Molar um málfar og miðla 214

   

  Langbestu veðurkortin eru í veðurfréttum Skjás eins og mbl. is. Þau bera af og væru enn betri ,ef hitastiginu í Winnipeg eða Gimli í Nýja Íslandi, væri bætt inn á Norður Ameríku kortið. Tugþúsundir Íslendinga hafa tengsl við þessa staði. Þar að auki  er Siggi stormur,sem svo er kallaður, prýðilega máli farinn og kemur  spánni  skýrt og skilmerkilega til skila.  Nýleg könnun leiddi í ljós, að þessi fréttatími hefur aðeins um 1% áhorf. Fréttatíminn er stuttur og oft heldur þunnur þrettándi. Svo sem   hvorki mjög  vondur né mjög góður.  Líklega stafar þetta litla  áhorf fyrst og fremst af því að fréttatíminn hefur lítt verið kynntur og hringlað hefur verið með útsendingartíma.

  

FIFA hyggst ekki leyfa Maradonna að vera viðstaddan athöfnina , var sagt (02.12.2009) í íþróttafréttum RÚV sjónvarps. Einfaldara, betra og réttara hefði verið að segja: FIFA hyggst ekki leyfa Maradonna að vera við athöfnina.

  

Ekki er Ríkisútvarpið auralaust meðan það getur borgað Jónasi Kristjánssyni fyrir að lesa bloggið sitt nánast orðrétt á Morgunvakt Rásar tvö.


 

    Í fréttum RÚV sjónvarps (02.12.2009) var talað um að blása byrlega hjá...

Molaskrifari er vanari því heyra sagt að ekki blási byrlega fyrir e-u eða e-m, þegar er við andbyr eða mótlæti er að stríða. Má þó vera að þetta sé  einnig algengt orðalag, þótt skrifari sé því ekki kunnugur.


 
 

Svohljóðandi fyrirsögn er (03.12.2009) er á dv.is: Óttast um öryggi Polanski – færður um fangelsi. Þegar fangi er færður úr einu fangelsi í annað er ekki hægt að taka svo til orða að hann hafi verið færður um fangelsi. Það er ekki í samræmi við góða málnotkun. Þá ætti nafn Polanskis að vera í eignarfalli, - enda á -s.

   

Forsetningar geta verið erfiðar viðfangs. Í fyrirsögn á grein borgarfulltrúa í Fréttablaðinu í (04.12.2009) segir: Réttmæt gagnrýni í Magmatilboð. Hér væri eðlilegra að segja: Réttmæt gagnrýni á Magmatilboð. Hinsvegar er talað um að gera tilboð í, þegar boðið er í eitthvað.

  

Í DV (04.12.2009) er fjallað um eignarhaldsfélag, sem heitir Knerrir hf,. Knörr er norrænt skip að fornu, ætlað til flutninga og langferða. Fleirtölubeyging orðsins er: Knerrir, knerri, knörrum, knarra. Í fréttinni er talað um: 60 milljóna lánafyrirgreiðslu frá bankanum til Knerris. Líklega hefur orðið knörr,  flt.  knerrir verið blaðamanni óþekkt , því orðmyndin knerris er ekki til í íslensku máli. Þarna hefði átt að nota eignarfall fleirtölu, knarra. Í Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar segir frá afa á Knerri. Bærinn hét Knörr.


  Þá komið að vikulegum þökkum til RÚV fyrir hið merka menningarframlag, slúðurfréttir frá Ameríku, sem er fastur liður hjá umsjónarmönnum Morgunvaktar Rásar tvö á föstudögum. Í löngum Ameríkusímtölum er smjattað á framhjáhaldi fræga fólksins í Ameríku og okkur sagt frá  þeim sem kansellera túrum.  Sú ágæta kona ,sem miðlar þessum  fróðleik að vestan, er kölluð  annaðhvort Bíbí, Sísí, Dídí, Gígí, Mímí  eða eitthvað í þeim dúr !   Allt er þetta á enskuskotinni íslensku og mikill menningarauki hjá þeirri þjóðarstofnun, sem á að hafa móðurmálið í hávegum.  

Við biðjumst griða í allri einlægni !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Það er ógrynni fólks sem hefur gaman af alls kyns slúðri, bæði um íslenskt fólk/málefni og útlent.  Það er tæpast við því að amast.  Sé það aftur á móti svo að málinu sé stöðugt misþyrmt í frásögnunum, þá fer að síga brúnin.

Ég geng svo langt að ég vil að börn læri að bölva á íslensku!   Ekki ætla mér það að mér finnist nokkur maður eigi að bölva mikið, - og alls ekki börn.
Maður heyrir bara allt niður í smákrakka fá útrás eða skammast með því að segja "fökk jú" eða "sjitt". En þurfi þessa "nauðsynlega" við vil ég "pant fá" "Fjandinn!"  jafnvel "Skrattinn".   Hvort tveggja slæmt, en þurfi ég að velja

Eygló, 5.12.2009 kl. 15:39

2 Smámynd: Birgir Örn Birgisson

 Nú ætlaði ég að setja fram athugasemd varðandi viðurnefnið stormur. En svo áttaði ég mig á því að það á bara að vera stór stafur ef viðurnefnið er forliður.. :)

Í samsettum örnefnum, sem hafa sérnafn að síðari hluta, svo og mannanöfnum, sem hafa eins konar viðurnefni að forlið, skal rita stóran staf í báðum samsetningarliðum, og band skal vera milli liðanna, t.d. Syðri-Guðrúnarstaðir; Vestur-Ísafjarðarsýsla; Víga-Glúmur.

http://is.wikipedia.org/wiki/Vi%C3%B0urnefni

Svona getur maður auðveldlega lært eitthvað nýtt með því að velta fyrir sér skrifum annarra.

 Takk fyrir mig :)

Birgir Örn Birgisson, 5.12.2009 kl. 15:54

3 Smámynd: Birgir Örn Birgisson

http://is.wikipedia.org/wiki/Viðurnefni

Birgir Örn Birgisson, 5.12.2009 kl. 15:55

4 identicon

Í viðskiptablaðinu mátti lesa; AGR með góðar sölur í Bretlandi. Ekki vissi ég að orðið sala væri til í fleirtölu.

Ég hefði skrifað; AGR með góðar sölu eða góð viðskipti í Bretlandi. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.12.2009 kl. 18:47

5 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Sala er reyndar til í fleirtölu. En þarn hefði  betra  að tala um góða  sölu, - annars átta ég mig ekki á  samhenginu.

Eiður Svanberg Guðnason, 6.12.2009 kl. 19:53

6 identicon

Afsakið. Þetta átti auðvitað að vera; .....með góða sölu en ekki góðar sölu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.12.2009 kl. 20:11

7 Smámynd: Eygló

Hef aldrei séð orðið "sala" notað þanneginn í fleirtölu og finnst það þ.a.l. ljótt og/eða 'asnalegt' : ) Aðeins séð það notað í sértækri merkingu, sbr Orðab.Mennsj. "að ganga kaupum og sölum"

Eins og "gas" er notað í ft. "gös" í efnafræði t.d. (eins og það hljómar nú 'asnalega')

Eygló, 7.12.2009 kl. 00:40

8 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Fleirtöluna af sala hef ég oft  heyrt  notaða í sabmabdi við fisksölur togara okkar   í útlöndum meðan    slíkt var og hét, -  nú   svo í samsetta orðinu útsala, útsölurnar byrja venjulega eftir áramótin.

Eiður Svanberg Guðnason, 7.12.2009 kl. 09:05

9 identicon

Sammála Eygló. Mér finnst fleirtölumyndin af orðina sala ljót, þótt hún sé kannski ekki röng.

Ég myndi segja; útsala byrjar víða eftir áramótin...eða fisksala í útlöndum með besta móti.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.12.2009 kl. 09:15

10 Smámynd: Eygló

Já, ég gætti einmitt að því að segja að ég væri ekki vön fleirtölumyndinni og ÞESS VEGNA þætti mér það ljótt.  Mundi alls ekki eftir blessuðum útsölunum á þeirri stundu, enda valda útsölur mér uppsölum : )

Eygló, 7.12.2009 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband