25.9.2009 | 20:25
Molar um málfar og miðla CLIX
Það er fínt hjá fréttastofu RÚV að rifja upp atburði í aðdraganda hrunsins í fyrra. Það rímar líka ágætlega við það sem er að gerast þessa dagana.
Líklega er Ríkisútvarpið eini fjölmiðillinn,sem er svo vel í stakk búinn að hafa sérstakan slúðurfréttaritara á vesturströnd Bandaríkjanna. Mikilvægt er fyrir okkur hlustendur að geta fylgst með framhjáhaldi og óléttum þar vestra. Tala nú ekki hver er að deita hvern eins og það var orðað (25.09.2009) í morgun. Umsjónarmenn Morgunútvarps Rásar tvö eiga heiður skilinn fyrir að rækja menningarhlutverk Ríkisútvarpsins af einstakri alúð og kostgæfni. Það er ekki öllum gefið.
...... auk þess sem starfsmenn tollstjórans lagði hald á nokkuð magn ólöglegs varnings.Svo segir í Vefmogga (24.09.2009). Ærið oft skort á samræmi milli frumlags og sagnar. Starfsmenn tollstjórans lögðu hald á nokkurt magn ólöglegs varnings. Meira úr Vefmogga (25.09.200): ...auk starfsmanna Carabbien Crusise Lines á Bretlandi sem munu sinna hlutverki skemmtiferðaskips sem rekst á grynningar í Norður-Atlantshafi. Molaskrifari á erfitt með að sjá það fyrir sér að starfsmenn sinni hlutverki skemmtiferðaskips, skip rekast ekki á grynningar, þau sigla upp á grynningar og síðast en ekki síst er orðið Carabbien rangt skrifað, rétt mynd orðsins er Caribbean, Crusise er líka rangt skrifað. Rétt er Cruise. Snjallir menn á Mogga. Kannski var blaðamaðurinn að hugsa um eitthvað annað, þegar þetta var skrifað.
Við berjum niður verðið, segir í heilsíðuauglýsingu Húsasmiðjunnar (25.09.2009) í Fréttablaðinu. Þetta er ágætt slagorð. Sömuleiðis er lagersala gott orð í þessari sömu auglýsingu. En slæmt er þegar beygingarvilla er í setningu sem nær yfir þvera síðuna: lagersala í Skútuvogi lýkur um helgina. Þarna ætti að standa: Lagersölu í Skútuvogi lýkur um helgina.
Netfangaskrá starfsmanna RÚV er ekki lengur aðgengileg á vef RÚV. Hvað skyldi valda því? Fróðlegt væri að fá svör við því. Netfangaskrá starfsmanna Morgunblaðsins er aðgengileg á netinu. Þar er þó ekki að finna netföng hinna nýju ritstjóra Davíðs og Haraldar.
Annars telur Molaskrifari að brandari dagsins í gær (24.09.2009) hafi komið frá fyrrverandi skemmtikraftinum Gísla Marteini, þegar hann tilkynnti hátíðlega að hann hefði gerst áskrifandi að Morgunblaðinu og fleiri nýir hefðu bæst við en sagt hefðu blaðinu upp. Ætlast hann til að fólk trúi því að borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi ekki keypt Moggann? Ekki þætti Molaskrifara ólíklegt að borgarfulltrúinn hafi fengið blaðið heimsent á kostnað borgarbúa. Meiriháttar sýndarmennska. Gísli Marteinn er einn þeirra sem ekki leyfir athugasemdir við það sem hann skrifar á netinu.
Athugasemdir
Villurnar í frétt af fréttavef Morgunblaðsins um skemmtiferðaskipið eru ekki afsakandi. Hefðu þær verið í frétt sem skrifuð var í gær mætti taka til greina fjöldauppsagnir og uppnám í kringum þær.
En með því að lesa fréttina sést að hún er unninn upp úr tilkynningu. Sú tilkynning fer hér á eftir:
Föstudagur 25. september 2009
Danska varðskipið Hvidbjörnen liggur nú samsíða norska varðskipinu Andernes við bryggju að Ægisgarði í Reykjavík en skipin eru stödd hér á landi í tilefni af árlegum fundi forstjóra strandgæslna í Norrænu löndunum, Nordic Coast Guard og aðalfundi North Atlantic Coast Guard Forum (NACGF), samtökum strandgæslustofnana á Norður Atlantshafi en fundirnir verða haldnir á Akureyri í næstu viku. Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar hefur annast formennsku í samtökunum NACGF síðastliðið ár en um áttatíu manns frá tuttugu aðildarþjóðum sækja fundinn sem haldin verður á hótel KEA.
Umfangsmikil björgunaræfing fer fram í tengslum við aðalfund NACGF en þátttakendur í henni verða norska varðskipið Andernes, danska varðskipið Hvidbjörnen, varðskip Landhelgisgæslunnar, þyrla og eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, starfsmenn ýmissa stofnana og samtaka sem eru í áhöfn Samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð, Vaktstöð siglinga / Stjórnstöð LHG, starfsmenn bandarísku strandgæslunnar, björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar við Eyjafjörð auk starfsmanna Carabbien Crusise Lines á Bretlandi sem munu sinna hlutverki skemmtiferðaskips sem rekst á grynningar í Norður-Atlantshafi.
Fyrir Íslands hönd sitja fulltrúar Landhelgisgæslunnar fundinn , en að auki koma meðal annars fulltrúar frá Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Utanríkisráðuneyti, Ríkislögreglustjóra, Varnarmálastofnun og Umhverfisstofnun.
Landhelgisgæslan var einn af stofnfélögum samtakanna en að þeim standa tuttugu stofnanir sem annast strandgæslustörf þjóðanna sem þau tilheyra. Þessar þjóðir eru; Belgía, Bretland, Bandaríkin, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Holland, Ísland, Írland, Kanada, Litháen, Lettland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rússland, Spánn, Svíþjóð og Þýskaland. Í mörgum tilvikum eru þetta sjóherir landanna, í sumum tilvikum strandgæslur sem heyra undir sjóherina og í enn öðrum sérstakar strandgæslustofnanir.
Tilgangur samtakanna er að greiða fyrir samvinnu ofangreindra stofnana. Í því felst meðal annars að samtökin munu leitast við að skiptast á skipaumferðarupplýsingum, bæði hvað varðar fiskiskip sem og önnur skip, þ.á.m. olískip og skip sem grunuð eru um ólöglegt athæfi á einn eða annan hátt. Einnig samstarf á sviði leitar og björgunar, almenns eftirlits á hafinu, þjálfunar, tæknilegra upplýsinga og svo mætti lengi telja. Samtökin eru í raun stofnun til að gæta að auknu öryggi á Norður Atlantshafi en allir þeir undirþættir sem samtökin starfa að, geta í raun fallið undir það sem erlendar stofnanir á þessu sviði nefna „Maritime Security“.
Tilkynningin kemur frá Landhelgisgæslu Íslands.
Burtséð frá því hvaðan tilkynningin kemur ætti hvaða blaðamaður sem er, með örlitla máltilfinningu og kunnáttu í ensku, að sjá villurnar.
Ak54 (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 21:09
Hér eru villurnar „legíó" eins og þar stendur.
Eiður Svanberg Guðnason, 25.9.2009 kl. 21:31
RÚV er mín eign og þín; okkar (hélt ég)
Starfsmenn þar vinna fyrir mig (og hina)
Vilji ég hafa samband við starfsfólk mitt (og ykkar), hvort sem það er til að færa þakkir, hrósa, gera athugasemdir eða kvarta, finnst mér ólíðandi að ná ekki til þeirra á auðveldan hátt.
Alþingismenn (þ.m.t. ráðherrar?) gefa þó færi á sér með því að birt eru netföng þeirra. Hef einu sinni lýst ánægju minni við alþm. (fékk svar) Einu sinni bent á bull sem gekk meðal margra þingmanna og almúgans líka (fékk flott viðbrögð) Sendi fyrirspurn, ekki alls fyrir löngu, (engin viðbrögð, sýni umburðarlyndi vegna ástandsins; um svo margt að hugsa)
Rúv sendi ég (fékk svar málfarsráðgjafa)
Flott mynd af þér á Fb
Eygló, 25.9.2009 kl. 21:39
Vel af sér vikið Eygló. Þér tekst að koma fyrir 8 svigum í þessum stutta texta.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 07:02
Haukur, hún Eygló minnir ætíð á flísina og bjálkann.
Yngvi Högnason, 26.9.2009 kl. 08:58
Gott að fá athygli, þótt ekki sé nema af endemum. Haukur ég er með meistarastig í stórsvigi.
Yngvi, hef ég verið ókurteis? Of dómhörð? Er flísin í mínu auga eða... Mér þykir vænt um að fá leiðréttingar og athugasemdir því ekki er hægt að laga hegðun sína ef maður veit ekki upp á sig sökina. Til þess þarf maður að vita hvað maður hefur gert.
Með vísan í netfangaskrána þóttist ég taka undir með síðuhöfundi, svo eitthvað annnað hef ég gert af mér
Vinur er sá er til vamms segir (hinir eru fúlir á móti) svigi!
Eygló, 26.9.2009 kl. 14:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.