Molar um málfar og miðla 1954

ÞÖRF ÁDREPA

Molavin skrifaði (28.05.2015): ,,Netmoggi birtir í dag (28.05.2016) frétt af óhugnanlegri hópnauðgun í Brasilíu. Fréttin er orðrétt tekin upp úr frétt BBC en hefst á þessari undarlegu þýðingu: "Tíma­bund­inn for­seti Bras­il­íu, Michel Temer, hef­ur kallað ör­ygg­is­ráðherra allra ríkja lands­ins á neyðar­fund..." Frétt BBC hefst á þessum orðum: "Brazil's interim President Michel Temer has called an emergency meeting of state security ministers..." Burtséð frá því hversu tímabundinn Temer varaforseti kann að vera, sem er nú settur forseti (acting president) meðan Dilma Rousseff forseti sætir rannsókn, þá birtir Morgunblaðið hér undarlega skilgreiningu á stjórnskipan Brasilíu. Þannig er og hefur verið áratugum saman að ýmsir ráðherrar ríkisstjórnar landsins ásamt yfirmönnum hersins skipa svokallað "þjóðaröryggisráð." Það hefur nú verið kallað saman.

 

Að Morgunblaðið haldi því fram að margar ríkisstjórnir séu í Brasilíu er aðeins dæmi um það að blaðamennskan þar snýst nú um að illa upplýstir blaðamenn þýði orðrétt fréttir erlendra fjölmiðla. Þýði þær rangt og illa og geti ekki heimilda. Morgunblaðið má muna sinn fífil fegurri.” Það er svo sannarlega rétt, Molavin. Þakka bréfið. Þessum víðlesna miðli fer hrakandi. Málfjólum fjölgar, vandvirkni og metnaði er vikið til hliðar. Ekki er það gott. Langur vegur frá.

 

ÞEGAR MERKINGIN UMHVERFIST

Stundum missa orð merkingu sínu og stundum snýst merkinginn við. Orð fara að merkja andstæðu þess sem var upphafleg merking. Þannig er með orðið ógeðslegur. Það hefur fram til þessa þýtt viðbjóðslegur, sá sem veldur andúð.(sjá ísl. orðabók) Nú hefur þetta orð á seinustu árum fengið jákvæða merkingu. Í Vikulokunum á Rás eitt (28.05.2016) heyrði Molaskrifari ekki betur en kona, sem var gestur í þættinum, segðist vera ógeðslega stolt af lögreglunni. Hún var að tala um baráttu lögreglunnar gegn mansali og heimilisofbeldi. Konan átti við á meira gamaldags íslensku, að hún væri mjög ánægð með eða mjög stolt, hreykin af starfi lögreglunnar á þessum sviðum. Svona teygist og tognar á málinu. Unglingar tala um að eitthvað sé ógeðslega gott, ógeðslega skemmtilegt. Mjög gott, bráðskemmtilegt.

 

ENN ERU BOÐNAR SKÍRNATERTUR

Bakari í höfuðborginni heldur áfram að bjóða okkur skírnatertur í auglýsingum í Ríkissjónvarpinu (29.05.2016) . Molaskrifari er á því að rétt sé að tala um skírnartertur, ekki skírnatertur. Yfirlestur eða prófarkalestur er víst löngu kominn úr tísku á auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins. Þar taka menn bara við því sem að þeim er rétt, athugasemdalaust. Þannig á það ekki að vera.

 

FÁTÆKT FÓLK

Fátækt fólk eftir Tyggva Emilsson er um þessar mundir kvöldsagan á Rás eitt. Varð til þess að ég tók bækurnar fram og las  þessar merku æviminningar að nýju. Tryggvi skrifar á köflum fágætlega fallegan texta, einkum og sér í lagi, þegar hann lýsir náttúrunni og högum álmúgans á æskuárum hans. Meðal ævisagna er þetta öndvegisverk. Frá Alþýðublaðsárunum man Molaskrifari vel eftir Tryggva en Verkamannafélagið Dagsbrún var þá með skrifstofu á sömu hæð Alþýðuhússins og ritstjórn Alþýðublaðsins. Þar mætti maður líka næstum daglega Eðvarði Sigurðssyni Guðmundi jaka ,Kristjáni Jóhannssyni og  Hannesi M Stephensen.Sigurðar Guðnasonar minnist ég líka í svip,  svo og fleiri verkalýðsleiðtoga , sem ég hafði horft til  úr fjarlægð í verkfallinu  mikla 1955. Þá þvældist ég dálítið með verkfallsvörðum.  

 Vel valin og vel lesin kvöldsaga.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1953

GRÍÐARLEGA GRÍÐARLEGUR

Molavin skrifaði (27.05.2016): "Hún fer gríðarlega ótroðnar slóðir..." sagði kona í þættinum Samfélagið á Rás 1. Ofnotkun lýsingarorða gjaldfellir þau og það á ekki sízt við um orðið "gríðarlegur." Það er hægt að fara troðnar slóðir - og þá mistroðnar - en ótroðnar slóðir geta varla stigbeygzt . Flugvélin getur verið ókomin en varla gríðarlega ókomin. Bíllinn getur verið óseldur en varla gríðarlega óseldur. Gríður er gamalt orð yfir tröll. Það er ofnotað í myndlíkingum. Mætti segja "gríðarlega ofnotað." -  Satt og rétt, Molavin, - þakka þér bréfið.

 

HRAÐLESTARRUGL

Fram kom í fréttum Ríkisútvarps að morgni (27.05.2016) að Reykjavíkurborg ætlar að byrja að nota fjármuni skattborgara sinna í lestarórana,-   um hraðlestarsamgöngur  milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar. Fram til þessa hefur ætíð verið talað um þetta sem algjöra einkaframkvæmd. Ekki ætti neitt opinbert fé að koma til. Það gildir greinilega ekki lengur. Leitað er á náðir hins opinbera löngu áður en ákvörðun um framkvæmdina, af eða á, er í augsýn. Dæmigert.  Sennilega hefur hugmyndin um einkafjármögnun  siglt í strand og því skal nú farið í vasa borgaranna.  Er fjárhagur borgarsjóðs svo góður um þessar mundir að þessi ævintýramennska sé verjanleg? Undirbúningsfélagið um lestarævintýrið er sem sagt nú komið á spena hins opinbera, -  í skjóli meirihlutans sem stjórnar höfuðborginni.

 Hvernig væri að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar, áður en ætt er út í þetta fen?

 

SKARPSÝN SKÖTUHJÚ

Ingibjörg sendi eftirfarandi (28.05.2016), en það er af forsíðu Sarps Ríkisútvarpsin: ,,Skarpsýn skötuhjú Partners in Crime.  ,Breskur spennumyndaflokkur byggður á sögum Aghötu (svo!) Christie. HjóninTommy og Tuppence elta uppi njósnara í Lundúnum á sjötta áratugnum. Það reynist hjónunum erfiðara að segja skilið við heim njósna og kalds stríðs en þau nokkurn tíma óraði fyrir.” Síðan segir hún:,, Hvað finnst þér um þessa kynningu RÚV? Í fyrsta lagi kannast ég ekki við orðmyndina "skarpsýn", þótt hún sé verjandi, sbr. "nærsýn". "Skarpskyggn" er gefið upp í Ísl. orðabók sem Mörður Árnason ritstýrði, en orðmyndin "skarpsýn" finnst þar ekki.

Hitt finnst mér verra að þessi harðgiftu og samhentu hjón séu kölluð skötuhjú. Skv. sömu orðabók eru skötuhjú ógift par (niðrandi eða í spaugi). 

Ég hef reyndar sett fram þá tilgátu að hin upphaflegu skötuhjú séu þau sem myrtu eiginmann konunnar 1704 við Skötuhyl í miðkvísl Elliðaánna (nú þurri), og hentu honum svo í hylinn. Þau voru tekin af lífi f. verknaðinn á Kópavogsþingi.” Þakka bréfið, Ingibjörg. Það er fljótsagt, - þetta er hvorki til fyrirmyndar né Ríkisútvarpinu til sóma.

 

MÆTTUR Í ÁNNA

Af mbl.is (27.05.2016): ,,Lax­mýr­ing­ar sáu fyrsta lax­inn við staur­inn í Kistu­kvisl í dag. Þar sjást venju­lega þeir fyrstu sem ganga í ánna. Opnað verður 20. júní næst­kom­andi.” Það var og. Enn einu sinni. Mbl.is fellur á prófi í grundvallaratriði í málfræði. Grunnskólamál. Hér ætti að standa , - sem ganga í ána. Eignarfall fleirtölu með greini , ánna, hefur hér ekkert að gera og er rangt.

Orðið á beygist eins og hér má sjá:

http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=12276

Enginn metnaður.

http://www.mbl.is/veidi/frettir/2014/05/25/laxinn_maettur_i_laxa_i_adaldal/

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1952

FLAK KAFBÁTAR

Af mbl.is (25.05.2016): Fundu flak bresks kafbátar, segir í fyrirsögn á mbl.is . Sama villan í fréttatextanum. ,,Kafari fann ný­verið flak bresks kaf­bát­ar frá árum síðari heims­styrj­ald­ar­inn­ar við strend­ur ít­ölsku eyj­ar­inn­ar Sar­din­íu. Kaf­bát­ur­inn HMS P 311 fórst í janú­ar 1943 með 71 mann um borð.” Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/05/25/fundu_flak_bresks_kafbatar/

Gömul saga og ný. Enginn les yfir það sem viðvaningar skrifa.

Fleiri sáu þetta: Molavin skrifaði (25.05.2016) "Fundu flak bresks kaf­bát­ar" segir í fyrirsögn á Netmogga (25.05.2016) og er endurtekið svo í frétt. Innsláttarvillur má auðveldlega fyrirgefa en að blaðamaður kunni ekki að beygja jafn algengt nafnorð og "bátur" í eignarfalli er neyðarlegt. Í eina tíð voru svona vinnubrögð kölluð "moggafjólur." Væru fréttir viðvaninga lesnar yfir af reyndu fólki mætti draga úr þeirri smán, sem forðum virtir fjölmiðar verða æ oftar að sæta.”

Þakka bréfið, Molavin.

Þorvaldur sá þetta líka og segir í bréfi til Mola:,, Í vefmogga í gær er sagt frá ítölskum kafara sem fann flak kafbáts. Margtuggið er í frétt og fyrirsögn  "fann flak kafbátar" Enn eitt dæmi um vankunnáttu í fallbeygingu einföldustu orða” Þakka bréfið. Þorvaldur.

Um beygingu orðsins bátur:

http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=b%C3%A1tur

Önnur beygingarvilla á mbl.is sama dag: ,, Um var að ræða tæp­lega sex þúsund tonn af kvars, stein­teg­und sem er meðal grun­nefna sem notuð eru við kís­il­málm­vinnsl­una.” Þarna hefð átt að tala um sex þúsund tonn af kvarsi. Ekki sexþúsund tonn af kvars.

 

MIKIL GÆÐI

Úr yfirlýsingu frá Íslenskri erfðagreiningu,sem birt var á mbl.is (24.05.2016): ,, Það var hins veg­ar mat vís­inda­manna ÍE að rann­sókn­ir Roberts væru ekki af mikl­um gæðum og að upp­kast að vís­inda­grein sem hann deildi með þeim væri ekki birt­ing­ar­hæft. Molaskrifari hallast að því að í stað þess að segja að rannsóknir væru ekki af miklum gæðum, hefði verið betra að segja að rannsóknirnar hefðu ekki verið vandaðar.

 

 

LANDVEGAMÓTIN

Af forsíðu visir.is (24.05.2016):,, Einn var fluttur alvarlega slasaður með þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir bílveltu nærri söluskálanum við Landvegamót á Hellu.” Landvegamótin eru ekki á Hellu. Enn eitt dæmið um lélega landafræðikunnáttu fréttaskrifara. Landvegamótin eru talsvert vestan við Hellu. Giska á 6-8 km.

 

AÐ VERA KUNNUGT UM

Af. dv.is (24.05.2016) :,, Hildur starfar sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild og er því vel kunnug um þær hættur sem fylgja rafhlöðum,”. Hér hefði fremur átt að standa : ... og er því vel kunnugt um þær hættur,sem fylgja rafhlöðum. Eða: ... vel kunnug þeim hættum, sem fylgja rafhlöðum.

 

AÐ LIGGJA VIÐ HÖFN

Enn einu sinni hefur ambagan að skip liggi við höfn, ratað inn í fréttaskrif. Í þetta sinn á mbl.is (25.05.2016). Þar segir um sjö karlmenn ,sem reyndu að komast um borð í skip,sem lá við bryggju á lokuðu svæði við Sundahöfn: ,, Lög­reglu grun­ar að menn­irn­ir hafi ætlað sér að reyna að kom­ast um borð í frakt­skip sem lá þar við höfn. Skip liggja við bryggju. Skip eru í höfn. Skip geta legið við festar. Skip geta legið við akkeri. Skip liggja ekki við höfn.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/25/handteknir_a_lokudu_hafnarsvaedi/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1951

GALLVASKUR FORMAÐUR

Molalesandi benti á eftirfarandi frétt á dv.is  (22.05.2016) https://www.dv.is/frettir/2016/5/22/sigmundur-er-alls-ekki-haettur-stefnir-aftur-forsaetisraduneytid/

Hann skrifar:,,Í fréttapistli á DV.is í dag er haft eftir Sigmundi Davíð, að Framsóknarflokkurinn "fari gallvaskur í næstu kosningar". Akkúrat það. Er verið að tala um gall- svona eins og gall-súran - eða gall-aðan.
Væntanlega er ekki verið að ræða um galvaskan flokk heldur annað hvort gall-aðan eða gall-súran. Nema fréttaskrifari hafi þarna rangt eftir Framsóknarformanninum. Feili á réttrituninni. Sé eins og þú segir "blessað fréttabarn".
Hvernig er þetta? Eru engir prófarkalesarar lengur starfandi á fréttamiðlum? Hver uppfræðir þá fréttabörn, sem bila á íslenskunni? Eru þeir bara látnir vera "bilaðir" áfram?”  Þakka bréfið. Galvaskur átti þetta auðvitað að vera. Prófarkalesarar eru horfin stétt. Enginn les yfir áður en birt er. Gleymd er gamla reglan: Beur sjá augu en auga.

 

AÐ VERSLA VEITINGAR

Á fréttavef Ríkisútvarpsins (23.05.2016) var frétt um salernisaðstöðu í Dimmuborgum. Þar segir:,, Rekstur aðstöðunnar er í hö(n)dum Kaffi Borga, en í staðinn fá viðskiptavinir þess aðgang að klósettinu þegar þeir versla veitingar.” Rögnvaldur Már Helgason, skrifaði fréttina. Honum, eins og of mörgum öðrum fréttaskrifurum, er ekki ljós munurinn á notkun og merkingu sagnanna að kaupa og að versla. Halda að þær hafi nákvæmlega sömu merkingu. Svo er þó ekki.

Oftsinnis hefur verið vikið að þessu Molum.

 

EIGENDASKIPTI AÐ EÐA Á

Glöggur maður benti Molaskrifara nýlega á eyðublað frá Samgöngustofu þar sem þrívegis er talað um eigendaskipti ökutæki. Okkur kom saman um að þarna ætti sennilega frekar að tala um eigendaskipti á ökutæki. Ekki er til dæmis talað um eigendaskipti hestum, heldur eigendaskipti á hestum. Þetta snýst þó ef til vill fyrst og fremst um málsmekk eða málkennd.

En það er alls ekki nýtt í málinu að tala um eigendaskipti að e-u. Eigendaskipti urðu Þjóðólfi, Ísafold 1888. Eigendaskipti verða skipi eða skipshluta , Ægir 1930.  

   Í Ísafold 1895 er talað um eigendaskipti á fénaði og í Kirkjubl. 1894 eigendaskipti á kirkjustöðum. Í Ægi 1930 er talað um hin tíðu eigendaskipti á skipunum.   Algengast virðist fram til 1990 að tala um eigendaskipti á e-u en eftir 200 verður algengara að tala um eigendaskipti e-u. Svona breytist málið.

Samgöngustofa gæti líka kallað þetta eyðublað tilkynningu um eigendaskipti ökutækis, eða tilkynningu um breytt eignarhald á ökutæki. Þakka  góða ábendingu og fróðlegar upplýsingar

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1950

 KVENVARA?

Sigurður Sigurðarson skrifaði (22.05.2016): ,, Verslunin sem kallar sig „Herralagerinn outlet“ segir meðal annars í heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu 21. maí 2016:

 Mikið úrval af kvenvöru.“

Lesandinn velti því fyrir sér hvort mansalið hafi tekið á sig nýjar myndir hér á landi. „Karlvörur“ eru hins vegar ekki auglýstar. Svo má auðvitað gera athugasemdir við að eigendur svo ágætrar verslunar skuli ekki nota íslensku í heiti hennar. Eflaust halda þeir að íslenska nafnið eitt og sér dragi ekki nóg að og enskan hjálpi þar til. Auðvitað er það misskilningur.”   Kærar þakkir, Sigurður.  Í Molum hafa oft verið gerðar athugasemdir   við þessa outlet  slettu dýrkun íslenskra kaupmanna.

 

KEYPTI LANDA RÉTTINDALAUS

Rafn benti á þessa fyrirsögn á mbl.is (23.05.2016) og spyr: ,,Hver veitir réttindi til landakaupa? og hvaða skilyrði ætli umsækjandi þurfi að uppfylla??”

Fyrirsögnin er út úr kú. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/23/keypti_landa_rettindalaus/    Í fréttinni  kemur eftirfarandi hins vegar fram:,, Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hafði af­skipti af öku­manni bif­reiðar og ætluðum landa­sala rétt fyr­ir klukk­an þrjú í nótt. Ökumaður­inn var að kaupa landa af manni sem stóð við brún gang­stétt­ar við Selja­braut í Breiðholti. Til að bæta gráu ofan á svart reynd­ist ökumaður­inn aldrei hafa öðlast öku­rétt­indi.”

 

 STELPURNAR

Það var undarlegt að hlusta (Ríkissjónvarpið 21.05.2016) á lögmann ferðaþjónustufyrirtækis í Vestmannaeyjum  ítrekað tala um ungar konur, sem slösuðust mjög alvarlega, hryggbrotnuðu, í ferð á vegum fyrirtækisins, sem stelpurnar. Frá sjónarhorni lesanda var næsta líklegt, að þarna hafði verið um óvarkárni að ræða, - farið á sjó í veðri sem ekki var sjóveður fyrir bát af þessu tagi.  

 

 

 

KYNNING DAGSKRÁR

Kynning á dagskrá  Ríkissjónvarpsins í  dagblöðum er oft klisjukennd og stundum skondin. Á laugardag (21.05.2016)  var Hraðfréttaþáttur kynntur með þessum orðum: ,, Hraðfrétta, heimildaþáttur um tilurð og feril einhverrar farsælustu og langlífustu  fréttastofu íslenskrar sjónvarpssögu”. Hvaða bull er þetta  eiginlega?   

 

ÞÁTTTAKA

Hér er  dæmi af mbl.is (20.05.2016) um það að yfirlestur, gæðaeftirlit, er ekki lengur til staðar á netmiðlum þannig að gagni komi: Í til­kynn­ingu frá ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu seg­ir að Lilja og Stolten­berg hafi rætt þát­töku Íslands í störf­um banda­lags­ins auk þess sem ráðherra greindi frá þróun mála á Íslandi. Orðið þátttaka er rétt stafsett í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins. Seinna í sömu málsgrein á mbl.is  er  orðið þátttaka reyndar rétt stafsett. En hér ber allt að sama brunni. Menn treysta  sér ekki til að kosta prófarkalestur og  leiðbeiningar.

 

SKÍRNATERTUR

Bakari auglýsir skírnatertur í Ríkissjónvarpi (21.05.2016). Ætti að vera skírnartertur að mati Molaskrifara. Yfirlestri er sennilega ekki fyrir að fara í auglýsingadeildinni og væri  þó stundum þörf á.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1949

AÐ VERA STADDUR

Sigurður Sigurðarson, sendir Molum oft athyglisverðar ábendingar um það sem betur mætti fara í málfari í fjölmiðlum. Það þakkar Molaskrifari. Sigurður skrifaði (20.05.2016): ,,Þetta var upphaf fréttar sem skrifuð var á mbl.is:

Björg­un­ar­sveit­ir voru kallaðar út að Nausta­hvilft á Ísaf­irði vegna fót­brot­ins karl­manns sem þar er stadd­ur.

Aumlega saman klúðruð málsgrein. Suma þarf að einatt að staðsetja þegar hægt er að nota sögnina að vera. „… sem þar er staddur.“ Þarf að taka það fram fyrst björgunarmenn voru sendir á ákveðinn stað. Og hvar í ósköpunum er Naustahvilft?

Betur hefði farið á að segja þetta og bæta við upplýsingum: 

Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna manns sem hafði fótbrotnað í Naustahvilft, sem er skál í Kirkjubólsfjalli gegnt Ísafjarðarbæ.” Þakka bréfið, Sigurður.

 

AUGLÝSINGAR Á ENSKU

Ingibjörg skrifaði (20.05.2016):. ,,Þú og fleiri eru stundum - og með réttu - að agnúast út í enskuslettur í auglýsingum eins og ‘Tax free’ og 'Outlet' f. lagersölu. En mér sýnist allir láta LINDEX í friði, en sú keðja slettir ekki, hún auglýsir BARA á ensku, sem mér finnst miklu verra. Maður spyr sig, hvað gengur fólkinu til? Er þetta ekki sænsk keðja? Þetta er ekki verslun sem höfðar sérstaklega til túrista eða annarra útlendinga.” 

Ingibjörg bætti svo við:,, Kannski tekur þú ekki eftir auglýsingum um föt fyrir konur og börn. Ég er að tala um auglýsingar, oft heilsíðu, sem birtast í Mbl.+ Fréttabl. með mynd af fólki í fötunum, stuttur texti með, eingöngu á ensku. Slagorðið núna er: "Love your summer", og sama áletrunin er í sjónvarpsauglýsingum, ekkert tal á íslensku. 

Mér dettur nú í hug þátturinn "Daglegt mál" í gamla daga, þar sem agnúast var út í vont mál á opinberum vettvangi. Ég fór mjög ung að hlusta á þetta eins og annað í Útvarpinu, og ég man aldrei eftir að neitt hafi verið tekið fyrir sem tilheyrði reynsluheimi kvenna og barna. Þar var samt nóg af slettunum, þá kannski mest úr dönsku.” Þakka bréfið, Ingibjörg.

 

 

 

ALLT Í KLESSU

Í þessari stuttu frétt á mbl.is (21.05.2016) er tvisvar sinnum sagt að rúta hafi klesst á hól! Æ algengara er að sjá barnamálfar í fréttaskrifum. Reyndur blaðamaður Jóhannes Reykdal vakti athygli á þessu á fésbókinni. Sjá. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/05/21/37_letu_lifid_i_rutuslysi/

 

SIGRAÐI FORKOSNINGARNAR!

Af fréttavefnum mbl.is (20.05.2016): Eft­ir að Trump sigraði for­kosn­ing­ar re­públi­kana fyrr í mánuðinum viður­kenndi Ca­meron þó að hann hefði náð góðum ár­angri. Sigraði forkosningarnar! Það var og ! Að sjálfsögðu sigraði Trump ekki forkosningarnar. Hann vann sigur í forkosningunum. Ótrúlega erfitt að hafa jafn einfalt mál rétt.

 Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/05/20/trump_bodid_til_bretlands/

EFTIR HÆTTI

Það eru víst allir, eða næstum allir,- nema Molaskrifari, hættir að kippa sér upp við það þegar skorið er af fréttum eða Kastljósi vegna boltaleikja. Það var gert sl. fimmtudagskvöld (19.05.2016). Kastljósið stytt og svo kom tveggja tíma bolti. Alveg fram að seinni fréttum klukkan 22 00. Þetta er hin venjulega forgangsröðun í Efstaleiti. Allt eftir hætti.

Til hvers er þessi svokallaða íþróttarás? Upp á punt?

 

VILLULAUS FRÉTT!

Sigurður Sigurðarson skrifaði (22.005.2016): ,,Til tíðinda bar á dv.is í dag að ég rakst á frétt sem var villulaus. Að vísu er ég ekkert sérstaklega glöggur í prófarkalestri, en það er sama. Þegar svona undur gerast gætir maður ósjálfrátt að því hver skrifar, rétt eins og þegar um villur er að ræða. Og viti menn. Höfundurinn var Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV. Ekki veit ég í hverju vinna hennar felst en hún mætti að ósekju skrifa fréttir og setja tvö þrjú blaðabörn í önnur störf á ritstjórninni, til dæmi í að sópa og laga til”. Þakka bréfið Sigurður. Já, Kolbrún ætti að skrifa fleiri fréttir, - eða lesa barnaskrifin yfir fyrir birtingu!

 


Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1948

TIL SALS !

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum 18.05.2016: „Mistök við sölu Ásmundarsals algjört einsdæmi“, segir í fyrirsögn á visir.is. Þetta heyrðist svo í fréttum Bylgjunnar í dag. Barnið, sem skrifað er fyrir fréttinni, er Þórhildur Þorkelsdóttir. Enginn lagfæring á beygingarvillunni og leið svo dagurinn.”

Þakka bréfið, Sigurður. Þetta er allt eftir hætti. Enginn les yfir. Enginn leiðréttir augljósar villur. Það er eins og sumir fréttamenn viti ekki af vef Árnastofnunar um beygingu orða í íslensku , - eða vilji ekki nota hann. Hvað þá að taka fram orðabók og fletta upp.

Þetta er vefurinn. http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=salur

 

FYRIRSAGNASMÍÐ

Molavin skrifaði (20.05.2016): ,,Það er vandi að semja fyrirsagnir á fréttir. Þær mega ekki vera villandi en þurfa að segja kjarna fréttar í mjög knöppu máli. Fyrir daga Netsins var fyrirsagnasmíð ekki algengt viðfangsefni hjá fréttamönnum útvarps. Nú er öldin önnur. Það er því leiðinlegt að sjá á hverjum degi villandi merkingu í fyrirsögnum frétta á vef RUV þar sem viðtengingarháttur sagna er rangnotaður og merking fréttarinnar röng og fyrirsögn villandi. Þetta mætti málfarsráðunautur ræða við fréttamenn en þó sérstaklega eina úr þeirra hópi.”- Rétt. Þakka bréfið,Molavin. 

 

OF LANGT ....

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins á miðvikudagskvöld (18.05.2016) var fjallað um fjölskyldudeilur afkomenda Ingvars Helgasonar, sem auðgaðist vel á bílainnflutningi. Vissulega var það fréttnæmt, að þarna kom fram nokkur skýring á svonefndum ,,eftirlaunasjóði” Júlíusar Vífils Ingvarssonar, sem sagði af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, þegar sjóður hans tengdist skjölunum, sem kennd eru við Panama.

Eðlilegt hefði verið að fjalla um þetta mál í 5-10 mínútna innslagi í Kastljósinu. Það var hinsvegar röng ritstjórnarákvörðun að leggja heilan þátt undir frásögn af þessum fjölskyldudeilum. Engum koma erlendir umboðslaunareikningar lengur á óvart , - því miður. Þeir hafa verið staðreynd í áratugi. Þar á sjálfsagt fleira eftir að koma í ljós. Mest kom á óvart hve ótrúlega stuttan tíma tók að kollkeyra þetta stönduga fyrirtæki, sem um tíma lánaði 130 einstaklingum bíla! Kastljós á ekki að blanda sér í fjölskyldudeilur eins og þarna var gert með afar sérkennilegum og óverjanlegum hætti. Ríkissjónvarpið á að gera betur en þetta.

 

UM BEYGJUR

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (19.05.2016) var sagt frá egypsku farþegaþotunni,sem hrapaði í Miðjarðarhaf. Þar var sagt: ,, ... beygði hún skyndilega, fyrst um 90 gráður til vinstri, síðan 360 gráður til hægri”. Ekki er þetta orðalag að skapi Molaskrifara, - að tala um 360 gráðu beygju. Þetta var öðruvísi orðað í Speglinum um kvöldið, en þar var sagt að þotan hefði : ,, ... síðan snúist heilan hring til hægri”.

Þetta var orðað á annan veg á mbl.is, en þar sagði: ... hefði skyndi­lega beygt í 90 gráður til hægri og síðan í heil­an hring í hina átt­ina og fallið um meira en 6.700 metra áður en hún hvarf af rat­sjám í nótt.

Vélin flaug hring og sneri við. Reyndar ber þessum miðlum ekki saman um hvort þotan hafi fyrst beygt til hægri eða til vinstri. Á fréttavef BBC segir að vélin hafi fyrst beygt til vinstri. ( Panos Kammenos said the Airbus A320 had "turned 90 degrees left and then a 360-degree turn to the right".)

Í fyrirsögn á visir.is (19.05.2016) er sagt að vélin hafi brotlent. Það er villandi og rangt. Féttir benda til að annaðhvort hafi sprengja sprungið í vélinn eða henni verið grandað með eldflaug. Ekkert bendir til að flugmaður hafi verið að reyna að lenda vélinni og hún brotlent. http://www.visir.is/brak-fundid-ur-egypsku-flugvelinni-sem-brotlenti-i-nott/article/2016160518707

 

GRUNUR

Molalesandi skrifaði ((19.05.2016): ,,Ég hef lesið í minnst þremur vefmiðlum: ,,Systkinunum fór að gruna...” Í mínu ungdæmi hét það: Systkinin fór að gruna...” Hárrétt. Þakka bréfið. Algeng villa nú orðið , - því miður. Máltilfinningu og kunnáttu skortir of víða hjá þeim sem flytja okkur fréttir.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1947

 

ÞAU BLÓMSTRA

Þau blómstra fréttabörnin á visir.is. Þeim þarf að leiðbeina.

Sigurður Sigurðarson skrifaði (13.05.2016) ,,Sæll,

Auðvitað er þetta ekki boðlegt á visir.is , en þegar börnin fara illa með leikföngin þarf að leiðbeina þeim og hlynna að. Á meðan eiga þau ekki að skrifa í fjölmiðla:

Guðjón Baldvinsson, framherji Stjörnunnar, skoraði í kvöld næst fljótasta markið í sögu efstu deildar á Íslandi þegar hann kom sínum mönnum í 1-0 gegn Þrótti eftir aðeins níu sekúndur. http://www.visir.is/throttur-byrjadi-med-boltann-en-gudjon-skoradi-eftir-niu-sekundur-sjadu-markid/article/2016160519507

 

Hér er átt við að aðeins einn hafi verið jafn snöggur að skora mark í upphafi leiks og þessi frábæri leikmaður Stjörnunnar.”

 Þakka bréfið, Sigurður. Þessu má svo bæta við:

Á forsíðu visir.is (18.05.2016) er talað um Umferðarofsa, og þar segir: Kona var kýld þegar hún reyndi að koma á milli í slagsmálum. Konan reyndi ekki að koma á milli. Hún reyngi að ganga á milli, stilla til friðar. Úr sömu frétt (18.05.2016) : Fjórir einstaklingar úr tveimur bílum fóru að rífast sín á milli .. Ekkert sín á milli. Fóru að rífast. Lentu í rifrildi. http://www.visir.is/umferdarofsi-leidir-til-slagsmala-a-hradbraut/article/2016160519072

 Úr annarri frétt í sama miðli sama dag: Gríðarleg öryggisgæsla er í Hong Kong þar sem háttsetinn ráðamaður Kína er kominn til borgarinnar. Hér er átt við háttsettan ráðamann, ekki háttsetinn, sem er bull. Þetta er reyndar rétt orðað á forsíðunni. http://www.visir.is/gridarleg-oryggisgaesla-i-hong-kong/article/2016160519114

Í frétt á visir.is (16.05.2016) var fjallað um frumvarp til breytinga á reglum um áfengiskaup ferðamanna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar . Þar vefst fyrir fréttaskrifaranum munur á notkun sagnanna að kaupa og versla. Í fréttinni segi: Frumvarp fjármálarráðherra felur í sér að miðað er við einingar í staðinn, nánar tiltekið að hver ferðamaður megi versla sex einingar. Hér hefði að sjálfsögðu átt að tala um að hver ferðamaður mætti kaupa sex einingar, EKKI versla sex einingar. Þetta hefur ærið oft verið nefnt í Molum.

http://www.visir.is/atvr-og-isavia-gagnryna-fyrirhugadar-breytingar-a-afengiskvota/article/2016160519206

 

FJÖLGUN Á STULD!

Úr fréttum Ríkisútvarpsins (13.05.2016): Mikil fjölgun hefur verið á bílstuld á síðust tveimur árum. Bílstuldum hefur fjölgað mjög að undanförnu, hefði verið betra. http://www.ruv.is/frett/badir-bilarnir-fundnir

 

KEPPNI?

Það hvarflar stundum að Molaskrifara, hvort ríkisstyrkta Lottóið og stóru happdrættin ( sem kannski má líka segja að séu ríkisstyrkt, - sum hver a.m.k.) séu komin í keppni um hver bjóði okkur upp á frekjulegustu, ágengustu, skapi næst að segja ,,plebbalegustu” útvarpsauglýsingarnar? Oft er engu líkara, en svo sé.

 

AÐ VERÐLEIKUM

Margrétar Indriðadóttur fyrrverandi fréttastjóra Ríkisútvarpsins, sem lést í hárri elli 18. maí var minnst að verðleikum í fréttum útvarps og sjónvarps (19.05.2016).

Þær gerðu það smekklega, Margrét E. Jónsdóttir og Sigríður Árnadóttir, sem lengi störfuðu með Margréti, - báðar frábærir fréttamenn. Margrét Indriðadóttir var fagmaður fram í fingurgóma, gerði ríkar kröfur til sjálfrar sín og fréttamanna um vandvirkni og hnökralaust málfar. Margrét var brautryðjandi og fyrirmynd í góðum vinnubrögðum og markaði spor í sögu fjölmiðlunar á Íslandi. Blessuð sé minning hennar. Arnar Páll fréttamaður tók þetta saman og gerði það vel.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1946

Hlé hefur verið á Molaskrifum um skeið. Molaskrifari brá sér  af bæ. Tók sér far með  ferjunni Norrænu frá Seyðisfirði  og  heimsótti  gamla vini í Færeyjum í fáeina daga. Það var ævintýraferð og góðra vina fundur.  Sól og blíða í Færeyjum nær allan tímann,   svolítill suddi síðasta daginn, sirm, eins og  heimamenn segja.

 

 AÐ VILLA SÉR HEIMILDUM  OG FJÁRMÖGNUN ÚTFARAR

Molavin skrifaði (14.05.2016):   "Maðurinn villti á sér heimildum..." sagði Geir Gígja Gunnarsson í fyrstu kvöldfrétt RUV (14.05.2016). Skiljanlegt er að mislestur hendi í útvarpi, en svona reyndist þetta þó líka skrifað á heimasíðu. Úr því hvorki vaktstjóri né fréttastjóri lesa yfir fréttatexta er enn brýnna að málfarsráðunautur leiðbeini fréttamönnum.”  Satt er það, Molavin.

Og hér kemur annað bréf frá Molavin  (18.05.2016)  ,, Hátíðlegt skal það vera! "Pen­inga­söfn­un hef­ur verið sett af stað til þess að aðstoða móður Co­dys við að fjár­magna jarðarför hans..." Þetta er úr frétt Netmogga 18.05.2016 og þar er ekki látið nægja að tala um að kosta útförina. Þetta er greinilega fjárfestingarkostur, svo notað sé annað ofnotaða hugtakið úr fjármálafréttum.”   -  Kærar þakkir, Molavin. Já. Ekki vantar  hátíðlegheitin!

 

OPINBER HEIMSÓKN

Í fréttum Ríkisútvarps (11.05.2016) var okkur sagt, að  Donald Trump forsetaframbjóðandi vestra ætlaði að fara í opinbera heimsókn til Ísraels á næstunni.  Það getur hann ekki. Ekki  frekar en  Davíð, Guðni Th.  eða Sturla Jónsson gætu farið í opinbera heimsókn til Danmerkur í næstu viku . Verði  Trump,  illu heilli, kjörinn  forseti getur hann  auðvitað farið í opinbera heimsókn til Ísraels. Eftir að hann hefur tekið embætti.  Ólíklegt er þó að  það verði efst á verkefnaskránni, - þrátt fyrir  þá staðreynd að gyðingar eru  valdamiklir í stjórnmálum vestra.

 

ÓKURTEISI

Blaðamenn  eru stundum sagðir ókurteisir. Oft er það út í hött. Beinskeyttar spurningar eru ekki ókurteisi. Það má hinsvegar kallla  það ókurteisi, ef  þeir sem  spurðir eru, oftast stjórnmálamenn, víkja sér hvað eftir annað undan því að svara eðlilegum spurningum, eða fylgja spurningum eftir.

 Sjaldan eða aldrei hef ég heyrt  aðra eins ókurteisi  og  Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðandi  sýndi Arnari Páli Haukssyni í viðtali í Spegli Ríkisútvarps  á þriðjudagskvöld. Ég  er ekki viss um , ef ég  hefði verið í sporum Arnars  Páls, að ég hefði haft geð  í  mér  til að halda  samtalinu áfram. En hann þraukaði. Ástþór sagði til dæmis við Arnar Pál: ,, Ég velti því fyrir mér hvort þú værir  kannski betur kominn á kassa í Bónus, en að starfa hér”.  Hvers vegna  þarf Ástþór Magnússon að gera lítið úr fréttamanninum og  fólkinu sem afgreiðir okkur í  Bónus ? Innihald viðtalsins var ekki merkilegt.  

http://www.ruv.is/frett/ruv-buid-ad-raena-kosningunum

 

FÖT OG VEFNAÐUR

Ekki heyrði skrifari betur en  sagt  væri í auglýsingu í Ríkisútvarpinu (11.05.2016): Barnafötin frá Lin Design  eru ofnar úr okkar allra bestu bómull. Ofin úr okkar allra bestu bómull,   hefði þetta átt að vera. Nokkrum dögum heyrði skrifari aðra útvarpsauglýsingu frá sama fyrirtæki,  villulausa, um ofinn varning.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1945

 

SELDUR – SELDUR TIL

JT skrifaði Molum og vitnaði í frétt af vef Ríkisútvarpsins um að Ásmundarsalur hefði verið seldur. Fyrirsögnin var: Ásmundarsalur seldur til fjárfesta.  Í fréttinni segir: ,,Ásmundarsalur, hús Listasafns Alþýðusambands Íslands við Freyjugötu, hefur verið seldur til Aðalheiðar Magnúsdóttur og Sigurbjörns Þorkelssonar. Sigurbjörn Þorkelsson er fjárfestir og stjórnarformaður Fossa markaða, verðbréfamiðlunar.” 

JT spyr:,,Af hverju þarf að segja seldur til - af hverju ekki bara seldur.... í þessu tilviki Aðalheiði og Sigurbirni? Þetta er mjög algeng orðnotkun og hvimleið þegar til er algjörlega óþarft.”  Satt og rétt, JT. Sjá: http://www.ruv.is/frett/asmundarsalur-seldur-til-fjarfesta

 

Síðan segir JT: ,, Tek undir allar ábendingar þínar um undarlega notkun á viðtengingarhætti í fyrirsögnum. Og um að gera að halda þeim til streitu.”- Það verður gert, JT. Kærar þakkir fyrir bréfið.

 

VOND ÞÝÐING

TH skrifaði (06.06.2016) og benti á þessa frétt á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/05/06/60_metra_eldtungur_loka_flottaleidinni/

"Einu flótta­leiðinni fram­hjá kanadísku borg­inni Fort McM­urray, þar sem gíf­ur­leg­ir eld­ar hafa brunnið und­an­farna daga, var lokað í dag af ríf­lega 60 metra háum eld­tung­um sitt­hvoru meg­in veg­ar­ins." Ósköp má nú mikið vanda sig betur við þýðinguna:
Eina flóttaleiðin framhjá kanadísku borg­inni Fort McM­urray, þar sem gíf­ur­leg­ir eld­ar hafa brunnið und­an­farna daga, lokaðist í dag af ríf­lega 60 metra háum eld­tung­um báðum megin vegarins.
Eða:
Sextíu metra háar eldtungur, báðum megin vegarins, lokuðu í dag einu flóttaleiðinni fram­hjá kanadísku borg­inni Fort McM­urray, þar sem gíf­ur­leg­ir eld­ar hafa brunnið und­an­farna daga.
Áfram: 
"Að sögn frétta­vefjar BBC var bíla­lest 1.500 bíla í fylgd lög­reglu ..."
Að sögn frétta­vefjar BBC var 1.500 bíla lest í fylgd lög­reglu ...

Enn áfram:
"Um 500 bíl­ar lögðu á sig þessa hættu­legu ferð ..."
Nei, bílarnir eru hvorki færir um hugsun né ákvarðanatöku, þannig að þeir hafa ekki lagt neitt á sig. 
Um 500 ökumenn lögðu á sig þessa hættu­legu ferð ...
Fleiru er reyndar klúðrað í þýðingu þessarrar litlu fréttagreinar; þetta eru einungis verstu dæmin. Er enginn fullorðinn að fylgjast með börnunum?”. – Þakka bréfið, T.H. Allt er á sömu bókina lært. Ekkert eftirlit. Enginn les yfir. Enginn leiðbeinir nýliðum, eða þeim sem þurfa á leiðsögn að halda. Enginn metnaður til að gera vel, -  til að vanda sig. Metnaðarleysið ræður ríkjum. Og ekki aðeins á mbl.is.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband