5.5.2016 | 08:00
Molar um málfar og miðla 1942
KJÁLKALÍNAN
Molavin skrifaði (04.05.2015): ,,Það er mikið lagt á unga blaðamenn Vísis, að þurfa að þýða slúðurfréttir úr ensku yfir á skiljanlegt íslenskt mannamál. Fyrirsögn í dag (4.5.2016) er svohljóðandi: "Rumer Willis brjáluð yfir því að kjálkalínu sinni var breytt með Photoshop: Þetta er einelti og ég mun ekki líða það. Um er að ræða að hökusvip ungrar konu var breytt í myndvinnsluforriti. Það heitir á ensku "jawline" en það hugtak þekkir blaðamaðurinn ekki og þýðir það orðrétt sem "kjálkalínu."
Nógu slæmt er að móðurmálskennslu hefur hrakað í skólum; verra er að þeir sem kunna illa sitt móðurmál skrifa í fjölmiðla og hafa þannig með hroðvirkni enn verri áhrif á unglinga. Ábyrgðin liggur hjá þeim sem stýra fjölmiðlunum. Þetta er hverju orði sannara, - þakka bréfið, Molavin. Ábyrgð þeirra ,sem stýra fjölmiðlunum er mikil, en þeir koma sér hjá því að axla ábyrgð og virðist skorta metnað til að
gera vel.
MINNIST TÚ GILDIÐ? MANSTU VEISLUNA?
Danska sjónvarpið sýndi í gærkvöldi (04.05.2015) fyrri hluta (01:25) merkilegrar heimildamyndar um hrun Eik banka í Færeyjum. Minnist tú gildið? Manstu veisluna? Uppskriftin var íslensk. Þetta bankahrun í Færeyjum snertir okkur meira en lítið. Íslendingar koma þar mjög við sögu. Færeyingar gerðu myndina. Ríkissjónvarpið hlýtur að sýna okkur þessa mynd. Fyrr en seinna.
UM ÆTTLEIÐINGAR
- skrifaði Molum (02.05.2016) og segir: ,,Sæll enn.
Maður skyldi ætla að fólk setji hundana í erfðaskrána hjá sér !
Sjá þessa frétt á mbl.is (02.05.2016): ,, Leikkonan Olivia Munn hefur stækkað fjölskylduna, en á dögunum ættleiddi hún lítinn hvolp. Hvolpurinn, sem hlotið hefur nafnið Frank Rodgers, er flækingshundur en Munn ættleiddi hann hjá dýraathvarfinu Love Leo Rescue.
Molaskrifari þakkar bréfið. ,. en skrif mbl.is um fræga fólkið eru löngu hætt að koma á óvart.
http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/05/02/olivia_munn_aettleidir/
VEL Í LAGT
Molaskrifari er líklega ekki einn um að finnast nokkuð vel í lagt, þegar síblankt sjónvarp ríkisins sendir átján manna hóp til Stokkhólms átta dögum áður en evrópska söngvakeppnin hefst þar í borg.
Forgangsröðunin hjá þessari þjóðarstofnun er stundum dálítið bjöguð, þegar hugsað er til þess hvað hún hefur takmarkað dagskrárfé til umráða.
Ríkissjónvarpið ætti að huga að því að verja þeim miklu fjármunum sem í þetta fara til vandaðrar innlendrar dagskrárgerðar.
Hvað skyldi þessi þátttaka annars kosta okkur, þegar upp er staðið?
Ríkissjónvarpið svarar ekki þannig spurningum frá almenningi. Enda kemur okkur það víst ekkert við.
VOND ÞÁTTAHEITI
Stöð tvö hefur eiginlega sérhæft sig í að gefa sjónvarpsþáttum vond nöfn, oft hrærigraut úr ensku og íslensku. Nýjasta afrek stöðvarinnar er að bjóða viðskiptavinum sínum þætti sem heita Battlað í borginni. Óskiljanlegt eða illskiljanlegt. Snertir Molaskrifara svo sem ekki mikið. Hann hefur aldrei verið áskrifandi að Stöð tvö. Og hefur ekkert slíkt í hyggju. En þetta er ekki til fyrirmyndar.
ENN UM SLETTUR
Molaskrifari hlustar ekki á morgunútvarp á hverjum degi og er ekki fastur hlustandi neins morgunþáttar. Hlustar einna oftast á morgunþátt. Rásar tvö vegna þess að Sigmar Guðmundsson er góður spyrill. Skrifari hefur oft gagnrýnt tíðar og illþolandi enskuslettur eins umsjónarmanns í morgunþætti Rásar tvö.
Á þriðjudagsmorgni fékk umsjónarmaður á baukinn fyrir slettuhríðina hjá málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins í ágætu Málskoti. (03.05.2016).Umsjónarmaður lofaði bót og betrun.
En slettur heyrast víðar. Í fréttum Stöðvar 2 (03.05.2016) sagði fréttamaður:,, Segðu okkur nánar frá þessu konsepti. Orðið konsept (e. concept) er enska ekki íslenska. Ekki til fyrirmyndar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2016 | 09:38
Molar um málfar og miðla 1941
TIGNIR GESTIR
Molavin skrifaði (30.04.2016): ,, Var það gráglettni hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins að telja upp forseta Íslands meðal konungborinna í hádegisfrétt um sjötugsafmæli Svíakonungs? "Meðal tiginna gesta voru Margrét Þórhildur, danadrottning, Ólafur Ragnar Grímsson og Viktoría krónprinsessa..." Hans hátign...!?! Molaskrifari þakkar bréfið. Kannski voru þetta einhverskonar ósjálfráð viðbrögð hjá fréttamanni !
HRÚGA AF HESTUM
Er ekki skrítið að sjá svona hrúgu af hestum koma niður Skólavörðustíginn? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps barn í fréttatímanum á laugardagskvöld (30.04.2016. Hrúga af hestum! Ja, hérna. Eins og barn væri að spyrja barn. Við gerum kröfur um vandað málfar í fréttum Ríkisútvarps. Það á að vera öðrum fjölmiðlum til fyrirmyndar.
SPARÐATÍNINGUR
* Í fréttum Stöðvar tvö (30.04. 2016) var okkur sagt frá helli sem var staðsettur á Suðurlandi. Hellirinn var á Suðurlandi.
* Í hádegisfréttum Bylgjunnar (02.05.2015) var okkur sagt frá fyrirtækjum, sem væru staðsett á Guernsey og á Bermuda. Eðlilegra hefði verið að segja, að fyrirtækin væru skráð á þessum stöðum, eða störfuðu á þessum stöðum..
* Í fréttum Ríkisjónvarps (30.04.2016) var viðtal í beinni útsendingu við Kára Stefánsson. Þulur sagði okkur, að Kári Stefánsson væri kominn í eigin persónu. En ekki hvað?
* Íþróttafréttamaður sagði okkur að dæmið hefði snúist algjörlega við og það rúmlega! Mikill viðsnúningur greinilega ! En þetta segja menn sjálfsagt að sé sparðatíningur!
FYRIR RANNSÓKN MÁLSINS
Af mbl.is (02.05.2016): Mennirnir tveir voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar fyrir rannsókn málsins. Aftur og aftur sjáum við þetta orðalag í lögreglufréttum. Kemur þetta frá lögreglunni eða er þetta heimasmíðað? Hvort sem er, þá er þetta ekki gott orðalag. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins , - ekki fyrir rannsókn málsins.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/02/beittu_opinbera_starfsmenn_ofbeldi/
SKILORÐ
Í Fréttablaðinu (03.05.2016) var sagt frá sex mánaða fangelsisdómi, sem bílstjóri hjá Ferðaþjónustu fatlaðra fékk fyrir kynferðisbrot gegn fatlaðri konu. Síðan segir: ,, Dómnum verður frestað að liðnum þremur árum haldi hann skilorði. Molaskrifari hallast að því að fréttaskrifari viti, ef til vill ekki hvað skilorð er eða hvernig eigi að skrifa um það. Né heldur verður dómi, sem búið er að kveða upp frestað. Maðurinn hlaut sex mánaða fangelsisdóm, sem var skilorðsbundinn til þriggja ára. Það er að segja maðurinn hefur hlotið skilorðsbundinn fangelsisdóm: Hann fer ekki í fangelsi, ef hann ekki brýtur af sér næstu þrjú árin. Dómurinn er þannig skilyrtur, skilorðsbundinn.
Molavin sá þetta líka og skrifaði: ,, Óvitar skrifa fréttir í Fréttablaðið. Í dag (3.5.2016) stendur þetta í frétt um dóm yfir bílstjóra: " Dómnum verður frestað að liðnum þremur árum haldi hann skilorði." Hér hlýtur að hafa verið átt við að refsingu verði frestað, því dómur er fallinn. Þá ætti vitaskuld að standa: "...haldi hann skilorð." Þekkingarleysi fréttaóvita er orðið vandamál víða. En þeir göslast áfram við fréttaskrif, fremur þó af vilja en mætti. Satt er það, Molavin. Metnaðarleysið er ótrúlegt. Er öllum yfirmönnum sama? Enginn les yfir eða leiðbeinir þeim, sem lítt kunna til verka.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2016 | 08:24
Molar um málfar og miðla 1940
TVÖFÖLD NEITUN ER SAMÞYKKI
Kolbrún Halldórsdóttir , sendi línu (29.04.2016) og þakkaði fyrir Molana. Hún segir:Mig hefur oft langað að senda þér ábendingar og læt nú verða af því: Frétt á vef Ríkisútvarpsins (29.04.2016)
http://www.ruv.is/frett/russell-crowe-greiddi-skatta-a-islandi
Fréttastofa fékk aftur á móti ekki endanlegan úrskurð ráðuneytisins fyrr en í gærmorgun þar sem forsvarsmenn Truenorth lögðust gegn því að ákveðnar upplýsingar yrðu ekki birtar... . Þakka þér bréfið, Kolbrún. Hér er merkingin sem sé öfug við það sem greinilega var ætlunin að koma á framfæri. Fyrirtækið lagðist gegn því að upplýsingar yrðu ekki birtar, sem sagt fyrirtækið vildi ekki að auglýsingarnar yrðu birtar. Tveir mínusar verða plús!
PRÓFKÚRUHAFAR Á MBL.IS
Ingibjörg vakti athygli á frétt á mbl.is þar sem aftur og aftur er talað um prófkúruhafa. Til dæmis: ,, Misjafnt var hversu mikið fólkið fékk greitt fyrir að gerast prófkúruhafar félaganna. .Ingibjörg segir: ,,Þetta er ekki prentvilla, þessi orðmynd er endurtekin alls staðar í fréttinni. Svona getur farið þegar fólk lærir ekkert í latínu. Fréttin er á góðri íslensku. Molaskrifari þakkar Ingibjörgu bréfið. Hér hefði að sjálfsögðu átt að tala um prókúruhafa, - prókúra er umboð til að skuldbinda fyrirtæki.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/29/starfsmadur_skattsins_fekk_milljonir/
UTANKJÖRFUNDUR
K.Þ. skrifaði (30.04.2016):
,,Sæll Eiður,
"... utankjörfundur skal hefjast ekki síðar en átta vikum fyrir auglýstan kjördag."
Ég hélt að utankjörfundaratkvæðagreiðsla væri atkvæðagreiðsla sem fram fer utan kjörfundar en ekki á "utankjörfundi". Auðvitað er það þannig, K.Þ. Það er ekkert til, sem heitir utankjörfundur!!!
GRUNDVALLARÞEKKINGU ÁBÓTAVANT
Af mbl.is (29.04.2016): ,, Geimvísindastofnun landsins tilkynnti þetta í gær en svo virðist sem að mannleg mistök hafi að hluta til verið um að kenna.. Hér er móðurmálsþekkingu þess sem fréttina ritaði heldur betur ábótavant. Því miður er ekkert einsdæmi að sjá svona villur. Hér hefði átt að standa: ,,.... svo virðist sem mannlegum mistökum hafi að hluta til verið um að kenna.
http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/04/29/visindalegur_harmleikur/
GAFST UPP
Molaskrifari viðurkennir að gafst upp við að horfa á þátt Gísla Marteins á föstudagskvöld (29.04.2016). Það er svo þreytandi að láta hrópa stöðugt á sig úr sjónvarpinu. Því var lofað að þetta yrði seinasti þátturinn.
Til lesenda:
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2016 | 07:02
Molar um málfar og miðla 1939
AÐ BEYGJA BOLTANN
T.H. skrifaði (28.04.2016) og benti á þessa frétt á dv.is:
http://www.visir.is/fimm-leyndarmal-gylfa-i-aukaspyrnum-laerdu-ad-beygja-boltann-eins-og-gylfi-thor/article/2016160428951
"Fimm leyndarmál Gylfa í aukaspyrnum: Lærðu að beygja boltann eins og Gylfi Þór." "Hann gefur upp öll leyndarmálin sem geta kennt fólki að beygja boltann eins og Gylfi Þór Sigurðsson".
Það er nú ákaflega erfitt, svo ekki sé meira sagt, að beygja eitthvað, sem er hnöttótt í laginu! Það er líka sitt hvort að "beygja bílinn" og að "beygja bílnum", eins ég held að flestir aðrir en fréttabörn DV skilji. Það er reyndar svo heppilegt að fréttinni fylgja myndbönd og við áhorf þeirra dylst varla neinum að Gylfi er býsna snjall í að "beygja boltanum" (eitt sinn voru það kölluð "bananaskot"), en það er ekki sjáanlegt að hann "beygi boltann" á nokkurn hátt.. Kærar þakkir fyrir ábendinguna T.H.
VIRÐING FYRIR MÓÐURMÁLINU
Þorvaldur skrifaði (28.04.2016): ,,Sæll Eiður.
Kunningi minn gaukaði að mér miða, hann hafði verið að hlusta á Arnar Gunnlaugsson á Stöð tvö sport í þætti sem þeir kalla Messuna. Meðal þess sem hann lét út úr sér var þetta: "Hann er alltaf að performera á hæsta level" "Direktor hugsun" " Showboy gæi"
Eitt er að til séu menn sem ekki bera meiri virðingu fyrir móðurmáli sínu en þetta, annað að þeim skuli vera hleypt í fjölmiðla. Satt segirðu Þorvaldur. Þetta er engu lagi líkt. Þakka ábendinguna.
HEILSUSAMLEGRI EN HVAÐ?
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (28.04.2016) var fjallað um rafrettur . Þar var sagt:,, .. segja rafretturnar mun heilsusamlegri ... Heilsusamlegri en hvað? Varla er verið að miða við sígarettur, sem alls ekki eru heilsusamlegar, heldur seigdrepandi eitur.
NÝ NÁMSGREIN?
Í Morgunblaðinu er sagt frá konu, sem ,, ...leggur nú stund á ástarrannsóknar við Háskóla Íslands. Molaskrifari játar að þetta er honum nýtt. Kannski er þetta nýjung í starfi Háksólans Kannski ætti Morgunblaðið að upplýsa lesendur sínar frekar um þessar rannsóknir. Þær eru sjálfsagt ekki bundnar við hefðbundinn skóladag, eða hvað?
HVERFANDI ORÐALAG?
Er það að hverfa úr málinu að segja á föstudaginn var eða í fyrra sumar? Það er engu líkara. Nýlega (15.04.2016) var sagt í Ríkisútvarpinu síðasta föstudag, síðasta föstudagsmorgun? Hversvegna ekki á föstudaginn var, á föstudagsmorguninn var. Æ algengara er að heyra talað um síðasta sumar, ekki fyrra sumar.
Sennilega er þetta orðalag að hverfa.
ENSKUNNI SLETT
Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 14 00 (29.04.2016) var rætt við forstjóra Umhverfisstofnunar um það hvcernig koma mætti í veg fyrir matarsóun. Þetta er bara win-win fyrir alla, sagði forstjórinn. Hvers vegna þurfti forstjórinn að sletta á okkur ensku? Forstjórinn hefði til dæmis getað sagt: Á þessu græða allir, þetta gagnast öllum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2016 | 11:16
Molar um málfar og miðla 1938
MARG UMRÆDDUR VIÐTENGINGARHÁTTUR
Molavin skrifaði (27.04. 2016): ,, Enn heldur Fréttastofa Ríkisútvarpsins áfram að misþyrma viðtengingarhætti. Þessi þráláta misþyrming móðurmálsins sýnir einbeittan brotavilja. "Ný lög takmarki framkvæmdir sveitarfélaga" segir í fyrirsögn fréttar Rúnars Reynissonar (27.04.2016) og mætti ætla af henni að hvatt sé til þess að dregið verði úr framkvæmdum. Við lestur kemur í ljós að um er að ræða varúðarráðstöfun á þenslutímum og því ætti að standa: "Ný lög gætu takmarkað framkvæmdir..." Úr því málfarsráðunautur stofnunarinnar hefur tíma aflögu til að sinna aukavinnu í þáttargerð á laugardögum ætti henni ekki að vera skotaskuld að verja einhverjum tíma til að leiðbeina fréttamönnum um málfar á virkum dögum. Þakka bréfið , Molavin. Reyndar hefur málfarsráðunautur nýlega fjallað um viðtengingarhátt í Málskoti á Rás 2 og boðað frekari umfjöllun. Látum málfarsráðunaut njóta sannmælis. En ekki er víst að móttökuskilyrðin séu allsstaðar í góðu lagi hjá þeim sem mest þurfa á að halda.
KANADAMAÐURINN
T.H. skrifaði (27.04.2016) og vísaði til fréttar á dv.is: http://www.dv.is/frettir/2016/4/26/myrtur-filippseyjum-thetta-var-kaldrifjad-mord/
Í fréttinni segir: "Kanadamanni sem haldið hafði verið í gíslingu um hríð af herskáum íslamistum á Filippseyjum, er látinn en hann var tekinn af lífi."
T.H. bætir við: ,,Kanadamanni ... er látinn!
Jæja, það var þó ekki Hornafjarðarmanni!
Betra svona:
Kanadamaður, sem haldið hafði verið í gíslingu um hríð, af herskáum íslamistum á Filippseyjum, er látinn, en hann var tekinn af lífi.
Vissulega betra. Ekkert eftirlit. Enginn les yfir. Þakka ábendinguna, T.H. .
MÁLTILFINNING FRÉTTABARNA
- skrifaði Molum (26.04.2016):,, Þetta er úr frétt í Vísi í dag: ,,Múslimar halda friðarþing í Reykjavík:
Þeim greinir frá öðrum múslimum af því leyti að þeir trúa því að stofnandi stefnunnar Mirza Ghulam Ahmad (1835-1908) hafi verið sá spámaður sem Kóraninn vísi til ...
Hann spyr: ,,Er ekki snefill af máltilfinningu hjá fréttabörnunum? Í þessu tilviki, S, og alltof mörgum öðrum er svarið NEI. Enginn les yfir. Enginn leiðbeinir. Þakka bréfið.
http://www.visir.is/muslimar-halda-fridarthing-i-reykjavik/article/2016160429198
UNDARLEGUR SAMANBURÐUR
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (27.04.2016) var frá því greint að Kínverjar hefðu keypt ástralskt fyrirtæki, sem væri stærsti nautakjötsframleiðandinn í Ástralíu og spildan sem fylgdi fyrirtækinu væri meira en 100 þúsund ferkílómetrar , - á stærð við Írland, tvöfalt stærri en Danmörk. Írland er 85 þúsund ferkm. og Danmörk 43 þúsund ferkm. Þetta er dálítið undarlegur samanburður. Rétt er að landið, sem þetta fyrirtæki ræður yfir er um 100 þúsund ferkílómetrar , þar af er einn búgarður, ein jörð, 70 þúsund ferkílómetrar eða á stærð við Írland. Heildarland fyrirtækisins, sem Kínverjar voru að kaupa sig inn í, er að flatarmáli álíka stórt og Ísland sem er 103 þúsund ferkílómetrar. Eða á stærð við Kentucky-ríki í Bandaríkjunum sem er 104 þúsund ferkílómetrar.
ENDURTEKIÐ EFNI
Aftur og aftur heyrir maður sömu staðaheitin borin rangt fram í útvarps/sjónvarpsfréttum. Síðast í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (26.04.2016). Enn einu sinni var skýru k-ái bætt inn í nafn ríkisins Connecticut í Bandarríkjunum. Þar á ekki að vera neitt k á. Réttur framburður er: /konn-NE-tti-köt/ eins og heyra má hér: http://inogolo.com/pronunciation/Connecticut
Þetta er ekkert flókið, en skrítið að heyra sömu villuna aftur og aftur. Hefur nokkrum sinnum verð nefnt í Molum. Séu fréttamenn í vafa um réttan framburð erlendra nafna tekur aðeins nokkrar sekúndur að finna réttan framburð á netinu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2016 | 07:13
Molar um málfar og miðla 1937
VEÐRUN ALMANNATRAUSTS
Lesandi benti Molaskrifara á þessa frétt á mbl.is (27.04.2016) og sagði, - ,,Hefði ekki verið betra að birta frumtextann. Þetta er óskiljanlegt. Fréttina er rétt að birta í heild: ,, Lögreglustjórinn í Suður-Jórvíkurskíri í Bretlandi var leystur frá störfum í dag í kjölfar aðdragana og útgáfu Hillsborough úrskurðarins hvers niðurstaða var að lögregla bæri hluta ábyrgðarinnar á slysinu á Hillsborough leikvanginum í Sheffield árið 1989 þar sem 96 áhangendur Liverpool létu lífið.
Lögreglumálastjóri Suður-Jórvíkurskíris, Alan Billings, sá kjörni fulltrúi sem fer með málefni lögreglunnar á svæðinu sagðist ekki hafa átt neinna annarra kosta völ en að leysa David Crompton frá störfum á grunni veðrunar almannatrausts. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Enginn fullorðinn á vaktinni? Molaskrifara varð á að hugsa: - Hvað hefði Matthías sagt?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/04/27/rekinn_vegna_hillsborough/
LÆRISVEINARNIR FRÁBÆRU
Sigurður Sigurðarson sendi Molum eftirfarandi (25.04.2016): ,,Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar unnu frábæran sigur gegn Spánarmeisturum Barcelona, 29:24, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistara- deildar Evrópu í handknattleik í gær. Það var boðið upp á frábæran leik í Sparkassen-höllinni þar sem Kiel hafði undirtökin nær allan tímann. Staðan eftir fyrri hálfleikinn var 16:12, Kiel í hag, en strákarnir hans Alfreðs léku frábæran varnarleik með danska landsliðsmarkvörðinn Niklas Landin í fantaformi á milli stanganna.
Ofangreind tilvitnun er úr íþróttasíðu Morgunblaðsins 25. apríl 2016, sem Guðmundur Hilmarsson, blaðamaður, skrifar. Við þetta nafnorðastagl er hægt að gera nokkrar athugasemdir.
Leikmenn Kiel eru ekki lærisveinar þjálfarans, ekki frekar en Guðmundur er lærisveinn ritstjóra sinna. Á lærisveinum er þó klifað í mörgum íþróttafréttum Moggans og er þörf á að því linni enda röng notkun á orðinu.
Í öllum þessum þremum málsgreinum er klifað á að eitthvað hafi verið frábært. Svona suð nefnist nástaða og er ekki til fyrirmyndar.
Loks má nefna nafnorðastílinn. Fer ekki betur á því að skrifa að leikmenn verjist heldur en að leika varnarleik? Jú, vissulega þarf að hugsa betur um það sem er ætlunin að skrifa og taka sér tíma til að orða það betur. Vandinn er sá að margir blaðamenn, ekki bara íþróttafréttamenn, kunna ekki eða vita ekki hvernig hægt er að tjá hugsanir og viðburði á fjölbreyttan hátt. Molaskrifari þakkar Sigurði þarfar ábendingar. Gott er að eiga góða að.
HANN ,HÚN EÐA HVAÐ?
Af mbl.is (25.04.2016) : ,, Viðkomandi æstist enn frekar við að fá ekki að fara með vélinni svo grípa varð til þess ráðs að flytja hana á lögreglustöð til vistunar þar til af honum bráði. Þarna hefur fréttaskrifari eitthvað ruglast í ríminu! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/25/fekk_ekki_ad_fljuga_vegna_olvunar/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2016 | 10:01
Molar um málfar og miðla 1936
RUGLINGUR
Í þessari frétt á mbl.is (26.04.2016) kemur fram að blaðamaðurinn, sem skrifar fréttina þekkir ekki, muninn á forsætisráðuneytinu og skrifstofu forseta Íslands. Skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins er tvisvar nefndur í fréttinni og raunar nafngreindur einu sinni, þegar spurningum er beint til forseta Íslands. Til forsetaskrifstofu. Þetta mun hafa verið leiðrétt er leið á daginn. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/26/olafur_ragnar_ekki_motad_afstodu/
Þetta vekur spurningar um hvaða kröfur séu gerðar til nýliða um þekkingu á stjórnkerfinu.
SAFNAÐ FYRIR BÖRNUM
Úr frétt á mbl.is (25.04.2016): ,, Hann hafði ætlað sér að vera á sjó í fimm mánuði og safna pening fyrir börnum í neyð.
Æ oftar sér maður eintölu myndina pening í fréttum. Þetta hefur fram til þessa verið að mestu bundið við óformlegt talmál. , ,,Ég á engan pening Ég er blánkur. Hér hefði betur verið sagt: ,, Hann hafði ætlað sér að vera á sjó í fimm mánuði og safna fé fyrir börn í neyð, handa börnum í neyð.. Að safna peningum fyrir börnum, er eiginlega að safna peningum til að kaupa börn. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/04/25/aetladi_ad_hlaupa_til_bermuda/
ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT
Ótrúlega algengt er að þeir sem skrifa fréttir séu illa að sér um notkun viðtengingarháttar. Dæmi af hringbraut. is (24.06.2016): Prófessor: Fólk ofmeti sigurlíkur ÓRG. Er prófessorinn að hvetja fólk til að ofmeta sigurlíkur ÓRG. Nei. Hér ætti að standa: Prófessor: Fólk ofmetur sigurlíkur ÓRG . http://www.hringbraut.is/frettir/professor-folk-ofmeti-sigurlikur-org
SMÆLKI
* Í fréttum Stöðvar tvö (23.04.2016) var talað um fimm meðlimi sömu fjölskyldu. Betra hefði verið og einfaldara að segja, - fimm úr sömu fjölskyldunni.
* Í sama fréttatíma sagði fréttaritari Stöðvar um hótelbyggingu í Öræfum að þar væri engu til sparað. Ótrúlega oft er farið rangt með þetta. Venja er að segja ekkert til sparað. Hinsvegar er sagt engu til kostað.
* Enn skal vitnað til sama fréttatíma. Þar var talað um að kjósa með áframhaldandi veru í Evrópu í þjóðaratkvæðagreiðslunni .... Það er ekki kosið í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þar eru greidd atkvæði með eða móti. Reyndustu fréttamenn rugla þessu saman.
* Í fréttum Ríkissjónvarps þetta sama kvöld var sagt að fjögurra ára gamall breskur prins hefði átt fund með bandarísku forsetahjónunum, Michelle og Barack Obama! Ja, hérna.
* Í sjónvarpsdagskránni á vef á vef Ríkisútvarpsins var þessi liður á dagskrá á laugardagskvöld: Kórónan Hola - Hinrik V - Hollow Crown - Henry V. Hversvegna stór stafur í hola? Hefði ekki verið nær að tala um kórónuna innantómu?
* Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.04.2016) talaði fréttamaður um ræðismannaskrifstofu Hollands í Tyrklandi. Það heitir ræðismannsskrifstofa , ekki ræðismannaskrifstofa.
* Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 16 00 (24.04.2016) var sagt frá rútuferðum frá Keflavíkurflugvelli norður í land. Sagt var að ferðirnar hefðu viðkomu á .. og í Húnvatnssýslum. Ferðir hafa ekki viðkomu. Segja hefði mátt , - með viðkomu á ...
* Í fréttayfirliti Bylgjunnar á hádegi (25.04.2014) var talað um að knýja fram úrslit um. Knýja fram úrslit, hefði dugað. Ekkert um.
* Af forsíðu mbl.is (25.04.2016): ,,Langstærstur hluti starfsemi minnar er utan Íslands. Þetta segir Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samherja.Eitt er Samherji, annað Samskip!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2016 | 08:14
Molar um málfar og miðla 1935
EKKERT LÁT Á AMBÖGUNUM
K.Þ. skrifaði Molum (23.04.2016) og benti á þessa ambögu á
vefnum Pressan eyjan.is
"... þar sem skoðanakannanir hafa verið óafgerandi í báðar áttir."
Ambögurnar í þessari frétt eru reyndar fleiri.
Hann bætir við: ,,Ekki virðast vera nein takmörk fyrir ambögunum!
Molaskrifari þakkar ábendinguna.
UPP ÚR ÖLLU VELDI
Miklu skiptir að rétt sé farið með orðtök, sem eru gömul og gróin í málinu. Í Fréttatímanum (22.-24.04.2016) segir í frétt um hækkun húsaleiguverðs: ,,...og leiguverð hefur rokið upp úr öllu veldi.
Hér hefði fréttamaðurinn átt að skrifa , - ... og leiguverð hefur rokið upp úr öllu valdi- ekki veldi. . Með öðrum orðum, - leiguverð hefur hækkað mjög mikið. Orðið veldi getur fyrir utan vald, yfirlæti , verið hugtak eða tákn í stærðfræði lítill tölustafur fyrir aftan stærri tölustaf, sem sýnir hversu oft tiltekin tala er margfölduð með sjálfri sér.
KJÖRSTÖÐUM LOKAÐI!
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (24.04.2016) sagt frá kosningum í Serbíu. Kjörstöðum lokaði í Serbíu fyrir stundu, sagði fréttamaður. Molaskrifara rámar í að hafa heyrt þessa ambögu áður. Hvernig dettur fólki í hug að taka svona til orða? Að einhverju loki ? Kjörstöðum var lokað í Serbíu fyrir stundu.
SAGAN OG GRANDINN
Í kynningarblaði, svokölluðu, um Grandann út Í Örfirisey, starfsemi og mannlíf þar, sem fylgdi Fréttablaðinu á laugardag (23.04.2016) er birt ljósmynd af vesturhöfninni í Reykjavík ,sem sögð er frá árinu 1947. Í myndatexta er talað um Bæjarútgerð Reykjavíkur BÚR Grandagarði 8. Húsið sem sést á myndinni hafði ekkert með Bæjarútgerð Reykjavíkur að gera árið 1947. Myndin er af húsi Fiskiðjuvers ríkisins sem reist var 1946 til 1947 og tók til starfa það ár. Frá þessu er ágætlega greint í fyrra bindi Sögu Faxaflóahafna, Hér heilsast skipin, eftir Guðjón Friðriksson , sagnfræðing. Bæjarútgerð Reykjavíkur eignaðist þetta hús ekki fyrr en árið 1959.
AMASON
Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1600 (23.04.206) var sagt frá kóralrifi, sem fundist hefði undan ósum Amasonárinnar. Aftur og aftur var talað um Amasonána í fréttinni. Það er föst málvenja í íslensku að tala um Amasonfljótið og engin ástæða til að breyta því.
REKA REKJA
Af forsíðu visir.is (24.04.2016): ,,Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rekið sex umferðarslys til farsímanotkunar síðan 2010. Tölur gefa ekki rétta mynd segir aðstoðaryfirlögregluþjónn. Hér er ruglað saman sögnunum að reka og rekja. Réttilega var talað um að rekja í sjálfri fréttinni.
STEIG TIL HLIÐAR!
Enn talar fólk, síðast nýr utanríkisráðherra á Bylgjunni (24.04.2016), um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi stigið til hliðar. Hann steig ekki til hliðar. Hann baðst lausnar. Sagði af sér. Það á að segja hlutina eins og þeir eru. Raunar hrökklaðist hann úr embætti, en flokkssystkin hans eiga sjálfsagt erfitt að með að segja það hreint út.
VANDA SIG
Fyrirsagnasmiðir á hringbraut.is þurfa að vanda sig meira. Sprenging í breiðþotuflugi til Keflavíkur, var ekki góð fyrirsögn á frétt um aukið breiðþotuflug um völlinn (25.04.2015). http://www.hringbraut.is/frettir/sprenging-i-breidthrotuflugi-til-keflavikur
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2016 | 07:16
Molar um málfar og miðla 1934
POPPGOÐIÐ
- skrifaði Molum (22.04.2016): ,,Í Mogga dagsins stendur: Poppgoðið Prince látinn.
Þetta stangast á við máltilfinningu mína. Sammála. Hér hefði átt að standa: ,,Poppgoðið Prince látið . Goð er hvorugkynsorð. Þakka ábendinguna.
BÍLVELTA VARÐ
Áfram er haldið að segja í fréttum: Bílvelta varð.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (231.04.2016): Tvær bílveltur urðu í nótt.
Í Molum hafa áður verið gerðar athugasemdir við þetta orðalag. Ómar Ragnarsson hefur líka gert athugasemdir við þetta á bloggi sínu. En bílveltur halda áfram að verða. Hér hefði farið betur á að segja, til dæmis: Tveir bílar ultu í nótt. Eða tvær bílveltur í nótt. http://www.ruv.is/frett/tvaer-bilveltur-i-nott-0
LÍFÆÐAR HJARTANS
Lífæðar hjartans var prýðilegur fræðsluþáttur Hjartaheilla, sem Ríkissjónvarpið sýndi á miðvikudagskvöld (20.04.2016). Það þarf ekki alltaf að kosta miklu til til að gera áhugaverða þætti eins og þennan. Ríkissjónvarpið gæti ýmislegt af því lært.
SUMT FÆR AÐ VERA Í FRIÐI
Sem betur fer fær sumt að vera að vera í friði fyrir þeirri þörf stjórnenda Ríkisútvarpsins að setja sitt mark á dagskrána og breyta því sem engin ástæða er til að breyta.
Þannig fékk morgundagskrá Ríkisútvarpsins á Rás eitt að vera í friði á sumardaginn fyrsta (21.04.2016) . Fyrst Mendelsohn og síðan gömlu sumar- og ættajarðarlögin. Sumar hefðir eiga að fá að lifa í friði.
NORSK KONA ....
Úr frétt á vef Ríkisútvarpsins (23.04.2016): ,, Norsk kona sem hugðist skoða híbýli tígrisdýrs ásamt barni sínu í Dyreparken í Kristiansand brá heldur en ekki í brún þegar hún sá dauðan, hauslausan sebrahest í búrinu. Norsk kona brá ekki brún. Norskri konu brá í brún. Hjálp, málfarsráðunautur! Ekki í fyrsta skipti
http://www.ruv.is/frett/hauslaust-hrae-i-dyragardi-vekur-ohug
STAFSETNING
Stöð tvö á ekki að láta fólk semja skjátexta, sem veit ekki að í orðinu þátttaka eru þrjú - t -. Þetta sáum við í fréttatímanum á sumardaginn fyrsta (21.04.2016)
ÞRÍR FYRIR TVO
Þegar verslunin Intersport auglýsir: Þrír fyrir tvo af öllum skóm, þýðir það þá að maður fái þrjá skó? Dæmalaust að láta sér detta í hug að orða þetta svona. Er ekki átt við að kaupi maður tvö pör af skóm fylgi þriðja parið. Eða hvað ?
ÞJÓÐBRAUT
Þáttur Sigurjóns M. Egilssonar Þjóðbraut á Hringbraut fór ágætlega af stað í gærmorgun (24.04.2015). Þetta á þó eftir að slípast og heiti þáttarins mætti að skaðlausu birtast oftar á skjánum.
Í tímaflakkinu í sjónvarpi Símans var dagskrá Hringbautar kolrugluð í gærmorgun.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2016 | 10:42
Molar um málfar og miðla 1933
SKYLDI - SKILDI
Molavin skrifaði (20.04.2016): "...(drottningin) var alltaf til staðar og skyldi þessar flóknu tilfinningar..." segir í netfrétt Morgunblaðsins 20.04.2016 um Vilhjálm prins og hefur ekki verið leiðrétt allan morguninn. Það er með ólíkindum að starfandi blaðamenn á einu virtasta blaði landsins kunni ekki y-regluna en verra er þó að enginn taki eftir og leiðrétti. - satt segirðu, Molavin. Undir miðnætti á fimmtudagskvöld (21.04.2016) var þetta enn óleiðrétt á mbl.is. Yfirlestri og gæðaeftirliti er ekki til að dreifa í þeim mæli sem vera skyldi. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/04/20/drottningin_studdi_vilhjalm_eftir_modurmissinn/
FJÖR Í STJÓRNARRÁÐINU
Tveir góðvinir Molanna bentu Molaskrifara á meinlega prentvillu (?) í Kjarnanum (20.04.2016): Nýjar siðareglur...Forsætisráðuneytið mun semja nýjar siðareglur fyrir ráðherra í samræði við öll ráðuneytin. Þeir spurðu: Stóðlífi? - Greinilega fjör framundan í stjórnarráðinu, ef marka mátti þetta. Villan var leiðrétt síðar.
FÉKK GAT Á SKROKKINN
Í frétt á mbl.is (21.04.2016) segir:,, Bátur strandaði í höfninni á Sauðárkróki í gærkvöldi. Báturinn var að koma inn eftir veiði gærdagsins þegar hann fékk gat á skrokkinn fyrir neðan sjólínu með þeim afleiðingum að sjór flæddi inn í vélarúmið. Hvað gerðist? Engin skýring. En næsta málsgrein ber með sér að ekki hafi verið vanur maður á vaktinni og enginn til eftirlits, - eða til að lesa yfir: ,, Að sögn lögreglunnar á Sauðárkróki sigldi skipstjórinn beint upp í fjöru innan hafnaminnisins til að bjarga bátnum og strandaði honum þar. Tóku að því loknu við aðgerðir til að ná bátinum á þurrt og segir lögregla engum hafa orðið meint af. Ágætu mbl.is menn, þið eigið að geta gert betur en þetta.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/04/21/batur_strandadi_i_hofninni_a_saudarkroki/
OG ÞÚ LÍKA ....
Fjölmiðlar hér féllu hundflatir fyrir einhverjum Kardashian systrum heimsóttu Ísland með föruneyti - fólk sem vel virðist eiga heima á svokölluðu Smartlandi mbl.is, þar sem oft er að finna slúður um fræga, ,,fína fólkið. Það tekur þó út yfir allan þjófabálk, þegar Ríkissjónvarpið slæst í hópinn, leggst flatt og fjallar um þetta fólk undir liðnum Menning í Kastljósinu ! Önnur umfjöllunarefni Kastljóss þetta kvöld voru nær því að flokkast undir menningu.
BARNIÐ VAR FRUMSÝNT!
Nú er fræga fólkið farið að frumsýna börnin sín, ef marka má mbl.is og ekki lýgur Moggi. Ja, hérna.
Sjá: http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/04/20/frumsyna_frumburdinn/
ÚTVÖRPUÐ MESSA
Af heimasíðu Hallgrímskirkju á sumardaginn fyrsta (21.04.2016): Messan verður útvörpuð á Rás 1.- Ekki gott. Messunni verður útvarpað á Rás eitt. http://www.hallgrimskirkja.is/2016/04/20/skatamessa-a-sumardaginn-fyrsta/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)