Feigðarflan

  Það er hverju orði sannara, að flöt niðurfærsla skulda allra  er feigðarflan og hjálpar ekki þeim sem helst þurfa á hjálp að halda. Þá eru settir  við sama  biorð sá sem hefur  250 þúsund á mánuði og sá sem hefur   800 þúsund eða meira. Er það réttlæti?   Þessi leið   skerðir lífeyri  þeirra sem fá greiðslur úr lífeyrissjóðum og setur Íbúðalánasjóð lóðbeint á hausinn. Veltir byrðunum yfir á ríkissjóð og þar með  alla  skattgreiðendur.  Hversvegna eigum við að borga skuldirnar hans Bubba Morthens og hans líka ? 

 


mbl.is Líst illa á almenna niðurfærslu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Karlsdóttir

Hvers vegna á Bubbi Morthens og fleiri að borga fyrir svindl og pretti bankanna? Það er ekki verið að tala um að fella niður skuldir, það er verið að tala um að leiðrétta þau lán sem voru tekin í góðri trú fyrir bankahrun. Ef allt hefði verið uppi á borði í sambandi við svindl og pretti bankana fyrir hrun hefði enginn tekið lán, svo einfalt er það!

Edda Karlsdóttir, 13.10.2010 kl. 23:00

2 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Hvers vegna eigum við skattgreiðendur og lífeyrissþegar sem þurfum að bera skerðingu á okkar sjóðum að tryggja lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna ég tel að sú trygging komi niður á mér sem skattgreiðanda

Jón Aðalsteinn Jónsson, 13.10.2010 kl. 23:11

3 Smámynd: Einar Þór Strand

Eiður það þarf ekki að færa niður höfuðstól en að hérna séu 4 - 6 % raunvextir á húsnæðislánum það er ekki hægt það verður að færa þá niður í 2 % með verðbóta þaki uppá 5%.

En fyrst og fremst þá verðum við að losna við sitjandi Alþingi eins og það leggur sig og einnig verður að leggja niður þá stjórnmálaflokka sem hér eru starfandi.

Einar Þór Strand, 14.10.2010 kl. 00:40

4 identicon

Heldur þú Eiður, að það sé eitthvað réttlátt að venjulegur launþegi, sá með 800 þús eigi eitthvað minna skilið þegar kemur að lánaleiðréttingu heildarinnar. Sá sem er með 800 þús hefur væntanlega tekið lán á sömu forsendum og hinn sem hefur 250 þúsund á mánuði. Það er akkúrat þetta sem flækir málin í allri kjarabaráttu hér á landi, þ.e að það er alltaf er hægt að troða á réttindum einhverra annarra, frekar en að sýna samstöðu.

Hranei (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 04:20

5 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég er ekki oft sammála Eiði Guðnasyni, en núna virðumst við vera 100% sammála og ég get ekki setið á mér að staðfesta það. Hugmyndin um flatan niðurskurð skulda, er atlaga að lífeyrisþegum og þeim sem nálgast þá stöðu - vegna aldurs eða örorku.

 

Að stórum hluta voru það lífeyrisþegar sem féfléttir voru af glæpamönnunum sem holuðu innan bankakerfið. Æfisparnaður þúsunda lífeyrisþega var bundinn í hlutabréfum banka og fjárfestingafélaga. Hvers vegna talar enginn um að afskrifa tap þessa fólks ? Hvers vegna koma núna upp hugmyndir um að taka lífeyrinn af þessu fólki, eftir að æfisparnaðinum hefur verið stolið og afgangurinn er að gufa upp - sá sparnaður sem bundinn er í fasteignum ?

 

Getur verið að menn skilji ekki að verðtrygging er viðhald verðmætis skulda, en ekki hækkun þeirra ? Getur verið að menn skilji ekki að torgreinda peningastefnan (discretionary monetary policy) er til þess gerð að búa til gengisfall, verðbólgu og til að stela fjármunum af almenningi ? Verðtryggingin er tæki almennings til að verjast þessum kerfisbundna þjófnaði. Hversu lengi ætla Íslendingar að halda áfram að verðlauna eyðslu og óhóf ?

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 14.10.2010 kl. 08:43

6 identicon

Hranei:

Sá sem hefur hærri launin þarf skv. öllum skynsemissjónarmiðum ekki að skuldsetja sig nærri eins mikið hlutfallslega til þess að kaupa húsnæði og sá sem minni tekjur hefur. Ef hátekjufólk skuldsetur sig alltaf meira í hvert sinn sem tekjur aukast þá er það ekki merki um neitt annað en græðgi og heimsku. Það ætti að súpa seyðið af því sjálft.

Loftur hefur rétt fyrir sér með verðtrygginguna.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 12:50

7 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Þjóðfélag þar sem eignamenn hafa alltaf allt sitt á þurru en þeir sem einu sinni hafa glapist til að taka lán fyrir íbúðarholu eru réttdræpir hvar sem til þeirra næst, mun ekki standast til lengdar. Það eru takmörk fyrir því hvað þeir sem ekkert eiga geta tapað miklu, að endingu munu þeir sem eiga tapa. Hjá því verður ekki komist. Það voru ekki skuldarar þessa lands sem ráku það í þrot, það voru eignamenn sem það gerðu. Þeir voru enda fljótir að bjarga öllu sínu með neyðarlögum, þar sem þeir gaukuðu einum 800 milljörðum að sjálfum sér umfram það sem lög kváðu á um, á kostnað skuldara.

Verðtrygging kann að geta verið réttlát, en vísitalan sem hin íslenska verðtrygging er reiknuð eftir er galin. Dæmi um það er að sumarið 2009 hækkaði velferðarstjórnin áfengis og bensíngjald, sem átti að afla ríkinu aukinna tekna upp á 5 milljarða. Reyndar fóru strax 2,8 milljarðar út aftur vegna vísitölutengdra útgjalda ríkisins svo að nettó hafði ríkið ekki nema 2,2 milljarða upp úr krafsinu. Þessi skattahækkun hafði hins vegar þau áhrif að 8 milljarðar fluttust frá skuldugum íbúðareigendum til innistæðueigenda, þar á meðal lífeyrissjóða. Þannig að skuldugur almenningur þurfti ekki aðeins að standa ríkinu skil á 5 milljarða skattahækkun heldur þurftu þeir líka að greiða fjármagnseigendum 8 milljarða. Skattahækkun sem aflaði ríkinu 2,2 milljarða tekna kostaði því almenning 13 milljarða. Þetta kerfi er galið.

Frá upphafi hruns hafa íbúðalán hækkað um 351 milljarð vegna galinnar vísitölu, án þess að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafi séð ástæðu til að gefa það út að þeir neyddust til að hækka lífeyrisgreiðslur í framtíðinni. Þeir hafa látið duga að greiða sjálfum sér bónus og endurnýja jeppann sem þeir hafa afnot af á kostnað lífeyrisþega. En nú þegar skuldarar fara fram á að þetta rugl verði leiðrétt að hluta, um 220 milljarða, þá ætlar allt um koll að keyra. Lífeyrissjóðirnir eru sagðir fara á hausinn nema lífeyrisgreiðslur verði skertar stórlega, Íbúðalánasjóður sömuleiðis og bankakerfið allt. Hver trúir svona bulli. Það liggur við að maður hafi orðið skömm á þessari eldri kynslóð sem fékk allt fyrir ekki neitt á verðbólguárunum, og stendur núna argandi ef einhver dirfist að ætlast til að hún taki þátt í að borga hrunið, sem hún þó ber alla ábyrgð á.

Gísli Sigurðsson, 14.10.2010 kl. 14:01

8 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Fjármagnseigendur=sparifjáreigendur=innistæðueigendur=þjóðin. Hættið að tala illa um þá sem lagt hafa fyrir  til elliáranna.

Lífeyrissjóðirnir = eign launþega sem  vildu  auka fjárhagslegt  öryggi í ellinni.  Hættið að tala illa um þá sem lagt hafa fé í lífeyrissjóðina. Sumir  stjórnendur lífeyrissjóða hegðuðu sér hinsvegar í krimmastíl. Þeir eiga ekkert  gott skilið.  Eru ábyrgðarlausir og sleppa. Því miður.

Eiður Svanberg Guðnason, 14.10.2010 kl. 15:05

9 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Þessi jafna er ekki rétt hjá þér Eiður. Þetta eru í raun tvær jöfnur:

Fjármagnseigendur=sparifjáreigendur=innistæðueigendur=hluti þjóðarinnar, sá hluti sem á. Svo er hin:

Íbúðareigendur=íbúðalánaskuldarar=hinn hluti þjóðarinnar, sá hluti sem ekkert á.

Alltaf hefur verið bil milli þessara hópa, en aldrei hefur það verið eins svakalegt og eftir að hin "norræna velferðarstjórn jafnaðarmanna" náði völdum. Og ekkert hefur sú stjórn gert til að draga úr þessu bili, heldur þvert á móti. Allar hennar aðgerðir hafa miðað að því að verja þá sem eiga, á kostnað þeirra sem ekkert eiga, þar fundu þau breiðu bökin. Að þetta fólk skuli ennþá leyfa sér að kenna sig við jafnaðarstefnu er til háborinnar skammar. Allir sannir jafnaðarmenn hafa fyrir löngu sagt skilið við þá flokka sem að þessu standa.

Af hverju sleppa stjórnendur lífeyrissjóðanna? Er það ekki vegna þess að það fólk sem lagði fé sitt í lífeyrissjóðina ver þá út í eitt? Heldur að það sé að verja lífeyrinn sinn en er í raun að verja sóun á honum. Eru menn búnir að gleyma að það þarf eina 120 lífeyrissjóðs greiðendur til að standa undir rekstri á einum lífeyrissjóðsforstjóra? Og ávöxtun sjóðanna eftir því.

Gísli Sigurðsson, 14.10.2010 kl. 16:07

10 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Jafnan er rétt, Gísli.  Fjármagnseigendur eru þeir sem hafa sparað.

Eiður Svanberg Guðnason, 14.10.2010 kl. 16:14

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

ÍSLAND OG VERÐTRYGGING.

"Verðtrygging er algengust í löndum sem styðjast við veikan gjaldmiðil og þar sem mikil ÓVISSA er talin um þróun verðlags.

Við þau skilyrði er ólíklegt að mikill áhugi sé á að gera langtímasamninga í viðkomandi mynt án verðtryggingar.

Í löndum sem styðjast við sterka gjaldmiðla og hafa langa sögu um nokkuð góðan árangur í baráttu við verðbólgu er hins vegar algengt að gerðir séu langtímasamningar í viðkomandi mynt, jafnvel með föstum vöxtum."

Gylfi Magnússon um verðtryggingu lána

Þorsteinn Briem, 14.10.2010 kl. 16:49

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

HÚSNÆÐISLÁN Í SVÍÞJÓÐ:

Handelsbanken - Aktuella boräntor


Stýrivextir í Svíþjóð eru nú 0,75% og verðbólgan 1,4%
en verðbólgumarkmið sænska seðlabankans er 2%.

Sveriges Riksbank


Stýrivextir á evrusvæðinu eru nú 1%
en verðbólgan 1,8% og því nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabanka Evrópu, sem er 2%.

European Central Bank - Key interest rates


Euro area inflation estimated at 1.8%

Publish Date: 30-SEP-2010

Þorsteinn Briem, 14.10.2010 kl. 16:53

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verðtryggt 20 milljóna króna jafngreiðslulán tekið hjá Íbúðalánasjóði til 20 ára með 5% vöxtum, miðað við 5% verðbólgu á lánstímanum og mánaðarlegum afborgunum:

ÚTBORGUÐ FJÁRHÆÐ:

Lánsupphæð 20 milljónir króna.

Lántökugjald 200 þúsund krónur.

Útborgað hjá Íbúðalánasjóði 19,8 milljónir króna.

Opinber gjöld 301 þúsund krónur.

Útborguð fjárhæð 19,5 milljónir króna.

HEILDARENDURGREIÐSLA:

Afborgun 20 milljónir króna.

Vextir 11,7 milljónir króna.

VERÐBÆTUR 22,1 MILLJÓN KRÓNA.

Greiðslugjald 18 þúsund krónur.

SAMTALS GREITT 53,8 MILLJÓNIR KRÓNA.

Meðalgreiðslubyrði á mánuði allan lánstímann 224 þúsund krónur.

Eftirstöðvar byrja að lækka eftir 72. greiðslu, eða sex ár.

Þorsteinn Briem, 14.10.2010 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband