11.9.2009 | 20:30
Molar um málfar og miðla CXLVIII
Á Bolungarvík,sagði fréttaþulur RÚV sjónvaps (10.09.2009) í tíufréttum. Þeir Bolvíkingar ,sem Molaskrifari þekkir, segja í Bolungarvík, jafnvel bara í Víkinni. Hvað segja lesendur Mola ?
Hún er háskalega smitandi nútíðar-nafnháttarsýkin. En þessi ríkisstjórnin er ekki að standa sig. Þetta skrifar bloggari, (10.09.2009) hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi þingmaður. Hann ætti að vita betur.
Það er óþarft latmæli, eins og nefnt hefur verið hér áður, að tala um árið níutíu og sjö eins og gert var í sex fréttum RÚV . Í kynningu á efni Spegilsins var okkur sagt að unnið væri hörðum höndum að fjárlagagerð. Molaskrifari á alltaf erfitt með að sjá fyrir sér að skrifstofustörf séu unninn hörðum höndum. En fátítt er orðið að heyra sögnina vinna notaða í fréttum án þess að tekið sé fram að unnið sé hörðum höndum. Í Helgarsportinu í RÚV sjónvarpi var sagt frá ungum hollenskum hjónum, sem eru að endurbyggja, eða gera upp gamalt hús á Þingeyri. Þau vinna að því hörðum höndum. Þar var vel til orða tekið að mati Molaskrifara. (11.09.2009).
Áfram heldur RÚV purkunarlaust að auglýsa bjór undir yfirskini léttöls.Í kvöld (10.09.2009) voru bjórauglýsingar á undan og eftir tíu fréttum. Það er til skammar að fyrirtæki í þjóðareigu skuli með þessum hætti fara á svig við lögin og misbjóða stórum hópi eigenda sinna.
Ekki linnir aulaflissinu í morgunútvarpi Rásar tvö. Þar segja menn líka: Ég vill ! (11.09.2009) Annars færði Molaskrifari sig yfir á Rás eitt , þegar umsjónarmenn tilkynntu að hringt yrði til Los Angeles og þaðan yrði lesið upp úr slúðurblöðum. Ef fréttaþáttur RÚV að morgni dags hefur ekki verðugri viðfangsefni, þá er ástæða til að ræða hvort hann á rétt á sér. Skrifara skildist að sá lestur ætti meðal annars að fjalla um óléttur. Seint verður sagt að mikil reisn sé yfir Rás tvö á morgnana.
Athugasemdir
Í Bolungavík hljómar eitthvað betur. En hvernig er með Bolunga(r)vík. Ef þetta er dregið af "bolungur" af hverju er það þá ekki Bolungavík?
"Þegar hann er bruggaður, þegar hann er meðhöndlaður og þegar hans er neytt, er ætíð krafist virðingar" Mér finnst vanta; þegar honum er ælt eða pissað upp við vegg, er ætíð krafist virðingar.
Geri mér ekki grein fyrir hvort réttara sé að nota fh. eða vth.: "þá er ástæða til að ræða hvort hann á rétt á sér". Ég segði þarna "eigi rétt á sér" Er það meinloka?
Hlustaði á lag með Bubba í dag. Hafði ekki heyrt áður. Hann söng a.m.k. þrisvar (viðlag/millikafli): "...þegar mig kennir til..." Hrikalegt þegar söngtextar eru steyptir vitlausir ofan í okkur, sérstaklega börn og unglinga, sem hlusta og herma eftir.
Eygló, 11.9.2009 kl. 21:15
Bolvíkingurinn Ásgeir heitinn Jakobsson hélt sig við Bolungavík, enda víkin kennd við rekavið - bolunga.
Bjarni Sigtryggsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 22:14
„Varðandi kaupstaði og bæi fer það nokkuð eftir landshlutum hvað tíðkast. Á Suður- og Vesturlandi er í algengast, til dæmis í Hveragerði, í Grindavík, í Sandgerði, í Garði, í Keflavík, í Hafnarfirði, í Kópavogi, í Reykjavík, í Borgarnesi, í Stykkishólmi, í Ólafsvík. Undantekning er á Akranesi.
Á Norðvestur- og Norðurlandi er á algengast, til dæmis á Ísafirði, á Hólmavík, á Sauðárkróki, á Blönduósi, á Akureyri, á Dalvík. Hins vegar er sagt í Bolungarvík og í Súðavík.“
Vísindavefurinn: Hvar er notað í og hvar á í bæjarnöfnum sem enda á -vík?
„Víkur með þessu nafni eru kenndar við svera trjáboli, bolunga, sem rekið hefur á land. Eðlilegra þætti ef til vill að kenna þær við marga bolunga og hafa þá nafnið án –r-, Bolungavík. En í Landnámabók er Bolungarvík við Ísafjarðardjúp nefnd svo og þykir því rétt að hafa þá nafnmynd. Eðlilegt er að rita Bolungarvík á Ströndum einnig svo.“
Vísindavefurinn: Hvers vegna heitir Bolungarvík þessu nafni?
Þorsteinn Briem, 11.9.2009 kl. 22:55
Hvar er notað í og hvar á með bæjarnöfnum sem enda á -vík?, átti þetta nú að vera.
Dalvíkingar segja á Dalvík en ekki í Dalvík og þar er talað um að fara fram í en ekki inn í Svarfaðardalinn.
Þorsteinn Briem, 11.9.2009 kl. 23:09
Smá innskot
Í Fjallabyggð, er málvenja ólafsfirðinga að segja „í Ólafsfirði“ en aftur á móti segja Siglfirðingar „á Siglufirði.“
Málvenjur í heimabyggðum, hljóta að vera jafn réttmætar sem og einhverjar orðabækur, sem ef til vill segja annað.
Er það ekki?
Steingrímur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 00:31
Enn í þráhyggjunni. "bolungur" er kk. ekki satt. Mörgum okkar þykir rökrétt að tala um Bolungavík.
Landnáma sagði annað "Bolungarvík"
Væri þetta í flt. > > > Bolunga-
væri þetta í et. > > > Bolungs-
Nú langar mig að fá enn frekari pælingar því annars verð ég að fá eitthvað við þráhyggjunni : )
Eygló, 12.9.2009 kl. 01:05
„Bolungarvík“ virðist vera 46 sinnum algengara á Netinu en „Bolungavík“ og „í Bolungarvík“ 23svar sinnum algengara en „á Bolungarvík“.
Bolung (bulung) - trjábolur, viðarbolur: Bolungarvík.
Bolung er kvenkynsorð, bolungar í eignarfalli eintölu (til bolungar) og nefnifalli fleirtölu (hér eru bolungar).
Hins vegar:
Bolungur - bulungur, haugur af brenni, viðarköstur.
Bulungur - buðlungur, stafli.
Buðlungur - bulungur, móhraukur, stafli af brenni eða timbri.
Sjá Íslenska orðabók Menningarsjóðs.
Þorsteinn Briem, 12.9.2009 kl. 02:36
Á Dalvík virðist vera 56 sinnum algengara á Netinu en í Dalvík, á Siglufirði ellefu sinnum algengara en í Siglufirði en í Ólafsfirði einungis tvisvar sinnum algengara en á Ólafsfirði.
Trúlega er því hæpið að réttara sé að segja í Ólafsfirði en á Ólafsfirði. Hvorutveggja virðist vera rétt.
„Bendir það til þess að fiskveiðar hafi skipað stærri sess á Ólafsfirði en annars staðar á Norðurlandi, og líklega verið svo fram eftir öldum.“
www.olafsfjörður.is
„Við hér í Ólafsfirði erum stolt af því hversu vel þessi úthlutun tókst.“
www.olafsfjörður.is
Þorsteinn Briem, 12.9.2009 kl. 03:21
Mbl.is í dag. Aðilar höfðu samband við Kaupás og lýstu yfir áhuga....... Nóatún er ekki í formlegu söluferli,........ Engin lát á aðilar, ferli..........
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 09:35
Einhvern tíma heyrði ég þá skýringu, að sagt væri á -vík, norðan og austan línu, sem dregin væri frá Hólmavík á Ströndum og til Víkur í Mýrdal. Sunnan og vestan línunnar væri sagt í -vik.
Sel ekki dýrara en ég keypti.
Spurning til áhugamann um málfar: Þýðit ÚT alltaf í vestur skv. máltilfinningu ykkar eða þýðir það niður að ströndinni, sama í hvaða átt farið er?
NH
NH (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 12:25
Hafði ekki hugmynd um að þetta væri kvenkynsorð. Skýrir allt : )
Eygló, 12.9.2009 kl. 12:53
.. ég amðist við því og þórri mámunasamur að í kvöldfréttum sagði m.a. „.. borgarbúar tóku höndum saman um að slá heimsmetið" að slá heimsmeit í að halda sem flestum flugrekum á lofti. Hefði mátt segja: settu sér það sameiginlega markmið.
Íþróttafréttamaður sagði um stjórnanda lansliðsins „.. undir hans stjórn litu sex sigrar dagsins ljós". Ja hérna.. bara eins og erfið fæðing !
Og að útv. morgunfréttum RUV: mikið um slysafréttir úr fjarlægum heimshornum. Ýtarlegar lögreglufréttir árla dags um helgar svo kallaðr fyllibyttufréttir.
Laugardagur 12. sept. kl. 0800: Frétt um bankahrunið og samstarf enskra/ ísl. lögregluyfirvalda, Seðlabankamál (úr Mbl.), frétt frá Íran (kjarnorkumál), efnahagsmál á Írlandi, málverkarán í Los Angeles, veður fréttir (stuttar). Lengd 4 mín. (engar fyllubyttufréttir í þetta sinn). Innihaldsríkt ?
bjarni dagur jónsson (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 13:29
Út getur merkt norður, gröfin snýr út og suður, en einnig vestur, úr Fljótshlíð út í Ölfus.
Út dalinn er frá dalsbotni til dalsmynnis, öfugt við inn eða fram dalinn.
Útsynningur er suðvestanvindur og öfugur útsynningur er vindur á norðaustan en skýjauppgangur í suðvestri.
Þorsteinn Briem, 12.9.2009 kl. 17:14
Útnorður er norðvestur. Vestnorræna ráðið heitir Útnorðurráðið á færeysku.
Eiður Svanberg Guðnason, 12.9.2009 kl. 17:50
Og útnyrðingur er norðvestanvindur.
Þorsteinn Briem, 12.9.2009 kl. 18:11
ég nenni ekki að setja mig inn í þetta út og suður mál, við hér í höllinni erum búin að taka nokkra hringi um það - en ég er algerlega sammála varðandi morgunþátt rásar 2 - ekkert nema rugl og leiðindi þar á dagskrá. þessi kvenmaður sem þar skemmtir sér og er öðrum til leiðinda ætti að vera heima hjá sér. kv d
doddý, 12.9.2009 kl. 19:58
Ég held að listi yfir í og á með nöfnum þéttbýlisstaða hérlendis gæti litið nokkurn veginn svona út:
Í Vík (í Mýrdal), Vestmannaeyjum, Þykkvabæ, Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík, Höfnum, Sandgerði, Garði, Keflavík, Njarðvík, Vogum (á Vatnsleysuströnd), Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Reykjavík, Mosfellsbæ, Borgarnesi, Reykholti, Ólafsvík, Stykkishólmi, Búðardal, Flatey (á Breiðafirði), Bolungarvík, Hnífsdal, Súðavík, Varmahlíð (í Skagafirði), Grímsey, Hrísey, Reykjahlíð (í Mývatnssveit), Fellabæ og í Mjóafirði.
Hins vegar á Kirkjubæjarklaustri, Hvolsvelli, Hellu, Selfossi, Flúðum, Laugarvatni, Stokkseyri, Eyrarbakka, Ásbrú (þar sem bandaríska Varnarliðið bjó á Miðnesheiði), Álftanesi, Seltjarnarnesi, Akranesi, Bifröst, Arnarstapa, Hellnum, Hellissandi, Reykhólum, Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafirði, Hólmavík, Drangsnesi, Borðeyri, Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki, Hólum (í Hjaltadal), Hofsósi og á Siglufirði.
Einnig á Dalvík, Árskógssandi, Hauganesi, Akureyri, Svalbarðseyri, Grenivík, Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn, Bakkafirði, Vopnafirði, Borgarfirði eystra (eystri), Egilsstöðum, Eiðum, Hallormsstað, Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Breiðdalsvík og á Djúpavogi.
Á þessum lista er því hægt að nota á með nöfnum allra þéttbýlisstaða frá Reykhólum að Djúpavogi, nema Bolungarvík, Hnífsdal, Súðavík, Varmahlíð, Grímsey, Hrísey, Reykjahlíð, Fellabæ og Mjóafirði.
Því virðist vera nærri tvisvar sinnum algengara að nota á en í með nöfnum þéttbýlisstaða hérlendis.
Í eða á Rifi (á Snæfellsnesi). Á Rifi er aðeins tvisvar sinnum algengara á Netinu en í Rifi.
Hellissandur.is - Húsin á Rifi
„Í Rifi var verslunarstaður til forna og allt fram á átjándu öld, fyrstu sagnir um verslun og skipakomur þar eru í Eyrbyggju.“
Hótel Hellissandur
Í eða á Grundarfirði. Á Netinu nær í Grundarfirði því ekki að vera tvisvar sinnum algengara en á Grundarfirði.
„Veðurfar í Grundarfirði er einnig óvenjulegt.“
Grundarfjörður.is
„Sjávarútvegur hér á norðanverðu Snæfellsnesi hefur orðið fyrir ýmsum skakkaföllum og við megum ekki til þess hugsa að hið sama gerist hér á Grundarfirði.“
Grein - Guðmundur Runólfsson hf.
Í eða á Ólafsfirði. Á Netinu er í Ólafsfirði aðeins tvisvar sinnum algengara en á Ólafsfirði.
„Bendir það til þess að fiskveiðar hafi skipað stærri sess á Ólafsfirði en annars staðar á Norðurlandi, og líklega verið svo fram eftir öldum.“
Ólafsfjörður.is
„Við hér í Ólafsfirði erum stolt af því hversu vel þessi úthlutun tókst.“
Ólafsfjörður.is
Í Hornafirði er fimm sinnum algengara á Netinu en á Hornafirði, en þó er hvorutveggja trúlega rétt.
„Það er því komin yfir áratuga reynsla af rekstri heilsugæslu, hjúkrunar- og öldrunarþjónustu hér í Hornafirði.“
Hjalti Þór Vignisson sem titlar sig sem bæjarstjóra á Hornafirði
„Nú styttist í að mótið Í formi verði haldið hér á Hornafirði.“
Hornafjörður.is
Þorsteinn Briem, 13.9.2009 kl. 10:34
Þú ert öflugur, Steini Briem!
Eiður Svanberg Guðnason, 13.9.2009 kl. 19:30
Mér finnst "nútíðar-nafnháttarsýkin" frekar erfið viðureignar, því að stundum sýnist mér hún eiga við. Sem dæmi segði maður: "Ég er að lesa", en ekki "Ég les", aðspurður að því hvað maður væri að gera. Þannig er eins og setningin "En þessi ríkisstjórnin er ekki að standa sig" gæti átt við að ríkisstjórnin stendur sig ekki vel núna, þótt bloggaranum finndist ef til vill að ríkisstjórnin hafi staðið sig vel áður.
Ég er bara ekki alveg að skilja þetta!
Rebekka, 14.9.2009 kl. 07:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.