Molar um málfar og miðla 1532

  Tafir hafa nú þegar ollið alvarlegum truflunum, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps á miðvikudag (30.07.2014). Sögnin að valda veldur sumum fréttaskrifurum erfiðleikum. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ræður greinilega illa við að kenna mönnum rétta notkun sagnarinnar. Tafir hafa nú þegar valdið alvarlegum truflunum. Sögnin að olla er ekki til í íslensku.

 

Sölvi fréttaþulur Stöðvar tvö (30.07.2014) fær plús fyrir að tala um síðasta eftirlifandi flugliðann úr áhöfn Enola Gay, B-26 flugvélarinnar sem notuð var við að varpa kjarnorkusprengju á Hiroshima. Fær plúsinn fyrir að tala ekki um áhafnarmeðlim.

 

Halla Oddný Magnúsdóttir fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarps er fínn fréttaþulur. Stundum heyrist hinsvegar í nýliða á fréttastofu Ríkisútvarps sem hefur þannig rödd að Molaskrifari hrekkur í kút í hvert skipti sem röddin berst honum að eyrum á bylgjum ljósvakans ( eins og einu sinni var alltaf sagt).

 

K.Þ. benti (30.07.2014) á þessa frétt á mbl. is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/30/dron_a_flugi_yfir_thjodhofdingjum/

Hann spyr: Hvar í Þingvöllum ætli þjóðgarðurinn sé? Í Þingvöllum. Það var og. Von er að spurt sé.

 

Trausti vísar til fréttar (30.07.2014) á svokölluðu Smartlandi, hinum sífrjóa málfjóluakri mbl.is : http://www.mbl.is/smartland/heilsa/2014/07/30/lifid_tok_u_beygju_eftir_ars_sykurleysi/

 Hann segir: ,,Í þessari grein er ýmislegt illa þýtt, en þetta held ég að sé þó toppurinn:
"Syk­ur­inn er bætt­ur í vör­urn­ar". Molaskrifari þakkar sendinguna. Ekki er þetta gæfulegt frekar en svo margt annað sem mbl.is otar að lesendum sínum undir fyrirsögninni Smartland og umsjónarmenn virðast ekkert sjá athugavert við.

 

Ríkissjónvarpið hefur forskot á Stöð tvö í læknasápusamkeppninni. Á miðvikudagskvöldið (30.07.2014) byrjaði Ríkissjónvarpið að sýna læknasápuþáttaröð klukkan 20 00. Samskonar sápa hófst á Stöð tvö klukkan 2020. Stöð tvö sýnist Molaskrifara vera með vikulegan vampíruþátt. Ríkissjónvarpið mun sennilega svara því með álíka vampíruþáttum á svipuðum tíma. Þar á bæ hafa menn langalengi haft sérstakt dálæti á vampírukvikmyndum eins og stundum hefur verið vikið að hér í Molum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband