t.d. um borgara. Molaskrifari sér ekkert athugavert við þetta ágæta orð, - fínt að tala um þegna, - íslenskir þegnar, íslenskir borgarar, Íslendingar.
HVERSVEGNA?
Hversvegna láta forsætisráðherra, utanríkisráðherra , nokkrir þingmenn og Guðni Th. Jóhannesson,sagnfræðingurinn, sem hefur verið að íhuga forsetaframboð, Hraðfréttir Ríkissjónvarpsins gera sig að fíflum (16.04.2016)? Er allt til vinnandi til að komast skamma stund á skjáinn? Halda þeir að þetta auki virðingu þeirra eða þingsins? Ég held ekki. Svo var þetta reyndar svo ófyndið sem mest mátti verða.
SLETTUFYRTÆKIN
Eftirgreind fyrirtæki eru einna fremst í flokki þeirra sem sífellt sletta á okkur ensku orðunum tax-free í auglýsingum.
Rúmfatalagerinn
Ilva, - gott ef það fyrirtæki segir ekki líka ,,go crazy
Húsgagnahölllin
Hagkaup
A-4
Heimkaup
Ekki er verið að veita neina undanþágu frá greiðslu skatta. Það er bara verið að veita tiltekinn afslátt.
Annað fyrirtæki mætti og nefna hér. Það auglýsir í blöðum: Ertu að leita að talent ? Fyrirtækið spyr hvort þú sért að leita að hæfum starfsmanni. Þetta er ráðningarþjónusta, sem heitir reyndar Talent.
Þeim sem semja þessar auglýsingar finnst greinilega fínna að nota ensku en að nota móðurmálið, íslensku. Það er ekki fínna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2016 | 08:50
Molar um málfar og miðla 1929
SUMARDAGURINN FYRSTI Á FIMMTUDEGI
Molalesandi skrifaði (16.04.2016) ,, Heill og sæll,
Í kvöldfréttum Sjónvarps í kvöld 16. apríl upplýsti fréttamaður, sennilega Hallgrímur Indriðason, áhorfendur um það, að Sumardagurinn fyrsti yrði næstkomandi miðvikudag. Hann leiðrétti sig síðar, augljóslega eftir athugasemd frá starfsfélaga, en leiðréttingin var aum. Hann sagði, að Sumardagurinn fyrsti yrði ekki á miðvikudag heldur fimmtudag, eins og það væri bara þetta árið.
Þetta minnir á Víkverja Morgunblaðsins (Ívar Guðmundsson) á fimmta áratug síðustu aldar, sem sagði í dálki sínum að Sumardaginn fyrsta ber nú upp á fimmtudag, eins og svo oft áður. Að sjálfsögðu var hent gaman að Ívari fyrir þessa fljótfærnis villu. En þessi er verri.
Molaskrifari þakkar bréfið. Hann heyrði þetta líka. Dálítið skondið, - leiðréttingin ekki síður!
BEGGJA SLÆMRA
Málglöggur lesandi benti Molaskrifara á fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (15.04.2016): Á tveggja kosta völ beggja slæmra.
Molaskrifari þakkar ábendinguna, - honum finnst þetta einnig vera ankannalegt orðalag. Betra hefði verið til dæmis: Á tveggja kosta völ báðir slæmir. Einnig benti þessi lesandi Morgunblaðsins á þetta: ,, .... að þýsk yfirvöld saksæki sjónvarpsgrínista fyrir að móðga forseta Tyrklands .... Sögnin að saksækja er ekki í orðabók Molaskrifara, en þetta er svo sem vel skiljanlegt, þótt einhverjum þyki orðalagið ekki til fyrirmyndar.
KJÁNAGANGUR Í FRÉTTUM
Fréttir í sjónvarpsstöðvum á Vesturlöndum þróast æ meira a í þá átt að vera einhverskonar skemmtiatriði, - ekki fréttir , - heldur oft einhver kjánagangur.
Við sáum þetta í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna á föstudagskvöld.
Borgarstjórinn í Reykjavík ætlaði að setja sumardekkin undir bílinn sinn. Hringdi, eða lét hringja í báðar sjónvarpsstöðvarnar. Þær hlýddu. Mættu. Varla voru myndatökumenn beggja staddir á sama stað, á sama tíma fyrir algjöra tilviljun? Mynduðu samviskusamlega og sama ,,ekki fréttin birtist í fréttatímum beggja stöðva. Borgarstjóri lét sem hann væri starfsmaður á dekkjaverkstæði og fór að umfelga. Það er varla verk fyrir viðvaninga. Svo mæta embættismennirnir í sjónvarpsfréttirnar, þegar verja þarf holótt og hættulegt gatnakerfi höfuðborgarinnar.
GRIMMRI
Úr fréttum Ríkisútvarps klukkan tíu á laugardagsmorgni (16.4.2016):,,Skjálftinn í gær var mun stærri og grimmri, en sá fyrri
Grimmari. Raunar skrítið að tala um grimman jarðskjálfta. Betra hefði verið að tala um kröftugan jarðskjálfta. Oft er talað um snarpan jarðskjálfta, en eru ekki allir jarðskjálftar snarpir? Þegar jörðin sjálf, terra firma, er ekki lengur stöðug, traust.
Enginn las yfir. Enginn leiðbeindi.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2016 | 08:42
Molar um málfar og miðla 1929
SUMARDAGURINN FYRSTI Á FIMMTUDEGI
Molalesandi skrifaði (16.04.2016) ,, Heill og sæll,
Í kvöldfréttum Sjónvarps í kvöld 16. apríl upplýsti fréttamaður, sennilega Hallgrímur Indriðason, áhorfendur um það, að Sumardagurinn fyrsti yrði næstkomandi miðvikudag. Hann leiðrétti sig síðar, augljóslega eftir athugasemd frá starfsfélaga, en leiðréttingin var aum. Hann sagði, að Sumardagurinn fyrsti yrði ekki á miðvikudag heldur fimmtudag, eins og það væri bara þetta árið.
Þetta minnir á Víkverja Morgunblaðsins (Ívar Guðmundsson) á fimmta áratug síðustu aldar, sem sagði í dálki sínum að Sumardaginn fyrsta ber nú upp á fimmtudag, eins og svo oft áður. Að sjálfsögðu var hent gaman að Ívari fyrir þessa fljótfærnis villu. En þessi er verri.
Molaskrifari þakkar bréfið. Hann heyrði þetta líka. Dálítið skondið, - leiðréttingin ekki síður!
BEGGJA SLÆMRA
Málglöggur lesandi benti Molaskrifara á fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (15.04.2016): Á tveggja kosta völ beggja slæmra.
Molaskrifari þakkar ábendinguna, - honum finnst þetta einnig vera ankannalegt orðalag. Betra hefði verið til dæmis: Á tveggja kosta völ báðir slæmir. Einnig benti þessi lesandi Morgunblaðsins á þetta: ,, .... að þýsk yfirvöld saksæki sjónvarpsgrínista fyrir að móðga forseta Tyrklands .... Sögnin að saksækja er ekki í orðabók Molaskrifara, en þetta er svo sem vel skiljanlegt, þótt einhverjum þyki orðalagið ekki til fyrirmyndar.
KJÁNAGANGUR Í FRÉTTUM
Fréttir í sjónvarpsstöðvum á Vesturlöndum þróast æ meira a í þá átt að vera einhverskonar skemmtiatriði, - ekki fréttir , - heldur oft einhver kjánagangur.
Við sáum þetta í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna á föstudagskvöld.
Borgarstjórinn í Reykjavík ætlaði að setja sumardekkin undir bílinn sinn. Hringdi, eða lét hringja í báðar sjónvarpsstöðvarnar. Þær hlýddu. Mættu. Varla voru myndatökumenn beggja staddir á sama stað, á sama tíma fyrir algjöra tilviljun? Mynduðu samviskusamlega og sama ,,ekki fréttin birtist í fréttatímum beggja stöðva. Borgarstjóri lét sem hann væri starfsmaður á dekkjaverkstæði og fór að umfelga. Það er varla verk fyrir viðvaninga. Svo mæta embættismennirnir í sjónvarpsfréttirnar, þegar verja þarf holótt og hættulegt gatnakerfi höfuðborgarinnar.
GRIMMRI
Úr fréttum Ríkisútvarps klukkan tíu á laugardagsmorgni (16.4.2016):,,Skjálftinn í gær var mun stærri og grimmri, en sá fyrri
Grimmari. Raunar skrítið að tala um grimman jarðskjálfta. Betra hefði verið að tala um kröftugan jarðskjálfta. Oft er talað um snarpan jarðskjálfta, en eru ekki allir jarðskjálftar snarpir? Þegar jörðin sjálf, terra firma, er ekki lengur stöðug, traust.
Enginn las yfir. Enginn leiðbeindi.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2016 | 07:16
Molar um málfar og miðla 1928
TILVÍSUNARFORNÖFN OG FLEIRA
Þorvaldur skrifaði (13.04.2016):
,,Sæll Eiður. Enn eiga blaðamenn í erfiðleikum með tilvísunarfornöfn. Í vefmogga segir að óheimilt sé að fella tré á eignarlóðum sem eru eldri en 60 ára eða yfir 8 metrar á hæð. Minnir mann á auglýsinguna í sögunni af Bör Börssyni um rúm fyrir hjón sem eru á hjólum.
Einnig er sagt frá bruna í húsnæði N1 í Ártúnshöfða, þar segir að tvær stöðvar séu á staðnum, þar mun átt við slökkviliðsmenn frá tveim slökkvistöðvum. Þakka þér bréfið, Þorvaldur, og réttmætar ábendingar. Þetta með tvær stöðvar, sést ærið oft í fréttum nú orðið, því miður. Virðist hafa verið lagfært í fréttinni, - seinna. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/13/nagranni_felldi_tre_i_othokk_eigenda/
EKKERT SVAR
Enn eitt dæmið um spurningu sem beint var til stjórnmálamanns og hann svaraði ekki, var í fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (13.04.2016). Þrír stjórnmálamenn voru spurðir um nýja skoðanakönnun, sem sýndi mikla fylgisaukningu hjá Sjálfstæðisflokki. Bjarni Benediktsson var spurður hvort fylgisaukningin hefði komið honum á óvart. Bjarni svaraði með því að fara yfir stöðuna eins og hún blasti við honum, en sagði ekki orð um hvort þetta hefði komið honum á óvart, - eins og um var spurt. Sennilega hlustaði fréttamaður ekki á svar Bjarna því spurningunni var ekki fylgt eftir. Við vorum sem sé engu nær um það hvort þetta kom Bjarna á óvart, - enda skipti það svo sem ekki miklu máli. Þetta er of algengt í viðtölum í ljósvakamiðlum.
VILLANDI FYRIRSÖGN
Fyrirsögnin á mbl.is (14.04.2016) Staðfesti siðareglur fyrir ráðherra ásamt mynd af Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra er villandi. Beint liggur við að skilja þetta svo , að forsætisráðherra hafi staðfest siðareglur fyrir ráðherra. Svo er ekki. Stjórn samtakanna Gagnsæis er að skora á ráðherra að staðfesta siðareglur fyrir ráðherra. Ekki vönduð vinnubrögð.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/14/stadfesti_sidareglur_fyrir_radherra/
LEIÐRÉTTI ÞAÐ SEM VAR RÉTT
Í morgunþætti Rásar tvö (13.04.2016) var rætt við doktorsnema í líffræði um hvalahljóð. Fróðlegt viðtal. Doktorsneminn sagði að maður þyrfti ekki að fara nema rétt út fyrir landsteinana ( til að sjá hvali). Þetta var alveg rétt og gott orðalag, en viðkomandi leiðrétti sig og sagði: ... rétt út í sjó. Það er ekki gott orðalag. Rétt fyrir utan landsteinana er örstutt frá landi. Alveg prýðilegt orðalag.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2016 | 09:51
Molar um málfar og miðla 1927
AÐ FLOPPA
Leikritið floppaði, sagði málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins í Málskoti í morgunútvarpi ( 12.04.2016). Það var og. Þetta á víst að heita gott gilt, en óformlegt, segir orðabókin.
Í sama þætti var líka rætt um framburð á orðum, sem enda á unum og venjulega er borið fram onum, /stelponum/, /strákonum/. Þá rifjaðist upp fyrir Molaskrifara ,að á upphafsárum Sjónvarpsins kom sá mæti maður, prófessor Baldur Jónsson, nokkrum sinnum til okkar, sem lásum fréttir og hlustaði á okkur lesa og gerði athugasemdir og leiðbeindi. Man, að ég las fyrir hann texta þar sem Bandaríkin voru nefnd í þágufalli, Bandaríkjunum, sem ég las eins og orðið er skrifað, BANDARÍKJUNUM. Hann leiðrétti mig og sagði: Þú átt að segja /Bandaríkjonum/ , það er eðlilegur íslenskur framburður. Síðan hef ég fylgt þeirri reglu.
VIKUDAGSKRÁIN
Vikudagskráin er lítið hefti með sjónvarpsdagskrá, sem dreift er á öll heimili í Kópavogi, Garðabæ/Áftanesi og Hafnarfirði. Skilst að þetta sé hluti af fjölmiðlaveldi Framsóknarmannsins Björns Inga Hrafnssonar. Þetta er heldur subbulega útgefinn bæklingur. Síðast stóð á forsíðunni dagsetningin 6.- 12. apríl. Inni í blaðinu stóð á öllum dagskrársíðum að þetta væri sjónvarpsdagskráin 23. mars til 29. mars.
ÁBÓTAVANT OG TÝND KONA
Úr frétt á mbl.is (13.04.2016): ,,Lögmaður húsfélagsins telur að eftirlit byggingafulltrúa hafi verið verulega ábótavant og hefur sent bæjarfélaginu bréf þar sem hann óskar eftir viðræðum um bætur.
Hér hefði átt að tala um að eftirliti byggingarfulltrúa hafi verið ábótavant. Þessum fréttaskrifum er ábótavant. http://www.ruv.is/frett/blokk-i-gardabae-storgollud-ibuar-vilja-baetur
Hér er svo annað dæmi um hörmulega illa skrifaða frétt af mbl.is (13.04.2016). Fréttin er um konu sem villtist og fann ekki bílinn sinn aftur. Bíllinn hafði orðið bensínlaus í óbyggðum í Arizona í Bandaríkjunum. Sagt er að konan hafi verið týnd! Einnig er sagt að hún hafi verið að leita að bæjarstæði! Endemis rugl. Fréttin endar á tilvísun í frétt á sama miðli þar sem skipbrotsmenn voru kallaðir strandaglópar! Kannski sami maður hafi skrifað báðar fréttirnar.
Ja, hérna. Þetta er ekki gott. Sjá: http://www.ruv.is/frett/heil-a-hufi-eftir-niu-daga-i-obyggdum-arizona
BYLGJUFRÉTTIR OG STÖÐ TVO
Í hádegisfréttum Bylgjunnar var fjallaði um nokkra smástyrki sem fyrrverandi utanríkisráðherra veitti fjórum aðilum, af lið sem venjulega er kallaður ráðstöfunarfé ráðherra, innan við eina milljón króna samtals. Þar af fór þriðjungurinn til Landgræðslunnar vegna ráðstefnuhalds. Ekki nýtt fyrirbæri, en fyrirkomulagið kannski ekki ákjósanlegt. Í fréttum Bylgjunnar (12.04.2016) var talað um ,,styrki úr skúffufé sínu.
Í sama fréttatíma var sagt: ,, Næsti fundur flugumferðastjóra og Samtök atvinnulífsins verður ..... Samtaka atvinnulífsins hefði þetta átt að vera.
Í kvöldfréttum Stöðvar tvö sagði fréttamaður: Páll segir að tæpur þriðjungur allra hjartaaðgerða á árinu hafi verið frestað ... Þetta hefði átt að vera , ... að tæpum þriðjungi allra hjartaaðgerða hafi verið frestað... Í sama fréttatíma sagði fréttamaður: Við ætlum svo að ræða við Ragnheiði Ríkharðsdóttir , formann þingflokks ....
Hvar er kunnáttan? Hvar er metnaðurinn?
SMARTLAND BREGST EKKI
Smartland, svo nefnt, á mbl.is bregst ekki frekar en fyrri daginn. Fyrirsögn (13.04.2016):Klæddist ófáanlegum kjól á frumsýningu. Snilldin!
http://www.mbl.is/smartland/tiska/2016/04/13/klaeddist_ofaanlegum_kjol_a_frumsyningu/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2016 | 11:01
Molar um málfar og miðla 1926
HRÆÐANDI KALLAR OG LOFANDI HEITAVATNSÆÐAR
Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (11.04.20016): ,,Sæll,
Niðurstöðurnar benda einnig til að karlmenn þyki vera meira hræðandi en konur þegar fólk gerir sér óviðkunnanlegt fólk í hug. Þetta er úr vefritinu pressan.is Frekar kjánaleg málsgrein og margt bendir til að hún sé þýdd af meiri vilja en getu. Furðulegt að höfundurinn, Kristján Kristjánsson, skuli ekki hafa lesið greinina yfir. Hún er raunar öll svo yfirgengilega heimskuleg að maður skammast sín hálfpartinn fyrir að viðurkenna lesturinn.
Hittu á lofandi heitavatnsæðar, segir í fyrirsögn á visir.is. Þetta er illt orðalag. Betra hefði verið að skrifa; Hittu á vænlegar heitavatnsæðar. Þegar svona orðalag sést fær maður það á tilfinninguna að blaðamaðurinn sé ekki vanur skrifum og hafi ekki yfir að ráða nægilegum orðaforða til að skrifa skammlaust. Raunar virðist útgáfufyrirtækið 365 leggja litla áhersla á gott mál og góðan stíl. Hraðinn er slíkur að fréttir verða oft flausturslegar og illa skrifaðar.
Kærar þakkir fyrir bréfið, Sigurður. Það er rétt,sem þú segir. Metnaðurinn hjá 365 miðlum til þess að gera vel, vanda sig , er sjaldan fyrir hendi.- Sá sem skrifaði þetta um heitavatnsæðarnar hefur sennilega verið að hugsa á ensku. En á því máli er orðið promising notað um sem er vænlegt, eða ástæða til að binda vonir við.
SVOKALLAÐAR HOLUR
Þegar erfiðari málin ber á góma, verða embættismenn Reykjavíkurborgar oft fyrir svörum í fjölmiðlum. Rætt var við borgarstarfsmann í morgunútvarpi Rásar 2 (13.04.2016) um malbikun og holóttar götur. Hann talaði um ,,svokallaðar holur (samanber talið um ,,svokallað hrun) í götum borgarinnar. Molaskrifari hefur séð margar djúpar holur, með hvössum brúnum í gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu. Þær hafa valdið skemmdum á farartækjum. Hann vissi ekki að þetta væru ,,svokallaðar holur. Hélt að þetta væru holur.
AÐ BÖSTA!
Þeir voru böstaðir með einhverjar þrælaverksmiðjur, sagði umsjónarmaður í morgunútvarpi Rásar tvö (12.04.2016). Gripnir, leiðrétti samverkamaður konunnar, samstundis. Gott. Það á ekki að fá fólk til umsjónar með daglegum útvarpsþáttum, sem sífellt slettir á okkur ensku. Þarf ekki að hlusta lengi til að fá á sig slettu. Það er ekki boðlegt og Ríkisútvarpinu ekki sæmandi.
ÚTVARPSSTJÓRI
Gott var að heyra útvarpsstjóra (13.02016) Ríkisútvarpsins tala um að hlutur menningarefnis í dagskránni yrði aukinn. Þýðir það ekki örugglega að svonefndar ,,Hraðfréttir, sem hvorki eru hraðar né fréttir verða ,lagðar niður? Ríkisútvarpið hefur aldrei viljað svara því hvað þessir þættir kosta, en þeir bera það með sér að vera dýrir. Athygli vakti, að í viðtalinu var ekki minnst á hlut íþróttaefnis í dagskrá sjónvarps. Það hefur aukist hröðum skrefum og er nú stærri hluti dagskrárinnar en nokkru sinni fyrr. Það á ekki síst við um fjasið, sem jafnan er sent út á undan og eftir kappleikjum. Þar er rætt við menn sem kallaðir eru ,,sérfræðingar. Það mætti alveg draga úr því.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2016 | 06:51
Molar um málfar og miðla 1925
Á STYKKISHÓLMI
,,Bifreið fór í höfnina á Stykkishólmi ... var sagt í fréttum Ríkisútvarps klukkan 15 00 á sunnudag. Þetta var lagfært seinna, en föst málvenja er að segja í Stykkishólmi. Áfram var hinsvegar aftur og aftur sagt,- þegar björgunaraðilar náðu á vettvang. Í frétt mbl.is var hinsvegar talað um björgunarmenn. Betra.
ENSK LEIKRIT?
VH skrifaði (07.04.2016) ,,Sæll Eiður.
Fyrr í vetur benti ég þér á nafn á íslensku leikriti sem var: Old Bessastaðir. Og áfram skal haldið þessari feigðarför
tungu okkar.
Og núna nýlega voru kynntar frumsýningar á tveim íslenskum leikritum annað heitir ,,Improve Iceland,, og hitt heitir ,,Made in children,,
Mér alveg fyrirmunað að skilja hvers vegna þessi leikrit heita ekki uppá íslenska tungu..
Þakka bréfið VH. Ekki botna ég heldur í þessu. Þetta mun , að minnsta kosti annað leikritið hafa verið kynnt í menningarþætti Kastljóss, Ríkisútvarpsins.
http://www.ruv.is/frett/maria-um-made-in-children
UM LEKA
Í morgunútvarpi Rásar tvö (11.04.2016) var talað um gagnalekann, Panamalekann, Tortólaskjölin ,, .... að þessi gögn láku, sagði umsjónarmaður. Gögnin láku ekki. Gögnunum var lekið. Þau voru birt án heimildar þeirra, sem geymdu þau. Hefur heyrst áður.
Seinna í þættinum var talað um tæknihlið lekans og þar voru tæknisletturnar ansi margar hjá þeim sem rætt var við, þannig að efnið fór um sumt fyrir ofan garð og neðan hjá þeim, sem þetta skrifar.- Það var hinsvegar ágætt hjá Sigmari að biðja samverkakonu sína um að útskýra slettu, sem hún notaði, svo hlustendur skildu um hvað væri verið að tala. Mætti gerast oftar. Svo var talað um að gefa út skó! Selja nýja gerð af íþróttaskóm.
SAMTAL SEM MISTÓKST
Fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (11.04.2016): Samtal við þjóðina mistókst. Þetta er tilvitnun í orð forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar. Samtal þar sem annar aðilinn sagði ósatt, hlaut að mistakast. Þjóðin sagði ekki ósatt.
STARFSSTJÓRN UTANÞINGSSTJÓRN
Einkennilegt að fréttamenn, sumir hverjir, skuli ekki skilja muninn á utanþingsstjórn og starfsstjórn, þegar rætt er um ríkisstjórnir. Meira að segja fréttamenn,sem eru löglærðir, virðast ekki ráða við þetta.
Utanþingsstjórn er ríkisstjórn,sem forseti skipar þegar stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþingi, koma sér ekki saman um myndun ríkisstjórnar. Ráðherrarnir eru þá ekki þingmenn. Þeir sitja þó á þingi , en auðvitað án atkvæðisréttar. Við höfum haft eina slíka (1942-1944). Stundum er sagt, að forsetar hafi verið tilbúnir með slíka stjórn, ef stjórnarmyndunarviðræður virtust í óleysanlegum hnút og dregist mjög á langinn,en þingmenn þá séð sitt óvænna og náð samkomulagi um stjórnarmyndun.
Starfsstjórn er ríkisstjórn, sem beðist hefur lausnar og fengið lausn frá störfum en falið er að sitja áfram uns ný stjórn hefur verið mynduð. Samkomulag virðist ríkja um að slík stjórn taki ekki meiriháttar ákvarðanir, - hennar hlutverk sé að halda kerfinu gagnandi uns ný stjórn hefur verið mynduð. Utanþingsstjórn og starfstjórn eru sitt hvað og þessu eiga fréttamenn ekki að rugla saman. Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra skýrði þetta ágætlega í pistlum sínum á dögunum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2016 | 08:26
Molar um málfar og miðla 1924
TRAUSTLEYSI !
Nýr forsætisráðherra notaði nýtt orð, sem Molaskrifari hefur ekki heyrt áður í fréttum Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (08.04.2016).
Hann talaði um traustleysi. Hann veigraði sér ef til vill við að nota orðið, sem rétt hefði verið að nota, - það sem hann kallaði traustleysi kallar fólk vantraust.
PEMPÍULEGA ORÐALAGIÐ
Molaskrifari er orðinn hundleiður á hinu pempíulega orðalagi, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi,,stigið til hliðar eða ,,vikið til hliðar. Hann baðst lausnar sem forsætisráðherra. Sagði af sér. Það á að segja það berum orðum, - nefna hlutina réttum nöfnum. Reyndar mætti líka segja á góðri íslensku, að hann hafi hrökklast úr embætti.
STRANDAGLÓPAR - SKIPBROTSMENN
Úr frétt á mbl.is (09.04.2016): ,, Bandaríski sjóherinn og strandgæslan bjargaði(björguðu) þremur mönnum sem höfðu verið strandaglópar á eyðieyju í Kyrrahafi í þrjá daga eftir að bát þeirra hvolfdi.
Alltaf er betra að þekkja merkingu þeirra orða sem notuð eru við fréttaskrif.
Mennirnir voru ekki strandaglópar, þeir höfðu orðið skipreika, þetta voru skipbrotsmenn.
Strandaglópur er sá, sem verður af ferð með skipi eða öðru farartæki, missir af skipinu eða flugvélinni, eða er stöðvaður á ferð sinni og kemst ekki lengra..
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/04/09/bjorgudu_strandaglopum_af_eydieyju/
STRANDFERÐASKIPIÐ HURTIGRUTEN
Þorvaldur skrifaði (07.04.2016) ,, Í Mogga dagsins segir á baksíðu frá Íslendingi sem bruggar öl og vín í Noregi. Þar er sagt að fyrirtækið hafi samið við strandferðaskipið Hurtigruten um flutninga á framleiðslunni. Nú finnst þetta skip ekki í skipaskrám en blaðamaður ætti að vita að Hurtigruten er strandferðafyrirtæki Norðmanna og rekur mörg skip. Kærar þakkir fyrir ábendinguna, Þorvaldur. Þetta er að sjálfsögðu rétt hjá þér. Þeir hlæja, sem búið hafa í Noregi , eða þekkja til í Noregi.
LÍK AF DÝRUM
Heyrði Molaskrifari það rétt í þætti Gísla Marteins á laugardagskvöld, að stjórnandinn talaði um lík af dýrum?
Maður er svo sem alltaf að heyra eitthvað nýtt. Líkið af kúnni, líkið af hundinum?
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)