Molar um málfar og miðla 2098

HVAÐ ER AÐ?

Hér hefur stundum verið vikið að því hvernig dagskrárkynningar Ríkissjónvarpsins oft eru í skötulíki. Það sannaðist enn einu sinni í gær (22.01.2017). Þá boðaði lögreglan til blaðamannafundar með stuttum fyrirvara. Tilkynnt var í fjögur fréttum útvarps að fundurinn yrði í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.

 Á skjá Ríkissjónvarpsins stóð:

Dagskráin í dag:

16:49 Blaðamannafundur lögreglunnar.

16:50 Menningin 2017

Stöð tvö var byrjuð með beina fréttaútsendingu þeirra Eddu Andrésdóttur og Heimis Más Péturssonar fyrir klukkan 1700. Stöð tvö var komin með mynd frá blaðamannafundi lögreglunnar á undan Ríkissjónvarpinu. Maður fékk þá tilfinningu að beðið væri eftir Ríkissjónvarpinu, því blaðamannafundurinn hófst ekki á réttum tíma. Eftir blaðamannafundinn héldu þau Edda og Heimir Már áfram skamma stund og  rýndu aðeins frekar í það sem fram kom á blaðamannafundinum og gerðu það vel. Ríkissjónvarpið  fór bara  orðalaust beint í eitthvað annað.

 Þetta var léleg frammistaða í Efstaleiti. Eiginlega ótrúlega léleg, Hvað er að ?

Báðar stöðvar gerðu málinu góð skil í kvöldfréttum.

 

HÖFUÐBORÐ

Molavin skrifaði (20.01.2017):,, Í sjónvarpi mátti (20.1.16) sjá auglýsingu þar sem auglýst voru höfuðborð. Enska heitið "headboard" er á íslenzku "rúmgafl" eða "höfðagafl." Hráþýðingar úr ensku færast ört í vöxt og það er ekki aðeins illa máli farið fjölmiðlafólk, sem iðkar þær heldur og ekki síður auglýsingastofur. Hráþýðingar úr ensku og ensk setningaskipan er ein mesta vá, sem að móðurmálinu steðjar um þessar mundir.“ - Kærar þakkir, Molavin. Þetta er góð ábending. Sumar auglýsingastofur eru stórhættulegar og gera hverja atlöguna að tungunni á fætur annarri, eins og stundum hefur verið nefnt í þessum pistlum. En skylt er að geta þess, að þar eiga ekki allir jafna sök.

 

 

 

 

UMSTANG MÁLSINS

Eftirfarandi er úr frétt á visir.is (19.01.2017): Skipverjar gera sér vel grein fyrir umstangi málsins. Hér hefur eitthvað skolast til. Sennilega hefur sá sem fréttina skrifaði ætlað að segja að skipverjar gerðu sér grein fyrir umfangi, mikilvægi, málsins, - leitinni að Birnu Brjánsdóttur. Sjá: http://www.visir.is/skipstjori-regina-c-segir-ulfalda-gerdan-ur-myflugu/article/2017170118470

Enginn les yfir.

 

ÍÞRÓTTAMÁL

Það er kannski sérviska Molaskrifara (eins og svo margt annað!) að honum finnst einkennilegt þegar íþróttafréttamenn Ríkisútvarps tala um heimsmeistara Frakka (20.01.2017). Væri ekki eðlilegra og betra mál að tala um frönsku heimsmeistarana?

 

ENDURSÝNINGAR Í RÍKISSJÓNVARPI

Ríkisútvarpið er öðru hverju að endursýna efni af ýmsu tagi. Molaskrifari er ekki mikill þáttaraðamaður. En hvernig væri Ríkissjónvarpið endursýndi, - til dæmis síðdegis á virkum dögum - breska myndaflokkinn um Onedin skipafélagið, - (The Onedin Line) . Þetta voru mjög vel gerðir þættir ,sem skrifari er sannfærður um að staðist hafa tímans tönn.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband