2.9.2009 | 08:02
Molar um málfar og miðla CXL
Af Vefdv (01.09.2009): Yfirvöld höfðu ákveðið að jafna nokkrar hæðir og hóla til að geta byggt fleiri íbúðarhúsnæði í þorpinu."Við þessa setningu finnst Molaskrifara tvennt athugavert. Hið fyrra er að jafna nokkrar hæðir og hóla. Betra hefði verið að segja að slétta hæðótt landslag eða slétta úr hólum og hæðum. Hitt er verra : ..til að geta byggt fleiri íbúðarhúsnæði. Húsnæði er eintöluorð í íslensku. Það er ótækt að að tala um mörg húsnæði. Þarna hefði átt að segja, til dæmis: Til að geta byggt fleiri íbúðarhús, eða til að auka íbúðarhúsnæði.
Með örfárra daga millibili hefur Molaskrifari rekist á þessa ambögu í sama miðli, - Vefdv. : ..... þar sást bíll Árna Johnsens alþingismanns lagður beint fyrir utan Valhöll hjá kanti sem málaður er gulur." Við segjum hann lagði bílnum á bílastæði, ,- ekki: Hann lagði bílinn á bílastæði. Það fer ekki mikið fyrir máltilfinningunni hjá þeim sem svona skrifar. Þetta var í Vefdv (01.09.20009). Þessi sama ambaga var á Vefdv í fyrradag. Þar er greinilega einhver að skrifa fréttir sem skynjar engan mun á því að segja: Bíl var lagt eða bíll var lagður. Ótrúlegt.
Ekki get ég að því gert ,að mér finnst Ríkisútvarpið vera eins og áttavilltur unglingur á morgnana. Nú er búið að færa þáttinn Vítt og breitt á Rás eitt í kjölfar sjöfrétta. Morgunfrúarhjalið er horfið.Það er reyndar í góðu lagi. Á Rás tvö er á sama tíma Morgunvaktin sem er ekki svipur hjá sjón með nýjum umsjónarmönnum. Aulafliss á ekki heima í svona þætti. Nú eru tveir fréttatengdir þættir á sama tíma. Þessu ætti að breyta. Á annarri rásinni ætti að vera vandaður fréttatengdur þáttur, eins og Morgunvaktin sem áður var á Rás eitt og á hinni rásinni þáttur með notalegri tónlist, - þáttur sem tæki mið af því hve stór hluti hlustenda er fólk á miðjum aldri og eldra, en sá hluti hlustenda (eigenda) er ekki ofarlega á blaði í Eftsaleitinu.
Athugasemdir
Skilur einhver þessa frétt í mbl.is?
Pfizer semur við bandarísk stjórnvöld. ...............................................Bandaríska alríkisstjórnin höfðaði mál gegn Pfizer eftir að lyfjafyrirtækið auglýsti fjögur lyf, þar á meðal verkjalyfið Bextra, sem var fjarlægt af markaði árið 2005.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 16:35
Komdu sæll. Það er vel til fundið að vakandi séu sem víðast málfarsrýnendur og vil ég hér með þakka þér fyrir að takast sjálfviljugur á við það verk. Mig langar til að nota þennan vettvang og vekja athygli á notkun orðsins „mansal“ sem verið hefur í fréttunum í dag. Ég skil orðið svo að hér sé átt við nauðung kvenna en ekki, eins og skilja mætti af fréttinni, misnotkun fólks af báðum kynjum. Ég álít að orðið „man“ sé kvenkenning sbr. „Hið ljósa man“ úr Íslandsklukku Halldórs Laxness.
Gaman væri að fá álit málfarsglöggra um það.
Með kveðju
Guðmundur
Guðmundur Gunnarsson, 2.9.2009 kl. 16:52
Í fyrirsögn og fréttinni sjálfri á visi.is í dag segir:
"Benda á hvorn annan vegna hjartveiku barnanna".
Ekki teysti ég mér til að færa málfræðileg rök fyrir því en mín málvitund segir mér að þarna sé eðlilegra og líka miklu fallegra að segja:
"Benda hvor á annan vegna hjartveiku barnanna".
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 17:38
Ef áfram heldur sem horfir, má búast við því að erlendar fréttir fjölmiðlanna muni líta út svipað því sem eftirfarandi dæmi sýnir (þýðing á erlendum texta með: "Google translate -- http://www.translate.google.com/ "
Texti erlendrar fréttar (BBC) sem Google var látinn snúa yfir á Íslensku:
"A suicide bomb attack east of Kabul kills Afghanistan's deputy chief of intelligence and at least 22 other people, officials say."
Og árangur þýðingarinnar:
"A sprengja sjálfsvíg árás austan við Kabúl drepur staðgengill höfðingi í Afganistan á upplýsingaöflun og að minnsta kosti 22 aðrir, segja embættismenn."
Ofanrituð þýðingar"aðferð" smitast svo smátt og smátt yfir á Íslensku fréttirnar, þetta smit er raunar fyrir löngu að því er virðist, komið inn í höfuð margra fréttaritara, hvort heldur þeir hafa nálgast fréttaefni erlendis frá eða hér heima.
Steingrímur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 20:22
Sammála þér, Bergur. Varðandi það sem Guðmundur segir um mansal , þá er það í íslenskri orðabók sagt merkja ófrjáls, ánuðugur maður, eða ambátt. Í orðabók Blöndals er mansal þýtt slavehandel, þrælaverslun þannig að þetta virðist eiga við um jafnt karla sem konur.Ég viðurkenni að hafa í huganum frekar tengt þetta orð við konur en karla.
Eiður Svanberg Guðnason, 2.9.2009 kl. 21:59
Hef líka stundum velt fyrir mér: man - mansöngur og svo nú seinna: mansal.
Ennþá truflar þetta mig svolítið. Tilfinningin er að man sé ambátt, mansal sé þrælasala og því um líkt.
Út frá þessu get ég ekki tengt mansönginn. Mér hefur alltaf fundist það ástarsöngur til KONU. Fæ ég vísbendingu?
Annað, úr allt annarri átt þótt hljómi svipað. Ég hef étið innan úr kinnunum á mér þegar ég heyri fólk, líka fjölmiðlafólk, tala um að einhver sé 'einmanna'. Verstur fjárinn að festa þetta með að brenna á plötur og diska - með því að skila þessu svona í söngtexta. Og það er ekki einsdæmi.
Eygló, 3.9.2009 kl. 02:49
Steingrímur Kristinsson skrifar:
„Ef áfram heldur sem horfir“ ---> leiðrétt: Ef fram heldur sem horfir
„smitast svo smátt og smátt yfir á Íslensku fréttirnar“ ---> leiðrétt: smitast svo smátt og smátt yfir á íslensku fréttirnar
Ég held að íslensk tunga sé ekki síður í hættu, vegna heimskra bloggara, sem oft tíðum eru rithaltir með eindæmum.
Ólafur (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 21:26
Man getur merkt annars vegar ánauðugur karl eða kona og hins vegar mær.
Þegar um mansal er að ræða geta því bæði karlar og konur gengið kaupum og sölum, rétt eins og þegar við tölum um þrælasölu.
Hið ljósa man merkir að mínu mati mun frekar Hin ljósa ambátt, frekar en Hin ljósa mær, enda er Snæfríður Íslandssól í rauninni ambátt, gift manni sem er sama um hana. Þess vegna getur hún verið sjálf Fjallkonan í ánauð og þar með Ísland í ástlausu dönsku hjónabandi.
Jón Hreggviðsson er hins vegar hinn svarti þræll, íslenskur almúgamaður og því hinn venjulegi Íslendingur, sauðsvartur almúginn.
„Einusinni var dauðadæmdur maður á Þíngvöllum við Öxará. Að morgni verðurðu höggvinn. Ég lýk upp augunum og hún stendur yfir mér hvít, í gulli, og ekki nema spönn yfrum lífið, með þessi bláu augu og ég svartur. Hún ríkir yfir nóttinni og leysir þig. Hún er og verður sú sanna drotníng alls Norðurheims og hið ljósa man með huldukroppinn eins þótt hún sé svikin; og ég svartur.“
„Mansöngur er ástarsöngur til konu [...] Mansöngur í kveðskap er ortur undir kvæðum hætti, það er rímnahætti, og er nær alltaf formáli rímu í rímnaflokki. Þar yrkir höfundur, venjulega karlkyns, um konu sem hann hefur lagt ást á og saknar mjög. Þess vegna eru mansöngvar oft tregafullir, en þeir breyttust síðar og fjölluðu þá stundum um önnur efni, eins og til dæmis um ættjarðarást höfundanna.“
Mansöngur
Halldór Laxness
Þorsteinn Briem, 5.9.2009 kl. 04:59
Man, mansal og mansöngur sjá Íslenska orðabók Menningarsjóðs.
Þorsteinn Briem, 5.9.2009 kl. 05:33
Fínt þetta Steini
Eygló, 6.9.2009 kl. 00:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.