4.7.2016 | 09:26
Molar um málfar og miðla 1972
MÁNAÐARLEG BRÚÐARGJÖF!
Rafn skrifaði (01.07.2016): ,,Þetta var á vef visir.is (30.06.2016). Er nokkur nema íslenzk fréttabörn, sem halda að brúðargjafir séu endurteknar mánaðarlega??
,,Nú gengur póstur um netið á arabísku þar sem segir að íslenskur ráðherra hafi lofað þeim útlendingum sem giftast Íslendingum fimmþúsund dollurum í brúðargjöf.,,Sjá: http://www.visir.is/telja-sig-fa-600-thusund-a-manudi-flytji-their-til-islands-og-giftist-islenskri-konu/article/2016160639860
Þakka bréfið, Rafn. Meira en lítið undarlegt.
EFTIRSPURNIR
Í fréttum Bylgjunnar (28.06.2016.) var talað um að ótrúlegt væri hve mikið væri af eftirpurnum eftir flugmiðum til Frakklands. Orðið eftirspurn er ekki til í fleirtölu. Sjá vef Árnastofnunar: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=eftirspurn
Hér hefði átt að tala um mikla eftirspurn.
VIÐTENGINGARHÁTTUR
Eitthvað hefur misfarist í skólakerfinu við að kenna rétta notkun viðtengingarháttar í íslensku. Þetta má sjá aftur og aftur í fjölmiðlum.
Á forsíðu Morgunblaðsins (01.07.2016) er svohljóðandi fyrirsögn: Nýtt hótel verði opnað. Þetta er kannski fremur boðháttur, tilmæli um að opna hótel, hvatning til að opna nýtt hótel, eða hvað? Fréttin hefst á þessum orðum: ,,Stefnt er að því að opna nýtt hótel í Icelandair-keðjunni á Hljómalindar-reitnum um helgina. Þess vegna hefði fyrirsögnin mátt vera, til dæmis: Nýtt hótel verður opnað, eða, - Nýtt hótel opnað um helgina.
SPENNA
Molaskrifari er vanur því að talað sé um að maður haldi niðri í sér andanum á spennuaugnablikum, - eins og til dæmis í fótbolta. Hætti að anda eitt andartak. Í frétt á mbl.is (28.06.2012) sagði hinsvegar: ,,Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá hvernig lýðurinn ýmist hélt niður í sér andanum eða fagnaði ákaft. Nú má alveg vera að hvort tveggja sé jafn algengt, - ekki dæmir Molaskrifari um það, en hitt er honum tamara á tungu , að halda niðri í sér andanum og það hefur gerst nokkuð oft að undanförnu, - fyrir framan sjónvarpið. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/28/sjadu_fagnadarlaetin_a_arnarholi/
ÓMERKILEGT
Heldur er það ómerkilegt hjá Ríkissjónvarpinu að geta þess ekki þegar verið er að endursýna efni eins og til dæmis þáttaröðina Hamarinn. Þess er vandlega látið ógetið að þetta sé endursýnt. Eru dagskrárstjórar að reyna að villa um fyrir okkur áhorfendum? Þetta er svo sem ekki nýtt í Efstaleitinu. Heldur alsiða. Svona gera alvöru sjónvarpsstöðvar ekki. En íslenska Ríkissjónvarpið gerir þetta aftur og aftur.
EINKUNN, MISKUNN, FORKUNN OG VORKUNN
Fyrirsögn af fréttavefnum visir.is (02.07.2016): Útlendingastofnun fær tíu í einkun. Það er illa skrifandi fréttamaður, sem ekki kann regluna einföldu um orðin fjögur í íslensku, sem enda á tveimur n-um. Einkunn, miskunn, forkunn og vorkunn. Kannski er þetta ekki lengur kennt í grunnskólum.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2016 | 06:30
Molar um málfar og miðla 1971
MAGNIÐ
Sigurður Sigurðarson skrifaði : ,,Sæll,
Í Morgunblaðinu 30. júní 2016 bls. 23 er falleg mynd og undir henni er sagt frá stíflu og lóni í Kína. Þar segir meðal annars:
Mikið magn af botnfalli getur aukið líkur á flóðum og er þessi aðgerð því framkvæmd á hverju ári.
Þegar ofangreint er þýtt á íslensku verður merkingin þessi: Mikið botnfall getur valdið flóðum og er þetta því gert árlega. Ritstjórn Moggans er eindregið hvött til að láta þýðingu á hnökralausa íslensku fylgja með svona texta til að spara lesendum ómakið og auka skilning þeirra svo ekki sé nú talað um góð áhrif sem slíkt getur haft á unga og óharðnaða lesendur. Kærar þakkir, Sigurður.
AÐ ÍLENGJAST
Molavin skrifaði á miðvikudag: ,, Erlendar rútur ílengjast án leyfis" segir í fyrirsögn á fréttasíðu Ríkisútvarpsins í dag, 29.6.2016. Auðvitað lengjast rútur ekkert við komu til landsins, en þær ílendast. Rúnar Snær Reynisson skrifaði þetta. Það vantar fullorðna til að lesa yfir og leiðbeina úr því skólarnir standa sig ekki. - Þakka bréfið, Molavin.
ÍRASKUR
Molalesandi skrifaði (28.06.2016): ,,Góðan daginn . Á forsíðu mbl.is er fyrirsögn um íranska hælisleitendur, sem lögreglan sótti í Laugarneskirkju í nótt. Þegar farið er að lesa fréttina kemur í ljós að mennirnir eru frá S-Írak (Mesópótamíu), en alls ekki Íran (Persíu).
Það eru nú eiginlega lágmarkskröfur til þeirra sem skrifa fréttir Moggans að rugla ekki saman löndum. Það er ekki stríð í Íran.
Þakka bréfið. Fyrirsögninni var fljótlega breytt. Það er eins og sá litli yfirlestur sem er til staðar eigi sér fyrst stað eftir birtingu. Í upphafi fréttarinnar stóð hinsvegar óleiðrétt: ,, Írösku hælisleitendurnir ....
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/28/dregnir_ut_ur_kirkjunni_i_nott/ Íröksku hælisleitendurnir , hefði það átt að vera. Þakka bréfið.
AÐ TAKA ÞÁTT Á
Enn einu sinni. Enn einu sinni var okkur sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarps að frægir iðkendur tiltekinnar íþróttagreinar, golfíþróttarinnar, ætluðu ekki að taka þátt á Ólympíuleikunum í Ríó. Þetta heyrist nokkuð oft. Hvað segir málfarsráðunautur? Tökum við ekki þátt í íþróttamóti? Tökum við þátt á móti?
TÆKNIKLÚÐUR
Hlé varð á útsendingu vegna bilunar eða tækniklúðurs í upphafi veðurfrétta í Ríkissjónvarpi (29.06.2016). Slíkt getur auðvitað alltaf gerst. En það er ekki boðlegt Ríkissjónvarpi að þulur skuli ekki vera tiltækur, þyrfti ekki að sjást, bara heyrast, til að skýra og afsaka svona hnökra. Það er eiginlega til skammar. Allar dagskrárkynningar í sjónvarpi koma úr niðursuðudósum. Eða þannig. Því þarf að breyta.
AÐ SIGRA KOSNINGAR
Á kjördag (25.006.2016) spurði fréttamaður Bylgjunnar forsetaframbjóðanda: Ertu bjartsýn á að þú getir sigrað þessar kosningar? Fréttamaðurinn ætti að vita, að það sigrar enginn kosningar, það sigrar enginn keppni. Þeir sem bjóða sig fram stefna að því að vinna sigur í kosningum. Þeir sem taka þátt í keppni stefna á sigur, stefna að því að vinna sigur.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2016 | 10:00
Molar um málfar og miðla 1970
GRÁTVEGGURINN
Í fréttum Ríkisútvarpsins kl. 16 00 á mánudag (27.006.2016) var talað um helgistað Gyðinga í Jerúsalem, grátvegginn. Nú hefur það verið föst málvenja í íslensku í áratugi, ef ekki aldir, að tala um grátmúrinn, EKKI grátvegginn. Þetta er álíka og ef allt í einu væri farið að tala um Kínavegginn, ekki Kínamúrinn. Mikilvægt er að einhver fullorðinn lesi fréttahandritin yfir áður en fréttirnar eru lesnar fyrir okkur.
KOSIÐ TIL FORSETA
Í Fréttablaðinu, bls. 50 á kjördag (25.06.2016) stóð: Í dag er kosið til forseta og það ..... Það er ekki kosið til forseta. Þetta orðalag er miður gott. Þarna hefði átt að standa, til dæmis: Í dag kjósum við forseta. Í dag eru forsetakosningar.
.
VELFERÐARMÁL
Ritvillur á auglýsingaskiltum eru hvimleiðar. Árum saman hefur blasað við viðskiptavinum Bónusverslananna, sumra hverra, að minnsta kosti, stórt auglýsingaskilti. Þar sem segir að hagnaði af sölu plastburðarpoka sé varið til velferðamála. Það á að vera til velferðarmála. Skærgulu Bónuspokarnir eru annars skelfileg umhverfismengun. Stinga í augu í guðs grænni náttúrunni ótrúlega víða um landið.
HAPPY HOUR
Hversvegna auglýsa veitingastaðir það sem þeir kalla Happy hour, stundarkorn síðdegis, þegar áfengi er selt á lægra verði en venjulega? Hversvegna ekki kalla þetta Gleðistund, eða Vinafund, Vinastund?
DROPINN HOLAR STEININN
Sigurður Sigurðarson nefndi í bréfi til Molaskrifara fyrir nokkru að við værum sífellt að minna á sömu hlutina. Það er mikið rétt. Sigurður sagði: ,, Þú og margt gott fólk er stöðugt að benda á það sem miður fer. Vandinn er að þeir sem eiga að taka mark á leiðbeiningum hlusta ekki og þeir sem eiga að stjórna þeim sem gera vitleysur leiðbeina ekki. Smám saman verður til þol og málið breytist hægt og hljótt. Og viðmælendur og álitsgjafar tala um substance í kosningabaráttu, geta ekki komið frá sér óbrenglaðri hugsun án þess að sletta. Af þeim fjórum efstu frambjóðendum til forseta heyrði ég ekkert þeirra sletta, nema gera grein fyrir því um leið. Álitsgjafarnir eru hins vegar fleiri og á þá er hlustað. Þetta rétt, Sigurður. Þakka þér öll bréfin. Við höldum ótrauðir áfram í þeirri vissu að dropinn holar steininn.
TAKK!
Takk fyrir Íslendingaþáttinn um dr. Kristján Eldjárn , Andrés Indriðason, sem var á dagskrá Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (29.06.2016). Þetta rifjaði margt upp hjá gömlum fréttamanni, sem varð ánægjulega hissa á því hve mikið er til af gömlum heimildamyndum/fréttum í Gullkistu Ríkisútvarpsins. Of mörgu var þó fargað á árum áður vegna naumra fjárráða. Það kostaði að geyma efni og myndböndin voru rándýr lengi framan af. Samt á Ríkisútvarpið mikið af ómetanlegu myndefni, - þar er þjóðarsagan. Kappkosta þarf að varðveita þetta efni þannig að tímans tönn vinni ekki á því. Það kostar fé, en þar má ekki spara því þarna eru dýrgripir sem ekki verða metnir til fjár. Það ættu ráðamenn að hafa hugfast.
Margar minningar kviknuðu, þegar horft var á þetta efni frá upphafsárunum. Molaskrifari þykist viss um að margir áhorfendur hafi notið þessa ferðalags til liðins tíma. Vonandi fáum við að sjá meira af svipuðum toga á næstu mánuðum og misserum. Enn og aftur , - takk fyrir vel unninn og eftirminnilegan þátt.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2016 | 07:47
Molar um málfar og miðla 1969
FLJÓTASTA VÍTIÐ
Sigurður Sigurðarson skrifaði (26.06.2016) :,, Sæll,
Á mbl.is segir eftirfarandi:
Írland fékk vítaspyrnu eftir eina mínútu og 58 sekúndur, sem er fljótasta víti í sögu Evrópumótsins.
Átt er við að aldrei áður í sögu keppninnar hafi víti verið dæmt jafn snemma í leik. Vítið eitt og sér setti engin met, hljóp hvorki né skoraði mark. Víti er atburður, sem dómarinn ákvað fljótlega eftir að leikurinn byrjaði. Af hverju er verið að reyna að breyta málinu til að koma því að í stað þess að segja rétt frá? Sumir segja jafnvel að mark sem skorað er mjög snemma í upphafi leik sé fljótasta markið. Íþróttablaðamenn hafa yfirleitt góðan skilning á íþróttum en margir skrifa lélegan texta. Betra er því að láta einhvern með góðan málskilning lesa yfir frétt áður en hún er birt. Að öðrum kosti er hætt við að málvilla eða stafsetningarvilla verði fljótasta villan eða þannig. - Kærar þakkir, Sigurður. Þarfar ábendingar. Þetta hefur séð og heyrst áður, - því miður.
GESTGJAFAR FRAKKA
Knattspyrnumótið mikla, sem nú fer fram í Frakklandi, fer fram í boði Frakka. Liðin sem keppa eru gestir Frakka. Frakkar eru gestgjafarnir. Einkennilegt er að heyra suma íþróttafréttamenn tala um gestgjafa Frakka, þegar ætti að tala um frönsku gestgjafana. Málfarsráðunautur ætti að skýra þetta út fyrir þeim, sem hlut eiga að máli. Þetta hefur reyndar heyrst áður og verið nefnt hér í Molum.
VERTU NÆS!
Rauði kross Íslands auglýsir í sjónvarpi með flenniletri þar sem sagt er: VERTU NÆS ! Hversvegna þarf Rauði krossinn að nota enskuslettu í auglýsingu? Hversvegna sýnir Rauði krossinn ekki íslenskri tungu þá virðingu, sem hún verðskuldar? Hversvegna er tekið við svona auglýsingum til birtingar?
Það er borin von, að þessum spurningum verði svarað, en Rauði krossinn ætti að sjá sóma sinn í að hætta að birta þessar auglýsingar.
AÐ GYRÐA SIG Í BRÓK
Fyrirsögn úr sunnudagsblaðið Morgunblaðsins (26.06.2016): Ekki of seint að girða sig í brók, og er þar verið að vitna í ummæli formanns Samtaka ferðaþjónustunnar. Fyrirsagnarhöfundi og höfundi textans hefur þarna orðið aðeins á í messunni. Þarna ætti að tala um að gyrða sig í brók. Sögnin að girða þýðir að gera garð eða girðingu um, girða tún, eða girða kálgarð, svo vitnað sé í orðabókina. Sögnin að gyrða merkir allt annað. Hún þýðir að spenna gjörð, ól eða belti um , umkringja. Að gyrða sig, er að spenna um sig belti, hneppa upp um sig, eða hysja upp um sig buxurnar. Að gyrða sig í brók , er að taka sig á, , taka rögg á sig, búa sig undir átök eða stórvirki. Sjá, Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson bls. 114-115.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.6.2016 | 09:25
Molar um málfar og miðla 1968
VERÐI LOKAÐ
Rafn skrifaði eftirfarandi (24.06.2016): ,, Á vefmogga má sjá fyrirsögnina:
(Innlent | mbl | 23.6.2016 | 19:30 | Uppfært 24.6.2016 0:00)
Verði lokað innan þriggja mánaða
Ekki er ljóst hvernig fyrirsögnin tengist viðkomandi frétt eða hvers vegna er í fyrirsögn hvatt til lokunar einhvers ótilgreinds innan þriggja mánaða. Í fréttinni er þvert á móti fjallað um, að fréttaefnin (eigendur tveggja húsa) hafi fengið þriggja mánaða frest eldvarnaeftirlits til að bæta úr ágöllum á húsnæði sínu, en að loknum fresti verði húsnæðinu væntanlega lokað. - Þakka bréfið Rafn. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/23/verdi_lokad_innan_thriggja_manada/
ÁSKORUN
Geir Magnússon,sem er búsettur erlendis, hafði samband við Molaskrifara. Geir er mikill áhugamaður um íslenska tungu og vandað málfar. Hann sagði það ekki hljóma vel í sínum eyrum, þegar sífellt væri talað um áskoranir, - þar sem í ensku er notað orðið challenge. Eins og til dæmis í grein blaðamanns í Morgunblaðinu (25.06. 2016): ,, Bretar standa vissulega frammi fyrir miklum áskorunum núna en tækifærin eru sannarlega mörg. Þetta er mjög algengt orðalag. Geir spurði hvort Molaskrifari hefði tillögu um betra orð í stað orðsins áskorun, þegar við blasa erfið eða krefjandi verkefni. Molaskrifari játar, að hann hefur ekki tillögu um betra orð á takteinum. Þessi notkun orðsins áskorun fór lengi vel heldur illa í máltaugar skrifara, en það hefur vanist. En hafa Molalesendur tillögur um betra eða betri orð? Þær væru vel þegnar.
UTANKJÖRFUNDUR OPNAÐI
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (24.06.2016) var sagt um utankjörstaðarkosningu í Perlunni, að utankjörfundur hefði opnað í Perlunni. Þetta er ekki gott orðalag. Fundur opnar ekkert. Utankjörfundarkosning hófst.
Í fréttum Ríkisútvarps á kjördag heyrðist nokkrum sinnum að kjörstaðir hefðu opnað. Oftast notuðu fréttamenn þó rétt orðalag: Kjörstaðir voru opnaðir. Molaskrifari var að vona að tekist hefði útrýma þessu orðalagi á fréttastofunni, - sem er allt of algengt að heyra, - en það hefur ekki tekist með öllu enn. Málfarsráðunautur þarf að halda góðu verki áfram.
Rétt var farið með þetta á forsíðu á forsíðu mbl.is. á kjördag.
MEIRA UM OPNANIR OG FLEIRA
Það tóku fleiri eftir því sem skrifað er um hér að ofan. Molavin skrifaði um þetta og fleira(26.06.2016): ,,Það er gaman að heyra útlendinga takast á við lestur veðurfrétta í útvarpi en að sama skapi leiðinlegt að heyra mislestur þar endurtekinn. *Hægari* lesið sem "hæjari" og *lítillega* lesið sem "lítill-lega" Þarna sem víðar þarf að leiðbeina fólki.
Á kjördag sögðu fréttamenn ríkisútvarps ítrekað að kjörstaðir myndu opna klukkan níu þótt ekkert lát sé á því að þetta sama fréttafólk sé leiðrétt og bent á að kjörstaðir séu opnaðir; þeir opni sjálfir ekki neitt. Við upphaf kosningaútvarps á Rás 1 kl. 22 var meira að segja sagt; "Kjörstöðum lokaði nú klukkan tíu.." Málfarsráðunautur á enn mikið verk fyrir höndum.
"Hvernig líst þér á nýjan forseta?" spurði ung fréttakona Stöðvar 2 vegfaranda.
- "Bara ágætlega" svaraði viðmælandinn.
- "Semsagt, ekkert sérstaklega vel?" hélt þá fréttabarnið áfram spurningunni.
Merkingar orða breytast. Þakka þetta góða bréf, Molavin.- Ótætis bullið ,,kjörstöðum lokaði hefur því miður heyrst áður í okkar ágæta Ríkisútvarpi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.6.2016 | 09:51
Molar um málfar og miðla 1967
NÝJUM FORSETA FAGNAÐ
Þjóðin hefur kjörið sér nýjan forseta. Þann sjötta í sögu lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing. Molaskrifari fagnar kjöri hans og færir honum einlægar árnaðaróskir og veit að honum mun vel farnast í vandasömu starfi. Í kosningabaráttunni var stundum sótt að honum með undarlega ómaklegum hætti. Hann varðist vel og lét það ekki eftir andstæðingum að fara inn á þeirra brautir. Hélt sínu striki.
Það er trú þess sem þetta ritar að íslensk tunga hafi eignast öflugan baráttumann á Bessastöðum. Gott er til þess að hugsa.
GÓÐ KOSNINGAVAKA
Á heildina litið var kosningavaka Ríkissjónvarpsins vel og vandlega unnin. Þetta er ekki einfalt verk,- það þekkir Molaskrifari frá gamalli tíð, þótt allt sé nú flóknara og tæknin margfalt betra en þegar við vorum að fást við kosningasjónvarp hér á upphafsárum Sjónvarpsins. Dagskrárfólk og tæknimenn eiga heiður skilinn fyrir að hafa leyst þetta flókna verkefni ákaflega vel.
AFKOMANDI OG BREXIT
Heldi Haraldsson, prófessor emerítus í Osló benti á eftirfarandi úr Stundinni (24.06.2016):
,,Í viðtali við Spegilinn á Rás 1 í byrjun júní segist Halla (Tómasdóttir) ekki vera komna af efnafólki en að foreldrar hennar hafi hvatt hana til að ganga menntaveginn. Þakka ábendinguna, Helgi. Sami frambjóðandi sagðist líka brenna fyrir .... Hafa mikinn áhuga á .... og talaði um að taka samtal um ákveðið efni, - ræða ákveðið efni.
En Helgi lét tillögu fljóta með línunum, sem hann sendi Molum: ,,Kjörið hvatningarhróp í leiknum við England:
BREXIT! - Hver veit, - en þessari tillögu Helga er hér með komið á framfæri!
SLÆMT ORÐFÆRI
VH sendi eftirfarandi (25.06.2016): ,,Sæll Eiður. Nú eru börn og unglingar er geta lesið um sínar fótboltahetjur á EM. En það mál sem fréttamenn nota er ekki fólki bjóðandi.
Fréttamaður Ríkisútvarpsins segir eftirfarandi:
Hann hafi ekki einungis skorað jöfnunarmark Íslendinga gegn Portúgölum heldur hafi hann skapað sigurmarkið gegn Austurríki þegar hann hreinsaði boltann fram völlinn á 95. mínútu. Sem dæmi um óþreytandi baráttuvilja hafi hann ekki látið þar við sitja heldur þotið upp allan völlinn og tekið þátt í skyndisókninni sem varð naglinn í kistu Austurríkismanna. -
Er þetta ekki hernaður með viðbjóðslegum orðum ? Það er nú ef til vill full sterkt til orða tekið. En þetta er vissulega orðlag ,sem er gagnrýni vert. Slæmt orðalag.
ENN UM N
Úr frétt á mbl.is. (26.06.2016): ,, Sólveig Theódórsdóttir er einnig ánægð með nýja forsetann og ekki síst nýju forsetafrúnna og barnahópinn. Þarna ætti að sjálfsögðu að standa , nýju forsetafrúna, eitt n ekki tvö. Þessa villu , og skyldar, er því miður orðið býsna algengt hnjóta um í fréttum. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/26/hann_er_miklu_betri_en_gamli_karlinn/
GÓÐ UMFJÖLLUN
Umfjöllun Óðins Jónssonar og þeirra sem hann ræddi við í Morgunþætti Rásar eitt á föstudagsmorgni um Brexit (24.06.2016) var vönduð og upplýsandi.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2016 | 07:56
Molar um málfar og miðla 1966
VANDRÆÐALEGUR VIÐTENGINGARHÁTTUR
Sumir eiga sífellt í erfiðleikum með að nota viðtengingarhátt rétt. Dæmi um þetta var í fyrirsögn á mbl.is (23.06.2016): Fóstureyðingum fjölgi um 108% Eins og verið verið að hvetja til þess að fjölga fóstureyðingum um 108%.: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/06/23/fostureydingum_fjolgi_um_108_prosent/
Svo var þó auðvitað ekki, en þetta var síðar lagfært. Villur af þessu tagi sjást of oft. Það er því miður allt of algengt að óyfirlesnar, óleiðréttar, fréttir séu birtar okkur á netmiðlum. Það er eins og netmiðlana skorti metnað til að sýna íslenskri tungu þann sóma, sem hún verðskuldar.
AÐ SKEMMTA SÉR
Nú er eins og allir séu hættir að skemmta sér, - að minnsta kosti heyrist það, orðalag ákaflega sjaldan í fjölmiðlum. Nú heitir það að skemmta sér að hafa gaman. Þetta eru auðvitað bein áhrif úr ensku, - to have fun, - að skemmta sér.
ENN OG AFTUR
Aftur og aftur hnjóta lesendur um samkynja villur í netmiðlunum. Af mbl.is (23.06.2016): ,,Fram kemur í frétt AFP að upptaka af samtalinu hafi verið lekið til fjölmiðla en þar ræði ráðherrann við embættismann í Katalóníu-héraði .... Upptaka af samtalinu var ekki til fjölmiðla. Upptöku af samtalinu var lekið til fjölmiðla ... Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/06/22/vilja_ad_radherrann_segi_af_ser/
FRÁ BYKO
Nú býður byggingavöruverslunin BYKO okkur í auglýsingum að versla byggingavörur í BYKO. Auglýsingastofu,sem semur svona auglýsingu, er ekki við bjargandi. Sumir kaupa byggingavörur í BYKO, en það verslar enginn byggingavörur í BYKO.
BYKO verslar með byggingavörur. Þetta er ekkert flókið.
AÐ SKIRIFA Á ÍSLENSKU
Eftirfarandi setning er úr laxveiðifrétt á visir.is (23.06.2016): ,,Aðstæður voru hinar bestu í morgun og voru veiðimenn jafnvel að spreyta sig á að hitcha suma staðina með góðum árangri en það er taktík sem ekki er notuð mikið svona á fyrsta degi. Molaskrifrari er ekki veiðimaður. Hann skilur þetta ekki og er þess fullviss að sama gildir um marga aðra lesendur. Sjá: http://www.visir.is/algjor-mokveidi-vid-opnun-ytri-rangar/article/2016160629453
ÍSLENDINGAR
Mjög góður Íslendingaþáttur Ríkissjónvarps um Steingrím Hermannson, var sýndur á miðvikudagskvöld (22.06.2016). Andrési Indriðasyni er einstaklega lagið að setja saman sjónvarpsefni úr gullkistu Ríkisútvarpsins. Þekkir til enda starfað þar í hálfa öld. Molaskrifari hafði vegna starfa erlendis ekki séð nema hluta af því efni,sem sýnt var í þættinum. Á þingmennskuárunum átti hann ævinlega gott samstarf við Steingrím Hermannsson, hvort sem var í stjórn eða stjórnarandstöðu. Steingrímur var hreint ekki óumdeildur frekar en aðrir aðsópsmiklir stjórnmálamenn. Forysta Framsóknarflokksins í dag gæti ýmislegt af verkum Steingríms og stefnu lært.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2016 | 09:26
Molar um málfar og miðla 1965
LÉST EÐA VAR DREPINN?
Sigurður Sigurðarson skrifaði (20.06.2016): ,, Þessi frétt er varla boðleg á visir.is. Í upphafi fréttar segir Nanna Elísa Jakobsdóttir, blaðamaður: Anton Yelchin lést í bílslysi fyrr í dag. Og svo heldur hún áfram:
Leikarinn Anton Yelchin var drepinn í örlagaríku bílslysi snemma í morgun, sagði í yfirlýsingu frá talsmanni hans. Fjölskylda hans biður um að borin verði virðing fyrir þeirra einkalífi á þessari stundu.
Lesandinn spyr sig hvort maðurinn hafi látist í bílslysi eða verið drepinn í bílslysi. Á þessu tvennu er mikill mundur. Í því seinna er einfaldlega um morð að ræða. Líklega er blaðamaðurinn ekki betur að sér heldur þýðir eftirfarandi hrátt úr ensku: Was killed in an accident.
Látum nú vera að fréttabarnið geri asnalega villu. Hitt er verra að enginn les yfir og verst er að fréttabarnið heldur að hún hafi skrifað bara ansi góða frétt. Væri einhver til í að leiðbeina og kenna henni um leið hvað nástaða er? Þakka bréfið Sigurður.
INNGANGUR AÐ KOSNINGUM
Í fréttum Ríkissjónvarps (21.06.2016) var sagt var talað um inngang að kosningum. Átt var við inngang að kjörstað í Perlunni þar sem utankjörstaðaratkvæðagreiðsla fer fram.
LOKSINS, LOKSINS
Loksins, loksins gat þessi þjóð sameinast um eitthvað! Allir fagna sigri Íslands í leiknum í dag (22.06.2016). Stórkostleg frammistaða íslenska liðsins gegn Austurríki. Þetta var ,eins og einhver fréttamaður sagði, algjör spennutryllir.
FRÉTT Á ENSKU
Á vef Ríkisútvarpsins (22.06.2016) er frétt á ensku um sigurleik Íslands í gær gegn Austurríki. Ef verið er að skrifa fréttir á ensku verða menn að kunna stafsetningu á því ágæta tungumáli.
Það er ekkert til sem heitir Farytale victory. Fairytale ætti það að vera. http://www.ruv.is/frett/farytale-victory-in-paris-iceland-2-austria-1
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2016 | 08:38
Molar um málfar og miðla 1964
ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLA - EKKI KOSNING
Málglöggur lesandi skrifaði Molum (21.06.2016):
,,Hvað segir þú um þetta upphaf á forystugrein í Fréttablaðinu?
Bretar kjósa nú á fimmtudag um áframhaldandi veru sína innan Evrópusambandsins. Kosningarnar eru tvísýnar, skoðanakannanir síðustu mánaða hafa verið meira og minna jafnar upp á hár.
Er þetta ekki þjóðaratkvæðagreiðsla? Enginn talar um þjóðarkosningu eða hvað? Kannanir meira og minna jafnar upp á hár? Klúðurslegt? Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er óttalegt klúður, rétt er það.- Í fréttum Stöðvar tvö nýlega var fjallað um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretland og tvívegis sagt að breska þjóðin væri tvíklofin í málinu ! Tvíklofin! Fyrst klofin og svo klofin aftur , - eða hvað?
VATN OG SJÓR
Á laugardagsmorgni (18.07.2016) var í fréttum Ríkisútvarps sagt frá bátnum sem Landhelgisgæslan lyfti af hafsbotni og fór með til Ísafjarðar svo hægt væri að hefja rannsókn því m.a. hversvegna björgunarbátar losnuðu ekki frá bátnum þegar hann sökk. Sagt var að verið væri að dæla vatni úr bátnum. Að sjálfsögðu var ekki verið að dæla vatni úr bátnum. Það var verið er að dæla sjó úr bátnum.
HÁTALARINN Á RÁS EITT
Sérstök ástæða er til að hrósa tónlistarþáttum Péturs Grétarssonar, ,,Hátalaranum á Rás eitt í Ríkisútvarpinu í kjölfar fjögur frétta. Ekki einasta eru þessir þættir afar fjölbreyttir þegar að tónlistarvali kemur heldur er þar miðlað margvíslegum fróðleik fyrir tónelska. Pétur er fjölfróður og vinnur þessa þætti einstaklega vel. Þetta er meðal besta efnis Ríkisútvarpsins yfir daginn. Takk fyrir það.
SPENNUFALL
Úr frétt á mbl.is (20.06.2016):,, Ég er ennþá í spennufalli þetta var æðislegt, sagði Karólína Inga Guðlaugsdóttir eftir að hafa dregið myndarlegan 12-13 punda hæng á land í Elliðaánnum í morgun. Aftur og aftur sjáum við tvö n í þágufalli fleirtölu þar sem aðeins ætti að vera eitt n - . Við sjáum þessa villu aftur og aftur, sem gefur okkur til kynna að enginn les yfir það sem fáákunnandi skrifa áður en það er birt.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/20/eg_er_enntha_i_spennufalli_3/
ENN UM SLETTUR
Á laugardagskvöld (18.06.2016) hlustaði Molaskrifari á brot úr sjónvarpsviðtali við ,,fótboltafræðing. Á sömu mínútunni tókst honum að tala um að bleima, ( e. to blame) , kenna um og að kríeita (e. create, skapa). Velti fyrir mér hvort honum þætti flott að sýna að hann kynni orð og orð í ensku eða hvort hann var bara svona illa að sér í móðurmáli sínu? Hvort sem var, þá var þetta málfar ,,fræðingnum ekki til sóma.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða senda einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2016 | 10:25
Molar um málfar og miðla 1963
SKIPIN SLÖKKVA Á SÉR
Undarlega var að orði komist í fréttum Ríkisútvarps (09.06.2016) þegar var fjallað var um hremmingar skipa í breska flotanum vega mikils hita. Sagt var að breski sjóherinn væri í vandræðum vegna þess að skip hefðu slökkt á sér vegna hita. Skip slökkva ekki sér. Það hefur sennilega drepist á vélunum vegna hita.
SKRIKAÐI FÓTUR
Úr frétt á visir.is (09.06.2016) um banaslys í Bandaríkjunum, í Yellowstone Park þjóðgarðinum.,,lÁ laugardag brenndist þrettán ára drengur þegar faðir hans, sem var með hann á hestbaki, skrikaði fótur þannig að drengurinn steyptist í sjóðandi vatn. Faðir hans skrikaði ekki fótur. Föður hans skrikaði fótur. Enn eitt dæmi um metnaðarleysi.
EITT AF ENDALOKUM FLUGVALLARINS
Úr frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins (10.06.2016). Úr viðtali Ríkisvarpsins við forsætisráðherra: ,, Aðspurður um hvort þetta sé eitt af endalokum flugvallarins í Vatnsmýrinni segir hann að það sé umhugsunarefni. ,,Eitt af endalokum ... Það er eitthvað að hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins þegar svona ambaga birtist öllum landsmönnum á fréttavefnum.
VIÐ HÖFNINA ENN EINU SINNI
Úr frétt á mbl.is (14.06.2016): ,, Segir í dagbók lögreglu að grunur leiki á að mennirnir hafi ætlað sér að gerast laumufarþegar með einu skemmtiferðaskipanna sem þar liggur nú við höfnina. Enn einu sinni er þetta nefnt. í Molum. Skip liggja ekki við höfn. Skip eru í höfn. Skip liggja við bryggju. Skip liggja við festar. Þetta er ekki flókið.
LÁN Í ÓLÁNI
Úr frétt á mbl.is (17.06.2016): ,, Það ólán varð við þjóðhátíðarhald niðri í miðborg Reykjavíkur í dag að forsetabifreiðin, Packard-bifreið frá árinu 1942, fór ekki af stað. Meira ólánið ! En það var sannarlega lán í óláni, að nærstödd var sveit vaskra lögreglumanna,sem hafði lítið fyrir því að ýta forsetadrossíunni, Packard árgerð 1942 í gang!
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/17/yttu_forsetabilnum_af_stad_3/
AÐ BIÐLA TIL
Úr frétt á mbl.is (12.06.2016); ,,Michael Cheatham, skurðlæknir á Orlando Health-spítalanum, hefur biðlað til fólk um að gefa blóð vegna árásinnar sem framin var á Pulse-skemmtistaðnum í Orlando í nótt.
Biðlað til fólks, hefði þetta átt að vera. Að biðla til e-s er að biðja e-n að gera eitthvað. Þetta var hinsvegar rétt í fyrirsögn fréttarinnar. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/06/12/bidla_til_folks_ad_gefa_blod/
AÐ MEIKA SENSE
,,Mér finnst það meika sense, sagði kona, sem rætt var við í endurteknum þætti í Ríkisútvarpinu undir miðnætti á fimmtudegi (16.06.2016) . Við eigum ekki að tileinka okkur svona orðalag. Að meika sense, er ekki góð íslenska. Ekki vandað mál.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða senda einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)