1.10.2009 | 23:11
Molar um málfar og miðla CLXV
Gaman var að sjá Færeyinga og heyra færeysku í fréttum RÚV sjónvarps (01.10.2009). Tungumál granna okkar mætti gjarnan heyrast oftar með fréttum af því sem þar er að gerast. Samantekt fréttastofu RÚV um hrunið fyrir ári var prýðileg. í alla staði.
Ríkisútvarpið verður að svara því hversvegna netföng starfsmanna eru ekki aðgengileg á Netinu. Er verið að vernda starfsmenn frá athugasemdum frá eigendum Ríkisútvarpsins?
Þjóðinni.
Vilja menn ekki hlusta á athugasemdir ? Ríkisútvarpið er þá eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson,Björn Bjarnason og Gísli Marteinn Baldursson sem leyfa ekki athugasemdir við bloggfærslur sínar. Það er auðvitað ekki leiðum að líkjast. Svar óskast.
Helgi Seljan kom ekki að tómum kofanum hjá Steingrími J. í Kastljósi kvöldsins (01.10.2009). Steingrímur tók Helga í tíma. Með fullri virðingu fyrir Jóhönnu, þá er Steingrímur hinn sterki leiðtogi þessarar ríkisstjórnar. Um það verður eigi deilt. Ég leyfi mér að bæta því við , að hlypi hann ekki á hverjum degi og hefði hann ekki gengið frá Langanesi á Reykjanestá hefði hann ekki það úthald sem þarf í þennan ótrúlega erfiða slag við flokka sem vilja eyðileggja og rífa niður allt sem gert er og iðka lýðskrum í ríkari mæli en áður hefur verið gert.
Ríkisstjórnin hefur vanhirt tengsl við vinaþjóðir, og það væri ábyrgðarleysi að skoða ekki gaumgæfilega þetta lánaboð, þessi ummæli hefur fréttavefur RÚV eftir stjórnarþingmanni (30.09.2009). Það er ekkert til sem heitir að vanhirða tengsl. Í þessu tilviki hefði átt að segja vanrækt tengsl, því líklega er átt er við það. Ekki kann Molaskrifari heldur að meta orðið lánaboð. Heldur hefði átt að tala um lánstilboð.
Seinni fréttir sjónvarpsins hefjast svo á slaginu klukkan tíu, sagði dagskrárkynnir sjónvarpsins (30.09.2009). Þegar þessi orð voru sögð átti eftir að sýna Kilju Egils og dagskráin var þá þegar vegna Kastljóss og frétta orðin talsvert á eftir áætlun. Kilja Egils er ekki í beinni útsendingu og því ekki hægt að stytta hana i útsendingu.. Það var því öruggt að fréttir mundu ekki hefjast á slaginu klukkan tíu. Samt var hlustendum sagt að fréttir yrðu klukkan tíu. Klukkan tíu kom texti á skjáinn um að fréttir hæfust klukkan 22 05. Molaskrifari hefur lengi verið þeirrar skoðunar að þetta form dagskrárkynningar hafi fyrir löngu gengið sér til húðar. Það á gefa fallegu stúlkunum frí og hlífa áhorfendum við brosinu, sem stundum frýs og verður yfirmáta vandræðalegt, þegar tæknimaður er seinn að skipta um mynd. Þetta er tímaskekkja og með breytingu mætti áreiðanlega spara talsverða fjármuni.
Athugasemdir
Þorsteinn Briem, 2.10.2009 kl. 00:04
Þessi listi með netföngum starfsmanna RÚV var óvirkur í marga mánuði. Honum var loksins kippt í lag fyrir nokkrum dögum, eftir að ég gerði athugasemd við ástandið.
Lana Kolbrún Eddudóttir, 2.10.2009 kl. 12:22
Tölvan mín telur 414 netföng hjá RÚV. Jesúspétur. Hvað er allt þetta fólk að bauka?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 14:42
Afborganir af bifreið útvarpsstjóra um 300 þúsund krónur á mánuði
9.2.2006: „Starfsmenn Morgunblaðsins eru um 300 talsins. Menntun starfsmanna er mjög fjölbreytt: Prentsmíði, prentun, rafeindavirkjun, rafvirkjun, vélvirkjun, tannsmíði, bakaraiðn, garðyrkjufræði, förðunarfræði.“
6.2.2006: „Morgunblaðið aðhyllist frelsi í orðum og gerðum. Blaðið tengist ekki pólitískum flokki og er þar af leiðandi ekki málgagn eins eða neins. Morgunblaðið er skrifað fyrir lesendur þeim til ánægju og fróðleiks. Á ritstjórn Morgunblaðsins starfa um 150 manns.“
Þorsteinn Briem, 2.10.2009 kl. 21:22
„Morgunblaðið er skrifað fyrir lesendur þeim til ánægju og fróðleiks.“
„Kjörstaðirnir voru opnir í 15 tíma en þeim lokaði kl. 21 að íslenskum tíma.“
Kosningu lokið á Írlandi
Þorsteinn Briem, 2.10.2009 kl. 23:16
Meðalfjöldi fastráðinna starfsmanna Ríkisútvarpsins var 324 á tímabilinu 1. september 2007 til 31. ágúst 2008.
Heildarlaun og þóknanir ellefu helstu stjórnenda RÚV voru þá 112 milljónir króna og þar af voru laun útvarpsstjóra 18 milljónir króna, eða 1,5 milljónir króna á mánuði.
Heildarlaun fastráðinna starfsmanna voru 1,585 milljarðar króna og meðallaun þeirra voru því 408 þúsund krónur á mánuði. Meðallaunin voru hins vegar 392 þúsund krónur á mánuði þegar laun og þóknanir ellefu helstu stjórnenda RÚV eru ekki teknar með í reikninginn.
En fyrir utan laun útvarpsstjóra voru meðallaun stjórnendanna 783 þúsund krónur á mánuði, tvöfalt hærri en annarra starfsmanna RÚV.
Ársskýrsla Ríkisútvarpsins ohf. 1. september 2007 - 31. ágúst 2008, sjá bls. 44
Þorsteinn Briem, 3.10.2009 kl. 04:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.