Molar um málfar og miðla CLXIV

Safnað fyrir Kyrrahafseyjum,segir í fyrirsögn á Vefmogga (30.09.2009). Þessi fyrirsögn er út í hött. Ekki stendur til að kaupa Kyrrahafseyjar. Að safna fyrir einhverju er að aura saman fyrir einhverju eða spara fyrir einhverju. Það er ekki verið að safna fyrir  eyjum. Það er verið að safna fé til hjálpar fólki á  Samóaeyjum í Kyrrahafi þar sem skelfilegar náttúruhamfarir hafa átt sér stað.

 

Í fréttum RÚV sjónvarps (30.09.2009) var talað um að vinna með börn og unglinga. Molaskrifara hefði fundist eðlilegra að tala um að vinna með börnum og unglingum, eða sinna börnum og unglingum.

 

Vefmoggi skrifar (30.09.2009): Hún mun reyna að sannfæra Alþjóðaólympíusambandið um að Chicago hljóti umboð til að halda Ólympíuleikana árið 2016. Það er ekki verið að ræða um neitt umboð. Þetta er spurning um hvort Chicago fær að halda Ólympíuleikana árið 2016. Þar að auki hélt Molaskrifari að það væri svokölluð  Alþjóða Ólympíunefnd ,sem tæki þessa ákvörðun.

 

 Þessi frétt Morgunblaðsins er annars eitt endemisklúður frá upphafi til enda eins og eftirfarandi málsgrein ber með sér: Forsetafrúin vill gera allt sem í hennar valdi stendur svo rétturinn til að halda Ólympíuleikana renni ekki í skaut Rio de Janeiro. „Það er mikil vinna framundan, við tökum engu sem gefnu,“ segir Obama. Forsetinn, Barack Obama, er væntanlegur til Kaupmannahafnar á föstudag en þá fellur ákvörðun ólympíunefndarinnar. Aðrir keppinautar Chicago eru Ríó, Madríd og Tókíó.

 

 Það er nú líka hálf hallærislegt, ef  danskir fjölmiðlar hafa ekkert annað getað haft eftir bandarísku forsetafrúnni en: Ég er svo ánægð að vera hér ! (I´m so so happy to be here!) Örugglega hefur hún sagt eitthvað  fleira.

 

Af skrifum DV að dæma eru þingmenn enn í lögheimilisleik, flytja lögheimili sitt frá Reykjavík, þegar þeir eru kosnir á þing vegna þess að það kemur betur út fjárhagslega. Þetta er ekki nýtt. Þegar Molaskrifari sat á þingi fyrir nokkuð löngu uppgötvaði hann um ein mánaðamót að talsvert hærri upphæð en venjulega hafði verið færð inn á launareikning hans í bankanum. Hann hafði samband við launadeild til að vita hverju þetta sætti. Kom þá í ljós að sá sem annaðist færslurnar hafði farið línuvillt. Nýkjörinn þingmaður hafði látið það vera sitt fyrst a verk að  flytja lögheimili sitt út á land, enda þótt hann byggi og hefði lengi búið í Reykjavík og héldi ekki tvö heimili. Þetta er því gömul saga og ný og  væri þarft verk ef DV  athugaði hvort ekki væri svona ástatt um fleiri , ekki bara þingmenn heldur og ráðherra. DV á þakkir skildar fyrir að hreyfa við málum,sem aðrir fjölmiðlar koma ekki nálægt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á ekki DV þakkir skilið fyrir að hreyfa við málum.....?  ég bara spyr !

Kveðjur,

Baldvin

baldvin berndsen (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 11:47

2 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Ég held,  Baldvin, að það sé ekkert  athugavert við orðalagið að eiga þakkir skildar  fyrir e-ð sem vel hefur verið gjört.

Eiður Svanberg Guðnason, 1.10.2009 kl. 13:32

3 identicon

Þetta er ekki aðeins rétt hjá Eiði, þetta er falleg íslenska.

Balvin; "if it‘s not broken, don‘t fix it". Kv. Haukur

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 15:36

4 identicon

Við getum þá verið sammála að vera ósammála, Haukur og þú átt þá þakkir skildar að benda mér á þessa fallegu íslensku.

Kv.

Baldvin

baldvin berndsen (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 16:56

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslensk orðabók Menningarsjóðs:

Eiga eitthvað skilið - Verðskulda eitthvað.

Eiga þakkir skildar
(kvenkyn, fleirtala og þolfall af skilinn = verðskuldaður) - Eiga skilið að fá þakkir.

Þorsteinn Briem, 1.10.2009 kl. 21:04

6 identicon

Fyrir áhugamann um málfar í fjölmiðlum er þessi frétt á vísi.is nokkuð skemmtileg.

 

http://www.visir.is/article/20090929/FRETTIR02/879537922 Vísir, 29. sep. 2009 19:11 Varað við flóðbylgju vegna jarðskjálfta í Kyrrahafi

Jarðskjálfti upp á 8,3 á Richter mældist við Tsunami nú í kvöld en varað er við flóðbylgju á eyjarnar í kring. Það er Sky News sem greini frá þessu. Meðal annars er varað við flóðbylgju á Fiji eyjar og Tonga.

Vísir fylgist með í kvöld.

Ólafur (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 21:27

7 identicon

Skilinn, eiga skilið.
Eiga þakkir skildar er forn beyging í fleirtölu.
Íslenskt málfar / Árni Böðvarsson, bls. 122.

Jóhanna Geirsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 23:18

8 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Þakka góðar undirtektir.

Eiður Svanberg Guðnason, 2.10.2009 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband