Molar um málfar og miðla 1662

Sjónvarpsáhorfandi skrifaði Molum (26.01.2015): ,,Eins og sjálfsagt margir sækist ég eftir því að horfa á Landann í sjónvarpinu og hef talið gott efni. Stundum spillist það. Í kvöld horfði ég á þáttinn, en naut hans ekki af þeirri ástæðu einni, að umsjónarkonan kom ekki máli sínu á framfæri með nægilega skiljanlegum hætti og tapaði ég því miklu af því sem hún bar á borð. Skorturinn á skiljanleika tel ég að sé annarsvegar vegna framburðar viðkomandi og að hinu leitinu vegna þess að stjórn á hljóðgæðum sé ábótavant amk. miðað við framsöguna. Aðrir í þættinum komu sínu vel til skila. Viðurkennt skal að ég er af eldri kantinum, en úrskurðaður svo heyrnargóður að ekki sé ástæða til neinna aðgerða. Er því sannfærður um að ég sé ekki einn um að óska eftir úrbót”.

Molaskrifari getur heils hugar tekið undir þetta. Upplifði þetta eins. Þakkar bréfið og er þessu hér með komið á framfæri.

 

Trausti Harðarson benti á þesssa frétt á dv.is (25.01.2015) : http://www.dv.is/lifsstill/2015/1/25/tyggjo-passar-tennurnar/

 Trausti segir: ,,Svo virðist, sem þörf sé á að útskýra muninn á "að finna upp" og "að finna upp á", fyrir blaðamanni.” Í fréttinni segir: ,,Vísindamenn vonast til þess að geta fundið upp á tyggjói sem nái til hættulegustu bakteríanna”. Réttmæt athugasemd hjá Trausta.

 

Þakkir fyrir þáttinn Á reki með KK á laugardagsmorgnum á Rás eitt. Það bregst ekki að Molaskrifari heyri þar tónlist og fróðleik sem honum er að skapi. Til dæmis um norsku jasssöngkonuna ágætu, Noru Brocksted sl. laugardag (24.01.2015).

 

Á mánudagskvöld var spáð fannfergi og vondu veðri í norðaustur hluta Bandaríkjanna. Í fréttum var talað um snjóbyl og hríðarbyl. Þekkja fréttamenn ekki orðið stórhríð? Raunar varð minna úr veðrinu en spáð var.

 

Þau reynast mörgum fréttaskrifaranum erfið fleirtölu orðin. Í undirfyrirsögn í Fréttablaðinu (24.01.2015) stóð: ,, Helgi Pétursson fjölmiðlamaður og fyrrverandi Ríótríósfélagi sigldi með eiginkonunni og tveimur vinahjónum ... “ Tvennum vinahjónum , hefði þetta átt að vera.

 

Í langri umfjöllun (viðtali) í þætti á sunnudagsmorgni á Rás tvö var veitingastaður í Vestmannaeyjum auglýstur mjög rækilega. Eigandi staðarins og umsjónarmaður þáttarins töluðu mikið um djúsa. Hvað er að hinu ágæta orði safi? Þessi umfjöllun var ódulbúin auglýsing. Og því má svo bæta við að veitingastaðurinn heitir Joy, upp á ensku. Auðvitað.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (24.01.2015) var talað um umferðaróhapp í Hveradalsbrekku á Hellisheiði. Á fréttavefnum visir.is var einnig talað um Hveradalsbrekku. Brekkan upp á háheiðina, vestan megin, er oft kölluð Hveradalabrekka. Skammt þar frá stendur skíðaskálinn í Hveradölum. Molaskrifari hefur aldrei heyrt talað um skíðaskálann í Hveradal. Hveradalir, ekki Hveradalur.

http://www.ruv.is/frett/hellisheidi-lokad-vegna-umferdarohapps

 

Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins heldur enn að óperettan Káta ekkjan sé ópera, ef marka má auglýsingar í útvarpinu (27.01.2015).  Meinloka. Káta ekkjan er ekki ópera.

Í annarri auglýsingu í Ríkisútvarpinu er okkur boðið að versla matvörur hjá N1. Við kaupum matvörur. Verslum ekki matvörur. Auglýsingadeildin stendur sig ekki mjög vel.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband