Molar um málfar og miðla 1948

TIL SALS !

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum 18.05.2016: „Mistök við sölu Ásmundarsals algjört einsdæmi“, segir í fyrirsögn á visir.is. Þetta heyrðist svo í fréttum Bylgjunnar í dag. Barnið, sem skrifað er fyrir fréttinni, er Þórhildur Þorkelsdóttir. Enginn lagfæring á beygingarvillunni og leið svo dagurinn.”

Þakka bréfið, Sigurður. Þetta er allt eftir hætti. Enginn les yfir. Enginn leiðréttir augljósar villur. Það er eins og sumir fréttamenn viti ekki af vef Árnastofnunar um beygingu orða í íslensku , - eða vilji ekki nota hann. Hvað þá að taka fram orðabók og fletta upp.

Þetta er vefurinn. http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=salur

 

FYRIRSAGNASMÍÐ

Molavin skrifaði (20.05.2016): ,,Það er vandi að semja fyrirsagnir á fréttir. Þær mega ekki vera villandi en þurfa að segja kjarna fréttar í mjög knöppu máli. Fyrir daga Netsins var fyrirsagnasmíð ekki algengt viðfangsefni hjá fréttamönnum útvarps. Nú er öldin önnur. Það er því leiðinlegt að sjá á hverjum degi villandi merkingu í fyrirsögnum frétta á vef RUV þar sem viðtengingarháttur sagna er rangnotaður og merking fréttarinnar röng og fyrirsögn villandi. Þetta mætti málfarsráðunautur ræða við fréttamenn en þó sérstaklega eina úr þeirra hópi.”- Rétt. Þakka bréfið,Molavin. 

 

OF LANGT ....

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins á miðvikudagskvöld (18.05.2016) var fjallað um fjölskyldudeilur afkomenda Ingvars Helgasonar, sem auðgaðist vel á bílainnflutningi. Vissulega var það fréttnæmt, að þarna kom fram nokkur skýring á svonefndum ,,eftirlaunasjóði” Júlíusar Vífils Ingvarssonar, sem sagði af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, þegar sjóður hans tengdist skjölunum, sem kennd eru við Panama.

Eðlilegt hefði verið að fjalla um þetta mál í 5-10 mínútna innslagi í Kastljósinu. Það var hinsvegar röng ritstjórnarákvörðun að leggja heilan þátt undir frásögn af þessum fjölskyldudeilum. Engum koma erlendir umboðslaunareikningar lengur á óvart , - því miður. Þeir hafa verið staðreynd í áratugi. Þar á sjálfsagt fleira eftir að koma í ljós. Mest kom á óvart hve ótrúlega stuttan tíma tók að kollkeyra þetta stönduga fyrirtæki, sem um tíma lánaði 130 einstaklingum bíla! Kastljós á ekki að blanda sér í fjölskyldudeilur eins og þarna var gert með afar sérkennilegum og óverjanlegum hætti. Ríkissjónvarpið á að gera betur en þetta.

 

UM BEYGJUR

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (19.05.2016) var sagt frá egypsku farþegaþotunni,sem hrapaði í Miðjarðarhaf. Þar var sagt: ,, ... beygði hún skyndilega, fyrst um 90 gráður til vinstri, síðan 360 gráður til hægri”. Ekki er þetta orðalag að skapi Molaskrifara, - að tala um 360 gráðu beygju. Þetta var öðruvísi orðað í Speglinum um kvöldið, en þar var sagt að þotan hefði : ,, ... síðan snúist heilan hring til hægri”.

Þetta var orðað á annan veg á mbl.is, en þar sagði: ... hefði skyndi­lega beygt í 90 gráður til hægri og síðan í heil­an hring í hina átt­ina og fallið um meira en 6.700 metra áður en hún hvarf af rat­sjám í nótt.

Vélin flaug hring og sneri við. Reyndar ber þessum miðlum ekki saman um hvort þotan hafi fyrst beygt til hægri eða til vinstri. Á fréttavef BBC segir að vélin hafi fyrst beygt til vinstri. ( Panos Kammenos said the Airbus A320 had "turned 90 degrees left and then a 360-degree turn to the right".)

Í fyrirsögn á visir.is (19.05.2016) er sagt að vélin hafi brotlent. Það er villandi og rangt. Féttir benda til að annaðhvort hafi sprengja sprungið í vélinn eða henni verið grandað með eldflaug. Ekkert bendir til að flugmaður hafi verið að reyna að lenda vélinni og hún brotlent. http://www.visir.is/brak-fundid-ur-egypsku-flugvelinni-sem-brotlenti-i-nott/article/2016160518707

 

GRUNUR

Molalesandi skrifaði ((19.05.2016): ,,Ég hef lesið í minnst þremur vefmiðlum: ,,Systkinunum fór að gruna...” Í mínu ungdæmi hét það: Systkinin fór að gruna...” Hárrétt. Þakka bréfið. Algeng villa nú orðið , - því miður. Máltilfinningu og kunnáttu skortir of víða hjá þeim sem flytja okkur fréttir.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband