Molar um málfar og miðla 226

 Úr fréttum RÚV sjónvarps (22.12.2009) Samkvæmt  yfirvöldum á staðnum. Þetta er ekki boðlegt orðalag. Betra væri: Að sögn yfirvalda á staðnum.  Í sama fréttatíma var   talað um að líta á eitthvað alvarlegum augum. Þarna er  áofaukið. Rétt er að tala um að líta e-ð alvarlegum augum.

Einkennileg þótti  Molaskrifara  bókarauglýsing  sem margsinnis  var  birt   í sjónvarpi fyrir jólin.Þar var sagt  um  bók: Ég gat ekki lagt hana frá mér sársaukalaust.Aldrei  mundi Molaskrifari kaupa bók sem væri sársaukafullt  eða sárt að leggja frá sér.
Þegar við erum með bröns erum við að sjá  fleiri fjölskyldur koma.   Úr fréttum RÚV   22.  12.2009.

Í fréttum Skjás eins og mbl.is  var sagt að  innbrot  og þjófnaðir væru á uppleið !Það  var og.Líklega hefði mátt segja  að innbrotum og þjófnuðum færi  fjölgandi. Eða: Glæpatíðni eykst eins og ágætlega var sagt á mbl.is.

Hermönnum í barnahugleiðingum hótað með herrétt, segir í fyrirsögn á dv.is (22.12.2009). Verið var að tala um konur í Bandaríkjaher,sem verða þungaðar (kann aldrei  við að segja ófrískar vegna þess að ólétta er ekki veiki) meðan þær gegna herskyldu.   Að segja að einhverjum sé hótað meðherrétt ber vott um skort á máltilfinningu. Herrétti  ætti þetta að vera. Svo er  auðvitað  fráleitt aðtala  um að einhver sé í barnahugleiðingum!

Einn ölvaður á Norðurlandi, sagði í fyrirsögn í mbl.is á  aðfangadag. Aldeilis ekki óreglunni fyrir að fara nyrðra. Þetta hlýtur að hafa verið aðkomumaður.

Málvís  Molavinur sendi  eftirfarandi með elskulegri jólakveðju:  
 Má til með að láta eina RÚV-sjónvarpsfrétt fylgja:
„…kannabisplöntur voru teknar af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.„  Ætli löggan sé farin að rækta til að bæta fjárhaginn?  Þetta mun  hafa birst á Þorláksmessu.

Makalaus þolmyndarást  Moggamanna !

Úr fréttum  Stöðvar tvö á jóladag er fjallað var um Toyota Land Cruiser bíla,sem breyttt hafði verið þannig að þeir hentuðu  betur   til aksturs í  eyðimerkursandi:  Þá var sagt: Eru allir breyttir af starfsmönnum Arctic Ttrucks.   Betra hefði verið að segja að starfsmenn Arctic Trucks hefðu breytt  öllum bílunum.

Einkennileg setning á  mbl.is (27.12.2009):Engin mál stóðu þó úti af borðinu í morgunsárið.

Sjö manns í fangaklefa fyrir ölvun og óspektir,  fyrirsögn í dv.is (27.12.2009) Þar hefur  örugglega verið friður og ró með þeim sjö.

 Ekki kemur það Molaskrifara  á óvart að kröfur í þrotabú  Glitnis skuli hafa lent á Írlandi, en ekki Íslandi.  Fyrir daga tölvupósts, Árið 1983  og þar um kring voru dóttir og tengdasonur Molaskrifara við nám í Bandaríkjunum og þá var eiginlega   regla að bréf frá þeim fóru  fyrst til Írlands og svo til Íslands !  Molaskrifari dró þá ályktun af þessu að þeir sem flokkuðu  póst í Flórida  væri kannski ekki mjög vel læsir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Því er svo við að bæta að í fréttum RUV síðustu tvö dægur hefur ítrekað verið reynt að sprengja flugvél á flugi "í loft upp."

Bjarni Sigtryggsson (IP-tala skráð) 27.12.2009 kl. 12:36

2 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Takk fyrir mig. Oftar en einu sinni hef ég heyrt talað um að eitthvað sé hægt og sígandi á uppleið. Það held ég að sé ekki hægt. Sagt hefur verið að eitt og annað sé kýrskýrt. Í mínu ungdæmi þýddi kýrskýr nautheimskur. Forðum var frá því sagt að lögreglan hefði handtekið mann sem var með grunsamlega ávísun. Þá var ort:

Mér finnst lögreglan okkar aldrei treg,
ekki vil ég hana á nokkurn hátt lasta.
En úr því að ávísunin var grunsamleg
af hverju tóku þeir hana þá ekki fasta?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 27.12.2009 kl. 13:15

3 Smámynd: Gústaf Níelsson

Blaðamenn nota ekki lengur að sögn; allt er orðið samkvæmt. Þetta eru trúlega áhrif úr ensku og ritstjórar og aðrir stjórnendur fjölmiðla eru alveg hættir að leiðrétta og leiðbeina. Þessi ósiður er þó varla mikið eldri en tveggja til þriggja ára samkvæmt Fréttablaðinu, en þar hófst hann að einhverju marki að sögn og mati glöggra manna.

Gústaf Níelsson, 27.12.2009 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband