Molar um málfar og miðla 1642

 

Úr frétt á mbl.is (23.12.2014): Meðal ann­ars höfnuðu tvö ruðnings­tæki Vega­gerðar­inn­ar út fyr­ir veg og var um veru­legt tjón að ræða á öðru tæk­inu. Ekki kann Molaskrifari vel við orðalagið að hafna út fyrir veg. Ruðningstækin, - snjóplógar eða vörubílar með snjótönn fóru út af , höfnuðu utan vegar.

 

Stundum eru nefndar hér einkennilegar myndbirtingar fjölmiðla. Á aðfangdag birti Morgunblaðið frétt um heppin hjón sem unnu 13 milljónir í Lottóspili. - Með fréttinni var birt mynd af forstjóra fyrirtækisins sem rekur lottóspilið!

 

Í frétt í Morgunblaðinu (24.12.2014) segir: ,, Þar hefur tjónstíðni, alvarleiki tjóna og ...” Þarna hefði verið heppilegra að tala um tjónatíðni og hversu alvarleg eða mikil tjónin eru.

 

Fyrir jólin auglýsti Heilsudrekinn stórglæsilega silki- og linenborðdúka. Linenborðdúkar. Eru það ekki hördúkar?

 

Nú sýnum við aftansöng jóla, sagði vélrænkonurödd Ríkissjónvarpsins við okkur á aðfangadagskvöld. Þessa kynningu hefði mátt orða betur.

 

Rétt fyrir jólin sendi Rafn eftirfarandi:,, Ég veit ekki hvernig fyrirsagnahöfundar Mbl. lesa fréttir. Í fréttinni hér fyrir neðan segir að þrefalt dýrara sé að fljúga frá Íslandi en til á jóladag. Fargjald frá Íslandi er sagt um 12.000 kr, en fargjald til Íslands er sagt tæpar 33.000 kr, Það er verð til Íslands er um 2,75 falt verð frá Íslandi og verð frá Íslandi er um 36% af verði frá Íslandi.

Væntanlega eru það þessi verð, sem verið er að bera saman, því 12.000 kr fargjald getur vart verið fjórfalt fyrra fargjald [þrefalt hærra = 1+3 = 4] en fyrri fargjöld frá Íslandi.” Molaskrifari þakkari Rafni sendinguna. Sjá: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/12/22/um_threfalt_dyrara_ad_fljuga_fra_islandi/

 

Í jólablaði DV (23.12.2014) er svohljóðandi undirfyrirsögn: Karlar líklegri en konur til að svolgra í sig skötuna og yngra fólk vill hana síður. Sá sem samdi þessa fyrirsögn veit líkast til ekki ekki að sögnin að svolgra (í sig) þýðir að þamba. Hér hefði verið eðlilegra að nota sögnina að háma ( í sig) eta e-ð græðgislega.

 

Í hádegisfréttum á aðfangadag var talað um að töluverð bílaumferð hafi byrjað að myndast (við kirkjugarðana). Var ekki bara orðin töluverð umferð?

 

Gnótt úrvals efnis var að finna í dagskrá Ríkissjónvarps og Rásar eitt um jólin. Þar lögðu menn greinilega metnað í að gera vel. Þakkir fyrir það.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband