17.11.2009 | 08:14
Gullfiskaminnið og heiðarleikinn
Þegar stjórnmálamaður fullyrðir að hann hafi ekki haft hugmynd um að Baugur hafi styrkt kosningabaráttu hans fyrir fjórum árum, um eina milljón króna þá kemur tvennt upp í í hugann. Hann heldur að kjósendur séu heimskir. Kjósendur skynja að hann er ekki eins klár og hann vill vera láta. Allavega er hann ekki minnisgóður.
Þetta minnir á að fyrir nokkrum árum fékk tilvonandi tengdadóttir ráðherra ríkisborgararétt með hraði. Alþingismennirnir, sem settu stúlkuna á hraðbraut ríkisborgararéttar, sóru og sárt við lögðu hver á fætur öðrum að þeir hefðu ekki haft hugmynd um tengsl hennar við ráðherrann. Trúlegt? Hreint ekki. Að minnsta kosti hvarflaði ekki að mér að trúa þeim.
Það veitti greinilega ekki af því að halda þjóðfund þar sem heiðarleiki var settur á oddinn, - því 122 fundargestir voru sektaðir fyrir að leggja bílum sínum ólöglega við fundarstaðinn. En ekki verður því trúað, að forsvarsmenn þjóðfundarins hafi haft samband við lögregluna til að óska eftir því að fallið yrði frá sektum.
Kannski er þetta bara Ísland í dag, eins og stundum er sagt.
Athugasemdir
Já, þetta með gullfiskaminnið, segirðu ... við erum einmitt að sjá þessa dagana hversu illa haldin Samfylkingin er af því.
Hér gengur hver á eftir öðrum fram fyrir skjöldu og þjösnast á Gísla Marteini fyrir þennan einnar milljóna styrk frá Baugi. Gísli er sagður óheiðarlegur, gráðugur, spilltur, vanhæfur, vitlaus og ég veit ekki hvað og hvað.
Fyrir nokkrum mánuðum síðan komu í fjölmiðlum fréttir um að einn þingmanna Samfylkingarinnar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, hefði þegið HELMINGI HÆRRI upphæð í styrk frá Baug. Hún þáði nefninlega tvær milljónir.
Þá þagði Samfylkingin.
Og virðist búin að gleyma þessu núna, enda illa haldin af gullfiskaminni ... ekki satt?
Hilmar Ólafsson (IP-tala skráð) 17.11.2009 kl. 08:55
Það hvarflar ekki að mér að blessa það með einhverjum hætti að Steinunn Valdís hafi þegið tvær milljópnir frá Baugi. Það er engu betra. Eiginlega hálfu verra. En sagði hún kjósendum að hún hefði ekki vitað um styrkinn?
Eiður Svanberg Guðnason, 17.11.2009 kl. 09:01
Er það ekki sýnu alvarlegra ef stjórnmálamaður tekur við styrk frá fyrirtækjum með vitund og vilja ?? Mér finnst þó örlítil afsökun í því fyrir Gísla Martein, ef satt er, að hann hafi ekki vitað frá hverjum styrkurinn kom, þar sem fjáröflun var alfarið á vegum einhvers fjármálastjóra. Það afsakar hinsvegar ekki gerninginn.
En Eiður, þú verður nú að viðurkenna að öllu alvarlegra er það ef stjórnmálamaður tekur sjálfviljugur og með fullu samþykki við styrk úr hendi stórfyrirtækis, sem nú hefur komið í ljós að hefur veitt Samfylkingunni stórkostlega styrki, svo ekki sé nú talað um siðferðisvitund eigenda þeirra er í hlut eiga ??
Þá er nú í raun fyrst hægt að fara að tala um SPILLINGU með stórum staf !!!
Sigurður Sigurðsson, 17.11.2009 kl. 20:17
Stundum er sagt að fólk hyllist til að gleyma frekar því óþægilega en því þægilega.
Það getur kannski verið skýringin í einhverjum tilfellum þó að ég hefði nú haldið að það hefði verið þægileg tilfinning í upphafi fyrir umrædda stjórnmálamenn að fá ríflegan styrk.
Ómar Ragnarsson, 17.11.2009 kl. 20:38
Þar sem ég hef allfarið verið á móti "styrkjum" (mútum?) stjórnmálamanna þá ætla ég að leyfa mér að telja upp nokkra borgaða þingmenn, sama fjárfestis. Sá fyrsti þrætti fyrir að hafað nokkurn tíman þegið sína dúsu, og varð kosningarstjórinn hans að bera ábyrgðina á "misskilningnum" þegar honum var ekki lengur stætt á að þræta fyrir. Hann er enginn annar en hrunsráðherra ráðuneytis viðskipta og bankamála, Björgvin G. Sigurðsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar. Annar hrunsráðherra og núverandi formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra þjóðarinnar var líka á "styrkjaframfærslu" Baugs manna, sem og Samfylkingarþingmennirnir Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir núverandi iðnaðarráðherra, og Róbert Marshall. Allt Samfylkingarþingmenn og ráðherrar sem vita að Baugur bíður betur. Gert eftir gloppóttu minni og mjög sennilega eru þeir eitthvað fleiri "styrkþegar" flokksins. Vonandi að minnið svíki þau ekki ef þau verði aðspurð.
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.11.2009 kl. 21:22
ég hélt að þú vissir að til þess að fjarlægja sig styrktaraðilum hafa frambjóðendur fólk á sínum snærum sem sér um peningahliðina.
Ég veit ekki betur en að þetta viðgangist í öllum flokkum.
Dylgjur ykkar í garð Gísla Marteins lýsa innræti ykkar en hafa ekkert með hann að gera.
Ómar - fékkst þú ekki 8 milljónir frá Landsvirkjun til gerðar áróðursmyndar í þína þágu.
Ólafur Ingi Hrólfsson, 17.11.2009 kl. 22:41
Ólafur Ingi, sem betur fer snertir minnisleysi Gísla Marteins okkur ekki persónulega. En það er athyglisvert fyrir þá sem höfðu hugsað sér að kjósa hann. En ósköp telur þú fólk einfalt, ef þú trúir því að þeir sem sáu um peningahliðina hafi ekki sagt Gísla Marteini að Baugur hafi gaukað að honum einni milljón króna !
Svarthöfði DV skrifar um Gísla Martein í dag (18.11.2009) og dregur hann sundur og saman í háði. Það er fróðlegt að bera þessa grein saman við sorann í grein Sverris Stormskers um Ingibjörgu Sólrúnu í Morgunblaðinu sl. laugardag. Svo segja menn að DV sé sorpblað !
Eiður Svanberg Guðnason, 18.11.2009 kl. 09:32
Þá vitum við að síðuhaldara þykir DV vera til fyrirmyndar hvað hreinleika orðs og æruvernd varðar. Og þá væntalega ritsóðinn Reynir "hljóðupptekinn" Traustason gott dæmi um ritstjóra sem aðrir ættu að taka sér til fyrirmyndar.
Athyglisvert að ekki þyki Eið mikil ástæða til að hressa upp á minni eða efast um sannleiksgildi fullyrðinga samfylkingarhrunsráðherrans Björgvins G. Sigurðssonar, núverandi formanns þingflokksinns, þegar hann að mati sennilega flestra reyndi að ljúga sig frá "styrk" meints eiganda Samfylkingarinnar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Baugsveldisins. Og hvernig var það, mundi forsætisráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir eftir sínum "styrk" frá sömu "virtu" auðrónum, frekar en þegar hún "mundi ekki eftir" sérstökum ríkisstjórnarfundi hrunsstjórnarinnarþar sem seðlabankastjórar mættu sérstaklega til að lýsa áhyggjum sínum yfir ónýtu bankakerfinu í febrúar 2008, eða laug hún?
Hugsanlega hefur aldur eitthvað með minnisleysi að gera, sem og almenn húmorsstöðnun eins og síðuhaldari og margir í grátkór fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar þjást sennilega af. Á Landsbókasafninu má örugglega finna grínefni við hæfi, sem var gefið út snemma á liðinni öld, og heitir Íslensk fyndni, og gott ef ekki var númerað frá 1. og uppúr. Síðan hefur ýmislet gerst hvað grínvitund þjóðarinnar varðar. Revíur, Alli Rúts, Baldur og Konni, Árni Tryggva og Bessi, Flosi Ólafs, Halli og Laddi, Spaugstofuhópurinn, Radíusbræður, Tvíhöfði og Sverrir Stormsker. Núna þar sem síðuhaldari er augljóslega fremur forn í gríninu, þá er ástæða til að benda honum á að sennilega er meirihluti þjóðarinnar er eitthvað þróaðri, og sér nákvæmlega ekkert athugavert við grimman húmor Sverris Stormskers, í fullkomlega mátulegum pistli sínum í Morgunblaðinu fyrir skemmstu. Látalæti og heilög vandlæting hefur ugljóslega allt með hatur til Davíðs Oddssonar að gera. Var Eiður á vaktinni þegar grínarar fjölluðu um brottnám æxlis úr Davíð Oddsyni um árið? Minnist þess ekki. Vonandi tekur Sverrir Stormsker sig til og skrifar eina háðsgrein um islensku sendiherraelítuna uppgjafa og eða ónothæfra flokksgæðinga í gegnum árið, ráðna eftir fjórflokksskiptióreglum spillingarstjórnmála sem varð þjóðfélaginu að því stórkostlega tjóni sem raun ber vitni, eins og td. einkavinavæddur óhæfur Svavar Gestsson olli þjóðinni fyrir skemmstu.
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 12:41
Nú brá mér Eiður, ertu farinn að dásama DV ??
Mér finnst nú að þú ættir að svara Guðmundi hér að ofan, hann kemur með vel rökstuddar athugasemdir en þú vitnar bara í DV.
Hvað með styrkina til krataflokksins SF ? Svaraðu nú efnislega drengur !!
Sigurður Sigurðsson, 19.11.2009 kl. 09:24
Sigurður, ég hef ekkert verið að dásama DV. Það blað tekur hinsvegar á ýmsum spillingarmálum,sem aðrir fjölmiðlar koma ekki nálægt. Ómálefniaegt raus Guðmundar hér að ofan er ekki svaravert, „að mati sennilega flestra", segir hann ! Éf hef ekkert verið að bera í bætifláka fyrir forystufólk Samfylkingar sem eins og aðrir stjórnmálamenn tóku við svívirðilega háum styrkjum stórfyrirtækja. Ég var að gagnrýna að Gísli Marteinn hefði sagt að hann hafi ekkert vitað um milljón króna styrk frá Baugi. Hann gæti allt eins sagt okkur að jólasveinninn væri til.
Svavar Gestsson stóð sig vel í starfi sem sendiherra. En Guðmundur veit líklega ekki hver það var sem beitti sér fyrir því að Svavar var skipaður sendiherra. Það var ekki þáverandi utanríkisráðherra. Svo mikið er víst.
Eiður Svanberg Guðnason, 19.11.2009 kl. 11:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.