26.9.2009 | 20:26
Molar um málfar og miðla CLX
Molar CLXRíkisútvarpið heldur áfram að leggja íslenskri tungu lið. Bröns á sunnudaginn, Hótel Hérað. Þannig hljóðaði auglýsing ,sem Ríkisútvarpið flutti okkur hlustendum (26.09.2009). Hótel Loftleiðir byrjaði að auglýsa þessa smekkleysu. Nú glymur þetta í eyrum kvölds og morgna. Það er atlaga gegn tungunni að festa þetta orðskrípi, þessa slettu, í sessi. Samtímis er svo tönnlast á tax free helgum í Smáralind og Kringlunni. Ríkisútvarpið kann ekki að skammast sín.
Sannarlega var ánægjulegt hve vel gekk að safna fé fyrir Grensásdeild. Molaskrifara fannst hinsvegar ósmekklegt að grínast með fólk í hjólastólum. Það var eitthvað hallærislega ófyndið við það , einmitt í þessum þætti og raunar alltaf. Gaman var að sjá myndir í fréttum frá Jan Mayen, þessari granneyju okkar. Þar hefur verið gerð ein flugbraut þar sem Herkúlesflugvélar norska hersins geta lent. Þangað kom Molaskrifari 1997. Undirlendi er þarna ekki mikið. Á Jan Mayen er líka hæsta eldfjall Evrópu, Beerenberg (2.277 m). Það minnir á sig með reglulegu millibili, síðast 1985. Á flugbrautinni eru tvær bungur. Norðmennirnir á staðnum kalla flugvöllinn Jane Mansfield ! Segið þið svo að Norðmenn hafi ekki húmor!
Ágætt væri ef fréttastofa RÚV gerði það upp við sig hvernig fara skuli með fyrirtækisheitið Exista. Það er upp og ofan hvort það er beygt eður ei, jafnvel í sömu frétt hjá sama manni. Molaskrifari er á því að rétt sé að beygja orðið, en um það má auðvitað deila.
Illa gengur fréttamönnum,sumum hverjum, að bera rétt fram heiti bandaríska ríkisins Arkansas. Í fréttum Stöðvar tvö (26.09.2009) var þetta borið fram með sterku ess-hljóði í endann. Réttur framburður er frjálslega skrifað arkanso. En svo Molaskrifari gerist nú algjörlega ósamkvæmur sjálfum sér, þá saknar hann þess að heiti borgarinnar (og knattspyrnuliðsins) Hull, skuli nú í íþróttafréttum borið fram Höll, sem auðvitað er réttur enskur framburður, en hið íslenska heiti þessarar borgar hefur í áratugi verið Húll. Þar seldu íslenskir togara afla sinn á árum áður, þegar Hull og Grimsby voru þekkt staðarheiti á Íslandi.
Þá er hvalvertíðinni lokið og hægt að fara að hlakka til að hafa rengi á borðum upp úr áramótunum. Gaman hefði verið að geta keypt langreyðarkjöt í verslunum. Hef hvergi séð það. Veiddar voru 125 langreyðar og það gerðist ekkert. Nákvæmlega ekkert. Engin mótmæli , og síaukin aðsókn er að hvalaskoðunarferðum, segja þeir sem þá starfsemi stunda. Áfram Kristján Loftsson !
Athugasemdir
Einhverra vegna féllu greinarskil burt , er ég flutti þetta úr word forritinu yfir á bloggsíðuna. Reyni aftur.
Eiður Svanberg Guðnason, 26.9.2009 kl. 20:27
Íslenskt hrefnukjöt er eingöngu selt hérlendis, það kemur í stað kjöts frá íslenskum bændum og veiðarnar eru einungis um 0,1% af stofninum, um 67 hrefnur af um 56 þúsund dýrum, samkvæmt talningum Hafrannsóknastofnunar.
Hrefnuveiðar hér eru því engan veginn þjóðhagslega hagkvæmar.
Einungis var búið að veiða 67 hrefnur 11. september síðastliðinn og veiðunum átti að ljúka í þessum mánuði en leyfilegt er að veiða 200 hrefnur í ár. Eftirspurnin er því varla mikil og verðið þarf að sjálfsögðu að standa undir meðal annars launum og olíukostnaði. Veðrið hefur nú ekki verið svo slæmt hér í sumar að ekki hafi verið hægt að veiða 200 hrefnur.
Félag íslenskra hrefnuveiðimanna
Veiðar á langreyði hér eru einungis um 0,4% af stofninum, 125 langreyðar af um 35 þúsund dýrum, og þar að auki eru langreyðar ekki hér við land nema hluta ársins. Langreyðar eru því alþjóðlegur stofn.
Vísindavefurinn - Fjöldi hvala hér við land
Hvalatalningar Hafrannsóknastofnunar
Langreyðarkjöt er eingöngu flutt til Japans en Japanir veiða sjálfir langreyði og hrefnu. Mikið magn af langreyðarkjöti héðan getur því lækkað töluvert verð á hvalkjöti þar. Japanskir hvalveiðimenn eru vart hrifnir af því. Og leyfi þarf til innflutnings á hvalkjöti til Japans, sem gæti verið afturkallað hvenær sem er, bæði vegna þrýstings innanlands í Japan og frá til dæmis Evrópubandalaginu, sem höfundur þessa bloggs vill að Ísland gangi í sem fyrst.
Þorsteinn Briem, 27.9.2009 kl. 00:43
Evrópusambandinu (ESB) átti þetta nú að vera (en ekki Evrópubandalaginu).
Þorsteinn Briem, 27.9.2009 kl. 00:52
Til fróðleiks:
Undir tenglinum: http://www.jan-mayen.no/ og frá hliðartenglinum þar Geology - má lesa eftirfarandi, og skoða ljósmyndir frá eldgosi á Jan Mayjen 1970-1971
"The 1970 eruption began on September 18 and continued to January, 1971. Intense storms hid the onset of the eruption. A commercial pilot spotted the eruption cloud on September 20.
It was the only historic eruption witnessed in modern times. The eruption was large, erupting at least 0.5 km³ of basalt from a 6 km long fissure that ran from sea-level to an elevation of 1,000 m. There were at least five active craters."
Steingrímur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 01:24
Visir.is. Brotist var inn í húsnæði í Breiðholti í nótt og stolið þaðan handverkfærum. Handverkfæri. Þetta orð þekki ég ekki. Eru til fótverkfæri?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 10:38
Auðvitað átti að segja að verkfærum hefði verið stolið. Þetta orð hefur svo sem sést áður. Skrifara varð fótaskortur á ritvellinum.
Eiður (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 11:12
Um 80% af heildarverðmæti fiskútflutnings okkar Íslendinga fer til Evrópusambandslandanna en þetta hlutfall var um 65% fyrir 14 árum. Og langflestir erlendir ferðamenn, sem hingað koma, búa í þessum löndum, þannig að við Íslendingar lifum fyrst og fremst á Evrópusambandslöndunum.
Landssamband íslenskra útvegsmanna- Icelandic fisheries in figures
Ferðamálastofa - Erlendir gestir um Leifsstöð 2002-2009
Álið, sem hér er framleitt, fer einnig að stórum hluta til Evrópu. Rio Tinto Alcan á Íslandi: „Nánast allt álið (97%) er flutt til Rotterdam, þaðan sem það er flutt til viðskiptavina okkar í Þýskalandi og Sviss [sem er í EFTA].“
Þorsteinn Briem, 27.9.2009 kl. 18:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.