Molar um málfar og miðla 1658

 

Molavin skrifaði (20.01.2015): ,, Þótt haustannir bænda, svo sem göngur, leitir og réttir séu að venju í fleirtölu, þá á sama ekki við um húsleit. Hún er að hefð eintöluorð, jafnvel þótt leitað sé í fleiri húsum en einu. Netmoggi segir í dag, 20.01.2014: "Þýska lög­regl­an hef­ur fram­kvæmt hús­leit­ir á yfir 10 stöðum í dag..." Þessar "húsleitir" hafa færzt í aukana í fréttum og er enn ein sönnun þess að leiðbeiningar er þörf inni á ritstjórnum. Og talandi um haustannir, þá verður slátrun fjár vonandi ekki orðin að fleirtölu hjá sama unga blaðafólkinu, þótt slátrað sé víða og mörgu fé.” Kærar þakkir, Molavin. Góðar ábendingar.

 

 

Í ágætu spjalli umsjónarmanna Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu (20.01.2015) við málfarsráðunaut var þrennt gert að umtalsefni, sem oft hefur verið nefnt í Molum. Í fyrsta lagi sú meinloka að vera sáttur með eitthvað. Sáttur við. Í öðru lagi tölum við ekki um að fara erlendis, eins og svo oft heyrist. Við erum erlendis. Erlendis er notað um dvöl á stað, ekki ferð til staðar. Við dveljumst erlendis (dveljum, var að vísum sagt í spjallinu). Við förum til útlanda. Í þriðja lagi var það gert að umtalsefni að rugla saman eftirmálum og eftirmála. Eftirmáli er kafli eða stutt niðurlagsorð í bókarlok en eftirmál eru afleiðingar einhvers sem gert hefur verið. Til dæmis: Framkoma hans hafði engin eftirmál ... Í eftirmála bókarinnar segir höfundur ...

Örnólfur Árnason, þýðandi og smekkmaður um málfar, hnykkti á þessu á fésbók (20.01.2015). Hann sagði:,, Hver tyggur eftir öðrum þetta hvimleiða orðalag "að fara erlendis". Erlendis táknar dvöl, ekki hreyfingu, eins og "úti" táknar dvöl en "út" hreyfingu. Það er því jafnvitlaust að segja "að fara erlendis" og að segja "að fara úti" en það segir auðvitað enginn. Og hana nú.”

Dropinn holar steininn og aldrei er góð vísa of oft kveðin.

 

Síðan þá hafa félögin og Valitor greint á ... var sagt í fréttum Stöðvar tvö (20.01.2015). Þetta hefði átt að vera: Síðan þá hefur félögin greint á ....

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband