Molar um málfar og miðla 2002

STJÓRNARRÁÐIÐ – STJÓRNARRÁÐSHÚSIÐ

Fréttamenn ættu að hafa hugfast, að gamla fangelsið, hvíta húsið við Lækjartorg þar sem forsætisráðherra hefur skrifstofu og  þar sem ríkisstjórnarfundir eru venjulegast haldnir er ekki stjórnarráðið. Þetta hús hefur í áratugi heitið stjórnarráðshúsið, það eiga allir sæmilega upplýstir fréttamenn að vita. Stjórnarráðið er samheiti yfir öll ráðuneytin. Þess vegna er ekki hægt að segja , að fundur hafi verið haldinn í stjórnarráðinu. Stjórnarráð, -,,öll ráðuneyti í tilteknu ríki” segir orðabókin.

 Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 1800 á fimmtudagskvöld (11.08.2016) var bæði talað um stjórnarráðshúsið (réttilega) og stjórnarráðið, þegar sagt var frá fundi oddvita ríkisstjórnarinnar með fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna. Í fréttum Stöðvar tvö var talað um stjórnráðið,  í Ríkissjónvarpsfréttum talaði fréttaþulur tvívegis um fundinn í stjórnarráðinu.

Á mbl.is var fyrirsögnin: ,,Fundað í Stjórnarráðinu” - stór stafur í stjórnarráðinu á ekkert erindi þarna.

 ,http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/11/fundad_i_stjornarradinu/

 

Þetta er ekkert flókið. En til þess að hafa þetta rétt þarf fólk að vita og vilja hafa hlutina rétta.

Það er eins og mig minni að á þetta hafi áður verið drepið í Molum!

Es. Á dv.is var ekki talað um fundarstaðinn, en sagt: ,, Þess hefur verið beðið með nokkurri óþreygju að kjördagur verði ákveðinn, ...”

Enginn las yfir. http://www.dv.is/frettir/2016/8/11/their-hafa-loksins-akvedid-kjordag/

Atli Ísleifsson hafði þetta rétt á visir.is: ,, Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, um fund leiðtoga stjórnar og stjórnarandstöðu í stjórnarráðshúsinu sem hófst klukkan 16.”

http://www.visir.is/birgitta--kosid-29.-oktober-gegn-thvi-ad-thingstorfin-gangi-edlilega-fyrir-sig--/article/2016160819745

 

 

MÁLFRÆÐIKUNNÁTTA

Málfræðikunnáttu þess, sem þetta skrifaði (11.08.2016) er ábótavant.

,,Prófið sem bíl­stjór­arn­ir þurfa að fara í eft­ir 1. októ­ber er lýst sem tungu­mála­prófi sem próf­ar hæfni hvers og eins til þess að tjá sig á tak­markaðan hátt í sér­stök­um aðstæðum.” - Prófið er ekki lýst sem,... Prófinu er lýst, sem .. Þetta er úr frétt á mbl.is

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/08/11/leigubilstjorar_thurfa_nu_ad_kunna_ensku/

 

SNJÓALÖG OG VEÐURHORFUR

Í fjögur fréttum Ríkisútvarps (14.08.2016). Var sagt frá varpi heiðargæsar og kæmust ungarnir óvenju seint á legg vegna snjólaga. Þetta átt auðvitað að vera vegna snjóalaga. Vegna fannfergis. Í sama fréttatíma var sagt frá veðurhorfum og fréttamaður/þulur sagði: ,,.... svo fer að rofna til”. Svo fer að fer að rofa til, fer að sjást til sólar.  Ríkisútvarpið þarf greinilega að gera meiri kröfur til þeirra sem lesa og skrifa fréttir.

 

LANDGRUNNURINN!

Blaðamenn  verða að kunna skil á merkingu þeirra orða sem þeir nota. Á mbl.is (09.08.2016) var sagt frá olíuborpalli sem slitnaði aftan úr dráttarbáti og rak að landi þar sem hann strandaði uppi í grjóti, eins og sagt er, eftir myndinni með fréttinni að dæma.

Í fréttinni sagði: ,, Óveðrið varð svo til þess að ekki gekk að festa pall­inn aft­ur við drátt­ar­taug og rak hann því á land­grunn­inn utan Car­loway í Skotlandi. “ Molaskrifari kannast ekki við karlkynsorðið landgrunnur. Orðið landgrunn (hk) er hinsvegar notað um ,,grunnsævi, frá fjöru að 200 m dýptarlínu, - stöpulinn sem landið er hluti af (nær þangað sem snardýpkar niður í hafdjúpin)” , segir orðabókin. Borpallinn rak upp á grynningar og hann strandaði upp við land.

http://www.mbl.is/frettir/taekni/2016/08/09/oliuborpallur_strandadi_vid_skotland/

Þetta var enn óbreytt á mbl.is fimm dögum síðar.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2001

HÖLDUM Í MÁLVENJUR

Molavin skrifaði (11.08.2016): ,,Gott er að halda í málvenjur en láta ekki frá sér fréttatexta í flýti og hugsunarleysi. Í frétt á dv.is segir (9.8.2016): "Huddleston skilur eftir sig eiginkonu og son." Ekki er ólíklegt að leikarinn látni hafi skilið eftir sig ýmsar eignir en málvenja er nú að segja að hann hafi "látið eftir sig" konu og börn.”

 Þetta er hverju orði sannara, - þakka bréfið, Molavin.

 

GÖMUL AFTURGANGA

Rafn skrifaði (11.08.2016) og vakti athygli á gömlum draugi, gamalli afturgöngu, sem birtist á mbl. is.

Rafn segir: ,, Hér birtir vefmoggi frétt um Kanadísku fjallalögregluna. Með öðrum orðum, þá er vanþekking algjör, bæði á ensku máli (mounted = á hestbaki) og á málefnum Kanada. Að sjálfsögðu er fréttin frá riddaralögreglunni (ellegar ríðandi lögreglunni), en ekki einhverri óþekktri fjallalögreglu. Þessi misskilningur hefir sézt áður.”

 Þakka bréfið, Rafn. Já, þetta er áratuga gömul afturganga. – Svona stóð þetta á mbl.is

 ,, Aron Dri­ver vakti at­hygli kanadískra yf­ir­valda er hann lýsti yfir stuðningi við Ríki íslams.

Lög­regla Ont­ario í Kan­ada skaut í gær til bana grunaðan hryðju­verka­mann. Kon­ung­lega kanadíska fjalla­lög­regl­an vildi ein­göngu greina frá því að „gripið hefði verið til aðgerða“ gegn ein­um ein­stak­lingi að því er greint er frá á frétta­vef BBC.” 

Frá því fréttir um þetta birtust fyrst vonaði Molaskrifari búið væri endanlega að kveða niður amböguna, þýðingardrauginn, konunglegu kanadísku fjallalögregluna. Sú von brást. Kannski fáum við aftur Moggafrétt um mann sem gekk á krukkum, hækjum, (d. krykker).

Rétt er að geta þess að konunglega kanadíska fjallalögreglan, breyttist seinna í kanadísku alríkislögregluna á vef mbl.is. Slæmt samt.

 

 

ÓFULLBURÐA FYRIRSÖGN

Segir mennina áður hafa reynt að byrla sér. Þessi fyrirsögn var á mbl.is (10.08.2016). Fyrirsögnin er endaslepp, ófullburða. Andlag sagnarinnar vantar. Að byrla e-m e-ð. Þarna hefði átt að standa: Segir mennina áður hafa reynt að byrla sér ólyfjan eins og segir raunar í fréttinni.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/08/10/segir_mennina_hafa_reynt_ad_byrla_ser/

 

AÐ,,PANIKKA”

Úr frétt á mbl.is (10.08.2016):,, Inn­an­rík­is­ráðherra Belg­íu, Jan Jam­bon, seg­ir hót­an­irn­ar vera það al­var­leg­ar að nauðsyn­legt sé að setja af stað neyðaráætlan­ir en að eng­in ástæða sé til þess að „panikka“. Óþörf sletta, að vísu höfð innan gæsalappa, til merkis um að þetta sé ekki gott og gilt orðalag. Þarna hefði til dæmis mátt segja að engin ástæða væri til að láta hræðslu, ótta, ná yfirhöndinni. Á ensku er talað um to panic, vera gripinn ofsahræðslu, örvænta. Orðið panikkera , panikera er reyndar íslenskri orðabók og sagt óformlegt,, fyllast skyndilegri örvæntingu, komast í uppnám.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/08/10/sprengjuhotanir_gegn_flugvelum_sas/

 

TILBOÐ SELD

,,Hátt í tíu þúsund tilboð seld”, segir í tölvupósti frá netsölunni Hópkaupum (11.008.2016). Molaskrifara finnst það ekki mjög vel að orði komist að tala um að tilboð séu seld ! En sumum finnst það kannski smámunasemi. Þá það.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2000

ÖÐRUVÍSI MOLAR

Lengi hef ég haft dálæti á þessari málsgrein úr Eglu, Egils sögu Skallagrímssonar. Hún er á bls. 14 í Sigurðar Kristjánssonar útgáfunni frá 1910.

 ,, Norður á Hálogalandi heitir fjörður Vefsnir. Þar liggur ey í firðinum og heitir Álöst, mikil ey og góð; í henni heitir bær á Sandnesi. Þar bjó maður, er Sigurður hét; hann var auðgastur norður þar; hann var lendur maður og spakur að viti. Sigríður hét dóttir hans og þótti kostur bestur á Hálogalandi; hún var einbirni hans og átti arf að taka eftir Sigurð, föður sinn.”- Þarna er svo óendanlega mikið sagt. Í stuttu máli. Landafræði,ættfræði og kostir konunnar, - allt svo hnitmiðað. Penninn er hér eins og aðdráttarlinsa sem beinir  lesandanum, að viðfangi sögunnar. -  Ritstjórar ættu að nefna það við fréttamenn að lesa eins og eina Íslendingasögu árlega. Rifjar upp, að Matthías Johannessen ritstjóri Morgunblaðsins sagði mér einu sinni frá blaðamanni, sem var að barma sér yfir vankunnáttu í íslensku. ,, Lestu Íslendingasögurnar”, sagði Matthías við hann.

 

Þessi málsgrein úr Egilssögu á sér svolitla samsvörun , - finnst mér, - í upphafsmálsgrein annarrar bókar, - frá öðrum tíma:

,,Engum sem farið hefur um Hrútadal dylst að hann er með fegurstu sveitum landsins. Hann er grösugur og grjótlaus. Veðursæld er þar mikil. Eftir dalnum rennur á, breið og straumþung ,samnefnd honum. Þar sem hún sameinast hafinu er verslunarstaður dalamanna, sem heitir Djúpiós, sjaldan kallaður annað en ,,Ósinn”.

 Þetta er upphaf Dalalífs eftir Guðrúnu frá Lundi. Svo virðist sem hún sé nú fyrst metin að verðleikum.

 

En svo um allt annað:  Hér fer á eftir tilvitnun í eina frægustu blaðagrein síðustu aldar, Vörn fyrir veiru, eftir Vilmund jónsson landlækni. Greinin birtist í Frjálsri þjóð 7. maí 1955 og var svo gefin út sérprentuð. Vilmundur og dr. Sigurður Pétursson gerlafræðingur  deildu um hvort nota skyldi orðið vírus eða orðið veira. Sigurður vildi vírus, en Vilmundur veiru.

 Sigurður hafði skrifað í Náttúrufræðinginn, lokahefti 1954 :,, Nafnið veira hefur líka verið notað á þennan lífveruflokk í íslenzku máli, en það virðist ekkert hafa fram yfir orðið vírus, nema tilgerðina. Orðið vírus fer vel í málinu og beygist eins og prímus”.

Þetta varð Vilmundi tilefni til að skrifa í þessari frægu grein:

 ,, Fyrir rúmum hundrað árum, svo ekki sé litið lengra aftur í tímann baslaði Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur og skáld við að þýða stjörnufræði á íslensku. Hann felldi sig einhvern veginn ekki rétt vel við að æter héti á íslenzku blátt áfram eter og nefndi ljósvaka,sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið eter nema tilgerðina. Orðið eter fer vel í málinu og beygist eins og barómeter.

 Æðilöngu síðar hugkvæmdist Sigurði L. Jónassyni stjórnarráðsritara að nefna territoríum landhelgi, sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið territoríum nema tilgerðina. Orðið territoríum fer vel í málinu og beygist eins og sammensúrríum.

 Um líkt leyti rak dr. Jón Þorkelsson rektor hornin í exemplar og kallaði eintak, sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið exemplar nema tilgerðina. Orðið exemplar fer vel í málinu og beygist eins og ektapar.

 Enn var það ekki fjarri þessum tíma að Arnljótur Ólafsson, síðar prestur, samdi Auðfræði sína og smíðaði fjölda nýyrða. Ekki bar hann beskyn á að kalla begrep einfaldlega begrip, heldur kaus hann nýyrðið hugtak, sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið begrip nema tilgerðina. Orðið begrip fer vel í málinu og beygist eins og beskyn og bevís.

Um og eftir síðustu aldamót seldu allir skókaupmenn hér á landi og auglýstu ákaft galossíur. Þorsteinn Erlingsson skáld fann upp á því einhvern tíma þegar honum gekk illa að komast í galossíurnar, að kalla þennan nýja fótabúnað skóhlífar, sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið galossíur nema tilgerðina. orðið galossía fer vel í málinu og beygist eins og drossía.

Á sama tíma voru cenrtifúgur auglýstar því nær í hverju íslensku blaði, uns Jón Ólafsson ritstjóri og skáld, nema það hafi verið einhver annar , gat ekki setið á sér og stakk upp á því að kalla þetta þarfa áhald bænda skilvindu, sem virðist ekkert hafa fram yfir orðið centrifúga, nema tilgerðina. Orðið centrifúga fer vel í málinu og beygist eins og Good-templarastúka.

 Ekki reyni ég að rýna í það hvenær sá sundurgerðarmaður var uppi með íslenzkri þjóð sem gerði móðurmáli sínu það til óþurftar að þykjast þýða patríót á íslenzku og kalla föðurlandsvin, sem virðist ekkert hafa fram yfir patríót, nema tilgerðina. Orðið patríót fer vel í málinu og beygist eins og idíót.

 Þannig má rekja þessa fáfengilegu tilgerðarrollu aftur og fram um ævi tungunnar, og má vera átakanlegt fyrir þá sem smekkinn hafa fyrir tilgerðarleysinu, enda skal hér brotið í blað”.  -  Sagði Vilmundur Jónsson í frægri blaðagrein,sem endurprentuð er í Með hug og orði . - Af blöðum Vilmundar Jónssonar landlæknis, Iðunn 1985. Þórhallur sonur Vilmundar sá um útgáfuna. Tvö bindi, - hvort öðru skemmtilegra. – En eru ekki orðið vírus og veira notuð jöfnum höndum í dag ?

Þessi pistill var öðruvísi svona í tilefni dagsins.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1999

 

FÁ SITT FRAM

Formaður fjárlaganefndar, skrifaði á fasbók, og Hringbraut birti einnig (07.08.2016) : , „Það er gríðarlegt ofbeldi sem beitt er í þinginu - frekjan er rosaleg - við höfum verið kölluð pólitískir hryggleysingjar og lindýr - ef þau fá ekki sínu fram - þá er þingið tekið í gíslingu - Svandís fer fyrir aðgerðum,“. Hér hefði mátt nota annað orðalag , - til dæmis; - ef þau fá ekki sitt fram, ef þau fá ekki sínu framgegnt, ef þau ná ekki sínu fram. Bara ekki; fá sínu fram. Það er út í hött.

 

HÁDEGIN

Málglöggur Molalesandi benti skrifara á að í yfirliti hádegisfrétta Ríkisútvarpsins á sunnudag (07.08.2016) hefði fréttaþulur að minnsta kosti tvisvar talað um hádegin í lýsingu á veðri, um hádegin, eftir hádegin. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Hann hlustaði aftur á fréttayfirlitið og heyrði sömuleiðis ekki betur en talað væri um hádegin. Orðið hádegi er til í fleirtölu. En þarna átti fleirtalan ekkert erindi.

 

GIN EÐA GINN-

Molalesandi skrifaði (07.08.2016):,, Sæll vertu.
Var að lesa grein eftir Ögmund Jónasson í Mbl. þar sem hann ræðir heilbrigðismál. Þar talar hann um að vera eða vera ekki ,,ginkeyptur" fyrir einhverju. Nú spyr ég þig: Er þetta rétt sagt? Ég hef haldið, að segja eigi ginnkeyptur - sbr. sögnina að ginna og að láta ginnast. Að ginkaupa einhvern myndi ég ætla að merkti að ,,kaupa" stuðning eða samþykki einhvers fyrir gin - og þá hvers konar gin? Beefeaters eða Gordons - eða fyrir hvaða snaps sem er ?” - Þakka bréfið. Auðvitað á þetta að vera ginnkeyptur. Segir sig eiginlega sjálft. – Ákafur í að kaupa, sólginn í e-ð, segir orðabókin.

 

 AÐ VALDA EKKI ...

Of margir fréttaskrifarar valda því ekki að nota sögnina að valda. Þetta er úr frétt á DV /07.08.2016)um spænsk hjón,sem vildi skíra son sinn Úlf (Lobo) : Seinna var þeim sagt að nafnið þekktist einnig sem ættarnafn á spænsku og gæti því ollið misskilningi. Valdið misskilningi, hefði þetta átt að vera.

http://www.dv.is/frettir/2016/8/7/mattu-ekki-skira-son-sinn-ulf-thotti-modgandi-fyrir-barnid/

Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=433173

 

ENN EINU SINNI

Í fréttayfirliti í upphafi frétta Ríkissjónvarps (09.08.2016), las fréttaþulur: Piltur sem grunaður er um að hafa .... hefur verið gert að sæta geðarannsókn.  Pilti hefur verið gert að sæta geðrannsókn. Þetta var rétt í fréttinni. En villan var endurtekin í fréttayfirlitinu í fréttalok. Sá sem samdi yfirlitið hefur greinilega ekki ríka málkennd. Svona villur sér maður og heyrir æ oftar , - því miður.

En rétt er að fram komi að í seinni fréttum sjónvarps sama kvöld hafði þetta verið lagfært.

 

LEIÐRÉTT

Í Molum gærdagsins (1998) var vitnað í Bylgjufréttir af fiskideginum mikla á Dalvík. Sagt var að í fréttinni verð verið sagt að aldrei hefðu fleiri heimsótt daginn. Þarna var um misheyrn að ræða hjá Molaskrifara, því sagt var að aldrei hefðu fleiri heimsótt bæinn. Hlutaðeigandi á Bylgjunni er beðinn velvirðingar á þessum mistökum Molaskrifara.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1998

AÐ FLÝJA - AÐ FLYKKJAST

Sveinn skrifaði (05.08.2016): ,, Sæll Eiður,
þakka þér fyrir að taka ábendingar mínar til birtingar. Eitthvað er þá til í þeim.
Að þessu sinni vakti athygli mína fyrirsögn í Netmogga, Fjárfestar flýja til Tyrklands. Fyrsta málsgreinin er eftirfarandi: ,,Hryðjuverkaárásir, blóðug valdaránstilraun, pólitískar hreinsanir. Flestir myndu halda að nú væri ekki góður tími til þess að fjárfesta­
í Tyrklandi. Engu að síður flýja fjárfestar nú unnvörpum til landsins”
Hvergi í fréttinni kemur fram hvað það er sem fjárfestar eru að flýja. Ég ákvað að gamni að athuga hvort ég gæti fundið heimildina, þar sem blaðamaður gefur hana ekki upp, og leitaði að Investors og Turkey í leitarvél Google. 
Þá kom upp frétt New York Times sem hráþýdd var svo gott sem orð frá orði, eins langt og þýðingin nú náði hjá blaðamanni. Í fyrirsögn fréttar NYT segir nefnilega Investors Rush to Turkey en blaðamaður Netmogga gerir ekki greinarmun á því að flykkjast og flýja. Og það verður að teljast með nokkrum ólíkindum.
Hér er frétt Netmogga: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/08/04/fjarfestar_flyja_til_tyrklands/

Hér er frétt NYT: http://www.nytimes.com/2016/08/04/business/dealbook/a-coup-terrorists-and-inflation-yet-investors-rush-to-turkey.html?_r=0

Kærar þakkir fyrir bréfið, Sveinn. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð. Engin ritstjórn.

 

UM BÚSKAP

Í sjónvarps auglýsingu frá Sláturfélagi Suðurlands er nefndur til sögunnar bóndi sem búi á stóru búi. Er það rangt hjá Molaskrifara að betra væri að segja, að þessi bóndi búi stórbúi? Hljómar réttara í eyrum skrifara.

 

KLUKKAN

Í níu fréttum Ríkisútvarpsins á sunnudagsmorgni ( (07.08.2016) var sagt frá því að tvær íslenskar sundkonur mundu keppa í sundi í Ríó síðar um daginn. Þulur sagði: ,,Útsending frá sundi Eyglóar hefst klukkan fjögur en frá sundi Hrafnhildar klukkan sextán fimmtíu.” Þarna skorti samræmi, vandvirkni. Þetta var hins vegar rétt á fréttavefnum, þegar að var gáð.

,,Útsending frá sundi Eyglóar hefst klukkan fjögur, klukkan 16 en frá sundi Hrafnhildar klukkan 16:50”. Enginn les yfir.

 

HEIMSÓTTU DAGINN

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (08.08.2016) um mannfjölda á Dalvík á ,,Fiskideginum mikla” var tvísagt, að aldrei hefðu fleiri heimsótt daginn. Heimsótt Dalvík á ,,Fiskideginum mikla” hefði verið betra, en í þá veru var frétt Ríkisútvarpsins, réttilega..

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1997

HÖND – HENDI

Molavin skrifaði (04.08.2016) : "Þessi sáttahendi danskra stjórnvalda..." segir í frétt Kjarnans (3.8.16) þar sem fjallað er um danska fánadaga. Nefnifall orðsins *hönd* þvælist ekki aðeins fyrir mönnum þegar rætt um knattspyrnuleiki. Oft er réttilega sagt að leikmaður hafi verið dæmdur fyrir "hendi" þegar bolti fer af hendi hans. Maður lætur líka eitthvað af hendi þegar það er afhent. Þágufallið á svo sem oft við. Aðrir eru svo hræddir við að nota það að þeir beita nefnifalli ranglega - svona til öryggis. Forðum var kennd sú aðferð, væru menn í vafa, að hugsa setninguna upp á nýtt með því að setja orðið "hestur" í staðinn. Það er ekki eins í tveimur föllum og þá skýrist vandinn. Hann fékk boltann á höndina (hestinn) en boltinn fór af hendi (hesti) hans í markið.” Þakka bréfið, Molavin. Ég vandi mig snemma á að nota svein eða jökul ef ég var í vafa. Sjá annars þessa umfjöllun á vef Árnastofnunar: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=H%C3%B6nd

 

EKKI KOSNINGABANDALAG

Meira frá Molavin (04.08.2016): ,,Svolítið skrýtið að heyra í morgunfréttum útvarps (4.8.16) ítekað talað um kosningabandalag Trumps þegar þýtt er enska hugtakið "campaign." Almennt þýðir það kosningabarátta, en í umræddu tilviki er fremur átt við starfsfólk og forystufólk kosningabaráttunnar. Bandalag merkir hins vegar jafnan samstarf (ólíkra) afla eða flokka. Nær hefði verið að tala um sundrungu innan hóps nánustu ráðgjafa Trumps frekar en "innan kosningabandalags hans." – Rétt athugað. Þakka bréfið, Molavin.

 

SEGIR EKKERT

Af fréttavef Ríkisútvarpsins á laugardag (06.08.2016): Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var fjöldi þeirra sem kom til að fylgjast með göngunni svipaður og í fyrra. Þetta segir okkur nákvæmlega ekkert um mannfjöldann.

http://www.ruv.is/frett/otrulegar-dronamyndir-af-gledigongunni

 

 

 

 

AÐ BÍÐA ÓSIGUR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (06.08.2016) var sagt: Afríska þjóðarráðið, stjórnarflokkur Suður Afríku, laut í lægri hlut fyrir helsta stjórnarandstöðuflokknum ....  Rétt hefði verið að segja að flokkurinn hefði beðið lægri hlut, eða lotið í lægra haldi, beðið ósigur.

Enginn les yfir.

 

AÐ KJÓSA – AÐ GREIÐA ATKVÆÐI

Oft hefur það verið nefnt hér í Molum, að það hefur ekki sömu merkingu að kjósa og að greiða atkvæði. Mikið væri það þarft verk , ef málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins skýrði þann mun sem er á þessu tvennu fyrir fréttamönnum.

Þetta er af fréttavef Ríkisútvarpsins (04.08.2016) , - og var líka lesið fyrir okkur í hádegisfréttum sama dag.

,, Öldungadeildin kýs á þriðjudag um hvort Rousseff verði sótt til saka fyrir embættisglöp. “ Hér ætti að segja, að greidd verði atkvæði um það á þriðjudag ( í brasilíska þinginu) hvort ... Það ætti ekki að vera erfitt að gera greindu fólki þetta skiljanlegt.

http://www.ruv.is/frett/thingnefnd-metur-mal-rousseff-i-dag

 

BROTTFARIR FLUGVALLAR

Í tíu fréttum Ríkisútvarps (08.08.2016) var sagt frá bilun í tölvukerfi Delta flugfélagsins. Í fréttinni var talað um brottfarir Keflavíkurflugvallar. Enginn les yfir. Enginn fullorðinn á vaktinni?

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1996

HEIMAMENN BRASILÍU OG GESTGJAFAR BRASILÍU !

Í fréttum Ríkisjónvarps á föstudagskvöld (05.08.2016) var sagt frá Ólympíuleikunum, sem átti að setja seinna það kvöld. Íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins í Ríó var að lýsa því hvernig setningarathöfnin færi fram og sagði: ,, ... síðastir koma heimamenn Brasilíu”. Heimamenn Brasilíu? – Hann hefði getað sagt til dæmis: Síðastir koma heimamenn, Brasilíumenn. Eða bara síðastir koma svo heimamenn. – Ef að líkum lætur eigum við eftir að heyra um gestgjafa Brasilíu!

Já, á laugardagskvöld (06.08.2016) talaði íþróttafréttamaður um gestgjafa Brasilíu í Ríó. Hlaut að koma. Dæmalaust bull,sem þetta orðalag er.

 Málfarsráðunautur á ekki að láta þetta óátalið.

Hefur Ríkisútvarpið engan metnað lengur?

 

-LEGA, -LEGA.

Flest erum við sjálfsagt orðin vön því að heyra íþróttafréttamenn segja, - varnarlega og sóknarlega. Í Bylgjufréttum í hádeginu á miðvikudag var sagt: ,, Síðasti mánuður var höfuðborgarbúum óvenju hagstæður veðurfarslega. “. Hefði ekki verið ágætt að segja, til dæmis. Í júlí var veður óvenjulega gott í höfuðborginni.

 

TENGSL VIÐ GÜREN

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (03.08.2016) Var sagt: ,,Um átján þúsund Tyrkir hafa verið handteknir eða vísað frá störfum eftir valdaránstilraunina, margir vegna gruns um tengsl við Güren ...” Molaskrifari er á því að þarna hefði átt að segja : ,, ..... mörgum vegna gruns um tengsl við Güren.” - Klerkinn sem er í útlegð í

Bandaríkjunum.

 

 

MÁLIÐ ER Í SKOÐUN

Úr frétt á mbl.is (03.08.2016), - bíl hafði verið fram af bryggju í Reykjavíkurhöfn: ,, Mik­ill viðbúnaður slökkviliðs og annarra viðbragðsaðila er nú við Reykja­vík­ur­höfn. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu barst til­kynn­ing um að bíll væri í höfn­inni og er málið í skoðun.” Þetta er  miður gott orðalag. Vonandi tók þessi skoðun ekki langan tíma. Það er lenska á sumum fjölmiðlum að láta viðvaninga, nýgræðinga, skrifa lögreglufréttir. Yfirmenn, sem ekki lesa slíkar fréttir yfir áður en þær eru birtar , eru ekki starfi sínu vaxnir. Sem betur fer bjargaðist ökumaður, sem var einn í bílnum.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/02/bjargad_upp_ur_reykjavikurhofn/

Svona var fréttin svo uppfærð síðar. Staðfestir það sem sagt er hér að ofan: ,, Upp­fært kl 23:00”: ,,Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá slökkviliðinu var einn í bíln­um og hafði viðkom­andi verið bjargað upp í ná­læg­an bát þegar slökkviliðið kom á staðinn. Var kon­unni komið í sjúkra­bíl og keyrt með hana á sjúkra­hús til nán­ari aðhlynn­ing­ar. Staðfest er að aðeins einn hafi verið í bíln­um þegar hann fór ofan í sjó­inn.

Reynt verður að ná bíln­um upp á næst­unni, en kafari slökkviliðsins er á vett­vangi.” – Ja,hérna, Moggi.

SMÆLKI

Í níufréttum Ríkisútvarps (04.08.2016) var tvívegis talað um öldungardeild brasilíska þingsins. Þarna var - r - ofaukið. Einu sinni var réttilega talað um öldungadeild. Enn einu sinni kemur ljós hve mikilvægt er að einhver málglöggur lesi fréttirnar yfir áður en þær eru lesnar fyrir okkur. Yfirmaður fréttastofunnar virðist enn ekki átta sig á þessu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1995

NEIKVÆTT OG JÁKVÆTT – EITT OG ANNAÐ

Sigurður Sigurðarson skrifaði (02.08.2016):

,,Sæll,

Fjölmiðlafulltrúi frá samgöngustofu fullyrti um verslunarmannahelgina að slys hefði orðið á Snæfellsnesvegi við Skógaströnd. Þú bentir á að sama orðalag hefði verið í frétt hjá Ríkisútvarpinu. Landafræðiþekkingin er víða takmörkuð.

 

Í fyrirsögn á visir.is segir: „Sprengjan í Borgarnesi gerð óvirk með sprengjuhleðslu“. Þetta er einfaldlega rangt., sprengjan var ekki gerð óvirk, þvert á móti var hún sprengd með annarri sprengju.

 

Í fréttinni segir: 

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir á staðinn þegar lögreglu barst tilkynning um málið í dag. Þeir gengu úr skugga um að enginn væri nærri svæðinu og gerðu kúluna því næst óvirka. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var það gert með sprengjuhleðslu með það að markmiði að leysa ekki úr læðingi fulla virkni kúlunnar. 

 

Þvílík steypa sem þetta er. Líklega hefði mátt einfalda málið með því að orða tilvitnuna á þessa leið: Lögreglan óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar sem sendi sérfræðinga í Borgarnes. Sprengjan var síðan sprengd án þess að hætta stafaði af.

 

Í fyrirsögn á dv.is segir: „Hekla á næsta leik og það með gosi.“ 

Fyrirsögnin er einfaldlega rugl. Annað hvort gýs Hekla eða ekki. Hvaða leik gæti blaðamaður verið að hugsa um sem leikinn væri „með gosi“. Og hver átti leik á undan Heklu?” -  Kærar þakkir fyrir bréfið og ábendingarnar, Sigurður.

 


AÐ BERA SIG VEL

Sá ágæti íslenskumaður Björn Bjarnason skrifaði í bloggdagbók sína (01.08.2016): ,,Forsetahjónin voru í hátiðarklæðnaði, hann í kjólfötum með heiðursmerki og hún í skautbúningi. Báru þau sig vel.”

Einhverjum kann að finnast það einkennilega til orða tekið að segja að forsetahjónin hafi borið sig vel. Svo er þó hreint ekki. Að bera sig vel, er ekki aðeins að taka mótlæti með hugrekki. Orðabókin segir nefnilega: ,, Koma fram af reisn (bæði um framgöngu og limaburð og hugarfar í raunum). “ Þetta er vel orðað hjá Birni.

 

MEÐLIMIR Í NEFNDUM

Úr frétt á mbl.is (02.08.2016) ,, All­ir meðlim­ir í nefnd­um sem eru á veg­um sam­bands­ins var vikið frá störf­um yfir síðustu helgi til að hægt væri að at­huga hvort ein­hverj­ir væru tengd­ir vald­arán­inu.” Nógu slæmt er að tala um meðlimi í nefndum þó ekki bætist við beygingarvilla í byrjun setningar. Á að byrja á öllum ekki allir. Öllum nefndarmönnum á vegum sambandsins var vikið frá störfum. Illa komið fyrir Mogga.

http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2016/08/02/94_reknir_i_tyrklandi/

 

MORGUNSÁRIÐ

Rafn skrifaði (04.08.2016): ,,Sæll Eiður

Það má skilja af málfarsmolum nr. 1994, að þú teljir morgunsár vera morgun-sár, samanber tilvitnun í bókarheiti Jónasar E. Svafárs.

Þetta er his vegar eignarfallssamsetning, ár morgunsins og hefir ekkert með sár að gera. Hins vegar er þarna vísað til fyrsta hluta morgunsins, árs hans. Það er því varla alrangt að breyta samsetningunni í stofnsamsetninguna morgunárið, þótt morgunsárið sé vissulega viðtekin mynd orðsins.

Í Orðabók Menningarsjóðs er orðið ritað morguns|árið með lóðréttu striki til að marka samsetninguna og í Stafsetningarorðabók frá 2006 er orðinu skipt millli lína sem morguns-árið. Það er því ekki til skilningsauka fyrir lítt fróða lesendur að vísa til morgun-sárs Jónasar E. Svafárs, hvort heldur titillinn þykir skondinn eður ei.”

Molaskrifari þakkar bréfið. Hefur því einu við að bæta að vísan til heitis ljóðabókar Jónasar E. Svafárs  var svona til gamans, - en ekki hafa kannski allir áttað sig á því ! Skrifari misskildi hvorki eitt né neitt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1994

 

Í MORGUNSÁRIÐ

,, ... komið fram í morgunsárið, - morgunárið”, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (31.07.2016). Fréttamaður/þulur leiðrétti það sem rétt var fyrir. Bjó til villu.  Hefur greinilega ekki þekkt orðið morgunsár, árla, snemma morguns. Hann kom í morgunsárið. Hann kom snemma morguns. Bjó því til oorðið morgunár, sem er út í hött. Hefur sennilega aldrei heyrt getið um ljóðabókina Það blæðir úr morgunsárinu eftir Jónas E. Svafár. Bókin kom út 1952. Ein fimm

ljóðabóka hans.

 

ALLT ER FRAMKVÆMT

Í þessum sama fréttatíma Bylgjunnar var sagt:,, ...þegar tilraun sem þessi er framkvæmd”. Allt er nú framkvæmt. Tilraunin var gerð. Þessi framkvæmdagleði sumra fréttaskrifara er ekki af hinu góða.

 

 

UM GESTGJAFA

Hér hefur nokkrum sinnum verið vikið, að því að sumir íþróttafréttamenn skilji ekki og kunni ekki að nota orðið gestgjafi.

 Í íþróttafréttum Bylgjunnar (31.07.2016) var sagt: ,,Íslenska liðið mætir í dag gestgjöfum Bosníu”. Hverjir eru gestgjafar Botníu? Þetta er bull. Bosníumenn voru gestgjafar  liðanna,  landanna, sem tóku þátt í mótinu. Þeir buðu til mótsins og stóðu fyrir því.

 Í Ríkisútvarpinu var ágætlega sagt: ,,Ísland mætir heimakonum frá Bosníu”.

 Og enn tala íþróttafréttamenn um að taka þátt á móti. Molaskrifari er á því að þetta sé röng forsetninganotkun. Betra og réttara sé að tala um að taka þátt í móti, ekki á móti.

 

BÍLVELTA VARÐ

Undarlegt hve orðalagið bílvelta varð er fast í huga sumra fréttaskrifara. Af vef Ríkisútvarpsins (01.08.2016): Bílvelta varð nærri Seljalandsfossi á fimmta tímanum í morgun. Bíll valt nærri Seljalandsfossi ..... Þetta er ekki nýtt. Ómar Ragnarsson, sá ágæti íslenskumaður, hefur stundum bent á þetta í bloggpistlum sínum. http://www.ruv.is/frett/tveir-slosudust-i-bilveltu-vid-seljalandsfoss.

Þetta var reyndar endurtekið í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum.

 

LÉLEGT STOFNANAMINNI

Stofnanaminni, eða starfsmannaminni, Ríkisútvarpsins er farið að bila. Að morgni frídags verslunarmanna 1. ágúst var á Rás eitt kynntur endurfluttur útvarpsþáttur frá 1987. Sagt var að umsjónarmaður væri Svavar Gestsson. Umsjónarmaður var Svavar Gests. Þetta vita velflestir sem komnir eru til vits og ára. Þetta ættu dagskrárgerðarmenn í Efstaleiti líka að vita.

 

ÓVANDVIRKNI

Það fer ekki mikið fyrir vandvirkni í þessari frétt af visir.is (01.08.2016): http://www.visir.is/fjorutiu-sjukir-eftir-ad-siberisk-hitabylgja-leysti-miltisbrand-ur-laedingi/article/2016160739888

Í fréttinni segir meðal annars:

,, Hitabylgja hefur verið á svæðinu undanfarna daga og hefur hitastig í Yamal freðmýrinni, sem situr fyrir norðan heimskautsbaug, farið upp í 35°C. “ Freðmýrin situr fyrir norðan heimskautsbaug! Hvaða rugl er þetta? Einnig segir í fréttinni: ,, Fylgifiskur þess er að bakterían hefur drepið úr dróma”.  ????

 

 AÐ VERSLA INN

Á þriðjudag (02.08.2016) var í Ríkisútvarpinu rætt við sagnfræðing sem hafði skrifað háskólaritgerð um aðdraganda þess að Bessastaðir urðu aðsetur forseta Íslands. Sagnfræðingurinn sagði, að Pétri Benediktssyni sendiherra í London og frú hefði verið falið að versla inn innanstokksmuni í forsetabústaðinn og það hefði helst átt að vera second hand, eins og þeir hefðu sagt ! Það hefði allskonar þurft að vera til staðar! Vini Molaskrifara, sem hlustaði á þetta, þótti lítið gert úr þeim rausnarskap Sigurðar Jónassonar að gefa ríkinu Bessastaði. Það er réttmæt athugasemd.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1993

TRÖPPUR EÐA STIGI?

  1. skrifaði (30.07.2016): ,,Mér finnst undarlegt þegar fréttamenn eru farnir að tala um, að núverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafi komið niður tröppurnar í Alþingishúsinu og tilkynnt um stjórnarmyndun.

Í mínum huga eru tröppur alltaf utandyra. Útidyratröppur og kjallaratröppur, svo dæmi séu tekin; hann kom út á tröppur stjórnarráðsins.

Innandyra er alltaf talað um stiga. 

Eru fréttamenn hræddir um að það verði einhvers konar hugrenningartengsl milli orðsins stigamaður og stigamannastjórnin?

Er ekki of langt gengið að reyna að breyta sígildri notkun orðanna í þessu sambandi?” – Þakka bréfið S. Þetta hárrétt athugað hjá þér. Það er ekki nokkur ástæða til að breyta fastri og hefðbundinni notkun þessara orða. Góð ábending.

AKSTUR

Í lögreglufréttum í Ríkisúvarpinu á sunnudagsmorgni um verslunarmannahelgi (31.07.2016) um atburði næturinnar var sagt, að nokkuð hefði verið um ölvunarakstra. Nokkrir hefðu ekið undir áhrifum áfengis. Orðið akstur er ekki til í fleirtölu. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=akstur

Þetta gefur raunar tilefni til að rifja upp lokamálsgrein úr Morgunblaðsgrein (28. febrúar 1973) eftir Helga Hálfdanarson. Greinin heitir Meira magn af báðu. Helgi segir: ,,, Víst eru góð ráð dýr og á margt að líta. Flestir stafa þó kvíðarnir af þeim ólánum, að því fleiri sem kölin verða í túnunum, því lakari verða töðurnar hjá bændum; nema fleiri tilbúnir áburðir geri framleiðendum landbúnaðarafurða kleift að annast framkvæmdir í framleiðslu aukins magns af kjöti og mjólk með svo góðum högnuðum af báðu, að tök reynist á að afla kaupakvenna í nægilegu magni”.

Svo mörg voru þau orð! Greinin birtist seinna í bókinni Skynsamleg orð og skætingur. (Ljóðhús, Reykjavík 1985) – Þessi bók ætti að vera skyldulestur fyrir blaðamenn.

  1. og hún vinnur tvær vinnur, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins við okkur á sunnudagskvöld (31.07.2016). Í Ríkisútvarpinu (02.08.2016) var rætt við sagnfræðing um það hvers vegna Bessastaðir hefðu orðið fyrir valinu sem bústaður fyrir þjóðhöfðingjann: ,,”. Bessastaðir urðu fyrir valinu því þar voru bestu húsnæðin . Gott ef ekki var tvisvar talað um húsnæðin í fleirtölu í þessu stutta samtali. Húsnæði er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu. http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0i

SVONA RANDOM!

Svona random eins og það er kallað, sagði útvarpsmaður á Rás tvö (31.07.2016). Hann átti við svona af handahófi. Mikið umburðarlyndi er gagnvart enskuslettum í Ríkisútvarpinu. Það er miður.

 Í SÍÐASTA SKIPTI

,,Ólafur Ragnar Grímsson gegndi embætti forseta Íslands í síðasta skipti í dag”, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (31.07.2016). Undarlega hugsunarsnautt orðalag. Þetta var síðasti dagur Ólafs Ragnars í embætti.

RÉTT ER

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (01.08.2016) var sagt um þjóðhátíð í Eyjum: ,, Samkvæmt venju fór Árni Johnsen fyrir fjöldasöng”. Í beinni útsendingu Stöðvar tvö (31.07.2016) var það Ingó veðurguð sem stjórnaði brekkusöngnum. Þingmanninum fyrrverandi var hleypt að hljóðnemanum, þegar þjóðsöngurinn var sunginn á miðnætti. Um ágæti þess má deila.

 

VINSAMLEG ÁBENDING

Í fréttum Stöðvar tvö (01.08.2016) var sagt, að innsetning nýs forseta hefði farið fram ,, á Alþingi”. Það er rangt. Athöfnin fór fram í Alþingishúsinu. Á þessu er reginmunur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband