Molar um málfar og miðla 1455

  Fyrrum starfsbróðir benti á eftirfarandi á vef Ríkisútvarpsins (18.04.2014): ,,Einn er slasaður eftir gas-sprengingingu í World Class - Laugum við Sundlaugarveg í Laugardal í Reykjavík í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var verið að kveikja upp í gas-arinn þegar að sprengingin varð. Ekkert liggur fyrir um skemmdir eða meiðsl þess sem slasaðist”. - Vönduð vinnubrögð ! Eitthvað mun þetta hafa verið lagfært síðar, þótt ekki væri allt leiðrétt. Molaskrifari þakkkar ábendinguna.

 

Í viðtali við Morgunblaðið (19.04.2014) um skemmdarverk og veggjakrot segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ: ,,Krot kallar á meira krot og þessvegna höfum við haft svo kallað ,,zero-tolerance” fyrir öllum eignaspjöllum”. Það er fólgið í því að við hreinsum og lagfærum skemmdir á biðskýlum strax”. Bæjarstjóri slær um sig með ensku, slettir. Það er algjör óþarfi. Hann hefði getað sagt, til dæmis: Við líðum ekki eignaspjöll, við höfum ekkert umburðarlyndi gagnvart þeim, sem skemma eigur borgaranna. Hann kaus hins vegar að nota ensku í stað móðurmálsins. Hefur kannski haldið að það væri áhrifaríkara !!!!

 

Það er ekki sjálfgefið að góðir fréttamenn hafi áheyrilega rödd og þeim láti öllum vel að lesa fréttir. Þetta ætti Ríkisútvarpið að hafa í huga.

 

SAM-bíóin auglýstu kvikmyndina Divergent grimmt á Stöð tvö bænadagana. Ævinlega var nafn myndarinnar borið rangt fram, /dívörtsjent/. Réttan framburð má heyra hér: http://www.macmillandictionary.com/pronunciation/british/divergent

 

Ónákvæmni gætir í myndatexta á bls. 8 í Morgunblaðinu (19.04.2014) ,en þar segir: ,,Halldór Halldórsson oddviti sjálfstæðismanna í borginni kynnir stefnuna ásamt öðrum borgarfulltrúum í Reykjavík”. Halldór er ekki borgarfulltrúi í Reykjavík. Hann verður í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík í komandi kosningum.

 

 Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á laugardag (19.04.2014) var sagt í frétt um ferjuslysið mikla undan strönd Kóreu:,, .... fyrstu fjörutíu mínúturnar eftir að ferjan tók niður”. Ferjan tók ekki niður! Ferjan tók niðri, steytti á skeri. Í sama fréttatíma var sagt um sparisjóðinn Byr: ,,... tilkynnti endurskoðandi Byr eftirlitinu ...” þarna hefði átt að nota eignarfall og tala um endurskoðanda Byrs. Og meira úr þessum sama fréttatíma Ríkisútvarpsins laugardaginn fyrir páska: ,,Mitchell er skotspónn sex þúsund og sex hundruð blaðsíðna skýrslu bandaríska öldungardeildarþingsins um pyntingar..”   Hér hefði fréttamaður átt að tala um öldungadeild bandaríska þingsins, senatið. Nýr fréttastjóri þarf að taka á honum stóra sínum til að bæta málfar í fréttum.

 

Magnaðar Ferðastiklur þeirra feðgina Ómars og Láru úr Vestur Skaftafellssýslu. Undurfagurt landslag og heimsókn að Hólmi, veröld sem var, þar sem er eins og tíminn hafi staðið kyrr. Um þetta mætti segja margt en Molaskrifari segir bara: Takk.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband