Molar um málfar og miðla CLXI

 

Höskuldur Þór Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokks líst illa á .. sagði fréttamaður RÚV í hádegisfréttum (217.09.2009). Er það ekki ótrúlegt að þurfa að hlusta á svona ambögur í þjóðarútvarpinu.  Engar kröfur um gott málfar, eða hvað ? Þarna átti  fréttamaður að nota þágufall. Höskuldi Þór Þórhallssyni þingmanni Framsóknarflokks líst illa á... Mér líst illa á. Ekki: Ég líst illa á. Á vefnum AMX ( „fremsta fréttaskýringarvef landsins” að eigin sögn) segir (27.09.2009): Höskuldi Þór Þórhallsson, þingmanni Framsóknar­flokksins, líst illa á... Litlu skárra.  Hafa menn annars tekið eftir því að til þessa þingmanns heyrist næstum því í öðrum hverjum fréttatíma um þessar mundir en ekki heyrist hósti né stuna frá formanni flokksins. Hvað er á seyði ?  

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra situr á stífum fundarhöldum í dag til að ræða aðgerður í þágu heimilanna. Er skrifað í Vefvísi  (27.09.2009) Það er málleysa að tala um að ráðherra sitji á stífum fundarhöldum. Segja mætti: Fundar stíft, eða fundar í allan dag. Villan í orðinu aðgerðir hlýtur að vera innsláttarvilla. 

 Einhverjir velta því líklega fyrir sér hverskonar flokkur Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn. Frambjóðandi í formannskjöri í ungliðasamtökum flokksins tekur á leigu heila farþegaflugvél til að fljúga með atkvæði til Ísafjarðar þar sem þing samtakanna var haldið. Atkvæðin fljúgandi tóku ekki þátt í störfum þingsins. Komu bara til að kjósa. Ekki veit ég á hvað þetta minnir, en víst er að engin er kreppan á þeim bænum. Þetta hljómar eiginlega eins og frásögn úr mafíupólitík í Ameríku.  

Fimmtíu mannns  deyja vegna flóða á Fillippseyjum  segir Vefvísir (26.09.2009). Betra væri að segja: Fimmtíu manns  deyja í flóðum. Svo heitir þetta ríki ekki Filippseyjar heldur Filippseyjar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sagði upp áskrift að Mogganum fyrir nokkrum árum vegna metnaðarleysis hjá ritstjórninni. Ég er ekki einn þeirra sem taka afstöðu fyrirfram til þróunar blaðsins með tilkomu nýs ritstjóra. Hitt er víst að ég festi mér ekki áskrift að nýju á meðan fréttir eru sagðar á þennan undarlega máta. Ekki einasta verður fyrirsögnin óskiljanleg af því að kommu vantar, heldur hallar mjög undan fæti eftir því sem fram vindur:

BJÓÐAST TIL AÐ BORGA RÁÐI McLAREN RÄIKKÖNEN. Orðrómur um framtíð Kimi Räikkönen og Fernando Alonso skrúfaðist upp, ef eitthvað er, í Singapúr um helgina. Liðsstjóri Ferrari, Stefano Domenicali, viðurkenndi að „staða þeirra hefði breyst . . . síðustu tvo dagana.“

Fimmta valdið (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 21:47

2 identicon

Þetta er orðið svo makalaust hvernig fréttamenn RÚV klæmast á móðurmálini dag eftir dag og oft á dag. 

Það dugar ekki að senda þeim skeyti með ábendingum því það hefur ekkert að segja. 

Ég legg til að gripið verði til aðgerða og það tafarlaust.

Er ekki Hollvinafélag RÚV einhvers staðar?  

Útvarpsráð ? 

Menntamálaráðuneytið?

Þarf kröfugöngu og málningu til að stjórnendur stofnunarinnar átti sig á hverslags hryðjuverk starfmenn fréttastofunnar og sumir þáttastjórnendur vinna málinu?

Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 00:09

3 Smámynd: Eygló

... og enn heyrir maður oft óbeygt orðið "dóttir".  Afar óheppilegt þar sem þetta orð þarf að nota sé nafngreind næstum hálf þjóðin.  Bróðir er annað svipað en sjaldan notað, svo maður verður ekki eins arfaæfur.

Eygló, 28.9.2009 kl. 03:44

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

"Svo heitir þetta ríki ekki Filippseyjar heldur Filippseyjar."

Hmmmm? 

Jón Steinar Ragnarsson, 28.9.2009 kl. 17:10

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hef annars meiri áhyggjur af þessum manni sem ráðist var á með exi, eins og kom fram í fréttum dagsins. Aldrei fyrr hef ég heyrt um að bókstaf væri beitt við líkamsárás.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.9.2009 kl. 17:14

6 Smámynd: Eygló

JSR Gott þú komst með morðstafinn, ég er viss um að ég hef sagt þetta svona, allavega einhvern tíma, held ég myndi ekki skrifa það.  Mér finnst þetta hljóma svo prýðilega :)

Eygló, 29.9.2009 kl. 00:32

7 Smámynd: Eygló

JSR  Já, sæll!  Varstu að stríða okkur, skepnan mín?

http://bin.arnastofnun.is/leit.php?q=exi

Eygló, 29.9.2009 kl. 00:37

8 identicon

Svo heitir þetta ríki ekki Filippseyjar heldur Filippseyjar.

Hver er munurinn?

Kvedjur,

Gunnar Benediktsson, Stokkhólmi

Gunnar Benediktsson (IP-tala skráð) 30.9.2009 kl. 00:21

9 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Réttmætar eru athugasemdir við Filippseyjar. Mér mistókst að skrifa villuna „rétt" og hef greinilega ekki lesið nógu vandlega yfir.

Eiður Svanberg Guðnason, 30.9.2009 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband