Molar um málfar og miðla 1661

 

Þrisvar sinnum, að minnsta kosti, var í morgunfréttum Ríkisútvarps á sunnudagsmorgni (25.01.2015) sagt um kosningarnar í Grikklandi: Kjörstöðum lokar klukkan fimm að íslenskum tíma. Þetta orðalag hefur svo sem heyrst áður í útvarpinu. Kjörstöðum lokar ekki. Kjörstöðum verður lokað. Undarleg meinloka.  Það var ekki fyrr en í tíu fréttum að Anna Kristín Jónsdóttir, fréttamaður, leiðrétti þetta. Málfarsráðunautur ætti að taka þetta til athugunar. Áfram stóð þetta hinsvegar óbreytt á fréttavef Ríkisútvarpsins:,, Kjörstöðum lokar klukkan fimm að íslenskum tíma og búist er við því að fyrstu útgönguspár verði birtar skömmu síðar.” Sjá: http://www.ruv.is/frett/kjorstadir-opnadir-i-grikklandi

 

 KÞ skrifaði (24.01.2015) og segir ,,Þau eru mörg húsnæðin” ! http://www.ruv.is/frett/kannabisgata-a-seltjarnarnesi

"Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur á einu ári stöðvað kannabisræktun í tveimur iðnaðarhúsnæðum ... "

Mér finnst þessi talning á "húsnæðum" sérkennileg. - Molaskrifari er sömu skoðunar og þakkar bréfið.

 

Af mbl.is (24.01.2015): Sex­tán ein­hleyp­ar kon­ur sóttu um fæðing­ar­or­lof í níu mánuði á síðasta ári vegna fæðingu barna sem urðu til með tækni­frjóvg­un ... Ekki vegna fæðingu. Vegna fæðingar. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/24/17_konur_sottu_um_orlof_i_9_manudi/

Meira af mbl.is sama dag: ,, ... í því þriðja reynd­ist ökumaður án rétt­inda og reyndi hann að villa á sér heim­ild­um.” Einhver óreyndur á vaktinni: Ökumaðurinn reyndi að villa á sér heimildir. Villa á sér heimildir – þykjast vera annar en hann var. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/24/thurfti_ad_flytja_sofann_odruvisi_2/

 

Það er allur gangur á því hvort þáttastjórnendur í útvarpi greini frá því þáttarlok við hvern/hverja var rætt í þættinum. Margir byrja að leggja við eyrun í miðjum þætti og vilja gjarnan vita í að þætti loknum hverjir þar ræddust við. Þetta á til dæmis við um Vikulokin á laugardagsmorgnum á Rás eitt. Það er góður siður að geta þátttakenda í lokin.

Í auglýsingu á skjá Ríkissjónvarpsins (26.01.2015) var talað um að ,,láta sjæna bílinn”. Átt var við að þvo og bóna bílinn. Í 2. grein reglna um auglýsingar í Ríkisútvarpinu segir að auglýsingar skuli vera ,,á lýtalausu íslensku máli”.

Starfsfólk auglýsingadeildar kann að lesa.

En eru starfsmenn auglýsingadeildar þá  vitandi vits og viljandi að brjóta þær reglur, sem þeir eiga að virða og starfa eftir?

 Mikið væri fróðlegt að heyra frá útvarpsstjóra um þetta efni.

 

Íþróttasjónvarp ríkisins mánudaginn 26. janúar 2015:

1520-1720 HM í handbolta

1730-1800 HM-stofan

1800-1930 HM í handbolta

1930-2000 HM-stofan

2025-2030 Íþróttafréttir

2220-2245 HM-stofan

- Að ógleymdum löngum íþróttafréttum í lok tíu frétta sjónvarpsins.

Auðvitað á að sinna íþróttum í sjónvarpi, en fyrr má nú rota en dauðrota.

 

Að lokum skal hér vitað  til aðalfréttar á  vefsíðu Ríkisútvarpsins í gærkvöldi (26.01.2015) en þar segir:,, DR hefur útbúið sérstakt myndband þar sem hægt er að horfa á tilþrif danska markvörðsins.” Danska markvörðsins! Það var og! Segi ekki meira.  http://www.ruv.is/frett/danir-fagna-%E2%80%9Esaud-thid-reykinn-island%E2%80%9C


Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eiður, alltaf gaman að lesa pistlana þína.  Það er eitt sem angrar mig í ljósvakamiðlunum og það er allt þetta "fals" sem menn endalaust tala um.  Í morgun var talað um verkfals.  Ég veit að þulir/fréttamenn eiga við "verkfalls", en einhverra hluta virðist dl hljóðið í tvöfalda ll samhljóðanum vera á útleið hjá nánast öllum þulum/fréttamönnum, nema þá helst hjá Boga Ágústssyni.  Fréttahaukurinn Hallur Hallsson heitir nánast undantekningarlaust Hallur Halson, sem þýðir að faðir hans hefur heitið Hal, ekki Hallur.  Þetta er mikill ljóður á málfarinu og finnst mér alveg mega hnykkja á því við t.d. málfarsráðunaut RUV ( veit að þér er illa við þessa skammstöfun ) að veita sínum mönnum amk. tiltal um réttan framburð.  Það er nánast óhugsandi að ætla sér að leiðrétta fréttamenn Stöðvar 2 og Bylgjunnar, en samt má reyna.

Matthías Kjartansson (IP-tala skráð) 27.1.2015 kl. 10:16

2 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Þetta get ég tekið undir , Matthías. Og þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Því miður.

Eiður Svanberg Guðnason, 27.1.2015 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband