Molar um málfar og miðla 1641

  

Þorvaldur sendi eftirfarandi (21.12.2014): ,,Var að lesa frétt í vefmogga um franskan bílstjóra sem ók drukkinn. Fjórum sinnum er í fréttinni sagt að maðurinn hafi klesst á eitt og annað. Ekki lausir við barnamálið enn.
Á sömu síðu er sagt af björgun fótbrotins manns úr Esjuhlíðum. Þar segir að skjótum viðbrögðum björgunarliðs hafi verið að þakka að "maðurinn var ekki orðinn kaldur að neinu viti" !!! Ja, hérna, - það er ekki öll vitleysan eins. Þakka bréfið, Þorvaldur.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (20.12.2014) var sagt: Viðbrögðin hafa ekki staðið á sér. Betra hefði verið að segja: Viðbrögðin létu ekki á sér standa.

 

Ekki heyrði Molaskrifari betur en að í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (22.12.2014) væri sagt að í enska fótboltanum væri annar dagur jóla kallaður Boxing Day!  Það var og. Þetta er heitið á öðrum í jólum  í Bretlandi!

 

Góður kunningi Molaskrifara úr blaðamannastétt vakti athygli á þessari frétt á vef Ríkisútvarpsins (22.12.2014): http://www.ruv.is/frett/gedsjukur-fangi-afplanar-a-kleppi

Hann segir meðan annars: ,,Hér er ósköp venjuleg frétt um mann sem er á flæðiskeri staddur, en það sem vekur athygli er að orðið úrræði kemur fyrir átta sinnum, þar af í tveimur tilvikum með forskeytinu búsetu-úrræði. Það má vekja athygli á þessu.” Það er hér með gert og þakkað fyrir ábendinguna.

 

Margt má segja um þessa frétt,sem birist á visir.is (21.12.2014) http://www.visir.is/-helt-ad-velin-hefdi-ordid-fyrir-skoti-/article/2014141229922

Það kom alveg svakaleg birta og lýsti öllu upp. .... birtan lýsti allt upp.

 ...skilaboð frá flugstjóranum um að það hafi skollið elding á vélina. Eldingu laust í vélina. ... Þar var hann með bangsa sem hann var að versla fyrir jólin ... með bangsa sem hann var að kaupa fyrir jólin. Þarna var það ekki eitt, heldur næstum allt. Enginn les lengur yfir fréttir skrifaðar af viðvaningum áður en þær eru birtar.

 

Í fréttum nýlega talaði formaður fjárlaganefndar um að stoppa í leka. Við stoppum í göt, stoppum leka eða stöðvum leka.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (22.12.2014) töluðu bæði fréttamaður og viðmælandi um að Íslendingar þyrftu að samræma löggjöf sína að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Hér hefði Molaskrifari haldið að tala ætti um að samræma löggjöfina flóttamannasamningnum eða laga löggjöfina að flóttamannasamningnum. Ekki samræma að.

 

Af mbl.is (20.12.2014). Þar segir í fyrirsögn: Skelfilegt ástand í hliðargötum. Sjálfsagt er ástandið ekki gott vegna þess að það hefur snjóað og göturnar hafa ekki verið ruddar. En varla er ástandið skelfilegt. Varhugavert er að gjaldfella svona merkingu orða. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/20/skelfilegt_astand_i_hlidargotum/

 

Þetta er síðasti Molapistill fyrir jól.

 

Molaskrifari sendir öllum vinum og lesendum Molanna bestu óskir um,  

 

Gleðileg jól , farsæl og friðsæl jól.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Satt er það. Margir blaðamenn vanda sig ekki nóg.Ég hnaut um þessa fyrirsögn inni í Fréttablaðinu í morgun: "Selur frá sér gamalt dót í Fiskihöllinni. Antíksala á Tryggvagötu. Reiturinn verður rifinn i sumar." Ja, það er nefnilega það. Ég velti fyrir mér, hvernig menn ætluðu að fara að því að rífa reit. Finnst þér ekki, að það mætti nú orða þetta eitthvað betur, svo að skiljanlegt sé? Þar með óska ég þér og þínum gleðilegrar hátíðar.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 24.12.2014 kl. 13:24

2 identicon

 Þakka góðar óskir, Guðbjörg Snót. Sé  ekki heldur  fyrir mér hvernig menn rífa reit!!!! Sannarlega ekki vel orðað.

Eiður (IP-tala skráð) 24.12.2014 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband