Molar um málfar og miðla 1581

  Molavin skrifaði (27.09.2014): ,,Menn geta deilt um stjórnarhætti Mjólkursamsölunnar, en Einar Sigurðsson forstjóri verður seint sakaður um að tala rangt mál. Í viðtali við Eyjuna segir hann MS bera hag neytenda fyrir brjósti. Það kemur orðrétt fram í tilvitnun í Einar í texta fréttarinnar. En sá sem matreiðir fréttina á Netið og semur fyrirsögn virðist hvorki lesa textann né skilja hugtakið og setur í fyrirsögn "hefur hag neytenda fyrir brjósti." Svona óvandvirkni "fer fyrir brjóstið" á lesendum.” Molaskrifari þakkar bréfið. Rétt og satt.

 

Fyrrverandi félagi úr blaðamennsku skrifaði (26.09.2014): „Fær­eysk­ur fót­bolti er í mik­illi sorg eft­ir að einn af efni­leg­ustu knatt­spyrnu­mönn­um Fær­eyja, Gunn­ar Zachari­a­sen, lét lífið hörmu­legu slysi í Þórs­höfn í gær­kvöld.“

Hann segir: ,,Jæja, ekki er nú faglegi metnaðurinn í hæstu hæðum á mbl. fremur en fyrri daginn. Þarna virðast hafa hópast saman tómir bleksóðar. Fótbolti í sorg. Það var og. Og hvenær eru banaslys ekki hörmuleg?” Molaskrifari þakkar bréfið.

http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2014/09/26/efnilegur_fotboltamadur_let_lifid_i_hormulegu_slysi/

 

Úr fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (26.09.2014) var sagt frá slysi skammt frá Þríhnúkagíg. Fréttamaður sagði: ,,Íslensk leiðsögukona með hóp ferðamanna og bandarískur ferðamaður á sjötugsaldri skrikaði fótur og féllu um sjö metra ...” Hér hefði átt að segja: ,,Íslenskri leiðsögukonu ... og bandarískum ferðamanni skrikaði fótur og ...”

 

Lét sér það engu varða, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar á sunnudag (28.09.2014). Verið var að segja frá bílþjófi, sem ók af stað þótt eigandi bílsins héngi utan á bílnum. Lét sig það engu varða, hefði betur verið sagt.

 

Hér hefur að undanförnu vikið að því hve algengt það er að stjórnmálamenn svari ekki spurningum, sem fréttamenn beina til þeirra. Í fréttum Ríkisútvarps (26.09.2014) var rætt við iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hún var minnt á, að hún hefði greitt atkvæði gegn tillögu um breytingu á búvörulögum fyrir nokkrum árum og spurð hvort hún mundi greiða eins atkvæði nú, ef sama tillaga kæmi til atkvæða. Ráðherra svaraði ekki spurningunni. Fréttamaður þagði. Þegar viðtalið var endurflutt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarps klukkutíma síðar, var þessum kafla sleppt. Klipptur burt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband