Molar um málfar og miðla 1582

  Í fyrstu grein laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, segir: ,,Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð” Þessa grein laganna brjóta umsjónarmenn Morgunútgáfunnar á hverjum einasta morgni, þegar troðið er erlendu slettunni standard inn í hlustir okkar sem enn reynum að halda tryggð við Ríkisútvarpið. Þessu er slett á okkur á hverjum morgni rétt fyrir klukkan sjö þegar leikið er hið nýja síðasta lag fyrir fréttir , erlent sígilt dægurlag sem umsjónarmenn kalla standard. Þetta er ekki að leggja rækt við íslenska tungu. Orðið standard er ekki íslenska. Hér er verið að brjóta lög. Umsjónarmenn leggja metnað sinn í nota þetta orð, ekki bara einu sinni , heldur oft tvisvar eða þrisvar á 30 sekúndum eða svo. Í morgun (30.09.2014) var það notað tvisvar:

,,Næst er komið að pikkföstum lið í Morgunútgáfunni, standard dagsins ... þetta er með öðrum orðum í röð þekktustu standarda”. Hér eru skemmdarverk á tungunni unnin að því er virðist af ásetningi. Brotavilji umsjónarmanna gegn fyrstu grein útvarpslaga er einbeittur. Sú lagagrein er ekki að þeirra smekk og þeir telja sig greinilega ekki þurfa að fara eftir henni. Hvað segja þeir sem eiga að stjórna þessari stofnun? Lagið í morgun  , My Funny Valentine, sem Chet Baker flutti er vissulega gullfallegt, sígilt. Molaskrifari á það á hljómdiski í bílnum og þar hljómar það á stundum.

 

Hvað gera fréttafíklar, sem missa af miðnæturfréttum Ríkisútvarpsins? Hlusta á BBC World Service á FM bylgjunni í boði símafélagsins Vódafón. Ríkisútvarpið okkar hefur ekki efni á að útvarpi neinum fréttum frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Á miðnætti í gærkveldi (29.09.2014) tilkynnti fréttalesari samviskusamlega að næstu fréttir yrðu klukkan sjö í fyrramálið. Eftir sjö klukkustundir. Engin alvöru útvarpsstöð lætur sér sæma svona framkomu við hlustendur. Þetta er óboðleg þjónusta, eða öllu heldur þjónustuleysi. Á sama tíma hefur kostnaður svo svokallaðar Hraðfréttir stóraukist. Hraðfréttir fá aukinn mannafla og meira rými í dagskránni. Hraðfréttir snúast mest um kjánagang.

 

Fyrir nokkrum dögum var vikið að muninum á að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. (Molar 1579). Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (27.09.2014) var talað um að kjósa gegn tillögu. Molaskrifari er á því að þarna hefði farið betur á því að tala um að greiða atkvæði gegn tillögu. Kannski skynja ungir fréttarmenn engan mun á því að kjósa og greiða atkvæði.

 

T.H. skrifaði (28.09.2014): "Viðskipta­vin­irn­ir telja farið sín­ar ekki slétt­ir, bæði varðandi lán­veit­ing­ar bank­ans og hvernig skipta­stjór­inn hef­ur höndlað málið."
- Hér hefur blaðamanni líklega vafist tunga um fót! Segir T.H. – Molaskrifari þakkar sendinguna. Sjá:

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/09/27/ekkert_bendi_til_brots/


Molaskrifari segir jafnan eins og honum finnst. Það gustar af leiðurum Sigurjóns M. Egilssonar í Fréttablaðinu ( til dæmis 27.09.2014). Þannig á það að vera. Of oft hafa leiðarar blaðsins að undanförnu verið léttvægt fjas og fuður um lítið sem ekki neitt.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (27.09.2014) var talað um lækni á Neskaupstað. Sá sem fréttina skrifaði fer líklega á kaupstað, en ekki í kaupstað eins og flestir þó gera. Réttilega var sagt í Neskaupstað í sjónvarpsfréttum.

 

Heyrði ekki betur en forseti Íslands talaði um öfgvahópa í ræðu á kristilegri samkomu í Hörpu á laugardag (27.09.2014), Öfgar, öfgar,öfgum,öfga. Orðið öfgvar finnst ekki í beygingarlýsingu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband