16.10.2009 | 09:34
Molar um málfar og miðla CLXXVII
Nýr fréttatími Morgunblaðsins og Skjás eins sá dagsins ljós í kvöld (15.10.2009), ef þannig má að orðið komast. Um fréttatímann er svo sem lítið að segja. Engin straumhvörf. Molaskrifara fannst hinsvegar sviðsmynd og umhverfi fréttaþularins,sem skilaði sínu ágætlega, einstaklega lítið spennandi.
Ekki heyrði Molaskrifari betur í fréttum Stöðvar tvö (14.10.2009), en fréttamaður talaði um að: ... málið verði áfrýjað. Þetta var í frétt um kröfur í þrotabú gamla Landsbankans. Hafi Molaskrifara misheyrst , er beðist afsökunar á að nefna þetta, en hafi hann heyrt rétt, er þetta afleit ambaga. Hvað segja aðrir sem hlýddu á fréttir Stöðvar tvö á miðvikudagskvöldið? Í sömu frétt var líka talað um að þjónusta kröfuhafa. Ekki er Molaskrifari sáttur við það orðalag, en það er orðið býsna algengt.
Yfirleitt er fólki boðið að koma í viðtöl í ljósvakamiðlum til að greina frá skoðunum sínum , segja álit sitt á einhverju. Það var einkennilegt að hlusta á viðtal við forseta ASÍ á Rás tvö í Ríkisútvarpinu á Morgunvaktinni (14.10.2009). Annar spyrjenda greip í sífellu í fram í fyrir þeim sem sat fyrir svörum og virtist eiga erfitt með að leyfa viðmælenda að tala út. Þetta gerist líka stundum í Kastljósi. Þegar RÚV ræður nýtt fólk til starfa í þáttum sem mikið er hlustað á og í ljós kemur að viðkomandi veldur ekki verkefninu á að bregðast við. Það er nóg af ágætu fólki innan RÚV. Þetta viðtal við forseta ASÍ var ógott.
Margir hafa stundað lýðskrum um tíðina, en Sjálfstæðisflokkurinn slær öll sín fyrri met. Þetta skrifar Jónas Kristjánsson á bloggi sínu. Hann hefði mátt geta þess, gamli Framsóknarmaðurinn, að í lýðskruminu stendur Framsóknarforystan jafnfætis Sjálfstæðisflokknum, ef ekki feti framar. Og fjölmiðlar halda áfram að bíta á úldið agnið.
Kiljan er með allra áhugaverðasta efni RÚV sjónvarps. Föstu liðirnir þykja Molaskrifara bestir. Þau Kolbrún og Páll Baldvin og Bragi Kristjónsson í sínu Rykkorni, eða ari. Maður verður alltaf svolítið ríkari eftir að hafa hlýtt á fjölfróðan Braga miðla menningarmolum,sem mikils virði er að halda til haga. Gott var (14.10.2009) að heyra hann segja í Siglufirði.
Útvarp Saga kallar sig þjóðarútvarp!! Verstu útvarpsþættir ljósvakans eru þegar útvarpsstjóri Sögu og sá sem stjórnar þætti ,sem kallaður er Rödd alþýðunnar, eru á dagskrá og taka við símtölum frá hlustendum. Það er engu líkara en þröngur hópur kverúlanta sé áskrifandi að aðgangi að þessum símaþáttum. Yfirleitt fá þeir einir að tala út sem eru sammála skoðunum þeirra sem stjórna þáttunum. Er fram líða stundir hljóta þessir þættir að verða notaðir í kennslu í fjölmiðlafræði um það hvernig EKKI á að gera útvarpsþætti. Ég opna fyrir Útvarp Sögu í von um að heyra í Sigurði G. Tómassyni og sé Guðmundur Ólafsson með honum er það eins og að fá konfekt með kaffinu eftir góða máltíð.
Svo sanngirni sé gætt þá hefur Molaskrifari stöku sinnum heyrt ágæta þætti í umsjón annarra aðila í Útvarpi Sögu, og svo eru auglýsingarnar stundum skemmtilegar, ekki síst þær sem fjalla um um allskyns Kínalífselixíra sem eiga að lækna allt milli himins og jarðar. Og svo þessi um apótekið í Laugarneshverfinu ,sem er bara fyrir konur. Eitthvað mundi Jafnréttisráð líklega segja ef auglýst væri apótek fyrir karla !
Athugasemdir
Ertu ekki að rugla saman "Rödd Alþýðunnar" og þessum hörmulega Pétri sem stundum sér um símatíma? Markús spjallar við fólk á rólegu nótunum en það er eitthvað andlegt ójafnvægi á þessum Pétri sem gargar á hlustendur ef þeir eru ekki á hans oft sjúku skoðun. Annað með þessa stöð, ég hef í þrjú skipti heyrt hlustanda spyrja "Útvarpsstjórann" hvort hún sé drukkin. Við þessu hef ég heyrt þrjár skýringar, í fyrsta skiptið var það flensa, annað skiptið nýafstaðin tannaðgerð og í þriðja skipti minnir mig að það hafi verið nýrun, hvað verður það næst?
Jóhann Pétur (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 11:53
Þetta er alveg rétt hjá þér Jóhann Pétur, þarna hefur mér orðið á í messunni. Rugludallurinn sem ég átti við og stundum gargar á viðmælendur sína heitir Pétur. Ég kem oft inn í miðja þætti og bið umsjónarmann Radda alþýðunnar afsökunar. Það er auðvitað ótrúlegur dónaskapur við hlustendur ef útvarpsmaður er ölvaður við hljóðnemann. Þetta hefur reyndað svona aðeins hvarflað að manni.
Eiður Svanberg Guðnason, 16.10.2009 kl. 13:18
Ég verð að viðurkenna að bæði Pétur og Arnþrúður heilla mig sem stórkostlega frumlegir fjölmiðlamenn, þau eru vel að sér, gagnrýnin og vel lesin. Rödd Alþýðunnar er nánast alveg laus við hávaða, en oft eru þar ágæt skoðanaskipti. Má nefna að sá ágæti heiðursmaður Njörður P. Njarðvík var þar í þætti fyrir ekki alls löngu svo og Ólafur Ísleifsson og fleiri mætti telja. Sigurður og Guðmundur eru auðvitað ágætir fyrir sinn hatt en skelfing er nú rússaröflið í þeim orðið leiðigjarnt. Útvarp Saga er sannarlega þjóðarútvarp!
Tóti (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 14:59
Svakaleg er Saga,
svínfull alla daga,
léleg milli laga,
lítinn sýnir aga.
Þorsteinn Briem, 16.10.2009 kl. 18:25
Góð tilraun Tóti/Arnþrúður.
Það hælir engin þættinum "Með vanþekkinguna að vopni" í umsjón ykkar tveggja, nema kannski þið tvö. "Svo sannarlega þjóðarútvarp" Þetta hlægir mig, ekki er það þá merkileg þjóð.
Eiður, þú verður að hlusta á fleiri auglýsingatíma, gullmolar eins og "Leitaðu sjálfur að blóði í hægðum" Kannski það verði svarið næst þegar "Útvarpsstjórinn" verður spurð hvort hún sé ölvuð "Nei nei, ég er bara með blóð í hægðum"
Johann Pétur (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 21:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.