21.10.2009 | 08:50
Molar um málfar og miðla 181
Fínn þáttur, Hrafnaþing, á ÍNN í kvöld (20.10.2009). Ragnar Önundarson talaði um efnahagsmál af skynsemi og á mannamáli. Hann setti fram athyglisverðar hugmyndir. Ingvi Hrafn spurði réttu spurninganna. Skýrar og góðar glærur. Báðum til sóma. Stjórnvöldum ber skylda til að skoða hugmyndir Ragnars ítarlega. Mæli með að áhugasamir horfi á endursýningu þáttarins.
Úr Vefmogga (20.10.2009): Þetta kemur fram í svari talsmanns konungshússins. Seinna í fréttinni segir: Það er ekkert til í þessari kenningu, segir Lene Balleby, upplýsingastjóri konungshússins. Þeim bregst ekki bogalistin í þýðingum á Mogga frekar en fyrri daginn. Hér hefur verið þýtt úr dönsku og þar hefur verið talað um kongehuset. Verið var að fjalla um Margréti Danadrottningu og flugufregnir um að hún ætlaði að afsala sér völdum og setjast í helgan stein. Þetta minnir á kryddsíldina frægu. Ætli sá sem hana skóp sé enn að störfum á Mogga? Engu líkara.
Bjarni Sigtryggsson sendi Molaskrifara eftirfarandi (18.10.2009): Fólk, sem mótmælti Icesave samkomulagi úti fyrir Stjórnarráðshúsinu í hádeginu í dag var með "megafón" sagði í hádegisfréttum RUV.
Hvað er á móti því að nota hið gamalkunna, íslenzka orð "gjallarhorn"? Já, Bjarni, það er auðvitað hið rétta orð, en sennilega var það ekki að finna í orðaforða fréttamannsins.
Bjarni talar hér réttilega um Stjórnarráðshúsið. Vinur Molaskrifara benti honum nýlega á að fréttamenn kölluðu Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg nær alltaf stjórnarráðið. Þetta fer í taugarnar mér, sagði hann því stjórnarráðið er samheiti yfir öll ráðuneytin. Þessi vinur minn vinnur í stjórnarráðinu , nánar tiltekið í utanríkisráðuneytinu. Þessi athugasemd hans er auðvitað hárrétt.
Úr Vefdv (18.10.2009) : Hún ók út af veginum nærri Skeiða- og Hrunnamannavegi sem er rétt hjá Geysi. Reynir, þessum þarftu bæði að kenna landafræði og réttritun !
Jónas Kristjánsson tvítekur í bloggi sínu (18.10.2009) Börnum okkar mundi muna um það. Jónas hefði átt að skrifa: Börn okkar mundi muna um það. Mig munar um, ekki: Mér munar um eitthvað.
Samningurinn verður endurskoðaður upp á nýtt, sagði fréttamaður RÚV sjónvarps (18.10.2009). Nægt hefði að segja að samningurinn yrði endurskoðaður. Í þessum sama fréttatíma sögðu bæði fréttaþulur og fréttamaður síðasta haust. Þetta er úr ensku og var nefnt í síðustu Molum. Á íslensku segjum við: Í fyrra haust. Þessi baktería virðist nú eiga lögheimili í Efstaleitinu.
Íþróttakaflinn í fréttum sunnudagskvöldið 18. okt. var óvenjulega amböguríkur. Eiginlega hneyksli. Dæmi:
Tóku þátt á mótinu. Átti að segja: Tóku þátt í mótinu.
Hala inn stigum. Átti að segja : Hala inn stig. Þú halar eitthvað inn, ekki einhverju..
Höfðu Kínverjar tögl og hagldir yfir aðra keppendur. Rugl. Hefði getað sagt: Kínverjar öfðu bæði tögl og hagldir í keppninni, höfðu algjöra yfirburði.
Rúsínan í pylsuendanum var svo: Adam fékk ekki að vera einn í paradís nema meðan rétt svo á leikhléinu stóð! Hér var fréttamaður að nota orðtak,sem hann kann ekki. Rétt er orðtakið: Adam var ekki lengi í paradís. Það þýðir sælan var skammvinn.
Svo kann Molaskrifari ekki að meta þann framburð ,sem ýmsir í sjónvarpinu hafa tamið sér, -segja evvvst í stað efst og tveem í stað tveim.
Ríkisútvarpið, þjóðarútvarpið ætti að hafa meiri metnað gagnvart móðurmálinu en þetta sýnir okkur.
Athugasemdir
Fyrst get ég ekki látið vera að nú þér um nasir, skilningi þínum á ,, memorendum of understanding"
Svoleiðis pappírar hafa veri gefni útí afar miklu upplagi um hvaðeina sem varðar stórframkvæmdir hér á landi og ótrúlegustu ,,samninga" og áætlanir erlendis.
Ef allir slíkir pappírar hefðu borið með sér svipaða vikt og skuldbindingu og þú gerir skóna hér fyrr á blogginu, væri vart þverfótandi fyrir álverum eystra og raunar víðar á landinu, því Jón flokksbróðir þinn, Sigurðsson fyrrum ráðherra og Seðlabankastjóri, var óþreytandi að mæta með svoleiðis pappíra og veifa mjög.
Alltaf ver ,,rétt verið að landa" álverssamningum við Elkem og svo norsk aluminium og hvað þeir allir nú hétu.
Svo kom ,,hækkun í hafi" og bullið hélt áfram.
Að allt öðru.
Mér rennur til rifja, að sjá nánast ekkert fjallað um EM fatlaðra í fjölmiðlunum.
Baugsmiðlarnir grjót halda kjafti um þessa glæsilegu uppskeru hátíð og zenit á löngu og oft afar sársaukafullum æfingaferli þeirra sem ekki eru jafnir að líkamsburðum og við sem eigum að kallast heil.
RUV hefur stuttlega minnst á þennan viðburð en MORGUNBLAÐIÐ hefur sýnt þeim virðingu EINN FJÖLMIÐLA.
Þetta sýnir best innræti og forgangsröðun þeirra sem þarna ráða fréttastofum.
Gaupi fer samviskusamlega yfir bresku deildina og allskonar öðrum erlendum iðkendum jafnvel golf í einhverri snobbdeild.
Hann minnist ekkert á yfir 700 gesti og um 400 fylgdarmenn íþróttamanna sem hingað koma til að keppa sín á milli í FYRSTA SINN Í 8 ÁR.
Dapurlegt lið og kórónar þetta umfjöllun sömu á dægurmálum hér svo sem Fjölmiðlafrumvarpinu og fl sem liðið er.
Hér eiga menn að skammast sín hefðu þeir eitthvað í brjósti sér til að stjórna slíku, í mínu ungdæmi var það nefnt,-mennska.
Hitt virðist ríkara í eðli þessa liðs, flaður og upprifning af ,,ríku" fólki sem hefur ,,auð" sinn að láni.
Það var nefnt ljótari nöfnum í mínu ,,nærumhverfi" .
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 21.10.2009 kl. 10:11
Allt e r rétt sem þú segir um Íþróttamót fatlaðra. Til háborinnar skammar en um MoU er þetta að segja:
A memorandum of understanding (MOU or MoU) is a document describing a bilateral or multilateral agreement between parties. It expresses a convergence of will between the parties, indicating an intended common line of action. It most often is used in cases where parties either do not imply a legal commitment or in situations where the parties cannot create a legally enforceable agreement. It is a more formal alternative to a gentlemen's agreement.
In some cases, depending on the exact wording, MoUs can have the binding power of a contract; as a matter of law, contracts do not need to be labeled as such to be legally binding. Whether or not a document constitutes a binding contract depends only on the presence or absence of well-defined legal elements in the text proper of the document (the so-called "four corners"). For example, a binding contract typically must contain mutual consideration—a legally enforceable obligations of the parties, and its formation must take place free of the so-called real defenses to contract formation (fraud, duress, lack of age or mental capacity, etc.).
Eiður Svanberg Guðnason, 21.10.2009 kl. 11:01
langaði að benda á skemmtilega villu
http://visir.is/article/20091021/FRETTIR01/200535316
þarna hefur blaðamanni tekist að misrita Deadly Pleasures and Mystery News sem
"Dedly Plesaures and mysteri News"
þetta hlýtur að vera djók
Magnús Axelsson, 21.10.2009 kl. 11:07
Einn úr Eimreiðarhópnum, Baldur Guðlaugsson, þá ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, skrifaði 11. október síðastliðinn undir skuldaviðurkenningu fyrir hönd íslenska ríkisins og 6,7% vexti vegna IceSave-reikninga Landsbankans í Hollandi, að sjálfsögðu að undirlagi Árna Mathiesen, þá fjármálaráðherra, og annars úr Eimreiðarhópnum, Geirs H. Haarde, þá forsætisráðherra. Og vitund þess þriðja, Davíðs Oddssonar, þá seðlabankastjóra. Sá fjórði í hópnum, klappstýran Hannes Hólmsteinn, í kjöltu þess þriðja.
En nú heldur klappstýran og aðrir sjálfstæðismenn því fram að ekkert sé að marka undirskriftir og skuldaviðurkenningar foringja þeirra.
Og skömmu áður en Baldur Guðlaugsson undirritaði skuldaviðurkenninguna að viðstöddum sendiherra Hollands fyrir hönd hollenska ríkisins, seldi hann hlutabréf sín í Landsbankanum, þar sem sá fimmti í Eimreiðarhópnum, Kjartan Gunnarsson, var bankaráðsmaður.
"Baldur [Guðlaugsson] hafði hvorki tilkynnt fjármála- né viðskiptaráðherra um þessa hagsmuni sína. Þó hefur komið í ljós að tveimur vikum áður en hann seldi hlutabréf sín hafi hann setið fund ásamt Björgvini G. Sigurðssyni og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, þar sem vandamál vegna Icesave-reikninga Landsbankans voru rædd.
Í viðtölum við Morgunblaðið og Viðskiptablaðið um tilefni þess að hann seldi hlutabréfin sagðist Baldur hafa ákveðið að selja eftir að hafa lesið um bága stöðu Landsbankans í fjölmiðlum. Hann segist hafa ráðagert í langan tíma að selja bréfin en beðið með það fram á miðjan september. Öll umræða um að hann hefði haft innherjaupplýsingar væri ásakanir af pólitískum toga."
11. október 2008 - IceSave-reikningarnir í Hollandi - Memorandum of understanding
Baldur Guðlaugsson - Wikipedia
Eimreiðarhópurinn
5. febrúar 2009: Ný ríkisstjórn tekin við og Baldur Guðlaugsson fer í leyfi úr fjármálaráðuneytinu
9. júní 2009: Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu til áramóta
Þorsteinn Briem, 21.10.2009 kl. 12:06
Ég er alveg sammála þér með framburð sumra fréttamanna. Einnig fer agalega í taugarnar á mér hversu margir segja "forsetisráðherra".
Oft eru margir á harða hlaupum með fréttirnar og romsa orðunum út úr sér í stað þess að vanda sig. Gott dæmi er "forsetsráðneytð". Þetta er áberandi í fréttum Bylgjunnar og Stöðvar 2. Menn eru svo mikið að flýta sér að romsa öllu út úr sér að það gleymist að bera heilu orðin fram og oft er þremur til fjórum orðum kreist saman í eitt óskiljanlegt orð.
Birta (IP-tala skráð) 21.10.2009 kl. 13:18
Til að ná fram „íslenskum gæsalöppum“ er Alt-lyklinum (vinstra megin við bilslá)
haldið niðri og slegin inn tala á talnaborðið hægra megin á tölvunni.
Alt + 0132 „
Alt + 0147 “
Jóhanna Geirsdóttir (IP-tala skráð) 21.10.2009 kl. 23:55
Fyrir nú utan árans "himstrakeppnina". Moggabloggið er ekki alveg á réttu róli gæsalappalega séð. Sumir sætta sig líka betur við skringilegheit í því sambandi en öðru.
Sæmundur Bjarnason, 22.10.2009 kl. 01:16
"Íslenskar gæsalappir" eru einnig notaðar í Danmörku, Þýskalandi, Lettlandi, Litháen, Tékklandi, Slóvakíu, Búlgaríu, Rúmeníu, Slóveníu, Serbíu, Hvíta-Rússlandi, Úkraínu og Rússlandi en ekki segjast þjóðir þær, sem þessi lönd byggja, nota íslenskar gæsalappir. Og segja má að hérlendis hafi skapast sú venja undanfarin ár að nota ekki "íslenskar gæsalappir".
Ég geri því lítið úr útrás "íslenskra gæsalappa", enda þótt margæsir og jafnvel mörgæsir fljúgi árlega af Bessastaðatúninu til útlanda. Aðalatriðið er að nota hér einhvers konar gæsalappir, þannig að ljóst sé að um þær sé að ræða, en sleppa þeim ekki eins og klappstýran Hannes Hólmsteinn. Slíkt flokkast undir frjálshyggju og hún hefur sett heimsbyggðina á hliðina.
"Orðið "gæsalappir" er komið af þýska orðinu "gänsefüßchen" sem er talmál, "gåsefødder" þekkist í dönsku sem tökuorð úr þýsku en algengara er að tala um "gåseøjne" eða "anførselstegn". Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um orðið "gæsalappir" er úr Stuttur leiðarvísir fyrir alþýðu til þess að skrifa íslenzku rétt og greinilega eftir Magnús Jónsson."
Gæsalappir - Wikipedia
Vísindavefurinn - Hver er uppruni "íslenskra gæsalappa"?
Þorsteinn Briem, 22.10.2009 kl. 03:35
Takk Steini.
Gæsalappalega séð er ég alveg sammála þér nema að mörgæsir fljúga ekki (er mér sagt)
Sá einmitt gæsir útí á Álftanesi fyrir nokkru og gekk bara útfrá því að um margæsir væri að ræða.
Sæmundur Bjarnason, 22.10.2009 kl. 05:08
Ég átti nú við bóndann á Bessastöðum, Sæmundur minn. Hann hefur nú flogið dáldið mikið til útlanda og farið nokkuð létt með það.
With a little help from his friends, so to speak.
Þorsteinn Briem, 22.10.2009 kl. 07:07
Steini Briem:
Hvar hefur skapast sú venja að nota ekki "íslenskar gæsalappir"?
Ég veit ekki betur en nemendum í framhaldsskólum sé kennt þetta sérstaklega í ritvinnslu þar sem gerðar eru athugasemdir í háskólum ef þeir nota ekki „réttar“ íslenskar gæsalappir í ritgerðum.
Jóhanna Geirsdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 09:20
Jóhanna Geirsdóttir. Sú venja hefur skapast hjá flestum Íslendingum að nota þær gæsalappir sem þeim finnst þægilegast að nota, í stað Alt + 0132 og Alt + 0147.
Það þarf nú ekki að gera stóra könnun hér á Netinu til að komast að þessari niðurstöðu.
Þorsteinn Briem, 22.10.2009 kl. 11:28
Steini Briem:
Sú venja að nota þær gæsalappir sem þeim finnst þægilegast að nota er af því að þeir kunna ekki að gera réttar íslenskar gæsalappir.
Sumir eru ekki góðir í stafsetningu og hafa ekki góða máltilfinningu og skrifa eins og þeim finnst þægilegast. – Það sést best á athugasemdum Eiðs um málfar og stafsetningu. Það skilst yfirleitt, en alls ekki alltaf.
Þeir sem vilja vanda ritun nota íslenskar gæsalappir. Í háskólum ber að nota þær.
Jóhanna Geirsdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 12:40
Jóhanna Geirsdóttir.
"Íslenskar gæsalappir" eru ekki til.
Íslenskur punktur er heldur ekki til.
Þorsteinn Briem, 22.10.2009 kl. 13:08
Í tungumálum skiptir venjan mestu máli. Ef fleiri segja "mér langar" en "mig langar" er ekki vitlaust að segja "mér langar".
Og sama vers með "á Dalvík" og "í Dalvík". Heimamenn og flestir aðrir segja "á Dalvík" og því er vitlaust að segja "í Dalvík".
Þannig er það nú í pottinn búið.
Þorsteinn Briem, 22.10.2009 kl. 13:25
"Íslenskar gæsalappir" eru 99 og 66 niðri og uppi. Þegar ég skrifa bloggpistla geri ég það yfirleitt í Word. Það er ekki erfitt að stilla hvernig gæsalappirnar eiga að vera. Moggabloggið aflagar þær síðan, að ég held. En mér er sama. Þegar ég skrifa athugasemdir verð ég að sætta mig við þann ritil sem þar er og nota bara gæsalappir sem líkjast gæsalöppum. (amerískar?) Gæsalappafræði er annars ekki mitt aðaláhugamál. Hef meiri áhuga á framburði íslensks máls og réttritun. Gæsalappir skiljast alltaf. Annað getur misskilist.
Sæmundur Bjarnason, 22.10.2009 kl. 13:46
Í prentaðri íslensku eru fremri gæsalappirnar niðri á línu, þær aftari uppi.
Ritvélar ráða ekki við þetta, á þeim eru "þessar gæsalappir".
Á vönduðum tölvum eru hins vegar rétt tilvitnunarmerki.
Íslenskar gæsalappir eru „svona“,
enskar gæsalappir eru “svona”.
Í eldri íslenskum ritum sést »þessi gerð«. að danskri fyrirmynd.
Þær eru notaðar í frönsku og norsku, en snúa að vísu «svona»;
í sænsku eru þær notaðar «svona«.
Heimild:
Íslenskt málfar / Árni Böðvarsson. Bls. 348 og 349
Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1992.
Jóhanna Geirsdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 14:06
Ofangreindur Árni Böðvarsson, bls. 348 og 349, þá málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins, var íslenskukennari minn í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Ég sótti um þularstarf hjá Ríkisútvarpinu og eftir að Árni hafði kannað kunnáttu mína í framburði nokkurra tungumála fékk ég starfið.
Hins vegar hafði ég nokkrum dögum áður einnig farið í próf í íslensku, dönsku og ensku, sem haldið var á vegum Morgunblaðsins vegna umsókna þar um blaðamannsstörf. Um 100 manns tóku prófið, þar á meðal allir helstu gæsalappasérfræðingar landsins. Ég var ráðinn og sleppti þularstarfinu. Prófdómari var Árni Böðvarsson, þá kominn á blaðsíðu 134. Ég var hins vegar ekki kominn með stúdentspróf.
Gæsalappasérfræðingarnir berjast á hinn bóginn enn við vindmyllurnar og Eiður Guðnason verkar upp skítinn eftir þá.
Þorsteinn Briem, 22.10.2009 kl. 14:55
Skemmtileg og fróðleg umræða um eiginlega „ekki neitt“. Ég lét núna tölvuna ráða því hvernig blessuðu lappirnar líta út; uppi, niðri, eða í miðjunni. Who cares? En án gæsilappa vil ég ekki vera. Steini Briem alltaf jafn skýr og fróður.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 19:28
Jóhanna!
Þú verður að gera þér grein fyrir því að velnefndur Steini Briem, einn manna, er þeirri náðargáfu gæddur að hafa alltaf rétt fyrir sér. Mun því lítt stoða venjulegt fólk að munnhöggvast við hann.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 16:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.