20.6.2016 | 09:54
Molar um málfar og miðla1962
,,NIÐUR LÆKJARGÖTU
Molavin skrifaði (15.06.2016): ,, Af fréttavef ruv.is (15.06.20169: "hófst eftirförin við Lækjartorg við Austurstræti. Ökumaður bifreiðarinnar ók á ofsahraða niður Lækjargötu í átt að Reykjavíkurtjörn." Nú hef ég aldrei heyrt talað um að Lækjargata liggi upp eða niður, líkt og t.d. Bankastræti, en þar sem hún er nokkurn veginn lárétt mætti ætla að rökréttara væri þá að tala um áttina "niður" til sjávar? Eðlilegast hefði þó verið að segja "suður" Lækjargötu..
Kærar þakkir Molavin. Kannski hefur sá sem skrifaði ekki komið í miðborg Reykjavíkur.
AUKASETNINGAFÁR
Sigurður Sigðurðarson skrifaði (10.06.2016):
,Dagarnir, þegar Roy Hodgson stillti liði sínu upp í formfast 4-4-2 leikkerfi með svo litlu flæði að Gary Lineker spurði hvort England væri að spila fótbolta ,,frá miðöldum,«, heyra fortíðinni til.
Svona byrjar grein í EM-blaði Morgunblaðsins og er frekar hallærisleg málsgrein. Orðaröðin er flækja. Byrjað er á einu orði, svo skotið inn aukasetningum og síðast kemur aðalatriðið eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Lesa þarf málsgreinina aftur og aftur til að skilja.
Ég veðja á að þetta sé þýðing úr ensku, unnin í Google-Translate. Ekki nokkur maður kemur nærri. Allt vélrænt. Að öðru kosti hefði þýðingin verið eitthvað á þessa leið: Þeir dagar eru liðnir er Roy Hodgson stillti liði sínu upp í formfast 4-4-2 leikkerfið með afar litlu flæði. Gary Lineker spurði/velti fyrir sér hvort England væri að leika fótbolta frá miðöldum.
Í góðu íslensku ritmáli skiptir stundum miklu að setja punkt sem oftast, ekki rugla með margar aukasetningar. Þetta ráðleggur til dæmis Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri, í afburðagóðum vef sínum.
Íþróttafréttamenn eru oftar en ekki valdir til starfa á fjölmiðlum vegna sérþekkingar sinnar. Þeir eru því miður ekki allir góðir pennar, ekki frekar en fjölmargir blaðamenn. Raunar er það svo að allir sem stunda skrif af einhverju tagi ættu að geta lært eitthvað af Jónasi. Oft má styðjast við Google-Translate en þýðingar úr því apparati verður að taka með fyrirvara og lagfæra - oftast mikið. - Kærar þakkir, Sigurður. Satt og rétt.
FALDI SIG Í RJÓÐRI!
Sigurður sendi Molum annað bréf á fimmtudag (16.06.2016). Þar segir:
,,Birgir Olgeirsson, blaðamaður á visir.is segir í fyrirsögn og frétt:
Faldi sig fyrir lögreglumönnum í rjóðri eftir að hafa tekið u-beygju á Lækjargötu.
Hvað skyldi rjóður vera. Jú, samkvæmt minni máltilfinningu er það staður í skógi þar sem engin tré vaxa. Víða á Goðalandi eru rjóður og þar er oft tjaldað. Varla hefur flóttamaðurinn falið sig í rjóðri. Hafi hann gert það er ekki furða þótt hann fyndist. Líklegra er að hann hann hafi falið sig í kjarri, enginn skógur á þessu svæði. Fortek þó ekki fyrir það að maðurinn hafi staðið í rjóðrinu, lokað augunum og talið sig vel falinn. Takk, Sigurður. Auðvitað. Það feur sig enginn í rjóðri!
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða senda skilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2016 | 09:00
Molar um málfar og miðla 1961
Stundarhlé hefur verið á Molaskrifum vegna fjarveru skrifara, sem brá sér af bæ, eins og þar stendur. Allmargar ábendingar hafa borist og verða þær birtar á næstu dögum, svo og almennar athugasemdir um málfar í fjölmiðlum , sem Molaskrifari hnaut um, þótt fjarri væri fósturjörðinni.
KNATTSPYRNUSKRIF OG LÝSINGAR
Fyrrverandi starfsbróðir í fréttamennskunni skrifaði (16.06.2016):
Allir börðust fyrir hvorn annan og gerðu Portúgölunum erfitt fyrir skrifar íþrótta-blaðamaður Fréttablaðsins í morgun. Greinilega mikill málfarsmetnaður á þeim bæ. Hélt að það væri ennþá barnaskólalærdómur að hvor ætti við tvo en hver við fleiri en tvo. Greinilega ekki krafist barnaskólaprófs á Fréttablaðinu. Nema það hafi aðeins verið tveir leikmenn í íslenska liðinu í gær. Það kemur ekki heim og saman við útsendingu BBC-One, sem ég horfði á í tölvunni minni, mér til óblandinnar ánægju, laus við metnaðarlaust fúsk íslenskra íþróttafréttamanna. Ég hef fyrir löngu gefist upp við að horfa á íþróttaviðburði í íslensku sjónvarpi vegna fúsks og slakrar fagmennsku íslenskra íþróttafréttamanna.
Þeir hafa greinilega ekkert lært af BFel og SigSig, en mættu gjarnan kynna sér hvernig þeir stóðu að verki. - Þakka bréfið. Það vakti athygli Molaskrifara (sem reyndar er ekki kunnur áhugahugamaður um knattspyrnu),sem fylgdist með nokkrum leikjum þar sem einungis þýskar rásir voru aðgengilegar hvernig þýsku þulirnir kunnu að þegja, blöðruðu ekki út í eitt , - brýndu vissulega raustina, þegar fjör færðist í leikinn. En þeir öskruðu ekki á okkur áhorfendur, meins og væru þeir búnir að glata glórunni.. Starfsbræður þeirra íslenskir eiga margt ólært.
ÞARFAR ÁBENDINGAR
Sigurður Sigurðarson skrifaði (16.06.2016)
Sæll,
Á visir.is skrifar blaðamaðurinn Eiríkur Stefán Ásgeirsson algjörlega óboðlegan texta og enginn á ritstjórninni les hann yfir, því miður fyrir blaðamanninn. Fyrirsögnin er þessi:
Heimir: Kom enginn hingað til að taka í höndina á Ronaldo
Á eftir þessari fyrirsögn vantar spurningarmerki vegna þess að þetta er spurning. Þannig er það venjulega þegar sagnorð er í upphafi. Hins vegar var þetta ekki spurning heldur fullyrðing. Hún hefði því átt að vera svona: Enginn kom hingað til að taka í höndina á Ronaldo.
Ronaldo tók ekki í hendur leikmanna íslenska liðsins eftir leik og lét svo hafa eftir sér að fögnuður íslensku leikmannanna lýstu lélegu hugarfari og að Ísland myndi ekkert gera á mótinu.
Þarna ætti að standa að fögnuðurinn lýsti ekki lýstu. Vel hefði farið á því að þessi langa málsgrein hefði verið klippt í sundur með punkti.
Ofnotkun aukafrumlags í fréttinni bendir ekki til þess að sá sem skrifar hafi skilning á stíl. Fleira má nefna. Læt eftirfarandi nægja sem er að vísu innan gæsalappa, skrifað eftir viðmælanda. Hins vegar er það skylda blaðamanns að lagfæra orðalag sem greinilega er ekki rétt:
Eins og ég segi, ég var bara ekkert að spá í því. Ég ætla heldur ekkert að vera að spá í því.
Þar að auki er þetta stagl. Vel má vera að hægt sé að segja spá í því. Held að svona orðalag sé vitleysa. Blaðamaðurinn hefði átt að láta eftirfarandi nægja: Ég er bara ekkert að velta þessu fyrir mér og ætla ekki að gera það. Þakka þér þarfar ábendingar, Sigurður. Gott er að eiga góða að.
SKÖMM Í HATTINN
Húsasmiðjan fær skömm í hattinn fyrir að senda viðskiptavinum smáskilaboð, þar sem enskuslettan TAX FREE er tvítekin og íslenskir stafir ekki notaðir nema að hluta. Skilaboðin hefjast svona: TAX FREE dagurinn er i dag. Nánast allar vörur... Óboðlegt og ósatt. Það er ekki verið að afnema neinn skatt heldur veita svolítinn afslátt. Svona auglýsingar eru ekki til að auka hróður fyrirtækisins. Nema síður sé.
GLEÐIILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ, ÁGÆTU MOLALESENDUR !
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2016 | 09:42
Molar um málfar og miðla 1960
HNÖKRAR
Nokkra málfarshnökra mátti heyra í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (05.06.2016). Þar var meðal annars sagt: ,, ... í útför hnefaleikakappans Mohammeds Ali sem gerður verður frá Louisville í Kentucky á föstudag. , - sem gerð verður.
Einnig var sagt: ,, Hinsegin framhaldsskólanemum líður mun verr en gagnkynhneigðum skólasystkinum sínum. Skólasystkinum þeirra, finnst Molaskrifara að þetta hefði átt að vera.
FRAMSÓKNARMAÐUR DÚXAÐI
Þetta er fyrirsögn af mbl.is (07.06.2016). Já, mbl.is finnst það greinilega fréttnæmt, að Framsóknarmaður skuli hafa náð góðum námsárangri. Hvenær fór það að tíðkast að tilgreina stjórnmálaskoðanir þeirra sem standa sig best á prófum? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/07/framsoknarmadur_duxadi/
POTTURINN ER EKKI BÚINN AÐ FARA ÚT
Molalesandi spyr, hvar endar svona málfar ? Hann vísar til þessarar fréttar á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/07/staersti_pottur_i_sogu_vikingalottos/
Í fréttinni segir meðal annars:
Ofurpotturinn er ekki búinn að fara út í þrjátíu og eina viku svo hann er búinn að safnast upp og er því orðinn svona stór. Þetta er því langstærsti Víkingalottópottur sem hefur verið í sögunni, segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár, um Víkingalottópottinn sem dreginn verður út á morgun. Molaskrifari þakkar ábendinguna og segir bara: Von er að spurt sé.
HALLÓ MOGGI !
Af mbl.is (06.06.2016): ,,Greint var frá því í kvöldfréttum RÚV í gær, að starfsmenn fyrirtækisins Stay Apartments hafi verið sagt upp störfum eftir að hafa krafist þess að fá fasta starfsmannaaðstöðu. Var starfsmenn sagt upp störfum? Starfsmönnum var sagt upp störfum. Í fullri vinsemd, mbl.is. Lesið yfir og leiðréttið aulavillur af þessu tagi. Þær eru því miður alltof algengar á skjánum. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/06/bregdast_strax_vid_mali_stay_apartments/
Í frétt Ríkisútvarpsins um þetta sama mál segir: ,,Hóteleigandinn viðurkennir að hafa beygt reglur í ellefu ár. Beygt reglur! Það orðalag er Molaskrifara framandi. Greinilega braut maðurinn gildandi reglur.
ÚTFÆDDUR
Geir Magnússon,sem er búsettur erlendis,segist hafa komist í slæmt skap eftir að hafa lesið á mbl.is (?) um reykspólun ökufanta í vesturbænum í liðinni viku.
Hann segir, meðal annars: ,,Þetta var löng og illa skrifuð grein um konu í vesturbænum, sem var að kvarta undan hávaða í spyrnubílum um nætur. Fréttabarnið fyllti dálk eftir dálk um lítið efni og klykkti svo út með mynd af konunni, sem kvartaði.
Þetta kom mér svo til að hugsa um ástkæra ylhýra málið.
Kom þá í hug orðið útfæddur, um mann,sem ekki er fæddur á Íslandi og því ekki innfæddur.
Hvað segir þú um þetta orð? Molaskrifari hefur ekki heyrt þetta orð áður og finnst það ekki hljóma sérstaklega vel. Geir segir einnig:,, Í greininni um hávaða í Vesturbænum notaði blaðabarnið marg oft sögnina að driftera. Ragnar sonur minn sagði þetta vera amerískt tökuorð og merkti það að gefa í svo snögglega að bíllinn spólar og hrökklast til hliðar. Stakk Ragnar upp á því að kalla þetta hliðarspól.
Hvað finnst þér? Er það ekki ágætis nýyrði? Þakka bréfin.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2016 | 08:04
Molar um málfar og miðla 1959
MJÖG TIL BÓTA
Framsetning á veðurfregnum Ríkissjónvarpsins hefur tekið stakkaskiptum. Til hins betra. Mátti svo sem segja, að tími væri til kominn. Nú stendur Ríkissjónvarpið á þessu sviði alveg jafnfætis því besta sem sést í veðurfregnum erlendra stöðva. Mér finnst veðurfræðingarnir okkar reyndar um margt gera betur en erlendir starfbræður þeirra, og er þá ekki endilega verið að tala um áreiðanleika spánna. Heldur hvernig þeir tala við okkur. Og nú eru meira að segja komin borganöfn bæði á Evrópukortið og Norður Ameríku kortið. Takk.
ENN EITT DÆMI ...
Hér kemur enn eitt dæmi um rugling, sem alltof algengt er að hnjóta um í fréttum (mbl.is 03.06.2016): ,,Farþegarnir sem flugu aftur til Hamborgar með vélinni var þó komið fyrir í önnur flug og ættu að vera að skila sér til landsins. Farþegarnir var ekki komið fyrir! Orðalagið er út úr kú. Þetta mætti til dæmis orða svona: Farþegunum, sem flugu aftur til Hamborgar með vélinni, var því útvegað far eftir öðrum leiðum og ættu því að vera að skila sér til landsins. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/03/til_hamborgar_ad_skipta_um_ahofn/
FLÓTTI BROSTINN Í LIÐIÐ?
K.Þ. skrifaði (05.06.2016): Sæll Eiður,
"Fylgi við Höllu Tómasdóttur tekur á rás"
Þessi fyrirsögn segir mér að stuðningur við framboð Höllu fari minnkandi en ekki vaxandi eins og þó kemur fram í fréttinni.
http://kjarninn.is/frettir/2016-06-03-fylgi-vid-hollu-tomasdottur-ras/
Rétt. Undarleg fyrirsögn. Þakka bréfið.
ENN UM OPNUN
Úr fréttum Stöðvar tvö (04.06.2016): Norðurá opnaði í morgun, sagði fréttaþulur. Norðurá opnaði hvorki eitt né neitt. Veiðar hófust í Norðurá í morgun, hefði verið eðlilegra orðalag.
YFIRLÝSING
Úr fréttum Ríkisútvarps (04.06.2016): ,, ... hafa gefið frá sér sameiginlega yfirlýsingu.... Eðlilegra orðalag hefði verið: Hafa birt sameiginlega yfirlýsingu, hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu.
AÐ UNNA
Fyrirsögn í grein um afmælisbarn í Morgunblaðinu (04.06.2016): Óháður og unnir frelsi. Hefði ekki verið betra að segja: Óháður og ann frelsi?
HORNREKA
Enn einu sinni sannaðist í gærkvöldi (06.06.2016) að fréttirnar eru hornreka í Ríkissjónvarpinu og íþróttadeildin valtar yfir fréttastofuna þegar henni sýnist. Og það er oft. Fréttaþjónustan skiptir ekki máli, þegar fótbolti er annarsvegar.
Í gærkvöldi voru fréttir styttar vegna fremur ómerkilegs fótboltaleiks, sem alveg hefði dugað að senda út á íþróttarásinni. Svo seinkaði seinni fréttum um 20 mínútur. Það fer ekki mikið fyrir metnaði þeirra sem stjórna fréttastofunni. Því miður.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2016 | 07:49
Molar um málfar og miðla 1958
BEITUR
Fyrirsögn úr Morgunblaðinu (01.06.2016): Sjö metra hákarl skorinn í beitu. Málkennd Molaskrifara segir honum, að hér hefði átt að segja að sjömetra hákarl hefði verið skorinn í beitur. Þar var ekki ætlunin að nota hákarlinn til beitu, sem agn fyrir fiska. Hann var skorinn í beitur til verkunar og átu, - bragðast vonandi vel á þorrablótum, þegar þar að kemur. Raunar finnst Molaskrifara að ekki þurfi þorrablót til að gæða sér á hákarli. Orðabókin segir: beita, flt. beitur, stykki af hákarli, hert eða til upphengingar.
UM LIMLESTINGAR
- skrifaði Molum (31.05.2016). Hann vísar til þessarar fréttar á mbl.is:
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/05/31/lest_vid_kynfaeralimlestingu/
Hann segir:,,Mér finnst ekki rétt orðaval að nota orðið limlesting í sambandi við aðgerð á sjúkrahúsi, hvort sem um löglega eða ólöglega aðgerð sé að ræða. Auðvitað er eðli aðgerðarinnar limlesting. En íslenzkan á gamalt og gott orð yfir það líffæri, sem aðgerðin beinist að, og er það orðið snípur.
Forhúð og snípur eru líffæri" sem bundin eru við getnaðarfæri og af einhverjum ástæðum hefur trúarbrögðum þótt sæma að beina spjótum sínum að þeim. Ungir drengir eru umskornir og það er umskurn. Væri ekki hægt að kalla þessa umtöluðu aðgerð í fréttinni snípaskurn? Kannski er annað orð til fyrir þetta fyrirbæri, en það orð þekki ég ekki. En auðvitað er þetta limlesting. Enginn efi um það. Þakka S. bréfið.
TAKA ÞÁTT Á
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (01.06.2016) var sagt: ,,.. taka þátt á sínu öðru Evrópumóti í röð .... Þetta hefur svo sem heyrst áður. Lönd eða lið taka ekki þátt á mótum. Við tölum um að taka þátt í einhverju, - taka þátt í móti.
Í íþróttafréttum Söðvar tvö (04.06.2016) var sagt : ,, ... var boðin þátttaka á mótinu ... Eru Molalesendur sáttir við þetta orðlag? Þetta hefur reyndar oft verið nefnt á þessum síðum. Er þetta jafngilt orðalag?
HVAR?
Sveinn skrifaði (01.06.2016): Sæll Eiður, þakka þér fyrir góða pistla. Rakst á þessa frétt Pressunnar í kvöld og ákvað að benda þér á hana einnig. Mér finnst nefnilega eins og blaðamaður hafi gleymt að taka fram hvort atvik hafi gerst í Reykjavík eða á Akureyri, kannski annars staðar á landinu.
Það er alla vega ekkert í fréttinni sem bendir til annars en að um frétt af innlendum vettvangi sé að ræða.
Eins þykir mér ólíklegt að hún verði ákærð fyrir kynferðislega áreitni, ætli það verði nú ekki frekar fyrir barnaníð.
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/vard-olett-eftir-13-ara-gamlan-nemanda-med-fullan-studning-fjolskyldunnar
Þakka bréfið, Sveinn. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2016 | 08:10
Molar um málfar og miðla 1957
EKKI GOTT
Velunnari Molanna benti skrifara á þessa frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins (02.06.2016) : http://www.ruv.is/frett/okumadur-a-gjorgaeslu-eftir-bilveltu
Í fréttinni segir meðal annars:,, Bíllinn hafi festist í fjallshlíðinni og þegar bílstjórinn reyndi að leysa bílinn úr hjólförum fór hann fram af brúninni og valt sex veltur. Konan og börnin voru þá farin úr bílnum og því maðurinn einn eftir þegar bíllinn valt. Heimildir fréttastofu herma að bílstjórinn hafi skotist úr bílnum og að hann hafi fengið bílinn ofan á sig í einni veltunni.
Þegar svona texti birtist á fréttavef Ríkisútvarpsins, - þá er eitthvað að. Er enginn verkstjórn, engin ritstjórn til staðar? Enginn metnaður til að gera vel?
EINS OG PABBAR SÍNIR
Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (31.05.2016): ,,Stefán Árni Pálsson blaðamaður á visir.is skrifar á vef sínum um fatnað þingmanna í eldhúsdagsumræðum. Hann segir meða annars:
Haukur segir að menn séu oft klæddir eins og pabbar sínir á þingi.
Æ, æ, æ. Þegar mér var sagt til í gamla daga á síðdegisblaði sem hét Vísir var gerð krafa til þess að blaðamaðurinn leiðrétti það sem haft var eftir viðmælandanum, hvort sem það er í beinni og óbeinni ræðu. Mér finnst þetta ágæt regla svo fremi sem blaðamaðurinn hefur getu til þess. Ef ekki er hann í röngu starfi.
Réttara hefði verið að segja þarna: Haukur segir að menn séu oft klæddir eins og feður þeirra/pabbar þeirra á þingi. Þó má enn notast við barnatalið; Komdu nú til babba síns/mömmu sinnar Gera verður þó þær kröfur til blaðamanns að hann leggi af barnahjalið þegar hann byrjar að skrifa í fjölmiðil.
UM VEÐUR OG VIND
Sami bréfritari, Sigurður, skrifaði Molum (01.06.2016): ,,Á mbl.is segir í frétt og fyrirsögnin er eins:
Það mun draga nokkuð úr vindi í nótt víða um landið og spáir Veðurstofan suðlægri
Vindgangur í fjölmiðlafólki er ótrúlegur. Sagt er að annað hvort aukist vindur eða úr honum dragi. Afar sjaldan er þess látið getið að vind lægi, hvað þá að hann hvessi. Í þessu tilfelli hefði farið betur á því að segja: Í nótt mun lægja víða um land og spáir Veðurstofan suðlægri Fjölmiðlamenn verða að búa yfir ríkulegum orðaforða og nota hann óspart.
Notkun á aukafrumlagi hefur aukist mikið á undanförnum árum. Varla er hægt að lesa fréttir eða greinar fyrir þessum leiðindum. Nær annar hver maður skrifar: Það er gaman Það gerðist í gær Það varð slys Aukafrumlag má kalla letiorð, dregur úr máltilfinningu og gerir texta leiðinlegan og ljótan. Hins vegar eru ekki allir á þessari skoðun, það viðurkenni ég. Hins vegar er best að nota aukafrumlag í hófi, rétt eins og allt annað.- Kærar þakkir fyrir bréfin tvö, Sigurður.
EKKI TIL FYRIRMYNDAR
Eftirfarandi er úr frétt á visir.is (31.05.2016). Þetta er ekki til fyrirmyndar. Enginn les yfir. ,, Til stendur að kaupa reksturinn og með í kaupunum fylgir leigusamningur sem er eftirsóknarverður, því leigan á húsnæðinu, gömlu Rúblunni við Laugaveginn, hefur ekki verið hár. Hins vegar er viðbúið að hann hækki verulega en samkvæmt heimildum Vísis rennur hann út eftir um það bil ár. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvaða rekstur Björn Ingi og félagar hans ætla í húsinu, en eins og áður sagði eru samningar ekki frágengnir.
http://www.visir.is/bjorn-ingi-visar-thvi-a-bug-ad-hafa-att-vid-boksolulista/article/2016160539815
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2016 | 11:27
Molar um málfar og miðla 1956
RÖNG GREINING FRUMLAGS
Molavin skrifaði (01.06.2016): ,,Það er nær daglegur viðburður að sjá í fréttaskrifum ranga greiningu frumlags í setningu. Sbr. þessi dæmi úr sömu frétt ruv.is í dag 1.6.2016: "Fjölmennt lið björgunarsveita og lögreglu björguðu erlendum ferðamönnum... Lögregla fékk tilkynninguna um miðnætti og óskuðu eftir aðstoð björgunarsveita..." Þarna var það lið sem bjargaði og lögregla sem óskaði. Það á ekki að krefjast flókinnar hugsunar að greina hvert er frumlag setningarinnar. Rétt er það, Molavin. Ekki flókið, en ótrúlega mörgum samt ofviða.
HUGLEIÐING - UM ATVIKSORÐ
Sigurður Sigurðarson skrifaði (30.05.2016):,, Hver er munurinn á þessu tvennu:
Menn gleyma norðurljósunum aldrei eða Menn gleyma aldrei norðurljósunum?
- Í raun er enginn munur á þessu, segir Sigurður, - en hins vegar finnst mér fara betur á því að nota hið síðara. Hið fyrra er að finna hér á mbl.is. Annars kunna að vera áhöld á því hvar atviksorð eiga heima, en íslenskan er tiltölulega frjálslynd með röðun orða. Þeir sem hafa vanist lestri íslenskra bóka frá barnæsku ættu þó að geta af tilfinningunni einni saman sett þau á réttan stað í texta. Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið.
LANDAFRÆÐIN
Of oft sjást þess merki, að fréttaskrifarar eru ekki nægilega vel að sér í landafræði eða því að kunna skil á algengum örnefnum. Af fréttavef Ríkisútvarpsins (30.05.2016): ,, Lögregla bendir vegfarendum á fara Kjósaskarðveg. Það er ekkert til sem heitir Kjósaskarðsvegur. Hér er verið að skrifa um veginn um Kjósarskarð, Kjósarskarðsveg.
http://www.ruv.is/frett/motorhjolamadur-alvarlega-slasadur
GAMALDAGS
Molaskrifara finnst það vart við hæfi, þegar í fyrirsögnum á fréttavef Ríkisútvarpsins er talað um Mosó í stað Mosfellssveitar og kló í staðinn fyrir klósett (30.05.2016). Einhverjum kann að finnast þetta gamaldags sjónarmið og nöldur, en þá verður svo að vera. Í þessum efnum er Molaskrifari íhaldsmaður.
AÐ BÍTA ÚR NÁLINNI
Í íþróttafréttum í seinni fréttum Ríkissjónvarps (30.05.2016), sagði íþróttafréttamaður um leik Stjörnunnar og Breiðabliks: ,, ... en Stjörnumenn fengu þó að bíta úr nálinni með þetta... Stjörnumenn höfðu ekki nýtt tvö góð tækifæri til að skora mark. Molaskrifara er öldungis óskiljanlegt hversvegna fréttamaður notar þarna orðtakið að bíta úr nálinni. Molaskrifari er á því að fréttamaður skilji ekki orðatakið, sem venjulega er að vera ekki búinn að bíta úr nálinni með e-ð, - vera ekki búinn að taka (neikvæðum) afleiðingum einhvers , e-u neikvæðu er ekki lokið. Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson bls. 622.
Ef menn nota orðtök í fréttaskrifum verða þeir að skilja merkingu þeirra og kunna að nota þau.
AULAFYNDNI
Það er fréttnæmt og það eru tímamót, þegar hætt er að nota Skólavörðustíg 9 , hegningarhúsið sem fangelsi eftir 142 ár. En hversvegna þurfti Ríkissjónvarpið (01.06.2016) að vera með aulafyndni og handjárnasýningu í frétt um lokun hegningarhússins? Fréttastofan setur niður við svona barnaskap. Leikaraskapur af þessu tagi á ekkert erindi í fréttir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2016 | 09:37
Molar um málfar og miðla 1955
UM FYRIRSAGNIR
Sigurður Sigurðarson skrifaði (29.05.2016): ,,Í Morgunblaðinu 27. maí 2016 segir í undirfyrirsögn og millifyrirsögn í grein um dóma Hæstaréttar:
Dómur dyravarðar mildaður
Að sjálfsögðu skilst þetta orðalag vegna samhengis við annað í greininni. Dyravörðurinn kvað ekki upp dóm sem síðar var mildaður. Líklega hefði verið réttara að orða þetta svona: Dómur yfir dyraverði mildaður.
Á vefnum dv.is er þessi fyrirsögn:
Mynd af pari faðmast veldur hausverkjum
Þetta er auðvitað meingölluð fyrirsögn. Með því að hafa orðið hausverkur í fleirtölu er átt við að allir sem umrædda mynd sjá fái hausverki. Það er ekki reyndin. Með réttu ætti fyrirsögnin að vera þessi: Mynd af pari að faðmast veldur hausverk, eða í faðmlögum. Ég fékk ekki hausverk vegna skondinnar myndar en velti þó vöngum yfir henni. Fyrirsögnin hefði því mátt vera; Vangaveltur um mynd af pari í faðmlögum. - Kærar þakkir fyrir bréfið, Sigurður. Það er vandi að semja fyrirsagnir. Það vita allir, sem fengist hafa við blaðamennsku. Og hér er dæmi um fyrirsögn af mbl.is (31.05.2016) sem Molaskrifara þykir ekki til fyrirmyndar. Úlfarsá (Korpa) skiptir um hendur
http://www.mbl.is/veidi/frettir/2016/05/31/ulfarsa_korpa_skiptir_um_hendur/ - Nýr aðili hefur tekið við sölu veiðileyfa í ánni.
LYFJAMISNOTKUN
Molavin skrifaði (30.05.2016): ,,Læknafélagið mætti að ósekju hvetja fréttastofu Ríkisútvarpsins og reyndar aðra fjölmiðla líka til þess að hætta að kalla lyf, sem misnotuð eru sem vímugjafar, "læknadóp." Læknar ávísa vitaskuld öllum tegundum lyfja eftir beztu samvizku til líknar eða lækninga og það er ekki við þá að sakast þótt vímufíklar misnoti þau. Réttara væri og sanngjarnara gagnvart læknastéttinni að tala um "lyfjadóp".. Hverju orði sannara. Hárrétt ábending. Þakka bréfið, Molavin. Í sjónvarpsfréttum gærkvöldsins (31.05.2016) var einmitt talað um læknadóp.
http://www.ruv.is/frett/rekja-sjo-daudsfoll-til-misnotkunar-a-suboxone
MEIRA UM BEYGINGAR Á MBL.IS
Það var nefnt í Molum á mánudag (1953) að mbl.is hefði fallið á grunnskólaprófi þegar í ljós kom í frétt um Laxá, að fréttaskrifari kunni ekki að fallbeygja orðið á í merkingunni straumvatn. Aftur varð mbl.is á í messunni á sunnudag (29.05.2015) í frétt þar sem sagt var frá lúxussnekkju, sem lá við festar í Hvalfirði. Þar var sagt: ,,.
Snekkjan ku vera eigu í föðurs eins ferðalanganna Skylt er að geta þess, að þessi villa var leiðrétt síðar.
FRÉTTAMAT Í FÍNU LAGI
Það er auðvitað stórfrétt, sem okkur var sögð í þrjú fréttum Ríkisútvarps á mánudag (30.05.2016), að tveggja sæta kennsluflugvél af gerðinni Cessna 152 hefði lent heilu og höldnu á þjóðvegi í grennd við Búdapest í Ungverjalandi. Betra samt en frétt af flugslysi.
http://www.ruv.is/frett/lenti-a-fjolfornum-thjodvegi
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2016 | 10:02
Molar um málfar og miðla 1954
ÞÖRF ÁDREPA
Molavin skrifaði (28.05.2015): ,,Netmoggi birtir í dag (28.05.2016) frétt af óhugnanlegri hópnauðgun í Brasilíu. Fréttin er orðrétt tekin upp úr frétt BBC en hefst á þessari undarlegu þýðingu: "Tímabundinn forseti Brasilíu, Michel Temer, hefur kallað öryggisráðherra allra ríkja landsins á neyðarfund..." Frétt BBC hefst á þessum orðum: "Brazil's interim President Michel Temer has called an emergency meeting of state security ministers..." Burtséð frá því hversu tímabundinn Temer varaforseti kann að vera, sem er nú settur forseti (acting president) meðan Dilma Rousseff forseti sætir rannsókn, þá birtir Morgunblaðið hér undarlega skilgreiningu á stjórnskipan Brasilíu. Þannig er og hefur verið áratugum saman að ýmsir ráðherrar ríkisstjórnar landsins ásamt yfirmönnum hersins skipa svokallað "þjóðaröryggisráð." Það hefur nú verið kallað saman.
Að Morgunblaðið haldi því fram að margar ríkisstjórnir séu í Brasilíu er aðeins dæmi um það að blaðamennskan þar snýst nú um að illa upplýstir blaðamenn þýði orðrétt fréttir erlendra fjölmiðla. Þýði þær rangt og illa og geti ekki heimilda. Morgunblaðið má muna sinn fífil fegurri. Það er svo sannarlega rétt, Molavin. Þakka bréfið. Þessum víðlesna miðli fer hrakandi. Málfjólum fjölgar, vandvirkni og metnaði er vikið til hliðar. Ekki er það gott. Langur vegur frá.
ÞEGAR MERKINGIN UMHVERFIST
Stundum missa orð merkingu sínu og stundum snýst merkinginn við. Orð fara að merkja andstæðu þess sem var upphafleg merking. Þannig er með orðið ógeðslegur. Það hefur fram til þessa þýtt viðbjóðslegur, sá sem veldur andúð.(sjá ísl. orðabók) Nú hefur þetta orð á seinustu árum fengið jákvæða merkingu. Í Vikulokunum á Rás eitt (28.05.2016) heyrði Molaskrifari ekki betur en kona, sem var gestur í þættinum, segðist vera ógeðslega stolt af lögreglunni. Hún var að tala um baráttu lögreglunnar gegn mansali og heimilisofbeldi. Konan átti við á meira gamaldags íslensku, að hún væri mjög ánægð með eða mjög stolt, hreykin af starfi lögreglunnar á þessum sviðum. Svona teygist og tognar á málinu. Unglingar tala um að eitthvað sé ógeðslega gott, ógeðslega skemmtilegt. Mjög gott, bráðskemmtilegt.
ENN ERU BOÐNAR SKÍRNATERTUR
Bakari í höfuðborginni heldur áfram að bjóða okkur skírnatertur í auglýsingum í Ríkissjónvarpinu (29.05.2016) . Molaskrifari er á því að rétt sé að tala um skírnartertur, ekki skírnatertur. Yfirlestur eða prófarkalestur er víst löngu kominn úr tísku á auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins. Þar taka menn bara við því sem að þeim er rétt, athugasemdalaust. Þannig á það ekki að vera.
FÁTÆKT FÓLK
Fátækt fólk eftir Tyggva Emilsson er um þessar mundir kvöldsagan á Rás eitt. Varð til þess að ég tók bækurnar fram og las þessar merku æviminningar að nýju. Tryggvi skrifar á köflum fágætlega fallegan texta, einkum og sér í lagi, þegar hann lýsir náttúrunni og högum álmúgans á æskuárum hans. Meðal ævisagna er þetta öndvegisverk. Frá Alþýðublaðsárunum man Molaskrifari vel eftir Tryggva en Verkamannafélagið Dagsbrún var þá með skrifstofu á sömu hæð Alþýðuhússins og ritstjórn Alþýðublaðsins. Þar mætti maður líka næstum daglega Eðvarði Sigurðssyni Guðmundi jaka ,Kristjáni Jóhannssyni og Hannesi M Stephensen.Sigurðar Guðnasonar minnist ég líka í svip, svo og fleiri verkalýðsleiðtoga , sem ég hafði horft til úr fjarlægð í verkfallinu mikla 1955. Þá þvældist ég dálítið með verkfallsvörðum.
Vel valin og vel lesin kvöldsaga.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2016 | 07:44
Molar um málfar og miðla 1953
GRÍÐARLEGA GRÍÐARLEGUR
Molavin skrifaði (27.05.2016): "Hún fer gríðarlega ótroðnar slóðir..." sagði kona í þættinum Samfélagið á Rás 1. Ofnotkun lýsingarorða gjaldfellir þau og það á ekki sízt við um orðið "gríðarlegur." Það er hægt að fara troðnar slóðir - og þá mistroðnar - en ótroðnar slóðir geta varla stigbeygzt . Flugvélin getur verið ókomin en varla gríðarlega ókomin. Bíllinn getur verið óseldur en varla gríðarlega óseldur. Gríður er gamalt orð yfir tröll. Það er ofnotað í myndlíkingum. Mætti segja "gríðarlega ofnotað." - Satt og rétt, Molavin, - þakka þér bréfið.
HRAÐLESTARRUGL
Fram kom í fréttum Ríkisútvarps að morgni (27.05.2016) að Reykjavíkurborg ætlar að byrja að nota fjármuni skattborgara sinna í lestarórana,- um hraðlestarsamgöngur milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar. Fram til þessa hefur ætíð verið talað um þetta sem algjöra einkaframkvæmd. Ekki ætti neitt opinbert fé að koma til. Það gildir greinilega ekki lengur. Leitað er á náðir hins opinbera löngu áður en ákvörðun um framkvæmdina, af eða á, er í augsýn. Dæmigert. Sennilega hefur hugmyndin um einkafjármögnun siglt í strand og því skal nú farið í vasa borgaranna. Er fjárhagur borgarsjóðs svo góður um þessar mundir að þessi ævintýramennska sé verjanleg? Undirbúningsfélagið um lestarævintýrið er sem sagt nú komið á spena hins opinbera, - í skjóli meirihlutans sem stjórnar höfuðborginni.
Hvernig væri að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar, áður en ætt er út í þetta fen?
SKARPSÝN SKÖTUHJÚ
Ingibjörg sendi eftirfarandi (28.05.2016), en það er af forsíðu Sarps Ríkisútvarpsin: ,,Skarpsýn skötuhjú - Partners in Crime. ,Breskur spennumyndaflokkur byggður á sögum Aghötu (svo!) Christie. HjóninTommy og Tuppence elta uppi njósnara í Lundúnum á sjötta áratugnum. Það reynist hjónunum erfiðara að segja skilið við heim njósna og kalds stríðs en þau nokkurn tíma óraði fyrir. Síðan segir hún:,, Hvað finnst þér um þessa kynningu RÚV? Í fyrsta lagi kannast ég ekki við orðmyndina "skarpsýn", þótt hún sé verjandi, sbr. "nærsýn". "Skarpskyggn" er gefið upp í Ísl. orðabók sem Mörður Árnason ritstýrði, en orðmyndin "skarpsýn" finnst þar ekki.
Hitt finnst mér verra að þessi harðgiftu og samhentu hjón séu kölluð skötuhjú. Skv. sömu orðabók eru skötuhjú ógift par (niðrandi eða í spaugi).
Ég hef reyndar sett fram þá tilgátu að hin upphaflegu skötuhjú séu þau sem myrtu eiginmann konunnar 1704 við Skötuhyl í miðkvísl Elliðaánna (nú þurri), og hentu honum svo í hylinn. Þau voru tekin af lífi f. verknaðinn á Kópavogsþingi. Þakka bréfið, Ingibjörg. Það er fljótsagt, - þetta er hvorki til fyrirmyndar né Ríkisútvarpinu til sóma.
MÆTTUR Í ÁNNA
Af mbl.is (27.05.2016): ,,Laxmýringar sáu fyrsta laxinn við staurinn í Kistukvisl í dag. Þar sjást venjulega þeir fyrstu sem ganga í ánna. Opnað verður 20. júní næstkomandi. Það var og. Enn einu sinni. Mbl.is fellur á prófi í grundvallaratriði í málfræði. Grunnskólamál. Hér ætti að standa , - sem ganga í ána. Eignarfall fleirtölu með greini , ánna, hefur hér ekkert að gera og er rangt.
Orðið á beygist eins og hér má sjá:
http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=12276
Enginn metnaður.
http://www.mbl.is/veidi/frettir/2014/05/25/laxinn_maettur_i_laxa_i_adaldal/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)