Molar um málfar og miðla 1659

  

Undarleg fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (22.01.2015): Leikskólastjórar fá vitlausan lífeyri http://www.ruv.is/frett/leikskolastjorar-fa-vitlausan-lifeyri

Þarna hefði einhver þurft að lesa yfir og lagfæra. Í fréttinni er réttilega talað um rangar lífeyrisgreiðslur. Ekki vitlausar!

 

Góður húmor hjá Hauki Holm fréttamanni. Í þrjú fréttum Ríkisútvarps (22.01.2015) sagði hann frá uppákomu á Alþingi. Við heyrðum í tveimur þingmönnum, sem báðir fóru fram yfir leyfðan ræðutíma. Haukur kynnti þá til sögunnar í lok fréttarinnar og bætti við: Forseti Alþingis lék undir á bjöllu! Hárrétt. Uppákoman varð vegna frumhlaups meirihluta atvinnuveganefndar um að breyta svokallaðri rammaáætlun og bæta við umdeildum virkjunarkostum, þar sem meðal annars er gengið á hlut Vatnajökulsþjóðgarðs.

 

Þórhallur Jósepsson skrifaði Molum (21.01.2015): ,, Sæll Eiður.
Mig langar að nefna eitt varðandi málfar sem allmargir, jafnvel þrautreyndir fréttamenn og blaðamenn, virðast ekki kunna rétt skil á.
Í grein á Vísi í dag, svo dæmi sé nefnt, undir fyrirsögninni "Jón Óttar ræður gátuna um Sólborgarmálið" skrifar Jakob Bjarnar: "Í þætti Jóns Óttars Ragnarssonar er leitt að því líkum..."
Forvitnilegt væri að vita hvers vegna svo margir vilja leiða "líkum" að einhverju. Þetta er ekkert öðruvísi en að leiða hvað annað: Leiða börn (ekki börnum), leiða hest (ekki hesti). Kannski hefur þetta ruglast í hugum manna við orðasambandið að eitthvað (t.d. niðurstaða eða dómur) sé leitt af líkum?”. Góð ábending. Kærar þakkir, Þórhallur.

 

Forsíðufyrirsögn í Morgunblaðinu (21.01.2015): Costco opnar á næsta ári. Fréttin er um að bandaríski smásölurisinn Costco muni opna verslun í Garðabæ á næsta ári. Það er sennilega tapað stríð að berjast gegn þessari notkun sagnarinnar að opna. Í huga Molaskrifara er sögnin að opna áhrifssögn,sem tekur með sér andlag í þolfalli.

 

Auglýsing úr Ríkisútvarpinu frá SAM-bíóum, minnir mig.(21.01.2015): ,, Við endursýnum óperuna Merry Widow ....”. Er þetta ekki óperettan, sem aldrei hefur verið kölluð annað en ,,Káta ekkjan “ á íslensku? Kannski misheyrðist Molaskrifara, en  tilhneigingar gætir til að nota ensku í vaxandi mæli í auglýsingum og virðist stjórn auglýsingadeildar ekkert  sjá athugavert það, hvað sem öllum  reglum Ríkisútvarpsins líður.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þessu. Skilur annars einhver fyrirsögnina, sem ég las áðan hér á Morgunblaðsvefnum, Smartlandi: "Tískuðu yfir sig" á verðlaunahátíð? Ég verð að viðurkenna, að ég las nú ekki greinina, en skil ekki fyrirsögnina. Er þetta þýðing úr ensku, eða hvað?

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 23.1.2015 kl. 19:44

2 identicon

   Viðurkenni fúslega að ég skil þetta ekki heldur. 

Eiður (IP-tala skráð) 23.1.2015 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband