24.9.2009 | 21:09
Molar um málfar og miðla CLVIII
Það var drottningarsvipur yfir viðtali Sigmars við Óskar Magnússon (24.09.2009) í Kastljósi. Sigmar getur gert miklu betur en þetta. Með ólíkindum var umfjöllun Kastljóss um Ragnar Önundarson. Reynt var að rýja hann öllu trausti og honum ekki gefinn kostur á að verja sig. Man varla eftir að hafa heyrt nafngreindan einstakling tekinn fyrir með þessum hætti án þess að honum gæfist tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér. Þetta voru hvorki fagleg né vönduð vinnubrögð. Þetta var fúsk.
Uppsagnir starfsfólks hafa verið hjá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, í dag.Svona er tekið til orða í Vefmogga (24.09.2009): Molaskrifara finnst þetta ánalegt orðalag. Betra hefði verið að segja: Í dag hefur Árvakur,útgáfufélag Morgunblaðsins, sagt allmörgum starfsmönnum upp störfum. Seint hefði maður trúað því að Mogginn ræki út starfsmenn, sem unnið hafa blaðinu af samviskusemi og trúnaði í áratugi, fólk sem hefur helgað blaðinu meginhluta starfsævinnar eða nær alla starfsævi sína. Það er illur gjörningur, en lengi skal manninn reyna eins og þar stendur.
Það er svolítið þreytandi til lengdar að vera sífellt að fjalla um sömu hlutina í þessum Molum. Hagkaup er með opnuauglýsingu (24.09.2009) í Fréttablaðinu. Þar eru auglýstir með stríðsletri: Risa Tax freedagar. Í þremur klausum á síðunni er sagt að Hagkaup afnemi virðisaukaskatt af tilteknum vöruflokkum. Þetta eru ósannindi. Hagkaup hefur ekki leyfi til að selja vörur án virðisaukaskatts til almennra viðskiptavina. Fyrirtækið getur hinsvegar veitt afslátt sem nemur skattprósentunni. Þetta hefur verið margsagt hér. Hversvegna þarf Hagkaup að tala við okkur á ensku og hversvegna þarf þetta annars um margt ágæta fyrirtæki að segja okkur ósatt?Ríkisútvarpið heldur áfram að brjóta sína eigin reglur, því þar glymja í hádeginu (24.09.2009) auglýsingar frá IKEA um tax free helgi. Ekki vissi Molaskrifari að virðisaukaskattur væri lagður á helgarnar.
Önnur auglýsing sem vakti athygli Molaskrifara (24.09.2009) er í Morgunblaðinu. Hún er frá fyrirtækinu Hygeu. Þar stendur stórum stöfum: Trust your eyes to the experts, og svo með smærra letri: Sérfræðingar í augnkremum. Enskan er sem sé aðalatriðið. Þetta fyrirtæki auglýsir líka Tax free daga. Það er eins og sumir íslenskir kaupahéðnar finni hjá sér sérstaka þörf til að spilla tungunni með því að festa í sessi sletturnar Tax free og outlet. Ekki til sóma.Svolítið meira um morgunútvarp Rásar tvö: Í löngu viðtali við Gylfa Arnbjörnsson (24.09.2009) sagði hann tvisvar og vitnaði í þrjár mismunandi kannanir að 18-20% þjóðarinnar væri í verulegum vanda og tíu þúsund heimili í mjög alvarlegum vanda. Nokkru síðar sagði annar umsjónarmanna: Stór hluti þjóðarinnar er að verða gjaldþrota. Gylfi sagði: Það er rangt og nefndi sömu tölur aftur. Umsjónarmaðurinn hafði greinilega ekkert hlustað á það sem Gylfi var að segja. Hinn umsjónarmaðurinn spurði Gylfa með mikilli óþolinmæði í röddinni: Hvenær ætlið þið að grípa til einhverra aðgerða? Það kom greinilega svolítið á Gylfa því hann spurði hvort átt væri við verkföll. Svaraði síðan af yfirvegun að slíkt kæmi ekki til fyrr en í síðustu lög. Molaskrifari fékk á tilfinninguna að umsjónarmaðurinn væri eiginlega að biðja um hasar. Ekki til fyrirmyndar. Það á að gera meiri kröfur en RÚV gerir til umsjónarmanna morgunútvarps Rásar tvö.
Athugasemdir
Þetta er því miður ekkert einsdæmi á okkar annars ágæta RÚV, þar eru og hafa lengi verið fréttamenn sem vilja helst af öllu hasar. Og það er heldur ekki nýtt að fólk virðist ekki hlusta á viðmælandann; kannski var þáttastjórnandinn að upphugsa næstu spurningu? En það er rétt hjá þér að þetta er alls ekki nógu gott - og það þarf að gera gangskör að því að neyða auglýsendur (og auglýsingafólkið) til þess að tala íslensku; þessi enskuskytningur er með öllu óþolandi.
Þorgrímur Gestsson, 24.9.2009 kl. 21:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.