7.10.2009 | 20:27
Molar um málfar og miðla CLXX
Fleiri fréttir frá Færeyjum ! Gaman var að sjá myndir úr leitum og smölun í Færeyjum í fréttum RÚV (07.10.2009). Við þurfum að frétta fleira frá Færeyjum. Líklega hafa tugir þúsunda Íslendinga einhverskonar tengsl við Færeyjar. Vinur minn færeyskur sendi mér tölvupóst fyrir nokkrum dögum og þar sagði hann: Eg fór suður til Sumbiar at fletta veðrar og lomb hósdagin í síðstu viku. Tann besti veðrurin vá 70 pund. Skurðurin var betri enn meðal. Hetta var bara heimaseyðurin, men nú standa fjøllini fyri.
Í frétt á vef Ferðamálastofu (07.10.2009) segir: Þrátt fyrir 3,3% fækkun erlendra gesta nú, er þetta engu að síður annar stærsti septembermánuður frá upphafi talninga. September í fyrra var raunar óvenju fjölmennur en þá fjölgaði gestum um 12% á milli ára. Fyrstu 9 mánuði ársins er fjölgun upp á 0,5%..
Annar stærsti septembermánuður og að september í fyrra hafi verið óvenju fjölmennur eru ambögur ,sem opinber stofnun á ekki að láta frá sér fara.
Upp úr þessari frétt Ferðamálastofu var unnin frétt ,sem birtist sama dag í Netmogga. Í henni voru enn fleiri ambögur, en það má Netmoggi eiga að fréttin var lagfærð og verstu villurnar leiðréttar. Þar var þó enn að finna eftirfarandi:
Á hinn bóginn fækkaði brottförum Íslendinga um 35,4% í september frá sama mánuði fyrir ári, og er það í líkum takti og verið hefur á árinu. Samtals voru brottfarir Íslendinga tæplega 22 þúsund í september en voru um 24 þúsund á árinu 2008. Frá áramótum hefur brottförum Íslendinga fækkað um 43,8%, eða sem nemur um 151 þúsund á milli ára.Molaskrifari er ósátttur við þessa fleirtölunotkun orðsins brottför. Úr Vefvísi (06.10.2009) : Annarsvegar var rúða brotinn í húsi Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja. Í hinu tilvikinu var rúða brotinn í heimahúsi. Sá sem þetta skrifar heldur greinilega að orðið rúða sé karlkynsorð ! Eftirfarandi er úr sömu frétt: Þrjú umferðarlagabrot komu upp í vikunni vegna hraðaksturs, aksturs á(n) ökuréttinda og svo var bifreið ólöglega lagt. Umferðarlagabrot komu upp? Þau hljóta þá að hafa verið niðri og komið þaðan upp, - eða hvað? Svo eru greinilega fátt um fína drætti á fréttamiðum, þegar það þykir fréttnæmt að bifreið sé lagt ólöglega ! Það er líka flest orðið hey í harðindum þegar DV skýrir frá því að íslensk fyrirsæta hafi fengið lánaðan jeppling í útlöndum. Engu er líkara en stúlkutetrið, sem DV verður svo tíðrætt um, oftast af engu tilefni, sé með launaðan umboðsmann á ritstjórn DV.DV segir frá því (07.10.2009) að formaður Framsóknarflokksins sé farinn til Noregs við annan (þing) mann til að ræða um lánveitingu til Íslands. Í umboði hvers, leyfir Molaskrifari sér að spyrja? Líklega munu Norðmenn brosa út í annað, ef ekki hlæja, enda er viðmælandi þeirra Per Olaf Lundteigen af mörgum talinn skrítnasta skrúfan í norskri pólitík og lítið mark á honum tekið. Íslenskir Framsóknarmenn eru líklega þeir einu sem taka manninn alvarlega.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.10.2009 | 22:37
Molar um málfar og miðla CLXIX
Icesave í hnetuskel , skrifar Moggabloggari (06.10.2009). Þetta er aulaþýðing úr ensku. Á íslensku ætti eftir málvenju að segja: Icesave í hnotskurn.
Þjóðarútvarpið RÚV heldur áfram að fara á svig við lög og misbjóða stórum hópi eigenda sinna. Nú fylgir auglýsing um Tuborg bjór nýrri danskri þáttaröð um Trúðinn. Tuborg kostar sýningu þáttanna að einhverju eða öllu leyti. Hvað er stjórn stofnunarinnar að hugsa? Líkast til er hún ekkert að hugsa.
Það ber vott um skort á mannasiðum þegar þingmenn tala í farsíma á þingfundum, eins og sjá mátti einn þingmann Sjálfstæðisflokksins gera í fréttum Stöðvar tvö (06.10.2009). Forseti á ekki að láta slíkt óátalið. Hinsvegar má til sannsvegar færa að betra sé að sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tali meira í farsíma en minna úr ræðustóli Alþingis. Litlu skárra er að sjá þingmenn og ráðherra önnum kafna við sendingu smáskilaboða. Forsætisnefnd á að banna notkun farsíma á þingfundum.
Í Spegli RÚV (06.10.2009) var einkar fróðlegur pistill um norska Framsóknarmanninn Per Olaf Lundteigen ,sem enginn í Noregi tekur alvarlega, en í honum hafa íslenskir Framsóknarmenn fundið sér nýjan leiðtoga og spámann og ætlar flokksforystan að halda til fundar við hann í Noregi hið fyrsta. Norðmenn hlæja þessum þingmanni og um hann má líklega segja að hann sé léttgeggjaður , en meðal einkunnarorða hans er : Fara snemma á fætur, vera duglegur og sækja um ríkisstyrki. Sjálfsagt fara íslenskir Framsóknarmenn sumir snemma á fætur og eru duglegir, en þeir eru vanastir því að fá ríkisfyrirtækin á silfurfati og þurfa varla að sækja um. Þetta mál er að verða mikill brandari. Molaskrifari mælir því að þeir sem þetta lesa hlusti á upphaf Spegilsins á Netinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.10.2009 | 23:01
Molar um málfar og miða CLXVIII
Það var órökrétt orðalag þegar sagt var i fréttum Stöðvar tvö ( 05.10.2009) um bréfaskriftir forseta Íslands til þjóðhöfðingja í þágu útrásarvíkinga að forsetinn segðist: ... engin bréf hafa skrifað nema eitt. Rökrétt hefði verið að segja:.. að forsetinn segðist aðeins hafa skrifað eitt bréf, eða ekki hafa skrifað nema eitt bréf. Setningin: Engin bréf nema eitt, er út í hött.
Blóð á vettvangi innbrots, segir (05.10.2009) segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu. Hversvegna ekki: Blóð á innbrotsstað? Fréttin hefst á þessum orðum: Talsvert blóð fannst á vettvangi innbrots í Garði. Vettvangur og aðilar koma mjög við sögu í lögregluskýrslum. Það er algjör óþarfi fyrir blaðamenn að taka orðrétt upp úr vinnuplöggum lögreglu, þegar þeir eru að skrifa texta fyrir lesendur.
Bjarni Sigtryggsson sendi Molum eftirfarandi: Mér hefur orðið tíðrætt við þig um áhrif talsmáta í leikskólum á málfar fréttamanna. "Hann puttabrotnaði..." sagði íþróttafréttamaður RUV nú í hádegisfréttum um það slys, þegar knattspyrnumaður fingurbrotnaði. Rétt athugað.
Ég þrífst á áskorunum,sagði íþróttamaður í fréttatíma stöðvar tvö (05.10.2009) Ekki kann Molaskrifari að meta þetta orðalag.
Það var kjarni máls sem Jóhanna Sigurðardóttir sagði í stefnuræðu í kvöld (05.10,2009) og Árni Páll Árnason ítrekaði, að í Icesave málinu eigum við ekkert val. Við verðum að ljúka málinu. Okkur er nauðugur einn kostur í þeim efnum. Þeir sem bera ábyrgð á Icesave klúðrinu neita hinsvegar að horfast í augu við þá staðreynd.
Merkilegt var að heyra í ræðum stjórnarandstöðunnar að Ögmundur og Guðfríður Lilja skuli nú komin í guða tölu og vera goðum lík. Það var líka merkilegt að heyra í ræðu varaformanns Sjálfstæðisflokksins, að helmingaskiptastjórnir íhalds og Framsóknar (sem gáfu vinum sínum ríkisbankana) bæru enga ábyrgð á hruninu, heldur bara síðasta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og svo bæri Framsóknarflokkur líka svolitla ábyrgð með hlutleysi við minnihlutastjórn Samfylkingar og VG. Það er því ekki bara Mogginn sem nú er að endurskrifa sögum með helbláum penna. Það vakti líka athygli að formaður Framsóknarflokksins nefndi ekki norsku milljarðakanínurnar sem þeir Framsóknarmenn hafa hafa verið að reyna að draga upp úr hatti undanfarna daga. Enda allt tómt rugl.
Það var hárrétt hjá Siv Friðleifsdóttur að brotthvarf Ögmundar úr ríkisstjórn hafði ekkert með Icesave að gera. Icesave var skálkaskjól. Fyrrum formann BSRB brast hugrekki gagnvart niðurskurðinum í heilbrigðiskerfinu. Þessvegna var leikþáttur settur á svið. Ræða Sivjar var góð.
Molaskrifara fannst ræða Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra bera af öðrum ræðum á Alþingi þetta kvöld, - eins og gull af eiri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2009 | 09:50
Molar um málfar og miðla CLXVII
Molaskrifari leyfir sér í allri þeirri neikvæðu umræðu, sem átt hefur sér stað undanfarið um sendiráð Íslands, að vitna í eftirfarandi ummæli Nínu Margrétar Grímsdóttur,píanóleikara,sem nýkomin er úr velheppnaðri tónleikaferð til Kína (Morgunblaðið 4.10.2009): Sendiherra Íslands í Kína hefur verið óþreytandi að kynna íslenska menningu, ekki síst tónlist, enda ágætur píanóleikari sjálfur... Hún segir Gunnar Snorra (Gunnarsson) og hans fólk hafa greitt götu sína í hvívetna. Það hefur verið mjög neikvæð umræða um sendiráð íslands á erlendri grundu undanfarnið og margir viljað loka þeim í sparnaðarskyni. Það er miður. Það er frábært starfs sem er unni ð er í sendiráðunum og menn hafa lagt mikið á sig til að byggja upp ómetanleg tengsl á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins og ég vona innilega að íslensk stjórnvöld beri gæfu til að loka ekki mikilvægum sendiráðum eins og í Kína. Þetta þykir fyrrum sendiherra Íslands í Kína gott að lesa og mælir með við talinu við Nínu Margréti.
Sennilega er norski Miðflokkurinn álíka ábyrgðarlaus og íslenski Framsóknarflokkurinn.Þó vil ég varla ætla Norðmönnum það. Forystumenn Framsóknar slá daglega ný met í lýðskrumi og frásagnir eru þeirra eru misvísandi í fjölmiðlum. Ýmist er sagt að Framsóknarmaðurinn sem fór til Noregs hafi rætt við fulltrúa Miðflokksins í fjárlaganefnd, eða fulltrúa flokksins í fjárlaganefnd og aðra fulltrúa úr fjárlaganefnd Stórþingsins. Nýjasta útgáfan var svo í Silfri Egils (04.10.2009) að rætt hefði verið við fulltrúa Miðflokksins og efnahagsráðgjafa hans. Framsóknarmenn virðast ekki vita við hvern þeir töluðu. Þeir verða að samræma framburð sinn.
Allt tal Framsóknarmanna um stórlán frá Noregi er marklaust meðan ekkert heyrist frá forsætis- og fjármálaráðherrum Noregs.
Annars voru viðræðurnar í Silfri Egils (04.10.2009) merkilegar fyrir ýmissa hluta sakir. Einn þátttakenda gargaði á hina og hefur líklega orðið til þess að ýmsir hlustendur hafa dregið þá ályktun að í forystu VG sé fólk sem hvorki er stjórnhæft eða stjórntækt. Getur ekki verið í eða stutt ríkisstjórn sem gera þarf erfiða hluti. Steingrímur á sannarlega ekki sjö dagana sæla. Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins gripu sífellt fram í , en það gera þeir einna helst. sem ekki vilja að sjónarmið annarra fái að heyrast.
Hallast annars að því sem Egill Helgason hefur sagt. Við eigum að ganga frá þessu máli. Líta á það sem nauðungarsamning og ofbeldi. Taka málið síðan upp að nýju eftir 4-5 ár þegar aðstæður hér og í veröldinni verða gjörbreyttar. Það er tilgangslaust að halda þessu þvargi áfram. Markmið Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er ekki fyrst og fremst að ná betri samningum. Heldur það eitt og bara það eitt að koma ríkisstjórninni frá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2009 | 21:23
Molar um miðla og málfar CLXVI
Úr Vefmogga (02.10.2009) : .. stærstu einstöku mannvirkjaframkvæmd Íslandssögunnar er nú lokið eftir sex ára framkvæmdir. Þessi setning hlýtur að teljast með helstu gullkornum Moggans. Mannvirkjaframkvæmd!
Meira úr Vefmogga (03.10.2009): Fram kemur á vef BBC að bilunin hafi komið upp kl. 8 að staðartíma og ollið töfum víða á Bretlandseyjum, Sögnin að velda veldur mörgum
skriffinnum erfiðleikum.Þetta hefði mátt orða þannig að bilunin hafið valdið töfum, eða bilun kom upp sem olli töfum. Þeir sem skrifa í blöð ættu að hafa tök á grundvallareglum móðurmálsins..
Ólafur vakti í athugasemdum við Mola athygli á makalausri frétt úr Vefvísi um jarðskjálftaflóðbylgjuna sem olli miklu manntjóni á Kyrrahafseyjum. Í frétt Vefvísis var talað um flóðbylgju við Tsunami. Tsunami er alþjóðlegt heiti á flóðbylgjum af völdum jarðskjálfta á hafsbotni, að minnsta kosti veit Molahöfundur ekki betur. Þetta er svona rétt eins og þegar Morgunblaðið fjallaði um borgina Aboriginal í Ástralíu !
Sífellt er ruglað saman Evrópuráðinu og Evrópusambandinu, ESB. Það er ósköp hallærislegt að lesa í bloggfærslu að íslenskur þingmaður segist vera að fara á Evrópuþingið, en er að fara á Evrópuráðsþingið. Íslendingar eiga enga aðild að Evrópuþinginu. Það eiga bara þau lönd sem eru í ESB. Vonandi rambaði þingmaðurinn á rétt þing.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.10.2009 | 23:11
Molar um málfar og miðla CLXV
Gaman var að sjá Færeyinga og heyra færeysku í fréttum RÚV sjónvarps (01.10.2009). Tungumál granna okkar mætti gjarnan heyrast oftar með fréttum af því sem þar er að gerast. Samantekt fréttastofu RÚV um hrunið fyrir ári var prýðileg. í alla staði.
Ríkisútvarpið verður að svara því hversvegna netföng starfsmanna eru ekki aðgengileg á Netinu. Er verið að vernda starfsmenn frá athugasemdum frá eigendum Ríkisútvarpsins?
Þjóðinni.
Vilja menn ekki hlusta á athugasemdir ? Ríkisútvarpið er þá eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson,Björn Bjarnason og Gísli Marteinn Baldursson sem leyfa ekki athugasemdir við bloggfærslur sínar. Það er auðvitað ekki leiðum að líkjast. Svar óskast.
Helgi Seljan kom ekki að tómum kofanum hjá Steingrími J. í Kastljósi kvöldsins (01.10.2009). Steingrímur tók Helga í tíma. Með fullri virðingu fyrir Jóhönnu, þá er Steingrímur hinn sterki leiðtogi þessarar ríkisstjórnar. Um það verður eigi deilt. Ég leyfi mér að bæta því við , að hlypi hann ekki á hverjum degi og hefði hann ekki gengið frá Langanesi á Reykjanestá hefði hann ekki það úthald sem þarf í þennan ótrúlega erfiða slag við flokka sem vilja eyðileggja og rífa niður allt sem gert er og iðka lýðskrum í ríkari mæli en áður hefur verið gert.
Ríkisstjórnin hefur vanhirt tengsl við vinaþjóðir, og það væri ábyrgðarleysi að skoða ekki gaumgæfilega þetta lánaboð, þessi ummæli hefur fréttavefur RÚV eftir stjórnarþingmanni (30.09.2009). Það er ekkert til sem heitir að vanhirða tengsl. Í þessu tilviki hefði átt að segja vanrækt tengsl, því líklega er átt er við það. Ekki kann Molaskrifari heldur að meta orðið lánaboð. Heldur hefði átt að tala um lánstilboð.
Seinni fréttir sjónvarpsins hefjast svo á slaginu klukkan tíu, sagði dagskrárkynnir sjónvarpsins (30.09.2009). Þegar þessi orð voru sögð átti eftir að sýna Kilju Egils og dagskráin var þá þegar vegna Kastljóss og frétta orðin talsvert á eftir áætlun. Kilja Egils er ekki í beinni útsendingu og því ekki hægt að stytta hana i útsendingu.. Það var því öruggt að fréttir mundu ekki hefjast á slaginu klukkan tíu. Samt var hlustendum sagt að fréttir yrðu klukkan tíu. Klukkan tíu kom texti á skjáinn um að fréttir hæfust klukkan 22 05. Molaskrifari hefur lengi verið þeirrar skoðunar að þetta form dagskrárkynningar hafi fyrir löngu gengið sér til húðar. Það á gefa fallegu stúlkunum frí og hlífa áhorfendum við brosinu, sem stundum frýs og verður yfirmáta vandræðalegt, þegar tæknimaður er seinn að skipta um mynd. Þetta er tímaskekkja og með breytingu mætti áreiðanlega spara talsverða fjármuni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.10.2009 | 11:21
Molar um málfar og miðla CLXIV
Safnað fyrir Kyrrahafseyjum,segir í fyrirsögn á Vefmogga (30.09.2009). Þessi fyrirsögn er út í hött. Ekki stendur til að kaupa Kyrrahafseyjar. Að safna fyrir einhverju er að aura saman fyrir einhverju eða spara fyrir einhverju. Það er ekki verið að safna fyrir eyjum. Það er verið að safna fé til hjálpar fólki á Samóaeyjum í Kyrrahafi þar sem skelfilegar náttúruhamfarir hafa átt sér stað.
Í fréttum RÚV sjónvarps (30.09.2009) var talað um að vinna með börn og unglinga. Molaskrifara hefði fundist eðlilegra að tala um að vinna með börnum og unglingum, eða sinna börnum og unglingum.
Vefmoggi skrifar (30.09.2009): Hún mun reyna að sannfæra Alþjóðaólympíusambandið um að Chicago hljóti umboð til að halda Ólympíuleikana árið 2016. Það er ekki verið að ræða um neitt umboð. Þetta er spurning um hvort Chicago fær að halda Ólympíuleikana árið 2016. Þar að auki hélt Molaskrifari að það væri svokölluð Alþjóða Ólympíunefnd ,sem tæki þessa ákvörðun.
Þessi frétt Morgunblaðsins er annars eitt endemisklúður frá upphafi til enda eins og eftirfarandi málsgrein ber með sér: Forsetafrúin vill gera allt sem í hennar valdi stendur svo rétturinn til að halda Ólympíuleikana renni ekki í skaut Rio de Janeiro. Það er mikil vinna framundan, við tökum engu sem gefnu, segir Obama. Forsetinn, Barack Obama, er væntanlegur til Kaupmannahafnar á föstudag en þá fellur ákvörðun ólympíunefndarinnar. Aðrir keppinautar Chicago eru Ríó, Madríd og Tókíó.
Það er nú líka hálf hallærislegt, ef danskir fjölmiðlar hafa ekkert annað getað haft eftir bandarísku forsetafrúnni en: Ég er svo ánægð að vera hér ! (I´m so so happy to be here!) Örugglega hefur hún sagt eitthvað fleira.
Af skrifum DV að dæma eru þingmenn enn í lögheimilisleik, flytja lögheimili sitt frá Reykjavík, þegar þeir eru kosnir á þing vegna þess að það kemur betur út fjárhagslega. Þetta er ekki nýtt. Þegar Molaskrifari sat á þingi fyrir nokkuð löngu uppgötvaði hann um ein mánaðamót að talsvert hærri upphæð en venjulega hafði verið færð inn á launareikning hans í bankanum. Hann hafði samband við launadeild til að vita hverju þetta sætti. Kom þá í ljós að sá sem annaðist færslurnar hafði farið línuvillt. Nýkjörinn þingmaður hafði látið það vera sitt fyrst a verk að flytja lögheimili sitt út á land, enda þótt hann byggi og hefði lengi búið í Reykjavík og héldi ekki tvö heimili. Þetta er því gömul saga og ný og væri þarft verk ef DV athugaði hvort ekki væri svona ástatt um fleiri , ekki bara þingmenn heldur og ráðherra. DV á þakkir skildar fyrir að hreyfa við málum,sem aðrir fjölmiðlar koma ekki nálægt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.9.2009 | 19:38
Þjóðstjórnarþvælan
Forsendan fyrir myndun þjóðstjórnar, eða stjórnar allra flokka, er sú að flokkarnir séu sammála um afstöðu og aðgerðir gegn sameiginlegu verkefni eða sameiginlegum óvini. Í Bretlandi var mynduð þjóðstjórn gegn sameiginlegum óvini,- Þýskalandi Hitlers.
Hér á landi er engin samstaða með flokkunum um aðgerðir gegn afleiðingum hrunsins,sem tveir flokkanna bera höfuðábyrgð á.
Þjóðstjórn er í eðli sínu andlýðræðisleg, - vegna þess að þá er engin stjórnarandstaða.
Að auki má nefna að ef allir flokkar í þjóðstjórn eru sammála um aðgerðir sem orka tvímælis, eða eru jafnvel arfavitlausar, þá er enginn til að gagnrýna þær ráðstafanir.
Utanþingsstjórn verður að hafa meirihlutastuðning á Alþingi til að geta starfað.Ég hef ekki minnstu trú á því að forseti lýðveldisins geti skipað slíka stjórn. Að auki erru utanþingsstjórnir auðvitað ólýðræðislegar líka.
Þessi atriði eru of sjaldan nefnd í umræðunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.9.2009 | 23:28
Molar um málfar og miðla CLXIII
Eftirfarandi stendur í Vefdv (29.09.2009): Þær höfðu sætt ofsókna í tíu ár. Undarleg og illskýranleg ambaga. Þær höfðu sætt ofsóknum í tíu ár. Meira úr Vefdv: ...eyddi að minnsta kosti 331 dag í að skoða klám á tölvunni ... Rétt væri : ...eyddi að minnsta kosti 331 degi í að...
Af vef RÚV (29.09.2009): Nýjum handverkfærum var stolið í innbroti í fyrirtæki á Viðarhöfða í Reykjavík í nótt. Af hverju handverkfærum? Af hverju ekki verkfærum?
Á vef RÚV er sagt frá ákvörðum umhverfisráðherra í tengslum við svokallaða suðvesturlínu og umhverfismat. Dálítið sérstakt er að bæði á vef RÚV og í Vefmogga er talað um að málinu hafi verið vísað aftur til Skipulagsstofnunar til efnilegrar meðferðar. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins er réttilega talað um efnislega meðferð, sama er gert á Vefvísi. Vefvísir skrifar reyndar um háspennulínu milli Hellisheiði og Helguvíkur. Á auðvitað að vera milli Hellisheiðar og Helguvíkur. Kannski hefur RÚV afritað fréttina að vefmogga eða Vefmoggi af vef RÚV. Hæpið að þessi aulavilla á tveimur stöum sé tilviljun ein.
Rúða í Lífeyrissjóði Vestmannaeyja brotin, skrifar Vefvísir (29.09.2009). Það er nýtt að rúður séu í lífeyrissjóðum. Molaskrifari reynir að vera málsvari íslenskrar tungu eftir getu. Á þessu stigi máls sér hann ekkert athugavert við að spurningar og svör vegna aðildarumsóknar að ESB séu á ensku. Þetta er ekki það sem skiptir sköpum í væntanlegum viðræðum. Þeir sem klifa mest á því að allar spurningar og svör verði þegar í stað að þýða er einna helst þeir sem eru andstæðingar aðildar og vilja drepa málinu á dreif. Morgunblaðið telur að ríkisstjórnin vilji með þessu fela eitthvað fyrir þjóðinni. Kjánaskapurinn í kringum þetta nær hámarki í eftirfarandi setningu Staksteina (29.09.2009) Morgunblaðsins í dag. Tæpast er það ætlun ríkisstjórnarinnar að umræða um aðild Íslands að Evrópusambandinu fari fram á ensku hér á landi. Heldur Staksteinahöfundur að lesendur blaðsins séu fífl ? Ég bíð þess að Morgunblaðið geri þá kröfu að öll okkar samskipti við umheiminn fari fram á íslensku. Það ríður ekkert við einteyming hjá Mogga í þessum efnum. Nær væri blaðinu að huga að málfari á eigin síðum og í eigin netmiðli. Þar má ýmislegt bæta. Eins og dæmin sanna. Úr Vefmogga (28.09.2009): Föngunum tókst að búa sér til holu í stálgirðingu sem umkringdi klefa þeirra..! Hola í stálgirðingu ! Mjög athyglisvert. Efnistök Kastljóss RÚV eru á stundum einkennileg. Stutt er síðan skórinn var níddur niður af Ragnari Önundarsyni,núverandi stjórnarformanni Lífeyrissjóðs verslunarmanna án þess að honum væri gefinn kostur á bera hönd fyrir höfuð sér. Í Kastljósi (28.9.2009) var fenginn fjármálasérfræðingur til að fjalla um væntanlegar tillögur félagsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar til aðstoðar skuldsettum heimilum. Sá taldi þetta allt einskis virði og mest sjónhverfingar, en er það ekki rétt að tillögurnar hafa ekki enn séð dagsins ljós eða verið birtar í heild ? Eru þetta fagleg og vönduð vinnubrögð?Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.9.2009 | 21:00
Molar um málfar og miðla CLXII
Stúlkan hlaut stungusár á brjóstkassa., segir á vef RÚV (27.09.2008). Af hverju ekki að segja eins og var stúlkan var stungin í brjóstið? Í tíu fréttum RÚV sama dag var fjallað um þá sem missa atvinnuleysisbætur vegna svika og pretta. Sagt var að þeir dyttu af bótum. Þetta orðalag er barnamál sem ekki á heima í fréttum.
Fjármálaóveðrið er ekki byrjað að slota, bloggar sóknarprestur (28.09.2009). Veður slotar ekki. Veðri slotar. Þá má líka í fullri vinsemd benda klerki á að óveður geysar ekki. Það geisar. Þetta þykist Molaskrifari hafa lært í gagnfræðaskóla.
Útlit fyrir björtu veðri syðra, sagði veðurfréttamaður á Stöð tvö (28.09.2009). Það er ekki útlit fyrir einhverju. Það er útlit fyrir eitthvað. Þess vegna var útlit fyrir bjart veður eða bjartviðri syðra.
Svolítið þótti Molaskrifara einkennilega til orða tekið í fréttum RÚV (28.09.2009) þegar fréttamaður sagði að brestur væri á því að fyrirtæki skili ársreikningum. Ekki er Molaskrifari viss um að þetta sé rangt til orða tekið, en eðlilegra hefði verið að segja að misbrestur væri á því að fyrirtæki skiluðu ársreikningum.En orðið brestur, skortur, er frekar notað í samsetningum eins og aflabrestur eða uppskerubrestur.
Það er í senn fróðlegt og óhugnanlegt að fylgjast með fréttum af því hvernig æðstu innanbúðarmenn í SPRON, makar og náin ættmenni seldu og seldu stofnfjárhluti sína rétt fyrir hrun þegar þetta fólk greinilega vissi að ekki var allt með felldu. Grunlausir kaupendur töldu sig vera að kaupa í traustu fyrirtæki og töpuðu stórfé. Þetta þarf allt að koma upp á yfirborðið svo og tengsl hins svokallaða Sjóðs níu í Landsbankanum við þessi viðskipti. Þar í stjórn var einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, muni skrifari rétt. Allt þetta verður að koma fram í dagsljósið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)