Molar um málfar og miðla 1580

 Ríkissjónvarpið boðar nú nýja þáttaröð um líf og störf lögreglumanna í Chicago. Molaskrifari hélt að búið væri að segja og sýna íslensku þjóðinni í Ríkissjónvarpinu allt sem hægt er að segja og sýna um löggulífið í Ameríku. Mál er að linni. Það er til nóg af langtum betra sjónvarpsefni.

 

Ný fréttastofa hefur verið sett á laggirnar við Ríkisútvarpið. Frá þessu var greint í gærkvöldi (26.09.2014) er okkur var sagt að svokölluð Fréttastofa hraðfrétta hefði öðlast sjálfstæði. Það er undarlegt hjá fjársveltri stofnun að setja fíflagang í forgang og verja til þess hundruðum þúsunda, ef ekki milljón eða svo, í viku hverri meðan ekki eru til peningar til að flytja fréttir í útvarpi frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Kolröng forgangsröðun.

 

Það færist í vöxt að talað sé um að gæði séu góð. Þetta orðalag notaði félagsmálaráðherra í Kastljósi á fimmtudagskvöld (25.09.2014). Gæði geta verið lítil eða mikil.

 

Tilgangurinn með stofnun Rásar tvö var að auka fjölbreytni í dagskrá Ríkisútvarpsins. Nú er sama efninu (Morgunútgáfunni) útvarpað á báðum rásum í tvo og hálfan tíma alla virka morgna. Þar eru nær eingöngu flutt fréttaviðtöl. Ekkert er að því að vera með slíkan þátt á annarri rásinni. Á sama tíma ætti að flytja tónlist á hinni rásinni. Til þess var leikurinn gerður á sínum tíma. Auka fjölbreytni. Molaskrifari óttast að stjórnendur Ríkisútvarpsins séu svo stórir upp á sig, að þeir fáist ekki til að breyta neinni af þeim óskynsamlegu ákvörðunum, sem teknar hafa verið í Efstaleitinu á undanförnum vikum.

 

Molaskrifar telur að það sé nokkuð almennur skilningur að þegar samkomur eru auglýstar og tekið er fram að boðið verði upp á léttar veitingar, sé átt við létt vín og bjór. Ekki eigi að bjóða upp á þunnt kaffi. Hann hnaut því um auglýsingu frá bílasalanum B&L þar sem segir: Þiggðu léttar veitingar og skelltu þér í reynsluakstur. Kannski er þetta misskilningur hjá Molaskrifara. Í annarri auglýsingu forðum sagði og segir kannski enn: Eftir einn, ei aki neinn.

 

Gott er að vera búin að fá Kiljuna aftur á dagskrá í Ríkissjónvarpinu. Viðurkenna ber að þeim þáttum hefur nú heldur farið fjölgandi í Ríkissjónvarpinu ,sem Molaskrifari vill helst ekki missa af. Þá er tímavélin í Sjónvarpi Símans góður kostur.

Viðtal Egils við höfund bókarinnar Burial Rites (Náðarstund) var gott af beggja hálfu. Þetta er fágætlega vel skrifuð bók á frummálinu og þýðingin er að sögn vönduð. Ensk útgáfa bókarinnar var uppseld í Reykjavík í gær (26.09.2014) og íslenska þýðingin selst eins og heitar lummur.

Hannah Clark frá Ástralíu, höfundur bókarinnar, var Rótarý skiptinemi á Sauðárkróki og þar vaknaði áhugi hennar á þessu gamla morðmáli og örlögum þeirra sem þar komu við sögu. Svona leiðir margt gott af starfi Rótarý. Rétt er að taka fram að Molaskrifari er ekki hlutlaus. Hann er Rótarýmaður!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ég skil "léttar veitingar" sem snarl, þá á ég við kartöfluhringi eða snúða og annað í þeim dúr, ekki sem bjór. Og flestir sem ég umgengst gera það. Og bjóða upp á léttar veitingar þar sem börn ná til.

Ásgrímur Hartmannsson, 27.9.2014 kl. 17:22

2 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Hvað er létt við snarl og snúða? Þeir sem ég hef spurt skilja þetta með sama hætti og ég, - léttvín og bjór.

Eiður Svanberg Guðnason, 27.9.2014 kl. 19:55

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Eiður, þú og ég umgöngumst ekki sama fólkið.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.9.2014 kl. 01:03

4 Smámynd: Brynjar Þórðarson

Rétt í þessu, kl. 6,56, sagði þulurinn að komið væri að "standard" dagsins. Hvað er það?

"Ak­ur­eyr­ing­ar eiga von á gasmeng­un". Ætli þeir standi úti á götu með galopinn munn til að anda þessu ryki að sér? Nær væri að búast við eða gera ráð fyrir. Að reikna með væri líka mun betra en að vonast eftir einhverju slæmu.

Brynjar Þórðarson, 29.9.2014 kl. 07:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband