Molar um málfar og miðla 213

   Engu er líkara en sumar ambögur séu landlægar á fjölmiðlum. Í fréttum Stöðvar tvö (28.11.2009) var sagt frá prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík og tekið svo til orða: ... sigraði nokkuð örugglega prófkjör Framsóknarflokksins. Menn sigra ekki prófkjör. Menn sigra í prófkjöri.

 

 Í sjónvarpsauglýsingu (28.11.2009) var sagt: Hjálpar þeim að telja niður til jólanna. Af hverju ekki: Hjálpar þeim að telja dagana til jóla?  

 

 Í kvöldfréttum RÚV (29.12.2009) var sagt að rætt hefði verið við borgarstjórann í Reykjavík og norska sendiherrann á Íslandi, er ljósin voru tendruð á Óslóartrénu á Austurvelli. Það var rangt. Birtir voru stuttir kaflar úr ræðum beggja. Ekki var rætt við neinn.

  Gott innslag um bækur og bókaverð hjá Ingólfi Bjarna Sigfússyni í fréttatíma RÚV sjónvarps. (30.11.2009). Merkilegt hve verðið er líkt hjá forlögunum.  Þau virðast  ramba á sama tug á sama þúsundi Svo er líka eftirtektarvert hve mikið er hægt að spara með því að kaupa bækur í lágvöruverðsverslunum. Eða bíða þar til bak jólum.

 Tendrað á ljósum Óslóartrésins, sagði (29.11.2009) í fyrirsögn á mbl. is. Íslensk málvenja er að tala um að tendra ljós, - ekki tendra á ljósum. Þetta var rétt hjá RÚV þar sem sagt var: Ljósin á Óslóartrénu voru tendruð í dag.

  Í fréttum Stöðvar tvö ( 29.11.2009) töluðu bæði fréttaþulur og fréttamaður um ... að skipta þeim út eftir hentugleika.Verið var að fjalla um illa meðferð íslenskra karla á eignkonum sínum, erlendum.Síðan hefur Molaskrifari heyrt þetta orðalag endurtekið. Molaskrifari er á því að hér hefði átt að segja:.... eftir hentugleikum ekki hentugleika. Vefmiðillinn visir.is notaði sama orðalag og Stöð tvö.

 Ekki getur Molaskrifari  fallist á að það sé gott og gilt mál að tala um að fara inn í fæðingarorlofið (29.11.2009) eins og  alþingismaður tók til orða um þau áform ríkisstjórnarinnar að skerða fæðingarorlof og spara ríkissjóði þannig útgjöld.


  
 Af dv.is: Eins og greint var frá fyrr í þessum mánuði veittist Mike Tyson að ljósmyndara á LAX-flugvellinum í Los Angeles á dögunum.Að því Molaskrifari best veit er ekkert til sem heitir LAX flugvöllurinn í Los Angeles. LAX er skammstöfun sem notuð er í flugmáli  um áfangastaðinn Los Angeles ,  rétt eins og REK (Reykjavík) og KEF (Keflavík).  

 

Af mbl.is (29.11.2009): ... að framundan eru mikil ferðalög milli landshluta og fólk mikið að fara í jólaverslun.  Þegar skrifað er að fólk sé mikið að fara í jólaverslun, er líklega átt við að margir séu á ferðinni til að versla fyrir jólin.

  Tiger Woods rifur þögnina, segir í fyrirsögn á dv.is (29.11.2009). Eitt er að rífa, annað að rjúfa. Rífðu ekki blaðið. Tiger Woods rauf þögnina. Hann tók til máls, leysti frá skjóðunni. Þess vegna hefði átt að standa þarna: Tiger Woods rýfur þögnina. Til eru ágætar stafsetningarorðabækur, sem rétt er að fletta upp í ,þegar menn eru í vafa um rétta ritun orðanna.    

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir ágæta pistla um málfar.

Ég er orðinn dálítið þreyttur á að heyra fréttamann tala um að eitthvað hafi

gerst    " nú í eftirmiðdaginn " , mér finnst þetta ljótt og held þetta sé sletta úr

dönsku frekar en einhverju öðru máli. Sérstaklega einn fréttamaður á sjónvarpinu

notar þetta mikið. Af hverju ekki segja síðdegis , eftir hádegið o.s.frv.  ?

Hvað finnst þér um þetta Eiður  ?

Jón Benediktsson (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 21:10

2 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Hjartanlega sammála þér, Jón. Nú í eftirmiðdaginn ætti ekki að heyrast eða  sjást á prenti í neinum fjölmiðli.

Eiður Svanberg Guðnason, 3.12.2009 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband